Erindisbréf starfshóps um endurskoðun kosningalaga

Fyrir liggur skýrsla vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga ásamt frumvarpi sem vinnuhópurinn hafði útbúið og lagt var fram á Alþingi 5. september 2016, en ekki var tekið á dagskrá. Af hálfu forseta Alþingis og forsætisnefndar hefur staðið vilji til þess að vinna áfram að endurskoðun kosningalaga á grundvelli tillagna vinnuhópsins. Verkefni vinnuhópsins eru eftirfarandi:

  1. Fara yfir einstakar tillögur vinnuhópsins með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni.
  2. Þegar yfirferð yfir fyrirliggjandi breytingartillögur er lokið verði þær felldar í frumvarp sem geti orðið grundvöllur nýrrar heildarlöggjafar um kosningar til Alþingis, sbr. þó 3. tölulið.
  3. Jafnhliða skal vinnuhópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga, er taki til kosninga til Alþingis, kosninga til sveitarstjórna, framboðs og kjörs forseta Íslands og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
  4. Loks skal starfshópurinn skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár.

Aðstaða og kostnaður.

Skrifstofa Alþingis leggur starfshópnum til fundaraðstöðu. Kostnaður vegna starfa sérfræðinga verði greiddur að höfðu samráði og eftir samþykkt dómsmálaráðuneytis.

Samráð við þingflokka.

Starfshópurinn skal við undirbúning tillagan sinna eiga samráð við fulltrúa þingflokka um endurskoðun kosningalaga.

Skil.

Miðað verið við að vinnuhópurinn skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps sem leggja megi fram, a.m.k. til kynningar fyrir 1. desember 2019.

Reykjavík, 24. október 2018.