Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum

1984 nr. 13 17. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1984. Breytt með: L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 15/2000 (tóku gildi 28. apríl 2000). L. 45/2001 (tóku gildi 13. júní 2001). L. 71/2006 (tóku gildi 30. júní 2006). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 12/2010 (tóku gildi 16. okt. 2012 skv. augl. A 106/2012). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 51/2016 (tóku gildi 14. júní 2016 að því er varðar norræna handtökuskipun, en að því er varðar evrópska handtökuskipun taka lögin gildi við gildistöku samnings milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs). L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016). L. 157/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Skilyrði fyrir framsali.
1. gr.
Þann, sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, er heimilt að framselja samkvæmt lögum þessum.
[Um afhendingu á milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja á manni vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar gilda ákvæði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.] 1)
    1)L. 51/2016, 43. gr.
2. gr.
Ekki má framselja íslenska ríkisborgara.
3. gr.
Framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Heimilt er að semja við önnur ríki um framsal vegna verknaðar sem samkvæmt íslenskum lögum getur varðað [fangelsi um styttri tíma]. 1)
Framsal til meðferðar máls er einungis heimilt ef tekin hefur verið ákvörðun í erlenda ríkinu um að sá, sem óskað er framsals á, skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir viðkomandi verknað.
Framsal til fullnustu á dómi er, nema annað sé ákveðið með samkomulagi við viðkomandi ríki, aðeins heimilt:
    1. ef refsing samkvæmt dómi er minnst 4 mánaða [fangelsi], 1)
    2. ef dómþoli samkvæmt dómi eða ákvörðun, sem tekin er samkvæmt heimild í dómi, skal vistaður á stofnun og að dvöl hans þar geti varað í a.m.k. 4 mánuði.
Framsal til meðferðar máls eða fullnustu refsingar fyrir fleiri verknaði er heimilt þótt skilyrði samkvæmt 1.–3. mgr. séu einungis uppfyllt að því er varðar einn verknað.
Ef rökstudd ástæða er til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms, sem óskað er framsals vegna, þykir eigi fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, um refsiverða háttsemi eða um lögfulla sönnun sakar í refsimálum, er framsal óheimilt.
    1)L. 82/1998, 172. gr.
4. gr.
Framsal vegna verknaða er varða við herlög er óheimilt.
5. gr.
Framsal vegna stjórnmálaafbrota er óheimilt.
Nú er verknaðurinn jafnframt brot á lagaákvæðum sem ekki eru stjórnmálalegs eðlis og er þá framsal heimilt ef verknaðurinn telst að litlu leyti stjórnmálaafbrot.
[Með samningi við önnur ríki má ákveða að tiltekin brot skuli ekki talin stjórnmálaafbrot.] 1)
    1)L. 15/2000, 3. gr.
6. gr.
Ekki má framselja mann ef veruleg hætta er á að hann eftir framsal vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar, stjórnmálaskoðana eða að öðru leyti vegna stjórnmálaaðstæðna verði að sæta ofríki eða ofsóknum sem beinist gegn lífi hans eða frelsi eða er að öðru leyti alvarlegs eðlis.
7. gr.
Í sérstökum tilfellum má synja um framsal ef mannúðaráðstæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður.
8. gr.
Framsal er óheimilt þegar sá sem óskast framseldur hefur verið sakfelldur eða sýknaður hér á landi fyrir viðkomandi refsiverðan verknað.
Nú hefur rannsókn gegn sökuðum manni ekki leitt til ákæru á hendur honum og verður hann þá ekki framseldur fyrir þann verknað sem rannsókn tók til, nema skilyrði séu fyrir hendi til upptöku máls samkvæmt [lögum um meðferð sakamála]. 1)
    1)L. 88/2008, 234. gr.
9. gr.
Framsal er óheimilt ef sök eða dæmd refsing er fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum.
[Nú berst beiðni um framsal frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu og skulu þá lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests.] 1)
    1)L. 15/2000, 4. gr.
10. gr.
[Þegar sá sem óskast framseldur hefur verið dæmdur í fangelsi eða samkvæmt dómi eða með heimild í dómi skal eða er vistaður á stofnun fyrir annan verknað en framsalsbeiðni fjallar um er ekki heimilt að framselja hann fyrr en afplánun er lokið eða hann útskrifaður af stofnuninni.] 1) Ekki er heldur heimilt að framselja hann ef hér á landi er til meðferðar mál fyrir annan verknað en þann sem hann óskast framseldur fyrir og sem getur varðað minnst 2 ára [fangelsi], 1) eða ef hann er hafður í gæslu eða er laus gegn tryggingarráðstöfunum settum samkvæmt [lögum um meðferð sakamála]. 2)
Framsal til meðferðar máls má þó heimila með því skilyrði að viðkomandi verði sendur til baka svo fljótt sem verða má að lokinni meðferð málsins.
    1)L. 82/1998, 172. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
11. gr.
Setja skal eftirfarandi skilyrði fyrir framsali:
    1. Að ekki verði höfðað mál gegn hinum framselda manni eða hann látinn taka út refsingu eða framseldur til þriðja ríkis fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var áður en til framsals kom nema:
    a. að [ráðuneytið] 1) heimili það, sbr. 20. gr., eða
    b. að hinn framseldi maður hafi ekki horfið úr landi því sem hann var framseldur til enda þótt hann hafi átt þess kost að fara þaðan óhindraður í minnst 45 daga eða
    c. að hann hafi horfið aftur til lands þess sem hann var framseldur til eftir að hann hafði farið úr landi.
    2. Að án leyfis [ráðuneytisins] 2) megi ekki reka mál hins framselda manns fyrir bráðabirgðadómstólum eða dómstól sem aðeins hefur heimild til að fjalla um viðkomandi afbrot eða sérstök undantekningartilfelli.
    3. Að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart hinum framselda manni.
Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir framsali.
    1)L. 126/2011, 99. gr. 2)L. 162/2010, 112. gr.

II. kafli. Meðferð framsalsmála.
12. gr.
Beiðni um framsal skal borin fram eftir diplómatískum leiðum nema um annað hafi verið samið við viðkomandi ríki.
Í framsalsbeiðni skulu vera upplýsingar um ríkisfang þess manns sem óskast framseldur, dvalarstað hans hér á landi ef um hann er vitað, hvers eðlis afbrotið er og hvar og hvenær það var framið. Ef til er lýsing á þeim sem óskast framseldur skal hún fylgja. Með framsalsbeiðni skal enn fremur fylgja endurrit af þeim lagaákvæðum sem verknaðurinn er talinn varða við. Ef veruleg vandkvæði eru á að útvega endurrit má láta nægja að gerð sé grein fyrir lagaákvæðum þeim sem talið er að hafi verið brotin.
Með framsalsbeiðni til meðferðar máls skal fylgja frumrit eða staðfest endurrit af handtökuskipun eða annarri ákvörðun um handtöku sem samkvæmt samningi er í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis og sem færir að því rök að það séu gildar ástæður til að fella grun á viðkomandi mann fyrir hinn refsiverða verknað.
Með beiðni um framsal manns til fullnustu á dómi skal dómurinn fylgja eða staðfest endurrit hans.
13. gr.
Telji [ráðuneytið], 1) á grundvelli framsalsbeiðni og þeim upplýsingum er henni fylgja, að hafna beri beiðninni þá þegar skal það gert.
Ef beiðni er ekki strax hafnað skv. 1. mgr. sendir [ráðuneytið] 1) ríkissaksóknara beiðnina og ber honum að sjá til þess að nauðsynleg rannsókn fari þegar fram.
Ef ekki er annars getið í lögum þessum skal, um framkvæmd rannsóknar og annað sem framsalsbeiðni varðar, beita reglum um meðferð [sakamála] 2) eftir því sem við á.
    1)L. 162/2010, 112. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
14. gr.
Maður sá sem óskast framseldur getur krafist úrskurðar [héraðsdóms] 1) í Reykjavík um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Ríkissaksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manninum um framsalsbeiðnina og rök fyrir henni, láta hann vita um heimild þessa og að hann eigi þess kost að fá sér skipaðan réttargæslumann samkvæmt 16. gr.
Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eða [ráðuneytinu] 2) eigi síðar en 1 sólarhring eftir að þeim sem óskast framseldur er tilkynnt um að [ráðuneytið] 2) hafi ákveðið að verða við beiðni um framsal. Ef sérstakar ástæður mæla með getur [ráðuneytið] 2) leyft að ákvörðun um framsal sé borin undir dómstól þótt framangreindur frestur sé liðinn.
Hafi úrskurðar verið krafist innan lögmælts frests eða undanþága leyfð skal framsal ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
    1)L. 19/1991, 195. gr. 2)L. 162/2010, 112. gr.
[14. gr. a.
Nú samþykkir sá sem óskast framseldur til ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu framsal og getur hann þá jafnframt lýst því yfir að heimilt sé að höfða mál gegn honum eða láta hann taka út refsingu í ríkinu, sem biður um framsal, fyrir annan refsiverðan verknað en þann sem greinir í framsalsbeiðni. Slík yfirlýsing er bindandi nema viðkomandi falli frá samþykki fyrir framsali. Samþykki og yfirlýsing skulu bókuð og samþykkt skriflega hjá lögreglu, ákæruvaldi eða í dómi.] 1)
    1)L. 15/2000, 5. gr.
15. gr.
Við rannsókn vegna framsalsbeiðni má beita þeim þvingunaraðgerðum sem [lög um meðferð sakamála] 1) heimila við rannsókn sambærilegra sakamála. Við ákvörðun þess hvort skilyrði séu til beitingar þvingunaraðgerða má leggja til grundvallar dómsákvarðanir þær sem framsalsbeiðni fylgja án frekari rannsóknar um sönnun sakar viðkomandi manns.
Framangreindum þvingunaraðgerðum má beita uns úr því er skorið hvort framsal skal fram fara og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað. … 2) Þyki nauðsyn bera til að lengja [gæsluvarðhaldstíma] 2) skal það gert með úrskurði á dómþingi þar sem gæslufanginn er viðstaddur. … 2)
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 157/2020, 1. gr.
16. gr.
Dómari skal skipa manni þeim sem óskast framseldur réttargæslumann ef maðurinn eða ríkissaksóknari æskja þess. Dómari getur og af sjálfsdáðum skipað réttargæslumann er honum þykir ástæða til.
Laun réttargæslumanns og annar sakarkostnaður skulu greidd úr ríkissjóði. Dómari getur þó ákveðið, þegar sérstaklega stendur á, að viðkomandi maður skuli greiða kostnaðinn.
17. gr.
Þegar að rannsókn lokinni sendir ríkissaksóknari [ráðuneytinu] 1) öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það. Ráðuneytið tekur síðan ákvörðun um hvort framsal skuli heimilað.
    1)L. 162/2010, 112. gr.
18. gr.
Þegar [ráðuneytið] 1) hefur ákveðið að verða við beiðni um framsal skal það framkvæmt svo fljótt sem unnt er. Ef sá sem óskast framseldur er ekki í haldi má handtaka hann og úrskurða í gæslu uns hann er afhentur eða takmarka frelsi hans með öðrum hætti eftir því sem segir í [lögum um meðferð sakamála]. 2)
Úrskurður um þvingunaraðgerðir skal þó ekki gilda lengur en í 30 daga eftir að [ákvörðun um framsal hefur verið endanlega staðfest með dómi]. 3) Samkvæmt beiðni [ráðuneytisins] 1) getur [héraðsdómur] 3) þó ákveðið, þegar sérstaklega stendur á, að þvingunarráðstöfunum skuli beitt um tiltekinn lengri tíma.
Þegar maður er framseldur má ákveða að munir eða verðmæti, sem lagt hefur verið hald á í sambandi við málið, séu afhent stjórnvaldi því sem framsals óskaði enda sé við afhendingu gerður fyrirvari, ef ástæða þykir til, til verndar rétti þriðja manns.
    1)L. 162/2010, 112. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr. 3)L. 157/2020, 2. gr.

III. kafli. Aðrar ákvarðanir í tengslum við framsal.
19. gr.
Nú er maður eftirlýstur af yfirvöldum í erlendu ríki vegna þess að hann er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem orðið gæti grundvöllur framsals samkvæmt lögum þessum og má þá beita hann þvingunaraðgerðum [laga um meðferð sakamála] 1) með sama hætti og væri hann sakaður um samsvarandi afbrot hér á landi. Sömu aðgerðum má beita ef viðkomandi yfirvöld tilkynna að þau muni krefjast framsals fyrir verknaðinn.
Ákvörðun um þvingunaraðgerðir skal þegar tilkynnt [ráðuneytinu]. 2) Ráðuneytið getur ákveðið að þvingunarráðstöfunum skuli ekki beitt ef það telur að framsalsgrundvöllur sé ekki til staðar. Ef ráðuneytið ákveður ekki að þvingunarráðstafanir skuli felldar niður skal það hlutast til um að erlenda ríkinu verði tilkynnt um þær og að þær verði felldar niður ef framsalsbeiðni berst ekki svo fljótt sem verða má. Ef framsalsbeiðni hefur ekki borist innan 30 daga frá því að tilkynning var send skulu þvingunarráðstafanir felldar niður. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að lengja þennan frest.
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 162/2010, 112. gr.
20. gr.
[Ráðuneytið] 1) getur samkvæmt beiðni heimilað að höfðað verði mál gegn þeim sem framseldur er samkvæmt lögum þessum eða hann látinn taka út refsingu fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn er áður en til framsals kom og framselt var fyrir. Það sama gildir um samþykki til að hann verði framseldur áfram til þriðja ríkis fyrir refsiverðan verknað sem framinn var áður en hann var framseldur héðan.
Samþykki má því aðeins veita ef til framsals hefði getað komið fyrir verknaðinn samkvæmt lögum þessum. Ákvæði 14. og 16. gr. gilda einnig um veitingu slíks samþykkis eftir því sem við á.
[Samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar er þó heimilt að veita ef skilyrði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar eru til staðar.] 2)
Í beiðni um samþykki samkvæmt 1. mgr. skulu vera sömu upplýsingar og um getur í 2. mgr. 12. gr. Einnig skulu fylgja fullnægjandi gögn um að viðkomandi manni hafi verið kunngerður réttur hans samkvæmt 14. og 16. gr. eftir því sem við á og um hvort hann óski eftir að notfæra sér þann rétt.
Þegar krafist er dómsúrskurðar um hvort skilyrði laga eru til staðar er óheimilt að veita samþykki fyrr en endanlegur dómsúrskurður liggur fyrir. Slík mál skulu lögð til úrskurðar í [héraðsdómi] 3) í Reykjavík.
Samkvæmt beiðni getur [ráðuneytið] 1) leyft að um mál hins framselda manns sé fjallað af bráðabirgðadómstól eða öðrum dómstól sbr. 2. mgr. 11. gr., en einungis ef það er talið óhætt vegna málsmeðferðar fyrir þeim dómstól.
    1)L. 162/2010, 112. gr. 2)L. 51/2016, 43. gr. 3)L. 19/1991, 195. gr.
21. gr.1)
    1)L. 51/2016, 43. gr.

IV. kafli. Önnur aðstoð vegna reksturs sakamála.
22. gr.
Til að afla sönnunargagna til notkunar í refsimáli í öðru ríki er heimilt að ákveða samkvæmt beiðni að ákvæðum [laga um meðferð sakamála], 1) skuli beitt á samsvarandi hátt og í sambærilegum málum sem rekin eru hér á landi.
[Nú er beiðni um aðstoð lögð fram á grundvelli samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 og bókunar við hann frá 16. október 2001 og skal þá fylgja þeirri málsmeðferð sem það ríki sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að það brjóti ekki í bága við íslensk lög. Verða skal við beiðnum um skýrslutöku vitna eða sérfræðinga í síma eða á myndfundi eftir því sem unnt er. Yfirheyrsla í síma skal einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir.] 2)
[Beiðni skv. 2. mgr. og 2. viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins frá 20. apríl 1959 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 8. nóvember 2001 skal send ríkissaksóknara. Sé ekki til staðar samningur við ríki um framsal og aðra aðstoð í sakamálum skal beiðnin send ráðuneytinu. Í beiðni skulu vera upplýsingar um tegund afbrots og hvar og hvenær það var framið.] 3)
[Óheimilt er að verða við beiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 5.–7. gr. getur ekki verið grundvöllur framsals. Síðara skilyrði 1. málsl. gildir ekki gagnvart ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu. [Varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gildir ekki heldur fyrra skilyrði 1. málsl.] 4)] 5)
[Beiðni skal strax hafnað ef skilyrði 3. mgr. eru ekki til staðar eða ef ljóst er að ekki er hægt að verða við henni, svo sem ef brot er smávægilegt og ef rannsókn hefur í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Sé beiðni ekki hafnað samkvæmt þessari málsgrein skal ríkissaksóknari hlutast til um að nauðsynleg rannsókn fari þegar fram. Í þeim tilvikum þar sem ráðuneytið hafnar ekki beiðni skal málið sent ríkissaksóknara til frekari fyrirgreiðslu og skal hann hlutast til um að nauðsynleg rannsókn fari þegar fram.] 3)
Að rannsókn lokinni sendir ríkissaksóknari [ríkinu sem lagði fram beiðni] 3) öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það. [Hafi beiðni borist ráðuneytinu sendir ríkissaksóknari því öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það.] 3)
Í samningi við erlent ríki er heimilt að ákveða að málið skuli falið öðru stjórnvaldi en ráðuneyti til afgreiðslu.
Ef það er líklegt að maður, sem dvelur á Íslandi og sem ekki er grunaður vegna málsins, hafi með lögmætum hætti þann hlut sem leggja skal hald á skal afhending hans til yfirvalda annars ríkis háð því skilyrði að hann, án kostnaðar, skuli sendur til baka þegar meðferð málsins er lokið.
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 71/2006, 1. gr. 3)L. 157/2020, 3. gr. 4)L. 12/2010, 24. gr. 5)L. 15/2000, 6. gr.
23. gr.
Vegna meðferðar refsimáls í öðru ríki er samkvæmt beiðni heimilt að ákveða að maður, sem hér á landi er fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar, skuli sendur til annars ríkis til yfirheyrslu sem vitni eða til samprófunar.
Beiðni skal send [ráðuneytinu] 1) nema annað sé ákveðið með samningi við annað ríki, sbr. 6. mgr. Í beiðni skulu vera nákvæmar upplýsingar um hinn refsiverða verknað.
Óheimilt er að verða við beiðni ef verknaðurinn, sem hún fjallar um eða sambærilegur verknaður, er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 5.–7. gr. getur ekki verið grundvöllur framsals. Beiðninni skal auk þess hafnað ef nærvera viðkomandi er nauðsynleg hér á landi vegna refsimáls eða ef aðrar ríkar ástæður mæla gegn því að flytja hann til hins ríkisins. Sérstakt tillit skal tekið til þess hvort flutningurinn sé líklegur til að lengja þann tíma sem hann myndi verða sviptur frelsi. [Fyrsti málsliður gildir ekki varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.] 2)
[Ráðuneytið] 1) skal strax hafna beiðni ef ljóst er að ekki er hægt að verða við henni. Sé beiðni ekki synjað samkvæmt þessari málsgrein skal málið sent ríkissaksóknara til frekari fyrirgreiðslu og skal hann hlutast til um að nauðsynleg rannsókn fari þegar fram.
Ef viðkomandi samþykkir ekki flutning skal [héraðsdómur] 3) í Reykjavík kveða upp úrskurð um hvort lagaskilyrði til flutnings séu til staðar. Að rannsókn lokinni sendir ríkissaksóknari [ráðuneytinu] 1) öll gögn málsins ásamt álitsgerð um málið í heild. Ráðuneytið tekur síðan ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni.
Í samningi við erlent ríki er heimilt að ákveða að málið skuli falið öðru stjórnvaldi en ráðuneyti til afgreiðslu.
Gera skal það skilyrði fyrir flutningi á manni að viðkomandi skuli sendur til baka svo fljótt sem verða má, ef til vill innan nánari ákveðinna tímamarka, og að ekki skuli hafin rannsókn í máli gegn honum meðan hann dvelur í hinu ríkinu, honum refsað þar eða hann framseldur áfram fyrir verknað sem hann framdi áður en flutningur átti sér stað.
    1)L. 162/2010, 112. gr. 2)L. 12/2010, 24. gr. 3)L. 19/1991, 195. gr.
[23. gr. a.
Heimilt er stjórnvöldum að semja um að yfirvald í erlendu ríki megi senda einstaklingi hér á landi í pósti tilkynningu eða málsskjöl vegna rannsóknar eða meðferðar sakamáls.
Nú er ástæða til að ætla að viðtakandi skilji ekki tungumálið sem skjal er ritað á og skal þá þýða skjalið eða meginefni þess á íslensku eða annað tungumál sem erlendu yfirvaldi er kunnugt um að viðtakandi skilur.
Með tilkynningum eða málsskjölum skulu fylgja upplýsingar um að móttakandi geti fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur er leiðir af skjalinu hjá yfirvaldinu sem gaf það út eða öðrum yfirvöldum í viðkomandi ríki. Um slíkar leiðbeiningar gilda ákvæði 2. mgr.] 1)
    1)L. 45/2001, 1. gr.
[23. gr. b.
Nú tekur erlendur opinber starfsmaður þátt í rannsókn eða meðferð [sakamáls] 1) hér á landi og gilda þá um hann ákvæði XII. og XIV. kafla almennra hegningarlaga eftir því sem við getur átt.] 2)
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 45/2001, 1. gr.

V. kafli. Lokaákvæði.
24. gr.
Úrskurðir þeir sem kveðnir eru upp samkvæmt lögum þessum sæta kæru til [Landsréttar] 1) samkvæmt almennum reglum [laga um meðferð sakamála]. 2)
    1)L. 117/2016, 27. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
25. gr.
Heimilt er að gera samninga við önnur ríki um skyldu til framsals og um aðra aðstoð vegna sakamála með ákveðnum skilyrðum sem þó mega ekki ganga gegn ákvæðum laga þessara.
Án tillits til laga þessara getur framsal átt sér stað og beiðnir um aðstoð í sakamálum framkvæmdar í þeim mæli sem Ísland hefur skyldu til samkvæmt samningum gerðum fyrir gildistöku laga þessara við önnur ríki.
Framsal og önnur aðstoð í sakamálum er heimil samkvæmt lögum þessum þótt ekki sé það skylt samkvæmt samningi sem Ísland hefur gert þar að lútandi við viðkomandi ríki.
26. gr.
Ákvæðin í I. og II. kafla um framsal og þau ákvæði í III. kafla sem fjalla um framsal gilda ekki gagnvart Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
27. gr.
[Ráðherra] 1) er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 99. gr.
28. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1984.