Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. mars 2004.  Útgáfa 130a.  Prenta í tveimur dálkum.


Vatnalög

1923 nr. 15 20. júní


Tóku gildi 1. janúar 1924. Breytt með l. 61/1932 (tóku gildi 1. jan. 1933; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 95. gr.), l. 90/1938 (tóku gildi 11. júní 1938), l. 129/1941 (tóku gildi 31. des. 1941), l. 93/1947 (tóku gildi 5. júní 1947), l. 108/1988 (tóku gildi 1. jan. 1989), l. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990), l. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991), l. 20/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992), l. 21/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992), l. 81/1991 (tóku gildi 1. jan. 1992), l. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992), l. 137/1995 (tóku gildi 29. des. 1995), l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998) og l. 64/2003 (tóku gildi 7. apríl 2003 en komu til framkvæmda 1. júlí sama ár).


I. kafli. Orðaskýringar.
1. gr. Í lögum þessum merkja:
    Almenningur: Sá hluti vatns, sem liggur fyrir utan vatnsbelti landareignanna.
    Fallvatn: Sá hluti vatnsfalls (fossar, hávaðar, strengir), sem hagkvæmt verður talið að virkja í einu lagi til orkunýtingar.
    Frumdrættir: Mælingar, uppdrættir, lýsingar og önnur gögn til ákvörðunar á aðaldráttum fyrirhugaðra mannvirkja.
    Fullnaðardrættir: Mælingar, uppdrættir og önnur gögn til fullkominnar ákvörðunar á fyrirhuguðum mannvirkjum.
    Hérað: Kaupstaður, sýsla eða hreppur.
    Iðja: Iðnaður, annar en handiðn.
    Iðjuver: Land eða lóð, hús og önnur mannvirki, ásamt tækjum til afnota við iðju.
    Iðjuhöldur: Eigandi iðjuvers.
    Lágflæði: Venjulegt lægsta vatnsyfirborð.
    Landareign: Land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða.
    Orkuveita: Útbúnaður til að veita orku úr einum stað í annan.
    Orkuver: Land eða lóð, hús og önnur mannvirki ásamt tækjum til afnota við orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra.
    Sérleyfi: Leyfi samkvæmt sérleyfislögum.
    Vatnsvirki: Mannvirki um vatn, í eða yfir vatni eða við það.
    Vatnsmiðlun: Geymsla á vatni til þess að breyta eðlilegu vatnsmagni straumvatns.
    Vatnsvirkjari: Sá maður, sem kemur fyrir neysluvatnsæðum.

II. kafli. Almenn ákvæði um vatnsréttindi.
2. gr. Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.
3. gr. 1. Nú skilur á eða lækur landareignir, og á þá hvort land í miðjan farveg, og sé ekki vöxtur í vatni, nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð.
2. Eigi breytast merki, þótt farvegur breytist.
4. gr. 1. Nú liggur landareign að stöðuvatni, og fylgir vatnsbotn þá þeim bakka, er hann verður talinn áframhald af, 115 metra út í vatn (netlög).
2. Ef stöðuvatn er merkivatn og er eigi 230 metrar á breidd, þá skal miðlína þess ráða merkjum, nema önnur lögmæt skipun hafi verið á gerð.
3. Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði, þá fylgir vatnsbotn landi sem þurrt land væri.
4. Ef eyjar, hólmar eða sker eru í stöðuvatni, þá fylgja þeim netlög sem áður segir. Nú á maður eyjar, hólma eða sker fyrir landi annars manns, og er sundið mjórra en 230 metrar, og ræður þá miðlína sundsins merkjum.
5. Jafnan skal miða við lágflæði í vatni.
6. Ef breyting verður á vatnsbotni, þá skulu netlög vera sem áður voru þau.
5. gr. Nú liggja tvær landareignir eða fleiri að vatni sama megin, og skulu þá netlög hverrar um sig ákveðin svo, ef eigi hefir áður verið skipun á gerð, að hver botndepill fylgi þeim bakka, sem hann er næstur.
6. gr. 1. Rétt er að matsmenn ákveði og setji merki milli landareigna, að því leyti sem merki fara eftir ákvæðum 3.–5. gr.
2. Þinglýsa skal matsgerð samkvæmt 1. lið og bóka í landamerkjabók sem aðrar landamerkjaheimildir.
7. gr. 1. Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.
2. Óheimilt er manni, nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess:
    a. að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð,
    b. að gerstífla straumvatn eða gera mannvirki í vatni eða yfir því,
    c. að veita vatni úr landi sínu í annarra land, ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða réttindum, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni ríkis eða almennings.
8. gr. 1. Nú breytist farvegur án þess af mannavöldum sé, og er þá landeiganda hverjum, sem mein verður að breytingunni, rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Ef til þess þarf afnot af landi annars manns, eru þau heimil, en þá getur sá maður krafist bóta fyrir tjón og óþægindi, sem verkið bakar honum. Ef ágreiningur verður, þá skulu matsmenn skera úr.
2. Nú líða svo tvö ár frá lokum þess almanaksárs, er breytingin varð, að aðilja er eigi sagt til þess, að vinna eigi verk það, er í 1. lið greinir, og skal þá, þegar verkið er unnið, bæta þann kostnað, sem að loknum áðurnefndum fresti hefir verið ráðist í til þess að rækta farveginn og annars slíks, eða til ráðstafana, sem gerðar kunna að hafa verið til þess að nota vatnið í nýja farveginum. Nú er því lýst yfir innan 2 ára, að vinna eigi verkið, sbr. 1. lið, en verkið þó ekki unnið innan 5 ára frá því breyting varð, og má þá líta svo á sem engin yfirlýsing hafi fram komið.
3. Nú hefir sama ástand haldist í 20 ár eða lengur, og skal þá um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo.
9. gr. Fara skal um jarðvatn, regnvatn og leysinga, er á landareign safnast, lindir, dý, tjarnir og slík minni háttar vötn, sem eigi hafa stöðugt afrennsli ofanjarðar, svo sem hér segir, enda sé eigi önnur lögmæt skipun á gerð.
1. Landeiganda er rétt að hagnýta sér slíkt vatn eða ráðstafa því með öðrum hætti, enda fari það eigi í bága við ákvæði 15. gr., stífla frárennsli úr því, hlaða upp bakka þess eða gera garð um það, ræsa það fram ofanjarðar eða neðan og bera ofan í það, án þess að hætta stafi af eða veruleg óþægindi fyrir umferð, eða spjöll á eign annars manns, sem eigi er skylt að hlíta samkvæmt sérstakri heimild.
2. Landareign, sem lægra liggur, fylgir skylda til að hlíta því, að vatnið renni um hana í þeim farvegi og með þeim hætti, er náttúran hefir markað því.
3. Nú verður breyting á farvegi eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að, sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag, en gera skal það innan árs frá lokum þess árs, er breytingin varð, enda sé tjón það, er af verkinu hlýst, bætt eftir mati, nema samkomulag verði.
4. Ef vatn liggur á tveim landareignum eða fleiri, þá má enginn landeigandi fara svo með það, að hinum verði mein að.
10. gr. Um hveri, laugar og ölkeldur skal fara eftir 9. gr., með þeim takmörkunum, sem hér segir:
    a. Óheimilt er landeiganda að spilla hverum, laugum og ölkeldum á landi sínu, hvort sem það er með ofaníburði, framræslu eða með öðrum hætti, nema það sé nauðsynlegt talið samkvæmt matsgerð til varnar því landi eða landsnytjum.
    b. Skylt er landeiganda að láta af hendi nauðsynlegt vatn, land og efni úr landi til sundlaugar og sundskála til afnota í almenningsþarfir. Bætur fyrir laugavatn, land og landafnot, átroðning og annað tjón eða óþægindi skal greiða eftir mati, nema samkomulag verði.
11. gr. Öllum er heimilt að taka vatn til heimilisþarfa og bús, þar sem landeiganda er meinlaust, svo og að nota vatn til sunds og umferðar, einnig á ísi, enda fari það eigi í bága við lög, samþykktir eða annað lögmætt skipulag.
12. gr. 1. Gera má maður brunna og vatnsból á landareign sinni, en gæta skal hann þess, að eigi sé minnkuð eða heft aðsókn vatns að brunnum annarra manna eða vatnsbólum, nema eigi sé annars kostur eða vatnsból yrði ella mun dýrara eða vatnsaðdrættir erfiðari.
2. Eigi má heldur gera önnur mannvirki, ef ætla má, að þau hafi slíkar verkanir sem mælt var.
3. Ágreiningur um það, hvort fyrirtæki fari í bága við fyrirmæli 1. og 2. liðs þessarar greinar, skal til lykta leiddur með matsgerð.
13. gr. Skylt er mönnum að ganga svo frá brunnum og öðrum vatnsgeymum, að mönnum, skepnum og landi annarra manna stafi eigi hætta af.
14. gr. 1. Landeiganda einum er heimil ístaka af vatni á landi sínu.
2. Eigi má torvelda eða hefta umferð um ísinn að nauðsynjalausu með ístökunni. Svo skal og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að afstýra hættu, svo sem með því að setja girðingar eða merki. Nánari fyrirmæli um þessi efni getur ráðherra sett eða falið héraðsstjórnum að setja.
15. gr. Rétt landareignar til vatns, sem á henni er til:
    a. heimilisþarfa, svo sem til drykkjar, suðu, þvotta, böðunar, til að vökva garða og til varnar við eldsvoða,
    b. búsþarfa, svo sem til að vatna skepnum, ullar- og fiskþvottar, og
    c. jarðræktar, svo sem til vökvunar túna og áveitu, má eigi skilja við eignina, nema sérstök lagaheimild komi til.
16. gr. 1. Nú eru vatnsréttindi af hendi látin án þess að eignarréttur að landi sé jafnframt látinn, og fer þá eftir reglum um landkaup.
2. Nú lætur maður af hendi hluta landareignar, er liggur að vatni eða á, og er þá vatnsbotn og vatnsréttindi falin í kaupinu, nema öðruvísi semji, þó svo, að sá hluti landareignarinnar, sem eftir verður, haldi óskertum vatnsréttindum samkvæmt 15. gr. og hafi næg og kauplaus landsafnot til hagnýtingar þeim.
3. Ef sameignarlandi er skipt eignarskiptum eða afnota, þá skulu hverri eign fylgja svo auðnotuð vatnsréttindi sem unnt er og nægt land eða næg og kauplaus landsafnot til hagnýtingar vatnsréttindum hennar samkvæmt 15. gr.

III. kafli. Um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án orkunýtingar.
17. gr. Eiganda landareignar, er vatnsréttindi fylgja, er rétt að veita til sín vatni, sem um hana rennur eða á henni er, um föst veitutæki til heimilis- og búsþarfa á eigninni eða til iðnaðar og iðju, sem á henni er rekin, enda sé ekki meira vatni veitt en þörf er á, eða vatni því, sem afgangs verður, veitt í vatnslegið svo nærri upptökum veitunnar, að öðrum, sem tilkall eiga til vatnsins, verði sem minnst tjón eða bagi að.
18. gr. 1. Nú er vatn of lítið til að fullnægja þörfum þeim, er í 17. gr. segir, og á þá hver sú landareign, er tilkall hefir til þess vatns, sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum. Heimilisþörf gengur fyrir búsþörf og búsþörf fyrir iðnaðar- eða iðjuþörf.
2. Ef menn skilur á um það, hversu hver þurfi mikils vatns, skal skera úr því með mati.
3. Ráðherra getur, að undangengnu mati samkvæmt 2. lið, skipað svo fyrir, ef nauðsyn þykir á vera vegna fyrirmæla 1. liðs, að vatnsveituvirkjum verði breytt, að þau skuli lögð niður eða afnot þeirra takmörkuð.
19. gr. 1. Ef vatn, sem veitt er um sömu veitutæki, er notað til að fullnægja fleiri en einni af þörfum þeim, sem í 1. lið 18. gr. segir, þá skal fara um það vatn sem það væri allt haft til að fullnægja rétthæstu þörfinni.
2. Ef skortur er á vatni til að fullnægja þörfum þeirra landareigna, er tilkall fylgir til sama vatns, má þó fara eftir ákvæðum 2. og 3. liðs 18. gr.
20.–21. gr.1)
    1)L. 81/1991, 14. gr.
22. gr.1)
    1)L. 93/1947, 10. gr., sbr. 8. gr.
23. gr.1)
    1)L. 81/1991, 14. gr.
24. gr. 1. Í reglugerð má kveða á um notkun vatnsins og meðferð, svo og um meðferð á vatnsæðum, tilhögun húsæða, löggilding vatnsvirkjara, sektir fyrir brot á reglugerð og meðferð mála út af þeim, svo og önnur atriði, er vatnsveituna varða.
2. Reglugerðir allar, þær er bæjarstjórn gerir um vatnsveitu og vatnsskatt, skal senda ráðherra til staðfestingar. Þegar reglugerð hefir fengið staðfesting ráðherra, þá er hún lögmæt vatnsveitureglugerð.
25. gr. 1. Bæjarstjórn er rétt að taka vatn það, er hún þarf til veitunnar, úr brunnum, uppsprettum eða vötnum í landareignum annarra manna, enda séu þær ekki sviptar vatni því, er þeim er metið nauðsynlegt til þarfa þeirra, er í þessum kafla getur, nema þeim sé séð fyrir því með öðrum hætti, þeim eigi óhagfelldari.
2. Rétt er eiganda eða notanda þeirrar landareignar, sem vatn er tekið úr samkvæmt 1. lið, að leggja til sín og á sinn kostnað vatnsæðar úr vatnsveitu kaupstaðarins, enda greiði hann kaupstaðnum aukakostnað af því, nema öðruvísi semji. Svo er honum og skylt að hlíta þeim reglum, sem settar eru eða verða settar í löglega gerðum fyrirmælum um vatnsveituna.
3. Haga skal vatnsveitu svo, að spjöll verði sem minnst á atvinnu manna eða veiðitækjum, ef veiði er í vatninu. Ef spjöll verða, þá skal þau að fullu bæta.
4. Ef ágreiningur verður um einhver þeirra atriða, er í grein þessari getur, skal skorið úr með mati.
26. gr. Skylt er manni að láta af hendi land sitt og landsafnot hvar sem er og hvenær sem er í þarfir vatnsveitu kaupstaðar, þar með talið grjóttak, malartekja og rista, svo og mannvirki, og að þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti, sem vatnsveitan kann að hafa í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir eftir mati, nema samkomulag verði.
27. gr. Ef nauðsynlegt þykir til þess að fyrirbyggja óhreinkun vatns, sem tekið er til vatnsveitu handa kaupstað, þá er mönnum jafnskylt að láta af hendi land og láta í té landsafnot og mannvirki, svo og að þola eignarkvaðir, óhagræði og takmarkanir, sem í 26. gr. segir, gegn fullum bótum eftir mati, nema um semji.
28. gr.1)
    1)L. 81/1991, 14. gr.
29. gr. 1. Nú vill löggilt kauptún, sem ekki er hreppur út af fyrir sig, eða hverfi, koma sér upp vatnsveitu til að fullnægja þörfum sínum á vatni samkvæmt 17. gr., og geta þá eigendur fasteigna þeirra, er nota ætla vatnsveituna, gert með sér félag, er nefnist vatnsveitufélag, en lög félagsins kallast vatnsveitusamþykkt. Um félagið fer eftir ákvæðum XI. kafla, að því leyti sem fyrirmæli þessa kafla taka ekki til þess.
2. Stjórn vatnsveitufélags semur samþykktir þess, þar á meðal gjaldskrá.
3. Að öðru leyti skal fara eftir ákvæðum 20.–27. gr.
30. gr. 1. Nú eiga 2 eða fleiri fasteign, og vilja sumir stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, og getur þá sá eða þeir, sem meiri hluta fasteignar eiga, ákveðið að gera veituna, enda er hinum þá skylt að taka tiltölulega þátt í kostnaði öllum af henni, ef metið verður, að fasteigninni muni verða meira hagræði af veitunni en sem kostnaðinum nemur.
2. Ef ekki verður samkomulag um framkvæmd og umsjón verksins, eða um niðurjöfnun kostnaðar, þá skal skera úr með mati. Skal matsnefnd kveða á um það, hver eða hverjir skuli hafa umsjón eða framkvæmd á hendi, telja kostnað til ákveðins árgjalds og tiltaka gjalddaga. Rétt er að stofnkostnaður ásamt vöxtum sé greiddur í jöfnum afborgunum á 15 árum, ef aðili óskar þess. Hver aðilja, sem vill, getur beiðst staðfestingar ráðherra á matsgerð, og má taka tillög lögtaki, ef matsgerðin verður staðfest.
31. gr. 1. Ef maður getur ekki aflað sér vatns í landareign sinni til heimilis- og búsþarfa, eða þar er að mun kostnaðarsamara eða bagameira að afla þess en af landareign annars manns, þá er honum rétt að afla þess þaðan, enda sé þar vatn afgangs frá heimilis- og búsþörfum. Er honum rétt að fara yfir land annars manns í því skyni, en gera skal hann svo lítinn usla sem unnt er og bæta tjón á landi eða vatnsbóli og kosta gerð þess og viðhald að sínum hluta, eftir mati, nema samkomulag verði.
2. Gera má maður brunn eða annað vatnsból í landi annars manns, ef svo er ástatt sem í 1. lið segir. Um bætur fer þá og sem þar segir, eftir því sem við á.
32. gr. 1. Nú þarf maður að taka vatn af landi annars manns í vatnsveitu til þarfa eignar sinnar, samkvæmt 17. gr., og er honum það rétt, enda sé vatn nægt, er eigi sé notað til samkynja þarfa þeirrar eignar.
2. Ef lögnáms þarf samkvæmt 25., 26. eða 27. gr., getur ráðherra veitt leyfi til þess. Fer þá um mat og endurgjald sem í þeim greinum segir.
3. Beita má ákvæðum 2. liðs 25. gr., ef vatn er tekið samkvæmt 1. lið þessarar greinar.
33. gr. Nú þarf maður vatnsveitu til námuvinnslu, verksmiðjuiðnaðar eða annarrar iðju, og er honum þá rétt að taka til þess vatn eftir þörfum, enda sé enginn með því sviptur vatni til þarfa þeirra, er í 17. gr. segir. Svo er honum og heimilt, ef ráðherra leyfir, að heimta af hendi látið nauðsynlegt land og landsafnot til veitunnar, gegn endurgjaldi eftir mati, nema aðiljar verði ásáttir.
   Ákvæðum 2. liðs 25. gr. og 27. gr. má beita svo sem við á.
34. gr. Hverjum þeim, sem ekki hefir tekið í öndverðu þátt í vatnsveitufyrirtæki, er rétt að gera það síðar, enda verði það metið, að vatn sé til þess nægilegt og að það valdi eiganda veitunnar eigi verulegu óhagræði að öðru leyti. En hlíta skal hann þeim ákvæðum, sem sett eru eða sett verða um notkun vatnsins og meðferð veitunnar. Svo skal hann og greiða endurgjald fyrir vatnsnotin eftir mati, nema samkomulag verði.
35. gr. Vatnsveitur, sem gerðar hafa verið með heimild í eldri lögum, skulu sæta þeim reglum, er þar segir. Þó skulu fyrirmæli 34. gr. einnig taka til slíkra vatnsveitna.

IV. kafli. Um áveitur.
36. gr. Landeiganda er heimilt að hagnýta sér vatn, sem er á landareign hans eða um hana rennur, til áveitu í ræktunarskyni á hana sjálfa eftir þörfum, enda sé enginn sviptur með því neysluvatni (15. gr. a–b) né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um útvegun neysluvatns né því spillt fyrir neinum, svo að veruleg óþægindi séu að.
37. gr. Þar sem merkivötn skilja landareignir, er hvorri rétt að nota vatnið eftir þörfum sínum. Þarfir samkvæmt 17. gr. ganga fyrir áveituþörf. Ef vatn er svo lítið, að ekki nægi báðum eða öllum, skal ákveða skipti og notkun þess með mati.
38. gr. Réttur til hagnýtingar á vatni til áveitu verður ekki frá landareign skilinn, sbr. þó 37. gr., nema vatnið sé tekið til neyslu (15. gr. a–b) eða til áveitu á aðrar landareignir samkvæmt 39. gr. Ef ágreiningur verður um það, hve mikið vatn þurfi til að fullnægja áveituþörf landareignar, skal skera úr því með mati.
39. gr. 1. Nú er ekki nógu mikið, nógu gott eða nógu auðtekið vatn fyrir hendi innan landareignar til áveitu á hana sjálfa, og er þá eiganda hennar eða notanda rétt að krefjast áveituvatns eftir þörfum úr öðrum landareignum, með þessum takmörkunum:
    a. að enginn sé fyrir það sviptur vatni til þarfa samkvæmt 17. gr. né neinum bakaðir óhæfilegir erfiðleikar um útvegun slíks vatns, né því spillt fyrir neinum, svo að veruleg óþægindi séu að,
    b. að ekki þurfi að nota sama vatn til áveitu á þá landareign sjálfa, sem vatnið er tekið í, nema arður af notkun þess til áveitu þar yrði mun minni en arður af notkun þess til þeirrar áveitu utan landareignarinnar, sem vatnsins er krafist til.
2. Nú rís ágreiningur um, hvort taka vatns til áveitu utan landareignar þeirrar, sem vatnið er tekið í, fari í bága við framangreindar takmarkanir, og getur þá hvor aðili látið meta, hvort taka vatnsins sé heimil samkvæmt ákvæðum greinar þessarar. Ef taka vatnsins er metin heimil, en talið er að af henni stafi auknir erfiðleikar um útvegun vatns til þarfa samkvæmt 17. gr. eða spjöll á því vatni eða skaði að vatnstökunni að öðru leyti, þá skulu ákveðnar fullar bætur fyrir allt þetta.
40. gr. Sá, sem þarf að hafa afnot af landi annars manns til þess að koma upp, halda við eða starfrækja áveitu, getur látið matsgerð fara fram, ef samkomulag næst eigi. Ef tjón það, sem verkið í heild sinni bakar öðrum en áveitueiganda, er metið mun minna en hagnaður sá, sem áveitueigandi hefir af því, og ekki er talið hallkvæmara að framkvæma verkið með öðrum hætti en til er stofnað, skulu landsafnotin heimiluð, en meta skal fullar bætur fyrir.
41. gr. 1. Áveitum skal haga svo, að ekki sé neinum til baga veitt meira vatni úr fornum farvegi en nota þarf. Svo skal veita á land og af landi, að öðrum sé sem minnst mein að, og fella vatn aftur í fornan farveg, ef unnt er, og svo nærri upptöku sem gerlegt þykir.
2. Nú telur einhver sér mein að áveitu annars manns og samkomulag næst ekki, og getur þá sá, er telur sig fyrir skaða verða, krafist matsgerðar. Nú telur matsnefnd að vísu skaða að áveitunni, en þó mun minni þeim hag, sem hinn hefir af henni, og skal áveitan þá engu að síður heimil, en fullar bætur skal meta.
42. gr. Nú þykir hentugt að stofna og starfrækja áveitu í ræktunarskyni á fleiri landareignir í einu lagi, og geta þá eigendur landareigna þeirra, sem áveitunni er ætlað að ná yfir, gert með sér áveitufélag. Um félagsstofnunina fer eftir ákvæðum XI. kafla. Lög félagsins nefnast áveitusamþykkt, en áveitan nefnist samáveita.
43. gr. Þegar löggilt áveitusamþykkt hefir verið sett, eru allir landeigendur og leiguliðar á því svæði, sem áveituverkinu er ætlað að ná til, skyldir að leyfa landsafnot til mannvirkja, er áveituna varða, svo sem land undir skurði og efni úr landinu, hvort sem er grjót eða önnur jarðefni, í fyrirhleðslur, garða, stíflugerðir eða umbúnað skurða o.s.frv., og yfir höfuð að þola allar þær kvaðir, óhagræði eða takmarkanir á afnotarétti, sem áveituverkið hefir í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir. Ef eigi næst samkomulag um bætur, skal ákveða þær með mati.
44. gr. Kostnaði öllum af samáveitu skal stjórn hennar jafna niður á landareignir þær, sem áveitan nær yfir, aðallega eftir stærð þess lands, er vatn næst yfir. Þó skal taka tillit til þess, hvernig land liggur við áveitunni og hver not geta orðið af henni fyrir það, í samanburði við aðrar landareignir. Matsnefnd skal skera úr, ef ágreiningur verður um niðurjöfnun.
45. gr. Ef einhver vill gerast hluttakandi í samáveitu eftir að henni hefir verið komið á, með þeim hætti, að hann fái vatn til áveitu á land sitt, þá á hann rétt til þess, ef það er að dómi matsmanna samáveitunni bagalaust. En skylt er honum þá að taka þátt í kostnaði öllum af áveitunni, bæði stofnkostnaði og árskostnaði, að réttri tiltölu við aðra aðilja.
46. gr. 1. Nú er samþykkt gerð um samáveitu, og skal þá hver landeigandi greiða stofnkostnað og árlegan kostnað af samáveitunni eða þeim hluta, sem eftir niðurjöfnun samkvæmt 44. gr. kemur á landareign hans.
2. [Nú telur stjórn áveitufélags eða landþurrkunar- og áveitufélags nauðsynlegt að taka lán til stofnkostnaðar samáveitu og er þá hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að ábyrgjast lán þetta.] 1)
3. Leiguliði á jörð, sem samáveitan nær til, er skyldur, að viðlögðum ábúðarmissi, að standa landsdrottni árlega skil á upphæð, er samsvari umsjónar- og viðhaldskostnaði, að viðbættum ársvöxtum af stofnkostnaði áveitunnar, að þeim hluta, er kemur á býli hans samkvæmt niðurjöfnun.
    1)L. 108/1988, 17. gr.
47. gr. Nú hefir staðfest samþykkt verið gerð um samáveitu, en eigandi einhverrar þeirrar landareignar, sem áveitan á að ná til samkvæmt samþykktinni, neitar að taka þátt í kostnaði við áveituna, og getur þá stjórn samáveitunnar krafist þess, að landareignin sé tekin lögnámi handa áveitufélaginu.
48. gr. 1. Nú eiga menn landareign í félagi, og vilja sumir veita á hana vatni, en sumir eigi, og getur þá sá eða þeir, sem meiri hluta landareignar eiga, ákveðið að framkvæma fyrirtækið, enda er hinum þá skylt að taka tiltölulegan þátt í öllum kostnaði af því, ef metinn verður mun meiri hagnaður en kostnaður.
2. Ef ekki verður samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins eða um skiptingu kostnaðar, þá skal skorið úr með mati. Skal matsnefnd kveða á um það, hver eða hverjir skuli hafa á hendi framkvæmd og umsjón verksins, telja kostnað til ákveðins árgjalds og tiltaka gjalddaga. Stofnkostnaði ásamt vöxtum skal skipt í jafnar árgreiðslur, ef aðili óskar þess, þannig að honum sé lokið á 15 árum. Beiðast má maður staðfestingar ráðherra á matsgerð, og má taka tillög lögtaki, ef matsgerð verður staðfest.

V. kafli. Um notkun vatnsorku.
49. gr. 1. Eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni, sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla, né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni, er nota þarf með þeim hætti, spillt fyrir neinum, svo að til verulegra óþæginda horfi.
2. [Um leyfi til að virkja fallvatn fer samkvæmt raforkulögum.] 1)
    1)L. 64/2003, 1. gr.
50. gr. 1. Rétt er eiganda landareignar að gera stíflu í vatnsfarvegi og veita vatni úr eðlilegum farvegi, hvort sem er um opinn skurð, pípu eða jarðgöng, ef nauðsynlegt er vegna vatnsorkunota samkvæmt 49. gr., enda séu ekki gerðar skemmdir á landi annarra manna um nauðsyn fram. Eigi má veita meira vatni úr eðlilegum farvegi í þessu skyni en þörf er á, en öllu skal því veitt í fornan farveg áður en landareigninni sleppir, nema samlög séu milli fleiri landareigna um orkuvinnslu.
2. … 1)
3. Ef nauðsyn þykir á vera, getur ráðherra veitt lögnám með þeim hætti, sem í 55. gr. segir.
    1)L. 64/2003, 2. gr.
51. gr. 1. Þar sem merkivötn skilja landareignir, hafa eigendur beggja jafnan rétt til að nota vatn úr þeim samkvæmt 49. og 50. gr.
2. Nú nægir merkivatn ekki báðum landareignum, og hefir þá eigandi hvorrar fyrir sig rétt til svo mikils af vatnsorkunni, sem svarar hálfu rennsli merkivatnsins og fallhæð þeirri, sem er fyrir landi hans, enda hafi ekki önnur lögmæt skipun verið á gerð.
52. gr. 1. Nú vill eigandi annars vatnsbakka gera stíflu í vatni til orkunýtingar og þarf að nota til þess land hinum megin, og skal hann þá bjóða eiganda þess lands að gera stíflu með sér og nota vatnið að réttri tiltölu. Nú verða þeir á þessa skipun sáttir, en skilur á um framkvæmd verksins, skiptingu kostnaðar eða vatnsnot, og skal þá skera úr með mati.
2. Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í stíflugerð, og getur hinn þá fengið leyfi ráðherra, samkvæmt 50. gr., 3. lið, til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið. Skal þá venjulega áskilja það í leyfi, að stíflu verði svo hagað, að sá, sem ekki tók þátt í verkinu, megi síðar hagnýta sér þann hluta vatns, sem hann á tilkall til, án þess að breyta þurfi stíflu að mun, en kostnað, sem leiðir sérstaklega af slíkri tilhögun, skal sá greiða. Meðan hann notar ekki vatnsorku þá, sem hann á tilkall til, má sá, er stíflu gerði, hagnýta sér hana kauplaust. Nú hagnýtir sá, er ekki tók þátt í stíflugerð, sér síðar vatnið, eða lætur annan gera það, að einhverju leyti eða öllu, og skal hann þá taka þátt í stofnkostnaði og viðhaldskostnaði eftir mati, nema um semji.
53. gr. 1. Nú eiga menn í félagi tilkall til orku úr sama fallvatni, enda taki 52. gr. eigi til þess, og verða þeir ekki ásáttir, hvernig það skuli notað til orkuvinnslu, og getur þá ráðherra heimilað, að þeir, sem tilkall eiga til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsmagni og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans. Þetta er þó því skilyrði bundið, að hagnýting fallvatnsins í heild sinni sé að mun hallkvæmari en hagnýting hluta innleysenda út af fyrir sig, og að ekki sé skertur réttur þriðja manns, er hann kann að hafa fengið yfir vatnsréttindunum áður en lausnar var krafist.
2. Sá hluti vatnsorkuréttar, er maður leysir til sín samkvæmt 1. lið, skal metinn sem hluti alls réttarins. Þó skal taka til greina, hvort sá hluti virkjunarkostnaðar, sem sérstaklega varðar innleysta vatnsorkuréttinn, er tiltölulega mikill eða lítill.
3. Ágreiningi um atriði þau, er í grein þessari getur, skal ráða til lykta með mati.
54.–67. gr.1)
    1)L. 64/2003, 2. gr.

VI. kafli. Um vatnsmiðlun.
68. gr. 1. Ráðherra er heimilt að gera mannvirki og aðrar ráðstafanir til miðlunar á vatnsmagni í vatnsfalli til orkunýtingar eða í öðrum tilgangi.
2. Þegar ákveðið hefir verið að framkvæma miðlun samkvæmt 1. lið, hefir ráðherra heimild til lögnáms samkvæmt 55. gr.
3. Nú hefir ráðherra komið á stofn miðlun samkvæmt framanskráðu, og getur hann þá ákveðið, að eigendur orkuvera og annarra atvinnufyrirtækja, sem hafa not af miðluninni, skuli greiða árgjald í ríkissjóð, er ákveðið sé þannig, að allir þeir, sem hafa not af miðluninni, greiði að tiltölu réttri við hagnað sinn, og þó ekki meira en hagnaðinum nemur, og ekki heldur meira allir til samans en það, sem þarf til að ávaxta stofnkostnað fyrirtækisins með 6% árlega, kosta viðhald þess og starfrækslu og fyrna stofnkostnaðinn á 40–60 árum. Ef ágreiningur verður um niðurjöfnun stofnkostnaðar, skal skera úr með mati.
4. Ráðherra getur sett þær ákvarðanir um afnot vatnsfalla þeirra, er miðlunin tekur til, sem honum þykja nauðsynlegar til að afstýra eða ráða bót á tjóni eða óhagræði fyrir almenning eða einstaka menn.
69. gr. 1. Ráðherra getur veitt öðrum heimild til að framkvæma vatnsmiðlun með þeim skilmálum, er þurfa þykir, til þess að gætt sé hagsmuna ríkisins, almennings eða einstakra manna.
2. Umráðamenn vatnsréttinda skulu að öðru jöfnu ganga fyrir öðrum um leyfi til vatnsmiðlunar, ef þeir vilja virkja vatn, sem þeir hafa umráð yfir eða gera með sér félag í því skyni.
70. gr. 1. Nú vill hérað, orkuveitufélag eða einstakir menn eða félög framkvæma vatnsmiðlun til afnota handa orkuveri, sem þeim er heimilað eða leyft að koma upp samkvæmt V. kafla, og skal þá líta svo á, sem miðlunarfyrirtækið sé einn liður í orkuverinu, þannig að öll ákvæðin í V. kafla 58.–65. gr. ná til miðlunarfyrirtækisins að því leyti sem þau geta átt við. Þó skal ávallt þurfa sérstakt leyfi til miðlunar:
    a. Þegar fyrirtækið getur haft í för með sér skaðleg áhrif á umferð um vatnsfall eða veiði eða notkun vatnsins til áveitu eða annars, svo að verulega muni um.
    b. Þegar það veldur því, að land eða landsnytjar komast svo undir vatn eða spillast svo, að telja megi verulegt tjón að.
    c. Þegar það getur að öðru leyti valdið öðrum tjóni eða skaðlegri breytingu á landsháttum, svo að verulegt megi teljast.
    d. Þegar forræðis eða afnota þarf af landi annarra eða réttindum, enda verði ekki allir rétthafar sáttir á framkvæmd verksins.
2. Framangreind ákvæði taka og til breytinga á eldri miðlunarvirkjum.
3. Það, sem mælt er í lögum þessum um vatnsmiðlun, tekur og til mannvirkja og fyrirtækja til aukningar á vatnsmagni með veitu úr öðru vatni.
4. Bætur fyrir tjón af miðlunarvirkjum skal greiða eftir mati, ef ekki verður samkomulag. Enn fremur má binda miðlunarleyfi þeim skilyrðum, að leyfishafi greiði fyrir fram bætur að öllu leyti eða einhverju eða setji tryggingu fyrir þeim.
71. gr. Nú þykir efasamt, hvort svo er ástatt, sem í 70. gr., 1. lið a–d, segir, og getur þá sá, er miðlun vill framkvæma, svo og hver sá, er telur hana varða hag sinn, krafist matsgerðar um það mál. Skulu matsmenn bjóða ráðherra með 4 vikna fyrirvara að vera við matið, og auglýsa stað og stund, með þeim hætti, er þeir telja fullnægjandi, þeim, er ætla má, að eigi hagsmuna að gæta, ef miðlunin kemur til framkvæmda.
72. gr. Leyfi til vatnsmiðlunar, sem veldur almenningi eða einstökum mönnum baga eða tjóni, má venjulega ekki veita, nema telja megi tjónið eða bagann lítils virði, borið saman við þann hagnað, sem fyrirtækið hefir í för með sér, enda sé einnig tekinn til greina í þessu efni áætlaður kostnaður af framkvæmd þess.
73. gr. Af hendi landsstjórnarinnar skal hafa sérstakt eftirlit með öryggi mannvirkja þeirra, sem gerð eru til söfnunar vatni í miðlunarskyni, og er eigendum mannvirkjanna jafnan skylt að framkvæma tafarlaust þær ráðstafanir, sem fyrirskipaðar verða til öryggis, svo og að haga framkvæmdum öllum eftir þeim fyrirskipunum, sem gerðar verða vegna hagsmuna ríkis, almennings eða einstakra manna.
74. gr. 1. Mannvirki þau, sem leyft er að koma upp samkvæmt 69. eða 70. gr., má eigi niður leggja, nema ráðherra leyfi.
2. Þegar mannvirki er lagt niður, þá er eiganda skylt að gera þær ráðstafanir, sem ráðherra heimtar, til að afstýra hættu eða tjóni þar í grennd eða á eignum, sem neðar liggja við vatnsfallið.
3. Greiða skal bætur fyrir tjón eða óhagræði, sem niðurlagningin veldur, eftir mati, ef ekki semur. Bótaskyldan hvílir á eiganda miðlunarvirkja.

VII. kafli. Um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna.
75. gr. 1. Rétt er ríkinu, héruðum, vatnafélögum og einstökum mönnum að hleypa niður vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg, flóðgarða og fyrirhleðslur eða önnur mannvirki í vatni eða við það í því skyni að verja land eða landsnytjar við spjöllum af landbroti eða árennsli vatns.
2. Nú þarf sá, er vill framkvæma mannvirki slík sem í 1. lið segir, til þess afnot af landi annarra manna, og getur þá ráðherra veitt heimild til lögnáms samkvæmt 55. gr.
3. Nú þykir tjón eða hætta búin eign annars manns eða réttindum af mannvirkjum slíkum sem í 1. lið segir, eða að af þeim mundu stafa óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta hagsmunum almennings, og má þá því aðeins framkvæma verkið, að leyfi ráðherra komi til. Leyfi má binda þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja vegna hagsmuna ríkisins, almennings eða einstakra manna.
4. Bæta skal tjón og spjöll á eignum annarra, sem leiðir af framkvæmdum samkvæmt þessari grein. Bætur skal ákveða með mati, ef eigi semur.
76. gr. 1. Nú framkvæmir ríkið fyrirtæki þau, er í 75. gr. segir, og getur ráðherra þá ákveðið, að þeir, sem hafa hag á landi sínu eða landsnytjum af þeim, skuli taka þátt í kostnaði öllum eða í þeim hluta kostnaðar, sem ráðherra ákveður, svo og í viðhaldi eftirleiðis að tiltölu við það, hvers virði hagurinn verður hverjum þeirra talinn eftir mati.
2. Sams konar ákvörðun má og taka, ef slík fyrirtæki þykja nauðsynleg, þegar einhver þeirra, sem hlut á að máli, hrindir þeim í framkvæmd, og allir þeir landeigendur eða réttinda, sem hag hafa af fyrirtækinu á landi sínu eða landsnytjum, geta ekki komið sér saman um að vinna verkið í félagi.
3. Tillagsskyldu slíka sem áður greinir má og með sama hætti leggja á til að standa straum af tiltölulegum hluta kostnaðar af mannvirkjum eða öðrum framkvæmdum, er í senn miða til varnar við spjöllum af vatnavöxtum eða flóði, til þurrkunar lands, fyrirgreiðslu umferðar eða notkunar vatnsorku.
77. gr. Tillög samkvæmt 76. gr. má taka lögtaki. Nú hefir aðili, sem hag hefir af framkvæmdinni, eigi berum orðum samþykkt fyrirtækið, og skal honum þá heimilt að greiða þann hluta, er á eign hans kemur, með árlegum greiðslum, er samsvari 15. hluta upphæðarinnar, að viðbættum vöxtum af því, er eftir stendur hverju sinni. Ef lán hefir verið tekið til fyrirtækisins, þá skulu vextir vera hinir sömu, sem greiddir eru af lánsfénu, en ella 5% árlega.

VIII. kafli. Um þurrkun lands.
78. gr. 1. Veita má maður bagalegu vatni af landi sínu í rásir og farvegi, þó að mein verði að á landi því, er við tekur, enda megi hann ekki við það losna með öðrum hentugum hætti. Með sama skilorði má maður og veita vatni í skurði í landi annarra eða grafa þar skurði í því skyni, en jafnan skal þá skurðum svo langt fram haldið, að eigi verði verulegt tjón á landi annarra manna. Bæta skal tjón, er hlýst af veitunni, en taka skal þó til greina gagn þeirra af skurðum, er bóta krefja.
2. Ekki má veita vatni úr skurðum eða vatnsrásum, sem alstaðar eða sumstaðar eru opnir, í lokræsi á landareign annarra manna, nema matsnefnd telji bagalaust.
79. gr. 1. Ef skurðir um landareign annars manns eru honum einnig til gagns, þá er honum skylt að taka þátt í kostnaði að skurðgreftri og viðhaldi skurðanna, sbr. 80. gr.
2. Nú vill maður veita bagalegu vatni frá sér yfir landareign annars manns samkvæmt 78. gr., og má þá setja honum það skilyrði, að hann greiði hinum fyrrnefnda upp í skurðkostnaðinn sem svarar því gagni, er hann hefir af skurðinum, og jafnan skal hann kosta viðhald skurðsins að sínum hluta.
80. gr. Ef einhver vill veita bagalegu vatni frá sér samkvæmt 78. gr. yfir landareign annars manns, og þeim semur ekki, þá skal matsnefnd skera úr því, hvort þá fráveitu verði að telja hagkvæma og hvort hagurinn megi teljast meiri en óhagræði hins. Ef hagurinn verður talinn mun meiri, þá skal ákveða stefnu skurðsins, lengd hans, dýpt og breidd, hvenær hann skuli gerður, hvort hann skuli vera opinn eða lokaður og hvað gera skuli við uppmoksturinn. Þá skal og meta bætur og skera úr því, hvort landeigandi skuli taka þátt í kostnaði og viðhaldi, og að hve miklu leyti.
81. gr. Ráðherra getur heimilað lögnám á mannvirkjum, landi og réttindum, ef skilyrði 72. gr. eru fyrir hendi, í því skyni að þurrka vatn, tjarnir eða mýrlendi eða til þess að víkka eða rétta farveg eða til að veita burt vatni með öðrum hætti, til að auka land eða bæta það.
82. gr. 1. Ákvæði 48. gr. taka og til landþurrkunar.
2. Rétt er mönnum að gera með sér félag til þess að þurrka land. Slík félög nefnast landþurrkunarfélög og lög þeirra landþurrkunarsamþykktir. Um félög þessi fer eftir 42.–44., 46. og 47. gr., svo sem við á, og XI. kafla laga þessara.

IX. kafli. Um óhreinkun vatna.
83. gr. 1. Bannað er að láta í vötn frá iðjuverum, eða sleppa um vötn í skurði eða aðrar veitur, nokkra þá hluti, fasta, fljótandi eða loftkennda, sem spilla mundu botni vatns eða bakka eða vatninu sjálfu, svo að hættulegt sé mönnum eða búpeningi eða spilli veiði í vatninu. Bannað er og að láta slík efni á ís eða svo nærri vatni, að hætt sé við að þau berist í það.
2. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu banni með þeim skilyrðum, er hér segir:
    a. Ef neysluvatni er spillt, skal leyfið bundið því skilyrði, að iðjuhöldur leggi til annað jafngott vatnsból eða greiði kostnað af því að koma upp öðru vatnsbóli jafngóðu.
    b. Ef veiði er spillt, skal skylda iðjuhöld til að láta viðeldi í vatnið, sem nægi til þess að veiði haldist eigi minni en var, ella bæta veiðispjöllin fullum bótum.
    c. Iðjuhöldur skal að öðru leyti bæta það tjón, sem hljótast kann af fráfærslu óhreinindanna frá iðjuveri hans.
3. Bætur skal greiða eftir mati, nema um semji.
4. Leyfi samkvæmt 2. lið má taka aftur bótalaust hvenær sem er eða breyta skilyrðum, ef nauðsyn þykir til vera vegna hagsmuna almennings eða einstakra manna.
5. Nýtt leyfi þarf til hverrar þeirrar breytingar, sem frekari spjöll geta af hlotist, þótt áður hafi verið veitt leyfi samkvæmt 2. lið.
84. gr. Bannað er annars að láta sleppa í vötn um skurði eða með öðrum hætti eða að henda í þau, á ís eða svo nærri þeim, að hætt er við að í þau berist, þeim efnum, sem í 83. gr. segir, ef hætt er við að þau spilli vatni, botni þess eða bakka, flóðhæð eða framrás.
85. gr. Ráðherra eða sá, er hann veitir heimild til þess, getur sett reglur til verndar gegn skaðlegri óhreinkun vatns, þó eigi verði af völdum iðjuvera, þegar vatn er óhreinkað í annarri sveit en þeirri, sem hætta stendur af því, enda geti sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, ekki orðið ásáttar, hvað gera skuli. Áður en slíku máli er til lykta ráðið, skal leita álits þeirra heilbrigðisnefnda eða hreppsnefnda, sem málið varðar.

X. kafli. Um holræsi.
86. gr. Heimilt er bæjarstjórn að leggja holræsi til þess að taka við skólpi og afrennsli í kaupstaðnum.
87. gr. 1. Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorttveggja.
2. Sérstaka ívilnun má veita, ef lóð er svo háttað, að erfiðara er að koma skólpi eða afrennsli frá henni í holræsi en frá öðrum lóðum yfirleitt, og sérstakt aukagjald má á leggja, ef skólp frá einhverri lóð er svo á sig komið, að telja má meiri útgjöld stafa eða munu stafa af því en öðru skólpi.
3. Eigandi lóðar ábyrgist holræsagjald, en heimilt er honum að hækka leigu eftir lóð eða mannvirki á henni sem gjaldi eða gjaldauka svarar, þótt leiga hafi áður verið ákveðin.
4. Holræsagjald skal ákveða í reglugerð. Gjald má taka lögtaki, þegar ráðherra hefir staðfest hana. Í reglugerð má ákveða, að gjaldið skuli tryggt með lögveðrétti í lóð og mannvirkjum lóðareiganda á henni næstu 2 ár eftir gjalddaga með forgöngurétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.
[5. Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.] 1)
    1)L. 137/1995, 1. gr.
88. gr. 1. Bæjarstjórn leggur holræsi svo, að lóðareigandi hver nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði, er lóð hans telst til, enda verður maður eigi krafinn um holræsagjald fyrr en svo er.
2. Skylt er lóðareigendum og húseigendum að gera samkvæmt reglugerð á sinn kostnað holræsi, er flytji frá húsum og lóðum skólp allt út í aðalræsi. Ef maður vanrækir að leggja ræsi á hæfilegum fresti, er bæjarstjórn tiltekur, skal hún láta vinna verkið á hans kostnað.
3. Nú stendur svo á, að sérstaklega kostnaðarsamt er að leggja holræsi frá aðalræsi yfir lóð manns, og getur hann þá krafið sig undanþeginn holræsagjaldi, ef hann getur komið skólpi frá sér með öðrum hætti, er heilbrigðisnefnd telur fulltryggan, enda verði ekki metið, að það baki nágrönnum óþægindi eða tjón. Að öðrum kosti skal leggja holræsi um lóð hans, enda skal bæjarsjóður þá taka þátt í kostnaði þar af eftir mati, nema samkomulag verði.
89. gr. Í reglugerð má kveða á um gerð og lagningu bæði aðalræsa og lóðarræsa, að regnvatni skuli í þau veita, um umsjón þeirra, um skyldu manna til að leggja holræsi innanhúss, um gerð þeirra og notkun, um sektir fyrir brot á reglugerð og meðferð mála út af þeim, svo og annað, er að meðferð holræsa lýtur.
90. gr. Reglugerðir allar um holræsi og holræsagjald, sem bæjarstjórn semur, skal senda ráðherra til staðfestingar. Þegar reglugerð hefir hlotið staðfestingu ráðherra, er hún lögmæt holræsareglugerð.
91. gr. 1. Heimilt er hreppsnefnd að leggja holræsi um hrepp eða hluta úr hreppi á kostnað hreppssjóðs. Áður en fyrirtækið er afráðið, skal hreppsnefnd láta verkfróðan mann rannsaka staðháttu, og ef tiltækilegt þykir að framkvæma verkið, gera nákvæma frumdrætti að því og áætlun um stofnkostnað. Kostnað af rannsókn þessari skal telja til stofnkostnaðar, ef fyrirtækið kemst í framkvæmd, en greiðist ella úr hreppssjóði.
2. [Þá er hreppsnefnd hefir samþykkt að leggja holræsi skv. 1. lið skal senda samþykktina ásamt þeim gögnum, sem í sama lið greinir, ráðherra til staðfestingar. Þegar fengin er staðfesting hans á samþykktina getur hreppsnefnd látið framkvæma verkið.] 1)
3. Hreppsnefnd semur samþykktir allar um holræsi, þar á meðal um holræsagjald.
4. Um holræsi þessi fer að öðru leyti eftir ákvæðum 87.–90. gr.
    1)L. 108/1988, 18. gr.
92. gr. 1. Nú vill löggilt kauptún, sem ekki er sérstakur hreppur eða hverfi, leggja holræsi um kauptúnið eða hverfið, og geta þá eigendur fasteigna þeirra, er nota ætla ræsin, gert með sér félag, er nefnist holræsafélag, en lög félagsins nefnast holræsasamþykkt. Um félagið fer eftir ákvæðum XI. kafla, að því leyti, sem ákvæði þessa kafla taka ekki til þess.
2. Stjórn félagsins semur samþykktir þess, þar á meðal ákvæði um holræsagjald.
3. Að öðru leyti skal fara eftir ákvæðum 87.–90. gr., að því leyti, sem við á.
93. gr. 1. Nú eiga menn landareign í félagi og vilja sumir leggja holræsi til að veita skólpi og afrennsli frá henni, og getur þá sá eða þeir, sem meiri hluta landareignar eiga, ákveðið að framkvæma fyrirtækið, enda er hinum þá skylt að taka tiltölulega þátt í kostnaði öllum af því, ef metið verður nauðsynlegt sakir heilbrigði eða þrifnaðar að leggja ræsin.
2. Ef ekki verður samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins eða um skiptingu kostnaðar, þá skal skera úr með mati. Skal matsnefnd kveða á um það, hver eða hverjir skuli hafa á hendi framkvæmd eða umsjón verksins, telja kostnað til ákveðins árgjalds og tiltaka gjalddaga. Stofnkostnaði, ásamt vöxtum, skal skipt í jafnar árgreiðslur, ef aðili óskar þess, þannig, að lokið sé á 15 árum. Beiðast má maður staðfestingar ráðherra á matsgerð, og má þá taka tillög lögtaki, ef matsgerð verður staðfest. Ákvæðum 2. liðs 87. gr. skal beita, eftir því sem við á, er skipta skal viðhaldskostnaði.
94. gr. 1. Rétt er þeim, er eigi hefir tekið í öndverðu þátt í lagningu holræsa, að veita í þau um holræsi skólpi og afrennsli frá sér, en greiða skal hann fyrir það tiltölulegan hluta stofnkostnaðar, að frádreginni fyrningu á ræsi, sem orðin er, þegar hann byrjar íveitu sína, svo og greiða tiltölulegan hluta rekstrarkostnaðar og viðhalds.
2. Nú þarf að breyta ræsi vegna íveitu í það, samkvæmt 1. lið, og skal þá sá, er íveitunnar æskir, greiða allan kostnað af breytingunni. Eigandi ræsis má velja um að vinna verkið sjálfur eða láta hinn um það.
3. Rétt er þeim, er þykir það máli skipta, að krefjast þess, að holræsi sé svo úr garði gert í öndverðu, að það megi taka við skólpi frá eign hans, enda greiði hann allan kostnaðarauka, er af því stafar.
4. Sá, er neytir réttar síns samkvæmt 2. og 3. lið þessarar greinar, skal setja nægilega tryggingu fyrir því, er honum ber að greiða, ef þess er krafist.
5. Ef einhver aðilja þeirra, er í 86., 91., 92. eða 93. gr. segir, hafa veitt læk eða annarri vatnsrás, er um byggð rennur og ber fram skólp, í holræsi eða undirgöng, er rétt að láta endurgjaldslaust í lækinn eftir sem áður skólp frá landareignum, er ofar liggja við hann, þótt þær hafi ekki tekið þátt í ræsisgerðinni. Ef breytingar verða á skólpi frá slíkum landareignum, er geri viðhald ræsivirkisins kostnaðarsamara eða rekstur dýrari, getur eigandi virkisins þó krafist endurgjalds.
6. Ef ágreiningur verður um einhver þeirra atriða, er í grein þessari segir, skal skera úr honum með mati.
95. gr. 1. Skyldu manns til að inna af hendi þær greiðslur, er í 93. og 94. gr. segir, hefur frá þeim degi, er ræsivirki var svo úr garði gert, að hann mátti nota það, ef hann vildi, nema matsnefnd þyki annað sannara.
2. Ákvæði matsnefndar um tillög til eftirlits og viðhalds ræsivirkja samkvæmt 93. og 94. gr. skulu gilda um næsta 5 ára skeið, nema öðruvísi semji. Að þeim tíma liðnum má hver aðilja, sem vill, krefjast breytinga, ef nokkuð það, sem áður var byggt á, hefir breyst að mun. Ef ekki takast samningar, skal matsnefnd skera úr, og er sá úrskurður hennar gildur um annað 5 ára skeið.
96. gr. 1. Ef halda þarf á landi annars manns vegna ræsivirkja, þá er honum skylt að láta af hendi til þess, enda séu skilyrði 72. gr. fyrir hendi, land, mannvirki og landsafnot og að þola nauðsynlegar eignarkvaðir, eftir því sem matsnefnd telur með þurfa, enda komi fullar bætur fyrir, eftir mati, ef ágreiningur verður.
2. Holræsi, sem lögð eru um land annars manns samkvæmt 1. lið, skulu vera vatnsheld, ef hann krefst þess, nema metið verði, að honum sé skaðlaust og bagalaust, þótt þau séu ekki svo úr garði gerð.
97. gr. 1. Nú hefir holræsi verið lagt um land annars manns samkvæmt 96. gr. og verður honum til mikilla óþæginda eða tjóns, og getur hann þá krafist þess, að það verði flutt á annan stað í landareign hans. Landeigandi kostar flutninginn, nema hann hafi eigi fengið bætur fyrir tjón það eða óþægindi, sem hér segir, þegar bætur voru goldnar samkvæmt 1. lið 96. gr. Skal ræsiseiganda þá rétt að velja um að greiða bætur fyrir slíkt tjón eða kosta sjálfur flutninginn. Ef ágreiningur verður um það atriði, er í þessum lið segir, sker matsnefnd úr.
2. Ef svo stendur á, sem í 1. lið segir, en ræsið verður ekki flutt á annan stað í landi manns, þá getur hann heimtað það flutt á land þriðja manns, ef metið verður, að þar muni verða mun minna tjón að því. Um kostnað af flutningnum fer eftir 1. lið.
98. gr. 1. Lög þessi taka ekki til holræsa, sem gerð hafa verið með heimild í gildandi rétti áður en lög þessi öðlast gildi. Þó skulu 89., 90. og 94. gr., 1. og 2. liður, sbr. 4. lið, og 97. gr. einnig taka til eldri holræsa.
2. Ákvæði laga þessara um holræsi eru því ekki til fyrirstöðu, að sett verði í byggingarsamþykktum og heilbrigðissamþykktum fyrirmæli um holræsi og fráræslu samkvæmt lögum um heimild til að gera slíkar samþykktir.

XI. kafli. Um vatnafélög.
99. gr. 1. Rétt er mönnum að gera með sér félag um:
    a. Vatnsveitu (III. kafli, 29. gr.).
    b. Áveitu (IV. kafli, 42. gr.).
    c. Orkuver eða orkuveitu (V. kafli, 64. gr.).
    d. Vatnsmiðlun (VI. kafli, 70. gr.).
    e. Varnir við ágangi vatns (VII. kafli, 75. gr.).
    f. Landþurrkun (VIII. kafli, 82. gr.).
    g. Holræsi (X. kafli, 92. gr.).
2. Fara skal um slík félög svo sem í þessum kafla segir, enda sé ekki öðruvísi um mælt í lögum þessum.
100. gr. Sá eða þeir, er stofna vilja félag í einhverjum þeim tilgangi, er í 99. gr., 1. lið, segir, skulu kveðja til fundar eigendur þeirra landareigna, sem ætla má, að fái tekið þátt í fyrirtækinu. Skal ræða þar málið og bóka fundargerð. Þeir, er mæla með stofnun félagsins, geta síðan leitað álits kunnáttumanna og aflað sér frumdrátta að fyrirhuguðum mannvirkjum og annarra gagna, á sinn kostnað, en telja má þann kostnað til stofnkostnaðar, ef félagið verður stofnað.
101. gr. 1. Nú hafa frumkvöðlar félagsstofnunar samkvæmt 99. gr., 1. lið, aflað sér þeirra gagna, sem í 100. gr. segir, og skulu þeir þá semja frumvarp til samþykktar handa félagi því, sem í ráði er að stofna, og skrá yfir þær landareignir, sem þeir ætlast til, að verði í félaginu. Skal frumvarpið, landeignaskráin, frumdrættir, uppdrættir, kostnaðaráætlanir og önnur gögn, er félagið varða, lagt fram á hentugum stað til sýnis þeim, er ætlast er til að taki þátt í félagsskapnum. Skal framlagning skjalanna auglýst með þeim hætti, sem þar er vani að birta auglýsingar, sem almenning varða, eða bréflega tilkynnt hverjum þeim, er málið varðar. Skulu skjölin liggja til sýnis að minnsta kosti 2 vikna tíma.
2. Nú er frestur samkvæmt 1. lið liðinn, og er þá frumkvöðlum félagsskaparins rétt að boða þá menn alla, er ætlast er til að verði í félaginu, á fund. Skal fundarboð birta með þeim hætti, sem í 1. lið segir. Á fundi þessum skal enn ræða málið og afráða um félagsstofnun, nema enn þyki þörf rækilegri undirbúnings. Ef 2/ 3 eigenda landareigna þeirra, sem ætlast er til að taki þátt í félagsskapnum, og sé eitt atkvæði fyrir hverja landareign, samþykkja stofnun félagsins, þá er hinum skylt að gerast félagar.
3. Ákvæði 2. liðs um félagsskyldu taka ekki til félaga samkvæmt 99. gr., 1. liðs c og d. Ef vatnsmiðlun er aðeins liður í einhverju fyrirtæki, sem 99. gr., 1. liður, tekur til, öðru en orkuveri eða orkuveitu, er félagsskapur um miðlun þó sömu lögum háður sem félagsskapur um það fyrirtæki.
4. Nú er jörð í byggingu, og er leiguliða þá rétt að gerast félagi, ef landsdrottinn vill ekki og er óskylt að taka þátt í félagsskapnum, en skylt er landsdrottni, þegar leiguliði fer frá jörð, að kaupa eftir mati þau mannvirki og tæki, sem leiguliði hefir gert eða sett á jörðina eða í sambandi við hana eða mannvirki á henni. Þó aðeins að svo miklu leyti, er metið verði jörðinni til varanlegra bóta.
102. gr. 1. Þegar ákveðið hefir verið að stofna félag, skal samþykkt þess sett svo fljótt sem unnt er.
2. Í samþykkt skulu vera ákvæði um:
    a. Nafn félags, heimilisfang þess og varnarþing.
    b. Verkefni félags.
    c. Um skipun félagsstjórnar, hversu fjölmenn hún skuli vera, hvernig skuli kjósa hana, hvert vald hennar skuli vera og starfssvið, ef stjórn er skipuð fleiri mönnum en einum, hve langan tíma kjör skuli gilda.
    d. Hvaða landareignir taki þátt í félaginu, svo að eigi verði um það villst, og um atkvæðisrétt á félagsfundum.
    e. Reikninga og bókhald félagsins og endurskoðun.
    f. Hvernig boða skuli til félagsfunda, hvenær þeir skuli lögmætir, hvaða mál þeir skuli úrskurða og hvert vald þeir hafi að öðru leyti.
    g. Hvernig fara skuli um greiðslur kostnaðar þess, sem félagsskapurinn hefir í för með sér.
    h. Hvaða kvaðir eða eignarhöft leggjast á landareignir þær, sem þátt taka í félagsskapnum.
    i. Sektir fyrir brot félaga á ákvæðum samþykkta.
    j. Hvaða reglum skuli eftir farið, ef breyta á samþykktum félagsins.
    k. Hvernig fara skuli um félagsslit, hvert atkvæðamagn þurfi til þeirra og hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins.
103. gr. Í samþykkt má setja ákvæði um skipun gerðardóms til að skera úr ágreiningi um félagsmálefni milli einstakra félaga eða milli félagsstjórnar og einstaks eða einstakra félaga, ef báðir aðiljar óska gerðardóms.
104. gr. 1. Samþykkt, ásamt gögnum þeim, er í 101. gr. segir, skal félagsstjórnin síðan senda ráðherra til staðfestingar. Ef samþykkt eða annað, sem félagið varðar, þykir ekki svo úr garði gert, að samþykkt megi staðfesta, sendir ráðherra hana aftur til félagsstjórnar með athugasemdum um það, er ábótavant þykir. Ella staðfestir hann samþykkt, svo og þegar lagað hefir verið það, er athugavert þótti. Aldrei má samþykkt brjóta bág við réttarákvæði, almennar grundvallarreglur laga né réttindi einstakra manna.
2. Ef gjaldskrá er send til staðfestingar, skal fara um það eftir 1. lið.
3. Halda skal allsherjarskrá yfir öll vatnafélög, samkvæmt reglum, er ráðherra setur. Staðfestar samþykktir og gjaldskrár skulu birtar í B-deild Stjórnartíðindanna.
4. Birta skal í Lögbirtingablaðinu auglýsingu, á félagsins kostnað, um stofnun þess, og skal verkefnis þess geta, heimilisfangs og varnarþings, svo og hver eða hverjir séu í stjórn þess og ef breyting verður á stjórninni.
105. gr. Nú vilja menn breyta staðfestri samþykkt eða gjaldskrá, og er breytingin lögmæt, ef svo er með farið, sem í 104. gr. segir.
106. gr. 1. Árstillög félagsmanna skulu ákveðin svo, að þau nægi til greiðslu vaxta og afborgana stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar og viðhalds. Enn fremur skal, ef félagsstjórn samþykkir eða ráðherra þykir það nauðsynlegt, leggja hæfilegt fyrningargjald í varasjóð og skal það einnig innifalið í árstillögunum.
2. Gjöld, sem ákveðin eru eða jafnað er niður samkvæmt staðfestri samþykkt eða gjaldskrá, má taka lögtaki.
3. … 1)
4. Eignir félags standa fyrir skuldum þess. Enginn félaga ber framar ábyrgð á þeim en að þeim hluta, er honum er gert að greiða samkvæmt gjaldskrá eða öðru lögmætu félagsákvæði.
    1)L. 21/1991, 181. gr.
107. gr. [Brot gegn félagssamþykktum varða sektum og um mál út af þeim fer að hætti opinberra mála.] 1)
    1)L. 116/1990, 12. gr.
108. gr. 1. Á félagsfundum ræður afl atkvæða, nema öðruvísi sé um mælt í lögum þessum. Í stjórn eru þeir réttkjörnir, sem flest fá atkvæði. Ef tveir eða fleiri fá jafnmörg, skal hlutkesti ráða.
2. Ef sérstök ástæða þykir til vera, má ákveða í samþykkt, að aukinn meirihluta skuli þurfa til ákvörðunar um einstök félagsmálefni, önnur en þau, sem sérstaklega er um mælt í lögum þessum.
109. gr. Ráðherra eða sá, er hann felur það, lítur eftir því, að félagsstjórn fari eftir samþykktum félagsins og öðrum ákvæðum um félagsskapinn. Er eftirlitsmanni heimilt að kynna sér starfsemi félagsins í því skyni, þar á meðal reikninga þess og fjárhag, en leyna skal hann óviðkomandi menn því, er hann kemst að um þau efni.
110. gr. 1. Rétt er að taka nýja menn í félag, ef lögmætur félagsfundur samþykkir, og sé slíks máls getið í fundarboði, enda sé það ekki skylt samkvæmt sérákvæðum laga þessara um einstök vatnafélög.
2. Ef veruleg breyting verður á skyldum félaga vegna töku nýrra félagsmanna, eða verkefni félaga breytist verulega fyrir þá sök, skal fara með málið sem breytingar á samþykktum félagsins. Ráðherra sker úr ágreiningi um þessi efni.
3. Nú bætist nýr maður í félag, og skal hann þá greiða að sínum hluta þar frá þau gjöld, sem á félögum hvíla, og með sama hætti sem aðrir félagar, nema öðruvísi semji. Kosta skal hann sjálfur þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru sérstaklega hans vegna, til þess að geta notað mannvirki félagsins.
111. gr. 1. Segja má maður sig úr félagi, ef
    a. 2/ 3 hlutar félagsmanna samþykkja á lögmætum félagsfundi,
    b. svo reynist, að landareign hans verður að mun meiri kostnaður af félagsskapnum en öðrum landareignum samanborið við hagnaðinn eða hagræðið. Úr ágreiningi skal skera með mati, en skjóta má því til fullnaðarúrskurðar ráðherra.
2. Ef maður segist úr félagi, þá ábyrgist hann þau gjöld, er á hann hafa fallið samkvæmt ákvæðum félagsins til þess tíma, er hann fer úr félaginu. Ef ágreiningur verður, má skjóta honum til ráðherra, og getur hann ákveðið, að meira skuli gjalda en nú var sagt.
112. gr. 1. Félagi skal slíta:
    a. Ef félagar samþykkja það samkvæmt fyrirmælum samþykktar sinnar.
    b. Ef félagar eru aðeins tveir og annar krefst þess.
    c. Ef það kemur síðar í ljós, að ekki er unnt að ná takmarki því, er félagið setti sér, eða það er svo miklum örðugleikum bundið, að ókleift eða illkleift þykir að halda félagsskapnum áfram.
2. Ágreiningi um það, hvort skilyrði félagsslita samkvæmt 1. lið c séu fyrir hendi, skal til lykta ráðið með matsgerð. Skjóta má því mati undir ráðherra til fullnaðarúrskurðar.
113. gr. 1. Ef helmingur félaga eða meira krefst þess, er skylt að kjósa skiptanefnd til að standa fyrir skilum félagsins og skiptum, og fer um vald hennar sem [skilanefndar við slit hlutafélags]. 1)
2. Ef eignir félagsins hrökkva ekki fyrir skuldum, skal því, er á vantar, skipta á félaga að réttri tiltölu við félagsgjöld hvers um sig, eins og þau hafa verið ákveðin samkvæmt gjaldskrá eða öðru lögmætu félagsákvæði. Félagi hver ábyrgist einungis sinn hluta.
3. Um skiptin fer annars samkvæmt ákvæðum skiptalaganna.
4. Að loknum skiptum skal skjölum félaga og bókum skilað í Þjóðskjalasafnið.
5. Jafnskjótt sem félag er tekið til skipta, skal félagsstjórn, ef hún fer með skipti, en ella skiptanefnd, … 1) tilkynna til félagaskrár, að félag sé tekið til skipta. Þegar skiptum er lokið, skal og tilkynna það með sama hætti. Skal gera athugasemdir um þessi atriði í félagaskrá og birta tilkynningar eða ágrip þeirra í Lögbirtingablaðinu á kostnað félags.
    1)L. 20/1991, 136. gr.
114. gr. Ákvæði þessa kafla skulu ekki taka til félaga, sem stofnuð eru og samþykktir þeirra staðfestar áður en lög þessi koma til framkvæmdar. Þó skulu slík félög fullnægja ákvæðum laga þessara, þeim er hér segir:
    a. Tilkynningu skulu þau senda mánuði eftir að lög þessi ganga í gildi um þau atriði, er í 104. gr., 4. lið, segir, og skal þegar birta hana í Lögbirtingablaðinu og á félagsins kostnað og skrá hana í félagaskrá.
    b. Ef breyta á samþykktum eða gjaldskrá eldri félaga, skal fara eftir 105. gr. laga þessara, eftir því sem við á.
    c. Ákvæðum 109.–113. gr. laga þessara skal beita um eldri félög, nema þau brjóti bág við staðfestar samþykktir þeirra.

XII. kafli. Um almenna umferð um vötn.
115. gr. Öllum er rétt að fara á bátum og skipum um öll skipgeng vötn. Sama er um vötn, sem hér eftir verða skurðuð eða gerð umferðarhæf með öðrum hætti. Þó getur ráðherra bannað almenningi umferð um skurð eða vatn, ef nauðsynlegt þykir vegna mannvirkja í eða við vatn.
116. gr. 1. Rétt er ríkinu og héruðum þeim, er vegamál hafa með höndum, að gera hvers konar mannvirki í vatni og við vatn í því skyni að gera vatn skipgengt eða til að gera færa ísaleið um vötn.
2. Ráðherra getur veitt félögum og einstaklingum leyfi til að gera mannvirki með þeim hætti og í þeim tilgangi, sem í 1. lið greinir.
3. Þeir, sem framkvæma fyrirtæki samkvæmt 1. og 2. lið, hafa sama rétt til eignarnáms á landi og mannvirkjum og afnota af landi í þarfir fyrirtækjanna sem ákveðinn er í lögum um vegagerð ríkis og héraða.
117. gr. Eigendur og notendur landareigna eiga rétt til bóta, eftir mati, nema um semji, fyrir tjón, sem umferð á vatni veldur beinlínis á landi við vatnið eða á löglega gerðum og vel viðhöldnum mannvirkjum í vatni eða við það, svo og á löglega settum veiðitækjum, enda þótt tjónið sé hvorki að kenna ásetningi né ógætni. Bætur greiðast ekki fyrir tjón af því, þótt mannvirki þau, er fyrir skemmdum hafa orðið, verði eigi notuð, nema tjón beri að bæta samkvæmt almennum skaðabótareglum.
118. gr. 1. Ákvæði 115.–117. gr. taka og til viðarfleytingar, sem framkvæmd er að ráðstöfun stjórnarvalda og undir eftirliti þeirra.
2. Ráðherra getur veitt leyfi til að ákvæði 115.–117. gr. megi einnig taka til annarrar viðarfleytingar en slíkrar, sem í 1. lið segir.
119. gr. 1. Öllum, sem nota vötn til umferðar eða fleytingar, er skylt að gæta þess að gera sem minnstar skemmdir á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.
2. Þeir, sem vötn nota til umferðar eða fleytingar samkvæmt löglegri heimild, hafa rétt til þeirrar umferðar um vatnsbakkana og þeirra afnota af þeim, sem nauðsynleg eru vegna umferðarinnar um vatnið eða fleytingarinnar, en gera skulu þeir svo lítið tjón á landi og mannvirkjum sem unnt er og bæta skemmdir að fullu eftir mati, nema samkomulag verði.
120. gr. Nú er vatn gert skipgengt eða aðrar ráðstafanir gerðar til fyrirgreiðslu umferðar um vatn, og getur þá ráðherra ákveðið, að gjald verði lagt á báta þá eða skip, er fara um vatnið, til þess að standa straum af kostnaði af þeim ráðstöfunum.

XIII. kafli. 1)
    1)L. 61/1932, 94. gr.

XIV. kafli. Almenn ákvæði um vatnsvirki.
131. gr. 1. Mannvirki öll, sem í vatn eru sett, við það eða yfir því, eða gerð eru til að geyma vatn eða veita því, skulu að gerð, undirstöðum, efni og verki fullnægja þeim kröfum, er verða með sanngirni settar til þess að afstýra hættu fyrir líf manna, hagsmuni ríkis eða almennings, tjóni á eignum eða réttindum einstakra manna eða óhagræði fyrir þá.
2. Önnur verk í vatni skal og vinna svo, að sæmileg trygging sé gegn slíkri hættu, tjóni og óhagræði.
132. gr. 1. Eigandi mannvirkja þeirra, er í 131. gr. segir, skal halda þeim óaðfinnanlega við, ef spjöll á þeim geta valdið tjóni, hættu eða óhagræði.
2. Heimta má, að brýr, stíflur og önnur vatnsvirki verði endurbyggð eða þeim breytt, ef það þykir nauðsynlegt vegna umferðar, fleytinga eða fiskgöngu, enda sé því eigi samfara stórkostlegt óhagræði eða notagildi mannvirkis rýrni að mun, en bæta skal virkiseiganda allan kostnað. Matsnefnd úrskurðar ágreining.
133. gr. 1. Áður byrjað sé að gera ráðstafanir þær, er nú skal greina, skal tilkynna ráðherra það og fá leyfi hans, enda sé ekki leyfis eða samþykkis krafist samkvæmt öðrum fyrirmælum laga þessara:
    a. Ef gera á mannvirki eða vinna önnur verk, er breytingu valda á vatnsborði, straumstefnu eða straummagni, svo sem stíflur, dýpkun eða grynnkun farvegar eða rétting, nema sýnt sé, að ekki hljótist af hætta, tjón eða óhagræði samkvæmt 131. gr.
    b. Ef gera á mannvirki, er tálma mundu umferð um vatn, enda hafi ráðherra auglýst áður í Lögbirtingablaðinu þrisvar sinnum bann við mannvirkjagerð í því vatni, við það eða yfir því, með þeim hætti, að hún yrði umferð eða fleytingu til trafala.
    c. Ef setja á mannvirki í vatn, sem tálma myndi fiskiför í því, nema heimilt sé samkvæmt veiðilögum eða samþykktum, settum með heimild í þeim.
    d. Ef þurrka á vatn, enda nemi þurrkunin 50.000 fermetrum.
    e. Ef rífa á eða taka burtu mannvirki, breyta þeim eða endurbyggja þau, og svo er ástatt, sem í stafliðum a–d segir.
2. Leyfi má binda þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja til verndar hagsmunum ríkis, almennings eða einstakra manna og að fyrirtækið komi að almenningsnotum, ef því er að skipta, svo og að bætur fyrir tjón af fyrirtæki séu fyrirfram greiddar eða trygging sett. Ef talið er, að fyrirtæki muni valda hættu, óhagræði eða tjóni, má ekki leyfa það, nema ætla megi, að hagur af því verði mun meiri en sem hættu, tjóni eða óhagræði nemi. Leyfishafi ábyrgist ekki óhagræði, sem almenningur eða ríkið kann að verða fyrir af leyfðu fyrirtæki, nema það sé tilskilið í leyfi.
3. Leyfi er því ekki til fyrirstöðu, að síðar megi krefjast nauðsynlegra breytinga á mannvirkjum, leyfishafa að kostnaðarlausu, ef sýnt verður, að þeirra sé þörf.
4. Ef leyfi er veitt til að hækka eða lækka vatnsborð, skal venjulega taka það fram, hversu mikið það megi vera, og ef hækkun er leyfð, þá skal setja vatnshæðarmerki á kostnað leyfisbeiðanda.
5. Ráðherra getur ákveðið, að vatnsvirki skuli tilkynna, enda þótt eigi þurfi leyfi til þeirra.
134. gr. 1. Rétt er hverjum þeim, er telur hættu, tjón eða óhagræði munu verða af fyrirhuguðu mannvirki, slíku sem í 131. gr. segir, að láta fara fram matsgerð um það, hvort og hvernig verkið verði unnið án þess.
2. Nú verður metið, að hvorki verði tjón, hætta né óhagræði af verkinu, og má þá þegar vinna það, en bæta skal þá tjón það, er síðar kemur í ljós, enda sé bóta krafist innan 5 ára frá lokum þess almanaksárs, er verkið var fullgert.
135. gr. Nú byrjar maður verk, sem leyfis eða samþykkis þarf til lögum þessum samkvæmt, vinnur verk verr en lög, leyfi eða samþykki tilskilja, heldur mannvirkjum verr við en skyldi, rífur þau eða tekur þau ólöglega á brott, og er ráðherra þá rétt að banna framhald verksins, fyrirskipa endurbætur eða láta vinna þær, eða rífa mannvirki, allt á kostnað eiganda, og eftir því sem við þykir eiga hverju sinni, enda verði það nauðsynlegt talið vegna hagsmuna ríkis, almennings eða einstakra manna.
136. gr. 1. Sá, er framkvæmir eða lætur framkvæma verk án leyfis eða samþykkis, sem áskilið er í lögum þessum, ábyrgist allt tjón, sem af verkinu hlýst, enda þótt eigi sé um að kenna göllum eða misfellum á verkinu eða gáleysi hans eða manna hans.
2. Eigandi mannvirkis og sá, er annars lætur vinna verk í vatni, ábyrgist tjón af því, enda þótt eigi verði gáleysi um kennt:
    a. Ef mannvirkið er ekki svo úr garði gert sem í 131. gr. segir eða áskilið er í leyfi eða samþykki.
    b. Ef brestur verður á viðhaldi þess.
    c. Ef maður vinnur annars eða lætur vinna verk í vatni án þess að fara svo með sem tilskilið er í 131. gr., 2. lið, eða til er tekið í leyfi eða samþykki.
3. Ábyrgð samkvæmt 1. og 2. lið tekur einnig til síðari eigenda.
4. Nú er mannvirki löglega rifið eða tekið burt eða hætt að halda því við, og skal þá eigandi bæta eftir mati, ef ekki semur, tjón það, er af þeirri ráðstöfun hlýst. Eigi skal þó bæta tjón eða óhagræði, sem annar maður verður fyrir vegna missis þess hagnaðar, er hann hafði af mannvirkinu, nema hann hafi beinlínis eða óbeinlínis goldið fyrir þann hagnað.
5. Ríkið ábyrgist ekki tjón af mannvirkjum eða verkum, er leyft er að vinna.
137. gr. 1. Ráðherra eða umboðsmaður hans hefir eftirlit með meiri háttar vatnsvirkjum og verkum. Er umráðamönnum skylt að veita eftirlitsmanni allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlitsins og aðgang að mannvirkjum og verkum til að rannsaka þau.
2. Ef mannhætta eða eignatjón að ráði getur stafað af vatnsvirki eða vatnsverki, getur ráðherra skipað sérstakan eftirlitsmann eða forstöðumann fyrir verkinu á kostnað eiganda, og skal eftirlitsmaður eða forstöðumaður gæta þess, að verkið sé unnið samkvæmt því, er samþykkt hefir verið í leyfi eða samþykki eða mælt í lögum.
3. Ef fyrirmælum eftirlitsmanns er ekki hlýtt, getur hann bannað framhald verksins þar til úrskurður ráðherra er fenginn.
138. gr. 1. Eiganda lands og notanda er skylt að þola það, að hallamælingar og önnur undirbúningsstörf og rannsóknir, sem nauðsynleg eru til framkvæmda fyrirhugaðra vatnsvirkja, fari fram á landi hans, enda sé honum bætt tjón, sem af því hlýst, eftir mati, ef ekki semur.
2. Nú láta aðrir en ríkið, héruð eða vatnafélög með staðfestri samþykkt slík undirbúningsstörf fara fram, og er þá skylda landeiganda og notanda því skilyrði bundin, að áður sé fengin heimild lögreglustjóra og trygging sett fyrir tjóni, ef honum þykir þess þörf. Vottorð lögreglustjóra um þessi atriði skal sýna, ef krafist er.

XV. kafli. Um skaðabætur.
139. gr. 1. Um bætur fyrir lögnám skal svo fara sem hér greinir, nema öðruvísi sé mælt í einstökum fyrirmælum laga þessara:
    a. Ef eign manns eða réttindi eru af honum tekin eða rýrð svo, að matsmenn telji honum rétt að heimta, að hún eða þau verði bætt að fullu, skal hann fá bætur í peningum eitt skipti fyrir öll, nema aðiljar verði á annað sáttir.
    b. Ef kvaðir eru á eign manns lagðar eða réttindi skert án þess að ákvæðin í a komi til greina, þá má ákveða bætur til árgjalds, ef sá krefst þess, sem við bótum tekur, svo og ef það þykir sanngjarnt eða hentugt vegna þess, hvernig á stendur, enda sé þá sett trygging fyrir greiðslu árgjalda.
2. Bætur, þar undir fyrsta árgjald samkvæmt 1. lið b, skulu kræfar jafnskjótt sem úrslitamat hefir fram farið, enda er lögnema þá heimilt að neyta réttar síns samkvæmt lögnámsgerð, gegn greiðslu bóta eða lögmætu framboði á þeim eða gegn tryggingu samkvæmt 1. lið b í þessari grein eða 144. gr.
3. … 1)
    1)L. 92/1991, 9. gr.
140. gr. 1. Þegar meta skal bætur fyrir lögnám á eignarhluta eða álagningu kvaða eða skerðingu réttinda, þá skal láta koma til frádráttar sérhag þann, er eigninni verður að fyrirtæki því, sem fyrirhugað er að koma upp, enda komi ekki tillagsskylda á eignina eða endurgjald annað til fyrirtækisins samkvæmt lögum þessum.
2. Bætur fyrir lögnumið land eða réttindi yfir landi skal aldrei hærra meta en þær bætur, sem metnar yrðu fyrir önnur lönd þar í grennd, jöfnum kostum búin, eða sams konar jafnverðmæt réttindi yfir slíkum löndum, enda skal að engu hækka mat, þótt land kunni að hækka í verði eða réttindi að verða verðmeiri sakir þess fyrirtækis eða þeirra fyrirtækja, sem lögnám á því landi eða þeim réttindum er framkvæmt fyrir, eða vegna hagnaðar af því fyrirtæki eða fyrirtækjum.
141. gr. 1. Nú telur matsnefnd sér ófært að meta það þegar, hvert tjón muni hljótast af fyrirtæki, og er henni þá rétt að fresta mati um það eða þau atriði, er eigi verður ráðið um, enda er þeim, er tjón bíður, þá rétt að æskja mats, þegar atvik hafa breyst svo, að telja má fært að meta. Ef matsnefnd telur sennilegt, að tjón hljótist af fyrirtæki, er bæta beri, en ákveður þó að fresta mati, þá getur eigandi þeirrar eignar eða réttinda, sem skaðinn kemur niður á, krafist tryggingar af lögnámsbeiðanda, ef hann vill neyta lögnámsréttar síns áður en tjónið er metið, og skulu matsmenn ákveða hana, ef ekki semur.
2. Nú verður tjón af fyrirtæki, sem ekki hafa verið metnar bætur fyrir, þegar lögnám fór fram eða bætur voru metnar samkvæmt 1. lið þessarar greinar, og er þeim, er tjónið bíður, þá rétt að krefjast bóta fyrir það samkvæmt 140. gr. innan 5 ára frá því er mannvirki eru fullgerð og tekin til notkunar.
3. Krafa um bætur samkvæmt 1. og 2. lið fellur niður, ef ekki er krafist matsgerðar áður ár sé liðið frá því er tjónið kom í ljós.
142. gr. Þegar bætur eru goldnar í orku, getur ráðherra sett almennar reglur um skipti aðilja innan takmarka ákvæða laga þessara og almennra grundvallarreglna löggjafarinnar.

XVI. kafli. Um meðferð vatnamála.
143. gr. 1. Umsóknir um leyfi, samþykki, staðfestingar eða aðrar ákvarðanir, sem í lögum þessum greinir, skulu vera skriflegar, enda fylgi þeim nauðsynlegar skýrslur og upplýsingar um þau efni, sem við er átt. Ráðherra setur reglur um þessi efni, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á í lögum þessum eða sérleyfislögum.
2. Ef mál er svo vaxið, að þörf þykir rækilegri greinargerðar með umsókn en ákveðið kann að verða í reglum þeim, er í 1. lið getur, þá er ráðherra eða öðrum, sem umsókn á að senda, rétt að krefjast slíkrar greinargerðar.
144. gr. 1. Nú hefir stjórnarvaldi borist umsókn um einhver þau atriði, sem í 143. gr. segir, og ekki þykir sýnt, að synja beri þegar í stað, og skal þá með fara sem hér segir:
    a. Leyfi til lögnáms samkvæmt 32. gr., 2. lið, 50. gr., 3. lið, 52., 60., 65. gr., 1. og 2. lið, 75. gr., 2. lið og 81. gr. má venjulega ekki veita fyrr en sá hefir átt kost á að láta uppi athugasemdir sínar, er taka á eignir hans eða réttindi.
    b. Ákvörðun um verð á orku samkvæmt 49. gr., 3. lið, sbr. 65. gr., 3. lið, má ekki gera fyrr en orkusali annars vegar og héraðsstjórn eða orkukaupandi hins vegar hafa fengið færi á að láta uppi álit sitt.
    c. Áður en ákvörðun er tekin um málefni þau, er í 68. gr., 4. lið, 69., 70., 72., 74., 75. gr., 1.–3. lið, 81., 83. gr., 2.–3. lið, og 133. gr., 1. lið, segir, skal leita álits þeirra manna, er ákvörðun kann að varða hag þeirra. Ef ætla má, að héraðsstjórn muni varða ráðstöfun sú, sem í ráði er að gera, skal ráðherra senda henni sérstaka tilkynningu, svo og þeim mönnum öllum, er ætla má, að ráðstöfun skipti máli. Ef ekki verður vitað, hversu marga ráðstöfun muni varða, þá má í þess stað birta auglýsingu þrisvar sinnum í Lögbirtingablaðinu, og skal fyrirtæki eða ráðstöfun glöggt greind og skorað á þá, er kynnu að telja sig málið skipta, að koma fram með athugasemdir sínar áður tiltekinn, hæfilegur tími sé liðinn. Jafnframt skal leggja skjölin fram á tilteknum stað, og skal þeim, er hagsmuna eiga að gæta, heimilt að kynna sér þau þar, enda skal framlagningar skjalanna geta í auglýsingu. Opinbera auglýsingu þarf ekki að birta, þegar ráðstöfun eða mannvirki er lítils um vert að dómi ráðherra.
2. Kostnað allan af ráðstöfunum samkvæmt 1. lið ber sá, er æskir ákvörðunar um þær.
145. gr. Ef nauðsyn þykir á vera, er ráðherra rétt að láta fara fram skoðun á staðháttum, þar sem gera á eða leggja niður mannvirki eða vinna verk í vatni, og skal sá, er heimildar beiðist, greiða kostnað af slíkri skoðun.
146. gr. 1. Hvarvetna þess, er lögnám er heimilað samkvæmt lögum þessum og menn skilur á um það, hvaða eignir eða réttindi þurfi að taka, hvaða eignarkvaðir, óhagræði o.s.frv. þurfi á að leggja, þá skal skera úr með mati.
2. Nú er leyfi veitt til lögnáms samkvæmt 144. gr., 1. lið, staflið a, eða matsnefnd hefir heimilað lögnám samkvæmt 39., 41., 96. eða 97. gr., 2. lið, og skal þá leyfishafi hafa gert ráðstafanir til að framkvæma lögnám áður en ár er liðið frá því að leyfi var veitt eða matsgerð var lokið. Annars kostar þarf nýja heimild.
147. gr. 1. Matsgerðir lögum þessum samkvæmt skulu framkvæma:
    a. Úttektarmenn í þinghá, þar sem mat fer fram samkvæmt 6., 9. gr., 3. lið, 10., 12. gr., 3. lið, 18. gr., 2. lið, 25. gr., 4. lið, 31., 37., 38., 39. gr., 2. lið, 40., 41. gr., 2. lið, 43., 44., 45., 48. gr., 2. lið, sbr. 82. gr., 1. lið, 78., 80., 81., 111. gr., 1. lið b, 112. gr.
    b. Dómkvaddir menn alls staðar annars staðar, nema öðruvísi sé sérstaklega um mælt í lögum þessum.
2. Úttektarmenn meta þó ekki, ef:
    a. Matsbeiðandi krefst þess, að dómkvaddir menn meti eða matsþolandi, ef hann skuldbindur sig til að greiða aukakostnað þann af matinu, sem af kröfu hans stafar.
    b. Úttektarmenn treysta sér ekki til að meta vegna þekkingarskorts á matsatriðum.
    c. Ekki eru lögskipaðir úttektarmenn í þinghá, þar sem mat fer fram.
    d. Svo er matsatriðum farið, að ekki verður talið, að mat fari fram í neinni ákveðinni þinghá.
3. Mat samkvæmt 146. gr., 1. lið, skulu úttektarmenn framkvæma, enda sé eigi svo ástatt sem í 2. lið greinar þessarar segir, ef þeir hafa heimilað lögnámið, en dómkvaddir menn ella.
4. Héraðsdómari, þar sem mannvirki, land eða réttindi eru, þau er krafa um mat er af risin, dómkveður tvo matsmenn, en rétt er honum að kveðja menn, þótt heimilisfastir séu utan lögsagnarumdæmis hans. Nú skal mat fara fram um sama atriði í fleirum þinghám en einni, eða svo er farið sem í 2. staflið d segir, og ákveður þá ráðherra, hvar matsmenn skuli dómkvaddir.
5. Rétt er matsmönnum að kveðja kunnáttumenn sér til aðstoðar, ef þörf þykir, og telst kostnaður af því til matskostnaðar.
148. gr. 1. Mati má skjóta til yfirmats innan 6 vikna frá lokum matsgerðar.
2. Yfirmat til þess að skera úr því, hvort lögnám skuli heimila, hvað lögnema skuli, um heimild manna eða skyldu til að vinna verk, eða til að taka ákvörðun um annað en upphæð bóta eða endurgjalds, skulu framkvæma 3 menn, dómkvaddir samkvæmt 147. gr., 4. lið. Ef matsnefnd hefir neitað beiðni eða kröfu matsbeiðanda, en yfirmatsmenn telja, að taka beri hana til greina, þá skulu þeir einnig framkvæma þær matsgerðir, er matsmönnum hefði annars borið. Ef bóta er jafnframt krafist, má þó skjóta mati á þeim eftir þessum lið til sérstaks yfirmats samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
3. Þegar ákveða skal einungis endurgjald eða bætur, skal yfirmatsnefnd skipuð, sem segir í lögum um framkvæmd eignarnáms. Ef héraðsdómari nefnir matsmenn, er honum þó rétt að nefna menn heimilisfasta utan lögsagnarumdæmis síns.
4. Ákvæði 147. gr., 5. liðs, tekur og til yfirmats.
149. gr. 1. Sá, sem þarf að fá ráðstöfun gerða, og mat er nauðsynlegt skilyrði til þess lögum þessum samkvæmt, eða sá, sem lögskylt er að greiða bætur eða endurgjald fyrir lögnám eða notkun á eign annars manns, skal greiða kostnað allan af mati. Ef bætur hafa verið boðnar svo ríflegar sem metnar verða, getur matsnefnd þó skipt kostnaði milli aðilja.
2. Um kostnað af yfirmati skal svo fara:
    a. Sá, sem beiðist yfirmats eftir 148. gr., 1. lið, greiði kostnað af því, ef matsgerð breytist eigi. Verði henni breytt, skal yfirmatsnefnd skipta kostnaði eftir því, sem henni þykir sanngjarnt, hvort sem bætur eru metnar eða ekki.
    b. Um kostnað af yfirmati samkvæmt 148. gr., 3. lið, fer samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
3. Til matskostnaðar má telja útgjöld aðilja til lögfræðilegra og verkfræðilegra aðstoðarmanna. Ef 2 aðiljar eða fleiri standa sama megin og hagsmunir þeirra mega saman fara, og nota þeir ekki báðir eða allir sama aðstoðarmann, skal þó venjulega ekki bæta þeim til samans meiri kostnað fyrir þessar sakir en telja má þá mundu hafa haft, ef þeir hefðu notað sama aðstoðarmanninn.
150. gr. Að því leyti, sem eigi er hér kveðið á um matsgerðir, fer um þær eftir lögum um framkvæmd eignarnáms og öðrum gildandi réttarákvæðum.

XVII. kafli. Um stjórn vatnamála.
151. gr. Atvinnumálaráðherra hefir yfirstjórn vatnamála á hendi. Verkfræðilegur ráðunautur hans um þau mál er vegamálastjóri.
152. gr. 1. Sýslumenn … 1) skulu halda löggiltar vatnabækur, og skal í þær rita:
    a. Skrá yfir ár og vötn í umdæminu.
    b. Samninga um þau, er sendir verða til innritunar eða þinglýsingar.
    c. Skýrslur um vatnsvirki og önnur vatnsverk, sem leyfis eða samþykkis þarf til lögum samkvæmt, og matsgerðir, sem heimila lögnám eða háðar eru samkvæmt 71. og 134. gr.
2. Ráðherra getur ákveðið, að fleira skuli rita í bækur þessar, svo og sett reglur um bókhald, svo sem þurfa þykir.
3. Láta skal í té eftirrit af vatnabókum, gegn lögmæltum ritlaunum.
    1)L. 92/1991, 9. gr.

XVIII. kafli. Ákvæði um refsingar.
153. gr. 1. Fyrir brot á lögum þessum skal refsa sem hér segir, nema brot sé svo vaxið að þyngri refsing liggi við að öðrum lögum, eða refsing við því sé sérstaklega ákveðin annars staðar í lögum þessum:
    a. Hver, sem byrjar á fyrirtæki, sem leyfi eða samþykki þarf til samkvæmt lögum þessum, eða ef matsgerð þarf til þess, svo og ef maður vinnur verk verr en í skilyrðum í leyfi, samþykki eða matsgerð felst, eða bregður að öðru leyti út af fyrirmælum slíkra heimilda, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 2 árum]. 1)
    b. Sá, er brýtur boð eða bann, reglugerð eða önnur fyrirmæli, er héraðsstjórn eða ráðherra setur samkvæmt lögum þessum, enda heyri brotið ekki undir staflið a, skal sæta sektum eða allt að 4 mánaða [fangelsi]. 1)
2. … 2)
    1)L. 82/1998, 145. gr. 2)L. 116/1990, 12. gr.
154. gr.1)
    1)L. 19/1991, 194. gr.