Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. nóvember 2016. Útgáfa 145b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
1986 nr. 6 21. mars
Upphaflega l. 42/1969. Tóku gildi 1. júlí 1969. Endurútgefin, sbr. 2. gr. l. 33/1985, sem l. 6/1986. Tóku gildi 11. apríl 1986. Breytt með l. 108/1988 (tóku gildi 1. jan. 1989), l. 90/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992), l. 25/1994 (tóku gildi 11. apríl 1994), l. 9/1996 (tóku gildi 29. mars 1996), l. 87/1997 (tóku gildi 6. júní 1997), l. 76/2005 (tóku gildi 1. jan. 2006), l. 96/2006 (tóku gildi 30. júní 2006), l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 138/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Um stjórn fjallskilamála.
1. gr. [Hvert sveitarfélag er fjallskilaumdæmi sem skiptist í fjallskiladeildir. Ef þörf er á eða hentugt þykir vegna skipulags leita eða annarra atriða sem mælt er fyrir um í lögum þessum skal fjallskilaumdæmi þó taka til fleiri sveitarfélaga.] 1)
… 1)
[Nú eru sveitarfélög sameinuð og skulu þá umdæmi fjallskiladeilda haldast óbreytt frá því sem áður gilti og upprekstrarréttur standa óbreyttur miðað við eldri skipan nema um annað sé samið.] 2)
1)L. 138/2011, 134. gr. 2)L. 25/1994, 1. gr.
2. gr. [Sveitarstjórn telst vera stjórn fjallskilaumdæmis samkvæmt lögum þessum nema fleiri sveitarfélög myndi saman fjallskilaumdæmi. Ef fleiri sveitarfélög mynda saman fjallskilaumdæmi skulu viðkomandi sveitarstjórnir setja umdæminu sérstaka samþykkt þar sem kveðið skal á um skipan í sérstaka stjórn þess. Hver sveitarstjórn skal skipa a.m.k. einn fulltrúa í stjórnina. Þeir skulu þó aldrei færri en þrír.
Stjórn fjallskilaumdæmis fer með yfirstjórn allra afrétta- og fjallskilamála samkvæmt lögum þessum í viðkomandi umdæmi. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd fjallskilamála í hverri fjallskiladeild eftir því sem nánar er ákveðið í fjallskilasamþykkt eða af stjórn fjallskilaumdæmis.] 1)
1)L. 138/2011, 134. gr.
3. gr. [Stjórn fjallskilaumdæmis setur fjallskilasamþykkt fyrir viðkomandi umdæmi. Í fjallskilasamþykkt skal kveðið á um ytri mörk fjallskilaumdæmis, skiptingu umdæmis í fjallskiladeildir, réttindi manna og skyldur að því er varðar afnot afrétta og annarra sameiginlegra sumarbeitilanda, fjallskil og smalanir heimalanda vor og haust, svo og um öll önnur atriði er að framkvæmd fjallskila lúta.] 1)
Fjallskilasamþykkt tekur ekki gildi, fyrr en staðfest hefur verið af ráðuneyti því, sem fer með landbúnaðarmál, enda komi ákvæði hennar eigi í bág við þessi lög.
1)L. 138/2011, 134. gr.
II. kafli. Um afrétti og notkun þeirra.
4. gr. Land, sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Þar sem almenningar (óbyggðir) þurfa hreinsunar við, tekur og fjallskilaframkvæmd til þeirra, eftir því sem þörf krefur og nánar er fyrir mælt í lögum þessum.
5. gr. Það skulu vera afréttir, sem að fornu hafa verið. Þó getur [stjórn fjallskilaumdæmis] 1) ákveðið nýja afrétti eftir tillögum [sveitarstjórnar, ef við á], 1) og með samþykki landeiganda. Enn fremur geta [sveitarstjórnir, með samþykki stjórnar umdæmis, ef við á], 1) breytt takmörkum afrétta og lagt til þeirra land, er þær hafa full umráð yfir. Ekki verður afréttarland, þótt í einkaeign sé, gert að heimalandi, nema samþykki [sveitarstjórnar] 1) komi til. … 1)
1)L. 138/2011, 134. gr.
6. gr. [Stjórn fjallskilaumdæmis semur skrá yfir alla afrétti er héraðsbúar nota.] 1) Skal þar lýst merkjum þeirra og tekið fram, hvaða jarðir eiga upprekstur á hvern afrétt svo og hverjir séu afréttareigendur, ef um afrétt í einkaeign er að ræða. Skrá þessi gildir sem heimild fyrir upprekstrarrétti hverrar jarðar í [fjallskilaumdæminu], 1) og verður henni ekki breytt, nema eftir tillögum sveitarstjórnar og með samþykki jarðeiganda eða umráðamanns jarðar. Breytingar á afréttum eða réttindum yfir þeim skulu þegar færðar í afréttaskrá. Afréttaskrá skal geymd í skjalasafni sýslunnar.
1)L. 138/2011, 134. gr.
7. gr. Upprekstrarrétt á afrétt hrepps eða annars upprekstrarfélags eiga allir búfjáreigendur, sem landsafnot hafa í hreppi eða á félagssvæði, nema þar frá sé, að fengnu samþykki jarðeiganda, gerð undantekning í fjallskilasamþykkt.
Um skyldu til að reka búfé á afrétt fer eftir því, sem fyrir er mælt í fjallskilasamþykkt.
8. gr. Um upprekstrarrétt á afréttarland, sem liggur undir einstaka jörð eða stofnun, fer eftir fornri venju eða samningum.
Í fjallskilasamþykkt má setja ákvæði um, að í slíkt afréttarland megi eigi taka búpening til sumargöngu af utanhreppsmönnum, sem eigi hafa þar upprekstrarrétt, nema með samþykki sveitarstjórnar, þar sem landið liggur.
Um afréttargjald til eiganda afréttarlands fer eftir samningi eða, ef samkomulag næst ekki, eftir ákvörðun viðkomandi hreppsnefndar. Þó getur sá aðili, sem eigi vill una ákvörðun hreppsnefndar, krafist mats dómkvaddra manna um gjaldhæð. Ákvörðun um hagatoll, hvort heldur ákveðinn er með samningi eða eftir mati, gildir aldrei fyrir lengri tíma en 6 ár í senn.
9. gr. Nú rís ágreiningur um upprekstrarrétt eða notkun afréttar samkvæmt 8. gr., og skal þá, ef hreppsnefnd tekst eigi að miðla málum, vísa ágreiningnum til [sýslumanns], 1) er úrskurðar málið. Úrskurði [sýslumanns] 1) má skjóta til dómstóla.
1)L. 108/1988, 43. gr.
10. gr. Enginn má nota afrétt, sem eigi á þar upprekstrarrétt samkvæmt 7. eða 8. gr. nema viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir leyfi, eða landeigandi, ef um einkaeign á afréttarlandi samkvæmt 8. gr. er að ræða. Um slíkar leyfisveitingar, svo og um gjaldskyldu leyfishafa fyrir afréttarnot, skulu nánari fyrirmæli sett í fjallskilasamþykkt.
11. gr. Enginn má hafa afnot afréttar fyrir sjálfan sig, svo sem grasnyt og hlunnindi, nema hreppsnefnd leyfi. Eigi tekur þó ákvæði þetta til fiskveiði eða annarra hlunninda, sem í einkaeign eru, þótt í afrétti séu.
12. gr. Nú eru beitilönd einstakra jarða notuð til upprekstrar eða sem sameiginlegur bithagi með líkum hætti og afréttir, og skal þá reglum laga þessara um afrétti beitt um þau eftir því, sem við getur átt og nánar er fyrir mælt í fjallskilasamþykkt.
13. gr. Eftir að sveitarstjórn hefur ákveðið, að vorsmölun skuli lokið, og allt til fyrstu gangna, má enginn smala afrétt né gera afréttarbúpeningi ónæði, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.
14. gr. Nú eru tveir hreppar eða fleiri í fjallskiladeild (upprekstrarfélagi) og þykir hreppsnefnd í einum þeirra nauðsyn til bera að ganga úr fjallskiladeildinni og stofna nýja, og boðar þá hreppsnefnd til fundar með búendum í hreppnum, sem upprekstur eiga, og lætur atkvæði ganga um málið. Verði 3/ 4 þeirra, er atkvæðisrétt eiga, því fylgjandi að ganga úr fjallskiladeildinni, tilkynnir hreppsnefnd það [stjórn fjallskilaumdæmis], 1) og getur hún þá breytt fjallskilasamþykkt að því er þetta varðar og ákveðið hreppnum nýja skilarétt, ef þörf krefur. [Stjórn fjallskilaumdæmis] 1) kýs þrjá óvilhalla menn í skiptanefnd, til að stýra skiptum á sameiginlegum eignum fjallskiladeildarinnar. Náist ekki samkomulag aðila um þau skipti, að því er varðar lausafé og mannvirki, sker skiptanefnd úr.
Um skiptingu afréttarlanda fer sem hér segir:
a. Þar sem hver hreppur í fjallskiladeild þeirri sem skipta á, hefur frá fornu fari annast um fjallskil á ákveðnum afréttahluta og haft rétt til upprekstrar í hann, skal ákveða landamerki, þar sem leitamót hafa verið frá fornu fari, [og færir stjórn fjallskilaumdæmis] 1) þau í afréttaskrá.
b. Þar sem afréttur hefur verið leitaður sameiginlega, skal Landgræðsla Íslands fengin til að meta afréttinn gróðurmati og gera tillögur um skiptingu eftir reglum III. kafla þessara laga. Náist eigi samkomulag aðila um landamerki, sker skiptanefnd úr. Kostnað af störfum skiptanefndar og Landgræðslunnar ber sá aðili, er skipta beiddist. Nú þykist annar hvor aðili vanhaldinn af úrskurði skiptanefndar í einhverju efni, og má þá skjóta honum til [ráðherra], 2) sem tilnefnir þrjá menn í yfirskiptanefnd, og úrskurðar hún um ágreiningsatriði. Kostnað af störfum hennar bera aðilar að jöfnu.
1)L. 138/2011, 134. gr. 2)L. 126/2011, 113. gr.
III. kafli. Um verndun beitilands og um ítölu.
15. gr. Stjórnum fjallskiladeilda og sveitarstjórnum, þegar um heimalönd er að ræða, er skylt að fylgjast með ástandi afrétta og heimalanda, og skulu þær hafa um það samráð við gróðurverndarnefnd viðkomandi sýslu og Landgræðslu ríkisins. 1)
Berist þessum aðilum rökstuddar ábendingar um, að nýtingu afréttar eða heimalanda sé ekki hagað á skynsamlegan hátt, eða að um ofbeit sé að ræða, er þeim skylt að leita álits gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins um málið og um aðgerðir til úrbóta.
1)Sjá rg. 60/2000.
16. gr. Þar sem talin er þörf bættrar meðferðar afréttar og verndar á gróðri, að mati gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins, er stjórnum fjallskiladeilda heimilt að grípa til eftirtalinna aðgerða:
a. Ákveða, að fjallgöngur á hausti skuli færðar fram, eða að smalað sé af tilteknum hlutum afréttar fyrir göngur.
b. Ákveða, hvenær fyrst megi reka hverja búfjártegund á afrétt.
c. Láta girða sérstök svæði á afréttum eða í heimalöndum fyrir hrossabeit.
d. Banna, að stóðhross séu rekin á afrétt, enda séu þau þá undanskilin fjallskilum.
e. Eiga frumkvæði að félagslegum aðgerðum til hagabóta í samráði við gróðurverndarnefnd og Landgræðslu ríkisins.
f. Eiga frumkvæði að ítölu, ákvæði 17.–25. gr.
17. gr. Ítölu má gera í afrétti og heimalönd fyrir [heil fjallskilaumdæmi], 1) einstök sveitarfélög eða hreppshluta, að fullnægðum skilyrðum laga þessara, enda sé gætt að brjóta ekki í bága við lög um sauðfjárveikivarnir.
1)L. 138/2011, 134. gr.
18. gr. Eftirtaldir aðilar geta farið þess á leit við [stjórn fjallskilaumdæmis], 1) að athugun verði gerð á því, hvort þörf sé fyrir ítölu, og krafist ítölu, ef niðurstaða athugunar er á þann veg, að hennar sé talin þörf:
a. Einstakir bændur, búi þeir á viðkomandi svæði eða á nærliggjandi svæði, þar sem um verulegan samgang búfjár er að ræða á milli svæðanna.
b. Sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags og sveitarstjórnir nágrannasveitarfélaga, ef verulegur samgangur búfjár er á milli þeirra.
c. [Stjórnir aðliggjandi fjallskilaumdæma], 1) ef verulegur samgangur búfjár er á milli þeirra.
d. Gróðurverndarnefnd viðkomandi sýslu og gróðurverndarnefnd í nágrannasýslu, ef verulegur samgangur búfjár er á milli sýslnanna.
e. Landgræðsla ríkisins.
1)L. 138/2011, 134. gr.
19. gr. Nú hefur … 1) borist ósk um, að gerð verði ítala í ákveðið landsvæði, og er þá skylt að leita álits hlutaðeigandi sveitarstjórnar, gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins á málinu. Telji einhver þessara aðila þess þörf, skal gera athugun á beitarþoli og notkun landsins og gefa um það álitsgerð.
1)L. 138/2011, 134. gr.
20. gr. Telji gróðurverndarnefnd og Landgræðsla ríkisins, eða hlutaðeigandi sveitarstjórn, aðgerða þörf, ítölu eða annarrar gróðurverndar, þá skal stjórn fjallskiladeildar [eða stjórn fjallskilaumdæmis], 1) ef heil fjallskilaumdæmi eiga hlut að máli, eða sveitarstjórn, ef um heimalönd er að ræða, boða til fundar alla bændur innan þess svæðis, sem um ræðir. Ef um heilt fjallskilaumdæmi eða meira er að ræða, er heimilt að boða til fulltrúafundar, þar sem fulltrúar einstakra sveitarfélaga eða fjallskiladeilda eiga fundarsetu, kosnir af bændafundum í hlutfalli við bændafjölda hvers sveitarfélags eða deildar. Fulltrúafundur getur því aðeins ráðið málinu til lykta, að allar deildir séu því samþykkar.
Sá telst bóndi, er hefur lögbýli til ábúðar. Í fundarboði skal geta um fundarefni. Fundur telst lögmætur, ef meira en helmingur atkvæðisbærra manna mætir. Hver maður hefur eitt atkvæði, og eigi fleiri, þótt hann nytji eða búi á tveimur eða fleiri lögbýlum. Gróðurverndarnefnd viðkomandi [svæðis] 1) og fulltrúi frá Landgræðslu ríkisins eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt. Skylt er að boða þeim slíka fundi.
Skrá skal í fundargerð, hve margir bændur eru á viðkomandi svæði, svo og hve margir hafa greitt atkvæði um fundarefnið.
Verði samþykkt með meirihluta atkvæða á lögmætum fundi að gera ítölu eða grípa til annarra aðgerða til að létta af afréttum eða heimalöndum, sbr. a–e-lið 16. gr., er sú samþykkt bindandi.
Samþykkt um ítölu í afrétti eða heimalönd skal send [stjórn fjallskilaumdæmis], 1) og skal hún annast um, að ítala sé gerð.
Ef aðeins er um að ræða eina fjallskiladeild, eitt sveitarfélag eða hluta sveitarfélags, og fundur samþykkir ítölu einróma, má fela stjórn fjallskiladeildar eða sveitarstjórn að sjá um framkvæmd ítölu. Skylt er þó ætíð að leita aðstoðar sérfróðra manna við ítölumatið.
Fundarályktanir um aðrar aðgerðir samkvæmt heimildum í a–e-lið 16. gr. skal senda viðkomandi fjallskiladeild.
Nú er tillaga um ítölu eða aðrar aðgerðir felld við atkvæðagreiðslu, og er þeim, sem aðgerða hefur krafist, þá heimilt að vísa málinu til landgræðslustjóra, sem fer með það, samkvæmt 23. gr. landgræðslulaga nr. 17/1965. Skylt er að hlíta þeirri ítölu, sem þannig er ákveðin.
1)L. 138/2011, 134. gr.
21. gr. Þegar [stjórn fjallskilaumdæmis] 1) hefur borist fundarályktun um ítölu samkvæmt 20. gr., annast sýslumaður um skipun 3ja manna ítölunefndar. Sýslumaður tilnefnir formann nefndarinnar, en [Bændasamtök Íslands] 2) og Landgræðsla ríkisins sinn manninn hvort. Varamenn skulu tilnefndir af sömu aðilum.
1)L. 138/2011, 134. gr. 2)L. 9/1996, 1. gr.
22. gr. Ítala skal svo ákvörðuð, að fullskipað sé í landið en ekki ofskipað miðað við beitarþol. Byggja skal á beitarþolsrannsóknum svo sem við verður komið, jafnframt skal tekið tillit til aðstæðna hverju sinni.
Búfé skal lagt í einingar með hliðsjón af tillögum sérfræðinga í fóðurfræði og beitarþolsrannsóknum. Ítölunefnd er heimilt að ákveða hlutfallstölu einstakra búfjártegunda, sé gróðurfar landsins mjög einhæft.
23. gr. Ef innan ítöluumdæmis er kaupstaður eða kauptún, sem hefur umráðarétt jarðnæðis, er grasnyt fylgir, hefur kauptúnið sem heild beitarrétt í heimahögum og afrétti í hlutfalli við beitiland jarðarinnar, eftir sömu reglum og um getur í 22. og 24. gr. Um rétt einstaklinga innan viðkomandi kaupstaðar eða kauptúns fer eins og um önnur sveitarfélög og einstaklinga innan þeirra sé að ræða. Nú er kauptún í landi jarðar, sem er einkaeign, og skal þá við ítölu úthluta jörðinni í heild, þar með talið kauptúnið, því, sem henni ber í hlutfalli við aðrar jarðir, en íbúar kauptúnsins semji hver fyrir sig við umráðamann jarðarinnar um beitarréttindi í heimalandi og afrétti.
24. gr. Þegar ítölunefnd hefur ákveðið heildartölu búfjár, sem hafa má á hverju svæði, sendir hún úrskurðinn viðkomandi sýslumanni, sem birtir hann viðkomandi aðilum og Landgræðslu ríkisins. Sveitarstjórn hefur eftirlit með því að eigi sé haft fleira í högum en ítölunefnd hefur ákveðið.
Nú er fleira búfé á ákveðnu ítölusvæði en þar má ganga samkvæmt úrskurði ítölunefndar, og má þá fela ítölunefnd að ákveða hlutdeild hvers býlis af heildarsveitarréttindum.
Nú hefur hreppsnefnd eða stjórn fjallskiladeildar gert tillögur um hlutdeild einstakra býla í ítölu, og getur þá sá, sem ekki vill una þeim, skotið málinu til ítölunefndar, sem sker úr.
Réttur hvers lögbýlis, sem sérmetið var við fasteignamat árið 1932, skal að 1/ 3 vera jafn, en að 2/ 3 skal hann vera í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar. Hafi það ekki verið metið, má leggja til grundvallar landverð jarðarinnar eftir fasteignamati að frádregnum hlunnindum og að frádregnu verðmæti þess hluta af fullræktuðu landi, sem ætla má að nota verði til heyöflunar. Taka má tillit til sérstakra búskaparhátta á jörðinni.
Heimilt er sveitarfélagi, sem ekki fyllir ítölu sína í afrétti, að leyfa öðru sveitarfélagi, sem á upprekstur í sameiginlegt afréttarland, að fylla ítöluna, enda komi gjald fyrir, sem ítölunefnd ákveður. Hafi ábúandi færra búfé í heimahögum en svarar ítölu hans, má hann taka af öðrum innan sama hrepps, en eigi utan, nema með samþykki sveitarstjórnar. Sama gildir um eyðijarðir, noti eigandi þær ekki fyrir eigin fénað. Hafi hreppsbúar ekki þörf nytjalandsins, en sveitarstjórn synjar jarðeiganda að taka fénað utan hrepps, getur hann krafist beitarleigu eftir mati ítölunefndar, enda sé það land, ef um heimaland er að ræða, girt fjárheldri girðingu.
Nú hefur ítala verið ákveðin í afréttarland, og er þá sveitarstjórn heimilt að jafna niður fjallskilakostnaði í hlutfalli við ítölu hvers býlis.
25. gr. Til þess að gera ítölu í land, sem er innan tveggja eða fleiri lögsagnarumdæma eða er eign fleiri en eins lögsagnarumdæmis, tilnefnir [ráðherra] 1) einn mann í nefnd og er hann formaður, stjórn [Bændasamtaka Íslands] 2) annan og landgræðslustjóri hinn þriðja.
1)L. 126/2011, 113. gr. 2)L. 9/1996, 1. gr.
26. gr. Kostnaður við störf ítölunefndar greiðist af því sveitarfélagi, sem hlut á að máli. Nú er ítala gerð í lönd tveggja eða fleiri sveitarfélaga, og skiptist þá kostnaðurinn milli þeirra eftir meðaltalstölu búpenings síðastliðin fimm ár. Rísi ágreiningur um reikning ítölunefndar eða skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga, [skera Bændasamtök Íslands úr]. 1)
1)L. 9/1996, 1. gr.
27. gr. Sá, er ekki vill una úrskurði ítölunefndar, getur krafist yfirítölumats innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu ítöluúrskurðar. Krafan sendist [ráðherra], 1) sem skipar þrjá menn í yfirítölunefnd, og sé einn þeirra formaður. Starfar nefndin samkvæmt ákvæðum 22. gr.
Kostnaður greiðist á sama hátt og segir í 26. gr., ef nefndin breytir ítölu um 10 af hundraði eða meira, ella af þeim, er krafðist endurskoðunar.
1)L. 126/2011, 113. gr.
28. gr. Nú telur einhver, að ítölu sé ekki fylgt, og getur hann þá kært málið til sýslumanns.
Nú verður sannað, að einhver bóndi hefur fleira búfé í afrétti eða heimahögum en hann hefur rétt til samkvæmt ítölu, og skal þá sýslumaður gera viðkomanda að greiða sekt til fjallskilasjóðs.
Sektarfé skal verja til gróðurbóta á viðkomandi landi.
Sekt skal vera sem samsvarar 1/ 10 af meðallambsverði fyrir hverja fjallskilaeiningu, sem er umfram leyfilega tölu, en tvöfalda má sekt fyrir hvert ítrekað brot. Heimilt er að láta sektir niður falla, ef sönnur verða færðar á, að um ásetning hafi ekki verið að ræða.
29. gr. Skylt er að taka ítölu til endurmats, þegar 4 ár eru liðin frá þeim tíma, að ákvörðun um ítölu tók gildi, ef a.m.k. 1/ 4 ábúenda, sem hlut eiga að máli, krefjast þess, eða ef landgræðslustjóri, stjórn fjallskiladeildar eða gróðurverndarnefnd telur þess þörf.
30. gr. Nánari ákvæði um ítölu má setja í fjallskilasamþykkt.
IV. kafli. Um ágang afréttarpenings o.fl.
31. gr. Nú verða mikil brögð að ágangi búfjár úr afrétti í heimahaga, og getur þá sá, er fyrir verður, gert sveitarstjórn aðvart. Skal hún þá, ef um verulegan eða óeðlilegan ágang virðist að ræða, skipa fyrir um smölun ágangspenings og rekstur til afréttar eða skilaréttar. Kostnaður greiðist úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði þess hrepps eða hreppa, er afrétt þann nota, er ágangspeningur kom frá. Heimilt er þó í fjallskilasamþykkt að ákveða að nokkru aðra skipan á skiptingu þessa kostnaðar. Sama gildir um kostnað við búfé, sem stendur við afréttargirðingar.
32. gr. Nú verða eigendur eða ábúendur jarða, er að afrétti liggja, fyrir verulegum ágangi afréttarpenings, og geta þeir þá krafist girðingar á milli afréttar og heimalanda sinna skv. 7. gr. laga nr. 10 25. mars 1965 (girðingarlaga).
33. gr. Nú verður ágangur búfjár úr einu heimalandi í annað, og getur þá sá, er fyrir verður, kært til hreppstjóra. Stafi ágangurinn af búfé, sem vanrækt hefur verið að reka á fjall eftir fyrirmælum fjallskilasamþykktar, ber hreppsnefnd að sjá um, að eigendur reki fénaðinn til afréttar. Vanræki þeir það, lætur hún reka á þeirra kostnað. Stafi ágangur hins vegar af búfé, sem heimilt er að hafa í heimahögum, ber sveitarstjórn að láta smala ágangsfénaði og reka þangað, sem hann á að vera, á kostnað eiganda, nema annað sé ákveðið í fjallskilasamþykkt.
[Sinni sveitarstjórn ekki skyldum sínum skv. 1. mgr. að mati lögreglustjóra skal hann láta smala ágangsfénaði á kostnað eiganda.] 1)
1)L. 87/1997, 1. gr.
34. gr. Gangi búpeningur í engi, tún, garðlönd eða önnur afgirt svæði og valdi tjóni, skal eigandi gjalda ábúanda bætur. Sé um endurtekinn ágang sama búpenings að ræða, getur ábúandi sett hann inn og gert eiganda aðvart, enda hafi hann áður skorað á eiganda að afstýra frekari ágangi. Skal eiganda tilkynnt um innsetninguna samdægurs. Vitji eigandi eigi hins innsetta búpenings innan tveggja sólarhringa og greiði uslagjald samkvæmt mati tveggja manna, er hreppstjóri nefnir til, má [krefjast nauðungarsölu á fénu án þess að frekari áskorunar til eiganda sé þörf. Söluverð þess að frádregnu uslagjaldi og kostnaði greiðist] 1) búfjáreiganda.
1)L. 90/1991, 91. gr.
35. gr. Sé búpeningur settur inn, skal þess gætt, að hann sé ekki í svelti. Ef innsettur fénaður ferst eða verður fyrir slysi, greiðir sá, er inn setur, eiganda bætur.
V. kafli. Um göngur og réttir.
36. gr. Í fjallskilasamþykkt skulu vera ákvæði um vorsmölun heimalanda og afrétta.
37. gr. Á hvern afrétt skal gera tvennar almennar leitir hið fæsta á hverju hausti. Skal í fjallskilasamþykkt kveða nánar á um leitir á hverjum afrétti.
38. gr. Öllum, sem búfé hafa undir höndum, sem fjallskilaskylt er, ber að taka þátt í göngum og hreinsun heimalanda samkvæmt fyrirmælum þessara laga og eftir því og á þann hátt, er sveitarstjórn mælir fyrir um á hverjum stað. Húsbændur skulu inna af höndum fjallskil fyrir heimamenn sína, nema sveitarstjórn leggi þau á þá sérstaklega.
39. gr. Hver bóndi er skyldur að smala heimaland sitt á hausti samhliða leitum, ef sveitarstjórn mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eyðibýla, þó að þeir eigi þar ekki fjárvon. Hlýði umráðamaður lands ekki fyrirmælum sveitarstjórnar, ber honum að greiða smölunarkostnað eftir mati sveitarstjórnar. Ekki verður umráðamaður lands þó krafinn um þátttöku í smölunarkostnaði, sé honum meinað að nota land sitt til sumarbeitar eða leigja það samkvæmt 8. gr. eða vegna búfjárveikivarna.
Í fjallskilasamþykkt skal ákveða nánar, hvað skuli vera aðalleitir, er ákvæði þessi taka til.
40. gr. Sveitarstjórn eða umboðsmaður hennar (fjallskilastjóri) skipar fyrir um reglulegar afréttargöngur og aðrar leitir samkvæmt fjallskilasamþykkt, sbr. 33. og 35. gr. 1) Undanþiggja má fjallskilum að einhverju eða öllu leyti fénað, sem gengur í öruggum girðingum eða á eyjum.
Í fjallskilasamþykkt má ákveða, að haustsmölun heimalanda verði metin til aðalfjallskila að meira eða minna leyti, eftir því sem til hagar á hverjum stað.
1)Svo í Stjtíð., en virðist eiga að vera 36. og 38. gr.
41. gr. Nú er jörð í eyði og land hennar ekki lagt til afréttar viðkomandi hrepps með samningum, og er þá eiganda eða umboðsmanni hans skylt að annast um hreinsun heimalands jarðarinnar vor og haust sem og önnur fjallskil, eins og byggð væri. Nú fellur sveitarfélag eða verulegur hluti þess úr byggð, og skal þá [stjórn fjallskilaumdæmis] 1) sjá um, að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Kostnaður við þau skiptist þannig, að eigendur bera 1/ 2, hreppar þeir, er fjárvon eiga í löndunum, 1/ 4 og ríkið 1/ 4. [Bændasamtök Íslands úrskurða] 2) kostnaðarreikninga.
1)L. 138/2011, 134. gr. 2)L. 9/1996, 1. gr.
42. gr. Fjallskilum í afréttum og öðrum sumarbeitarhögum skal jafnað niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings. Heimilt er þó að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, enda séu um það ákvæði í fjallskilasamþykkt.
43. gr. Hver fjallskiladeild ritar gerðabók og færir sérstakt bókhald. Skal fjallskilareikningur endurskoðaður á sama hátt og sveitarsjóðsreikningur.
Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu, eftir því sem þörf krefur og við verður komið, ella goldin í peningum eftir mati sveitarstjórnar.
Þeim kostnaði fjallskilasjóðs, sem ekki verður inntur af hendi með skylduvinnu og óvissar tekjur sjóðsins hrökkva ekki fyrir, er heimilt að jafna niður eftir fyrirmælum 42. gr.
Fjallskilagjöld má taka lögtaki.
44. gr. Nú vanrækir maður án lögmætra ástæðna að inna fjallskil af hendi, og skal hann þá, eftir ákvörðun hreppsnefndar eða bæjarstjórnar, auk greiðslu fyrir fjallskilin, eins og þau eru metin, gjalda sekt í fjallskilasjóð, allt að helmingi af matsverði fjallskilanna.
45. gr. Þyki einhverjum sér gerð of mikil fjallskil, getur hann kært til hreppsnefndar eða bæjarstjórnar, er úrskurðar kæruna. Úrskurði hreppsnefndar má skjóta til [sýslumanns]. 1) Enginn getur með því að kæra skotið sér undan að inna af hendi þau fjallskil, er honum voru gerð.
1)L. 108/1988, 43. gr.
46. gr. Sveitarstjórn getur ákveðið, að sérstakir kostnaðarliðir, sem af fjallskilum stafa, greiðist úr sveitarsjóði.
47. gr. Í fjallskilasamþykkt skulu vera ákvæði, er tryggja eins vel og verða má, að göngur fari fram samtímis í löndum, er saman liggja og ekki eru aðgreind frá öðrum með girðingum, vötnum eða fjallgörðum.
Nú verður ágangur fjár frá einu sveitarfélagi í annað eða frá einu fjallskilaumdæmi í annað, og getur þá sá, er fyrir verulegum ágangi verður, krafið hinn aðilann um gjald fyrir, eða að hann sendi menn í göngur, eftir því sem hæfilegt þykir miðað við gangnakostnað og usla í högum. Rétt er, að um þetta séu nánari ákvæði í fjallskilasamþykkt.
48. gr. [Í fjallskilasamþykkt skal ákveða] 1) hvar aðalréttir og aukaréttir skuli vera í fjallskilaumdæmi, að fengnum tillögum sveitarstjórna. Þar skal og tiltekið á sama hátt, hvaða leitarsvæði skuli gengin til hverrar réttar og hvaða daga göngur skuli gerðar á hverjum stað. Gangnadögum má þó breyta fyrir eitt haust í senn með samþykki [stjórnar fjallskilaumdæmis], 1) enda sé þess gætt, ef göngum er flýtt eða frestað, að breytingin nái til þeirra leitarsvæða, er saman liggja.
1)L. 138/2011, 134. gr.
49. gr. Sveitarstjórn eða fjallskilastjórn ber að sjá um, að til sé á hverjum réttarstað hæfilega stór fjárrétt og nægilegt dilkrými við hverja rétt, svo og að réttinni sé vel við haldið.
50. gr. Þegar byggja þarf rétt, er landeiganda skylt að leggja til land undir hana, þó ekki tún eða engi.
Metnar skulu landeiganda bætur fyrir jarðrask í sambandi við nýbyggingu réttar eða endurbætur, og rétt á ábúandi á árlegu uslagjaldi fyrir átroðning vegna réttarhalds.
51. gr. Nú er ákveðið að reisa eða endurbyggja almenningsrétt, og skal þá, ef ekki er öðruvísi ákveðið með samkomulagi aðila, kostnaður við bygginguna greiddur úr fjallskilasjóði viðkomandi fjallskiladeildar eða deilda. Heimilt er sveitarstjórn að jafna sérstaklega niður á fjallskilaskylda aðila gjaldi í fjallskilasjóð vegna réttarbyggingar, sbr. 42. gr. og 46. gr. Viðhald réttar greiðist með sama hætti.
Nánari ákvæði má setja í fjallskilasamþykkt.
VI. kafli. Um hreinsun heimalanda eftir réttir.
52. gr. Hreppsnefnd skal sjá um, að eftir réttir á haustum séu öll heimalönd rækilega smöluð samtímis, svo oft sem þurfa þykir, og að afbæjarfé komist til réttra eigenda.
53. gr. Skyldur er hver bóndi eða landráðandi að hirða fé það, sem finnst í heimalandi hans, eftir að fjallgöngum er lokið. Í fjallskilasamþykkt skal kveðið nánar á um skil afbæjarfjár.
VII. kafli. Um eftirleitir og öræfaleitir o.fl.
54. gr. Eftirleitir skal gera á afrétt, ef líklegt er, að þar leynist fé. Skal í fjallskilasamþykkt kveða nánar á um eftirleitir.
55. gr. Nú liggja öræfi, þar sem fjárvon kann að vera, að afréttum eða öðrum sumargöngulöndum, og skal þá [stjórn fjallskilaumdæmis] 1) eða nefndir hlutast til um, að þau séu leituð að minnsta kosti einu sinni á hausti.
1)L. 138/2011, 134. gr.
56. gr. Í fjallskilasamþykkt má heimila sveitarstjórn að láta lóga fé á hausti, er finnst í öræfaleitum.
57. gr. Nú verður vart fjár í ógöngum, og er þeim þá skylt, er sér, að tilkynna það oddvita viðkomandi sveitarfélags. Skal hann þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu, ef fært þykir. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanns eða aðstæður það örðugar, að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð, sé það unnt. Takist björgun kinda úr slíkum ógöngum, greiðir eigandi kindar hálft verð hennar fyrir björgun, en sveitarsjóður, þar sem eigandi er heimilisfastur, hinn hluta kostnaðar. Náist kind eða kindur hins vegar ekki lifandi, skal sýslusjóður, þar sem björgunartilraun var gerð, bera kostnað vegna tilraunarinnar, enda samþykki sýslumaður reikninga.
VIII. kafli. Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.
58. gr. Hver sá, sem fjallskil innir af höndum, hvort heldur við smölun afrétta eða heimalanda, skal leitast við að handsama, svo fljótt sem verða má, ómerkinga, sem vart kann að verða, og auðkenna þá, ef þeir fylgja móður.
Nú koma ómerkingar eða annað óskilafé til réttar, og skal þá draga það í sérstakan dilk, þar sem menn eiga kost á að leiða mæður til ómerkinga og sanna eignarrétt sinn á öðru óskilafé.
59. gr. Ómerkingum og óskilafé, sem kemur fyrir í skilaréttum og ekki finnast eigendur að, skal þegar lógað í sláturhúsi, og sér hreppstjóri um, að svo sé gert. Áður en slíku fé er lógað, skal skrifa nákvæma lýsingu á því, þar sem getið sé marks og annarra einkenna, er eigendur gætu helgað sér það eftir.
Óskilafé, sem fram kemur eftir réttir og ekki finnast eigendur að, eða ekki kemst til eigenda vegna fjarlægðar, skal fara með á sama hátt.
Allt óskilafé, sem fargað er, skal lagt inn á reikning, þannig að greiða megi út verð hverrar kindar, ef eigandi finnst.
Annan óskilapening, svo sem hross og nautgripi [má selja að kröfu hreppstjóra við nauðungarsölu með [fjögurra vikna innlausnarfresti] 1) án þess að sérstakrar áskorunar sé þörf til eiganda]. 2) Nánari ákvæði má setja í fjallskilasamþykkt.
1)L. 96/2006, 1. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr.
60. gr. Fyrir árslok skulu hreppstjórar birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár, hver í sínum hreppi, eða um sölu, ef um óskilahross eða nautgripi er að ræða. Skal í tilkynningu greint mark og auðkenni hverrar skepnu, eftir því sem kostur er, og skorað á rétta eigendur að gefa sig fram og sanna rétt sinn innan tiltekins tíma.
61. gr. Af sláturverði ómerkinga og annars óskilafjár og andvirði seldra hrossa og nautgripa greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðast eiganda, ef hann sannar eignarrétt sinn innan tiltekins tíma, ella í fjallskilasjóð eða sjóði þeirra fjallskiladeilda, þar sem óskilapeningurinn kom fyrir.
62. gr. Nánari fyrirmæli um meðferð og förgun ómerkinga og annars óskilapenings má setja í fjallskilasamþykkt.
IX. kafli. Um mörk og markaskrár.1)
1)Rg. 50/1994. Rg. 411/1996. Rg. 212/1997. Rg. 708/1997. Rg. 200/1998, sbr. 30/2000, 221/2002, 1105/2005, 324/2009 og 866/2010.
63. gr. [Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Lömb skulu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars. Skylt er að brennimerkja eða plötumerkja allt ásett sauðfé og geitfé með brennimarki eða númeri lögbýlis eða eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags. Að auki er heimilt að brennimerkja sömu númer og tákn á horn.
[Ráðherra] 1) setur með reglugerð nánari ákvæði um notkun búfjármarka, þar með talin ákvæði um liti, gerð og notkun plötumerkja eftir varnarsvæðum, framkvæmd frost- og örmerkinga og skyldu til að láta merkja stórgripi. Í fjallskilasamþykkt er heimilt að setja sérákvæði um búfjármörk.] 2)
1)L. 126/2011, 113. gr. 2)L. 87/1997, 2. gr.
64. gr. Búfé skal draga eftir mörkum. Mark helgar markeiganda eignarrétt nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér búpening sem eigi ber hans rétta mark. [Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.] 1) Eiganda rétthærra marks er skylt að gera grein fyrir eignarrétti sínum ef eigandi réttlægra marks krefst þess. Enginn má nota mark annars manns, nema leyfi hans komi til.
1)L. 87/1997, 3. gr.
65. gr. Mörk ganga að erfðum. Gefa má mark og selja. Taka má upp nýtt mark, gerðarmark. Við framsal á marki og upptöku gerðarmarks skal þess gætt að gerð marksins sé í samræmi við reglur fjallskilaumdæmisins og reglur um bann við sammerkingum skv. 68. gr. og ekki svo líkt öðru marki á svæðinu að hætt sé við misdrætti að dómi markavarðar.
Eigendaskipti að marki milli útgáfu markaskráa skulu tilkynnt markaverði. Sama gildir ef markeigandi flyst á milli fjallskiladeilda eða fjallskilaumdæma eða tekur upp nýtt mark. Geri markavörður ekki athugasemdir við markið, að höfðu samráði við hlutaðeigandi markaverði, birtir hann tilkynningu um það í Lögbirtingablaði eða í viðbæti við markaskrá umdæmisins á kostnað hins nýja eiganda. Hreppstjórar og markaverðir á viðkomandi svæðum skulu færa skrá yfir slík mörk og eigendur þeirra.
Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að bannað sé að nota tiltekin mörk, en að öðru leyti skal í fjallskilasamþykkt tekið fram hvers konar mörk megi taka upp og nota.
66. gr. Stjórn hvers fjallskilaumdæmis skal sjá um útgáfu á markaskrá fyrir umdæmið. Markaskrár skulu gefnar út samtímis um land allt og eigi sjaldnar en 8. hvert ár. Skulu markaskrár næst gefnar út 1988. Stjórnum fjallskilaumdæma er heimilt að sameinast um útgáfu markaskrár.
Stjórn fjallskilaumdæmis felur ákveðnum manni, markaverði, umsjón með mörkum og gerð og útgáfu markaskrár af sinni hálfu. Skal sem mest samræmi haft í gerð markaskráa um land allt og fylgt í því efni ákvæðum reglugerðar sem [ráðherra] 1) setur um mörk og markaskrár.
[Ráðherra getur með reglugerð falið Bændasamtökum Íslands að hafa umsjón með samræmingu á gerð og útgáfu markaskráa og upptöku nýrra marka og ákveðið að öll mörk í landinu skuli sameiginlega færð í tölvu í umsjá þeirra. Kostnað af starfi Bændasamtaka Íslands vegna þessa verkefnis greiðir stjórn hvers fjallskilaumdæmis í hlutfalli við markafjölda.] 2)
Stjórn fjallskilaumdæmis getur ákveðið eftirfarandi markagjöld:
a. Gjald fyrir skráningu á marki í markaskrá við útgáfu hverrar nýrrar markaskrár. Skal gjaldið fylgja tilkynningu um mark. Heimilt er að ákveða stighækkandi gjald fyrir skráningu á marki þegar sami markeigandi á þrjú eða fleiri mörk og fyrir mark sem markeigandi hefur sannanlega ekki notað í átta ár eða lengur frá útgáfu síðustu markaskrár.
b. Gjald fyrir skráningu á eigendaskiptum eða upptöku á nýju marki milli útgáfu markaskráa.
c. Jöfnunargjald sem stjórn fjallskilaumdæmis er heimilt að leggja á í umdæminu í hlutfalli við fjölda skráðra marka. Jöfnunargjald skal þó því aðeins lagt á að gjöld samkvæmt a- og b-lið nægi ekki til að mæta kostnaði fjallskilaumdæmisins samkvæmt þessari grein.
Markeiganda er skylt að tilkynna markaverði mark sitt til skráningar í markaskrá fjallskilaumdæmisins og skal það gert innan tiltekins frests sem markavörður auglýsir, m.a. í Lögbirtingablaði.
1)L. 126/2011, 113. gr. 2)L. 9/1996, 2. gr.
67. gr. Mark sem hvorki er skráð í gildandi markaskrá né hefur verið auglýst í Lögbirtingablaði, sbr. 65. gr., eftir útgáfu síðustu markaskrár eða í viðbæti við markaskrá umdæmisins, skal talið niður fallið og er þá öðrum heimilt að taka það upp. Þó skal sá, sem áður átti markið, hafa forgangsrétt til þess ef hann tekur það upp innan átta ára frá útgáfu síðustu markaskrár og heldur það þá aldursrétti, sbr. 4. mgr. 68. gr.
Markavarsla fjallskilaumdæmis getur geymt mark, sem markeigandi tilkynnir ekki til skráningar í markaskrá, með því að skrá það, og leyft öðrum á svæðinu að taka það upp þegar átta ár eru liðin eða fyrr með samþykki fyrri eiganda. Hafi markavarsla geymt mark lengur en átta ár fellur aldursréttur þess niður.
68. gr. Sammerking er óheimil innan sama fjallskilaumdæmis.
[Ráðherra] 1) ákveður að öðru leyti í reglugerð, sem sett skal að höfðu samráði við sauðfjársjúkdómanefnd, á hvaða svæðum á landinu sammerkingar á sauðfé eru óheimilar en stjórnir fjallskilaumdæma ákveða slíkt varðandi annað búfé.
Það telst vera sammerking þegar tveir eða fleiri markeigendur eiga sama mark.
Markavörðum samliggjandi fjallskilaumdæma er skylt, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð, að vinna saman að útrýmingu óleyfilegra sammerkinga sem nú fyrirfinnast og fyrirbyggja að nýjar sammerkingar myndist við upptöku nýrra marka eða flutning marka milli fjallskilaumdæma og skulu þeir í því starfi fylgja eftirfarandi reglum:
a. Ef tveir eða fleiri fjáreigendur á svæði, þar sem sammerkingar eru ekki leyfilegar, tilkynna sama mark til skráningar í markaskrá á viðkomandi svæði eða tilkynnt er um eigendaskipti að marki, skal erfðamark ganga fyrir gjafamarki, gjafamark fyrir kaupamarki og kaupamark fyrir gerðarmarki. Sama gildir um óleyfilegar sammerkingar sem þegar eru fyrir hendi. Aðfluttur maður eða maður, sem öðlast hefur rétt á marki úr öðru fjallskilaumdæmi fyrir framsal, skal breyta marki sínu hvort sem markið er erfðamark, gjafamark eða kaupamark, ef sammerkt á eða of námerkt á hinu nýja fjársamgöngusvæði að dómi markavarða. Sé um sama flokk marks að ræða sem ágreiningur er um þá á sá réttinn sem á eldra markið, þ.e. það mark sem lengur hefur verið samfellt í markaskrá umdæmisins. Sé ekki unnt að leysa úr ágreiningi um hver skuli halda marki á grundvelli framanskráðra reglna eða markaverðir verða ekki sammála um úrlausn máls, skal vísa málinu til úrskurðar hjá markanefnd.
b. Sé ekki unnt að skera úr ágreiningi um hver skuli halda marki á grundvelli reglna a-liðar þessarar málsgreinar getur sá, er markið á að missa, umboðsmaður hans eða markavörður sama umdæmis, skotið málinu til úrskurðar markanefndar. Skal markanefnd ákveða hver skuli halda hinu umdeilda marki. Við úrskurð sinn skal nefndin m.a. taka tillit til þess hversu auðvelt hlutaðeigandi eigi með að láta af markinu með tilliti til fyrri notkunar þess og annarra marka hans.
c. Sá sem missir mark sitt vegna reglna í lögum þessum eða úrskurða markanefndar á ekki kröfu á bótum og honum er skylt að marka búfé sitt nýju marki.
d. Áður en markaverðir úrskurða hver skuli halda marki skal hlutaðeigendum gefinn kostur á að lýsa viðhorfum sínum skriflega um málið.
1)L. 126/2011, 113. gr.
69. gr. Ákvörðunum markavarðar eða fundar markavarða um skráningu á marki, synjun um skráningu og niðurfellingu marks vegna sammerkinga er heimilt að skjóta til markanefndar innan 45 daga frá því að ákvörðun var sannanlega tilkynnt hlutaðeiganda. Ef hann áfrýjar skal hann greiða gjald sem ráðherra ákveður með auglýsingu.
[Ráðherra] 1) skipar þrjá menn í markanefnd til átta ára í senn. [Skal einn skipaður eftir tilnefningu Bændasamtaka Íslands, annar eftir tilnefningu [Matvælastofnunar] 2) og sá þriðji án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.] 3) Ráðherra skipar varamenn með sama hætti. Markanefnd skal fylgjast með framkvæmd laga, reglugerða og samþykkta um mörk og markaskrár og vera til ráðuneytis um þau mál. Ráðherra getur með reglugerð falið markanefnd tiltekin verkefni.
1)L. 126/2011, 113. gr. 2)L. 167/2007, 66. gr. 3)L. 9/1996, 3. gr.
X. kafli. Ýmis ákvæði.
70. gr. Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og samþykkta, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum … 1)
1)L. 88/2008, 233. gr.