Lagasafn.  Íslensk lög 15. október 2021.  Útgáfa 151c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Fiskistofu

1992 nr. 36 27. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. júní 1992; komu til framkvæmda 1. september 1992. Breytt með: L. 92/1992 (tóku gildi 1. jan. 1993). L. 144/1995 (tóku gildi 1. jan. 1996; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 59. gr.). L. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 81/2008 (tóku gildi 1. júlí 2008). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 49/2014 (tóku gildi 29. maí 2014 nema 3. gr., 5. gr., 2. mgr. 7. gr., 3. og 5. mgr. c-liðar 8. gr., a-liður 11. gr., 12. gr., 16. gr., 21. gr. og 22. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2015). L. 67/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016). L. 48/2017 (tóku gildi 20. júní 2017). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli.
1. gr.
Fiskistofa skal starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála, [lax- og silungsveiði, fiskræktar … 1) o.fl.], 2) svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Fiskistofa heyrir undir [ráðherra]. 3)
    1)L. 49/2014, 22. gr. 2)L. 81/2008, 14. gr. 3)L. 126/2011, 165. gr.
2. gr.
Fiskistofa skal annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. [Einnig skal Fiskistofa annast stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, lögum um fiskrækt o.fl.] 1) Fiskistofa skal annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála, [lax- og silungsveiði, fiskræktar … 2) o.fl.] 1) sem og önnur verkefni sem stofunni verða falin með lögum eða ákvörðun ráðherra.
    1)L. 81/2008, 15. gr. 2)L. 49/2014, 22. gr.
3. gr.
[Ráðherra skipar forstöðumann Fiskistofu, fiskistofustjóra, til fimm ára í senn.] 1)
[Ráðherra] 2) skal með reglugerð kveða nánar á um skipulag og starfsemi Fiskistofu.
    1)L. 83/1997, 144. gr. 2)L. 126/2011, 165. gr.
4. gr.
[Fiskistofa getur með heimild ráðherra, og að höfðu samráði við Hagstofu Íslands, falið öðrum tiltekna þætti við söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegs.] 1)
    1)L. 144/1995, 15. gr.

II. kafli. [Gjaldtökuheimildir.]1)
    1)L. 67/2015, 1. gr.
[5. gr. Gjaldskrá Fiskistofu.
Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Fiskistofu, gjaldskrá fyrir þjónustu og eftirlit sem Fiskistofu er falið að sinna samkvæmt lögum þessum, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um vinnslu afla um borð í skipum, lögum um lax- og silungsveiði, lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu og upplýsingalögum. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Heimilt er að innheimta gjöld fyrir eftirfarandi eftirlit og þjónustu:
    1. úthlutun aflamarks á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða,
    2. úthlutun aflamarks á grundvelli 10. gr. laga um stjórn fiskveiða,
    3. móttöku tilkynninga vegna flutnings aflamarks og krókaaflamarks og erinda vegna staðfestingar á flutningi aflahlutdeilda og krókaaflahlutdeilda,
    4. gerð þjónustusamninga vegna rafrænna tilkynninga um flutning aflamarks,
    5. sendingu símskeyta og annarra tilkynninga um umframafla,
    6. útgáfu vigtunarleyfa og úttektir á vigtunaraðstöðu,
    7. úttektir á fiskmörkuðum erlendis og kostnað vegna eftirlitsmanna á slíkum mörkuðum,
    8. kostnað vegna ferða eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipi erlendis,
    9. úttektir á vinnsluskipum,
    10. veru eftirlitsmanna um borð í skipum,
    11. útgáfu veiði- og vinnsluvottorða,
    12. afladagbækur,
    13. útgáfu CITES-vottorða og -leyfa,
    14. útgáfu leyfa til framkvæmda við ár og vötn,
    15. sérvinnslu upplýsinga og aðgang að gagnasöfnum,
    [16. yfirstöðu við vigtun.] 1)
Fyrir eftirlit og þjónustu samkvæmt þessari grein skal greitt gjald sem er ekki hærra en raunkostnaður til að standa straum af kostnaðarþáttum við veitingu þjónustu og eftirlits. Þannig skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, ferðakostnað, kostnað vegna þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu.] 2)
    1)L. 48/2017, 3. gr. 2)L. 67/2015, 1. gr.
[6. gr. Gjald fyrir veiðileyfi.
Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, skal greiða 22.000 kr. [í ríkissjóð]. 1)
Við útgáfu leyfis til strandveiða skal, auk greiðslu fyrir leyfi skv. 1. mgr., greiða 50.000 kr. í strandveiðigjald. Fiskistofa innheimtir gjaldið [og rennur það í ríkissjóð]. 1) [Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu sem samsvarar tekjum af strandveiðigjaldi] 1) til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Eftir lok veiðitímabils skal Fiskistofa á grundvelli aflaupplýsingakerfis Fiskistofu greiða hverri höfn í hlutfalli við hlut viðkomandi hafnar í heildarafla sem fenginn er við strandveiðar á því tímabili, reiknað í þorskígildum.] 2)
    1)L. 47/2018, 25. gr. 2)L. 67/2015, 1. gr.
[7. gr. Kostnaður vegna veru veiðieftirlitsmanna um borð í skipum.
Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð í skipum sem stunda veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.
Auk kostnaðar skv. 1. mgr. skulu útgerðir skipa, sem hafa leyfi Fiskistofu til að vinna afla um borð, greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr., vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð. Sama gildir sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í fiskiskipi á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum.
Hafi stjórnvöld, á grundvelli milliríkjasamnings eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni, sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands, skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður skulu útgerðir skipa, er stunda veiðar úr þeim stofni, auk kostnaðar skv. 1. mgr., greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr., fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa, sem stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald fyrir hvern dag sem skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldi skv. 1. málsl. og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum sem veiðarnar stunda án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum.] 1)
    1)L. 67/2015, 1. gr.
[8. gr. Innheimta gjalda.
Fiskistofa annast innheimtu gjalda samkvæmt þessum kafla. Gjöldin skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn skal út eftir að viðkomandi þjónusta eða eftirlit fer fram. Gjalddagi er við útgáfu reiknings og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Innheimta má gjöld samkvæmt þessari grein með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Allar tekjur samkvæmt þessum kafla skulu renna óskiptar til Fiskistofu að frátöldum tekjum af [gjöldum skv. 6. gr.] 1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu gjöld fyrir veiðileyfi skv. 6. gr. greidd áður en leyfi er gefið út.] 2)
    1)L. 47/2018, 26. gr. 2)L. 67/2015, 1. gr.
1)
    1)L. 67/2015, 1. gr.

III. kafli.
13. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 1992.