Reglur um aðgang í Alþingishúsi og Skála

I. Almennt.

1. gr.

Aðgangur að Alþingishúsinu og Skála er heimill öllum þeim sem þangað eiga erindi samkvæmt því sem kveðið á um í þessum reglum.

2. gr.

Þeir sem eiga erindi við þingmann eða starfsmann skulu fara um aðaldyr Skálans og bíða komu þingmanns eða starfsmanns á 1. hæð hans samkvæmt nánari fyrirmælum þingvarðar.

3. gr.

Gestum sem koma í Alþingishúsið og Skála skal afhent auðkenniskort sem þeir bera meðan á dvöl þeirra stendur. Gera má undantekningar fyrir hópa sem koma í kynnisferð. Skrifstofustjóri setur nánari reglur um slík auðkenniskort.

II. Einstök svæði.

4. gr.
Þingsalur.

Þegar þingfundur stendur er aðgangur eingöngu heimill þingmönnum og þeim starfsmönnum þingsins sem starfa í tengslum við þingfundi. Aðrir starfsmenn þingsins hafa þar aðgang þegar ekki er þingfundur. Öðrum er heimill aðgangur í þinghléum ef þeir eru í fylgd starfsmanna eða með vitund þeirra. Gestum er óheimilt að setjast í forsetastól eða taka sér stöðu í ræðustól.

Óheimilt er að nota farsíma í þingsal þegar þingfundur stendur nema til að lesa eða skrifa skilaboð. Allir farsímar í þingsal skulu þannig stilltir að þeir séu hljóðlausir. Óheimilt er að fara með farsíma í ræðustól.

Myndatökur eru óheimilar í þingsalnum þegar þingfundur stendur. Fréttaljósmyndurum er þó heimilt að taka myndir inn í þingsal úr hliðarherbergjum salarins, en láta þarf þingvörð vita hverju sinni.

5. gr.
Efrideildarsalur o.fl.

Þegar þingfundur stendur er aðgangur aðeins heimill alþingismönnum og ráðherrum, starfsmönnum þingsins og þingflokka og starfsmönnum ráðherra og þeim sem þangað eru kvaddir eða eiga sérstakt erindi. Öðrum er aðeins heimill aðgangur þegar þingfundur stendur ekki.

Sama gildir um hliðarsali þingsalar, þ.e. ráðherraherbergi, blaðamannaherbergi, lestrarsal, vinnusvæði skrifstofunnar svo og gang fyrir framan þingsal.

6. gr.
Skrifstofa forseta Alþingis og fundarherbergi á 1. hæð þinghússins.

Aðgangur að skrifstofu forseta Alþingis er aðeins heimill þeim sem þangað eiga erindi eða hafa sérstakt leyfi hans. Notkun á fundarherbergi á 1. hæð þinghússins er bundin við ráðherra, forsætisnefnd og þá sem forseti veitir heimild til að nota herbergið hverju sinni.

7. gr.
Forsalur 1. hæðar Alþingishúss.

Aðgangur að forsal er aðeins heimill alþingismönnum og ráðherrum, starfsmönnum þingsins og þingflokka og starfsmönnum ráðherra. Öðrum er heimill aðgangur ef slíkt er með vitund og samþykki þingmanna eða starfsmanna.

8. gr.
Fundarherbergi þingflokka.

Aðgangur að fundarherbergjum þingflokka er aðeins heimill þingmönnum, ráðherrum, starfsmönnum þingflokka og starfsmönnum þingsins sem eiga þangað erindi og þeim sem þangað eru boðaðir sérstaklega. Öðrum er þó heimill aðgangur þegar ekki er þingfundur með leyfi formanns þingflokks, í viðurvist þingmanns úr þingflokknum eða starfsmanns Alþingis.

9. gr.
Veitingasalur í Skála.

Aðgangur að veitingasal Alþingis er heimill þingmönnum, starfsmönnum þingsins, starfsmönnum þingflokka, starfsmönnum flokka og ráðuneyta sem eru í fylgd ráðherra eða þingmanns og þingfréttariturum. Þeim sem aðgang hafa að veitingasal er heimilt að bjóða gestum í veitingasalinn eftir því sem aðstæður leyfa. Séu gestir fleiri en fimm skal láta matráðskonu vita um slíkt fyrir fram.

Óheimilt er að taka viðtöl eða ljósmyndir í veitingasal þingsins.

10. gr.
Fundarherbergi í Skála.

Notkun á fundarherbergjum skal bóka fyrir fram hjá þingvörðum í anddyri Skálans. Þingmenn og þingnefndir njóta forgangs að herbergjunum á þingfundatíma.

11. gr.
Þingpallar.

 Aðgangur að þingpöllum er öllum opinn, en áheyrendur skulu vera kyrrir og hljóðir. Brjóti nokkur því í gegn getur þingvörður eða lögreglumaður vísað honum á braut.

Til þess að koma í veg fyrir að óheimilir hlutir séu hafðir með á þingpalla skulu gestir og farangur þeirra, svo sem yfirhafnir, töskur, innihald vasa og skartgripir skimaðir í málmleitarhliði. Viðmiðunarskrá fyrir hluti sem óheimilt er að hafa á þingpöllum skal vera gestum til sýnis við innkomu í þinghúsið.

Þegar málmleitarhlið er notað má samhliða leita með handleit á slembiúrtaki þeirra gesta sem eru skimaðir. Handleit skal ná til allra gesta sem framkalla viðvörun frá hliðinu. Við handleit má nota handvirkt málmleitartæki.
Leit skal framkvæmd með svo mikilli tillitsemi sem unnt er og hún má aldrei vera víðtækari en nauðsynlegt er. Sá sem sætir leit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Handleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni.

Sá sem neitar að undirgangast skimun eða að láta leita eða skoða farangur sinn skal synjað um aðgang að þingpöllum.

Gestir sem koma á þingpalla skulu setja töskur og annan handfarangur í vörslu hjá þingvörðum meðan dvalist er á þingpöllum.

III. Fjölmiðlar og þáttagerðarfólk.

12. gr.
Snyrtimennska.

Starfsfólk fjölmiðla skal hlíta þeim almennu aðgangs- og umgengnisreglum sem kveðið er á um í I. og II. kafla. Það skal vera snyrtilega klætt við störf sín og skilja yfirhafnir og höfuðföt eftir í anddyri eða í því vinnuherbergi sem það hefur afnot af.

13. gr.
Auðkenniskort.

Starfsfólk fjölmiðla skal bera auðkenniskort með nafni fjölmiðils sem það starfar fyrir. Starfsfólk fjölmiðla getur ýmist borið kort útgefið af fjölmiðli eða fengið auðkenniskort útgefið af Alþingi og eru þau afhent í anddyri Skálans.

14. gr.
Starfsaðstaða.

Starfsfólki fjölmiðla skal látin í té starfsaðstaða skv. nánari ákvörðun skrifstofustjóra Alþingis.

15. gr.
Fréttaviðtöl.

Starfsfólki fjölmiðla er heimilt að taka fréttaviðtöl (blaða-, útvarps- og sjónvarpsviðtöl) í húsakynnum Alþingis við eftirtalda: Alþingismenn og ráðherra, gesti forseta Alþingis, starfsfólk þingflokka og skrifstofu Alþingis, einstaklinga sem sitja eða hafa verið boðaðir á nefnda- eða þingflokksfund og fulltrúa samtaka sem komnir eru til að afhenda forseta Alþingis erindi sem beint er til Alþingis. Viðtöl við alþingismenn og ráðherra eru heimil í Kringlu Alþingishússins og á 1. hæð Skálans. Viðtöl við aðra eru eingöngu heimil á 1. hæð Skálans.

16. gr.
Myndatökur.

Fréttaljósmyndurum er heimilt að taka myndir, þ.m.t. sjónvarpsupptökur, í Kringlu Alþingishússins, 1. hæð Skálans, úr fréttamannastúku, af austurþingpalli og eftir atvikum inn í þingsal úr hliðarherbergjum þingsalarins, en láta skal þingvörð vita hverju sinni þegar teknar eru myndir af þingsal úr hliðarherbergjum þingsalarins. Myndatökur af miðþingpalli eru eingöngu leyfðar í undantekningartilvikum og þá með sérstakri heimild deildarstjóra þingvörslu.

Skylt er að nota öryggisólar á myndavélar og sjónvarpstökuvélar við myndatöku frá þingpöllum. Notkun leifturljóss er óheimil á þingpöllum.

Myndatökur af nefndafundum og þingflokksfundum eru aðeins heimilar með leyfi formanns.

Við heimsókn gesta forseta Alþingis eru heimilaðar myndatökur við upphaf þeirra funda sem efnt er til.

17. gr.
Þáttagerðarfólk.

Þáttagerðarfólk, sem óskar eftir að fá aðgang að Alþingishúsinu til kvikmyndatöku, skal beina slíkri ósk til deildarstjóra þingvörslu. Deildarstjórinn skal láta þáttagerðarfólki í té upplýsingar um hvaða starfsmaður þingsins verði viðstaddur myndatökuna.

IV. Skoðunar- og fræðsluferðir.

18. gr.
Heimsóknir hópa og einstaklinga.

Óskum hópa um skoðunar- og fræðsluferðir um Alþingishúsið skal beint til starfsmanna almannatengsladeildar skrifstofunnar. Þeir skipuleggja skoðunarferðir og fylgja gestum um húsakynni Alþingis.

Skoðunar- og fræðsluferðir í Alþingishúsinu skulu að jafnaði vera á þeim tíma þegar ekki er þingfundur.

Einstaklingum, sem óska eftir því að fá að skoða Alþingishúsið og ekki eru áður taldir, er slíkt heimilt á heimsóknartímum sem auglýsa skal á vef Alþingis.

19. gr.
Gestir þingmanna.

Alþingismenn sem óska eftir því að fara með hópa um húsið utan þingtíma skulu hafa um slíkt samráð við vaktstjóra í Skála eða almannatengsladeild.

Alþingismönnum er heimilt að fara með einkagesti sína um húsið á fundatíma þingsins enda sé ekki um hóp að ræða og tilkynnt sé um slíka skoðunarferð til þingvarða í anddyri Skála. Að lokinni heimsókn skulu þingmenn fylgja gestum sínum til anddyris Skála eða biðja þingvörð um slíkt.

V. Framkvæmd.

20. gr.

Skrifstofustjóri Alþingis getur veitt undanþágu frá einstökum ákvæðum þessara reglna ef sérstaklega stendur á, en að öðru leyti annast forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs skrifstofu Alþingis framkvæmd þeirra.

21. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar skulu taka gildi frá og með 1. apríl 2007 og skulu þær birtar á vef Alþingis.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis 20. mars 2007, með breytingu á 11. gr. 15. ágúst 2014.)