Lagasafn. Íslensk lög 1. september 2023. Útgáfa 153c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um skipti á dánarbúum o.fl.
1991 nr. 20 23. mars
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 1992. Breytt með: L. 65/2006 (tóku gildi 27. júní 2006). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 65/2010 (tóku gildi 27. júní 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 32/2020 (tóku gildi 9. maí 2020). L. 121/2020 (tóku gildi 19. nóv. 2020). L. 136/2021 (tóku gildi 31. des. 2021).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
dómsmálaráðherra eða
dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
1. þáttur.
Almenn ákvæði um skipti dánarbúa.
I. kafli.
Lögsaga við skipti dánarbúa o.fl.
1. gr.

Eftir fyrirmælum laga þessara skal skipta dánarbúum eftir þá menn sem áttu lögheimili eða höfðu annars fasta búsetu hér á landi á dánardægri, nema skiptin fari fram í öðru ríki eftir reglum þjóðaréttar eða ákvæðum samnings sem íslenska ríkið hefur gert við annað ríki og hefur lagagildi hér á landi.

Ákvæði laga þessara taka einnig til skipta eftir íslenska ríkisborgara þótt þeir hafi ekki átt lögheimili eða haft fasta búsetu hér á landi á dánardægri ef dánarbúinu verður ekki skipt í því ríki þar sem sá látni var þá heimilisfastur.
2. gr.

Þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.

Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim látna þegar hann lést, nema réttarreglur eða löggerningar kveði á um brottfall þeirra eða það leiði af eðli þeirra. Við andlát falla enn fremur á dánarbú þær fjárhagslegu skyldur sem sá látni hefur lagt á það með erfðaskrá eða öðrum dánargerningi.

Dánarbú nýtur hæfis til að eiga og öðlast réttindi og hæfi þess til að bera og baka sér skyldur helst þar til skiptum þess lýkur endanlega eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum.
3. gr.

Dánarbúi skal skipta í því umdæmi þar sem sá látni átti lögheimili á dánardægri. Hafi hann ekki átt lögheimili hér á landi skulu skipti fara fram í því umdæmi þar sem hann átti fastan dvalarstað á dánardægri en hafi hann engan slíkan dvalarstað átt þá í því umdæmi þar sem hann lést. Hafi maki látna fengið leyfi til setu í óskiptu búi ræðst umdæmi með sama hætti af lögheimili makans, dvalarstað eða eftir atvikum dánarstað hvort sem skipti fara fram að honum lifandi eða skipt er búi eftir bæði hjónin.

Rísi ágreiningur um það í hverju umdæmi skipti fari fram eða þyki það annars óvíst skal leita ákvörðunar [ráðherra]
1) um það.

Sá sem æskir skipta hér á landi eftir 2. mgr. 1. gr. skal leita ákvörðunar [ráðherra]
2) um það í hverju umdæmi skiptin geti farið fram.
1)L. 126/2011, 152. gr. 2)L. 162/2010, 122. gr.
4. gr.

Dómsmál verður ekki höfðað í héraði gegn dánarbúi nema svo sé fyrir mælt í lögum eða um [sakamál]
1) sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem má ákvarða á hendur dánarbúi. Má þá höfða málið í þeirri þinghá þar sem skiptin fara fram.

Halda má máli til dóms sem hefur verið höfðað á hendur þeim látna en dómur ekki gengið í fyrir lát hans ef þær skyldur, sem málið varðar, falla á dánarbúið og þeim sem fer með forræði dánarbúsins er tilkynnt um málið. Tekur dánarbúið þá við aðild málsins en ella fellur það niður hvað þann látna og búið varðar.

Kröfu um aðför, kyrrsetningu, lögbann, löggeymslu, nauðungarsölu eða gjaldþrotaskipti verður ekki komið fram gegn dánarbúi nema að því leyti sem heimilað er í lögum þessum.
1)L. 88/2008, 234. gr.
II. kafli.
Tilkynning um andlát og fyrstu aðgerðir skipta.
5. gr.

Þegar maður er látinn og skipti eftir hann fara fram hér á landi skal svo fljótt sem verða má tilkynna andlátið sýslumanni eða umboðsmanni hans. Að öðru jöfnu skal tilkynnt í því umdæmi þar sem ætla má að dánarbúinu verði skipt eftir ákvæðum 3. gr. Sýslumaður eða umboðsmaður hans lætur tilkynnanda í té vottorð um að skyldu þessari hafi verið fullnægt.

Skylda til að tilkynna andlát hvílir jafnt á þeim sem getur átt lögerfðarétt eftir þann látna og þeim sem hefur vitneskju um bréferfðarétt sinn eftir hann. Sé um engan slíkan að ræða skal sá tilkynna andlát sem hefur átt heimili með þeim látna, en ella sá sem hlutast til um útför hans. Ef enginn slíkur er heldur fyrir hendi skulu yfirvöld, sem hafa afskipti af málum þess látna, tilkynna andlátið. Heimilt er öðrum að tilkynna andlát, en sýslumanni er ætíð rétt að synja um afhendingu vottorðs skv. 1. mgr. ef sá sem gefur sig fram í því skyni getur ekki veitt þær upplýsingar sem um ræðir í 7. gr. og ætla má að engin veruleg hindrun sé í vegi fyrir að annar maður, sem það getur, tilkynni fremur andlátið.

Útför þess látna má ekki fara fram fyrr en prestur eða annar sá, sem hana annast, fær í hendur vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt.
6. gr.

Sýslumanni eða umboðsmanni hans er því aðeins heimilt að taka við andlátstilkynningu og gefa vottorð um hana að framvísað sé einhverju eftirtalinna sönnunargagna um andlátið:
1. dánarvottorði sem hefur verið gefið út af lækni hér á landi,
2. annars konar embættisvottorði útgefnu hér á landi af þeim sem er bær vegna opinberra starfa sinna um að votta andlátið,
3. lögregluskýrslu sem hefur verið gerð hér á landi og staðfestir andlátið,
4. dómi uppkveðnum hér á landi um lát horfins manns,
5. dómsúrskurði uppkveðnum hér á landi um að skipta megi eftir horfinn mann sem hann væri látinn.

Sýslumanni eða umboðsmanni hans er enn fremur heimilt að taka við andlátstilkynningu og gefa vottorð um hana ef samsvarandi erlendu sönnunargagni er framvísað fyrir andlátinu, enda telji hann ekki ástæðu til að draga sönnunargildi þess í efa. Hafi sá sem tekur við andlátstilkynningu ekki næga kunnáttu í hlutaðeigandi tungumáli er honum rétt að krefja tilkynnanda um þýðingu á erlendu sönnunargagni.
7. gr.

Þegar andlát er tilkynnt skal leitað sem gleggstra upplýsinga hjá tilkynnanda um atriði sem varða þann látna og þá einkum um:
1. hvort rétt sé farið með atriði um þann látna í því sönnunargagni fyrir látinu sem er framvísað,
2. hverjir geti talið til lögerfðaréttar eftir þann látna og hvar þeir séu niður komnir,
3. hvort tilkynnanda sé kunnugt um erfðagerning þess látna og ef svo er hvar hann sé varðveittur og hvers efnis hann sé í meginatriðum,
4. hverjar séu helstu eignir sem sá látni láti eftir sig og hver hafi þær í vörslum sínum eða umsjón með þeim,
5. hvort sá látni hafi verið í hjúskap eða óvígðri sambúð eða haft leyfi til setu í óskiptu búi.

Tilkynnandi skal greina frá nafni sínu, kennitölu og heimilisfangi og upplýsa hver þau tengsl hans hafi verið við þann látna eða málefni hans sem valdi því að hann tilkynni andlátið.

Að því leyti sem tilkynnanda er það fært er honum skylt að veita sýslumanni eða umboðsmanni hans upplýsingar um þau atriði sem hann er krafinn svara um samkvæmt framansögðu.

Heimilt er sýslumanni eða umboðsmanni hans að gefa vottorð um móttöku andlátstilkynningar en veita tilkynnanda skamman frest til að mæta á ný eða senda annan í sinn stað til að gefa upplýsingar um þau atriði sem getið er í 1. mgr.

Sýslumanni eða umboðsmanni hans er eftir atvikum rétt að leiðbeina tilkynnanda um hvernig staðið verði að búskiptum og fela honum að kynna það öðrum hlutaðeigendum.
8. gr.

Hafi umboðsmaður sýslumanns tekið við andlátstilkynningu skal hún send sýslumanni svo fljótt sem verða má.

Telji sýslumaður sem hefur tekið við andlátstilkynningu að skipti eigi að fara fram í öðru umdæmi skal hann án ástæðulauss dráttar senda hana sýslumanni þar. Sýslumanni er þó rétt að leita áður ákvörðunar [ráðherra]
1) skv. 2. mgr. 3. gr. ef honum þykir ástæða til.
1)L. 162/2010, 122. gr.
9. gr.

Þegar andlátstilkynning hefur borist þeim sýslumanni sem skiptin eiga undir getur hann andlátsins og þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í dánarskrá.

Um form og efni dánarskrár, svo og gerðabókar sem sýslumaður færir eftir lögum þessum, fer eftir nánari reglum
1) sem [ráðherra]
2) setur.

Upplýsingar má ekki veita úr dánarskrá eða gerðabók sýslumanns nema sá sem æskir þeirra hafi lögvarða hagsmuni af því að fá þær.

Hafi sá sýslumaður, sem skiptin eiga undir, annarra hagsmuna að gæta af þeim en varða embætti hans eða sé hann svo skyldur eða mægður erfingja eða öðrum sem hefur verulega hagsmuni af skiptunum að hann væri vanhæfur til að vera dómari í einkamáli sem sá ætti aðild að skal hann tilkynna það [ráðherra]
2) án tafar eftir að andlátstilkynning hefur borist honum, nema skiptum hafi þá þegar verið lokið skv. 25. gr. Skipar þá ráðherra annan löghæfan mann til að annast störf sýslumanns við skiptin en þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun ráðherra úr ríkissjóði.
1)Rg. 136/1992. 2)L. 162/2010, 122. gr.
10. gr.

Hafi ónógar upplýsingar komið fram um eignir þess látna eða erfðaréttindi eftir hann skal sýslumaður ekki síðar en mánuði eftir að andlát var tilkynnt leita vitneskju um þau efni.

Skylt er tilkynnanda andláts eða öðrum, sem sýslumaður telur eftir því sem fram er komið að geti veitt frekari upplýsingar um eignir þess látna eða erfðaréttindi eftir hann, að verða við kvaðningu um að koma á fund sýslumanns og veita þær upplýsingar sem honum er kostur. Heimilt er sýslumanni að fela umboðsmanni sínum eða öðrum sýslumanni að kveðja hann á sinn fund ef hentugra þykir.

Opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum og sýslunarmönnum, svo og viðskiptabönkum og sparisjóðum, er skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst. Það sama á við um aðra sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús vegna viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
11. gr.

Frá því andlát ber að höndum og þar til skiptum er lokið skv. 25. eða 26. gr., eftirlifandi maka látna er veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum er veitt leyfi til einkaskipta eða dánarbúið er tekið til opinberra skipta er sá sýslumaður sem skiptin eiga undir einn bær um að ráðstafa hagsmunum dánarbúsins og svara fyrir skyldur þess.

Á þeim tíma, sem sýslumaður fer með forræði dánarbús skv. 1. mgr., skulu ekki gerðar ráðstafanir um hagsmuni þess nema þær séu nauðsynlegar til að varna tjóni eða til að tryggja varðveislu eigna þess, sbr. 16. gr. Sýslumanni er þó rétt að láta af hendi fjármuni búsins eða heimila ráðstöfun þeirra til að standa straum af kostnaði við útför þess látna.

Ráðstafana, sem sýslumaður grípur til skv. 2. mgr., skal getið í gerðabók hans eða dánarskrá.
12. gr.

Ekki er nauðsyn að krefja þann sem gefur sig fram við skiptin og kveður sig vera lögerfingja eftir þann látna um sannanir fyrir skyldleika eða tengdir við þann látna, nema aðrir lögerfingjar rengi eða sérstakt tilefni þyki annars til að draga frásögn hans í efa. Sá sem styður erfðarétt við erfðaráðstöfun þess látna skal framvísa löggerningi hans.

Sá sem gefur sig fram við skipti og tjáir sig hafa umboð til að koma fram af hálfu erfingja skal sanna það með skriflegu umboðsskjali, undirrituðu af erfingjanum og vottuðu af tveimur vitundarvottum, lögbókanda eða [lögmanni].
1) Sé ekki getið sérstakra takmarkana á umboði skal litið svo á að það nái til sérhverra ráðstafana og yfirlýsinga af hálfu erfingjans varðandi búskiptin.
1)L. 117/2016, 37. gr.
13. gr.

Ef erfingi þess látna er ófjárráða vegna æsku eða hefur verið sviptur fjárræði eða sjálfræði og lögráðamaður hans hefur sjálfur hagsmuna að gæta af skiptunum skal sýslumaður skipa erfingjanum sérstakan lögráðamann til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin.

Nú er fjárráða erfingi ófær um að gæta hagsmuna sinna við skiptin vegna heilsufars síns og horfur eru ekki á að breyting verði þar á í bráð og getur þá sýslumaður skipað erfingjanum málsvara til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin ef ætla má að sú ráðstöfun geti orðið til að komist verði hjá nauðsyn þess að erfinginn verði sviptur fjárræði.

Ef vitað er um mann sem á rétt til arfs úr búi en ókunnugt er hvar hann er niður kominn og enginn gefur sig fram í umboði hans skal sýslumaður skipa erfingjanum málsvara sem kemur þá fram fyrir hans hönd við skiptin þar til erfinginn kann sjálfur að gefa sig fram eða umboðsmaður hans.

Ákvæði lögræðislaga um hæfi og heimildir lögráðamanna taka til málsvara sem eru skipaðir erfingjum skv. 2. og 3. mgr.
14. gr.

Þegar svo stendur á sem segir í 13. gr. skipar sýslumaður, sem skiptin eiga undir, hlutaðeigandi erfingja sérstakan lögráðamann eða málsvara svo fljótt sem verða má, nema talið verði að ljúka megi skiptum án þess að atbeina erfingjans verði þörf. Áður en skipun fer fram skal sýslumaður, eftir því sem við verður komið, leita tillagna aðstandenda erfingjans um það hverjum megi fela starfann.

Ákvörðun sýslumanns um skipun sérstaks lögráðamanns eða málsvara skal skráð í gerðabók hans.

Þóknun sérstaks lögráðamanns eða málsvara, ef áskilin er, skal ákveðin af sýslumanni og greiðast af arfi hlutaðeigandi erfingja.
15. gr.

Telji sýslumaður ákvarðanir, athafnir eða yfirlýsingar sérstaks lögráðamanns eða málsvara, sem hefur verið skipaður skv. 14. gr., varhugaverðar fyrir hagsmuni erfingjans er honum rétt að veita lögráðamanninum eða málsvaranum áminningu og fyrirmæli um rækslu starfans. Fari sérstakur lögráðamaður eða málsvari ekki að fyrirmælum sýslumanns eða ef háttsemi hans er annars slík að sýslumaður telji áminningu ekki munu koma að haldi er sýslumanni rétt að víkja honum úr starfi og skipa annan mann í hans stað með bókun í gerðabók.

Yfirlýsingar eða ráðstafanir lögráðamanns, sérstaks lögráðamanns eða málsvara sem eru gefnar eða gerðar við skiptin og geta bakað skjólstæðingi hans ábyrgð á skuldbindingum búsins eru því aðeins bindandi fyrir skjólstæðinginn að sýslumaður samþykki þær.

Að því leyti sem lögráðamaður, sérstakur lögráðamaður eða málsvari þarf að gefa aðra yfirlýsingu eða gera aðra ráðstöfun í þágu skjólstæðings síns við skiptin en getur í 2. mgr. og afla þyrfti sérstaks samþykkis fyrir henni undir öðrum kringumstæðum eftir reglum um ráðstöfun hagsmuna ólögráða manna skulu þær bornar undir sýslumann til samþykkis.

Ef opinber skipti fara fram fer skiptastjóri með það vald sem sýslumanni er falið í 2. og 3. mgr.
16. gr.

Skylt er þeim sem hefur eign dánarbús í vörslum sínum eða hefur umsjón með henni að gæta hennar þar til annar hefur fengið heimild til umráða hennar vegna skiptanna. Fram að því er þó sýslumanni hvenær sem er rétt eftir kröfu erfingja eða ótilkvaddur að taka eign undir sína umsjón á kostnað búsins ef hann telur óbreytta skipan óviðeigandi eða ótrygga eða ef sá krefst sem fer með vörslur eignar eða hefur umsjón með henni, enda hafi sá kostnað, fyrirhöfn eða áhættu af eigninni.

Hafi enginn með höndum gæslu eignar dánarbús skal sýslumaður taka hana undir umsjón sína á kostnað búsins svo fljótt sem verða má eftir að honum verða atvik kunn.

Sýslumaður getur þeirra eigna í gerðabók sem hann tekur undir umsjón sína. Þær skulu metnar til peningaverðs samkvæmt því sem hér á eftir segir ef erfingi krefst.
17. gr.

Meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta er erfingja heimilt að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Kröfu um þessar aðgerðir skal beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir og skal eftirfarandi tiltekið í henni svo skýrt sem verða má:
1. um hvert dánarbú sé að ræða og hver hafi kröfuna uppi,
2. hverjar eignir eða hvers konar sé krafist að verði skrásettar, að hverju marki sé krafist mats á þeim og hvar þær sé að finna,
3. hverjir aðrir séu erfingjar þess látna ásamt upplýsingum um heimilisföng þeirra.

Hafi sá látni verið í óvígðri sambúð þegar hann lést er sambýlismanni hans heimilt að krefjast skrásetningar eigna dánarbúsins og mats á þeim þótt hann njóti ekki réttar til arfs eftir þann látna ef þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem getur í 100. gr. Nýtur hann þá sömu stöðu og erfingi samkvæmt ákvæðum 18.–24. gr.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést er erfingja heimilt að krefjast skrásetningar og mats á hjúskapareignum og séreignum maka hans. Erfingja er og heimilt að krefjast skrásetningar og mats á eignum sambýlismanns þess látna hafi hann verið í óvígðri sambúð þegar hann lést og þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem getur í 100. gr.
18. gr.

Nú er krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum dánarbús og þær eru varðveittar utan umdæmis þess sýslumanns sem kröfunni er beint til og getur hann þá falið sýslumanninum í því umdæmi, þar sem eignirnar er að finna, að annast verkið.

Sé þess krafist að eignir verði að einhverju leyti eða öllu metnar til verðs skal sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra er haldið. Ef krafist er mats á eign sem sérþekkingu þarf til að meta skal sýslumaður tilnefna sérfróðan mann. Heimilt er sýslumanni að tilnefna fleiri en einn matsmann og skipta með þeim verkum þannig að hver þeirra meti tilteknar eignir. Sýslumaður skal geta tilnefningar í gerðabók en hafi hlutaðeigandi ekki áður gegnt hlutverki matsmanns skal hann undirrita heit, sem sýslumaður varðveitir, um að hann muni gegna starfinu af samviskusemi og óhlutdrægni.

Matsmenn skv. 2. mgr. bera skyldur sem opinberir starfsmenn og má tilnefna þá eina til starfans sem eru fjárráða og hafa forræði á búi sínu …
1) og þá almennu þekkingu sem þarf til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. [Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.]
1) Um hæfi þeirra til matsstarfa gilda ákvæði réttarfarslaga um hæfi matsmanna eftir því sem átt getur við.

Heimilt er sýslumanni að fela matsmanni, umboðsmanni sínum eða öðrum starfsmanni að annast skrásetningu eigna.
1)L. 141/2018, 13. gr.
19. gr.

Sá sem annast skrásetningu eigna skal svo fljótt sem verða má ákveða hvar og hvenær hún fari fram eða byrji og tilkynna það þeim sem hefur krafist hennar. Öðrum erfingjum, sem vitað er um, skal einnig tilkynnt þetta með þeim fyrirvara að þeir geti verið viðstaddir ef því verður komið við án þess að verulegar tafir eða óhagræði hljótist af.

Erfingjum, sem eru viðstaddir þegar skrásetning eigna fer fram, skal gefinn kostur á að tjá sig um atriði sem kunna að skipta máli, svo sem um tilvist eigna sem hefur ekki áður verið upplýst um og eignarrétt að einstökum munum.

Áður en skrásetningu eigna er lokið samkvæmt kröfu sem hefur komið fram skv. 17. gr. getur erfingi krafist þess skriflega við þann sem annast hana að aðrar eignir verði einnig skráðar og eftir atvikum metnar til verðs. Þeim sem sýslumaður hefur falið að annast skrásetningu í byrjun er rétt að leysa verkið af hendi án þess að bera það undir sýslumann, nema tilnefna þurfi matsmann sérstaklega vegna kröfunnar eða eignirnar séu utan umdæmis hans.

Vörslumanni eignar, sem hefur verið krafist skrásetningar á, er skylt að veita sýslumanni eða þeim sem hann felur verkið nauðsynlegan aðgang að henni í þessu skyni, nema sýslumaður telji sýnt að eignin hvorki tilheyri dánarbúinu né að efni séu til að skrásetja hana eftir 3. mgr. 17. gr. Sinni vörslumaður ekki skyldu til að veita aðgang að eign getur sýslumaður að kröfu þess sem hefur krafist skrásetningar eignarinnar kveðið á með bókun í gerðabók um dagsektir á hendur vörslumanni þar til hann láti af mótþróa sínum, en áður skal þó gefa vörslumanni kost á að tala máli sínu. Ákvörðun um dagsektir má fullnægja með aðför og renna þær í ríkissjóð.
20. gr.

Við mat á eign til peningaverðs skal miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Hvíli höft á eign sem ætla má að standi áfram þótt eigendaskipti verði skulu þau metin til peningaverðs og miðað við staðgreiðslu mismunar á þeim og kaupverði.

Heimilt er erfingja, hvort sem hann hefur sjálfur krafist mats á eign í öndverðu eða ekki, að krefjast þess að matsmaður meti að auki eign til verðs á öðrum tilteknum forsendum en þeim sem getur í 1. mgr. ef ætla má að slíkt mat hafi þýðingu fyrir hagsmuni hans við skiptin. Kröfu sem þessa skal að öðru jöfnu hafa uppi áður en hafist er handa um mat samkvæmt því sem í 1. mgr. segir.
21. gr.

Þegar skrásetningu og mati á eignum er lokið skal sá sem annaðist verkið afhenda sýslumanni eignaskrá þar sem matsverðs eigna er getið eftir því sem hefur verið krafist. Í eignaskrá skal enn fremur getið hverjir hafi verið viðstaddir skrásetningu og hverjar athugasemdir þeir kunni að hafa haft uppi, sbr. 2. mgr. 19. gr.

Sýslumaður varðveitir eignaskrá með öðrum skjölum sem varða skipti dánarbúsins. Þegar kostnaður af skrásetningu og mati hefur verið greiddur skal sýslumaður senda erfingjum, sem er vitað hvar megi finna, afrit eignaskrár í ábyrgðarpósti eða með öðrum sannanlegum hætti.
22. gr.

Sá sem hefur krafist skrásetningar eignar og eftir atvikum mats á henni getur haft uppi aðfinnslur við sýslumann ef hann telur hana ranglega skráða eða að vanrækt hafi verið að skrá eða meta tiltekna eign. Komi aðfinnslur fram án ástæðulauss dráttar og telji sýslumaður þær á rökum reistar getur hann lagt fyrir þann sem annaðist skráningu eða mat að bæta úr.

Vilji erfingi ekki una mati á eign sem kemur fram í eignaskrá er honum heimilt, meðan skiptum er ólokið og innan fjögurra vikna frá því að skránni var komið á framfæri við hann eða honum verður kunnugt um matið á annan hátt, að krefjast þess skriflega við sýslumann að yfirmat fari fram á tiltekinni eign, enda hafi annar erfingi ekki þegar krafist þess. Komi ekki fram krafa um yfirmat innan þess tíma er matið bindandi fyrir erfingja.

Þegar krafa er komin fram um yfirmat tilnefnir sýslumaður tvo yfirmatsmenn samkvæmt því sem er mælt fyrir um í 2. og 3. mgr. 18. gr. Um störf yfirmatsmanna fer eftir 1. og 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr. eftir því sem átt getur við.

Yfirmat bindur erfingja um verðgildi eignar að því leyti sem það hefur þýðingu við skiptin hvort sem þeir hafa átt þess kost á að gæta hagsmuna sinna við það eða ekki.

Ef leggja á erfingjum út eignir á grundvelli matsverðs og meira en þrír mánuðir líða frá því mats var aflað á eignum þar til skiptum lýkur skal hækka matsverð hverrar eignar sem nemur meðaltali hæstu vaxta af innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum frá matsdegi, nema erfingjar semji um annað. Eins skal farið að ef maki þess látna hyggst leysa til sín eignir umfram búshluta og arfshluta og meira en þrír mánuðir líða frá öflun mats þar til hann greiðir innlausnarverð.
23. gr.

Sýslumaður ákveður hvað skuli greiða fyrir skrásetningu eigna og mat á þeim, þar á meðal þóknun og ferðakostnað þess sem hann hefur kvatt til að leysa starfann af hendi. Hafi maður verið ráðinn til þessa starfs í eitt skipti fyrir öll rennur þóknunin í ríkissjóð.

Sá sem hefur krafist skrásetningar eignar, mats á henni eða yfirmats ábyrgist greiðslu kostnaðar sem sýslumaður ákvarðar. Sýslumanni er heimilt að áskilja tryggingu fyrir greiðslu áður en nokkuð verður aðhafst vegna kröfunnar.

Þeim sem greiðir kostnað af skrásetningu og mati er rétt að krefja dánarbúið um endurgreiðslu, nema aðgerðin sem fór fram verði talin hafa verið þýðingarlaus eða bersýnilega ástæðulaus.
24. gr.

Meðan sýslumaður fer með forræði dánarbús samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 11. gr. getur erfingi leitað skriflegrar heimildar hans til að krefjast upplýsinga hjá öðrum um eignir búsins og skuldastöðu þess. Skylt er þeim sem erfingi krefur upplýsinga í skjóli slíkrar heimildar að veita þær ef sýslumaður gæti krafist þeirra sjálfur skv. 3. mgr. 10. gr.
25. gr.

Lýsi tilkynnandi andláts því yfir þegar andlát er tilkynnt að andvirði eigna dánarbús nemi ekki eftir bestu vitund hans meira en kostnaði af útför þess látna og sýslumaður telur ekki ástæðu til að draga réttmæti þeirrar yfirlýsingar í efa má sýslumaður ljúka skiptum þá þegar án frekari aðgerða með því að framselja þeim sem kostar útförina þær eignir sem liggja fyrir. Eins má fara að ef einhver sá, sem má telja að hafi næga yfirsýn yfir hag búsins, gefur sams konar yfirlýsingu síðar á þeim tíma sem sýslumaður fer með forræði þess skv. 1. mgr. 11. gr.

Þegar andvirði eignar er ákvarðað skv. 1. mgr. skal tekið tillit til veðkrafna og annarra kvaða sem hvíla á henni en því aðeins er þá heimilt að ljúka skiptum með framsali eignar að sá sem tekur við henni taki einnig að sér efndir þeirra skuldbindinga.

Ef fleiri en einn gefa sig fram við sýslumann áður en skiptum er lokið og lýsa yfir vilja sínum til að kosta útför þess látna gegn framsali eigna skal eftirlifandi maki eða sambýlismaður ganga fyrir öðrum, en því næst aðrir erfingjar. Fáist ekki niðurstaða þannig og samkomulag verður ekki um annað skal hlutkesti ráða.

Þótt skiptum hafi verið lokið með framsali eigna getur erfingi, sem rökstyður fyrir sýslumanni að eignir kunni að hafa verið vantaldar, krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum skv. 17.–23. gr. Komi þannig í ljós að ekki hafi verið skilyrði til skiptaloka eða það verður uppvíst síðar með öðrum hætti skal sýslumaður taka skiptin upp á ný.

Skiptalok samkvæmt þessari grein falla sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er tekið síðar til opinberra skipta.
26. gr.

Ef hvorki tilkynnandi andláts né aðrir, sem sýslumaður krefur svara um hag búsins, geta upplýst um neinar eignir þess en telja sig þó ekki hafa þá vitneskju að þeir geti gefið slíka yfirlýsingu sem getur í 1. mgr. 25. gr. og önnur athugun sýslumanns skv. 10. gr. leiðir engar eignir í ljós er sýslumanni heimilt að ljúka skiptum. Berist sýslumanni síðar vitneskja um eign búsins skal hann taka skiptin upp á ný.

Komi fram upplýsingar með þeim hætti sem um ræðir í 1. mgr. um eignir sem má ætla að nemi þó ekki meira að andvirði en útfararkostnaði má sýslumaður ljúka skiptum með því að framselja þær þeim sem hefur kostað útför þess látna. Verði ekki uppvíst hver hafi kostað útför eða eignir eru annars svo óverulegar að þær svari ekki kostnaði af frekari aðgerðum getur sýslumaður komið þeim í verð og lokið skiptum með greiðslu andvirðis þeirra í ríkissjóð.

Skiptalok samkvæmt þessari grein falla sjálfkrafa úr gildi ef dánarbúið er tekið síðar til opinberra skipta.
27. gr.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést gilda reglur erfðalaga um heimildir til að ljúka skiptum með útgáfu leyfis handa maka hans til setu í óskiptu búi.

Þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi er öðrum erfingjum heimilt að krefjast skrásetningar eigna og mats á þeim ef ætla má að þeir hafi hagsmuni af því til að staðreyna hvort þeir eigi rétt á að krefjast skipta vegna fjárstjórnar makans. Skal þá farið eftir fyrirmælum 17.–23. gr. eftir því sem átt getur við, að öðru leyti en því að búið verður ekki endurkrafið um kostnað skv. 3. mgr. 23. gr. nema til skipta komi af því tilefni.
28. gr.

Á þeim tíma, sem sýslumaður fer með forræði búsins skv. 1. mgr. 11. gr., getur hann veitt erfingjum þess látna leyfi til einkaskipta ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
1. að erfingjar eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvarar óski allir eftir einkaskiptum í beiðni sem fullnægir ákvæðum 29. gr.,
2. að ekki sé óhjákvæmilegt að opinber skipti fari fram vegna fyrirmæla þess látna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 37. gr. og 39. gr.,
3. að erfingjar sanni erfðaréttindi sín fyrir sýslumanni að því leyti sem þess verður krafist eftir 1. mgr. 12. gr.,
4. að erfingjar lýsi yfir að þeim sé ekki kunnugt um að aðrir geti talið til arfs eftir þann látna, enda hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að ætla að svo geti verið,
5. að erfingjar hafi tekið að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku,
6. ef erfingi er ófjárráða eða honum hefur verið skipaður málsvari skv. 2. eða 3. mgr. 13. gr., að aðrir erfingjar ábyrgist að hann muni ekki þurfa að gjalda fyrir ábyrgð sína á skuldbindingum búsins umfram arfshluta sinn. Ef erfingjar eru allir ófjárráða eða þeim hafa öllum verið skipaðir málsvarar má í stað ábyrgðar annarra erfingja koma sams konar ábyrgð hvers lögráðamanns eða málsvara gagnvart skjólstæðingi sínum.
29. gr.

Beiðni um leyfi til einkaskipta skal vera skrifleg og undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum. Í henni eða fylgigögnum með henni skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
1. hver sá látni hafi verið, kennitala hans, dánardagur og heimilisfang á dánardægri,
2. nöfn erfingja, kennitölur þeirra og heimilisföng, ásamt upplýsingum um grundvöll erfðaréttar hvers þeirra; getið skal umboðsmanna erfingja, lögráðamanna eða málsvara, ef því er að skipta,
3. hverjar séu eignir búsins og hvert verði talið andvirði hverrar þeirra eftir þeim reglum sem gilda um ákvörðun gjaldstofna til greiðslu erfðafjárskatts, en þó má tiltaka heildarsafn muna í einu lagi ef verðgildi einstakra muna er óverulegt. Hafi eignir verið skrásettar og eftir atvikum metnar til verðs skv. 17.–23. gr. má vísa til eignaskrár um þau atriði sem hún geymir upplýsingar um,
4. hverjar og hvers efnis einstakar skuldbindingar búsins séu, þar á meðal við gjafþega,
5. yfirlýsingar um atriði sem eru talin í 28. gr. eftir því sem þörf krefur,
6. að erfingjar muni hlíta þeim skilyrðum sem sýslumaður kann að setja fyrir heimild þeirra til einkaskipta, sbr. 31. gr.

Séu erfingjar fleiri en einn er þeim rétt að tilnefna í beiðni sinni einn eða fleiri úr sínum hópi eða annan tiltekinn mann sem má beina tilkynningum til í þágu búsins. Í beiðni má einnig tilnefna erfingja eða annan mann og veita honum eða þeim heimild til að gera tilteknar ráðstafanir í nafni búsins um hagsmuni þess. Sé annar tilnefndur í þessu skyni en erfingi skal hann rita samþykki sitt fyrir því á beiðnina.

Með beiðni um leyfi til einkaskipta skulu fylgja, eftir því sem átt getur við, erfðagerningur þess látna, kaupmáli eða annars konar samningur um fjármál hjóna eða sambýlisfólks og önnur skjöl sem geta haft þýðingu með sambærilegum hætti fyrir skipti búsins eða réttindi annarra á hendur því.
30. gr.

Sýslumaður kannar hvort skilyrði séu til að verða við beiðni um leyfi til einkaskipta svo fljótt sem verða má eftir að hún berst honum. Telji hann beiðninni í einhverju áfátt eða frekari upplýsingar skorta eða gögn getur hann veitt erfingjum tiltekinn frest til úrbóta.

Byggi erfingjar, sem æskja leyfis til einkaskipta, rétt sinn til arfs á erfðaskrá þess látna er sýslumanni heimilt að neita að taka afstöðu til beiðninnar þar til þeir hafi kynnt þeim erfðaskrána sem gætu talið til lögerfðaréttar.

Ef lögráðamaður eða málsvari kemur fram af hálfu erfingja og sýslumaður telur upplýsingar um eignir búsins eða skuldir ónógar getur hann lagt fyrir hlutaðeiganda að leita nánari vitneskju um efnahag búsins áður en afstaða verði tekin til beiðninnar, þar á meðal með því að fá eignir skrásettar og metnar eftir 17.–23. gr.

Þótt yfirlýsing hafi komið fram skv. 6. tölul. 28. gr. um ábyrgð gagnvart erfingja sem lögráðamaður eða málsvari kemur fram fyrir við skiptin getur sýslumaður synjað um leyfi til einkaskipta ef hann telur hagsmunum erfingjans stefnt í hættu vegna ábyrgðar hans á skuldbindingum búsins eða neitað að taka afstöðu til beiðninnar nema lögð sé fram viðunandi trygging fyrir ábyrgð gagnvart erfingjanum.

Hafi erfingjar tiltekið verðgildi eigna búsins að einhverju leyti eða öllu eftir eigin mati í beiðni sinni er sýslumanni heimilt að neita að verða við henni nema fengið sé mat á þeim eftir 17.–23. gr. ef hann telur slíkt mat nauðsynlegt til að erfðafjárskattur verði réttilega á lagður.

Telji sýslumaður skilyrðum til að veita leyfi til einkaskipta ekki fullnægt eða telji hann sýnt að erfingjar muni ekki geta lokið skiptum innan hæfilegs tíma skal hann synja um leyfið, enda hafi tilmælum hans eða ábendingum skv. 1.–5. mgr. ekki verið sinnt ef því er að skipta. Erfingjar geta krafið sýslumann um stuttan skriflegan rökstuðning fyrir synjun hans.
31. gr.

Þegar sýslumaður telur skilyrðum til einkaskipta fullnægt veitir hann erfingjum leyfi til þeirra með áritun sinni á beiðni þeirra eða með annarri skriflegri yfirlýsingu sem nægir erfingjum til að sýna fram á forræði sitt á dánarbúinu í lögskiptum við aðra.

Við veitingu leyfis til einkaskipta skal sýslumaður ákvarða erfingjum frest til að ljúka skiptum sem skal að jafnaði ekki vera lengri en nemur einu ári frá andláti. Að auki er sýslumanni heimilt að skilyrða leyfi til einkaskipta með eftirfarandi hætti, ef hann telur efni til:
1. að erfingjar leggi fram innan tiltekins frests nánari upplýsingar um eignir búsins eða verðgildi þeirra eða afli mats á þeim skv. 17.–23. gr. ef það verður talið nauðsynlegt til álagningar erfðafjárskatts,
2. að lögráðamaður eða málsvari erfingja geri reglubundið grein fyrir framvindu skiptanna meðan á þeim stendur,
3. að erfingjar efni tilteknar gjaldfallnar skuldbindingar búsins eða þær allar eða setji tryggingu fyrir þeim innan ákveðins frests.

Sýslumanni er heimilt að lengja frest til að ljúka einkaskiptum eftir skriflegri og rökstuddri beiðni erfingja ef hann telur óviðráðanleg atvik, sem erfingjum verður ekki gefin sök á, standa í vegi fyrir að skiptum verði lokið án frekari tafa.
32. gr.

Ef skiptum hefur ekki verið lokið skv. 25. eða 26. gr., eftirlifandi maki hefur ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjar hafa ekki fengið leyfi til einkaskipta og krafa hefur ekki komið fram um opinber skipti á búinu innan fjögurra mánaða frá andláti skal sýslumaður skora bréflega á erfingja sem honum er kunnugt um að efna til einhverra þessara aðgerða innan tiltekins frests að því viðlögðu að hann muni ella krefjast opinberra skipta á búinu. Sýslumanni er þó heimilt að láta það hjá líða um sinn ef vænta má að erfingjar bæti úr innan skamms tíma, enda hafi þeir gert honum grein fyrir ástæðum þess að dráttur hafi orðið og hann telur erfingjum það afsakanlegt.
III. kafli.
Sérstök réttindi erfingja við skipti dánarbúa.
33. gr.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést getur maki hans krafist þess að fá til eignar muni sem ella hefðu talist til eigna dánarbúsins skv. 1. mgr. 2. gr. ef þeir eru honum nauðsynlegir til að leggja áfram stund á atvinnu sína eða menntun eða þeirra hefur aðallega eða eingöngu verið aflað til afnota hans og eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
1. að verðgildi munanna sé ekki slíkt að afhending þeirra verði talin ósanngjörn gagnvart öðrum erfingjum eða skuldheimtumönnum þess látna,
2. að sá látni hafi ekki ráðstafað mununum sérstaklega á annan veg með erfðaskrá,
3. að makinn taki að sér skuldbindingar sem hvíla á mununum eða hafa orðið til vegna öflunar þeirra.

Maki þess látna getur krafist þess við skiptin að ekki verði tekið tillit til eigna sinna sem ákvæði 1. mgr. geta átt við.

Börn þess látna, stjúpbörn eða fósturbörn sem áttu heimili hjá honum og voru á framfæri hans þegar hann lést, njóta réttar skv. 1. mgr. að maka hans frágengnum.
34. gr.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést fer um vörslur eigna dánarbúsins og maka hans, afnot af þeim og rétt til að ráðstafa þeim eftir ákvæðum 107. og 108. gr. að því leyti sem átt getur við.

Fjárslit milli dánarbúsins og maka þess látna skulu fara eftir því sem segir í 109. gr.
35. gr.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést er maka hans heimilt að leysa til sín einstakar eignir dánarbúsins eða þær allar, hvort sem þær voru hjúskapareignir þess látna eða séreignir í lifanda lífi, gegn greiðslu til búsins á því sem hann á ekki tilkall til af matsverði þeirra að arfi og búshluta, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum á annan veg með erfðaskrá.

Að því leyti sem greiðslu frá maka skv. 1. mgr. yrði varið til arfs ófjárráða niðja þess látna getur makinn krafist þess að fá gjaldfrest á greiðslu til þeirra þar til hver þeirra um sig verði fjárráða. Ákvæði lögræðislaga um lán af fé ófjárráða manna taka að öðru leyti til skilmála og trygginga eftir því sem átt getur við.
36. gr.

Að því leyti sem maki þess látna neytir ekki réttar skv. 35. gr. getur hver erfingi um sig krafist þess að fá útlagðar eignir búsins eftir matsverði til greiðslu arfs, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum sérstaklega með erfðaskrá. Með sama hætti getur maki krafist þess að fá eignir lagðar sér út upp í búshluta hvort sem þær voru hjúskapareignir þess látna eða séreignir.

Krefjist fleiri erfingjar en einn að fá sömu eign lagða sér út gengur maki alltaf fyrir öðrum erfingjum, en ella ræður hlutkesti. Verði talið að eignin hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja öðrum fremur skal hann þó ganga fyrir um útlagningu, en eigi það við um fleiri erfingja en einn skal hlutkesti milli þeirra ráða.
2. þáttur.
Opinber skipti á dánarbúum.
IV. kafli.
Upphaf opinberra skipta.
37. gr.

Verði skiptum ekki lokið samkvæmt því sem segir í 25.–27. gr. skal sýslumaður krefjast opinberra skipta á dánarbúi svo fljótt sem eitthvað eftirfarandi liggur fyrir og þær upplýsingar hafa komið fram sem eru nauðsynlegar til að gera kröfuna skv. 42. gr.:
1. hafi sá látni mælt fyrir um opinber skipti í erfðaskrá eða tilnefnt þar ákveðinn mann til að annast skiptin,
2. hafi ekki verið upplýst um neinn erfingja þannig að ætla megi að arfur muni falla til ríkisins,
3. sé vafi um hverjir geti kallað til arfs úr búinu sem sýslumaður telur ekki verða greitt úr með öðrum hætti,
4. hafi erfingi látið uppi við sýslumann slíka afstöðu til atriðis sem getur í 28. gr. að hún girði fyrir að skilyrði geti orðið til einkaskipta,
5. hafi sýslumaður hafnað beiðni um leyfi til einkaskipta eða fellt slíkt leyfi niður,
6. hafi erfingjar ekki orðið við áskorun skv. 32. gr.
38. gr.

Hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.–27. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta ef erfingi krefst þess hvort sem leyfi hefur áður verið veitt til einkaskipta eða ekki.

Þótt skiptum hafi verið lokið skv. 25. eða 26. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta samkvæmt kröfu erfingja hvort sem sýslumaður hefur tekið skiptin upp á ný eða ekki ef sýnt er fram á að skilyrði hafi ekki verið til að ljúka skiptum með þeim hætti sem var gert.

Þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi getur erfingi krafist þess að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta hafi hann heimild til þess eftir ákvæðum erfðalaga.

Sá sem hefur verið í óvígðri sambúð með látna þegar hann lést getur krafist opinberra skipta með sama hætti og erfingi skv. 1. og 2. mgr. ef þeim skilyrðum er fullnægt um sambúðartíma sem koma fram í 100. gr.
39. gr.

Verði skiptum ekki lokið skv. 25.–27. gr. skal dánarbú tekið til opinberra skipta eftir kröfu þess sem hefur verið tilnefndur í erfðaskrá þess látna til að annast skiptin.
40. gr.

Hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.–27. gr. og erfingjar ekki fengið leyfi til einkaskipta innan sex mánaða frá andláti má taka dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á gjaldfallna kröfu á hendur búinu.

Þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta má hvenær sem er, meðan þeim er ólokið, taka dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á gjaldfallna kröfu á hendur búinu ef báðum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
1. að sýnt sé fram á að framferði erfingja eða ráðstafanir þeirra á hagsmunum búsins séu með þeim hætti að sérstök hætta sé á að krafan fáist ekki efnd með öðru móti,
2. að áður hafi verið skorað á erfingja að efna kröfuna og þeim verið veittur sanngjarn frestur til þess í ljósi atvika.

Taka má dánarbú til opinberra skipta eftir kröfu þess sem á kröfu á hendur því þótt skiptum hafi áður verið lokið skv. 25. eða 26. gr., sýni hann fram á að ekki hafi verið skilyrði til að ljúka skiptum með þeim hætti sem var gert, enda eigi hann ekki önnur úrræði til að fá kröfu sinni fullnægt.
41. gr.

Þótt svo standi á sem segir í 38.–40. gr. verður dánarbú því aðeins tekið til opinberra skipta að áður sé leitt í ljós að andvirði eigna þess hrökkvi fyrir kostnaði af skiptunum eða sá sem krefst skiptanna hafi sett tryggingu fyrir kostnaðinum.

Sá sem krefst opinberra skipta ber ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar þótt trygging fyrir honum hafi ekki verið áskilin í byrjun.

Krefjist sýslumaður opinberra skipta skv. 37. gr. greiðist kostnaður af þeim úr ríkissjóði ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir honum.
42. gr.

Kröfu um opinber skipti skal beint skriflega til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
1. hver sá látni hafi verið og eftir atvikum hvort skiptum hafi áður verið lokið skv. 25.–27. gr. eða erfingjum verið veitt leyfi til einkaskipta,
2. nafn, kennitala og heimilisfang þess sem krefst opinberra skipta og á hverju hann byggi rétt sinn til þess,
3. hverjir séu líklegir eftir fyrirliggjandi upplýsingum til að hafa uppi kröfu um arf eftir þann látna og hvar verði náð til þeirra, umboðsmanna þeirra, lögráðamanna eða málsvara,
4. hverjar þekktar eignir búsins séu í helstu atriðum og hverjar þær skuldbindingar þess séu sem vitað er um.

Með kröfu um opinber skipti skulu fylgja eftirrit úr dánarskrá og gerðabók sýslumanns og af erfðaskrá og öðrum gögnum sem hann kann að hafa tekið við vegna skiptanna og geta skipt máli. Kröfunni skulu einnig fylgja önnur gögn sem hún er studd við.

Ef krafist er opinberra skipta skv. 38.–40. gr. skal sá sem hefur kröfuna uppi senda samrit hennar þeim sýslumanni sem skiptin eiga undir.
43. gr.

Berist héraðsdómara krafa um opinber skipti sem hann telur þegar ljóst að skilyrði séu ekki til að verða við getur hann kveðið upp úrskurð um höfnun hennar án frekari aðgerða. Ella ákveður hann stað og stund til þinghalds þar sem beiðnin verður tekin fyrir og tilkynnir það í símskeyti, ábyrgðarbréfi eða með öðrum jafntryggum hætti þeim sem hefur kröfuna uppi og þeim sem þar er greint að kunni að telja til arfs eftir þann látna eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum, enda hafi áður verið sett trygging skv. 1. mgr. 41. gr. ef hennar er þörf. Í tilkynningu skal jafnframt tekið fram hver hafi krafist opinberra skipta og á hvaða grundvelli, svo og hverju það varði ef ekki verður sótt þing.

Tilkynning skv. 1. mgr. skal berast þeim sem henni er beint til eða þeim sem er hæfur til að taka við stefnubirtingu fyrir hans hönd með sama fyrirvara og birta þyrfti honum stefnu í einkamáli. Héraðsdómari má þó ákveða skemmri fyrirvara ef hann telur brýna hagsmuni í húfi.

Ef ekki verður ráðið af því sem fram er komið hverjir geti krafist arfs eða hvar verði náð til þeirra og héraðsdómari telur ekki að ætlast megi til að sá sem krefst opinberra skipta geti aflað nánari vitneskju stendur það ekki í vegi opinberra skipta þótt þeim verði ekki tilkynnt um kröfuna.
44. gr.

Sæki sá ekki þing sem hefur uppi kröfu um opinber skipti þegar hún er tekin fyrir skal hún talin fallin niður. Ef krafist er getur héraðsdómari úrskurðað þeim ómaksþóknun sem hafa sótt þing vegna kröfunnar úr hendi þess sem hafði hana uppi.

Ef sá sækir þing sem krefst opinberra skipta, andmæli koma ekki fram gegn henni og ákvæðum 43. gr. er fullnægt tekur héraðsdómari kröfuna til úrskurðar.

Komi fram andmæli gegn kröfu um opinber skipti skal farið með hana eftir 1. mgr. 120. gr.

Héraðsdómari kveður upp úrskurð um hvort búið verði tekið til opinberra skipta hvort sem kröfu um það hefur verið mótmælt eða ekki. Hann skal gæta þess af sjálfsdáðum hvort lagaskilyrði séu til þeirra þótt ekki hafi verið móti því mælt.

Þótt úrskurður héraðsdómara um að bú verði tekið til opinberra skipta sé kærður til æðra dóms frestar það ekki framkvæmd þeirra, en þess skal gætt að aðgerðir raski ekki réttindum málsaðila meira en nauðsyn krefur meðan mál er enn óútkljáð.

Héraðsdómari skal tilkynna sýslumanni, sem skiptin eiga undir, um niðurstöður dómstóla um kröfu um opinber skipti.
45. gr.

Nú koma mótmæli fram gegn kröfu um opinber skipti og getur þá sá sem krefst skiptanna krafist að héraðsdómari kveði á um það í úrskurði að réttaráhrif leyfis, sem hefur verið veitt erfingjum til einkaskipta eða maka til setu í óskiptu búi, falli niður að einhverju leyti eða öllu ef sérstök hætta þykir á að ráðstafanir verði annars gerðar sem gætu rýrt réttindi þess sem krefst opinberra skipta. Héraðsdómari skal fara með slíka kröfu eftir 2. mgr. 120. gr.

Taki héraðsdómari til greina kröfu skv. 1. mgr. tekur sýslumaður á ný við forræði búsins að sama marki þar til héraðsdómari kveður á um hvort opinber skipti fari fram. Verði kröfu um opinber skipti síðan hafnað rakna réttaráhrif leyfis sjálfkrafa við.

Taki héraðsdómari eða æðri dómur til greina kröfu um opinber skipti fellur sjálfkrafa úr gildi leyfi til einkaskipta sem erfingjum kann að hafa verið veitt. Það sama á við um leyfi til setu í óskiptu búi að því leyti sem krafa um opinber skipti nær fram að ganga.
V. kafli.
Skiptastjórar.
46. gr.

Þegar héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú sé tekið til opinberra skipta skipar hann skiptastjóra til að fara með skiptin með bókun í þingbók. Sé krafa um opinber skipti fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi skipar héraðsdómari skiptastjóra svo fljótt sem þau úrslit verða honum kunn.

Engan má skipa í starf skiptastjóra nema hann lýsi sig fúsan til að taka starfann að sér og:
1. sé orðinn 25 ára gamall,
2. sé lögráða og hafi ekki misst forræði á búi sínu,
3. sé svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt starfanum,
4. [hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né orðið sannur að]
1) athæfi sem gerir hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum,
5. hafi lokið embættisprófi í lögum eða hafi annars þá þekkingu á lögum sem verður talin nauðsynleg til rækslu starfans,
6. eigi hvorki sjálfur kröfu til arfs úr búinu eða aðra kröfu á hendur því né maki hans né skyldmenni hans eða maka hans í beinan legg eða 1. lið til hliðar.

Hafi sá látni tilnefnt ákveðinn mann í erfðaskrá til að framkvæma skipti eftir sig skal sá skipaður skiptastjóri, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. Hafi sá látni tilnefnt fleiri menn en einn til að framkvæma skiptin í sameiningu skulu þeir báðir eða allir skipaðir til starfans ef ætla má að skiptin verði umfangsmikil eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því, en annars skal héraðsdómari skipa einn eða fleiri úr þeirra hópi.

Andist skiptastjóri áður en skiptum er lokið, biðji hann héraðsdómara um lausn frá starfanum eða víki héraðsdómari honum frá skv. 47. gr. skal héraðsdómari tafarlaust skipa annan mann í hans stað.

Héraðsdómara er rétt að krefja skiptastjóra um tryggingu eða skilríki fyrir að hann hafi ábyrgðartryggingu vegna starfans og getur sett honum tiltekinn frest til að setja tryggingu eftir að skipun hefur átt sér stað.

Ákvörðun héraðsdómara um skipun manns í starf skiptastjóra verður ekki skotið til æðra dóms.
1)L. 141/2018, 14. gr.
47. gr.

Erfingjum og öðrum þeim, sem hafa uppi kröfur á hendur búinu, er, meðan á opinberum skiptum stendur, heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram eða berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft aðfinnslur uppi á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Héraðsdómara er heimilt að kveðja fleiri hlutaðeigendur á fund sinn af slíku tilefni.

Telji héraðsdómari aðfinnslur á rökum reistar getur hann gefið skiptastjóra kost á að bæta úr innan tiltekins frests. Verði skiptastjóri ekki við því eða ef framferði hans í starfi hefur annars verið slíkt að ekki verði talið réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum skal héraðsdómari víkja honum úr starfi þegar í stað með úrskurði. Héraðsdómari skal með sama hætti víkja skiptastjóra úr starfi ef hann setur ekki tryggingu skv. 5. mgr. 46. gr. innan tilskilins frests eða ef skiptastjóri fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 46. gr.

Fallist héraðsdómari ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi skv. 2. mgr. getur sá sem hafði uppi aðfinnslur um störf hans krafist úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóranum verði vikið frá. Með sama hætti getur erfingi eða annar sá, sem hefur uppi kröfu á hendur búinu og telur skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 46. gr., krafist að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum. Farið skal með slíkar kröfur eftir 121. gr.
48. gr.

Skiptastjóri annast öll störf sem lúta að meðferð búsins, en honum er heimilt á kostnað þess að leita sér aðstoðar eða þjónustu til að leysa af hendi einstök verk á sína ábyrgð.

Skiptastjóri á rétt til þóknunar fyrir störf sín sem greiðist af búinu eða þeim sem ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar skv. 41. gr. Honum er heimilt að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun sína meðan á skiptum stendur, enda kynni hann ákvörðun um það á skiptafundi og það teljist tryggt að hann gangi ekki með þessu á hlut þeirra sem eiga rétthærri kröfur á hendur búinu.

Sá sem hefur verið skipaður skiptastjóri telst opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum.

Skiptastjóra ber að bæta tjón sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum.
49. gr.

Skiptastjóri sér um reikningshald fyrir búið og gefur skýrslur til yfirvalda um fjármuni þess og rekstur eftir því sem þörf krefur.

Hafi skiptum ekki verið lokið innan sex mánaða frá því búið var tekið til opinberra skipta skal skiptastjóri gera yfirlit yfir efnahag og rekstur búsins, en upp frá því um hver áramót og mitt hvert ár þar til skiptum er lokið. Hver erfingi og hver sá, sem hefur lýst kröfu í búið en hefur ekki fengið efndir hennar, getur krafist að fá að sjá reikninga búsins. Skiptastjóra er heimilt á kostnað búsins að fela löggiltum endurskoðanda að gera reikninga þess eða endurskoða þá ef þess er krafist eða hann telur annars sérstaka ástæðu til.
50. gr.

Skiptastjóri skal halda skiptafundi með erfingjum og þeim sem hafa uppi kröfur á hendur búi eftir því sem mælt er fyrir í lögum þessum eða hann telur annars þörf.

Skiptastjóri ákveður hvar skiptafundir verða haldnir og hvenær, með hverjum fyrirvara þeir verði boðaðir og hvert fundarefni verði, að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum þessum. Leitast skal þó við að skiptafundir verði haldnir á slíkum stað og tíma að ætla megi að sem flestir fundarmenn eigi hægt með að sækja þá.

Skiptastjóri skal boða til skiptafunda með þeim hætti að fram komi í aðalatriðum hvert fundarefni verði og sannað verði hvort fundarmanni hafi borist eða mátt berast fundarboð, en fundarmenn skulu þó einir gjalda þess hafi þeir ekki veitt skiptastjóra nægar upplýsingar um hvar til þeirra verði náð. Misfarist fundarboð til eins eða fleiri fundarmanna getur skiptastjóri ákveðið að fresta fundi eða að halda hann með áskilnaði um rétt þeirra sem voru ekki boðaðir til að hafa uppi athugasemdir síðar um það sem þar fer fram.

Skiptastjóri stjórnar skiptafundum og atkvæðagreiðslum sem fara þar fram og ákveður í hverri röð málefni verði tekin fyrir og fundarmenn fái að tjá sig. Skiptastjóra er heimilt að vísa óviðkomandi mönnum af fundi, svo og fundarmönnum sem spilla þar starfsfriði.

Skiptastjóri færir fundargerðir á skiptafundum og skal hann gæta þess að fundarmönnum sé kynnt efni þeirra áður en fundi verður slitið og gefinn kostur á að hafa uppi athugasemdir um það.
51. gr.

Skiptastjóri tekur við skjölum sem hafa þýðingu fyrir skiptin og varðveitir þau um sinn eftir að hann lýkur störfum, að því leyti sem þau hafa ekki áður verið lögð fram í dómi eða afhent sýslumanni við lok opinberra skipta. Um afhendingu skjalanna til varðveislu á Þjóðskjalasafni skal farið eftir sömu reglum og eiga við um skjöl sem eru lögð fram í dómsmálum.

Sá sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta getur krafist að fá aðgang að skjölum búsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum.
52. gr.

Þeim sem geta kallað til arfs eða gjafar úr búi og þeim sem hafa eignir þess í umráðum sínum er skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni þess látna eða búsins sem hann krefst. Sama skylda hvílir á opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum og sýslunarmönnum, viðskiptabönkum og sparisjóðum, svo og öðrum sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús vegna viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Verði einhver sá, sem getur í 1. mgr., ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Skal farið eftir reglum um meðferð einkamála í héraði um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við.
VI. kafli.
Fyrstu aðgerðir við opinber skipti.
53. gr.

Skiptastjóri skal svo fljótt sem verða má eftir skipun hans boða til skiptafundar þá erfingja sem eru þekktir og vitað er hvar megi finna eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara.

Ef náð verður til allra sem má telja af því sem fram er komið að geti krafist arfs úr búinu eða umboðsmanna þeirra, lögráðamanna eða málsvara skal skiptastjóri krefja þá svara á skiptafundi skv. 1. mgr. um hvort erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins, nema þeir hafi áður fengið leyfi til einkaskipta og allir lýst yfir þeirri ábyrgð þá. Mæti ekki allir erfingjar til fundarins skal skiptastjóri skora bréflega á þá sem hafa ekki tjáð sig að láta uppi afstöðu sína innan tiltekins skamms frests hafi enginn erfingi áður hafnað að takast á hendur ábyrgð. Fáist ekki með þessum hætti ábyrgð allra erfingja á skuldbindingum búsins skal litið svo á að þeir hafi allir hafnað að takast hana á hendur.

Skiptastjóri kannar af sjálfsdáðum hvort kröfur um arf eftir þann látna eigi við rök að styðjast. Telji hann framkomna kröfu ekki fá staðist eða verði annars ágreiningur um réttindi til arfs skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.
54. gr.

Skiptastjóri skal leita vitneskju um hverjar eignir tilheyri búinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra eða hafi umsjón með þeim. Hann skal tafarlaust gera ráðstafanir til að tryggja varðveislu eigna og taka ef með þarf við umráðum þeirra eða umsjón með þeim, nema hann telji hættulaust að munir búsins verði áfram í vörslum annarra, enda lýsi vörslumaður þá yfir að hann sé fús til að gæta þeirra áfram á eigin áhættu.

Hafi sá látni verið í hjúskap þegar hann lést skal skiptastjóri, hvort sem erfingjar hafa lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins eða ekki, þegar í stað leita svara maka þess látna við því hvort hann vilji neyta réttar síns til að leysa til sín eignir búsins skv. 35. gr. Lýsi maki yfir vilja til þess skal skiptastjóri krefjast mats á þeim eignum búsins sem nauðsyn ber til hafi þess ekki þegar verið aflað eða sammæli orðið um verðmat þeirra sem skiptastjóri getur fallist á.

Hafi allir erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og maki þess látna hefur ekki neytt réttar til að leysa þær til sín skal skiptastjóri leita svara erfingja á skiptafundi við því hvort þeir krefjist útlagningar á tilteknum eignum til greiðslu arfs. Komi fram krafa um útlagningu skal skiptastjóri krefjast mats á þeim eignum hafi þess ekki þegar verið aflað, nema sammæli verði um verðmat þeirra sem hann getur fallist á. Hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum bús en síðar kemur í ljós að eignir muni koma til arfs skal farið eins með þær eignir sem hefur ekki þá þegar verið ráðstafað við skiptin.

Ákvæði 17.–23. gr. taka til mats sem skiptastjóri krefst á eignum bús og nýtur hann þá einnig þeirrar stöðu sem erfingjum er þar veitt.

Ef ágreiningur rís um réttindi maka til að leysa eignir búsins til sín eða um kröfur maka eða annarra erfingja um að fá þær lagðar sér út skal skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Eins skal farið að ef ágreiningur verður um mat á eignum búsins sem skiptastjóri krefst.
55. gr.

Skiptastjóri skal, svo fljótt sem við verður komið, leita vitneskju um skuldbindingar búsins, eftir atvikum með könnun gagna þess látna og þinglýstra heimilda og með fyrirspurnum til erfingja, innheimtumanna opinberra gjalda og þeirra sem er vitað eða má telja líklegt að hafi átt í viðskiptum við þann látna.
VII. kafli.
Meðferð krafna á hendur búi ef erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar þess.
56. gr.

Skiptastjóri skal gefa út og fá birta innköllun vegna skiptanna ef yfirlýsingar hafa ekki komið fram af hálfu allra, sem af því sem fram er komið verða taldir erfingjar eftir þann látna, um að þeir taki á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins. Eins skal farið að ef ekki er vitað um neinn erfingja eða tilefni er annars til að ætla að ekki sé vitað um þá alla.

Í innköllun skal koma fram nafn þess látna, kennitala, dánardagur og heimilisfang hans þá og að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta samkvæmt úrskurði uppkveðnum tiltekinn dag. Í henni skal skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því innköllunin birtist fyrra sinni og skal tekið fram hvert kröfur skuli sendar. Ef óvíst er hvort allir erfingjar hafi gefið sig fram eða ekki hefur náðst til allra þekktra erfingja skal enn fremur skorað á þá sem telja sig eiga rétt til arfs eftir þann látna að lýsa kröfum sínum innan sama frests.

Innköllunin skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði.
57. gr.

Kröfulýsing skal vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð svo að ekki verði um villst. Í henni skulu kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur búinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur búi á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna.

Þau gögn skulu fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við.

Skiptastjóri skal staðfesta móttöku kröfulýsingar ef eftir því er leitað.

Kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgja sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stund sem hún berst honum.
58. gr.

Ef kröfu á hendur búi er ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 56. gr. fellur hún niður gagnvart búinu nema:
1. kröfunni sé lýst áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu og ef eignir búsins koma til greiðslu arfs, að allir erfingjar samþykki að krafan fái komist að, en ef eignir koma ekki til greiðslu arfs, að samþykki fáist fyrir því hjá
3/
4 hlutum þeirra kröfuhafa sem færu á mis við greiðslu með því að krafan kæmist að, talið bæði eftir höfðatölu þeirra og kröfufjárhæðum,
2. kröfuhafinn sé búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um opinberu skiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
3. krafan hafi fyrst orðið til eftir upphaf opinberra skipta og henni er lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu,
4. ráðstafa megi eign búsins við nauðungarsölu til lúkningar kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar,
5. krafan sé höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu búsins, enda hafi sá sem krefst skuldajafnaðar átt kröfu sína áður en búið var tekið til opinberra skipta.

Krafa um afhendingu eignar, sem búið hefur haft í vörslum sínum, fellur þó ekki niður þótt henni sé ekki lýst innan kröfulýsingarfrests. Hafi búið ráðstafað eigninni áður en kröfu um afhendingu hennar er lýst fer um réttindi á hendur búinu eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti.

Krafa um arf eða gjöf úr búi fellur heldur ekki niður þótt henni sé ekki lýst.
59. gr.

Þegar kröfulýsingarfresti er lokið skal skiptastjóri tafarlaust gera skrá um þær kröfur sem hafa komið fram þar sem hann lætur í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Í skránni skal getið hvers efnis kröfurnar séu, fjárhæða þeirra og umkrafinnar stöðu í skuldaröð ef því er að skipta. Skiptastjóra er þó óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja má fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin.

Þegar kröfuskrá hefur verið gerð skv. 1. mgr. skal skiptastjóri boða erfingja og þá sem hafa lýst kröfum til skiptafundar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Skiptastjóri skal senda erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum eintak af kröfuskrá með boðun sinni. Í boðun til þess sem hefur lýst kröfu skal tekið fram hverja afstöðu skiptastjóri hafi tekið til viðurkenningar kröfu hans eða honum sent eintak kröfuskrár með boðuninni. Í boðun skiptastjóra skal tekið fram hver áhrif það hafi eftir 3. mgr. 60. gr. að andmæli komi ekki fram gegn afstöðu hans til viðurkenningar krafna.
60. gr.

Kröfuhafi, sem vill ekki una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sinnar á hendur búinu, skal lýsa yfir mótmælum sínum á skiptafundi sem er boðað til skv. 59. gr. eða tilkynna það skiptastjóra með bréfi sem berst honum ekki síðar en á þeim fundi. Með sama hætti er erfingja eða kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin.

Skiptastjóri leggur fyrir kröfuskrá og kröfulýsingar á skiptafundi ásamt mótmælum sem kunna að hafa borist skv. 1. mgr. Þar skal hann eftir föngum veita fundarmönnum þær skýringar sem þeir æskja um efni einstakra krafna, ástæður fyrir afstöðu hans til viðurkenningar þeirra og framkomin mótmæli gegn þeim. Komi fram mótmæli á fundinum gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu og þeir eru staddir þar báðir eða allir sem hafa mótmælt og mótmæli beinast gegn skal skiptastjóri reyna að jafna ágreininginn, en annars skal hann boða þá sem eiga hlut að máli sem fyrst til sérstaks fundar í því skyni. Verði ágreiningur ekki leystur með þeim hætti skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.

Að því leyti sem mótmæli koma ekki fram skv. 1. mgr. gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu telst afstaðan endanlega samþykkt við skiptin.
61. gr.

Ef kröfu er lýst eftir að kröfulýsingarfresti er lokið en ekki er víst að hún sé fallin niður fyrir þær sakir skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig hann telji eiga að viðurkenna hana. Hann skal boða erfingja og þann sem hefur lýst kröfunni til skiptafundar með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 59. gr., svo og aðra kröfuhafa ef ekki er orðið ljóst að búið geti efnt kröfur þeirra. Ákvæði 60. gr. gilda um rétt til mótmæla gegn afstöðu skiptastjóra, meðferð mótmæla sem kunna að koma fram og þýðingu þess að engum mótmælum sé hreyft.
62. gr.

Á skiptafundi, sem er haldinn skv. 59. og 60. gr., skal skiptastjóri gera grein fyrir efnahag búsins og tilkynna fundarmönnum hvort hann muni fara með búið eftir því sem segir í 2. mgr. eða 3. mgr.

Telji skiptastjóri víst að andvirði eigna búsins muni nægja til að efna viðurkenndar kröfur á hendur því, að viðbættum kröfum sem ágreiningur stendur enn um og kröfum sem vitað er um og mætti koma að við skiptin þótt þeim hafi ekki verið lýst, skal hann greiða viðurkenndar og gjaldfallnar kröfur eftir því sem fé liggur þegar fyrir og berst síðar, en taka frá fé vegna ógjaldfallinna, umdeildra, skilyrtra eða óframkominna krafna sem hann greiðir þegar efni verða til. Frá skiptafundinum fer þá um skiptin eftir þeim reglum þessara laga sem gilda þegar erfingjar ábyrgjast skuldbindingar búsins eftir því sem þær geta átt við, en ekki verða erfingjar taldir bera ábyrgð á skuldbindingum búsins skv. 3. mgr. 80. gr. af þessum sökum.

Verði ekki farið þannig að sem segir í 2. mgr. skal skiptastjóri tilkynna héraðsdómara það skriflega og fara með búið upp frá því samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti án þess að frekari dómsúrskurðar, innköllunar, auglýsinga eða tilkynninga sé þörf. Verði afgangur eigna þegar skuldbindingar búsins hafa verið efndar skal farið með búið upp frá því eftir ákvæðum 2. mgr.

Erfingi eða kröfuhafi, sem vill ekki una ákvörðun skiptastjóra um það hvort hann fari með búið eftir 2. eða 3. mgr., getur mótmælt henni á þeim skiptafundi þar sem hún er kynnt. Komi slík mótmæli fram og takist skiptastjóra ekki að jafna ágreininginn skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.
VIII. kafli.
Meðferð krafna á hendur búi ef erfingjar ábyrgjast skuldbindingar þess.
63. gr.

Hafi erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins skal innköllun því aðeins gefin út vegna skiptanna að einhver þeirra krefjist þess um leið og hann lýsir yfir ábyrgð af sinni hendi. Skiptastjóri má þó verða við ósk erfingja um útgáfu innköllunar sem kemur fram síðar ef hann ætlar að það muni ekki leiða til teljandi tafa, enda hafi erfingjar ekki þegar fengið útlagðar eignir eða greiðslur upp í arf.

Ef innköllun er gefin út skv. 1. mgr. gilda ákvæði 56.–58. gr. um efni hennar, birtingu og réttaráhrif og um kröfulýsingar og frest til að koma þeim fram.

Þótt innköllun hafi ekki verið gefin út er hverjum þeim sem telur sig eiga kröfu á hendur búinu heimilt að lýsa henni fyrir skiptastjóra í því formi og með þeim áhrifum sem mælt er fyrir um í 57. gr.
64. gr.

Skiptastjóri skal boða erfingja til skiptafundar og kynna þeim kröfur sem er lýst fyrir honum eftir því sem þær berast eða annars svo oft sem hentugt þykir. Hafi innköllun verið gefin út skal þetta að jafnaði gert á einum fundi að liðnum kröfulýsingarfresti.

Hafi kröfu verið lýst og erfingi mótmælir henni hvort sem innköllun var gefin út eða ekki skal skiptastjóri boða hlutaðeigendur til sérstaks fundar til að leitast við að jafna ágreining þeirra, en takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Svo lengi sem kröfunni hefur ekki verið hrundið fyrir dómi nýtur sá sem hefur lýst henni þeirrar stöðu sem er kveðið á um í 2. mgr. 65. gr.

Mótmæli erfingjar ekki lýstum kröfum sem hefur verið fjallað um á skiptafundi og gjaldfallnar eru skal skiptastjóri efna þær fyrir búið í þeirri röð sem þeim var lýst og eftir því sem efni þess hrökkva til, nema erfingjar efni þær sjálfir eða taki að sér efndir þeirra með samþykki hlutaðeigenda. Standi ágreiningur um viðurkenningu gjaldfallinnar kröfu skal taka frá fé eða gera aðrar ráðstafanir til að mæta henni verði hún viðurkennd fyrir dómi.
65. gr.

Hafi innköllun verið gefin út má ekki leggja erfingjum út eignir úr búinu eða greiða þeim arf á annan hátt meðan kröfulýsingarfresti er ólokið.

Að öðru leyti má ekki leggja erfingjum út eignir eða greiða þeim upp í arf nema allar lýstar kröfur hafi verið efndar að því leyti sem efndatími þeirra er kominn og þær eru óumdeildar, en fé tekið frá eða trygging sett fyrir efndum umdeildra gjaldfallinna krafna eða hlutaðeigandi kröfuhafar samþykki annars slíkar ráðstafanir.
66. gr.

Þótt kröfu hafi verið lýst á hendur búi samkvæmt því sem segir í þessum kafla breytir það ekki rétti þess sem það hefur gert til að höfða mál um kröfu sína eða krefjast fullnustugerða án undangengins dóms eða sáttar á hendur erfingjum, einum eða fleiri, í skjóli ábyrgðar þeirra á skuldbindingum búsins.
IX. kafli.
Bústjórn og skiptafundir um ráðstöfun hagsmuna búsins.
67. gr.

Meðan á opinberum skiptum stendur fer skiptastjóri með forræði dánarbúsins og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Hann kemur fram af hálfu búsins fyrir dómi og gerir samninga og aðra löggerninga í nafni þess.

Skiptastjóri skal einkum gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar, að réttindum búsins verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt að því leyti sem þau verða ekki lögð erfingjum út, að kröfur þess og innstæður verði heimtar inn, að engin þau réttindi þess fari forgörðum sem geta haft verðgildi og að gripið verði til þeirra aðgerða sem verða annars taldar nauðsynlegar til að forða það tjóni. Hann skal og gæta þess að peningaeign búsins beri sem hagkvæmasta vexti á reikningi við banka eða sparisjóð með tilliti til þess um hve langan tíma megi ætla að hann hafi hana undir höndum.
68. gr.

Skiptastjóri skal þegar eftir skipun sína gera ráðstafanir um atvinnurekstur bús, gagnkvæma samninga þess og önnur atriði sem verða talin mikilvæg fyrir hagsmuni þess og þola ekki bið. Verði því komið við án þess að hætta sé á að hagsmunir búsins spillist skal skiptastjóri þó áður ráðfæra sig við þá erfingja og kröfuhafa sem eiga helstra hagsmuna að gæta við skiptin eftir því sem fram er komið eða málefnið getur varðað sérstaklega.

Að öðru leyti en því sem er mælt fyrir um í 1. mgr. skal skiptastjóri bera undir skiptafundi hvort mikilsverðum réttindum búsins skuli ráðstafað, hve fljótt það verði gert og hvernig, hvort kröfum verði haldið uppi eða réttindi gefin eftir sem einhverju nema, svo og aðrar ráðstafanir sem geta skipt miklu fyrir hag búsins, nema taka verði ákvörðun til að afstýra tjóni með svo skjótum hætti að því verði ekki komið við. Skiptastjóri getur borið aðrar ráðstafanir undir skiptafundi þótt óskylt sé.

Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem búið kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur erfingi gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Sá erfingi, sem vill gera slíkt, skal tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og bera sjálfur kostnað og áhættu af aðgerðum sínum, en hann getur krafið búið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem því áskotnast fé af þeim.

Kröfuhafi, sem getur ekki vænst fullra efnda kröfu sinnar frá búinu, hefur sömu heimild og erfingjar njóta skv. 3. mgr.

Hafi erfingi eða kröfuhafi tekið að sér hagsmuni búsins skv. 3. eða 4. mgr. getur skiptastjóri hvenær sem er ákveðið að búið taki við þeim á ný, en áður skal þó hlutaðeiganda greiddur sá kostnaður sem hann hefur orðið að bera af þessum sökum.
69. gr.

Þótt erfingjar hafi ekki tekið ábyrgð á skuldbindingum búsins skal boða þá til skiptafunda, nema farið sé með það eftir fyrirmælum 3. mgr. 62. gr.

Hafi erfingjar ekki tekið ábyrgð á skuldbindingum búsins skulu kröfuhafar boðaðir til skiptafunda sem eru haldnir meðan kröfulýsingarfresti er ólokið. Þeir kröfuhafar, sem hafa ekki þegar fengið fullar efndir úr hendi búsins, skulu einnig boðaðir til skiptafunda eftir þann tíma. Hafi kröfuhafi uppi kröfu um annað en peningagreiðslu skal hann þó aðeins boðaður til fundar ef fjallað verður um hagsmuni hans.

Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins þarf ekki að boða aðra en þá til skiptafunda.

Að því leyti sem þarf að ákveða atkvæði á skiptafundum ráðast þau meðal erfingja af arfshlutföllum þeirra, þó þannig að maki þess látna nýtur einnig atkvæða af búshluta sínum ef ákvörðun varðar hjúskapareign. Meðal kröfuhafa ráðast atkvæði af fjárhæðum krafna þeirra, en að því leyti sem krafa er tryggð að hluta, ógjaldfallin, umdeild eða skilyrt, skal skiptastjóri ákveða henni atkvæði til bráðabirgða. Fari erfingjar og kröfuhafar í senn með atkvæði skal hvor hópur fara samanlagt með helming atkvæða. Séu atkvæði greidd um málefni sem varða sérstaka hagsmuni einstaks erfingja eða kröfuhafa skulu atkvæði hlutaðeiganda falla niður.

Skiptastjóra er heimilt að boða aðra til skiptafunda en skylt er skv. 1.–3. mgr. ef fundarefni varðar hagsmuni þeirra eða nærvera þeirra gæti orðið til hagræðis. Slíkir fundarmenn njóta ekki málfrelsis eða tillöguréttar nema að því leyti sem skiptastjóri ákveður.
70. gr.

Skiptafundur er ályktunarfær ef hann er sóttur af þeim sem fara með minnst þriðjung atkvæða skv. 4. mgr. 69. gr.

Ef skiptafundur er ekki ályktunarfær skal skiptastjóri ráða fundarefninu til lykta, nema hann kjósi fremur að boða til nýs fundar um það.

Skiptastjóri er bundinn af ákvörðun ályktunarfærs skiptafundar hafi allir fundarmenn verið á einu máli. Telji skiptastjóri slíka ákvörðun þó andstæða lögum, óheiðarlega, óframkvæmanlega eða bersýnilega fara í bága við hagsmuni erfingja eða kröfuhafa, sem sóttu ekki fundinn eða geta enn gefið sig fram, má hann virða ákvörðunina að vettugi og annaðhvort leggja málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráða málefninu sjálfur til lykta.

Greini fundarmenn á um ákvörðun er skiptastjóra að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktun meiri hlutans. Það skal þó ekki gert ef efni eru til að víkja frá henni vegna þeirra atvika, sem eru talin í 3. mgr., eða ef ætla má að meirahlutavaldi sé misbeitt minni hlutanum til tjóns. Telji skiptastjóri ekki fært að fara að ályktun meiri hlutans getur hann lagt málefnið fyrir nýjan skiptafund eða ráðið því sjálfur til lykta.

Falli atkvæði jöfn á skiptafundi eða fáist annars ekki ályktun meiri hluta skal skiptastjóri ráða málefninu til lykta á þann veg sem hann telur best eiga við, nema hann kjósi fremur að boða til nýs fundar um það.
71. gr.

Skiptastjóri skal kynna niðurstöður um fundarefni skv. 70. gr. jafnharðan á skiptafundum, nema hann telji nauðsynlegt að fresta ákvörðun til nýs fundar. Þá skal hann einnig kynna ráðstafanir sem hann hefur gert um hagsmuni búsins frá því fundur var síðast haldinn og geta skipt máli.

Mæti erfingi eða kröfuhafi ekki til skiptafundar, sem hann hefur verið sannanlega boðaður til, glatar hann rétti til að hafa uppi mótmæli eða kröfur vegna ákvarðana og ráðstafana sem hafa verið teknar þar eða kynntar.

Erfingi eða kröfuhafi, sem á atkvæði um málefni búsins og telur ákvörðun eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta, getur mótmælt henni þegar á þeim fundi sem hún er kynnt, en ella á næsta fundi, sem hann er boðaður til, hafi hann ekki glatað rétti til þess skv. 2. mgr. Komi slík mótmæli fram skal skiptastjóri leitast við að jafna ágreininginn, en takist það ekki skal hann beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Meðan ágreiningur hefur ekki verið leiddur til lykta skulu ekki gerðar ráðstafanir um málefnið nema nauðsynlegt sé til að réttindi eða munir fari ekki forgörðum eða rýrni að mun.
X. kafli.
Lok opinberra skipta og endurupptaka þeirra.
72. gr.

Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og það kemur í ljós, þegar eignum búsins hefur verið komið í verð og kröfulýsingarfresti er lokið ef innköllun hefur verið gefin út, að andvirði eigna nægi ekki nema til að greiða lýstar kröfur að nokkru leyti eða öllu, skal skiptastjóri ráðstafa fénu til greiðslu skiptakostnaðar og krafna samkvæmt því sem segir í 3. mgr. 64. gr., en gera síðan yfirlit um það fé sem hann hefur tekið við í þágu búsins og ráðstöfun þess. Að því gerðu skal hann boða erfingja til skiptafundar með minnst tveggja vikna fyrirvara til að ljúka skiptunum. Eintak yfirlitsins skal fylgja boðuninni.

Komi ekki fram ábendingar um frekari eignir eða réttindi búsins á skiptafundi sem er haldinn skv. 1. mgr. ritar skiptastjóri á yfirlit sitt að skiptum sé lokið með þeim ráðstöfunum sem þar koma fram. Skal hann tilkynna þetta héraðsdómara skriflega, svo og sýslumanni sem skiptin áttu undir.

Verði ágreiningur um hvort skilyrði séu til að ljúka skiptum samkvæmt því sem segir í 2. mgr. skal skiptastjóri leitast við að jafna hann á skiptafundinum eða á sérstökum fundi með hlutaðeigendum. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr.

Skiptum má ljúka samkvæmt framansögðu þótt svo standi á sem segir í 76. gr., en þá skal farið eftir ákvæðum þeirrar greinar eftir því sem átt getur við.
73. gr.

Nú hefur sá látni verið í hjúskap, erfingjar hans hafa tekið á sig ábyrgð á skuldbindingum búsins eða farið er með skiptin eftir 2. mgr. 62. gr. og kröfulýsingarfresti er lokið ef innköllun hefur verið gefin út, og maki þess látna tilkynnir skiptastjóra skriflega að hann óski eftir að setjast í óskipt bú með einhverjum samerfingja sinna eða þeim öllum. Skal þá skiptastjóri, ef hann telur skilyrðum laga fullnægt fyrir slíkri heimild, senda þeim sýslumanni, sem skiptin áttu undir, umsókn makans um leyfi til setu í óskiptu búi og samrit þeirra gagna sem hann hefur undir höndum og geta skipt máli við mat á umsókninni. Veiti sýslumaður leyfið skal skiptastjóri ljúka opinberum skiptum þá þegar, eftir atvikum að því leyti sem efni eru til, og láta makanum í té forræði á þeim eignum sem renna til óskipta búsins, enda hafi kostnaður af skiptunum þá verið greiddur.

Ekki stendur það í vegi fyrir að opinberum skiptum ljúki skv. 1. mgr. að gjaldfallnar kröfur hafi ekki greiðst eða trygging verið sett fyrir þeim, en skiptastjóri skal þá tilkynna hlutaðeigandi kröfuhöfum um málalokin. Ef dómsmáli er ólokið til að leysa úr ágreiningi um kröfu á hendur búinu skal því þó haldið áfram ef kröfuhafinn kýs svo, en maki þess látna tekur þá við málsaðild af búinu og verður bundinn af niðurstöðu þess ef þeir hagsmunir sem um er að tefla renna til óskipta búsins eða falla á það.

Skiptastjóri tilkynnir héraðsdómara um lok opinberra skipta skv. 1. mgr.
74. gr.

Ef skilyrðum 28. gr. er fullnægt geta erfingjar komið því á framfæri við skiptastjóra að þeir óski eftir að fá leyfi til einkaskipta á búinu, enda sé kröfulýsingarfresti lokið ef innköllun hefur verið gefin út og lýstar og gjaldfallnar kröfur greiddar, trygging sett eða fé tekið frá fyrir þeim eða ófullnægðir kröfuhafar samþykkja ósk erfingjanna skriflega. Telji skiptastjóri að skilyrði geti verið fyrir einkaskiptum skal hann senda beiðni erfingjanna um heimild til þeirra þeim sýslumanni sem skiptin áttu undir. Veiti sýslumaður leyfið skal skiptastjóri ljúka opinberum skiptum þá þegar og láta erfingjum í té forræði á eignum búsins, en áður skal þó kostnaður af skiptunum greiddur.

Ef leyfi er veitt til einkaskipta skv. 1. mgr. og dómsmál er rekið til að leysa úr ágreiningi um kröfu á hendur búinu skal því haldið áfram ef gagnaðili búsins kýs svo, en erfingjar taka þá við fyrirsvari fyrir búið af skiptastjóra.

Skiptastjóri tilkynnir héraðsdómara um lok opinberra skipta skv. 1. mgr.
75. gr.

Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldum og skilyrðum 65. gr. er fullnægt, eða ef svo er ástatt sem segir í 2. mgr. 62. gr., getur skiptastjóri afhent þeim þær eignir, sem er afráðið að þeir fái lagðar sér út að arfi, þótt skiptum verði ekki enn lokið vegna annarra ástæðna. Skiptastjóri skal þó gæta þess að útlagning eigi sér ekki stað nema fé liggi fyrir til greiðslu skiptakostnaðar og að erfingi eigi enn tilkall til fjár sem nægi til greiðslu erfðafjárskatts úr hendi hans eða hann reiði það af hendi.

Kröfur gjafþega skulu efndar jafnskjótt og afráðið er um réttmæti þeirra og að búið geti efnt þær, enda greiði gjafþegi skiptastjóra um leið erfðafjárskatt vegna gjafarinnar og kostnað sem kann að leiða af varðveislu og afhendingu hennar.
76. gr.

Skiptastjóri getur ákveðið að ljúka skiptum þótt kröfu hafi verið lýst sem er háð ókomnu skilyrði eða dómsmál er rekið um, eða sá tími er ókominn sem búið getur krafist að fá að efna hana ef fyrirséð þykir að nokkur bið verði enn eftir málalokum. Hafi erfingjar ekki lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum skal fé tekið frá til að efna slíkar kröfur, svo og endranær ef dómsmál er rekið um gjaldfallna kröfu, en um varðveislu þess og endurupptöku skipta til úthlutunar á því fer eftir 82. gr.

Ef búið telur til eigna eða réttinda sem eru umdeild eða má vænta að teljandi bið verði eftir að megi koma í verð eða komi til greiðslu getur skiptastjóri ákveðið að ljúka skiptum án tillits til þeirra. Hann skal þó fylgja réttindunum eftir og taka skiptin upp á ný skv. 83. gr. þegar búið getur ráðstafað þeim. Skiptastjóra er rétt að taka fé frá til að mæta útgjöldum af þessum sökum, en um meðferð þess skal farið eftir 1. mgr. að því leyti sem það nýtist ekki til fulls.
77. gr.

Þegar opinberum skiptum lýkur ekki skv. 72.–74. gr., lýstar kröfur á hendur búinu hafa eftir atvikum verið efndar og eignum þess hefur verið komið í verð að öðru leyti en því sem leiðir af fyrirmælum 75. og 76. gr., skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, gera frumvarp til úthlutunar úr búinu. Í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram eftir því sem tilefni er til:
1. Yfirlit um eignir búsins, þannig að ráða megi af því hvað hafi verið til í reiðufé, fengist fyrir einstaka muni, innheimst af kröfum, unnist í vexti o.s.frv., en eignir sem hafa verið útlagðar erfingjum eða gjafþegum skulu greindar á því verði sem hefur verið metið eða ákveðið á annan hátt.
2. Yfirlit yfir kostnað af útför þess látna og af skiptunum sjálfum, en síðan skal greint hvað hafi verið greitt hverjum skuldheimtumanni, afhent gjafþegum eða varið á annan hátt til að efna skuldbindingar búsins.
3. Yfirlit um eignir sem koma ekki enn til skipta og fé sem er tekið frá um sinn, sbr. 76. gr.
4. Hversu mikið hver erfingi fái að arfi og að hverju marki hann fái muni lagða sér út og greiðslu í peningum, en tiltekið skal hverri fjárhæð verði haldið eftir til greiðslu erfðafjárskatts hvers erfingja eða eftir atvikum hvort erfingi hafi þegar reitt hann af hendi.

Það skal og tekið fram í frumvarpi ef erfðafé verður varðveitt eftir ákvæðum 81. gr. og með hverjum hætti það verði gert.
78. gr.

Skiptastjóri skal boða erfingja, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar með minnst tveggja vikna fyrirvara og skal eintak þess fylgja boðuninni. Það skal tekið fram í boðun að verði fundurinn ekki sóttur af hálfu erfingja eða hafi hann ekki uppi mótmæli þar gegn frumvarpinu þá verði litið svo á að hann samþykki það.

Á skiptafundi, sem er haldinn skv. 1. mgr., skal skiptastjóri leggja frumvarpið fram og veita þær upplýsingar sem erfingjar æskja um það. Erfingjum er rétt að krefjast aðgangs að gögnum um reikningshald búsins sem skiptastjóri hefur undir höndum.

Hafi erfingjar ekki uppi mótmæli á fundinum skal frumvarpið talið endanlega samþykkt af þeirra hendi, hvort sem þeir sækja fundinn eða ekki. Skiptastjóri skal þá rita á frumvarpið að það hafi verið samþykkt sem úthlutunargerð úr búinu og að skiptum sé þar með lokið.
79. gr.

Komi fram mótmæli gegn frumvarpi á skiptafundi skv. 78. gr. og þau varða önnur atriði þess en þau sem hlutaðeigandi hefur þegar glatað rétti til að mótmæla skv. 2. mgr. 71. gr. skal skiptastjóri krefja þann svara sem hefur mótmælin uppi um hverjar breytingar hann telji eiga að gera á frumvarpinu.

Komi eingöngu fram mótmæli sem skiptastjóri telur efni til að fallast á getur hann breytt frumvarpinu þeim til samræmis og lokið skiptum, ef aðeins eru leiðréttar augljósar eða óverulegar skekkjur eða fundurinn er sóttur af hálfu allra erfingja og þeir gera engar athugasemdir. Verði það ekki gert skal skiptastjóri boða til nýs fundar skv. 78. gr. um frumvarpið svo breytt.

Verði mótmælum ekki sinnt með þeim hætti, sem segir í 2. mgr., skal skiptastjóri kveðja þá til fundar sem mótmælin varða, séu þeir ekki á skiptafundinum, og leitast við að jafna ágreininginn. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. Meðan slíkur ágreiningur er ekki leiddur til lykta verður skiptum ekki lokið nema allir hlutaðeigendur samþykki. Þegar ágreiningur hefur verið leiddur til lykta skal skiptastjóri gera nýtt frumvarp til úthlutunar og boða til fundar um það, sbr. 77.–79. gr., nema forsendur fyrra frumvarps standi óhaggaðar og telst það þá samþykkt.
80. gr.

Þegar frumvarp hefur verið samþykkt skal skiptastjóri standa skil á erfðafjárskatti og greiða erfingjum, umboðsmönnum þeirra eða lögráðamönnum arf og láta þeim í té skilríki fyrir eignarheimildum að því leyti sem það hefur ekki þegar verið gert.

Skiptastjóri skal tilkynna héraðsdómara skriflega að skiptum sé lokið. Einnig skal hann tilkynna það sýslumanni sem skiptin áttu undir og láta eintak úthlutunargerðar fylgja.

Hafi erfingjar lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum búsins og innköllun hefur ekki verið gefin út við opinber skipti bera þeir ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn á þeim skuldbindingum þess látna sem kunna síðar að koma fram þótt ekki hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum lauk. Hafi innköllun verið gefin út bera þeir aðeins ábyrgð á þeim skuldbindingum sem var lýst eða halda gildi þrátt fyrir vanlýsingu en voru ekki greiddar við skiptin.
81. gr.

Hafi erfingi ekki gefið sig fram við skiptin og ókunnugt er hvar verði náð til hans skal skiptastjóri leggja erfðafé hans á reikning við banka eða sparisjóð, sem beri svo háa vexti sem kostur er. Hann skal afhenda sýslumanni, sem skiptin áttu undir, skilríki fyrir slíkum reikningi til varðveislu.

Hafi sýslumanni verið afhent skilríki fyrir arfi skv. 1. mgr., en innköllun hefur ekki verið gefin út til erfingja við skiptin, skal hann svo fljótt sem verða má fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði áskorun til erfingjans um að vitja arfsins að því viðlögðu að fénu verði ráðstafað skv. 3. mgr.

Gefi erfingi sig ekki fram við sýslumann til að vitja arfs, sem er varðveittur skv. 1. mgr., eða einhver sá sem getur sannað rétt sinn til fjárins innan tíu ára frá því innköllun til erfingja var birt eða áskorun skv. 2. mgr., geta erfingjar þess, sem féð var varðveitt fyrir, krafist að fá það afhent eins og sá hefði ekki lifað þegar arfurinn féll. Komi slík krafa ekki fram innan eins árs frá lokum þess frests skal sýslumaður greiða féð í ríkissjóð.

Hafi erfingja verið skipaður málsvari skv. 2. mgr. 13. gr. og erfinginn getur ekki tekið við arfi sínum við lok skipta skal skiptastjóri fara svo að sem segir í 1. mgr. Sýslumaður varðveitir þá arfinn þar til erfinginn verður fær um að taka við honum eða annar sannar rétt sinn til að taka við honum í stað erfingjans.
82. gr.

Hafi skiptastjóri lokið skiptum en tekið frá fé til að mæta skilyrtri kröfu, umdeildri eða ógjaldfallinni, skal það lagt á sérgreindan reikning við banka eða sparisjóð sem beri svo háa vexti sem kostur er. Skiptastjóri varðveitir skilríki fyrir slíkum reikningi.

Þegar komið er í ljós um skilyrði fyrir kröfu, ágreiningur um hana hefur verið leiddur endanlega til lykta eða sá tími er kominn að hana megi efna, skal skiptastjóri taka skiptin upp á ný, ótilkvaddur eða samkvæmt kröfu erfingja eða þess sem á rétt til greiðslu. Skiptastjóri skal þá greiða kröfuna hafi málalok orðið á þann veg, en standi eitthvað eftir af því sem tekið var frá skal hann tafarlaust gera frumvarp til viðbótarúthlutunar til erfingja og fara að öðru leyti svo að sem segir í 78.–81. gr. Nemi sú fjárhæð svo litlu sem kæmi í hlut hvers erfingja að hún standi ekki undir kostnaði af viðbótarúthlutun má skiptastjóri þó greiða hana í ríkissjóð.
83. gr.

Hafi skiptum verið lokið án tillits til eignar sem búið gat þá ekki ráðið yfir, sbr. 2. mgr. 76. gr., skal skiptastjóri ótilkvaddur og tafarlaust taka skiptin upp á ný ef eignin stendur búinu til ráðstöfunar. Standi andvirði eignarinnar undir kostnaði af því skal skiptastjóri boða til skiptafundar um ráðstöfun hennar ef nauðsyn ber til, en að ráðstöfun lokinni skal hann gera frumvarp til viðbótarúthlutunar til erfingja og fara annars svo að sem segir í 78.–81. gr. Að öðrum kosti ráðstafar hann eigninni og greiðir andvirði hennar í ríkissjóð.

Komi fram eign eftir skiptalok, sem hefði átt að falla til búsins, skal skiptastjóri taka skiptin upp á ný, ótilkvaddur eða eftir kröfu erfingja. Að öðru leyti skal farið eftir fyrirmælum 1. mgr.
84. gr.

Opinber skipti verða ekki endurupptekin að öðru leyti en heimilað er í 82. og 83. gr.

Gefi einhver sig fram innan tíu ára frá lokum opinberra skipta sem hefði átt rétt til arfs eða gjafar úr búinu en gengið var framhjá við skiptin getur hann krafið hvern þann fyrir sig sem naut arfs í hans stað um endurgreiðslu fyrir sitt leyti. Sá sem naut arfsins verður ekki krafinn um arð eða vexti af fénu nema hann hafi tekið við arfinum gegn betri vitund.
3. þáttur.
Einkaskipti dánarbúa.
XI. kafli.
Staða erfingja og kröfuhafa við einkaskipti.
85. gr.

Frá því erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi skv. 31. eða 74. gr. og þar til skiptum lýkur eða leyfi þeirra fellur niður fara þeir í sameiningu með forræði búsins og eru einir bærir um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, þar á meðal við samningsgerð, fyrir dómi eða stjórnvöldum.

Erfingjum er heimilt að fela tilteknum manni, einum eða fleiri, að koma fram af hálfu búsins gagnvart öðrum í vissum lögskiptum eða í öllu tilliti eftir því sem þeir ákveða nánar, sbr. 2. mgr. 29. gr.
86. gr.

Við ráðstöfun á málefnum búsins verða erfingjar að vera einhuga um ákvörðun nema þeir semji um annað. Samningur milli erfingja um að ákvörðun ráðist af atkvæði meiri hluta þeirra girðir ekki fyrir að hver þeirra geti um sig krafist opinberra skipta á búinu skv. 1. mgr. 38. gr.
87. gr.

Erfingjum er heimilt að gefa út og fá birta innköllun í Lögbirtingablaði og skora þar á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslum þess að lýsa þeim fyrir tilgreindum manni innan ákveðins frests. Slík innköllun hefur ekki þau áhrif sem er mælt fyrir um í 58. gr.

Hvort sem erfingjar gefa út innköllun eða ekki getur hver sá sem telur sig eiga rétt á hendur búinu lýst kröfu sinni fyrir erfingjunum eða þeim manni sem þeir hafa tilnefnt til að svara fyrir hagsmuni búsins. Slík kröfulýsing hefur ekki þau áhrif sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 57. gr., nema mál sé rekið um hana eftir 2. mgr. 90. gr.

Mál verður ekki höfðað á hendur dánarbúi þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta nema að því leyti sem mælt er fyrir um heimild til þess í 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 88. gr. og 2. mgr. 90. gr. Þó má hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms á hendur dánarbúi ef það hefur höfðað mál um sína hagsmuni.
88. gr.

Fjárnám verður ekki gert í eign dánarbús þótt erfingjar hafi leyfi til einkaskipta, hvorki til fullnustu kröfu á hendur þeim látna né erfingja, einum eða fleiri, nema eignin standi að fyrra bragði til tryggingar fyrir kröfunni. Það sama á við um kyrrsetningu og löggeymslu.

Hafi erfingjar leyfi til einkaskipta getur sá sem hefur aflað sér dóms á hendur þeim látna um skyldu hans til athafnar fylgt kröfu sinni samkvæmt dóminum eftir með aðför á hendur dánarbúinu að því leyti sem kröfunni verður fullnægt eftir aðalefni sínu án fjárnáms. Þá má einnig beina kröfu að dánarbúi um útburðar- eða innsetningargerð án undangengins dóms og sáttar. Kröfu um málskostnað, sem kann að vera lagður á búið vegna ágreinings um aðför eftir þessari málsgrein, má fullnægja með fjárnámi á hendur erfingja, svo og kröfu um kostnað af gerðinni sem hefur verið ákveðinn við framkvæmd hennar.

Sá sem telur athöfn erfingja í nafni búsins brjóta gegn lögvörðum rétti sínum getur krafist að lögbann verði lagt við henni eftir almennum reglum, ef þeir hafa leyfi til einkaskipta. Mál til staðfestingar á lögbanni verður þá höfðað á hendur dánarbúinu og má sækja það í þeirri þinghá þar sem skiptin fara fram. Í slíku máli má dæma búið til greiðslu skaðabóta vegna brots á lögbanni og málskostnaðar, en slíku dómsákvæði má fullnægja með fjárnámi hjá erfingja.

Krefjast má nauðungarsölu á eign dánarbús eftir almennum reglum ef erfingjar hafa leyfi til einkaskipta og þeirri kröfu verður komið fram án aðgerða sem ákvæði 3. mgr. 87. gr. eða 1. mgr. þessarar greinar girða fyrir.
89. gr.

Ákvæði 87. og 88. gr. breyta í engu rétti þess sem telur sig eiga kröfu á hendur dánarbúi til að sækja hana á hendur erfingja í skjóli ábyrgðar hans á skuldbindingum búsins.
90. gr.

Ef ágreiningur rís milli erfingja við einkaskipti, hvort sem er um réttindi þeirra til arfs, réttindi eða skyldur búsins eða ráðstafanir á hagsmunum þess, getur einn þeirra eða fleiri leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið eftir 123. gr. meðan skiptum er enn ólokið. Dómsmál verður ekki höfðað með öðrum hætti til að fá leyst úr slíku ágreiningsefni.

Ef ágreiningur verður um kröfu sem er beint að dánarbúi skv. 2. mgr. 87. gr. og erfingjar og sá sem hefur hana uppi eru allir á einu máli um það geta þeir leitað úrlausnar héraðsdóms um ágreiningsefnið eftir ákvæðum 123. gr. meðan skiptum er enn ólokið.

Einkaskiptum verður ekki lokið meðan máli skv. 1. eða 2. mgr. er ólokið nema allir hlutaðeigendur séu á það sáttir, en málinu má þá halda áfram í óbreyttu horfi þótt skiptum sé lokið.
XII. kafli.
Niðurfelling leyfis til einkaskipta.
91. gr.

Sýslumaður skal fella niður leyfi til einkaskipta og taka við forræði búsins á ný ef erfingjar ljúka ekki skiptum innan þess frests sem hann hefur veitt þeim, þeir hlíta ekki öðrum skilyrðum sem hann hefur sett fyrir einkaskiptum eða hann synjar um staðfestingu einkaskiptagerðar skv. 2. mgr. 94. gr. Erfingjum skal þó að jafnaði gefinn kostur á að tala máli sínu áður en leyfi verður fellt niður og er sýslumanni heimilt að veita þeim tiltekinn frest til úrbóta ef hann telur það geta borið árangur.

Leyfi til einkaskipta verður ekki að öðrum kosti fellt niður nema eftir ákvæðum 45. gr.
92. gr.

Ráðstafanir erfingja á hagsmunum búsins gagnvart þriðja manni, sem þeir hafa gert í skjóli leyfis til einkaskipta, raskast ekki af því einu að leyfi þeirra sé síðar fellt niður. Ákvarðanir, sem erfingjar hafa tekið um réttindi sín á milli, binda þá eftir reglum um gildi loforða, sbr. þó 2. mgr.

Hafi erfingjar fengið eignir búsins útlagðar við einkaskipti og leyfi þeirra er síðan fellt niður ber hverjum þeirra að skila því aftur sem hann hefur tekið við ef búið krefst þess. Geti erfingi ekki skilað eign má búið krefja hann um fjárhæð sem nemur andvirði hennar þegar útlagning átti sér stað ásamt vöxtum.
XIII. kafli.
Lok einkaskipta.
93. gr.

Þegar erfingjar telja málefnum búsins nægilega ráðið til lykta og innan þess frests sem þeim hefur verið ákveðinn til að ljúka einkaskiptum skulu þeir leggja einkaskiptagerð fyrir sýslumann. Í henni skal eftirfarandi m.a. koma fram:
1. Nafn þess látna, kennitala, dánardagur og heimilisfang á dánardægri.
2. Hverjir séu erfingjar þess látna, kennitölur þeirra og heimilisföng, og eftir atvikum hverjir hafi komið fram af þeirra hálfu sem lögráðamenn eða málsvarar.
3. Hverjar eignir búsins hafi verið í byrjun og hvað hafi fengist í arð eða vexti af þeim, en tiltekið skal verðgildi einstakra muna eða safns samkynja muna sem erfingjar leggja til grundvallar um skiptin sín á milli.
4. Hverjar kröfur hafi komið fram á hendur búinu, hverjar þeirra hafi verið greiddar og hvernig fari um þær sem hafa ekki enn verið efndar.
5. Hvernig hver erfingi hafi fengið eða muni fá arf sinn greiddan eða lagðan sér út.

Einkaskiptagerð skal vera skrifleg og undirrituð af erfingjum eða umboðsmönnum þeirra, lögráðamönnum eða málsvörum. Þau gögn skulu fylgja henni sem erfingjar telja horfa til skýringa.

Við afhendingu einkaskiptagerðar skulu erfingjar leggja þær yfirlýsingar fyrir sýslumann til staðfestingar sem þeir þurfa á að halda til að þinglýsa eða skrá eignarréttindi sín að munum eða réttindum sem þeir taka að arfi. Þá skulu erfingjar enn fremur afhenda sýslumanni þær skýrslur og skjöl sem þeim er skylt til ákvörðunar og greiðslu erfðafjárskatts.

Nú eru eignir búsins óverulegar eða einkaskiptin eru einföld í sniðum af öðrum ástæðum, og er þá sýslumanni heimilt að ósk erfingja að láta hjá líða að krefja þá um einkaskiptagerð ef honum þykja nægar upplýsingar koma fram í erfðafjárskýrslu um þann látna, erfingja hans, eignir búsins og skuldbindingar þess. Ef einkaskiptagerð er ekki lögð fyrir sýslumann skal litið svo á að erfingjar hafi fengið allar eignir búsins lagðar út eftir arfshlutföllum, eftir atvikum með tilliti til búshluta maka þess látna.
94. gr.

Sýslumaður skal, svo fljótt sem verða má, taka afstöðu til einkaskiptagerðar og þeirra skjala sem erfingjar leggja fyrir hann eftir 3. mgr. 93. gr. Honum er heimilt að krefja erfingja um nánari skýringar á sérhverju því sem hann telur þörf og frekari gögn um einstök atriði.

Telji sýslumaður skorta á að einkaskiptagerð fullnægi ákvæðum 1. og 2. mgr. 93. gr. eða að eignir eða skuldbindingar búsins kunni að vera svo vantaldar eða ranglega metnar að hætta sé á að erfðafjárskattur verði ekki réttilega ákveðinn eða að brotið verði gegn réttindum erfingja sem lögráðamaður eða málsvari kemur fram fyrir skal hann að öðru jöfnu gefa erfingjum kost á að bæta úr því sem er áfátt, þá þegar eða innan tiltekins frests. Sinni erfingjar því ekki eða telji sýslumaður annmarka svo verulega að ekki megi ætla að erfingjar muni bæta úr skal hann synja um staðfestingu einkaskiptagerðar. Eins skal farið að ef annmarkar eru á þeim gögnum sem erfingjum ber að láta af hendi eftir 3. mgr. 93. gr., en sýslumanni er þó heimilt að staðfesta einkaskiptagerð þótt ekki liggi fyrir fullnægjandi yfirlýsingar um eignarréttindi erfingja að einstökum munum eða réttindum búsins.

Ef sýslumaður telur einkaskiptagerð og önnur framkomin skjöl fullnægjandi skal hann árita hana um staðfestingu.
95. gr.

Einkaskiptum er lokið þegar sýslumaður hefur staðfest einkaskiptagerð skv. 3. mgr. 94. gr.

Einkaskipti verða ekki tekin upp á ný nema síðar komi fram eignir sem hefðu átt að koma til skipta. Erfingjar skulu tilkynna sýslumanni ef slíkt tilefni verður til að taka skiptin upp, en leyfi til einkaskipta skal þá gefið út á ný eftir fyrri umsókn þeirra, eftir atvikum að fengnum yfirlýsingum þeirra sem koma í stað látinna erfingja. Skiptum skal síðan lokið á ný eftir ákvæðum 93. og 94. gr., en við endurupptöku verður ekki hreyft við því sem áður var gert við skiptin.

Ákvæði 2. mgr. 84. gr. gilda um rétt þess sem kann að hafa verið gengið framhjá við einkaskipti.
96. gr.

Hafi sérstakur lögráðamaður verið skipaður skv. 1. mgr. 13. gr. skal hann tafarlaust afhenda reglulegum lögráðamanni erfingjans arfinn eða skilríki fyrir honum þegar útlagning hefur átt sér stað eða einkaskiptum hefur verið lokið.

Hafi erfingja verið skipaður málsvari skv. 2. eða 3. mgr. 13. gr. skal málsvarinn standa skil á arfinum eftir 1. eða 4. mgr. 81. gr. Hafi málsvari verið skipaður eftir 3. mgr. 13. gr. skal sýslumaður fara svo að sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 81. gr.
97. gr.

Eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið.
4. þáttur.
Opinber skipti á öðru en dánarbúum.
XIV. kafli.
Opinber skipti til fjárslita milli hjóna o.fl.
98. gr.

Hafi annað hjóna eða þau bæði sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng, en sammæli hafa ekki tekist um skipti milli þeirra fyrir yfirvaldi, getur annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra, enda séu ekki leiddar að því líkur að umsókn um leyfi til skilnaðar kunni að verða hafnað.

Hafi dómsmál verið höfðað til skilnaðar hjóna að borði og sæng, lögskilnaðar þeirra eða ógildingar hjúskaparins, getur annað þeirra eða þau bæði krafist að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra.
99. gr.

Annað hjóna getur krafist opinberra skipta til fjárslita milli sín og maka síns þótt hjúskapnum hafi ekki verið slitið:
1. ef maki þess rýrir hjúskapareign sína með vangæslu á fjármálum sínum, misbeitingu á ráðum yfir hjúskapareign eða annarri óhæfilegri framkomu, eða gefur sérstakt tilefni til óttast að svo fari,
2. ef bú maka þess er tekið til gjaldþrotaskipta.

Hjón geta að auki krafist opinberra skipta til fjárslita milli sín ef þau eru sammála um það.
100. gr.

[Við slit á óvígðri sambúð getur annar sambúðarmaka eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár.]
1)
1)L. 65/2010, 12. gr.
101. gr.

Krafa um opinber skipti skal vera skrifleg og skal henni beint til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem aðilarnir eiga eða áttu síðast sameiginlegt lögheimili, nema þeir semji um annað.

Í kröfu um opinber skipti skal eftirfarandi koma fram:
1. Nöfn aðilanna, kennitölur þeirra beggja og heimilisföng, ásamt upplýsingum um umboðsmenn sem þau kunna að hafa tilnefnt vegna málefnisins.
2. Hvor aðilanna hafi uppi kröfu um opinber skipti og á hverju hann byggi rétt sinn til þess.
3. Hverjar séu helstu eignir og skuldir aðilanna, en greint skal sérstaklega milli hjúskapareigna og séreigna ef um hjón er að ræða.

Gögn skulu fylgja kröfunni til stuðnings því að skilyrði séu fyrir opinberum skiptum skv. 98., 99. eða 100. gr., svo og önnur gögn sem má ætla að hafi þýðingu við mat á kröfunni.

Krafa um opinber skipti verður því aðeins tekin til greina að telja megi sýnt af því sem fram er komið að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði eða sá sem hefur kröfuna uppi setji tryggingu fyrir honum. Sá sem krefst opinberra skipta ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu í byrjun.

Farið skal eftir ákvæðum 43. gr. og 1.–5. mgr. 44. gr. við meðferð kröfu og úrskurð héraðsdómara um opinber skipti samkvæmt þessum kafla.
102. gr.

Skiptin teljast byrjuð þegar héraðsdómari kveður upp úrskurð um að opinber skipti fari fram eða krafa um þau er fyrst tekin til greina fyrir æðra dómi. Skipar héraðsdómari þá skiptastjóra til að fara með þau með bókun í þingbók. Ákvæði V. kafla taka til skiptastjóra við opinber skipti eftir þessum kafla.
103. gr.

Ef aðili að opinberu skiptunum er ólögráða kemur lögráðamaður fram af hans hálfu við þau, þar á meðal varðandi kröfu um þau.

Hafi krafa um opinber skipti verið tekin til greina og svo er ástatt um aðila að þeim sem segir í 2. eða 3. mgr. 13. gr. skal skiptastjóri fara þess á leit við sýslumann að hann skipi aðilanum málsvara til að koma fram fyrir hans hönd við skiptin, nema skiptastjóri telji að það megi ljúka þeim án þess að atbeina aðilans verði þörf. Ákvæði 4. mgr. 13. gr., 14. gr., 15. gr. og 2. mgr. 96. gr. gilda um slíka málsvara.
104. gr.

Ef ekki verða sammæli um annað koma aðeins til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem verða ekki taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar, héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber skipti til fjárslita milli hjóna án skilnaðar eða ógildingar hjúskapar, eða óvígðri sambúð var slitið. Að auki skulu koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðan af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal aðeins tekið tillit til skulda aðilanna sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er hvoru hjóna um sig heimilt að krefjast að fá muni til eignar utan skipta, sem því eru nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni eða hefur eingöngu eða aðallega verið aflað til afnota þess, hvort sem munirnir eru hjúskapareignir þess sjálfs eða hins hjónanna, ef verðgildi munanna er ekki slíkt að þetta verði talið ósanngjarnt gagnvart hinu hjónanna, og það hjónanna sem fær muni með þessum hætti tekur að sér þær skuldir sem hvíla á mununum eða hafa orðið til vegna öflunar þeirra. Með sömu skilyrðum getur það hjónanna sem fer með forsjá sameiginlegs ófjárráða barns þeirra krafist af hálfu barnsins að það fái til eignar utan skipta muni sem það hefur haft afnot af úr hjúskapareign hvors hjónanna um sig. Við fjárslitin skal ekki tekið tillit til eigna og skulda sem er farið með á þennan hátt.

Sambýlisfólk og sameiginleg ófjárráða börn þeirra njóta sama réttar og mælt er fyrir um í 2. mgr. þegar opinber skipti fara fram við slit óvígðrar sambúðar.
105. gr.

Skiptastjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir skipun hans, boða aðilana, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar og leita þar vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta skv. 104. gr., hvorum aðilanum þær tilheyri, hvert verðmæti þeirra sé, hvar þær sé að finna, hver fari með umráð þeirra og hvort séreignir séu fyrir hendi og þá hverjar.

Skiptastjóri heldur svo oft skiptafundi sem hann telur þörf til að afla upplýsinga um þau atriði sem er getið í 1. mgr. Að öðru leyti leitar hann ekki vitneskju um þau sjálfur, nema annar aðilinn eða báðir krefjist þess og honum verði talið kleift að verða við því.

Verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin getur hvor aðilinn sem er krafist að skiptastjóri æski mats á þeim eftir 17.–23. gr. og njóta þá báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum er veitt í þeim ákvæðum. Skiptastjóra skal gefinn kostur á að vera viðstaddur þegar mat fer fram.

Hafi eignum eða réttindum, sem ættu að koma til skipta, verið ráðstafað eftir þann tíma, sem getur í 1. mgr. 104. gr., en áður en opinber skipti byrjuðu og sammæli verða ekki annaðhvort um að taka ekki tillit til þeirra eða um verðgildi þeirra, skal það ákveðið með mati með sama hætti og segir í 3. mgr.
106. gr.

Á skiptafundum sem eru haldnir skv. 105. gr. skal skiptastjóri enn fremur afla upplýsinga um þær skuldir aðilanna sem koma til álita eftir 1. mgr. 104. gr. Að öðru leyti leitar hann ekki sjálfur vitneskju um skuldir, nema annar aðilinn eða þeir báðir krefjist þess og honum verði talið kleift að verða við því.

Telji annað hjóna sig eiga endurgjaldskröfu á hendur hinu eða að hinu beri að greiða skuld af séreign sinni skal það koma fram á skiptafundi þegar leitað er vitneskju um skuldir að öðru leyti.

Ef annar aðilinn eða báðir óska eftir því á fyrsta skiptafundi skal skiptastjóri gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á þá sem telja til skulda á hendur aðilunum að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því innköllunin birtist fyrra sinni. Skiptastjóri má verða við ósk um þetta, þótt hún komi síðar fram, ef skiptin eru enn skammt á veg komin og hann telur innköllun munu þjóna tilgangi og ekki leiða til óþarfa tafa.

Innköllun skv. 3. mgr. hefur ekki þau áhrif sem er mælt fyrir um í 4. mgr. 57. gr. og 58. gr. og veitir hún kröfuhöfum hvorki rétt til afskipta né til að krefjast efnda við skiptin. Við skiptin skal tekið tillit til krafna sem berast eftir lok kröfulýsingarfrests en áður en skiptum lýkur.

Hvort sem innköllun er gefin út eða ekki skal skiptastjóri gefa báðum aðilunum kost á að tjá sig á skiptafundi um þær skuldir sem upplýst er um.
107. gr.

Aðilarnir eiga hvor um sig rétt á að hafa vörslur þeirra eigna sem koma til skipta skv. 104. gr. og þeir höfðu í vörslum sínum þegar opinber skipti byrjuðu, þar til skiptastjóri kveður á um annað skv. 2. mgr. Það sama á við um afnot eigna að því leyti sem afnotin rýra ekki verðgildi þeirra óeðlilega.

Skiptastjóri getur ákveðið að annar aðilinn verði sviptur vörslum eignar eftir kröfu gagnaðilans og að hann taki við vörslunum sjálfur eða fái þær gagnaðilanum:
1. ef meðferð vörsluhafans á eigninni gefur sérstakt tilefni til að óttast að hún geti farið forgörðum, spillst eða rýrnað verulega í verði,
2. ef teljandi munur er á verðgildi eða afnotagildi þeirra eigna sem hvor aðilinn hefur í vörslum sínum, unnt þykir að jafna aðstöðu þeirra með því að vörsluskipti verði á einhverjum þessara eigna og ástæða er til að ætla að aðilarnir muni ekki fá þær eignir lagðar sér út við skiptin sem hvor þeirra hefur í vörslum sínum í byrjun,
3. ef gagnaðili vörsluhafans eða barn þeirra á rétt til eignarinnar án tillits til skiptanna, sbr. 104. gr.,
4. ef ákveðið hefur verið að ráðstafa eigninni við skiptin og vörsluhafinn þykir torvelda að þeirri ákvörðun verði framfylgt,
5. ef eigninni hefur þegar verið ráðstafað eða hún hefur verið útlögð gagnaðila vörsluhafans og hann lætur hana ekki af hendi.

Ef um skipti er að ræða milli hjóna verður annað þeirra ekki svipt vörslum séreignar sinnar nema því hafi verið mótmælt við skiptin að um séreign sé að ræða, ágreiningur um það hafi ekki verið leiddur til lykta og svo standi á sem segir í 1. tölul. 2. mgr.

Neiti vörsluhafi að hlíta boði skiptastjóra um að láta eign af hendi getur skiptastjóri krafist úrskurðar héraðsdóms um skyldu hans til þess. Farið skal með slíkt málefni eftir 1. mgr. 124. gr. Taki héraðsdómari kröfu skiptastjóra til greina má kveða svo á í úrskurðinum að honum megi fullnægja með aðför án aðfararfrests. Kæra úrskurðarins frestar ekki heimild til aðfarar eftir honum.
108. gr.

Meðan opinber skipti standa yfir er skiptastjóri einn bær um að ráðstafa þeim eignum sem koma til skipta skv. 104. gr. og til að taka við þeim eða greiðslu andvirðis þeirra úr hendi þriðja manns, nema þær hafi þegar verið lagðar aðilum út skv. 110. gr.
109. gr.

Við skiptin skal greina milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum í senn.

Þegar ákvarðað er hvað hvor aðili eigi að fá í sinn hlut og ef sammæli verða ekki um aðra skipan skal lagt saman varðandi hvorn þeirra fyrir sig verðmæti eigna, sem tilheyra honum einum, og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðilanum. Frá þessari heildareign hvors um sig skal síðan dregin fjárhæð skulda, sem beinast að hvorum þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum.

Hvor aðilinn um sig á aðeins rétt á að fá eignir í sinn hlut móti skuldum sínum að því marki sem eignir hans sjálfs, þar á meðal hlutdeild í sameign, hrökkva fyrir skuldunum. Að því leyti sem eignir aðilans nægja ekki fyrir skuldum hans verður ekki tekið tillit til skuldanna sem umfram eru, nema aðilar ákveði annað.

Ef annar aðilinn á eignir umfram skuldir skal hrein eign hans koma til skipta milli þeirra beggja eftir því sem leitt verður af reglum um fjármál hjóna eða sambýlisfólks. Eigi báðir aðilarnir eignir umfram skuldir skal hrein eign þeirra lögð saman og ákveðið eftir sömu reglum hvað hvorum þeirra ber að tiltölu af henni. Hlutdeild annars aðilans í hreinni eign hins eða í samanlagðri hreinni eign þeirra beggja skal þó skerðast að því leyti sem hinn aðilinn á endurgjaldskröfu á hendur honum, sbr. 2. mgr. 106. gr.

Hvor aðilinn um sig á rétt á að fá eignir lagðar sér út eftir 110. gr. og greiðslu af andvirði eigna sem er ráðstafað eftir 111. gr. til fullnustu á því sem honum ber skv. 3. og 4. mgr.
110. gr.

Eftir því sem ráðið er hverjar eignir komi til skipta, hvorum aðila þær tilheyri og hvert verðmæti þeirra verði talið við skiptin, svo og til hverra skulda verði tekið tillit og með hvaða hætti, skal skiptastjóri gefa hvorum aðila fyrir sig kost á því á skiptafundi að fá eignir lagðar sér út eftir ákvæðum 2.–4. mgr. hafi aðilarnir ekki þegar komið sér saman um annað. Eftir því sem skiptastjóri telur skilyrðum þessarar greinar fullnægt til að verða við kröfum um það skal hann leggja aðilunum út eignir þegar í stað til frjálsrar ráðstöfunar þótt enn sé óvíst um eignir og skuldir að öðru leyti, enda þyki sýnt að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þessum hætti en hann muni eiga rétt á að endingu. Skiptastjóri gefur út heimildarskjöl um útlagningu, ef þeirra er þörf, og hafa þau sömu áhrif og ef hann hefði umboð aðilanna til útgáfu þeirra.

Fyrst í stað skal skiptastjóri gefa hvorum aðila um sig kost á að fá lagt út af þeim eignum sínum sem eru ekki í sameign aðilanna upp í þann hlut sem honum ber skv. 3. og 4. mgr. 109. gr. Verði ekki sammæli um annað á hvorugur aðilanna rétt á að fá eignir hins lagðar sér út með þessum hætti.

Þegar aðila hefur verið útlagt það sem kostur er skv. 2. mgr., skal skiptastjóri því næst gefa honum kost á að fá útlagðar eignir sem eru í sameign aðilanna, enda sé verðmæti eignanna innan marka þess sem aðilinn á enn rétt á að fá í sinn hlut skv. 3. og 4. mgr. 109. gr. Eigi báðir aðilarnir þennan rétt til að fá eignir útlagðar úr sameign þeirra og þeir krefjast báðir útlagningar á sömu eign skal sá þeirra ganga fyrir sem má ætla að hafi meiri þörf fyrir eignina, en ella skal varpað hlutkesti um í hvors hlut hún komi ef ekki verða sammæli um annað.

Nú hefur útlagning farið fram skv. 2. og 3. mgr. og annar aðilinn eða þeir báðir eiga enn rétt á að fá eignir í sinn hlut skv. 3. og 4. mgr. 109. gr., en verðmæti einstakra eigna, sem eftir standa, fer fram úr því sem hvor aðili um sig á rétt á. Skal skiptastjóri þá gefa þeim sem þetta á við um kost á að fá slíkar eignir í sinn hlut með því að hann fái það lagt út af verðmæti þeirra sem réttur hans stendur ennþá til, en reiði af hendi afgang verðmætisins með peningagreiðslu. Ef báðir aðilarnir krefjast að fá sömu eign í sinn hlut með þessum hætti og sammæli verða ekki um annað skal sá þeirra ganga fyrir í þessum efnum sem á eignina, en sé hún í sameign aðilanna skal sá ganga fyrir sem má ætla að hafi meiri þörf fyrir hana, en ella skal hlutkesti ráða.

Ef sammæli verða ekki um annað getur hvorugur aðilinn krafist að fá eignir lagðar sér út skv. 2.–4. mgr. móti skuld sem hvílir á þeim báðum í senn, nema hann taki skuldina einn að sér og gagnaðilinn verði leystur undan skuldinni eða hann veiti gagnaðilanum nægilega tryggingu að mati skiptastjóra fyrir því að gagnaðilinn eigi ekki á hættu að verða sóttur til greiðslu skuldarinnar. Ef báðir aðilar krefjast útlagningar gegn því að taka að sér sameiginlega skuld með þessum skilyrðum skal sá þeirra ganga fyrir sem ber endanlega ábyrgð á greiðslu hennar, en sé ábyrgð þeirra jöfn skal varpað hlutkesti um hvor þeirra taki skuldina að sér.

Eignir verða ekki allar lagðar út aðilunum nema skiptakostnaður sé áður greiddur.
111. gr.

Að því leyti sem eignir verða ekki lagðar aðilunum út skv. 110. gr. skulu teknar ákvarðanir á skiptafundi um ráðstöfun þeirra.

Aðilarnir eiga einir atkvæðisrétt á skiptafundi, en atkvæði hvors þeirra ræðst af því hlutfalli sem hann á tilkall til af hreinni eign þeirra, sbr. 4. mgr. 109. gr. Ákvæði 70. og 71. gr. gilda að öðru leyti um þessa skiptafundi eftir því sem átt getur við.

Skiptastjóri framfylgir ákvörðunum sem eru teknar á skiptafundum. Hann gefur út heimildarskjöl við ráðstöfun eigna aðilanna með sömu áhrifum og ef hann hefði umboð þeirra til þess.

Andvirði eigna, sem er ráðstafað við skiptin, verður ekki varið til greiðslu skulda nema sá aðili sem skuld hvílir á æski þess sjálfur. Ef skuld hvílir þó á báðum aðilum í senn og annar þeirra tekur hana ekki að sér með þeim hætti sem í 5. mgr. 110. gr. segir getur hvor þeirra um sig krafist að hún verði greidd að fullu af andvirði eigna eftir því sem það hrekkur til.
112. gr.

Ef ágreiningur rís milli aðila við opinber skipti samkvæmt kafla þessum um þau atriði sem 2. mgr. 103. gr. og 104.–111. gr. taka til skal skiptastjóri leitast við að jafna hann. Takist það ekki beinir skiptastjóri málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. Slíkur ágreiningur verður ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt.
113. gr.

Ef báðir aðilarnir eru sammála um það og hvorugur þeirra hefur neytt réttinda sem eru lögum samkvæmt háð þeirri forsendu að opinber skipti fari fram til fjárslita milli þeirra geta þeir hvenær sem er ákveðið að fella skiptin niður, enda hafi áfallinn kostnaður af þeim þá verið greiddur. Þótt þetta sé gert haggast ekki gildi þeirra ráðstafana sem hafa áður verið gerðar um eignir þeirra og skuldir skv. 111. gr.

Takist samkomulag milli aðilanna um tilhögun fjárslita eftir að opinber skipti eru byrjuð skal skiptastjóri gera skriflegan samning milli þeirra og árita hann um að skiptunum sé lokið samkvæmt honum, enda hafi kostnaður af skiptunum verið greiddur.

Ef skiptum lýkur ekki með þeim hætti sem segir í 1. eða 2. mgr. og þegar eignir hafa verið lagðar aðilunum út eða þeim hefur verið ráðstafað skal skiptastjóri, svo fljótt sem verða má, gera frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna. Um efni frumvarpsins, meðferð þess og aðgerðir við lok skipta skal farið eftir 77.–79. gr., 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 96. gr. eftir því sem átt getur við.

Þegar skiptum hefur verið lokið skv. 2. eða 3. mgr. verða þau ekki tekin upp á ný, nema fram komi eign sem hefði átt að koma til skipta og annar eða báðir aðilarnir krefjast þess. Við endurupptöku verður ekki hreyft við því sem áður var gert, nema báðir aðilar séu sammála um það.
114. gr.

Þegar skipti eru felld niður eða þeim er lokið skv. 113. gr. skal skiptastjóri tilkynna það héraðsdómara skriflega.

Þegar opinberum skiptum til fjárslita milli hjóna hefur verið lokið áður en hjúskapnum er endanlega lokið getur aðili að þeim fengið samning eða úthlutunargerð skv. 2. eða 3. mgr. 113. gr. skrásett eins og um kaupmála væri að ræða. Upp frá því skal það sem hvor aðilanna fékk í sinn hlut við skiptin og eignast eftir þann tíma sem um ræðir í 1. mgr. 104. gr. teljast séreign hans í hjúskapnum.
115. gr.

Þótt opinber skipti fari fram samkvæmt kafla þessum breyta þau ekki rétti annarra til að höfða mál á hendur aðilum að skiptunum eða krefjast fullnustugerða á hendur þeim.
XV. kafli.
Opinber skipti til slita á félögum þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð.
116. gr.

Að því leyti sem heimilt er að lögum að félagsmaður í félagi þar sem báðir eða allir félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess krefjist slita á því getur hann krafist opinberra skipta í því skyni, ef félagssamþykkt eða aðrir löggerningar standa því ekki í vegi.

Slitum verður ekki komið fram með opinberum skiptum eftir lögum þessum á öðrum félögum en þeim sem 1. mgr. tekur til.
117. gr.

Ef krafist er opinberra skipta til slita á skrásettu félagi skal beiðni um þau beint skriflega til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem félagið á varnarþing. Sé félag óskrásett skal beiðninni beint til héraðsdómstólsins í því umdæmi þar sem félagið hefur aðalstöðvar. Ráðist umdæmi ekki með þessum hætti skal krafist skipta í umdæmi þar sem formaður félagsstjórnar á heimilisvarnarþing, en sé formaður enginn, þá í umdæminu þar sem sá sem krefst skiptanna á heimilisvarnarþing.

Í kröfu um opinber skipti skal eftirfarandi koma fram:
1. Um hvert félag sé að ræða, kennitala þess og heimilisfang, hvenær það hafi verið stofnað og hver tilgangur þess sé.
2. Hver hafi uppi kröfu um opinber skipti og á hverju hann byggi rétt sinn til þess.
3. Hverjir aðrir félagsmenn séu, kennitölur þeirra og heimilisföng, að því leyti sem kunnugt er um þá.
4. Hverjar eignir félagsins séu í helstu atriðum og hverjar þær skuldbindingar séu sem kunnugt er um.

Gögn skulu fylgja kröfunni því til stuðnings að skilyrði séu til að verða við henni. Eftir því sem við á skulu einnig fylgja samþykktir félagsins, upplýsingar um það sem hefur verið tilkynnt firmaskrá um félagið og síðustu reikningar þess.

Krafa um opinber skipti til slita á félagi verður ekki tekin til greina, nema sýnt þyki af því sem fram er komið að eignir þess muni nægja til greiðslu skiptakostnaðar eða sá sem krefst skiptanna leggi fram tryggingu fyrir skiptakostnaði. Hann ábyrgist greiðslu kostnaðarins þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu.

Um meðferð kröfunnar og úrskurð um hana gilda ákvæði 43. gr. og 1.–5. mgr. 44. gr.
118. gr.

Ef krafa um opinber skipti til félagsslita er tekin til greina skulu skiptin fara að fyrirmælum V., VI., VIII., IX. og X. kafla um skipti á dánarbúi, þegar erfingjar ábyrgjast skuldbindingar þess, með þeim breytingum sem leiða af eðli máls.
5. þáttur.
Málsmeðferð fyrir dómstólum.
XVI. kafli.
Hver ágreiningsatriði verða lögð fyrir héraðsdóm og hvernig það verður gert.
119. gr.

Hver sá, sem telur aðgerð eða ákvörðun sýslumanns skv. II., XII. eða XIII. kafla brjóta gegn réttindum sínum og hefur lögvarða hagsmuni af að fá henni hnekkt, getur krafist þess við sýslumann að hann láti af aðgerð sinni og grípi eftir atvikum til annarrar aðgerðar eða að hann falli frá ákvörðun sinni og taki eftir atvikum aðra ákvörðun. Verði sýslumaður ekki við því getur sá sem á hlut að máli krafist úrlausnar héraðsdómara um ágreiningsatriðið.

Krafa um úrlausn héraðsdómara skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og skal henni beint til þess sýslumanns sem í hlut á. Þegar sýslumanni hefur borist krafan skal hann tafarlaust senda hana þeim héraðsdómstól sem hefur lögsögu í umdæmi hans, ásamt upplýsingum um eftirfarandi, að því leyti sem þær koma ekki fram í kröfunni:
1. Hvert það dánarbú sé sem ágreiningsefnið tengist.
2. Nafn þess sem krefst úrlausnarinnar, kennitala hans og heimilisfang.
3. Hver sú aðgerð eða ákvörðun sé sem úrlausnar er krafist um, hvernig hún varði þann sem krefst hennar og hverjar kröfur hann hafi gert við sýslumann.

Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem má telja að hafi þýðingu fyrir úrlausn ágreiningsins, þar á meðal samrit gagna úr dánarskrá.

Héraðsdómari fer með ágreiningsmál samkvæmt þessari grein eftir ákvæðum XVII. kafla. Sá sem krefst úrlausnar héraðsdómara verður sóknaraðili í ágreiningsmálinu fyrir dómi en sýslumaður varnaraðili.

Meðan ágreiningsmálið hefur ekki verið leitt til lykta skal sýslumaður gæta þess eftir föngum að aðrar aðgerðir hans varðandi dánarbúið raski ekki frekar en nauðsyn krefur þeim hagsmunum sem málið varðar.
120. gr.

Ef ágreiningur verður á dómþingi um það hvort krafa um opinber skipti skuli tekin til greina, sbr. 3. mgr. 44. gr., skal héraðsdómari taka ágreiningsmálið þegar í stað til meðferðar án sérstakra tilkynninga skv. 127. og 128. gr. með þingfestingu máls eftir ákvæðum XVII. kafla, þar sem ráðið verði til lykta hvort opinber skipti fari fram. Sá sem krefst opinberra skipta skal vera sóknaraðili í málinu, en sá sem andmælir þeirri kröfu verður varnaraðili. Leyst skal úr ágreiningi um kröfu um opinber skipti í einu máli þótt fleiri en einn krefjist þeirra eða fleiri en einn hafi uppi andmæli gegn henni og hver þeirra á sínum grunni.

Ef krafa kemur fram þess efnis sem segir í 1. mgr. 45. gr. skal héraðsdómari fara með hana sem hluta máls skv. 1. mgr. og gefa þá aðilum þess kost á að tjá sig sérstaklega um þá kröfu án þess að skriflegar greinargerðir verði lagðar fram um hana, nema aðilar æski þess. Héraðsdómari skal síðan kveða upp sérstakan úrskurð um þennan þátt málsins svo fljótt sem auðið er. Úrskurðinum verður ekki skotið til æðra dóms.
121. gr.

Sá sem krefst úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóra verði vikið úr starfi skv. 3. mgr. 47. gr. skal beina skriflegri kröfu sinni um það til þess héraðsdómstóls þar sem skiptastjórinn var skipaður til starfans. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
1. Nafn þess sem hefur kröfuna uppi, kennitala hans og heimilisfang, ásamt skýringu á því hvernig hann telji sig eiga aðild að slíkri kröfu.
2. Hver sá skiptastjóri sé sem krafist er að verði vikið úr starfi og til hverra starfa hann hafi verið skipaður.
3. Röksemdir fyrir kröfunni ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.

Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem hún er studd við.

Héraðsdómari fer með kröfu skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XVII. kafla. Sá sem krefst frávikningar skiptastjórans skal vera sóknaraðili máls en skiptastjórinn varnaraðili.
122. gr.

Ef ágreiningur rís um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laga þessara kveða sérstaklega á um að skuli beint til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem koma upp við opinber skipti, skal skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
1. Hver þau opinberu skipti séu þar sem ágreiningur hefur risið.
2. Nöfn þeirra sem eiga aðild að ágreiningnum, kennitölur þeirra og heimilisföng.
3. Um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.
4. Hvort skiptastjóri telji hlutaðeigandi dánarbú þurfa að eiga aðild að máli um ágreininginn eða eftir atvikum hvort hann telji sig þurfa að gæta hagsmuna vegna opinberra skipta skv. XIV. kafla við meðferð málsins.

Þau gögn skulu fylgja kröfunni sem varða ágreiningsefnið.

Héraðsdómari fer með ágreiningsatriði skv. 1. mgr. eftir ákvæðum XVII. kafla. Ef ágreiningsefni málsins varðar hvort krafa erfingja eða kröfuhafa verði viðurkennd við opinber skipti skal sá sem hefur kröfuna uppi að öðru jöfnu verða sóknaraðili málsins en búið eða sá sem andmælir kröfunni verður varnaraðili. Ef ágreiningsefni málsins er annað skal héraðsdómari ákveða eftir eðli þess hvernig aðild verði háttað.
123. gr.

Erfingi sem æskir úrlausnar héraðsdómara um ágreining milli sín og annarra erfingja við einkaskipti á dánarbúi, sbr. 1. mgr. 90. gr., skal beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem veitti leyfi til einkaskipta. Í kröfunni skal eftirfarandi koma fram:
1. Um hvaða dánarbú sé að ræða og hvenær erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta.
2. Nafn þess sem krefst úrlausnarinnar, kennitala hans og heimilisfang.
3. Hverjir aðrir séu erfingjar, kennitölur þeirra og heimilisföng.
4. Um hvaða atriði ágreiningur standi ásamt skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna.
5. Hvers sá sem krefst úrlausnarinnar krefjist varðandi ágreiningsefnið.

Ef sammæli hafa orðið um að leggja ágreiningsefni, sem hefur risið milli erfingja og kröfuhafa við einkaskipti, undir úrlausn héraðsdómara skv. 2. mgr. 90. gr., skulu aðilarnir sameiginlega beina skriflegri kröfu til þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem veitti erfingjunum leyfi til einkaskipta. Í kröfunni skulu þau atriði koma fram sem eru talin í 1. mgr., ásamt upplýsingum um nafn, kennitölu og heimilisfang hlutaðeigandi kröfuhafa.

Þau gögn skulu fylgja kröfu skv. 1. eða 2. mgr. sem varða ágreiningsefnið, þar á meðal skilríki fyrir að erfingjunum hafi verið veitt leyfi til einkaskipta.

Þegar héraðsdómara hefur borist krafa skv. 1. eða 2. mgr. skal hann kanna hvort málefnið geti átt undir úrlausn hans. Telji hann svo ekki vera getur hann neitað að fara með málið, en vilji sá sem beindi kröfunni til hans ekki una þeirra ákvörðun getur sá krafist úrskurðar um neitunina.

Ef héraðsdómari telur skilyrðum fullnægt til þess skal hann fara með málið eftir ákvæðum XVII. kafla, en ekki er hann bundinn við þá afstöðu ef síðar er krafist frávísunar málsins. Ef um ágreining er að ræða, sem 1. mgr. tekur til, skal sá sem beindi kröfunni til héraðsdómara að jafnaði vera sóknaraðili málsins en aðrir erfingjar varnaraðilar. Ef mál er komið til að hætti 2. mgr. skal hlutaðeigandi kröfuhafi að jafnaði vera sóknaraðili en dánarbúið varnaraðili.
124. gr.

Telji dánarbú, sem er til opinberra skipta, til réttinda á hendur erfingja eða maka þess látna og úrlausn um þau hefur þýðingu fyrir skipti búsins, ekki verður leyst úr um þau í máli sem ber að eftir 122. gr. og unnt væri að höfða einkamál í héraði til að sækja þau eftir almennum reglum getur skiptastjóri, ef hann kýs svo, krafist úrlausnar héraðsdómara um kröfur búsins eftir ákvæðum XVII. kafla. Skal skiptastjóri þá senda þeim héraðsdómstól, þar sem hann var skipaður til starfans, stefnu og önnur sóknargögn sem gerð eru úr garði eftir reglum um meðferð einkamála í héraði að öðru leyti en því að í stefnu skal þess dómþings ekki getið þar sem málið verður þingfest. Með gögnum þessum skal fylgja skrifleg beiðni um þessa málsmeðferð, þar sem m.a. er rökstutt að skilyrðum sé fullnægt fyrir henni.

Telji aðili að opinberum skiptum eftir XIV. kafla til réttinda á hendur gagnaðila sínum sem tengjast fjárslitum milli þeirra, án þess þó að leyst verði úr um þau í máli sem ber að eftir 122. gr. og unnt væri að höfða einkamál í héraði til að sækja þau eftir almennum reglum, getur hann, ef hann svo kýs, krafist úrlausnar héraðsdómara um kröfur sínar á hendur gagnaðila sínum eftir ákvæðum XVII. kafla. Skal aðilinn þá senda þeim héraðsdómstól sem kvað á um opinberu skiptin stefnu og önnur sóknargögn ásamt beiðni, svo sem lýst er í 1. mgr.

Þegar héraðsdómara berst beiðni ásamt sóknargögnum skv. 1. eða 2. mgr. skal hann kanna hvort skilyrðum sé fullnægt til að verða við henni. Telji hann það ekki getur hann neitað að fara með málið með skriflegri ákvörðun, en vilji sá sem beindi málinu til hans ekki una þeirri ákvörðun getur sá krafist úrskurðar um neitunina. Ella fer héraðsdómari með málið eftir ákvæðum XVII. kafla, en ekki er hann bundinn af þeirri afstöðu ef síðar er krafist frávísunar málsins.
125. gr.

Nú telur dánarbú til réttinda á hendur öðrum en þeim sem 1. mgr. 124. gr. tekur til, hvort sem búið er til opinberra skipta eða einkaskipta, réttindin hafa þýðingu fyrir skiptin og þau mætti sækja í einkamáli í héraði eftir almennum reglum, og getur þá sá eða þeir sem hafa forræði á málefnum þess leitað úrlausnar héraðsdómara um réttindin eftir ákvæðum XVII. kafla, ef sá eða þeir sem kröfur beinast að eru því samþykkir.

Nú rís ágreiningur milli hjóna um fjárslit milli þeirra vegna skilnaðar eða ógildingar hjúskapar án þess að opinber skipti fari þó fram og um ágreining er að tefla, sem mætti leysa úr skv. 122. gr. eða 2. mgr. 124. gr., ef opinber skipti skv. XIV. kafla væru viðhöfð, og geta þá hjónin, ef þau eru sammála um það, leitað úrlausnar héraðsdómara um ágreininginn eftir ákvæðum XVII. kafla.

Um önnur atriði varðandi mál skv. 1. og 2. mgr. fer samkvæmt ákvæðum 124. gr. eftir því sem átt getur við.
126. gr.

Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla verður ekki leyst úr um skyldur þriðja manns í málum sem fara eftir ákvæðum XVII. kafla, nema um sé að ræða:
1. Skyldu til greiðslu málskostnaðar eða réttarfarssektar vegna máls sem er rekið eftir XVII. kafla.
2. Skyldu til greiðslu gagnkröfu, hvort sem er til skuldajafnaðar eða sjálfstæðrar dómsúrlausnar, ef hlutaðeigandi hefur sjálfur gert kröfu um réttindi sín, ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir ákvæðum XVII. kafla, skilyrði væru til að höfða gagnsök um gagnkröfuna eða hafa hana uppi til skuldajafnaðar í einkamáli um kröfu hans og hann hefur sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dómi.
3. Skyldu til greiðslu kostnaðar varðandi muni sem hlutaðeigandi hefur krafist að fá afhenta ef ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir XVII. kafla, en aðeins verður þá kveðið á um slíka skyldu sem skilyrði fyrir afhendingu.
XVII. kafli.
Málsmeðferð fyrir héraðsdómi.
127. gr.

Þegar ágreiningsmál hefur borist héraðsdómara til úrlausnar með þeim hætti sem segir í XVI. kafla og hann hefur eftir atvikum staðreynt að skilyrði séu til að fara með það eftir ákvæðum þessa kafla, ákveður hann stað og stund til þinghalds þar sem málið verður þingfest, og sendir öllum aðilum málsins tilkynningu um það, þar sem eftirfarandi skal koma fram:
1. Hver hafi krafist úrlausnar hans.
2. Hverjir séu aðilar að málinu til sóknar og varnar ásamt kennitölum þeirra og heimilisföngum.
3. Hvert ágreiningsefnið sé sem krafist er úrlausnar um og hverjar kröfur sóknaraðili málsins hafi gert að því leyti sem þegar er kunnugt um þær.
4. Hvar og hvenær málið verði þingfest.
5. Hverjar afleiðingar það hafi ef aðilar til sóknar og varnar sækja ekki þing.

Með tilkynningunni skal fylgja samrit þess skjals sem var beint til héraðsdómara samkvæmt ákvæðum XVI. kafla í því skyni að leita úrlausnar hans. Sé um mál að ræða skv. 124. eða 125. gr. skal samrit stefnu einnig fylgja tilkynningunni. Héraðsdómara er þó heimilt þess í stað að taka upp í tilkynningu sinni texta þess eða þeirra skjala sem hefðu ella fylgt henni.
128. gr.

Tilkynning skv. 127. gr. skal birt málsaðila eða þeim sem væri bær til að taka við birtingu stefnu fyrir hans hönd með þeim fyrirvara sem héraðsdómari hefur metið hæfilegan.

Birting skv. 1. mgr. skal fara fram með sama hætti og stefna verður birt í einkamáli.
129. gr.

Mál samkvæmt þessum kafla telst höfðað við þingfestingu þess, en þá leggur héraðsdómari fram þau gögn um málið sem honum hafa borist og hann telur hafa þýðingu fyrir úrlausn þess, ásamt tilkynningum skv. 127. gr. með gögnum um birtingu þeirra.

Ef sóknaraðili mætir ekki við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal málið fellt niður, en héraðsdómari má þá úrskurða varnaraðila ómaksþóknun ef hann sækir þing og krefst hennar. Hafi gagnkröfur verið hafðar uppi í málinu skv. 4. mgr. 130. gr. skal þó aðeins fella niður aðalsök en leyst skal þá úr gagnkröfunum á hendur sóknaraðila eftir reglu 3. mgr.

Ef varnaraðili sækir ekki þing við þingfestingu eða þingsókn hans fellur síðar niður skal farið með málið eftir almennum reglum um útivist stefnda í einkamáli, en sóknaraðila skal þá gefinn kostur á að leggja fram greinargerð og frekari gögn samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 130. gr.
130. gr.

Ef sótt er þing af hálfu beggja eða allra aðila við þingfestingu og ekki verður sátt í málinu skal héraðsdómari gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð, þar sem fram komi til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Heimilt er þó að veita sóknaraðila skamman frest í þessu skyni ef ekki er um mál að ræða sem 124. eða 125. gr. taka til og stefna og sóknargögn hafa þegar komið fram í.

Að framkomnum gögnum sóknaraðila skv. 1. mgr. skal varnaraðila gefinn kostur á skömmum fresti til að leggja fram greinargerð af sinni hendi, þar sem fram komi kröfur hans um formhlið og efnishlið máls og á hverju þær séu byggðar, ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við.

Komi fram krafa af hendi varnaraðila um frávísun málsins skal farið með hana eftir almennum reglum um meðferð einkamála í héraði.

Ef sótt er þing af hálfu sóknaraðila getur varnaraðili haft uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi um úrlausn sakarefnisins í greinargerð og skal þá farið með þær sem gagnkröfur í málinu. Slíkri kröfu verður þó því aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XVI. kafla, sbr. þó 126. gr. Gefa má sóknaraðila kost á að skila stuttu skriflegu svari við gagnkröfum, en málið skal rekið í einu lagi um kröfur á báða vegu.
131. gr.

Héraðsdómari leysir úr málum samkvæmt lögum þessum með úrskurðum. Forsendur skulu fylgja ályktunarorði úrskurðar.

Að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessara laga gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt þessum kafla.
132. gr.

[Ráðherra]
1) setur fyrirmæli í reglugerð
2) um skrár sem héraðsdómari heldur um mál samkvæmt lögum þessum og um opinber skipti.
1)L. 162/2010, 122. gr. 2)Rg. 136/1992.
XVIII. kafli.
Málskot til æðra dóms.
133. gr.

Að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum sæta úrskurðir og ákvarðanir héraðsdómara samkvæmt þeim kæru til [Landsréttar].
1) Þó verða ekki kærðir úrskurðir eða ákvarðanir sem eru kveðnir upp eða teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða heldur ekki kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli.

[Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.]
1)

Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir [Landsrétti og]
1) Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.

Að því leyti sem ekki er kveðið á annan veg í lögum þessum hefur kæra sömu áhrif á meðferð máls í héraði og ef um almennt einkamál væri að ræða.
1)L. 117/2016, 38. gr.
6. þáttur.
Ýmis ákvæði.
XIX. kafli.
Gildistaka, brottfallin lög o.fl.
134. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
135.–136. gr.
…
XX. kafli.
Ákvæði til bráðabirgða.
137. gr.

Ef skiptum er ólokið á dánarbúi þegar lög þessi öðlast gildi skulu skiptin fara fram í því umdæmi sem leiðir af 1. mgr. 3. gr. nema búið hafi áður verið tekið til opinberra skipta eða leyfi til einkaskipta verið veitt en þá skal ljúka skiptunum þar sem þau hafa byrjað.

Ákvæðum 2. og 3. mgr. 3. gr. skal beitt eftir því sem átt getur við þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara.
138. gr.

Hafi andlát manns, sem lést fyrir 1. júlí 1992, ekki verið tilkynnt þegar lög þessi öðlast gildi skal staðið að tilkynningunni og upplýsingagjöf með þeim hætti sem kveðið er á um í 5.–9. gr.

Nú hefur andlát verið tilkynnt fyrir 1. júlí 1992 og skiptum hefur ekki verið lokið þá, dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta og leyfi til einkaskipta ekki verið veitt og þær upplýsingar liggja ekki fyrir sem eru taldar í 1. mgr. 7. gr. og skal þá sýslumaður leita vitneskju um þau efni að hætti 10. gr. áður en tveir mánuðir eru liðnir frá gildistöku laga þessara.
139. gr.

Við gildistöku laga þessara taka sýslumenn við því forræði á dánarbúum, sem kveðið er á um í 11. gr., af þeim skiptaráðendum sem fóru með það að hætti eldri laga.
140. gr.

Ákvæði 2. mgr. 12. gr. gilda aðeins um umboð sem erfingi veitir eftir gildistöku laga þessara.
141. gr.

Beita má ákvæðum 13. og 14. gr. um skipun sérstakra lögráðamanna og málsvara þótt skipti hafi byrjað á dánarbúi fyrir gildistöku laga þessara.

Ákvæði 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. gilda frá 1. júlí 1992 um fjárhaldsmenn sem voru skipaðir fyrir þann dag en upp frá því skulu þeir sjálfkrafa teljast sérstakir lögráðamenn eða málsvarar eftir því sem á við.
142. gr.

Hafi uppskrift eigna og eftir atvikum virðing á þeim átt sér stað að hætti eldri laga fyrir gildistöku laga þessara skal sú aðgerð metin ígildi skrásetningar og eftir atvikum mats eftir ákvæðum 17.–21. gr. Krefjast má yfirmats eftir 22. gr. á virðingargerð eftir eldri lögum innan fjögurra vikna frá gildistöku laga þessara þótt lengri tími sé liðinn frá því virðing fór fram ef eignunum hefur ekki þegar verið ráðstafað og ný virðing hafði ekki farið fram eftir 47. gr. eldri laga.

Hafi uppskrift eigna og eftir atvikum virðing að hætti eldri laga ekki farið fram verður reglum 17.–23. gr. um skrásetningu eigna og mat beitt þótt erfingjar hafi fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi fyrir gildistöku laga þessara eða skiptum verið lokið eftir ákvæðum 10. gr. eldri laga eða með veitingu leyfis til setu í óskiptu búi, sbr. 4. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 27. gr.
143. gr.

Þótt andlát hafi borið að höndum fyrir gildistöku laga þessara skal ljúka skiptum eftir ákvæðum 25.–27. gr. ef skilyrði eru til.

Taka má skipti upp á ný skv. 4. mgr. 25. gr. þótt þeim hafi verið lokið fyrir gildistöku laga þessara eftir ákvæðum 10. gr. eldri laga.
144. gr.

Ákvæði 28.–31. gr. gilda um skilyrði fyrir leyfi til einkaskipta, beiðni um slíkt leyfi og veitingu þess þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara ef fyrst er sótt um leyfið eftir þann tíma. Hafi skuldheimtumaður lýst kröfu á hendur dánarbúinu fyrir skiptaráðanda fyrir gildistöku laga þessara þótt aðgerðir við opinber skipti hafi ekki verið byrjaðar skal leyfið þó ekki veitt nema að fullnægðum skilyrðum 1. mgr. 9. gr. eldri laga.

Leyfi til einkaskipta, sem var veitt fyrir gildistöku laga þessara, haggast ekki þótt skilyrðum 28. gr. væri ekki fullnægt eða þær upplýsingar voru ekki veittar sem eru taldar í 1. mgr. 29. gr. Framlengja má frest til að ljúka einkaskiptum skv. 3. mgr. 29. gr. þótt leyfi til þeirra hafi verið veitt fyrir gildistöku laga þessara.

Ákvæði 3. þáttar og 123. gr. taka til einkaskipta frá gildistöku laga þessara þótt leyfi hafi verið veitt til þeirra fyrir þann tíma að því leyti sem bindandi ráðstafanir hafa ekki áður verið gerðar á annan veg.
145. gr.

Ef svo stendur á þann 1. júlí 1992 að skiptum á dánarbúi hefur ekki verið lokið eftir 10. gr. eldri laga, maka þess látna hefur ekki verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi, erfingjum hefur ekki verið veitt leyfi til einkaskipta og opinberra skipta hefur ekki verið krafist og lengri tími er þá liðinn frá andláti en fjórir mánuðir skal sýslumaður beina áskorun skv. 32. gr. til erfingja áður en tveir mánuðir eru liðnir frá því lög þessi öðlast gildi. Ef skemmri tími en fjórir mánuðir er liðinn frá andláti þegar lög þessi öðlast gildi skal farið eftir ákvæðum 32. gr.
146. gr.

Beita má ákvæðum III. kafla við skipti dánarbús þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara ef skiptum hefur ekki verið lokið þá og bindandi ráðstafanir hafa ekki þegar verið gerðar á annan veg en ákvæði þessi mæla fyrir um.
147. gr.

Ákvæði 37.–41. gr. gilda um skyldu og heimild til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi þótt hlutaðeigandi hafi látist fyrir gildistöku laga þessara. Eins gilda ákvæði 2. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 40. gr. þótt skiptum hafi verið lokið eftir 10. gr. eldri laga. Farið skal með kröfu um opinber skipti undir þessum kringumstæðum eftir reglum IV. kafla.
…
148. gr.
…
149. gr.

Hafi skiptaforstjóri verið löggiltur af [ráðherra]
1) til að fara með opinber skipti skv. 91. gr. eldri laga og þeim er ekki lokið við gildistöku laga þessara skal hann sjálfkrafa teljast skiptastjóri í búinu frá 1. júlí 1992 án sérstakrar skipunar. Ákvæði 3. mgr. 148. gr. gilda um framhald skiptanna.

Ákvæði laga þessara um stöðu og störf skiptastjóra gilda að öllu leyti um þá sem 1. mgr. tekur til frá gildistöku þeirra.
1)L. 162/2010, 122. gr.
150. gr.
…
151. gr.

Ákvæði 2. og 3. mgr. 81. gr. gilda um meðferð á erfðafé þótt það hafi verið tekið til varðveislu fyrir gildistöku laga þessara. Tekur þetta einnig til erfðafjár sem hefur ekki verið vitjað eftir ákvæðum 1. mgr.
56. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, við gildistöku laga þessara en hafi fé verið afhent samkvæmt því ákvæði eftir 30. júní 1987 gilda reglur 2. mgr.
sömu greinar um rétt til að endurheimta það þótt þess sé fyrst krafist eftir gildistöku laga þessara.
152. gr.

Ákvæði 98.–100. gr. gilda um heimildir til að krefjast opinberra skipta til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks þótt þau atvik, sem þar eru áskilin, hafi átt sér stað fyrir gildistöku laga þessara. Hafi komið fram krafa um slík opinber skipti en afstaða hefur ekki verið tekin til hennar við gildistöku laga þessara gilda ákvæði 101. gr.

Ef opinber skipti standa yfir til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks þann 1. júlí 1992 skal farið eftir fyrirmælum 1., 3. og 4. mgr. 148. gr. og 150. gr.

Eftir því sem átt getur við skal farið eftir ákvæðum 103.–115. gr. og 142. gr. þótt opinber skipti til fjárslita hafi verið byrjuð fyrir gildistöku laga þessara hafi bindandi ákvarðanir eða ráðstafanir ekki þegar verið teknar eða gerðar á annan veg.

Hafi verið krafist opinberra skipta til slita á félagi fyrir gildistöku laga þessara en afstaða hefur ekki verið tekin til kröfunnar gilda ákvæði 116. og 117. gr.

Hafi opinber skipti byrjað fyrir gildistöku laga þessara til slita á félagi eftir ákvæðum 90. gr. eldri laga, hvort sem það væri heimilt eftir fyrirmælum laga þessara eða ekki, sbr. 2. mgr. 116. gr., skal skiptum fram haldið og lokið eftir ákvæðum laga þessara, sbr. 1., 3. og 4. mgr. 148. gr. og 150. gr.
153. gr.
…
154. gr.

Ekki má leita úrlausnar héraðsdómara skv. 119. gr. um ákvarðanir eða athafnir skiptaráðanda sem voru teknar eða áttu sér stað fyrir gildistöku laga þessara.

Ef ágreiningur hefur risið við opinber skipti fyrir gildistöku laga þessara en mál hefur ekki verið þingfest í skiptarétti til að leiða ágreininginn til lykta má leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið eftir 122. gr.

Leysa má úr kröfum í dómsmálum skv. 124. og 126. gr. þótt opinber skipti hafi byrjað fyrir gildistöku laga þessara.
155. gr.

Skipti verða ekki endurupptekin eftir gildistöku laga þessara nema að fullnægðum skilyrðum þeirra þótt skiptunum hafi verið lokið fyrir þann tíma.
156.–157. gr.
…
[158. gr.

Fram til [31. desember [2023]
1)]
2) er heimilt að taka mál fyrir í síma eða á fjarfundi, enda verði fyrirtöku málsins háttað þannig að allir viðkomandi aðilar heyri þau orðaskipti sem fram fara.

Heimilt er að fylgja ákvæðum IX. kafla
stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bjóða upp á rafræna meðferð mála fram til [31. desember [2023]
1)].
2)]
3)
1)L. 136/2021, 1. gr. 2)L. 121/2020, 3. gr. 3)L. 32/2020, 7. gr.