Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 13. september 2022. Útgáfa 152c. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um atvinnuréttindi útlendinga
2002 nr. 97 10. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2003. Breytt með: L. 84/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003; EES-samningurinn: V. eða VIII. viðauki). L. 19/2004 (tóku gildi 1. maí 2004). L. 139/2005 (tóku gildi 30. des. 2005). L. 21/2006 (tóku gildi 1. maí 2006). L. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006). L. 106/2007 (tóku gildi 27. júní 2007). L. 78/2008 (tóku gildi 1. ágúst 2008; EES-samningurinn: V. viðauki tilskipun 2004/38/EB). L. 154/2008 (tóku gildi 31. des. 2008). L. 65/2010 (tóku gildi 27. júní 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 26/2014 (tóku gildi 5. apríl 2014). L. 80/2016 (tóku gildi 1. jan. 2017 nema 114. og 115. gr. sem tóku gildi 1. júlí 2016). L. 75/2018 (tóku gildi 27. júní 2018 nema 9., 10., 11. og 14. gr., 34. og 35. gr., 59. gr. og 63. gr. sem tóku gildi 1. ágúst 2018 að því er varðar þau fyrirtæki og aðila sem nánar eru tilgreindir í 70. gr. s.l.). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 121/2019 (tóku gildi 24. okt. 2019 nema 3. gr. og 1.–3. tölul. 5. gr. sem tóku gildi 1. febr. 2020, sbr. augl. A 6/2020, og 4., 5. og 7. tölul. 5. gr. sem tóku ekki gildi; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 4. gr.). L. 53/2022 (tóku gildi 12. júlí 2022). L. 58/2022 (tóku gildi 13. júlí 2022).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og vinnumarkaðsráðherra eða félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi. Um undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi gilda ákvæði III. kafla.
… 1)
1)L. 78/2008, 1. gr.
2. gr. Tilgangur.
Lögin gefa heimild til að veita atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
Lögunum er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni og kveða á um rétt útlendinga til atvinnu hér á landi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.
3. gr. Orðskýringar.
[Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
1. Tímabundið atvinnuleyfi: Leyfi veitt útlendingi til að starfa tímabundið á innlendum vinnumarkaði hjá tilteknum atvinnurekanda.
2. … 1)
3. Atvinnurekandi: [Sjálfstætt starfandi einstaklingur, fyrirtæki eða félag, þ.m.t. stofnun, félagasamtök eða annar aðili], 1) sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
4. [Ótímabundið dvalarleyfi:]1) Heimild veitt útlendingi til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga.
5. Útlendingur: Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
6. Nánustu aðstandendur: Einstaklingar sem teljast nánustu aðstandendur samkvæmt lögum um útlendinga.
[7. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.
8. Nám: Námsleiðir sem teljast til náms samkvæmt lögum um útlendinga.] 1)] 2)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 78/2008, 2. gr.
4. gr. Framkvæmd laganna.
[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur með reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, [þar á meðal um rafræna málsmeðferð]. 3)
Vinnumálastofnun fer í umboði ráðherra með framkvæmd laganna.
1)L. 126/2011, 351. gr. 2)Rg. 339/2005. 3)L. 75/2018, 50. gr.
II. kafli. Atvinnuleyfi.
5. gr. Almennt.
Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
Leyfi samkvæmt lögum þessum er heimilt að binda skilyrðum öðrum en þeim er koma fram í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynleg vegna mikilvægra almannahagsmuna.
[[Ráðherra] 1) getur sett nánari reglur 2) um veitingu atvinnuleyfa samkvæmt lögum þessum í samræmi við stefnu stjórnvalda.] 3)
1)L. 162/2010, 25. gr. 2)Rg. 339/2005. 3)L. 78/2008, 3. gr.
6. gr.
Óheimilt er að veita útlendingi atvinnuleyfi sem dvelst hér á landi án dvalarleyfis eða hefur verið gert að fara af landi brott samkvæmt lögum um útlendinga. … 1)
[Atvinnurekanda er óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, sbr. þó 4. og 5. mgr. 19. gr., eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis enda sé hann ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.] 2)
[[Útlendingi er óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema hann sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.] 2)
Útlendingi er óheimilt að ráða sig til starfa hér á landi nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 4. og 5. mgr. 19. gr.] 1)
1)L. 78/2008, 4. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr.
7. gr. [Almenn skilyrði tímabundins atvinnuleyfis.
[Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi skv. 8.–13. gr. og 15.–16. gr. ef eftirfarandi skilyrði eru m.a. uppfyllt eftir því sem við á hverju sinni]: 1)
a. Starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu. Áður en leyfi er veitt ber atvinnurekanda að hafa leitað eftir starfsfólki með aðstoð Vinnumálastofnunar, nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.
b. Fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein. Umsögn skal liggja fyrir innan sjö daga frá móttöku afrits umsóknar um atvinnuleyfi og ráðningarsamnings. Þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar ekki er til að dreifa heildarsamtökum eða landssambandi í hlutaðeigandi starfsgrein.
c. Fyrir liggi undirritaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða vegna verkefnis milli atvinnurekanda og útlendings sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um. Þegar um er að ræða störf sem falla utan gildissviðs kjarasamninga skal tryggja útlendingnum laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn [en við mat á því hvort svo sé er Vinnumálastofnun m.a. heimilt að líta til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald sem og upplýsinga frá Hagstofu Íslands og launakannana sem gerðar hafa verið af óháðum aðilum]. 2)
d. Fyrir liggi að atvinnurekandi hafi sjúkratryggt útlending samkvæmt lögum um útlendinga.
e. Atvinnurekandi ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendings að starfstíma loknum, ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa. Í ráðningarsamningi skal koma fram til hvaða lands heimflutningur nær.
Óheimilt er að veita atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum vegna starfa hjá starfsmannaleigum.] 3)
1)L. 75/2018, 51. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr. 3)L. 78/2008, 5. gr.
8. gr. [Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
a. skilyrði a–e-liða 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt,
b. útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda um að gegna tilteknu starfi sem [samkvæmt lögum eða venju hér á landi er þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu; auk þess er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir að þar til bærir aðilar að mati stofnunarinnar votti um að starfið sem um ræðir sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu], 1)
c. sérfræðiþekking útlendingsins sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki, og
d. sérfræðiþekking útlendingsins feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi. Vinnumálastofnun óskar staðfestingar á menntun útlendingsins með viðeigandi skilríkjum í samræmi við íslenskar reglur telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.
Enn fremur er Vinnumálastofnun í undantekningartilvikum heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu ef viðkomandi útlendingur hefur yfir að ráða sérþekkingu sem jafna má við menntun skv. d-lið 1. mgr. Vinnumálastofnun óskar staðfestingar á sérþekkingu í samræmi við íslenskar reglur telji stofnunin slíkt nauðsynlegt. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr.
Þegar um er að ræða umsókn um atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu vegna starfs sem krefst háskólamenntunar er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr.
[Vinnumálastofnun er heimilt að víkja frá skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr., þegar atvinnurekandi sendir starfsmann sinn tímabundið til starfa við starfsstöð sína hér á landi enda sé um að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem sérfræðingur við starfsstöð hans erlendis. Ef um er að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem stjórnandi við starfsstöð atvinnurekanda erlendis er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr., sem og b–d-lið 1. mgr. Vinnumálastofnun óskar eftir rökstuðningi atvinnurekanda varðandi nauðsyn þess að viðkomandi útlendingur komi til starfa við starfsstöð hans hér á landi telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.] 2)
Atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en [tveggja ára] 1) en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi. Heimilt er að framlengja það um allt að tvö ár í senn [með sömu takmörkunum og þegar leyfið var veitt í fyrsta skipti] 1) enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. Við framlengingu þurfa skilyrði a-, d- og e-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr., ekki að vera uppfyllt. Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins. [Þá er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir upplýsingum frá atvinnurekanda í tengslum við starf viðkomandi útlendings sem stofnunin telur nauðsynlegar til að meta hvort skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins séu uppfyllt, svo sem upplýsingum um hvort sérfræðiþekking útlendingsins hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna.] 1)
… 1)] 3)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 53/2022, 1. gr. 3)L. 78/2008, 6. gr.
[9. gr. Tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á [starfsfólki].1)
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi þegar starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. að skilyrði 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt.
… 2)
Atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi. Heimilt er að framlengja atvinnuleyfið í [eitt ár í senn með sömu takmörkunum og þegar leyfið var veitt í fyrsta skipti] 1) enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt. Við framlengingu þarf skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr. ekki að vera uppfyllt. Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.
… 3)
Óheimilt er að veita útlendingi sem haft hefur tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu leyfi samkvæmt ákvæðinu að nýju fyrr en að lokinni tveggja ára samfelldri dvöl erlendis frá lokum gildistíma leyfisins. Þetta ákvæði á þó ekki við þegar útlendingur starfar hér á landi skemur en [átta] 1) mánuði á hverjum tólf mánuðum eða þegar útlendingur skiptir um atvinnurekanda skv.16. gr.
… 1)] 4)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 53/2022, 2. gr. 3)L. 75/2018, 52. gr. 4)L. 78/2008, 7. gr.
[10. gr. Tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa íþróttafólks hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. að skilyrði c–e-liða 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt.
Atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi. Heimilt er að framlengja atvinnuleyfið um allt að tvö ár í senn [með sömu takmörkunum og þegar leyfið var veitt í fyrsta skipti] 1) enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt. Við framlengingu þarf skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr. ekki að vera uppfyllt. Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að viðkomandi íþróttafélag hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.
… 1)] 2)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 78/2008, 7. gr.
[11. gr. Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi í undantekningartilvikum þegar eftirfarandi skilyrði eru m.a. uppfyllt:
a. útlendingi hafi áður verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, [dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals, dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals], 1) [dvalarleyfi fyrir foreldra, dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eða dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs samkvæmt lögum] 2) um útlendinga, og
b. skilyrði [b-, c- og d-liðar] 2) 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt.
Atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu [skal eigi veitt] 2) til lengri tíma en sem nemur gildistíma dvalarleyfis eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími skemmri en gildistími dvalarleyfis. Heimilt er að framlengja [það með sömu takmörkunum og þegar leyfið var veitt í fyrsta skipti] 2) enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt. Við framlengingu þurfa skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. b-lið 1. mgr., ekki að vera uppfyllt. Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.
… 2)] 3)
1)L. 75/2018, 53. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr. 3)L. 78/2008, 7. gr.
[12. gr. Tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa nánustu aðstandenda [íslensks ríkisborgara eða] 1) útlendings sem hefur tímabundið atvinnuleyfi skv. 8. gr. laganna, tímabundið atvinnuleyfi sem tengist dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða [eða dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið] 2) skv. 11. gr. laganna, [tímabundið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar samkvæmt lögum um útlendinga eða ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga] 2) að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 7. gr. [Hið sama á við vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga og um er að ræða framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi eða endurnýjað dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem viðkomandi útlendingur hefur lokið námi hér á landi. Þá er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa nánustu aðstandenda útlendings sem hefur verið veitt dvalarleyfi fyrir íþróttafólk samkvæmt lögum um útlendinga enda sé gildistími dvalarleyfisins a.m.k. eitt ár.] 2) Við veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu er þó heimilt að víkja frá skilyrðum [a- og e-liðar] 2) 1. mgr. 7. gr. Skilyrði er að áður hafi verið veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga … 2)
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa útlendings sem náð hefur 18 ára aldri hafi hann dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir [börn … 3)] 2) samkvæmt lögum um útlendinga fyrir 18 ára aldur, að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 7. gr. Við veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu er þó heimilt að víkja frá skilyrðum a-, b- og e-liðar 1. mgr. 7. gr. Skilyrði er að áður hafi verið veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga … 2)
Atvinnuleyfi [samkvæmt ákvæði þessu] 2) skal eigi veitt til lengri tíma … 2) en sem nemur gildistíma dvalarleyfis nánasta aðstandanda eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími skemmri en gildistími dvalarleyfis. Heimilt er að framlengja það … 2) með sömu takmörkunum og þegar leyfið er veitt í fyrsta skipti enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt. Við framlengingu [þurfa skilyrði a-, d- og e-liðar] 2) 1. mgr. 7. gr. ekki að vera uppfyllt. Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa hlutaðeigandi.
… 2)
… 2)
… 2)
[Börnum] 2) sem dveljast hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir [börn … 3)] 2) samkvæmt lögum um útlendinga er tímabundið heimilt að starfa hér á landi án atvinnuleyfa að átján ára aldri.] 4)
1)L. 154/2008, 2. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr. 3)L. 75/2018, 54. gr. 4)L. 78/2008, 7. gr.
[13. gr. Tímabundið atvinnuleyfi vegna náms.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa útlendings sem stundar nám hér á landi. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. eftirfarandi:
a. [skilyrði b-, c- og d-liðar 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt], 1)
[b. starfshlutfall útlendings sé ekki meira en 40%], 1)
[c.] 1) útlendingi hafi verið veitt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga.
[Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. er heimilt að veita atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu þegar starfshlutfall útlendings er meira en 40% þegar eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
a. starfið fer fram í námsleyfi samkvæmt námsskrá viðkomandi skóla,
b. útlendingi hafi áður verið veitt endurnýjað dvalarleyfi hér á landi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem hann hefur lokið háskólanámi hérlendis og dvelur hér í atvinnuleit á grundvelli sérþekkingar sinnar,
c. um sé að ræða nám sem fram fer á vinnustað.
Þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað skal liggja fyrir staðfesting frá hlutaðeigandi menntastofnun, íslenskri eða erlendri eftir því sem við á, um að nám viðkomandi útlendings á vinnustaðnum í nánar tiltekinn tíma sé nauðsynlegur hluti af námi hans hjá stofnuninni.] 1)
Atvinnuleyfi sem veitt er samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en [tólf] 1) mánaða í senn en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur gildistíma dvalarleyfis vegna náms [eða ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sé ráðningartími skemmri en gildistími dvalarleyfis]. 1) [Í þeim tilvikum þegar um er að ræða nám sem fram fer á vinnustað skal atvinnuleyfi samkvæmt ákvæði þessu eigi veitt til lengri tíma en sem nemur þeim tíma sem hlutaðeigandi menntastofnun, íslensk eða erlend eftir því sem við á, hefur tilgreint í staðfestingu sinni skv. 3. mgr.] 1) Heimilt er að framlengja það meðan á námstíma stendur [með sömu takmörkunum og þegar leyfið var veitt í fyrsta skipti enda séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt]. 1) Enn fremur er það skilyrði framlengingar atvinnuleyfisins að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.
Þegar útlendingur hefur lokið námi við íslenskan skóla sem felur í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun er heimilt að veita atvinnuleyfi skv. 1. mgr. 8. gr. vegna tiltekins starfs er tengist menntun hans. Er þá heimilt að víkja frá skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 8. gr.
… 1)] 2)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 78/2008, 7. gr.
[14. gr.]1) Íslenskukennsla og samfélagsfræðsla.
Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.
1)L. 78/2008, 7. gr.
[15. gr.]1) [Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf.]2)
[Heimilt er að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf, að uppfylltum skilyrðum c–e-liðar 1. mgr. 7. gr.
Þjónustusamningur eða samstarfssamningur um kennslu-, fræði- eða vísindastörf, eftir því sem við á, milli atvinnurekanda sem hefur starfsstöð hér á landi og atvinnurekanda sem ekki hefur starfsstöð hér á landi skal liggja fyrir. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða þjónustusamning skal m.a. koma fram í samningi að skilyrði viðskiptanna sé að starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda annist þjónustuna hér á landi. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða samstarfssamning skal m.a. koma fram í samningi að um sé að ræða starf sem starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda mun gegna hér á landi á grundvelli samstarfs milli hins íslenska atvinnurekanda og erlenda atvinnurekandans í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf og skal þá viðkomandi starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda hafa lokið háskólanámi sem er nauðsynlegt til að gegna því starfi sem um ræðir.] 2)
Leyfi samkvæmt þessari grein skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama [samnings]. 2)
… 2)
1)L. 78/2008, 7. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr.
[16. gr. Nýr atvinnurekandi.
Heimilt er að veita nýtt tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðum 8.–13. gr. eftir því sem við á vegna tiltekins starfs útlendings hjá öðrum atvinnurekanda en þeim er fyrra leyfið var skilyrt við. Útlendingi er óheimilt að hefja störf hjá hinum nýja atvinnurekanda áður en atvinnuleyfi hefur verið veitt, sbr. þó [5. mgr.] 1) 19. gr. Tímabundið atvinnuleyfi sem gefið er út samkvæmt ákvæði þessu skal aldrei hafa lengri gildistíma en fyrra leyfi … 2)
Yfirlýsing um ráðningarslit milli útlendings og fyrri atvinnurekanda skal fylgja með umsókn skv. 1. mgr. ásamt skriflegum ráðningarsamningi milli útlendings og hins nýja atvinnurekanda.] 3)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 75/2018, 55. gr. 3)L. 78/2008, 10. gr.
[17. gr. … 1)] 2)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 78/2008, 10. gr.
[18. gr. Tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli samninga við önnur ríki.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi til maka … 1) eða sambúðarmaka erlends sendimanns og barna hans undir 21 árs aldri á grundvelli samnings íslenskra stjórnvalda þar að lútandi við önnur ríki enda hafi maki … 1) eða sambúðarmaki eða börn hans gilt dvalarleyfi á grundvelli þjóðréttarsamnings.
Heimilt er að veita útlendingum á aldrinum 18 til [31 árs] 2) tímabundin atvinnuleyfi hér á landi að hámarki til eins árs á grundvelli samninga íslenskra stjórnvalda við önnur ríki um störf ríkisborgara þeirra hér á landi í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess. Tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli slíks samnings er ekki skilyrt við störf hjá tilteknum atvinnurekanda. [Skilyrði er að útlendingnum hafi áður verið veitt dvalarleyfi vegna samnings Íslands við erlent ríki samkvæmt lögum um útlendinga. Heimilt er að framlengja slík atvinnuleyfi um allt að eitt ár þegar slíkir samningar heimila lengri dvöl en til eins árs.] 2)
[Ráðherra] 3) er heimilt að setja nánari skilyrði fyrir atvinnuleyfum samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.] 4)
1)L. 65/2010, 31. gr. 2)L. 58/2022, 2. gr. 3)L. 162/2010, 25. gr. 4)L. 78/2008, 10. gr.
[19. gr. Meðferð umsóknar um atvinnuleyfi.
Atvinnurekandi sem óskar eftir að ráða útlending tímabundið til starfa skal sækja um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd útlendingsins áður en útlendingurinn kemur til landsins í fyrsta skipti til starfa nema [fyrir liggi ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingnum sé heimilt að dvelja hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga]. 1) Hið sama á við þegar útlendingur hefur dvalist erlendis í a.m.k. sex mánuði frá þeim tíma er áður útgefið atvinnuleyfi féll úr gildi enda hafi honum ekki verið veitt leyfi Útlendingastofnunar til að dveljast hér á landi. [Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi skal skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir hana svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar.] 1) Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og skulu atvinnurekandi og útlendingur undirrita hana. Umsókninni skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Vinnumálastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að uppfyllt séu þau skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um, þar á meðal skriflegur ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda sem báðir aðilar hafa undirritað.
Vinnumálastofnun er heimilt að taka til meðferðar umsókn um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. [… 2) og 15. gr.] 1) á undan öðrum umsóknum um atvinnuleyfi sem hafa borist stofnuninni enda liggi fyrir undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings. [Í undantekningartilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að taka til meðferðar aðrar umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi en að framan greinir enda sé þá um sérstakar aðstæður að ræða.] 1)
Atvinnurekandi sem óskar eftir að framlengja ráðningu útlendings skal sækja um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis fyrir hönd útlendingsins eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra leyfi fellur úr gildi. [Umsókn skal skila til Útlendingastofnunar sem áframsendir hana svo fljótt sem unnt er til Vinnumálastofnunar.] 1) Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og skulu atvinnurekandi og útlendingur undirrita hana. Umsókninni skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Vinnumálastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að uppfyllt séu þau skilyrði sem lög og reglugerðir kveða á um, þar á meðal skriflegur ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda sem báðir aðilar hafa undirritað.
[Þegar atvinnurekandi sækir um tímabundið atvinnuleyfi fyrir útlending skv. 8. gr. getur hann óskað eftir að Vinnumálastofnun taki ákvörðun um heimild útlendingsins til að hefja störf hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda á afgreiðslutíma umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði er að Vinnumálastofnun hafi veitt tímabundið atvinnuleyfi með fyrirvara um veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar samkvæmt lögum um útlendinga og að atvinnurekandinn ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendingsins komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfið.] 1)
Útlendingi, sem hefur gilt dvalarleyfi á grundvelli laga um útlendinga, er heimilt að halda starfi sínu áfram á afgreiðslutíma umsóknar um framlengingu tímabundins atvinnuleyfis enda hafi umsóknin borist [Útlendingastofnun] 1) innan frestsins skv. 3. mgr. Hafi umsókn borist síðar tekur Vinnumálastofnun ákvörðun um heimild útlendingsins til að halda starfi sínu áfram á afgreiðslutíma umsóknar enda liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingi sé heimilt að dvelja hér á landi á þeim tíma. Hið sama gildir þegar nýr atvinnurekandi sækir um tímabundið atvinnuleyfi fyrir útlending skv. 16. gr. eftir því sem við getur átt.
… 1)
[Þrátt fyrir að skilyrði laga þessara séu uppfyllt er Vinnumálastofnun heimilt að synja um veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfa útlendings hjá atvinnurekanda sem áður hefur brotið gegn lögum þessum, svo sem með því að hafa áður ráðið útlending til starfa án tilskilins atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum. Sama á við hafi atvinnurekandi áður ráðið útlending til starfa á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum en ekki greitt honum laun í samræmi við gildandi kjarasamning í viðkomandi starfsgrein á því svæði þar sem vinna starfsmannsins fór fram eða ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta og/eða tryggingagjaldi lögum samkvæmt. Jafnframt gildir hið sama ef um er að ræða útlending sem áður hefur brotið gegn lögum þessum, svo sem með því að hafa ráðið sig til starfa hér á landi án tilskilins atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum.] 3)
Þegar Vinnumálastofnun hefur tekið efnislega ákvörðun á grundvelli umsóknar um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum skal stofnunin tilkynna um það til Útlendingastofnunar og aðila máls.] 4)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 53/2022, 3. gr. 3)L. 75/2018, 56. gr. 4)L. 78/2008, 10. gr.
[20. gr. Útgáfa atvinnuleyfa.
Atvinnuleyfi er gefið út á nafn útlendingsins eftir að hann er kominn til landsins og er útlendingurinn handhafi leyfisins. Tímabundið atvinnuleyfi er skilyrt við starf hjá tilteknum atvinnurekanda, sbr. þó 2. mgr. 18. gr., og er útlendingi óheimilt að hefja störf hjá öðrum atvinnurekanda áður en nýtt leyfi hefur verið gefið út, sbr. þó [5. mgr.] 1) 19. gr. Í [útgefnum tímabundnum atvinnuleyfum] 1) skal m.a. koma fram nafn og kennitala útlendings, ríkisfang hans, nafn atvinnurekanda og gildistími leyfisins. … 1)
Útlendingur skal hafa [útgefið atvinnuleyfi] 1) skv. 1. mgr. ávallt meðferðis og sýna [það] 1) krefjist [Vinnumálastofnun eða] 2) lögregla þess.
[Ráðherra] 3) getur sett nánari reglur í reglugerð um útgáfu atvinnuleyfa samkvæmt ákvæði þessu í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni, svo sem um samstarf Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar, að fenginni umsögn [þess ráðherra er fer með málefni persónuréttinda]. 4)] 5)
1)L. 80/2016, 122. gr. 2)L. 75/2018, 57. gr. 3)L. 162/2010, 25. gr. 4)L. 126/2011, 351. gr. 5)L. 78/2008, 10. gr.
[21. gr. Starfslok.
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnumálastofnun þegar útlendingur sem hefur tímabundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum lætur af störfum hjá honum áður en gildistími leyfisins er liðinn.] 1)
1)L. 78/2008, 10. gr.
III. kafli. Undanþáguákvæði.
[22. gr.]1) [Undanþágur frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi.]2)
Eftirtaldir eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi:
[a. Ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar og aðrir útlendingar sem falla undir reglur framangreindra samninga, með þeim takmörkunum sem þar greinir og nánar skal kveðið á um í reglugerð.] 3)
[b.] 4) Útlendingar sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt.
[c.] 4) [Erlendir makar … 5) [og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar samkvæmt lögum um útlendinga] 6) og börn þeirra að átján ára aldri sem eru í forsjá og á framfæri þeirra.] 3)
[d.] 4) Útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.
[e. Útlendingar sem hafa fengið [dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar] 6) samkvæmt lögum um útlendinga.] 3)
[f. Útlendingar sem hafa fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.] 6)
[Útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi skv. 1. mgr. skal veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem stofnunin kann að óska eftir í þágu eftirlits, sbr. 26. gr.] 2)
1)L. 78/2008, 10. gr. 2)L. 75/2018, 58. gr. 3)L. 78/2008, 11. gr. 4)L. 84/2003, 2. gr. 5)L. 65/2010, 32. gr. 6)L. 80/2016, 122. gr.
[23. gr.]1) [Undanþágur frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi í allt að 90 daga á ári.]2)
Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að [90 daga] 3) á ári hér á landi:
a. [Vísinda- og fræðimenn, þ.m.t. doktors- og starfsnemar, í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf hér á landi eða sambærilega starfsemi, og skal þá viðkomandi útlendingur hafa lokið háskólanámi í tengslum við það starf sem um ræðir.] 3)
b. Listamenn, að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. … 3)
c. Íþróttaþjálfarar.
d. Fulltrúar í viðskiptaerindum … 3)
e. Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki, enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
f. Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
g. Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.
[Útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi skv. 1. mgr. skal tilkynna til Vinnumálastofnunar um vinnu sína hér á landi eigi síðar en sama dag og vinnan hefst í hvert skipti. Í tilkynningu skv. 1. málsl. skulu m.a. koma fram eftirfarandi upplýsingar:
a. Um útlendinginn:
1. Nafn.
2. Fæðingardagur.
3. Ríkisfang.
4. Númer vegabréfs.
5. Starfsheiti.
6. Heimilisfang hér á landi.
7. Áætlaður dvalartími hér á landi.
b. Um atvinnurekanda, ef hann er annar en viðkomandi útlendingur:
1. Nafn og netfang.
2. Heimilisfang í heimaríki.
3. Auðkenni, svo sem virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild.
4. Nafn og netfang tengiliðar atvinnurekanda.
c. Um undir hvaða undanþágu 1. mgr. starf útlendings hér á landi fellur að mati viðkomandi útlendings.
Útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi skv. 1. mgr. skal veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem stofnunin kann að óska eftir í þágu eftirlits, sbr. 26. gr.] 2)
Ráðherra getur sett reglur 4) sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu samkvæmt þessari grein.
1)L. 78/2008, 10. gr. 2)L. 75/2018, 59. gr. 3)L. 80/2016, 122. gr. 4)Rg. 339/2005.
IV. kafli. Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.
[24. gr.]1) Afturköllun.
[Vinnumálastofnun er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi ef útlendingur eða atvinnurekandi hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að afturkalla atvinnuleyfi þegar skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum er ekki lengur fullnægt, svo sem þegar útlendingur hefur starfað hjá öðrum atvinnurekanda en atvinnuleyfi hans er skilyrt við, [atvinnurekandi hefur ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa viðkomandi útlendings], 2) eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.] 3)
1)L. 78/2008, 10. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr. 3)L. 78/2008, 12. gr.
[25. gr.]1) Meðferð upplýsinga.
[Vinnumálastofnun og lögreglu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna.
[Upplýsingar sem veittar eru Vinnumálastofnun samkvæmt lögum þessum, og reglugerðum settum samkvæmt þeim, skulu vera skriflegar, hvort sem er á rafrænu formi eða á pappír.
Vinnumálastofnun getur aflað upplýsinga og miðlað þeim að því marki sem stofnuninni er það heimilt samkvæmt lögum þessum, rafrænt eða á annan hátt sem stofnunin ákveður.
Vinnumálastofnun skal afhenda viðeigandi stjórnvöldum upplýsingar sem stofnuninni berast á grundvelli laga þessara, enda óski viðkomandi stjórnvald eftir því í tengslum við lögbundið eftirlit þess. Berist Vinnumálastofnun upplýsingar á grundvelli laga þessara sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum íslenskra laga eða reglugerða er stofnuninni skylt að afhenda viðeigandi stjórnvaldi upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
Í þeim tilvikum þegar Vinnumálastofnun býr ekki yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar að mati stofnunarinnar til að hún geti haft eftirlit með framkvæmd laga þessara skv. 26. gr. skal stofnunin óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, sem koma stofnuninni að gagni, svo sem við mat á því hvort ákvæði laga þessara hafi verði brotin, þ.m.t. hvort hér á landi starfi útlendingar án tilskilinna atvinnuleyfa, og ber hlutaðeigandi aðilum að veita Vinnumálastofnun umbeðnar upplýsingar, búi þeir yfir þeim. Berist stjórnvöldum eða eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn lögum þessum er þeim skylt að afhenda Vinnumálastofnun upplýsingarnar án ástæðulausrar tafar.
Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlits skv. 26. gr. að mati stofnunarinnar. [Starfsmenn Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga hvað varðar upplýsingar um mál sem stofnunin hefur til meðferðar á grundvelli laga þessara.] 2)] 3)] 1)
1)L. 78/2008, 13. gr. 2)L. 71/2019, 5. gr. 3)L. 75/2018, 60. gr.
[26. gr. Eftirlit Vinnumálastofnunar og lögreglu.
Lögregla og Vinnumálastofnun hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Atvinnurekandi skal veita lögreglu og Vinnumálastofnun aðgang að skjölum eða öðrum gögnum sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að ekki hafi verið brotið gegn lögunum. Útlendingur og atvinnurekandi skulu gefa allar aðrar nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við eftirlitið.
Lögreglu [og Vinnumálastofnun] 1) skal veittur aðgangur að vinnustöðvum atvinnurekanda í þeim tilgangi að kanna hvort atvinnurekandi og útlendingur sem starfar hjá honum fari að lögum þessum. [Lögregla og Vinnumálastofnun skulu sýna sérstök skilríki við störf sín.] 1)
Útlendingur skal að kröfu lögreglu [eða Vinnumálastofnunar] 1) sýna skilríki um að honum sé heimilt að starfa hér á landi og, ef þörf er á, veita upplýsingar svo að ljóst sé hver hann er, m.a. til að sýna fram á að hann sé undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum þegar við á.
Lögreglu [og Vinnumálastofnun] 1) er heimilt að krefja aðra starfsmenn sem starfa eða hafa starfað einhvern tíma á síðustu þremur mánuðum hjá viðkomandi atvinnurekanda um nauðsynlegar upplýsingar í tengslum við eftirlitið.] 2)
1)L. 75/2018, 61. gr. 2)L. 78/2008, 14. gr.
[27. gr.]1) Refsiákvæði.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
a. af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eða
b. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir í máli samkvæmt lögum þessum upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:
a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur atvinnuleyfi samkvæmt lögunum,
b. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögunum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins,
c. af ásetningi með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd, eða á annan ótilhlýðilegan hátt, tælir útlending til að koma til landsins í atvinnuskyni,
d. í hagnaðarskyni aðstoðar útlending við að stunda atvinnu án tilskilinna leyfa.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að fimm árum að reka skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að starfa hér á landi án atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum.
Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
1)L. 78/2008, 14. gr.
[28. gr.]1) Heimflutningur.
Sá sem hefur milligöngu um að útlendingur flytjist til landsins í atvinnuskyni án tilskilinna leyfa, sbr. b- og c-lið 2. mgr. [27. gr.], 2) skal greiða allan kostnað við að flytja útlending úr landi.
1)L. 78/2008, 14. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr.
V. kafli. Samráð Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.
[29. gr.]1) Samráðsnefnd.
Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun skulu koma á fót sérstakri samráðsnefnd vegna framkvæmdar laga þessara.
Samráðsnefndin skal skipuð fjórum mönnum og skipar hvor stofnunin tvo menn í nefndina. Skipunartími nefndarinnar er tvö ár. Samráðsnefndin velur formann úr hópi nefndarmanna. Skal formaður annast boðun funda og stjórn þeirra.
1)L. 78/2008, 14. gr.
[30. gr.]1)
Vinnumálastofnun skal tilkynna allar atvinnuleyfisveitingar og synjanir til Útlendingastofnunar.
Útlendingastofnun skal í samráði við Vinnumálastofnun gefa út skírteini þar sem m.a. komi fram upplýsingar um dvalarleyfi og réttindi útlendingsins til að stunda vinnu á Íslandi. Þar skulu einnig vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinið. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess.
1)L. 78/2008, 14. gr.
VI. kafli. Málsmeðferð.
[31. gr.]1) Almennar reglur um málsmeðferð.
Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum þessum.
1)L. 78/2008, 14. gr.
[32. gr.]1) Málshraði.
Vinnumálastofnun skal taka ákvörðun um hvort orðið er við umsókn um atvinnuleyfi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsókn berst [stofnuninni]. 2)
Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýst um ástæðu tafanna og hvenær ákvörðunar er að vænta.
1)L. 78/2008, 14. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr.
[33. gr.]1) Leiðbeiningarskylda.
Í máli er varðar synjun eða afturköllun atvinnuleyfis skal stjórnvald leiðbeina útlendingi um kæruheimild skv. [34. gr.] 2)
1)L. 78/2008, 14. gr. 2)L. 80/2016, 122. gr.
[34. gr.]1) Kæruheimild.
[Atvinnurekanda og útlendingi er sameiginlega heimilt að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar [á grundvelli laga þessara] 2) til [ráðuneytisins] 3) og skulu þeir báðir undirrita stjórnsýslukæruna. Þeir geta þó veitt öðrum umboð sitt til að fara með málið fyrir sína hönd. … 4)
Kærufrestur er fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar og skal útlendingur dveljast erlendis meðan á afgreiðslu kæru stendur enda hafi honum ekki verið veitt leyfi Útlendingastofnunar til að dveljast hér á landi.
[Ráðuneytið] 3) skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.] 5)
1)L. 78/2008, 14. gr. 2)L. 75/2018, 62. gr. 3)L. 162/2010, 25. gr. 4)L. 80/2016, 122. gr. 5)L. 78/2008, 15. gr.
VII. kafli. Ýmis ákvæði og gildistaka.
[35. gr.]1) Samstarfsnefnd.
[Ráðherra] 2) skal skipa samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar [ráðherra, þess ráðherra sem fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um útlendinga], 3) Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, [einn frá hverjum aðila]. 3) [Ráðherra] 2) skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Samstarfsnefndin skal kölluð saman:
a. vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa,
b. þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga,
[c. þegar fyrirhugaðar eru breytingar á lögum þessum eða lögum um útlendinga,
d. í tengslum við vinnu að stefnumótun íslenskra stjórnvalda hvað varðar möguleika ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins til að dvelja og starfa hér á landi,
e. ársfjórðungslega til að fara yfir stöðuna hvað varðar þátttöku ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins á innlendum vinnumarkaði.] 3)
1)L. 78/2008, 14. gr. 2)L. 162/2010, 25. gr. 3)L. 80/2016, 122. gr.
[36. gr. Gildi milliríkjasamninga.
Við framkvæmd laga þessara skal hafa hliðsjón af efni milliríkjasamninga um atvinnuréttindi útlendinga sem Ísland er aðili að.] 1)
1)L. 78/2008, 16. gr.
[37. gr.]1)
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.
…
1)L. 78/2008, 16. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
I. … 1)] 2)
1)Ákvæðið gilti til 1. maí 2009 skv. 7. mgr., sbr. l. 21/2006, 3. gr. 2)L. 19/2004, 2. gr.
[II.
Ákvæði a-liðar [22. gr.] 1) tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að starfa hér á landi fyrr en [1. janúar 2012], 1) sbr. þó 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.] 2)
1)L. 154/2008, 3. gr. 2)L. 106/2007, 4. gr.
[III.
Tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu á gildistíma þeirra. Heimilt er að framlengja tímabundin atvinnuleyfi sem veitt voru fyrir gildistöku laganna að sömu skilyrðum uppfylltum og giltu um veitingu upphaflega leyfisins. Tímabundin atvinnuleyfi sem gátu verið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis skv. 11. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, fyrir gildistíð þessara laga, skulu áfram teljast grundvöllur óbundins atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum.
Óbundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.] 1)
1)L. 78/2008, 17. gr.
[IV.
Ákvæði a-liðar 22. gr. tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Króatíu til að starfa hér á landi fyrr en 1. júlí 2015, sbr. þó 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.] 1)
1)L. 26/2014, 4. gr.
[V.
Tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu. Heimilt er að framlengja tímabundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara að sömu skilyrðum uppfylltum og giltu um veitingu upphaflegu leyfanna.
Óbundin atvinnuleyfi sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.
Þrátt fyrir 2. mgr. fellur óbundið atvinnuleyfi úr gildi þegar útlendingur hefur dvalist erlendis samfellt lengur en átján mánuði. Vinnumálastofnun tekur ákvörðun um að fella leyfi úr gildi. Vinnumálastofnun er þó heimilt að fenginni umsókn að veita undanþágu frá tímamörkum 1. málsl. þannig að útlendingur haldi óbundnu atvinnuleyfi þrátt fyrir lengri dvöl erlendis.] 1)
1)L. 80/2016, 122. gr.
[VI.
Breskir ríkisborgarar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
Aðstandendur bresks ríkisborgara eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
Breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.] 1)
1)L. 121/2019, 5. gr. Um ákvæði 3. mgr. segir í 5. mgr. 4. gr. s.l. að það komi til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samningsins á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins og ef fyrir liggi staðfest pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um tímabundið fyrirkomulag varðandi fólksflutninga sem mælir fyrir um gagnkvæm réttindi.