Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2007.  Útgáfa 134.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir

1998 nr. 7 12. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 24. mars 1998. Breytt með l. 59/1999 (tóku gildi 30. mars 1999), l. 87/2001 (tóku gildi 15. júní 2001), l. 90/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003), l. 98/2002 (tóku gildi 31. maí 2002), l. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003), l. 150/2004 (tóku gildi 30. des. 2004), l. 125/2005 (tóku gildi 30. des. 2005) og l. 20/2006 (taka gildi 1. nóv. 2007).


I. kafli. Markmið, skilgreiningar og framkvæmd.
1. gr. Markmið þessara laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.
2. gr. Lögin taka til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, í lofthelgi, efnahagslögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, sem hafa eða geta haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr., að svo miklu leyti sem önnur lög taka ekki til þeirra.
3. gr. Hollustuhættir og mengunarvarnir taka í lögum þessum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.
[ Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.] 1)
Mengunarvarnaeftirlit tekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna.
Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Með bestu fáanlegri tækni er átt við framleiðsluaðferð og tækjakost sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
Eftirlit merkir athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
Faggilding merkir aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni. Um faggildingu fer samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
Rannsóknir (prófanir) felast í greiningu sýna vegna eftirlits, eftirlitsverkefna, vöktunar og annarra þjónusturannsókna eða fyrirbyggjandi aðgerða á sviði hollustuhátta og mengunarvarna.
Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
[ Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.
Skýrsla um grænt bókhald merkir niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert bókhaldstímabil þess.] 2)
    1)L. 98/2002, 1. gr. 2)L. 87/2001, 1. gr.
4. gr. [Til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setur ráðherra í reglugerð 1) almenn ákvæði um:
    1. útgáfu og efni starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem fellur undir þessa grein,
    2. umgengni og þrifnað utan húss,
    3. meindýravarnir og eyðingu meindýra,
    4. hreinsun hunda, m.a. vegna sullaveiki, katta og annarra gæludýra,
    5. þátttöku heilbrigðisnefnda í öryggismálum og sóttvörnum og framkvæmd þeirra,
    6. töku sýna og úrvinnslu þeirra,
    7. viðmiðanir fyrir eðlis-, efna- og örverufræðilega þætti,
    8. íbúðarhúsnæði,
    9. starfsmannabústaði og starfsmannabúðir,
    10. gistihús, matsöluhús og aðra veitingastaði, fjallaskála, frístundahúsasvæði, tjald- og hjólhýsasvæði,
    11. skóla og aðra kennslustaði,
    12. rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur, húðflúrsstofur og hvers konar aðrar snyrtistofur og stofur þar sem fram fer húðgötun og húðrof,
    13. leikskóla, leikvelli, daggæslu í heimahúsum og önnur heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga, 2)
    14. heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili og meðferðar- og vistunarstofnanir og stofnanir fyrir fatlaða,
    15. íþróttastöðvar, íþróttasvæði, íþróttahús, almenningssalerni, sundstaði, baðhús, gufubaðsstofur, sólbaðsstofur og almenna baðstaði, baðvatn og þess háttar, 3)
    16. fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna,
    17. samkomustaði og samkomuhús, þar á meðal kirkjur og söfn,
    18. samgöngumiðstöðvar, farþegaskip, almenningsbifreiðar, farþegaflugvélar og þess háttar,
    19. verslunarmiðstöðvar,
    20. verslanir sem selja vörur er innihalda fegrunar- og snyrtiefni, hættuleg efni og eiturefni,
    21. dýraspítala, dýralæknastofur, dýrasnyrtistofur, dýrasýningar, dýragæslustaði, gæludýraverslanir, hestaleigur og reiðskóla,
    22. garðaúðun,
    23. önnur sambærileg atriði. 4)] 5)
    1)Rg. 471/1999. Rg. 941/2002 (um hollustuhætti), sbr. 674/2005 og 242/2007. Rg. 331/2005. 2)Rg. 942/2002, sbr. 492/2003, 986/2004 og 607/2005. 3)Rg. 457/1998. 4)Rg. 522/1994, sbr. 191/1999, 842/2004 og 991/2006. Rg. 289/1994, sbr. 562/1995 og 493/1998. Rg. 446/1994, sbr. 467/2000. Rg. 390/1995, sbr. 692/1998. Rg. 736/2003, sbr. 860/2003, 410/2004, 920/2004, 563/2005, 198/2006 og 236/2007. Rg. 331/2005. 5)L. 98/2002, 2. gr.
[4. gr. a. Stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali III með lögum þessum skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn [Umhverfisstofnunar] 1) og viðkomandi heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Rekstraraðila ber að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Heilbrigðisnefnd er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um framkvæmd hollustuverndar.
Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.] 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 98/2002, 3. gr.
5. gr. Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits setur ráðherra í reglugerð 1) almenn ákvæði um:
    1. starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, þar á meðal ákvæði um staðsetningu, viðmiðunarmörk, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar; krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því, 2)
    2. endurskoðun starfsleyfa vegna verulegra breytinga á atvinnurekstri eða vegna tækniþróunar,
    3. áhættumat fyrir atvinnurekstur þar sem hætta er á stórslysum vegna aðferða og efna sem notuð eru við starfsemina og endurskoðun áhættumats, svo og upplýsingar sem ábyrgðaraðilum atvinnurekstrar er skylt að láta í té beri slys að höndum, 3)
    4. eftirlit, skráningu og tilkynningarskyldu, 4)
    5. umhverfisstjórn, vöktun og eftirlitskerfi fyrirtækja, svo og viðurkenningu, úttekt og eftirlit með slíkum kerfum, 5)
    6. umhverfismerki á vörur, m.a. um veitingu þeirra og gjaldtöku, 6)
    7. eftirlit með flutningi úrgangs milli landa og tilkynningarskyldu þeirra sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang,
    8. úttekt á hugsanlegri mengunarhættu,
    9. meðferð vatns og sjávar í atvinnurekstri þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna,
    10. úrgangsefni, svo sem eyðingu sorps og annars úrgangs, 7)
    11. fráveitur og skolp þar sem m.a. skulu koma fram reglur um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk í fráveitum og viðtaka, 8)
    12. varnir gegn vatnsmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir mengandi efni og/eða gæðamarkmið fyrir grunnvatn og yfirborðsvatn, 9)
    13. varnir gegn loftmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, mengandi efni og losun þeirra út í andrúmsloftið, 10)
    14. varnir gegn jarðvegsmengun og viðmiðunarmörk fyrir jarðveg og mengandi efni,
    15. hávaða og titring þar sem fram koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfi, 11)
    16. varmamengun þar sem fram skulu koma reglur um takmörkun hennar,
    [17. færslu græns bókhalds, form og framsetningu skýrslna um grænt bókhald, upplýsingar sem þar skulu koma fram, skilafresti á skýrslum um grænt bókhald, aðila sem heimilt er að skila grænu bókhaldi án þess að þeim sé það skylt og endurskoðun þess og birtingu], 12) 13)
    [18. ] 12) önnur sambærileg atriði. 14)
    1)Rg. 786/1999 (um mengunarvarnaeftirlit), sbr. 850/2000, 49/2001, 106/2004 og 1005/2006. Rg. 224/2005 (um gildistöku EES-gerða um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og frá Evrópubandalaginu). 2)Rg. 785/1999, sjá augl. 582/2000, sbr. rg. 849/2000, 48/2001, 105/2004 og 1006/2006. 3)Rg. 275/2002, rg. 276/2002. 4)Rg. 815/1998 (um tilkynningaskyldu varðandi ný efni), sbr. 333/2001. Rg. 184/2002 (um skrá yfir spilliefni og annan úrgang), sbr. 428/2003. Rg. 322/2002 (um útstreymisbókhald). Rg. 586/2002 (um efni sem eyða ósonlaginu), sbr. 659/2002, 586/2005 og 139/2006. 5)Rg. 990/2005 (um frjálsa þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi bandalagsins (EMAS)). 6)Rg. 525/2006 (um umhverfismerki). 7)Rg. 609/1996 (um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs), sbr. 682/1999 og 562/2005. Rg. 795/1999 (um úrgang frá títandíoxíðiðnaði). Rg. 799/1999 (um meðhöndlun seyru). Rg. 806/1999 (um spilliefni), sbr. 169/2002. Rg. 809/1999 (um olíuúrgang). Rg. 860/2000 (um amalgammengað vatn og úrgang frá tannlæknastofum). Rg. 737/2003 (um meðhöndlun úrgangs). Rg. 739/2003 (um brennslu úrgangs). 8)Rg. 798/1999 (um fráveitur og skólp). 9)Rg. 796/1999 (um varnir gegn mengun vatns), sbr. 533/2001 og 913/2003. Rg. 797/1999 (um varnir gegn mengun grunnvatns). Rg. 800/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri í yfirborðsvatn). Rg. 801/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri í yfirborðsvatn frá atvinnurekstri sem stundar rafgreiningu alkalíklóríða). Rg. 802/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kadmíum í yfirborðsvatn). Rg. 803/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á hexaklórsýklóhexani (HCH) í yfirborðsvatn) Rg. 804/1999 (um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri), sbr. 592/2001. Rg. 536/2001 (um neysluvatn). 10)Rg. 230/1998 (um efni sem stuðla að gróðurhúsaáhrifum), sbr. 888/2002. Rg. 252/1999. Rg. 787/1999 (um loftgæði). Rg. 788/1999 (um varnir gegn loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna). Rg. 251/2002 (um brennisteinsdíoxíð og fleiri efni í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings), sbr. 288/2002. Rg. 255/2002 (um takmörkun á útstreymi rokgjarnra lífrænna efna), sbr. 1024/2005. Rg. 817/2002 (um mörk fyrir fallryk úr andrúmslofti). Rg. 745/2003 (um styrk ósons við yfirborð jarðar). 11)Rg. 933/1999 (um hávaða), sbr. 478/2003. Rg. 1000/2005 (um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir). 12)L. 87/2001, 2. gr. 13)Rg. 851/2002 (um grænt bókhald). 14)Rg. 236/1990 (um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni), sbr. 348/1990, 664/1997, 459/1998, 460/1998, 639/1998, 77/1999, 150/1999, 548/1999, 754/1999, 613/2000, 921/2000, 380/2001, 197/2002, 579/2002, 442/2004 og 995/2006. Rg. 323/1998 (PCB, PCT o.fl. efni). Rg. 615/1999 (um takmörkun á markaðssetningu lampaolíu o.fl.). Rg. 857/1999 (um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna), sbr. 623/2000 og 483/2002. Rg. 946/1999 (um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum). Rg. 155/2000 (um öryggislok og áþreifanlega viðvörun), sbr. 354/2002. Rg. 196/2000 (um takmörkun á framleiðslu, innflutningi og dreifingu leikfanga og hluta sem í eru þalöt). Rg. 419/2000 (um notkun og bann við notkun tiltekinna efna við meðhöndlun á textílvörum). Rg. 619/2000 (um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru kvikasilfurssambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd), sbr. 878/2002. Rg. 870/2000 (um takmarkanir á innflutningi, notkun og meðhöndlun asbests). Augl. 940/2000 (um gildistöku EES-reglugerða um inn- og útflutning tiltekinna hættulegra efna). Rg. 751/2002 (um tilteknar epoxý afleiður til notkunar í efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli), sbr. 924/2004. Rg. 111/2003 (um efni og hluti úr plasti sem er ætlað að snerta matvæli), sbr. 504/2005. Rg. 396/2003 (um takmörkun efna í vélknúnum ökutækjum). Rg. 635/2003 (um takmörkun á notkun stuttkeðju klórparaffína). Rg. 828/2003 (um hollustuhætti og mengunarvarnir á varnarsvæðum). Rg. 405/2004 (um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn), sbr. 1097/2004. Rg. 411/2004 (um ýmis aðskotaefni í matvælum), sbr. 56/2005. Rg. 624/2004 (um fæðubótarefni), sbr. 684/2005. Rg. 697/2004 (um takmörkun tiltekinna efna í raftækjum), sbr. 545/2006. Rg. 728/2004 (um fljótandi eldsneyti), sbr. 1154/2005. Rg. 921/2004 (um efni og hluti úr sellulósafilmu sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 1101/2004 (um markaðssetningu sæfiefna), sbr. 243/2007. Rg. 331/2005 (um kjöt og kjötvörur). Rg. 439/2005 (um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum). Rg. 508/2005 (um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum). Rg. 681/2005 (um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um merkingu matvæla og innihaldsefna matvæla með viðbættum jurtasterólum, jurtasterólestrum, jurtastanólum og/eða jurtastanólestrum).
[5. gr. a. Allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun skal hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Ráðherra er heimilt, ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn [Umhverfisstofnunar] 1) og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi.
Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir.
Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því.] 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 98/2002, 4. gr.
6. gr. [Umhverfisstofnun] 1) gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun og talinn er upp í fylgiskjali með lögum þessum.
Heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun og ekki er talinn upp í fylgiskjali, sbr. 1. mgr., eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð.
[Umhverfisstofnun] 1) skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur [Umhverfisstofnunar] 1) innan átta vikna frá auglýsingu.
[Umhverfisstofnun] 1) skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um afgreiðsluna.
Auglýsa skal í B-deild Stjórnartíðinda útgáfu og gildistöku starfsleyfa sem [Umhverfisstofnun] 1) gefur út.
    1)L. 164/2002, 14. gr.
[6. gr. a. Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. og nánar greinir í fylgiskjali II með lögum þessum.
Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, þ.m.t. tölulegar upplýsingar um meginnotkun hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og helstu tegundir og magn mengandi efna sem losuð eru í loft, láð eða lög, koma fram í framleiðsluvöru eða falla til sem úrgangur. Ekki er þó skylt að setja í skýrslu um grænt bókhald upplýsingar sem starfsleyfishafi telur vera framleiðsluleyndarmál, enda séu slík atriði tilgreind og ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu útgefanda starfsleyfis.
Starfsleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.
Senda skal útgefanda starfsleyfis árlega skýrslu um grænt bókhald. Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrsla um grænt bókhald fullnægi þeim formkröfum sem gerðar eru til skýrslna um grænt bókhald. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún því næst senda skýrsluna áfram til [Umhverfisstofnunar]. 1)
[Umhverfisstofnun] 1) annast birtingu skýrslna um grænt bókhald og gerð leiðbeininga um grænt bókhald. Birting skýrslu um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu [Umhverfisstofnunar] 1) á þeim upplýsingum sem þar koma fram.] 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 87/2001, 3. gr.
7. gr. Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða [Umhverfisstofnunar], 1) veitt undanþágu frá einstökum greinum reglugerða sem settar eru skv. 4. og 5. gr.
Ráðherra setur almenn ákvæði í reglugerð um valdsvið, skyldur og starfstilhögun heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa, þar með talið um þátttöku í eftirlits-, rannsóknar- og vöktunarverkefnum.
    1)L. 164/2002, 14. gr.
[7. gr. a. Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða [Umhverfisstofnunar], 1) veitt undanþágu frá skyldu um færslu græns bókhalds skv. 6. gr. a.] 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 87/2001, 4. gr.
8. gr. Sveitarstjórnir, byggingarnefndir og önnur yfirvöld sveitarfélaganna, sem og ríkisstofnanir, skulu leita álits heilbrigðisnefndar um hvers konar ráðstafanir vegna framkvæmda sem lög þessi taka til.
[8. gr. a. Sveitarfélögum er heimilt að leggja fráveitur, þ.e. leiðslukerfi og búnað til meðhöndlunar á skolpi. Eigendum fasteigna er skylt á sinn kostnað að annast lagningu leiðslna fyrir skolp að lóðarmörkum. Sveitarfélögum er heimilt að leggja gjald á fasteignir til þess að standa straum af kostnaði við að leggja og reka fráveitur. Gjald, sem kveðið skal á um í gjaldskrá, sbr. 5. mgr. 25. gr., getur tekið mið af flatarmáli húss eða lóðar eða fasteignamati og hvoru tveggja. Í gjaldskrá er einnig hægt að kveða á um sérstakt gjald fyrir tengingu við fráveitu.
Sérstaka ívilnun má veita ef lóð er svo háttað að erfiðara er að koma skolpi eða afrennsli frá henni í holræsi en frá öðrum lóðum yfirleitt og sérstakt aukagjald má á leggja ef skolp frá einhverri lóð er svo á sig komið að telja má meiri útgjöld stafa eða munu stafa af því en öðru skolpi.
Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.] 1)
    1)L. 20/2006, 43. gr. Greinin tekur gildi 1. nóv. 2007, sbr. 42. gr. s.l.

II. kafli. Stjórn, skipan og starfsmenn.
9. gr. Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum nr. 106/1954 og skal hann semja við þar til bæra aðila samkvæmt mati [Umhverfisstofnunar] 1) um framkvæmd eftirlits á varnarsvæðum. Utanríkisráðherra skal hafa samráð við umhverfisráðherra um alla framkvæmd eftirlits á varnarsvæðum og gilda lög þessi eftir því sem við á.
Landlæknir er ráðgjafi ráðherra um það er að lögum þessum lýtur og undir embætti hans fellur.
Við setningu reglugerða samkvæmt lögum þessum skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði er varða skyldur sveitarfélaga.
    1)L. 164/2002, 14. gr.
10. gr. Ekkert sveitarfélag skal vera án heilbrigðiseftirlits og greiða sveitarfélögin kostnað við eftirlitið að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg.
11. gr. [Landið skiptist í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, starfa á hverju svæði. Í hverri nefnd skulu eiga sæti sex menn, fimm kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður, og einn tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni. Náttúruverndarnefndir sveitarfélaga á eftirlitssvæðinu eiga rétt á að tilnefna einn fulltrúa í nefndina til viðbótar en hann hefur ekki atkvæðisrétt við afgreiðslu mála í nefndinni. Sömu reglur gilda um varamenn.] 1)
Eftirlitssvæði skv. 1. mgr. eru:
    1. Reykjavíkursvæði.
Starfssvæði: Reykjavíkurborg.
    2. Vesturlandssvæði.
Starfssvæði: Vesturlandskjördæmi.
    3. Vestfjarðasvæði.
Starfssvæði: Vestfjarðakjördæmi.
    4. Norðurlandssvæði vestra.
Starfssvæði: Norðurlandskjördæmi vestra.
    5. Norðurlandssvæði eystra.
Starfssvæði: Norðurlandskjördæmi eystra.
    6. Austurlandssvæði.
Starfssvæði: Austurlandskjördæmi.
    7. Suðurlandssvæði.
Starfssvæði: Suðurlandskjördæmi.
    8. Suðurnesjasvæði.
Starfssvæði: Reykjanesbær, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Gerðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.
    9. Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði.
Starfssvæði: Hafnarfjarðarkaupstaður, Bessastaðahreppur, Garðabær og Kópavogsbær.
    10. Kjósarsvæði.
Starfssvæði: Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
Umhverfisráðherra getur í reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn [Umhverfisstofnunar], 2) kveðið á um sameiningu eftirlitssvæða.
Heimilt er heilbrigðisnefndum að gera samkomulag um annað fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits á milli eftirlitssvæða. Í slíkum tilvikum hafa heilbrigðisfulltrúar sama rétt til afskipta þar og á eigin svæði.
    1)L. 59/1999, 1. gr. 2)L. 164/2002, 14. gr.
12. gr. Heilbrigðisnefndir skulu fyrir 1. nóvember ár hvert gera fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár þar á eftir, innan fjárhagsramma sem sveitarfélög setja, og senda hana til viðkomandi sveitarfélaga til umfjöllunar og afgreiðslu. Sveitarfélög bera ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Þau hafa umsjón með fjármálum þess, skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga og álagningu eftirlitsgjalda. Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Sá kostnaður sem eftirlitsgjöld standa ekki undir greiðist af sveitarfélögunum í samræmi við íbúafjölda næstliðins árs.
Náist ekki samkomulag milli sveitarfélaga innan eftirlitssvæðis um hvaða sveitarfélag annist fjárreiður fyrir heilbrigðiseftirlitið skal umhverfisráðherra úrskurða hvert þeirra skuli annast fjárreiðurnar að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarfélaga.
[Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar … 1) áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Heimilt er utanríkisráðherra að setja gjaldskrá og innheimta gjald á varnarsvæðum. Umhverfisráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga.] 2)
    1)L. 150/2004, 1. gr. 2)L. 59/1999, 2. gr.
13. gr. Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum.
14. gr. Heilbrigðisnefnd skiptir með sér verkum og ræður meiri hluti atkvæða afgreiðslu máls. Telst afgreiðsla fullnægjandi séu þrír atkvæðisbærra nefndarmanna viðstaddir. Um vanhæfi nefndarmanna til afgreiðslu mála gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga.
Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits eða heilbrigðisfulltrúi í umboði hans skal sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti. Hann getur krafist þess að fundir verði haldnir og að tekin verði þar fyrir tiltekin mál.
Fulltrúar [Umhverfisstofnunar] 1) eiga rétt til setu á fundum heilbrigðisnefnda með tillögurétti og málfrelsi.
[Yfirlæknir heilsugæslu á viðkomandi eftirlitssvæði, tilnefndur af landlækni], 2) skal vera ráðgjafi og heilbrigðisnefndum til aðstoðar um heilbrigðisþjónustu. [Yfirlæknir heilsugæslu] 2) á seturétt á fundum heilbrigðisnefndar með málfrelsi og tillögurétti. [Yfirlæknir heilsugæslu] 2) getur krafist þess að haldinn verði fundur í heilbrigðisnefnd.
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 98/2002, 5. gr.
15. gr. Heilbrigðisnefndir á hverju eftirlitssvæði ráða heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Starfi einungis einn heilbrigðisfulltrúi á eftirlitssvæði skal hann jafnframt vera framkvæmdastjóri eftirlitsins. Ef heilbrigðisfulltrúarnir eru tveir eða fleiri skal einn úr hópi þeirra jafnframt ráðinn framkvæmdastjóri eftirlitsins. [Starfi að minnsta kosti fimm heilbrigðisfulltrúar á viðkomandi eftirlitssvæði í fullu starfi er heimilt að víkja frá því skilyrði að framkvæmdastjóri hafi réttindi sem heilbrigðisfulltrúi, enda sé hann í fullu starfi sem framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og hafi, auk háskólaprófs, staðgóða þekkingu á heilbrigðiseftirliti.] 1) Sveitarstjórnir setja þeim starfslýsingar að fengnum tillögum heilbrigðisnefndar og ákveða í samráði við heilbrigðisnefnd aðsetur þeirra. Eingöngu má ráða í starf heilbrigðisfulltrúa þá sem fengið hafa leyfi umhverfisráðherra til starfans. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar.
Umhverfisráðherra setur reglugerð 2) um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa.
    1)L. 87/2001, 5. gr. 2)Rg. 571/2002.
16. gr. Þeir sem starfa samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Upplýsingar og tilkynningar heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu. Sama gildir um aðra sem starfa samkvæmt lögum þessum.
17. gr.1)
    1)L. 150/2004, 2. gr.

III. kafli. [Umhverfisstofnun.]1)
    1)L. 164/2002, 14. gr.
18. gr. [Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og er stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falla.] 1)
Stofnunin hefur yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skal sjá um vöktun og að rannsóknir þessu tengdar séu framkvæmdar. Í yfirumsjón felst samræming heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu.
Stofnunin fer því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða og við heilbrigðisnefndir þegar um einstök svæði er að ræða. Öll starfsemi stofnunarinnar, sem er í samkeppnisrekstri, skal vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi hennar. Undir þetta fellur m.a. sala á þjónustu, ráðgjöf, rannsóknum og prófunum og hvers konar eftirlitsstarfsemi sem þar kann að vera stunduð.
Stofnunin skal sjá um gerð fræðsluefnis og upplýsa og fræða þá er starfa að heilbrigðiseftirliti.
    1)L. 164/2002, 15. gr.
19. gr. [Umhverfisstofnun] 1) skal vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlits í landinu og koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði heilbrigðiseftirlits og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að þessu markmiði gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina [sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja]. 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 98/2002, 6. gr.
20. gr.1)
    1)L. 90/2002, 4. gr.
21. gr. Ráðherra setur, að fengnum tillögum [Umhverfisstofnunar], 1) gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér, sbr. 18. gr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.
    1)L. 164/2002, 14. gr.

IV. kafli. Faggilding og innra eftirlit.
22. gr. Ráðherra getur, að höfðu samráði við [Umhverfisstofnun], 1) ákveðið með reglugerð að stofnunin skuli hljóta faggildingu vegna rannsóknar á vegum stofnunarinnar. Ráðherra er jafnframt heimilt að ákveða með reglugerð, að höfðu samráði við [Umhverfisstofnun], 1) að starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga skuli hljóta faggildingu vegna rannsóknar og eftirlits og þá hvernig að henni skuli staðið. Um faggildingu fer samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
    1)L. 164/2002, 14. gr.
23. gr. [Ráðherra ákveður í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit í fyrirtækjum sem eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum þessum. Heimilt er ráðherra að kveða þar á um að innra eftirlit skuli að hluta eða í heild sæta úttekt faggilts aðila. Þar skal einnig m.a. kveðið á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlitið beinist að.] 1)
    1)L. 125/2005, 1. gr.
24. gr. Heilbrigðisnefndum og [Umhverfisstofnun] 1) er heimilt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila, sbr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Heimild til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar og annað sem greint er frá í VI. kafla er þó eingöngu í höndum heilbrigðisnefndar eða [Umhverfisstofnunar] 1) eftir því sem við á.
    1)L. 164/2002, 14. gr.

V. kafli. Samþykktir sveitarfélaganna.
25. gr.1) [Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
    1. bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
    2. meðferð úrgangs og skolps,
    3. gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu,
    4. ábyrgðartryggingar.
Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða nýmæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar [Umhverfisstofnunar] 2) áður en hann staðfestir samþykktina.
Synji ráðherra staðfestingar endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leiðbeiningum um hvað þurfi til að til staðfestingar komi.
Samþykktir samkvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.
Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi, leiga eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.] 3)
    1)Greininni var breytt með l. 20/2006, 43. gr. Breytingin tekur gildi 1. nóv. 2007, sbr. 42. gr. s.l. 2)L. 164/2002, 14. gr. 3)L. 59/1999, 3. gr.

VI. kafli. Valdsvið og þvingunarúrræði.
26. gr. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum:
    1. veitt áminningu,
    2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
    3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra.
Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs.
Þar sem innsiglun er beitt við stöðvun skal nota sérstök innsigli er auðkenni viðkomandi eftirlitssvæði heilbrigðisfulltrúa.
27. gr. Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits og skal hámark þeirra ákveðið í reglugerð 1) sem ráðherra setur. Jafnframt er heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi.
Þegar verk það sem heilbrigðisnefnd lætur vinna er komið til vegna vanhirðu og óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.
    1)Rg. 786/1999.
28. gr. Heilbrigðisnefndum og heilbrigðisfulltrúum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglugerðir og samþykktir ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sama gildir um starfsmenn [Umhverfisstofnunar] 1) þegar um er að ræða starfsemi sem stofnunin hefur eftirlit með.
Fulltrúum [Umhverfisstofnunar] 1) er heimilt í samráði við heilbrigðisnefndir að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sveitarfélaga ná til. [Í þeim tilvikum þar sem [Umhverfisstofnun] 1) fer með eftirlit fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við þennan kafla laganna.] 2)
Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 87/2001, 7. gr.
29. gr. Telji [Umhverfisstofnun] 1) svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir, en tilkynna skal það hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.
[Umhverfisstofnun] 1) skal sjá um samhæfingu aðgerða þegar upp koma bráð eða alvarleg mengunarslys, matarsýkingar eða önnur vá svipaðs eðlis. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga skal þegar í stað tilkynna [Umhverfisstofnun] 1) um slík mál og skal stofnunin að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisnefnd taka ákvörðun um nauðsynlegar ráðstafanir.
    1)L. 164/2002, 14. gr.
30. gr. Við meðferð mála samkvæmt þessum kafla skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.

VII. kafli. Málsmeðferð og úrskurðir.
31. gr. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar. Þetta gildir þó ekki í þeim tilvikum þegar umhverfisráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða þegar ágreiningur rís vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæðum 6. gr.
Í úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. eiga sæti þrír lögfræðingar sem uppfylla skulu starfsgengisskilyrði héraðsdómara, formaður tilnefndur af Hæstarétti, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn.
Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að henni berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en átta vikur.
Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar.
32. gr. Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Sama gildir um ágreining milli [Umhverfisstofnunar] 1) og heilbrigðisnefnda um framkvæmd laganna.
Ákvarðanir [Umhverfisstofnunar] 1) og heilbrigðisnefnda um útgáfu starfsleyfa skv. 6. gr. má kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun [Umhverfisstofnunar] 1) eða heilbrigðisnefnda.
Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að honum berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en átta vikur.
    1)L. 164/2002, 14. gr.

VIII. kafli. Viðurlög.
33. gr. Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
34. gr. Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
Mál út af brotum gegn lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum sveitarfélaga skulu sæta meðferð opinberra mála.

IX. kafli. Gildistaka.
35. gr. Lögin öðlast þegar gildi. …

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
II. Þær reglugerðir, sem í gildi eru samkvæmt lögum nr. 81/1988, með áorðnum breytingum, skulu halda gildi sínu þar til þeim hefur verið breytt, að svo miklu leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði þessara laga.
III. Þrátt fyrir breytingar á eftirlitsstarfsemi Hollustuverndar ríkisins 1) varðandi innflutningseftirlit með matvælum og eiturefnum skal starfsemin haldast óbreytt þar til reglugerð hefur verið sett sem kveður á um eftirlitshlutverk aðila.
    1)Nú Umhverfisstofnunar, sbr. l. 164/2002, 14. gr.
IV. [Fyrsta bókhaldsár græns bókhalds skal vera árið 2003.
Ráðherra getur með reglugerð heimilað [Umhverfisstofnun] 1) að semja við starfsleyfishafa sem skuldbinda sig til að taka upp viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi um frest til að taka upp grænt bókhald. Fyrsta bókhaldsár skal þó eigi verða síðar en árið 2006.] 2)
    1)L. 164/2002, 14. gr. 2)L. 87/2001, 8. gr.
[V. Allar olíubirgðastöðvar sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu hafa gilt starfsleyfi eigi síðar en 31. desember 2005.] 1)
    1)L. 98/2002, 7. gr.

Fylgiskjal I.
   … 1)
    1)Um efni fylgiskjals sem geymir lista yfir atvinnurekstur sem Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun, sbr. l. 164/2002, 14. gr.) veitir starfsleyfi fyrir vísast til Stjtíð. A 1998, bls. 35. Breytt með l. 98/2002, 8. gr., sbr. Stjtíð. A 2002, bls. 286.

[Fylgiskjal II.
   …] 1)
    1)L. 87/2001, 9. gr. Um efni fylgiskjalsins, sem geymir lista yfir starfsemi sem færa skal grænt bókhald, vísast til Stjtíð. A 2001, bls. 172–174.

[Fylgiskjal III.
   …] 1)
    1)L. 98/2002, 9. gr. Um efni fylgiskjalsins, sem geymir lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi skv. 4. gr. a, vísast til Stjtíð. A 2002, bls. 286.