Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 13. apríl 2021. Útgáfa 151b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga
1996 nr. 146 27. desember
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 30. desember 1996. Breytt með: L. 62/2005 (tóku gildi 1. júlí 2005). L. 34/2007 (tóku gildi 30. mars 2007). L. 46/2008 (tóku gildi 6. júní 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 29/2009 (tóku gildi 2. apríl 2009). L. 160/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 77/2011 (tóku gildi 29. júní 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 131/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012). L. 125/2013 (tóku gildi 31. des. 2013). L. 39/2014 (tóku gildi 1. sept. 2014). L. 66/2016 (tóku gildi 23. júní 2016; EES-samningurinn: tilskipun 2014/30/ESB, 2014/35/ESB). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 137/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og barnamálaráðherra eða félagsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Tilgangur laga þessara er að draga sem mest úr hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum og truflunum af völdum starfrækslu þeirra.
2. gr.
Ákvæði laga þessara ná til virkja og raffanga í landi, en ekki til eigin virkja farartækja, svo sem skipa, flugvéla og bifreiða.
Ef ágreiningur verður um það hvort tiltekin virki falli undir lög þessi sker ráðherra úr.
3. gr.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
Ábyrgðarmaður: Eigandi, umráðamaður eða annar sá sem tilnefndur hefur verið til að annast uppsetningu eða rekstur raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og ber ábyrgð á lögmætu ástandi þeirra.
[ Dreifingaraðili raffangs: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður rafföng fram á markaði.] 1)
Einkarafstöð: Rafstöð í einkaeign sem er staðbundin og framleiðir rafmagn fyrir neysluveitu og fær ekki rafmagn frá rafveitu.
[ Framleiðandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir rafföng eða lætur framleiða eða hanna rafföng og markaðssetur þann búnað undir sínu nafni eða vörumerki.
Innflytjandi raffangs: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem setur rafföng frá þriðja landi á markað á Evrópska efnahagssvæðinu.] 1)
Innri öryggisstjórnun: Skilgreint eftirlitskerfi til að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar, sem gerðar eru í samræmi við lög og reglugerðir, sé fullnægt.
Innri öryggisstjórnunarkerfi: Kerfisbundnar ráðstafanir sem tryggja að starfsemi sé samkvæmt öryggiskröfum laga og reglugerða og sönnur eru færðar á með skráningu.
Löggiltur rafverktaki: Sá sem hlotið hefur löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) til rafvirkjunarstarfa.
Neysluveita: Raflögn og raflagnabúnaður innan við stofnkassa (eða búnað sem gegnir hlutverki stofnkassa).
Raffang: Hvers konar hlutur sem kemur að gagni við nýtingu rafmagns.
Raforkuvirki: Mannvirki til vinnslu og dreifingar rafmagns.
Rafskoðunarstofa: Faggiltur óháður aðili sem hefur starfsleyfi frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) til að annast skoðanir á raftæknisviði.
Rafveita: Fyrirtæki sem framleiðir, flytur, dreifir og/eða selur rafmagn.
Skoðun: Faglegt mat á hönnun raforkuvirkja, frágangi þeirra og samsetningu eða þjónustu við þau til að ákvarða samræmi þeirra við kröfur gildandi laga, reglugerða og annarra lögmætra fyrirmæla.
[ Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda raffangs til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.] 1)
Virki: Samheiti fyrir raforkuvirki og neysluveitur.
Yfireftirlit: Eftirlit með að ákvæðum þessara laga sé fylgt í framkvæmd með fullnægjandi hætti í samræmi við lögin og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.
1)L. 66/2016, 1. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr.
II. kafli. Öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
4. gr.
Raforkuvirki, neysluveitur og rafföng skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, þeim haldið við og eftir þeim litið að hætta af þeim fyrir heilsu og öryggi manna og dýra, svo og hætta á umhverfisspjöllum, verði svo lítil sem við verði komið.
Raforkuvirki, neysluveitur og rafföng mega ekki hafa í för með sér hættu á tjóni á eignum manna eða hættu á truflunum á starfrækslu rafmagnsbúnaðar sem fyrir er. Sé unnt að afstýra því með öryggisráðstöfunum skulu þær gerðar á kostnað eiganda hins nýja búnaðar. Þó má skylda eiganda eldri búnaðarins til að bera nokkurn hluta kostnaðarins ef framkvæmd öryggisráðstafana er til verulegra hagsbóta fyrir starfrækslu búnaðarins framvegis. Svo má og ákveða að eigandi eldri búnaðarins skuli kosta að nokkru eða öllu leyti öryggisráðstafanir sem framvegis verða hluti af búnaði hans og hans eign ef þær eru nauðsynlegar sökum þess að eldri búnaðurinn hefur verið ófullkomnari eða miður tryggur en venja er til eða krafist er um nýjan búnað á þeim tíma þegar ráðstafanir koma til framkvæmda.
Rafföng, neysluveitur og raforkuvirki má því aðeins setja á markað og taka í notkun að hönnun þeirra, gerð og frágangur stofni ekki öryggi manna og dýra, umhverfi eða eignum í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim við haldið og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast. [Rafsegultruflanir af völdum raffanga og rafbúnaðar skulu vera innan marka samkvæmt því sem nánar er skilgreint í reglugerð, sem og ónæmi slíks búnaðar fyrir rafsegultruflunum.] 1)
1)L. 66/2016, 2. gr.
5. gr.
Ábyrgðarmenn raforkuvirkja og neysluveitna bera ábyrgð á að þau séu í lögmætu ástandi. Á sama hátt skulu framleiðendur, innflytjendur og seljendur raffanga bera ábyrgð á lögmætu ástandi við sölu þeirra.
Í því skyni að tryggja öryggi raforkuvirkja og rekstur þeirra sem frekast er unnt skulu ábyrgðarmenn raforkuvirkja rafveitna og stóriðjuvera, samkvæmt ákvörðun ráðherra, koma upp innra öryggisstjórnunarkerfi með virkjum sem að mati [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) uppfyllir skilyrði laga þessara. Einnig skulu rafverktakar koma upp innri öryggisstjórnun með eigin starfsemi sem að mati [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) uppfyllir skilyrði laga þessara.
[Rafverktakar skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt ásamt því að tilkynna lok verks til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) samkvæmt skilgreindum verklagsreglum stofnunarinnar. Þetta gildir bæði um vinnu við nýjar neysluveitur og breytingar á neysluveitum í rekstri.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2016, 3. gr.
[5. gr. a.
Bannað er að leggja háspenntar loftlínur yfir íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, aðrar byggingar og mikilvæg íþrótta- og útivistarsvæði. Jafnframt er óheimilt að reisa slíkar byggingar undir háspenntum loftlínum. Þó mega háspenntar loftlínur liggja yfir byggingum minni en 50 m 2 að flatarmáli sem ekki eru notaðar til íbúðar eða tímabundinnar dvalar fólks.
Háspenntar loftlínur skulu lagðar í öruggri fjarlægð yfir jörð, frá gróðri, öðrum línum, umferðarleiðum og byggingum. Fjarlægðir skulu ákvarðast í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki.] 1)
1)L. 66/2016, 4. gr.
[5. gr. b.
Framleiðendur, viðurkenndir fulltrúar, innflytjendur og dreifingaraðilar raffanga skulu tryggja að rafföng sem sett eru á markað uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Óheimilt er að setja á markað rafföng sem uppfylla ekki þessar kröfur.
Áður en raffang er sett á markað skal framleiðandi útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta framkvæma mat á því hvort raffangið uppfylli kröfur um öryggi, kröfur um rafsegulsamhæfi eða aðrar kröfur sem kveðið er á um í reglugerð að raffangið þurfi að uppfylla. Samræmismat skal framkvæmt af tilkynntum aðila eftir því sem við á og í samræmi við kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð. Framleiðandi skal á grundvelli samræmismats gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merki á viðkomandi raffang. Framleiðandi ber allan kostnað af samræmismati og CE-merkingu.
Sá sem markaðssetur raffang hér á landi skal halda skrá yfir öll rafföng sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af tæknilegum gögnum um vöruna og samræmisyfirlýsingu. Enn fremur skal hann að beiðni [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans ef það er að mati stofnunarinnar nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2016, 4. gr.
[5. gr. c.
Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá aðila hér á landi sem hafa heimild til að annast samræmismat samkvæmt ákvæðum þessara laga og reglugerða settra samkvæmt þeim. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum en getur falið [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að annast það fyrir sína hönd.
Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að framkvæma samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2016, 4. gr.
[5. gr. d.
Rafföng eru álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla ákvæði samhæfðra evrópskra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar fyrir slíka vöru. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) birtir á vef sínum lista yfir staðla sem varða rafföng. Ráðherra getur með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðla samkvæmt þessari málsgrein.
Séu samhæfðir evrópskir staðlar ekki til eru rafföng álitin uppfylla kröfur um öryggi og rafsegulsamhæfi ef þau uppfylla kröfur staðla Alþjóðaraftækniráðsins (IEC) og kröfur landsstaðla sem í gildi eru í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem jafnframt er framleiðsluland viðkomandi raffanga, uppfylli slíkir staðlar kröfur á Íslandi.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2016, 4. gr.
III. kafli. Rafmagnseftirlit.
6. gr.
[[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga … 2) samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 3) [[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 3) annast markaðseftirlit með rafföngum.] 2)] 4)
Hlutverk [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) á sviði rafmagnsöryggis skal m.a. vera eftirfarandi:
1. vera ráðherra til ráðuneytis um rafmagnsöryggismál;
2. hafa faglega umsjón með framkvæmd rafmagnsöryggismála;
3. annast löggildingu rafverktaka, veita skoðunarstofum og ábyrgðarmönnum rafveitna starfsleyfi, ákveða viðurlög og beita sviptingum ef skilyrði leyfis eru ekki uppfyllt eða lögboðnar skyldur eru vanræktar;
4. skera úr ágreiningi um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, svo og skera úr um til hvaða öryggisráðstafana skuli grípa til að afstýra hættu og hver beri ábyrgð á og kostnað af framkvæmd úrbóta.
… 2)
1)L. 126/2011, 227. gr. 2)L. 39/2014, 1. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr. 4)L. 29/2009, 3. gr.
7. gr.
Með reglubundnum hætti skal fara fram skoðun á því hvort raforkuvirki, neysluveitur og rafföng og starfsemi þeirra er hlotið hafa löggildingu eða starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) uppfylli ákvæði þessara laga.
1)L. 137/2019, 19. gr.
8. gr.
Einstaklingar og lögaðilar sem stofna vilja til reksturs rafskoðunarstofu skulu sækja um starfsleyfi til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 1) [Til að öðlast slík leyfi skal rafskoðunarstofa vera faggilt í samræmi við lög um faggildingu o. fl., nr. 24/2006.] 2)
Starfsleyfi skulu ná til landsins alls og vera veitt til fimm ára í senn. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur að undangenginni áminningu svipt rafskoðunarstofu starfsleyfi ef hún fullnægir ekki lengur skilyrðum leyfisins eða vanrækir skyldur sínar.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 2. gr.
9. gr.
Hlutverk rafskoðunarstofa í eftirliti með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum skal vera sem hér greinir:
1. að skoða ný og eldri raforkuvirki, og neysluveitur;
2. að skoða innra öryggisstjórnunarkerfi rafveitna og framkvæmd þess;
3. að skoða aðstöðu og búnað rafverktaka;
4. að skoða innra öryggisstjórnunarkerfi rafverktaka og framkvæmd þess;
5. að skoða rafföng og raforkuvirki á markaði.
Í þeim tilvikum sem ekki er fyrir hendi faggilt rafskoðunarstofa til þess að annast skoðanir á tilteknu sviði [skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) … 2)] 3) annast þær og sú starfsemi vera faggilt.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 3. gr. 3)L. 29/2009, 4. gr.
10. gr.
Starfsmenn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og starfsmenn rafskoðunarstofa sem hafa starfsleyfi á rafmagnsöryggissviði skv. 8. gr. skulu ætíð hafa óhindraðan aðgang að raforkuvirkjum, neysluveitum, starfsstöðum rafverktaka og rafföngum sem til skoðunar eru hverju sinni og rétt til að taka sýni og gera þær athuganir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru taldar í því skyni að varna hættu á tjóni af völdum rafmagns. … 2) Ábyrgðarmenn raforkuvirkja og neysluveitna og rafverktakar, svo og framleiðendur, innflytjendur og seljendur raffanga, skulu veita þá aðstoð og upplýsingar er þörf krefur og óskað er eftir.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 4. gr.
11. gr.
Telji starfsmenn rafveitna, rafskoðunarstofa eða rafverktaki að tiltekin neysluveita, rafföng eða hvers konar hlutar raforkuvirkja séu varhugaverðir eða uppfylli ekki skilyrði laga þessara skal án tafar senda tilkynningu þess efnis til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 1) Tilkynning skal einnig send til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) ef skoðunarstofa telur að tiltekinn rafverktaki, starfsmaður rafveitu eða ábyrgðarmaður rafveitu uppfylli ekki ákvæði laga þessara. … 2)
Berist [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) tilkynning skv. 1. mgr. þessarar greinar eða verði hún að öðru leyti þess áskynja að hætta kunni að stafa af rafmagnsbúnaði skal stofnunin tafarlaust grípa til þeirra úrræða sem grein þessi mælir fyrir um.
Leiki rökstuddur grunur á því að rafmagnsbúnaður uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) tímabundið bannað sölu eða notkun á meðan rannsókn fer fram í málinu.
Leiði rannsókn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) í ljós að rafmagnsbúnaður uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) bannað sölu hans, stöðvað notkun, bannað uppsetningu og krafist niðurtöku og innköllunar.
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu raffangs ef það uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo sem um merkingar, þ.m.t. CE-merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk, svo sem samræmisyfirlýsingu, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur falið faggiltri prófunarstofu að prófa vöru og meta hvort hún uppfyllir ákvæði laga þessara.
Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi eða dreifingaraðili ber allan kostnað af innköllun raffangs. Sé raffang ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans eða innflytjandi bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifingaraðili greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa, innflytjanda eða dreifingaraðila er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings, enda sé það gert í samráði við [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit við innflutning.] 3)
Telji [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að einstaklingur eða lögaðili sem starfar samkvæmt leyfi eða löggildingu hennar hafi brotið ákvæði leyfisins eða löggildingarinnar skal stofnunin, áður en gripið er til leyfissviptingar, senda viðkomandi fyrirmæli þar sem tilgreina skal ávirðingar, benda á leiðir til úrbóta og tilgreina fyrir hvaða tíma framkvæma skuli úrbætur. … 2)
[[Stjórnvaldsákvarðanir [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.] 4)
… 2)
[Málskot skv. [10. mgr.] 3) frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Verða ákvarðanir [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.] 2)
Nú vill aðili ekki una úrskurði … 2) [úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála] 4) og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndar eða úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndanna né heimild til aðfarar.] 5)
[Sá sem fellst ekki á ákvörðun tilkynnts aðila, sem hefur heimild til að framkvæma samræmismat hér á landi, getur óskað eftir endurskoðun hans á slíkri ákvörðun innan þriggja vikna frá því að honum var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þær ákvarðanir sem um er að ræða eru synjun á útgáfu vottorðs um samræmismat, takmörkun á útgáfu þess, tímabundin niðurfelling vottorðs eða afturköllun. Tilkynnti aðilinn skal taka beiðni viðkomandi til skoðunar og tilkynna honum um endanlega ákvörðun. Höfnun tilkynnts aðila um breytingu á upphaflegri ákvörðun er heimilt að kæra til ráðherra. Kærufrestur er þrjár vikur frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun tilkynnta aðilans.] 3)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 5. gr. 3)L. 66/2016, 5. gr. 4)L. 131/2011, 27. gr. 5)L. 29/2009, 6. gr.
12. gr.
[Á starfsmönnum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og rafskoðunarstofa hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.] 2) Það skal þó ekki vera því til fyrirstöðu að [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) … 3) birti opinberlega upplýsingar um hættuleg raforkuvirki, neysluveitur og rafföng ef brýna nauðsyn ber til sökum þess að af hlutum þessum stafar hætta.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 71/2019, 5. gr. 3)L. 39/2014, 6. gr.
13. gr.
Ráðherra setur í reglugerð 1) um raforkuvirki ákvæði til varnar hættu og tjóni af rafmagni og til varnar truflunum á starfrækslu raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem fyrir eru eða síðar kunna að koma. Jafnframt setur ráðherra nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
Í reglugerð skal setja ákvæði um:
1. gerð, tilhögun, setningu, starfrækslu og eftirlit með raforkuvirkjum og neysluveitum, svo og öðrum mannvirkjum sem sett eru eða notuð svo nálægt raforkuvirkjum og neysluveitum að tjón, hætta eða tilfinnanleg truflun geti stafað af;
2. framkvæmd og tilhögun yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]; 2)
3. ábyrgð ábyrgðarmanna á ástandi virkja og meðferð þeirra;
4. takmörkun á eða bann við innflutningi, sölu, smíði innan lands og notkun raffanga og einstakra hluta raforkuvirkja eða neysluveitna sem fullnægja ekki settum skilyrðum;
5. skyldur ábyrgðarmanna til þess að tilkynna, gefa skýrslu um og halda skrá yfir raforkuvirki og neysluveitur sem fyrir hendi eru, um ný virki og aukningu og endurbætur eldri virkja;
6. heimild til handa [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) til að láta stöðva um stundarsakir starfrækslu raforkuvirkja eða neysluveitna og rjúfa rafstraum hjá einstökum notendum og fyrirtækjum sem hlíta ekki ákvæðum laga þessara og reglugerða á grundvelli þeirra, svo og svipta þá löggildingu eða starfsleyfi sem gerst hafa brotlegir við lög þessi eða reglugerðir á grundvelli þeirra;
7. innra öryggisstjórnunarkerfi og viðurkenningu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) á því, svo og um skyldur ábyrgðarmanna, sbr. 5. gr.;
8. tíðni, umfang og framkvæmd skoðana sem skulu vera í samræmi við þá hættu sem stafar af gerð raforkuvirkis, neysluveitu eða raffangs, sbr. 7. gr.;
9. eftirlit með raforkuvirkjum, neysluveitum og rafföngum, innfluttum eða smíðuðum innan lands;
10. starfsleyfi tilnefndra ábyrgðarmanna rafveitna, starfsleyfi rafskoðunarstofa, [… 3) löggildingu rafverktaka] 4) og um skilyrði sem fullnægja þarf;
11. fræðslu og upplýsingar um hættu af rafmagni og leiðir til að verjast henni;
12. birtingu niðurstaðna skoðana, upplýsinga um slys og tjón og annarra upplýsinga um rafmagnsöryggismál;
13. heimildir [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) til að setja nánari reglur um tæknilega útfærslu á gerð, tilhögun, eftirliti og starfrækslu raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, svo og á skoðunaraðferðum rafskoðunarstofa og rafverktaka;
[14. nánari kröfur vegna markaðssetningar raffanga, þ.m.t. um:
a. Skilgreiningu á skyldum og ábyrgð framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila.
b. Kröfur sem gerðar eru vegna samræmismats. Samræmismat getur m.a. falið í sér kröfu um EB-gerðarprófun, gæðatryggingu í framleiðslu, sannprófun vöru, gerðarsamræmi, gæðatryggingu vöru, innra eftirlit með framleiðslu eða sannprófun eintaka.
c. Gerð og form samræmisyfirlýsingar og kröfur um CE-merkingu, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að samræmisyfirlýsing og leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál séu á íslensku.
d. Kröfur sem gerðar eru til tilkynnts aðila og um hlutverk hans og skyldur við framkvæmd samræmismats og eftir atvikum afturköllun vottorða.
e. Kröfur um gerð og afhendingu tæknilegra gagna og annarra gagna, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að slík gögn séu á íslensku.
f. Öryggiskröfur og kröfur vegna rafsegultruflana sem rafföng þurfa að uppfylla.
g. Kröfur sem gerðar eru til framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila um vistun gagna og upplýsinga vegna markaðseftirlits.
h. Birtingu staðla.
i. Framkvæmd markaðseftirlits og réttarúrræði [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 2)
Í reglugerð er ráðherra heimilt að setja ákvæði um raforkuvirki eða rafföng sem falla ekki undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þar með taldar bókanir hans og viðauka.
1)Rg. 144/1994, sbr. 104/2001. Rg. 678/2009, sbr. 699/2009, 494/2010, 543/2014, 785/2014, 1055/2017, 948/2018, 1226/2018 og 1049/2020. Rg. 303/2018. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)L. 77/2011, 7. gr. 4)L. 46/2008, 1. gr.
[13. gr. a.
Sá sem vill öðlast A-löggildingu, sem er löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki, [skal]: 1)
1. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds verkfræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
2. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
3. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í rafmagnsiðnfræði (sterkstraumssviði) frá Háskólanum í Reykjavík eða öðrum viðurkenndum skóla og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
4. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í meistaranámi í rafvirkjun (sterkstraumssviði) frá viðurkenndum skóla eða hafa jafngilda menntun að mati [þess ráðuneytis er fer með fræðslumál] 2) og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; [eða] 1)
[5. ekki hafa verið sviptur löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði]. 1)] 4)
1)L. 77/2011, 8. gr. 2)L. 126/2011, 227. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr. 4)L. 46/2008, 2. gr.
[13. gr. b.
Sá sem vill öðlast B-löggildingu, sem er löggilding til rafvirkjunarstarfa við lágspennuvirki, [skal]: 1)
1. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds verkfræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
2. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
3. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í rafmagnsiðnfræði (sterkstraumssviði) frá Háskólanum í Reykjavík eða öðrum viðurkenndum skóla og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
4. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í meistaranámi í rafvirkjun (sterkstraumssviði) frá viðurkenndum skóla eða hafa jafngilda menntun að mati [þess ráðuneytis er fer með fræðslumál] 2) og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; [eða] 1)
[5. ekki hafa verið sviptur löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði]. 1)] 4)
1)L. 77/2011, 8. gr. 2)L. 126/2011, 227. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr. 4)L. 46/2008, 2. gr.
[13. gr. c.
Sá sem vill öðlast CA-löggildingu, sem er takmörkuð löggilding til rafvirkjunarstarfa við háspennuvirki, [skal]: 1)
1. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds verkfræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
2. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
3. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í rafmagnsiðnfræði (sterkstraumssviði) frá Háskólanum í Reykjavík eða öðrum viðurkenndum skóla og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; eða
4. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í meistaranámi í rafvirkjun (sterkstraumssviði) frá viðurkenndum skóla eða hafa jafngilda menntun að mati [þess ráðuneytis er fer með fræðslumál] 2) og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu háspennuvirkja; [eða] 1)
[5. ekki hafa verið sviptur löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði]. 1)
Sá sem öðlast hefur CA-löggildingu má einungis starfa við þau raforkuvirki sem heyra undir fyrirtækið sem hann starfar hjá. Fyrirtækið sér honum fyrir búnaði og aðstöðu.] 4)
1)L. 77/2011, 8. gr. 2)L. 126/2011, 227. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr. 4)L. 46/2008, 2. gr.
[13. gr. d.
Sá sem vill öðlast CB-löggildingu, sem er takmörkuð löggilding til rafvirkjunarstarfa við lágspennuvirki, [skal]: 1)
1. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds verkfræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
2. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiháskóla (sterkstraumssviði) og hafa að auki tveggja ára reynslu við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
3. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í rafmagnsiðnfræði (sterkstraumssviði) frá Háskólanum í Reykjavík eða öðrum viðurkenndum skóla og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; eða
4. hafa sveinsbréf í rafvirkjun og hafa lokið prófi í meistaranámi í rafvirkjun (sterkstraumssviði) frá viðurkenndum skóla eða hafa jafngilda menntun að mati [þess ráðuneytis er fer með fræðslumál] 2) og hafa að auki tveggja ára reynslu að loknu sveinsprófi við störf sem lúta að hönnun og/eða setningu lágspennuvirkja; [eða] 1)
[5. ekki hafa verið sviptur löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði]. 1)
Sá sem öðlast hefur CB-löggildingu má einungis starfa við þau raforkuvirki sem heyra undir fyrirtækið sem hann starfar hjá. Fyrirtækið sér honum fyrir búnaði og aðstöðu.] 4)
1)L. 77/2011, 8. gr. 2)L. 126/2011, 227. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr. 4)L. 46/2008, 2. gr.
[13. gr. e.
Þeir einir sem hlotið hafa löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) til rafvirkjunarstarfa skv. 13. gr. a – 13. gr. d mega bera ábyrgð á setningu, breytingu og viðgerðum virkja.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 46/2008, 2. gr.
IV. kafli. Gjaldtaka.
14. gr.
Til reksturs rafmagnsöryggismála sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) … 2) eru falin samkvæmt lögum þessum skal aflað fjár á eftirfarandi hátt:
1. Vegna yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) með rafveitum skulu rafveitur árlega greiða til stofnunarinnar gjald sem nemur allt að 0,2% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Ef eigandi raforkuvers notar sjálfur alla orku sem þar er unnin eða verulegan hluta hennar og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu skal hann greiða gjald af áætlaðri notkun. Undanþegin ákvæðum þessa töluliðar er raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf., svo og til annarra iðjuvera sem undanþegin kunna að verða með lögum.
2. Vegna úrtaksskoðana sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) lætur framkvæma á búnaði rafveitna og skoðana á innri öryggisstjórnun þeirra skulu rafveitur greiða skoðunarkostnað … 3)
3. Vegna yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á búnaði stóriðjuvera sem kaupa eða framleiða raforku sem undanskilin er gjaldtöku skv. 1. tölul. skulu eigendur þeirra greiða skoðunarkostnað … 3)
Undir gjaldtöku samkvæmt tölulið þessum má fella kostnað við yfireftirlit og skoðanir á einkarafstöðvum.
4. Vegna yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri og þrátt fyrir ákvæði annarra laga um rafveitur skulu rafveitur árlega greiða til stofnunarinnar gjald sem nemur allt að 0,6% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti.
Undanþegin ákvæðum þessa töluliðar er raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf., svo og til annarra iðjuvera sem undanþegin kunna að verða með lögum.
5. [Vegna yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og eftirlits … 2) með rafföngum á markaði sem [stofnunin lætur] 2) framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru. Ráðherra setur í reglugerð yfirlit yfir tollflokka raffanga sem eru gjaldskyld … 2). Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem eru seld úr landi.] 3)
6. Vegna yfireftirlits [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin lætur framkvæma á aðstöðu, búnaði og innri öryggisstjórnun rafverktaka skulu rafverktakar greiða skoðunarkostnað … 3)
7. [[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur greiða [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) fyrir slíkar prófanir.] 2)
8. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) … 2) er heimilt að láta framkvæma aukaskoðanir eða auka tíðni úrtaksskoðana hjá aðilum sem ítrekað hafa orðið uppvísir að því að uppfylla ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða á grundvelli þeirra. Þeir sem slíkar aukaskoðanir beinast að skulu greiða kostnað sem af þeim hlýst … 3)
Ráðherra getur í reglugerð 4) sett nánari ákvæði um gjöld þessi. Í reglugerð getur ráðherra heimilað rafveitum, eigendum neysluveitna og rafverktökum að semja beint við rafskoðunarstofur um skoðanir skv. 2., 3. og 6. tölul. þessarar greinar.
[Tekjur af gjöldum skv. 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. renna í ríkissjóð.] 5)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 8. gr. 3)L. 29/2009, 8. gr. 4)Rg. 678/2009, sbr. 699/2009, 494/2010, 543/2014, 785/2014 og 1226/2018. 5)L. 47/2018, 18. gr.
V. kafli. Ýmis ákvæði.
15. gr.
[Ef ekki er farið að ákvörðunum eða fyrirmælum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) samkvæmt lögum þessum getur hún ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að þeim.] 2) Dagsektir geta numið frá 10 til 500 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
Ákvarðanir skv. 1. mgr. um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Við aðför samkvæmt ákvörðunum um dagsektir skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð skal fara skv. 13. kafla aðfararlaga.
Öll gjöld og dagsektir samkvæmt lögum þessum má taka lögtaki á kostnað gjaldanda.
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 39/2014, 9. gr.
[16. gr.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að birta skýrslur um niðurstöður markaðseftirlits með rafföngum á vef stofnunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi verið veittur sanngjarn frestur til úrbóta. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) skal gefa út verklagsreglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og birta á vef stofnunarinnar.] 2)
1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 66/2016, 7. gr.
[17. gr.]1)
Með dómi er heimilt að gera upptæk raforkuvirki og rafföng sem framleidd eru, seld, afhent eða notuð andstætt ákvæðum laga þessara, reglugerða og öryggisfyrirmælum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 2)
1)L. 66/2016, 7. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr.
[18. gr.]1)
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn 4., 5. og 5. gr. b eða ákvörðunum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) skv. 11. gr.
Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5.000.000 kr.
Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
Heimild [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 7. mgr. rofnar þegar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.] 3)
1)L. 66/2016, 7. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)L. 66/2016, 8. gr.
[19. gr.]1) [Innleiðing.
Lög þessi eru sett til innleiðingar á ákvæðum eftirfarandi gerða:
a. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um rafsegulsamhæfi (endurgerð).
b. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um markaðssetningu raffanga sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurgerð).] 2)
1)L. 66/2016, 7. gr. 2)L. 66/2016, 9. gr.
[20. gr.]1)
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
1)L. 66/2016, 7. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða. … 1)] 2)
1)L. 39/2014, 10. gr. 2)L. 29/2009, 11. gr.