Frumvörp til breytinga á lögunum:

Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

1997 nr. 49 23. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 29. maí 1997. Breytt með: L. 71/2000 (tóku gildi 2. júní 2000). L. 44/2003 (tóku gildi 3. apríl 2003). L. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008). L. 41/2008 (tóku gildi 5. júní 2008 nema 2. gr. sem tók gildi 1. jan. 2009). L. 82/2008 (tóku gildi 1. júní 2008, birt í Stjtíð. 19. júní 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 22/2012 (tóku gildi 16. mars 2012 og féllu úr gildi 31. des. 2014). L. 127/2014 (tóku gildi 1. jan. 2015). L. 92/2017 (tóku gildi 31. des. 2017). L. 46/2018 (tóku gildi 1. júlí 2018; um lagaskil sjá 19. gr.). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Vinna skal að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla svo sem fyrir er mælt í lögum þessum. [Jafnframt er heimilt að taka þátt í kostnaði við vinnu á hættumati vegna annarrar náttúruvár eins og nánar greinir í lögum þessum.] 1)
Samheitið ofanflóð er hér eftir notað um snjóflóð og skriðuföll.
    1)L. 127/2014, 1. gr.
2. gr.
[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til, nema þau séu sérstaklega falin öðrum ráðherrum.
    1)L. 126/2011, 237. gr.
3. gr.
Veðurstofa Íslands aflar gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og vinnur úr þeim. Hún annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefur út viðvörun um hana, sbr. 6. gr. 1)
Náttúrufræðistofnun Íslands aflar gagna um skriðuföll og hættu af þeirra völdum í samstarfi við Veðurstofuna.
Veðurstofan skal ráða sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem þörf er á slíkum athugunum samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Veðurstofan skal hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn um ráðningu eftirlitsmanns. Skal sveitarstjórn leggja honum til nauðsynlega vinnuaðstöðu og almennan búnað, svo og sjá um rekstur á tækjum og búnaði, endurgjaldslaust. Ráðherra getur sett nánari reglur 2) um þessar skyldur sveitarstjórnar.
Laun eftirlitsmanna skulu greidd úr ríkissjóði.
    1)Rg. 376/1995. Rg. 533/1995. 2)Rg. 8/1998.
4. gr.
[Sveitarstjórnir í sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum.] 1) [Skal það hættumat ná til þéttbýlis [eins og það er skilgreint í reglum sem ráðherra setur skv. 6. mgr.] 2)] 3) Jafnframt fari slíkt mat fram á skipulögðum skíðasvæðum. Hættumat skal fela í sér mat á þeirri hættu sem lífi fólks er búin vegna ofanflóða á byggð svæði eða skipulögð byggingarsvæði. Við matið skal tekið tillit til varnarvirkja sem reist hafa verið.
[Beiðni sveitarstjórnar um gerð hættumats skal berast [ráðherra] 4) og skipar hann fjögurra manna nefnd sem stýrir gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi, hættumatsnefnd. Skulu tveir fulltrúar skipaðir samkvæmt tilnefningu frá sveitarstjórn, en ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar í nefndina og skal annar þeirra vera formaður og hafa oddaatkvæði falli atkvæði jöfn. Hættumatsnefnd ákveður í samráði við sveitarstjórn til hvaða svæða hættumat skuli ná. Hættumatsnefnd kynnir tillögur að endanlegu hættumati í samráði við sveitarstjórn þegar þær berast frá Veðurstofu Íslands og gengur frá hættumati til staðfestingar ráðherra. Ráðherra setur reglur um skipan og starf hættumatsnefndar.] 1)
[Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum ofanflóða að beiðni hættumatsnefndar og skal gerður um það samningur.] 1)
[Ráðherra getur ákveðið að gerð verði úttekt á hættu á ofanflóðum í dreifbýli þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku. Með byggð í þessari málsgrein er ekki átt við frístundabyggð. Þó skal heimild ráðherra ná til þyrpinga þegar byggðra frístundabyggða og frístundahúsa þar sem einstaklingar hafa skráð lögheimili. Enn fremur skal heimild ráðherra ná til samkomuhúsa, svo sem skóla, félagsheimila og þess háttar bygginga. Veðurstofa Íslands annast úttektina og skal gerður um það samningur, sbr. 3. mgr.] 3)
Hættumat öðlast gildi þegar ráðherra hefur staðfest það. Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð og skal það lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu. [Sama á við um úttekt skv. 4. mgr.] 3)
Reglur 5) um gerð og notkun hættumats, flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra skulu settar af ráðherra.
    1)L. 71/2000, 1. gr. 2)L. 127/2014, 2. gr. 3)L. 41/2008, 1. gr. 4)L. 126/2011, 237. gr. 5)Rg. 505/2000, sbr. 495/2007, 309/2010, 1017/2010 og 343/2014. Rg. 636/2009.
5. gr.
[Almannavarnanefndir skulu annast gerð viðbragðsáætlana, svo og sjá um leiðbeiningar og almannafræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands.] 1)
Almannavarnir skulu skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns sem skapast hefur vegna ofanflóða eftir því sem fyrir er mælt í lögum um almannavarnir og 6. og 7. gr. laga þessara.
    1)L. 82/2008, 35. gr.
6. gr.
Þegar Veðurstofa Íslands, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd, gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir hættuástandi skal fólk flytja eða það flutt á brott úr öllu húsnæði á svæði eða svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. 1) Svæði þessi skulu afmörkuð á sérstökum uppdráttum sem Veðurstofan skal sjá um að gera á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. [Skulu uppdrættirnir staðfestir af [ráðherra] 2) og kynntir ríkislögreglustjóra … 3) og hlutaðeigandi almannavarnanefndum.] 4)
Lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjá um að rýma húsnæði skv. 1. mgr. og má beita valdi í því skyni ef þörf krefur. Á meðan hættuástand varir er öll umferð bönnuð um það svæði, sem rýmt hefur verið, nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
Veðurstofan tekur ákvörðun um það hvenær hættuástandi skuli aflétt að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd.
Uppdrættir skv. 1. mgr. skulu endurskoðaðir í ljósi bestu þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða og breyttra aðstæðna, svo sem vegna þess að reist hafa verið varanleg varnarvirki.
    1)Rg. 533/1995. 2)L. 126/2011, 237. gr. 3)L. 82/2008, 35. gr. 4)L. 44/2003, 13. gr.
7. gr.
Lögreglustjóri getur hvenær sem er, í samráði við almannavarnanefnd, ákveðið að rýma húsnæði vegna hættu á ofanflóðum, þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir skv. 6. gr. Að auki er heimilt að fyrirskipa að húsnæði skuli rýmt á stærra svæði eða svæðum en gert er ráð fyrir á uppdráttum Veðurstofu Íslands, þar á meðal á stöðum sem 6. gr. tekur ekki til. Má beita valdi til þess að rýma þannig húsnæði ef þörf krefur.
Þá er lögreglustjóra heimilt í samráði við almannavarnanefnd að banna umferð um tilteknar götur og vegi vegna hættu á ofanflóðum utan svæða sem rýmd hafa verið skv. 6. gr. Í sama skyni er heimilt að banna fólki aðgang að skíðasvæðum og öðrum útivistarsvæðum.
8. gr.
Í hvert sinn sem manntjón verður í byggð af völdum ofanflóðs skal skipa sérstaka nefnd til að rannsaka orsakir ofanflóðsins og afleiðingar þess. Enn fremur er heimilt að skipa slíka nefnd í öðrum tilvikum ef manntjón eða verulegt eignatjón hefur hlotist af ofanflóði.
[Ráðherra er fer með rannsókn á orsökum ofanflóðs og afleiðinga þess ef manntjón hlýst af því] 1) skipar hverju sinni þrjá sérfróða menn í nefndina. Formaður nefndarinnar, sem uppfylla skal starfsgengisskilyrði héraðsdómara, skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu [ráðherra er fer með almannavarnir og ráðherra er fer með málefni varna gegn ofanflóðum]. 1)
Rannsókn nefndarinnar skal einvörðungu miða að því að draga úr hættu af völdum ofanflóða. Nefndin starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum. Henni er heimilt að krefjast framlagningar á skjölum og öðrum gögnum er varða ofanflóð og taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að kunni að geta veitt upplýsingar er að gagni mega koma við rannsóknina.
[Hlutaðeigandi ráðherra, sbr. 2. mgr.], 1) getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar.
[Nú fer fram rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi í tengslum við ofanflóð og er slík rannsókn óháð rannsókn samkvæmt þessari grein.] 2)
    1)L. 126/2011, 237. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
9. gr.
Ráðherra skipar þriggja manna nefnd, ofanflóðanefnd, til fjögurra ára í senn til að annast þau verkefni sem greinir í 2. mgr. Formaður nefndarinnar skal skipaður án tilnefningar, en aðrir nefndarmenn samkvæmt tilnefningu [ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál] 1) og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Verkefni ofanflóðanefndar eru:
    1. Að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar skv. 10. og 11. gr.
    2. Að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði skv. 13. gr.
Ákvarðanir ofanflóðanefndar skv. 2. mgr. öðlast fyrst gildi þegar ráðherra hefur staðfest þær. Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndarinnar.
    1)L. 126/2011, 237. gr.
10. gr.
Sveitarstjórn gerir tillögu til ofanflóðanefndar að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem þegar hafa verið byggð samkvæmt aðalskipulagi. Eftir að viðurkennd varnarvirki hafa verið reist er heimilt að meta af bærum aðilum hvort til greina komi að þétta byggð á viðkomandi svæði og þá með hvaða skilyrðum.
Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir við varnarvirki í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar skv. 2. og 3. mgr. 9. gr. Framkvæmdir skulu unnar á grundvelli útboða þar sem því verður við komið.
Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.
11. gr.
Ef hagkvæmara er talið, til að tryggja öryggi fólks gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu til ofanflóðanefndar um kaup eða flutning á húseignum í stað þess að reisa varnarvirki eða beita öðrum varnaraðgerðum. Auk húseigna getur sveitarstjórn í sama skyni gert tillögu um kaup á lóðum eða öðrum fasteignum.
Sveitarstjórn skal sjá um að kaupa eignir eða flytja þær í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar skv. 2. og 3. mgr. 9. gr.
Sveitarfélag verður eigandi eigna sem keyptar eru samkvæmt þessari grein, en nýting þeirra er háð samþykki ráðherra.
Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi. Um eignarnám fer samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
12. gr.
[Leggja skal árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Náttúruhamfaratryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðsréttar í vátryggðri eign. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð. Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu ráðuneytisins.
Tekjur sjóðsins eru:
    1. Fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem byggist á rekstri sjóðsins, framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára og öðrum verkefnum. Framkvæmdaáætlun skal miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.
    2. Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.
    3. Aðrar tekjur.
Lán til starfsemi sjóðsins, sem eru með ábyrgð ríkissjóðs, skulu háð samþykki hlutaðeigandi ráðherra.] 1)
    1)L. 47/2018, 20. gr.
13. gr.
[Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 12. gr., skal notað til að greiða kostnað við rekstur sjóðsins og ofanflóðanefndar, svo og kostnað við varnir gegn ofanflóðum. Kostnaður við varnir gegn ofanflóðum greiðist sem hér segir:] 1)
    1. [Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats skv. 4. gr., þ.m.t. kostnað við starfsemi hættumatsnefnda, svo og kostnað við gerð úttektar skv. 4. gr. og við gerð uppdrátta skv. 6. gr.] 2)
    2. Greiða skal allan kostnað við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu. Sama gildir um kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hættumat og hönnun varnarvirkja.
    3. Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki skv. 1. og 2. mgr. 10. gr.
    4. Greiða má allt að 60% af kostnaði við viðhald varnarvirkja skv. 3. mgr. 10. gr.
    5. Greiða má allt að 90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum, lóðum eða öðrum fasteignum, svo og af kostnaði við flutning húseigna, skv. 1., 2. og 4. mgr. 11. gr., eftir því sem nánar er fyrir mælt í 14. gr.
Heimilt er að veita sveitarfélagi lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þess skv. 3. og 5. tölul. 1. mgr., enda sé því fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut. Lán skal veitt til 15 ára með sambærilegum kjörum og ofanflóðasjóði standa til boða. Þó skal endurgreiðsla af láninu, þar með taldir vextir og verðbætur, aldrei nema hærri fjárhæð á ári hverju en nemur 1% af höfuðstól lánsins, ásamt vöxtum og verðbótum, að viðbættum 0,15‰ af álagningarstofni fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og 50% af hreinum tekjum sveitarfélags vegna sölu eða leigu á eignum sem það hefur eignast skv. 3. mgr. 11. gr. Það sem eftir kann að standa af láninu að liðnum lánstíma skal falla niður.
    1)L. 127/2014, 3. gr. 2)L. 41/2008, 2. gr.
14. gr.
Ef ákveðið er að ofanflóðasjóður taki þátt í hluta af kostnaði við kaup eða eignarnám á eignum eða flutning á húseignum skv. 5. tölul. 13. gr. skal greiðsla úr sjóðnum miðast að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.
Heimilt er að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.
Sjóðurinn greiðir ekki fyrir kaup á húseign sem unnt er að flytja, nema heildarkostnaður við flutning sé hærri en viðmiðunarverð skv. 1. og 2. mgr.
15. gr.
Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem flutt eru hingað til lands eða framleidd eru hér á landi til varna gegn ofanflóðum.
16. gr.
[Ráðherra] 1) setur með reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 237. gr. 2)Rg. 637/1997. Rg. 505/2002, sbr. 176/2017.
17. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ef hættumat hefur verið staðfest fyrir 1. janúar 1996 fellur það sjálfkrafa úr gildi við gildistöku laganna.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Sveitarstjórn leggur fram tillögu um skipulag nýrrar byggðar og nýbygginga í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Skipulagstillagan skal unnin í samræmi við reglur sem [ráðherra] 1) setur. Ráðherra skal fá tillögur frá Skipulagi ríkisins, Veðurstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skal liggja fyrir bráðabirgðahættumat. Skal styðjast við þær reglur þar til hættumat hefur verið staðfest fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag.
    1)L. 126/2011, 237. gr.
II.
[Þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. laganna er heimilt að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða frá 1. janúar 2015 til 31. desember [2022]. 1)] 2)
    1)L. 92/2017, 1. gr. 2)L. 127/2014, 4. gr.