Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 2023. Útgáfa 153a. Prenta í tveimur dálkum.
Sveitarstjórnarlög
2011 nr. 138 28. september
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2012. Breytt með: L. 159/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012). L. 21/2012 (tóku gildi 16. mars 2012). L. 148/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013). L. 28/2013 (tóku gildi 1. júní 2013 og giltu til 31. maí 2018). L. 10/2014 (tóku gildi 4. febr. 2014). L. 53/2018 (tóku gildi 22. júní 2018). L. 73/2018 (tóku gildi 27. júní 2018). L. 32/2019 (tóku gildi 1. júlí 2019). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 72/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019 nema 9. gr. sem tók gildi 1. jan. 2021; EES-samningurinn: XX. viðauki tilskipun 2003/4/EB). L. 18/2020 (tóku gildi 19. mars 2020). L. 25/2020 (tóku gildi 1. apríl 2020). L. 29/2020 (tóku gildi 3. apríl 2020). L. 22/2021 (tóku gildi 31. mars 2021). L. 96/2021 (tóku gildi 10. júlí 2021). L. 107/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 43. gr.). L. 112/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 83/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Almenn ákvæði um sveitarfélög.
1. gr. Sjálfstjórn sveitarfélaga.
Landið skiptist í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð.
Með stjórn sveitarfélaga fara sveitarstjórnir sem kjörnar eru lýðræðislegri kosningu af íbúum þeirra samkvæmt lögum um kosningar … 1)
Hver maður telst íbúi sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.
Sveitarfélög eru lögaðilar.
1)L. 112/2021, 144. gr.
2. gr. Yfirstjórn sveitarstjórnarmála.
Ráðuneyti sveitarstjórnarmála fer með málefni sveitarfélaga.
Ráðherra sveitarstjórnarmála skal gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaganna, verkefni þeirra og fjárhag.
Engu málefni sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skal ráðið til lykta án umfjöllunar sveitarstjórnarinnar.
[Ráðherra sveitarstjórnarmála leggur að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.
Við gerð tillagna að stefnumótandi áætlun og aðgerðaáætlun skv. 4. mgr. skal haft samráð við ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Þá skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum. Horfa skal einnig til þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í byggðaáætlun og sóknaráætlunum sem gerðar eru samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Loks skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.
Ráðherra skal í reglugerð 1) setja nánari ákvæði um gerð stefnumótandi áætlunar og aðgerðaáætlunar, sbr. 4. og 5. mgr.] 2)
1)Rg. 1245/2018. 2)L. 53/2018, 10. gr.
3. gr. Markmið laganna og forsendur.
Með lögum þessum er markaður almennur grundvöllur að starfsemi og stjórnskipulagi sveitarfélaga. Lögin byggjast á þeim forsendum að:
1. sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld sem er stjórnað af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins,
2. skipulag og starfsaðstæður sveitarfélaga séu þannig að þau geti sjálf borið ábyrgð á framkvæmd verkefna sem þeim er falið að sinna,
3. sveitarfélög geti haft samvinnu sín á milli um starfrækslu þeirra verkefna sem þau geta ekki leyst af hendi á eigin vegum eða þau telja hagkvæmara að leysa með þeim hætti,
4. afskipti annarra stjórnvalda af málefnum sveitarfélaga taki ávallt mið af sjálfstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá og sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga,
5. sveitarfélög hafi sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrám sem þeim er heimilt að setja.
4. gr. Staðarmörk sveitarfélaga.
Sveitarfélög hafa ákveðin staðarmörk sem ráðast af útmerkjum þeirra fasteigna, þ.m.t. þjóðlendna, sem innan þeirra liggja.
Óheimilt er að breyta mörkum sveitarfélaga nema með lögum.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur ráðherra breytt mörkum sveitarfélaga í tengslum við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarfélaga. Birta skal staðfestingu ráðherra á breytingum staðarmarka sveitarfélags í Stjórnartíðindum.
Réttur sveitarfélaga til ákvarðana eða umsagna um nýtingu sjávarbotns eða sjávar innan íslenskrar lögsögu en utan marka sveitarfélags fer að ákvæðum sérlaga hverju sinni.
[4. gr. a. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags.
Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000.
Ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, innan árs frá þeim sveitarstjórnarkosningum, leitast við að ná markmiðum skv. 1. mgr. með því að:
a. hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. eða
b. vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum, sbr. 1. mgr., og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.
Ráðherra setur með auglýsingu 1) leiðbeiningar um þau atriði sem fram þurfa að koma í áliti skv. b-lið 2. mgr. en þar skal m.a. fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður. Ráðherra getur að ósk sveitarstjórnar veitt henni lengri tíma til afgreiðslu álitsins ef ástæða þykir til.
Álit skv. b-lið 2. mgr. skal sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins með fullnægjandi hætti ásamt umsögn ráðuneytisins. Að því loknu skal sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort hefja eigi sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. og hafa um það tvær umræður skv. 1. mgr. 18. gr.
Taki sveitarstjórn ákvörðun um að hefja ekki sameiningarviðræður skv. 4. mgr. geta minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar hafi slík atkvæðagreiðsla ekki þegar farið fram. Sveitarstjórn skal verða við ósk íbúa eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hún berst og skal niðurstaða atkvæðagreiðslunnar vera bindandi fyrir sveitarstjórn. Að öðru leyti fer um atkvæðagreiðsluna skv. 107. og 108. gr.] 2)
1) Augl. 777/2022. 2)L. 96/2021, 1. gr.
5. gr. Heiti sveitarfélags.
Sveitarstjórn ákveður heiti sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar. Skal það samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Ef könnun er gerð meðal íbúa á viðhorfi til breytingar á nafni sveitarfélags eða á nafni nýs sveitarfélags skal leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem um ræðir.
Ekki má breyta nafni sveitarfélags eða gefa nýju sveitarfélagi nafn nema með staðfestingu ráðuneytisins. Þegar nýtt heiti sveitarfélags hefur verið ákveðið skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, sbr. 9. gr., breytt til samræmis og tekur nýtt heiti gildi við gildistöku hennar.
6. gr. Byggðarmerki.
Sveitarstjórn er heimilt að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag. Skráning byggðarmerkis veitir sveitarfélagi einkarétt á notkun þess.
Byggðarmerki skulu skráð hjá [Hugverkastofunni] 1) sem veitir umsóknum viðtöku og kannar skráningarhæfi merkjanna.
Viðkomandi ráðherra setur nánari reglur um skráningu byggðarmerkja, m.a. varðandi umsóknir og meðferð þeirra, skilyrði fyrir skráningu, ógildingu, birtingu og gjöld fyrir umsóknir og vottorð úr byggðarmerkjaskrá.
1)L. 32/2019, 7. gr.
7. gr. Almennar skyldur sveitarfélaga.
Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Ráðuneytið gefur árlega út leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga, flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki.
Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.
Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.
II. kafli. Um sveitarstjórn.
8. gr. Hlutverk sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum laga þessara og annarra laga. Starfsemi sveitarfélags fer fram á einu stjórnsýslustigi leiði annað ekki með beinum hætti af lögum.
Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins. Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags.
Sveitarstjórn getur ályktað um hvert það málefni sem hún telur að varði sveitarfélagið.
9. gr. Samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp.
Sveitarstjórnir skulu gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Þar skal einnig kveðið á um fundarsköp sveitarstjórnarinnar og nefnda hennar. Samþykktin nefnist samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og skal send ráðuneytinu til staðfestingar.
Ráðuneytið semur fyrirmynd að samþykkt skv. 1. mgr. og birtir hana í Stjórnartíðindum. 1) Gildir fyrirmyndin þar til sérstök samþykkt hefur verið gerð fyrir sveitarfélagið.
1) Augl. 1180/2021.
10. gr. Heiti sveitarstjórnar o.fl.
Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda styðjist slík málnotkun við hefð. Byggðarráð má á sama hátt nefna hreppsráð eða bæjarráð, framkvæmdastjóra má nefna bæjarstjóra eða sveitarstjóra og oddvita má nefna forseta bæjarstjórnar eða forseta sveitarstjórnar.
Reykjavík er höfuðborg Íslands. Í Reykjavíkurborg nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, byggðarráð nefnist borgarráð, framkvæmdastjóri nefnist borgarstjóri og oddviti nefnist forseti borgarstjórnar.
11. gr. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn.
Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. og skal vera innan þeirra marka sem hér segir:
1. Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn.
2. Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn.
3. Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn.
4. Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn.
5. Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ekki skylt að fækka eða fjölga aðalmönnum í sveitarstjórn fyrr en íbúatala hefur verið hærri eða lægri en viðmiðunarmörkin í fjögur ár samfellt, talið frá næstu áramótum fyrir almennar kosningar til sveitarstjórna. Íbúatala grundvallast á íbúaskrá þjóðskrár.
12. gr. Ný sveitarstjórn tekur til starfa.
Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag. Jafnlengi heldur fráfarandi sveitarstjórn umboði sínu, með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum um kosningar … 1). Áður en nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum hefur hún ekki umboð til töku ákvarðana um málefni sveitarstjórnarinnar eða sveitarfélagsins.
Sá fulltrúi í nýkjörinni sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni boðar til fyrsta fundar ekki síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar. Hann stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar átt jafnlengi setu í sveitarstjórninni fer aldursforseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein. Fyrsta fund skal boða með a.m.k. fjögurra daga fyrirvara.
1)L. 112/2021, 144. gr.
13. gr. Kjör oddvita og varaoddvita.
Á fyrsta fundi kýs sveitarstjórn oddvita og einn eða fleiri varaoddvita.
Sá telst rétt kjörinn oddviti sem fær atkvæði meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn. Verði þeim atkvæðafjölda ekki náð skal kjósa að nýju. Við aðra umferð telst sá rétt kjörinn sem fær meiri hluta atkvæða þeirra fulltrúa sem sitja fundinn eða ef viðkomandi er sá eini sem fær atkvæði.
Fáist ekki niðurstaða við aðra umferð skal kosið þriðja sinni en nú á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu við aðra umferð. Ef nauðsynlegt reynist skal varpa hlutkesti um það milli hverra tveggja verður kosið. Verður þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
Þegar að lokinni kosningu oddvita skjal kjósa varaoddvita. Kosning varaoddvita fer fram með sama hætti og oddvita, enda fari ekki um kosningu hans skv. 5. mgr.
Í samþykkt um stjórn sveitarfélags má ákveða að kjósa skuli fyrsta og annan varaoddvita til að gegna, í þeirri röð, störfum oddvita í forföllum hans. Skal kosning þeirra vera hlutfallskosning, enda sé ekki full samstaða um annað innan sveitarstjórnar.
Tilkynna skal kosningu oddvita og varaoddvita til ráðuneytis þegar að því loknu.
Kjörtímabil oddvita og varaoddvita er hið sama og sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað. Njóti oddviti eða varaoddviti ekki lengur stuðnings sveitarstjórnar skal kjósa í þau embætti að nýju. Hið sama á við ef oddviti eða varaoddviti forfallast varanlega eða fær lausn frá starfi.
III. kafli. Sveitarstjórnarfundir.
14. gr. Skylda til að halda fundi.
Sveitarstjórn skal halda reglulega fundi á þeim stað og tíma sem ákveðið er fyrir fram eða mælt er fyrir um í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Aukafundi skal halda þegar oddviti eða framkvæmdastjóri telur það nauðsynlegt eða ef þriðjungur sveitarstjórnarfulltrúa óskar þess.
Sveitarstjórn er heimilt að fella niður reglulegan fund sinn, enda sé tillaga um slíkt samþykkt mótatkvæðalaust á næsta fundi sveitarstjórnar á undan.
15. gr. Boðun og auglýsing funda.
Framkvæmdastjóri eða oddviti, eftir ákvörðun sveitarstjórnar, boðar fundi. Fundarboð skal berast sveitarstjórnarmönnum ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund. Fundarboð vegna aukafunda skal berast sveitarstjórnarmönnum svo fljótt sem auðið er og ekki síðar en sólarhring fyrir fund. Aukafund skal boða ekki síðar en tveimur virkum dögum eftir að ósk þar um barst þeim er boða skal fund. Nánari fyrirmæli um boðun funda er unnt að setja í samþykkt um stjórn sveitarfélags.
Fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins og þau gögn sem eru nauðsynleg til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind.
Íbúum sveitarfélags skal kunngert með opinberri auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi. Einnig skal sveitarstjórn birta opinberlega innan sömu tímafresta og við á um sveitarstjórnarmenn fundarboð og dagskrá fundar, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Auglýsing á vefsíðu sveitarfélags telst fullnægjandi.
16. gr. Opnir fundir.
Fundir sveitarstjórna eru opnir. Sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum þegar það telst nauðsynlegt vegna eðlis máls. Oddviti eða sveitarstjórn getur jafnframt ákveðið að ræða fyrir luktum dyrum tillögu um lokun fundar.
Þrátt fyrir að fundi sé lokað er heimilt að ákveða að tilteknir starfsmenn sveitarfélags séu viðstaddir.
17. gr. Ályktunarhæfi og atkvæðagreiðsla.
Sveitarstjórn getur enga ályktun gert nema meira en helmingur sveitarstjórnarmanna sé viðstaddur á fundi.
Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála. Hjáseta telst þátttaka í atkvæðagreiðslu. Ef jafnmörg atkvæði eru með málefni og á móti fellur það en við kosningar ræður hlutkesti.
[Mæla skal fyrir um heimild sveitarstjórnarmanna til að taka þátt með rafrænum hætti í fundum sveitarstjórnar og nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.
Þegar nefndarmaður tekur þátt í fundi með rafrænum hætti skv. 3. mgr. skal hann vera staddur í viðkomandi sveitarfélagi eða í erindagjörðum innan lands á vegum þess. Þá skal tryggja jafna möguleika allra fundarmanna til þátttöku á fundi og í atkvæðagreiðslu, óskerta möguleika þeirra til að fylgjast með því sem þar fer fram, sbr. 1. mgr. 16. gr., og öryggi samskipta milli fundarmanna.] 1)
1)L. 96/2021, 2. gr.
18. gr. Tvær umræður í sveitarstjórn.
Sveitarstjórn skal hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili, um:
1. samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra,
2. staðfestingu ársreiknings,
3. stefnumarkandi áætlanir sem gilda eiga til lengri tíma og taka til sveitarfélags í heild eða meiri hluta þess,
4. [tillögu um að kjósa samstarfsnefnd vegna sameiningar sveitarfélaga skv. 1. mgr. 119. gr.] 1)
Sveitarstjórn skal hafa tvær umræður, með a.m.k. tveggja vikna millibili, um fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins skv. 62. gr. Ákvæði þetta gildir þó ekki um samþykkt viðauka við fjárhagsáætlanir.
1)L. 83/2022, 1. gr.
19. gr. Fundarstjórn og fundargerðir.
Oddviti stjórnar fundum sveitarstjórnar. Hann sér um að fundargerðir séu færðar og að fundir fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, samþykktir sveitarfélagsins og almenn fundarsköp.
Ráðherra setur með auglýsingu 1) leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, m.a. um hvað þar er skylt að bóka, um staðfestingu þeirra þegar að loknum fundi og skráningu og meðferð rafrænna fundargerða. Þar skal einnig setja nánari viðmið um framkvæmd fjarfunda [skv. 3. og 4. mgr. 17. gr.] 2)
1) Augl. 1181/2021. Augl. 1182/2021. 2)L. 96/2021, 3. gr.
20. gr. Hæfi til þátttöku í meðferð og afgreiðslu einstakra mála.
Um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga til þátttöku í meðferð eða afgreiðslu mála þar sem á, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ákvæði stjórnsýslulaga sé ekki öðruvísi ákveðið í lögum þessum. Viðkomandi telst þó aðeins vanhæfur sé hann eða hafi verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að einum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar, nema strangari regla sé sett í samþykkt um stjórn og fundarsköp. Þá verður starfsmaður sveitarfélags ekki vanhæfur vegna vanhæfis yfirmanns ef eðli máls eða uppbygging stjórnkerfis sveitarfélagsins þykir ekki gefa tilefni til slíks.
Í öðrum tilvikum en skv. 1. mgr. ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Þessi regla tekur einnig til gerðar samninga fyrir hönd sveitarfélags.
Sveitarstjórnarmenn eru ekki vanhæfir þegar verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum sveitarstjórnar eða ákveða þóknun fyrir slík störf.
Sveitarstjórnarmenn eða nefndarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélagsins og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa eða taka ákvörðun í tilteknu máli sem lagt er fyrir sveitarstjórn eða nefnd eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin eða nefndin fjallar um málið. Þetta á þó ekki við um framkvæmdastjóra.
Ákvæði 4. mgr. á ekki við þegar sveitarstjórn eða viðkomandi nefnd fjallar um og afgreiðir ársreikninga, fjárhagsáætlanir, skipulagsáætlanir og aðrar almennar áætlanir sveitarfélagsins, enda eigi sveitarstjórnarmaður eða nefndarmaður ekki sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta umfram aðra við afgreiðslu viðkomandi málefnis.
Sveitarstjórnarmaður, nefndarfulltrúi eða starfsmaður sveitarfélags sem veit hæfi sitt eða annars orka tvímælis skal án tafar vekja athygli oddvita, formanns nefndar eða næsta yfirmanns á því.
Sveitarstjórn tekur ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns til meðferðar og afgreiðslu einstakra mála. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Nefnd tekur ákvörðun um hæfi nefndarmanns. Nefndarmaður sem hlut á að máli má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.
Sveitarstjórnarmaður eða nefndarmaður sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í meðferð þess eða hafa áhrif á það með öðrum hætti og skal ávallt yfirgefa fundarsal við meðferð þess og afgreiðslu.
21. gr. Varamenn.
Þegar kosið hefur verið til sveitarstjórnar óbundinni kosningu taka varamenn sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir.
Þegar kosið hefur verið til sveitarstjórnar hlutbundinni listakosningu, eða listi hefur verið sjálfkjörinn, taka varamenn af lista aðalfulltrúa sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir.
Ef framboðslisti hefur verið borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum geta aðalmenn listans komið sér saman um að varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður, taki sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn varamaður af viðkomandi lista í sama stjórnmálaflokki eða samtökum og sá aðalfulltrúi sem í hlut á taka varamenn listans sæti samkvæmt venjulegum reglum. Hér skal ávallt miðað við stöðu viðkomandi á þeim tíma er kjör til sveitarstjórnar fór fram.
Yfirlýsingu um samkomulag skv. 3. mgr. skal leggja fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar að loknum sveitarstjórnarkosningum og gildir hún til loka kjörtímabils.
IV. kafli. Réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna.
22. gr. Mætingarskylda.
Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að taka þátt í öllum sveitarstjórnarfundum og fundum í nefndum og ráðum sem hann hefur verið kjörinn til nema lögmæt forföll hamli, sbr. 31. gr.
23. gr. Skylda til að taka kjöri.
Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins, sem og til annarra trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélagsins.
Sá sem verið hefur oddviti heilt kjörtímabil eða lengur eða gegnt ákveðnu starfi innan sveitarstjórnar jafnlangan tíma eða lengur getur skorast undan kosningu til þess starfs jafnlangan tíma og hann hefur haft starfið með höndum. Ósk um undanþágu skal sett fram áður en kjör í viðkomandi starf fer fram.
24. gr. Aðrar almennar skyldur sveitarstjórnarmanna.
Hverjum sveitarstjórnarmanni er skylt að inna af hendi störf sem sveitarstjórn felur honum og varða verkefni sveitarstjórnarinnar.
Sveitarstjórnarmönnum ber að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi. Sveitarstjórnarmönnum ber í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum.
25. gr. Sjálfstæði í starfi.
Sveitarstjórnarmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum. Þeir eru einungis bundnir af lögum og eigin sannfæringu um afstöðu til einstakra mála.
26. gr. Málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðisréttur.
Sveitarstjórnarmenn hafa málfrelsi á fundum sveitarstjórnar eftir því sem nánar er ákveðið í fundarsköpum. Þeir hafa tillögurétt og atkvæðisrétt á fundum sveitarstjórnar.
Þeir sem hafa rétt til að taka þátt í umræðum í sveitarstjórn eiga rétt á að fá bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru.
Vilji sveitarstjórnarmaður ekki una úrskurði oddvita um stjórn fundar og fundarsköp getur hann skotið úrskurðinum til sveitarstjórnar sem sker úr án umræðna.
27. gr. Réttur til að bera upp mál.
Sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.
Mál sem ekki er tilgreint á útsendri dagskrá sveitarstjórnarfundar verður þó ekki tekið til afgreiðslu á viðkomandi fundi án samþykkis 2/ 3 hluta fundarmanna.
28. gr. Aðgangur að gögnum og þagnarskylda.
Vegna starfa sinna í sveitarstjórn á sérhver sveitarstjórnarmaður rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórnarmaður skal eiga eðlilegan aðgang að skrifstofu og stofnunum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins og rekstur.
Sveitarstjórn skal í samþykkt um stjórn sveitarfélags mæla nánar fyrir um rétt sveitarstjórnarmanna til að fá afhent afrit gagna sem falla undir 1. mgr. og um fyrirkomulag og framkvæmd aðgangs að skrifstofu og stofnunum sveitarfélags skv. 2. mgr.
[Sveitarstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga.] 1)
1)L. 71/2019, 5. gr.
29. gr. Siðareglur og góðir starfshættir.
Sveitarstjórn skal setja sér siðareglur sem sendar skulu ráðuneytinu til staðfestingar. Ef siðareglur eru í gildi skal ný sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til endurskoðunar þeirra. Ef niðurstaðan er sú að siðareglur þarfnist ekki endurskoðunar halda þær gildi sínu. Tilkynna skal ráðuneytinu um þá niðurstöðu.
Siðareglur sveitarstjórnar skulu birtar opinberlega á vefsíðu sveitarfélagsins eða á sambærilegan hátt.
Öllum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórn skipar ber að haga störfum sínum í samræmi við settar siðareglur.
Samband íslenskra sveitarfélaga skipar nefnd sem veitt getur álit um siðareglur og um ætluð brot á þeim. Ráðuneytið getur borið tillögur sveitarstjórna um siðareglur undir nefndina áður en það tekur þær til staðfestingar.
[29. gr. a. Kjörgengi.
Sveitarstjórn úrskurðar hvort sveitarstjórnarmaður hafi misst kjörgengi.
Skjóta má úrskurði sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar kosningamála og úrskurði hennar má skjóta til dómstóla.] 1)
1)L. 112/2021, 144. gr.
30. gr. Lausn frá störfum.
Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórn.
Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.
Þegar sveitarstjórnarmaður flytur úr sveitarfélagi um stundarsakir má sveitarstjórn ákveða, að ósk hans, að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Slík ákvörðun skal tekin áður en sveitarstjórnarmaður flytur um stundarsakir. Sé ekki tekin ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein missir sveitarstjórnarmaður kjörgengi samkvæmt hefðbundnum reglum.
Ef sveitarstjórnarmaður missir fjárforræði skal sveitarstjórn veita honum lausn frá störfum þann tíma er sviptingin gildir.
31. gr. Boðun varamanna.
Þegar aðalmaður er vanhæfur til meðferðar máls í sveitarstjórn skal boða varamann hans til meðferðar þess og afgreiðslu. Að afgreiðslu máls lokinni tekur aðalmaður sæti sitt á viðkomandi fundi á ný. Verði innköllun varamanns ekki við komið getur vanhæfur sveitarstjórnarmaður krafist þess að umræðu og afgreiðslu máls verði frestað til næsta fundar. Frestun nær þó ekki fram að ganga ef 2/ 3 hlutar viðstaddra sveitarstjórnarfulltrúa greiða atkvæði gegn frestun eða ef frestun hefði í för með sér að gengið væri gegn lögbundnum afgreiðslutíma máls.
Þegar aðalmaður getur ekki mætt til fundar eða þarf að víkja af fundi af heilbrigðisástæðum eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum tekur varamaður hans sæti í sveitarstjórn á þeim fundi. Aðalmaður skal tilkynna forföll eins fljótt og auðið er og óska eftir því að varamaður verði boðaður. Forföll samkvæmt þessari málsgrein taka ávallt til viðkomandi fundar í heild, eða til loka fundar sé um það að ræða.
Þegar fyrirséð er að aðalmaður í sveitarstjórn mun taka hlé frá störfum vegna atvika sem greinir í 2. mgr. í a.m.k. einn mánuð skal varamaður hans taka sæti í sveitarstjórninni frá og með næsta fundi, enda séu þá ástæður forfalla enn til staðar. Þegar forföllum lýkur tekur aðalmaður sæti sitt að nýju frá og með næsta fundi.
Þegar aðalmaður fellur frá, missir kjörgengi eða fær lausn frá starfi í sveitarstjórn skal varamaður hans taka sæti í sveitarstjórn frá og með næsta fundi.
32. gr. Réttur til þóknunar o.fl.
Skylt er sveitarstjórn að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarmanna fyrir störf þeirra. Sé um langan veg að fara milli heimilis sveitarstjórnarmanns og fundarstaðar sveitarstjórnar skal einnig ákveða hæfilega greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar sé um hann að ræða.
Nú tekst sveitarstjórnarmaður ferð á hendur í þágu sveitarfélagsins samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar og á hann þá rétt til greiðslu hæfilegs ferða- og dvalarkostnaðar.
Sveitarstjórn er heimilt að setja nánari reglur um réttindi sveitarstjórnarmanna samkvæmt þessari grein, svo sem varðandi lífeyrissjóði, fæðingarorlof og biðlaun.
Sveitarstjórnarmaður má ekki afsala sér greiðslum sem honum eru ákveðnar á grundvelli þessarar greinar.
33. gr. Réttur til þátttöku í sveitarstjórnarstörfum.
Atvinnuveitanda er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum af þeirri ástæðu að hann hafi boðið sig fram til sveitarstjórnar eða verið kjörinn í sveitarstjórn.
Sé starfsmanni sem hefur boðið sig fram til sveitarstjórnar eða verið kjörinn í sveitarstjórn sagt upp starfi skal vinnuveitandi hans sýna fram á að ástæður uppsagnar sé ekki að rekja til þeirra atriða.
Sveitarstjórnarmaður á rétt á fjarveru úr starfi að því leyti sem honum er nauðsynlegt til að sinna lögbundinni mætingarskyldu á fundi í sveitarstjórn, hjá nefndum sveitarfélagsins og á aðra fundi sem hann hefur verið kjörinn til að sækja fyrir hönd sveitarstjórnar. Teljist viðvera starfsmanns nauðsynleg vegna sérstakra og rökstuddra atvika getur atvinnuveitandi þó hafnað ósk starfsmanns um fjarveru.
34. gr. Réttindi og skyldur varamanna.
Ákvæði þessa kafla, um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna, eiga einnig við um varamenn þegar þeir taka sæti í sveitarstjórn.
V. kafli. Nefndir, ráð og stjórnir.
35. gr. Byggðarráð.
Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að kosið skuli byggðarráð. Í sveitarstjórnum sem eru skipaðar fimm aðalfulltrúum er þó ekki heimilt að kjósa byggðarráð.
Byggðarráð telst til fastanefnda sveitarstjórnar, sbr. 37. gr. Ákvæði þessa kafla, þar á meðal um framsal á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála, eiga við um byggðarráð að því leyti sem annað er ekki sérstaklega tekið fram.
Byggðarráð fer ásamt framkvæmdastjóra með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn sveitarfélagsins að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin. Byggðarráð hefur eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess, semur drög að fjárhagsáætlun og viðaukum við hana og leggur þau fyrir sveitarstjórn. Þá sér byggðarráð um að ársreikningar sveitarfélagsins séu samdir reglum samkvæmt og lagðir fyrir sveitarstjórn til meðferðar og afgreiðslu.
Heimilt er að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélags að byggðarráð taki að meira eða minna leyti við starfi annarra fastanefnda sveitarstjórnar. Þá er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélags að ályktanir, tillögur og fundargerðir annarra nefnda megi leggja fyrir byggðarráð til umfjöllunar áður en þær eru lagðar fyrir sveitarstjórn til kynningar eða endanlegrar afgreiðslu.
Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina, en meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi fer byggðarráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella. Þá er heimilt að fela byggðarráði fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem samkvæmt samþykktum sveitarfélags hafa áður komið til umfjöllunar annarra nefnda sveitarstjórnar.
36. gr. Kosning í byggðarráð.
Byggðarráð skal kosið til eins árs í senn nema annað sé ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélags.
Fjöldi aðalmanna í byggðarráði skal standa á oddatölu. Aðalmenn í byggðarráði skulu ekki vera fleiri en nemur helmingi af aðalfulltrúum í sveitarstjórn, þó mest níu. Kjósa skal jafnmarga aðal- og varamenn.
Aðalmenn í byggðarráði skulu koma úr hópi aðalmanna í sveitarstjórn. Varamenn skal einnig velja úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórninni. Heimilt er þó að ákveða að aðalfulltrúar og varafulltrúar af sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður verði varamenn hans í þeirri röð sem þeir skipuðu listann þegar kosið var til sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn kýs formann og varaformann byggðarráðs úr hópi kjörinna byggðarráðsmanna.
37. gr. Fastanefndir sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélags. Slíkar nefndir teljast fastanefndir sveitarstjórnar.
Kjörtímabil fastanefnda er hið sama og sveitarstjórnarinnar, nema annað leiði af lögum eða samþykktum um stjórn sveitarfélagsins. Að loknum sveitarstjórnarkosningum halda fastanefndir þó umboði sínu þar til nýkjörin sveitarstjórn hefur kjörið nýja nefnd í þeirra stað en með sömu takmörkunum valdheimilda og fyrri sveitarstjórn sætti að afloknum kosningum, sbr. 12. gr.
Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði þó að svo sé kveðið á í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til að fara með tiltekin verkefni.
Í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfir með að manna nefndir er sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar nema verkefni hennar sé ósamrýmanlegt störfum sveitarstjórnar að mati ráðuneytisins.
38. gr. Nefnd fyrir hluta sveitarfélags.
Sveitarstjórn getur kosið nefnd til að fara með afmörkuð málefni eða málaflokka í hluta sveitarfélags.
Ef mælt er fyrir um kosningu slíkrar nefndar í lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélags telst hún til fastanefnda sveitarstjórnar.
Í samþykkt um stjórn sveitarfélags má ákveða að nefnd samkvæmt þessari grein skuli kosin af íbúum viðkomandi hluta sveitarfélags sem kosningarrétt eiga [til sveitarstjórnar] 1) samkvæmt lögum um kosningar … 2). … 1)
Ákvörðun skv. 3. mgr. er háð samþykki ráðuneytisins og er m.a. háð því skilyrði að hægt sé að gefa út [kjörskrá] 1) fyrir þann hluta sveitarfélagsins sem um ræðir … 2). [Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.] 1)
Ákvæði 44., 45. og 49. gr. gilda ekki um skipun nefndar sem er kosin skv. 3. mgr. Að öðru leyti gilda um störf slíkrar nefndar, kjörgengi, réttindi og skyldur nefndarmanna og aðra þætti ákvæði þessara laga eftir því sem við getur átt.
1)L. 83/2022, 2. gr. 2)L. 112/2021, 144. gr.
39. gr. Nefnd til að fara með einstök verkefni eða málaflokka.
Sveitarstjórn getur kosið nefndir til að fjalla um og undirbúa einstök mál, málaflokka eða verkefni. Umboð slíkra nefnda getur sveitarstjórn afturkallað hvenær sem er og fellur það sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils sveitarstjórnar.
Í nefndir samkvæmt þessari grein má kjósa einstaklinga sem ekki hafa náð aldri til að njóta kosningarréttar í sveitarfélagi og einstaklinga sem ekki eiga þar lögheimili.
40. gr. Valdsvið nefnda.
Sveitarstjórn ákveður valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum.
Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagsins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar.
41. gr. Afgreiðsla á fundargerðum.
Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skulu lagðar fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Ef fundargerðir nefnda innihalda hins vegar ekki slíkar ályktanir eða tillögur er nægjanlegt að þær séu lagðar fram til kynningar.
Ályktun nefndar sem hefur fjárútlát í för með sér skal lögð fyrir sveitarstjórn eða byggðarráð eftir því sem fyrir er mælt í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.
Eftir því sem við á gildir ákvæði þetta einnig um afgreiðslu sveitarstjórnar á fundargerðum byggðarráðs.
42. gr. Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála.
Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Ef fastanefnd er falið vald samkvæmt þessari málsgrein skal fjöldi nefndarmanna standa á oddatölu.
Á sama hátt og með sömu skilyrðum er sveitarstjórn heimilt að fela einstökum starfsmönnum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála. Sveitarstjórn, byggðarráð eða hlutaðeigandi fastanefnd skal hafa eftirlit með afgreiðslu mála samkvæmt þessari málsgrein og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli hennar. Þessi málsgrein hefur þó ekki áhrif á almennar heimildir starfsmanna sveitarfélags til töku ákvarðana sem varða daglegan rekstur og þjónustu sveitarfélags og teljast leiða af stöðuumboði þeirra.
Sá starfsmaður sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu mála skv. 2. mgr., eða þriðjungur hlutaðeigandi fastanefndar skv. 1. mgr., getur ávallt óskað eftir því að sveitarstjórn, byggðarráð eða viðkomandi fastanefnd samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins taki ákvörðun í máli.
Þegar sveitarstjórn nýtir heimildir skv. 1. eða 2. mgr. skal jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóta afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.
43. gr. Kosningar og kjörgengi.
Kosningar í fastanefndir sveitarstjórnar, nefndir fyrir hluta sveitarfélags, nefndir til að fara með einstök verkefni eða málaflokka, byggðarráð og aðrar nefndir og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að skulu vera leynilegar og bundnar hlutfallskosningar ef þess er óskað.
Þeir einir eru kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir sem hafa kosningarrétt í sveitarfélaginu, nema annað leiði af lögum, sbr. m.a. 2. mgr. 39. gr.
Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Sveitarstjórn getur þó ákveðið að víkja frá þessu ef málefni vinnuveitanda eru óverulegur þáttur í starfi viðkomandi nefndar og starfið er ekki þess eðlis að hætta sé á hagsmunaárekstrum þrátt fyrir nefndarsetu.
44. gr. Framlagning lista við hlutfallskosningu.
Við bundna hlutfallskosningu í nefndir skal framlagning lista fara fram með eftirfarandi hætti:
1. Leggja skal fram lista þar sem fram koma tillögur um fulltrúa í viðkomandi nefnd. Hver sveitarstjórnarmaður getur aðeins staðið að tillögu um einn lista í hverja nefnd. Listi getur innihaldið allt að tvöföldum þeim fulltrúafjölda sem kjósa skal til nefndarinnar. Nafn sveitarstjórnarmanns má aðeins setja á þann lista sem hann sjálfur stendur að tillögu um.
2. Ef velja á tvo eða þrjá fulltrúa í nefnd skal a.m.k. einn af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á fjóra eða fimm fulltrúa skulu a.m.k. tveir af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á sex til átta í nefnd skulu a.m.k. þrír af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á níu fulltrúa skulu a.m.k. fjórir af hvoru kyni vera á lista. Ef velja á fleiri í nefnd skulu a.m.k. 40% af hvoru kyni vera á lista. Ef kjörgengi í nefnd er bundið við sveitarstjórnarmenn eða varamenn þeirra á þessi regla þó ekki við. Hið sama á við ef kjörgengi í nefnd er bundið með þeim hætti að ekki er fært að fullnægja kröfum samkvæmt þessum lið.
3. Tillaga um lista skal lögð fram skriflega og undirrituð af a.m.k. einum þeirra sveitarstjórnarmanna sem standa að henni. Ef gerð er tillaga um fulltrúa sem ekki er skylt að taka kjöri í viðkomandi nefnd skal liggja fyrir samþykki hans fyrir tilnefningunni.
45. gr. Kosning á milli lista.
Kosning á milli lista skal fara fram á eftirfarandi hátt:
1. Nefndarsætum er deilt á viðkomandi lista í hlutfalli við þau atkvæði sem hver listi fær á grundvelli eftirfarandi reglu: Deila skal atkvæðatölum listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
2. Þegar ákveðnar hafa verið útkomutölur fyrir hvern lista skal ákvarða hvaða fulltrúar hafa fengið kosningu í nefnd. Það er gert á eftirfarandi hátt: Fyrsta fulltrúa fær sá listi sem hefur hæsta útkomutölu. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið þar til úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
3. Ef of fá nöfn eru á lista þegar til úthlutunar kemur skal ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun. Ef tvær eða fleiri útkomutölur eru jafnháar skal varpa hlutkesti.
4. Ef í ljós kemur að þessu loknu að annað kynið hefur ekki eins marga fulltrúa af hverjum lista fyrir sig og krafist er í 2. tölul. 44. gr. skal færa einstaklinga af því kyni sem fulltrúa vantar svo langt upp listann sem þarf þannig að tilskilið hlutfall náist.
Ef ekki er kosið hlutfallskosningu til nefndar, sbr. 1. mgr. 43. gr., skal sveitarstjórn gæta þess að fullnægja kröfum um kynjahlutfall skv. 2. tölul. 44. gr. við skipun í viðkomandi nefnd.
46. gr. Fundir nefnda og ályktunarhæfi.
Fundir nefnda skulu almennt haldnir fyrir luktum dyrum. Nefnd er heimilt að opna fundi sína komi fram ósk um slíkt svo fremi sem lög eða eðli máls hamli því ekki. Sveitarstjórn skal setja reglur um meðferð óska um opna fundi nefnda þar sem fram komi skilyrði opnunar. Um fundi nefnda, ályktunarhæfi og atkvæðagreiðslur gilda ákvæði III. kafla eftir því sem við getur átt.
47. gr. Varamenn.
Varamenn taka sæti í nefndum í þeirri röð sem þeir eru kosnir.
Þegar kosið er til nefndar hlutbundinni listakosningu eða listi hefur verið sjálfkjörinn, og aðalmaður í nefnd er forfallaður taka varamenn af þeim lista sem aðalmaður er kjörinn af sæti í nefnd í þeirri röð sem þeir skipa listann eftir að endurröðun á hann hefur farið fram skv. 4. tölul. 1. mgr. 45. gr.
Ef tveir eða fleiri flokkar eða framboðslistar til sveitarstjórnar leggja í sameiningu fram tillögu að lista við hlutbundna kosningu í nefnd sveitarstjórnar geta þeir komið sér saman um að varamenn á listanum vegna nefndarkosningarinnar, sem eru þar fulltrúar sama flokks eða framboðslista og sá aðalmaður í nefnd sem um ræðir, taki sæti hans í nefndinni í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn úr hópi varamanna viðkomandi lista í sama flokki eða tilheyri sama framboðslista og aðalmaður tilheyrði þegar kosning í nefnd fór fram taka varamenn af listanum sæti eftir venjulegum reglum.
Yfirlýsingu um samkomulag skv. 3. mgr. skal leggja fram á fyrsta sveitarstjórnarfundi eftir að nefndarkosning fór fram og gildir hún til loka kjörtímabils eða þar til kjörið er í nefnd að nýju.
48. gr. Boðun varamanna.
Um boðun varamanna í nefndir gilda ákvæði 31. gr. eftir því sem við getur átt.
Þegar aðalmaður í nefnd fellur frá, missir kjörgengi, fær lausn frá nefndarstarfi eða forfallast varanlega frá því að sitja í nefnd tekur varamaður hans sæti í nefndinni nema sveitarstjórn ákveði að kjósa aðalmann að nýju. Ella skipar sveitarstjórn nýjan varamann til setu í nefndinni.
Ákvæði þessa kafla um varamenn eiga einnig við um varaáheyrnarfulltrúa eftir því sem við getur átt.
49. gr. Lausn frá nefndarsetu og endurskipun.
Fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags, sem ekki eru aðal- eða varamenn í sveitarstjórn, er heimilt að segja af sér nefndastörfum hvenær sem er á kjörtímabili. Aðrir fulltrúar geta óskað eftir því við sveitarstjórn að þeim verði veitt lausn tímabundið eða út kjörtímabilið og metur hún þá hvort skilyrði til þess séu fyrir hendi.
Sveitarstjórn getur hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar eða málefnalegar ástæður mæla með slíkri breytingu, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. Enn fremur getur sveitarstjórnarmaður krafist þess að nefnd verði endurskipuð telji hann ástæðu til. Sveitarstjórn er þó heimilt að hafna slíkri beiðni ef hún er bersýnilega tilefnislaus að því tilskildu að 2/ 3 fundarmanna greiði atkvæði með tillögu um höfnun. Við framangreindar breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skal kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör þeirra skv. 1. mgr. 43. gr. nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar.
Breytingar á nefndaskipan samkvæmt þessari grein skulu fullnægja skilyrðum 2. tölul. 44. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. um kynjahlutföll.
50. gr. Áheyrnarfulltrúar.
Hafi sveitarstjórn verið kjörin bundinni hlutfallskosningu og einhver framboðsaðili sem fulltrúa á í sveitarstjórn nær ekki kjöri í byggðarráð er fulltrúum þessa aðila heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til þátttöku í fundum nefndarinnar. Hið sama á við um fastanefndir sem falið hefur verið fullnaðarákvörðunarvald í málum. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að sama regla gildi um aðrar fastanefndir.
… 1) Um áheyrnarfulltrúa á fundum nefnda gilda sömu þagnarskylduákvæði laga og eiga við um aðra nefndarmenn.
Áheyrnarfulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi skv. 1. mgr. skulu fullnægja kjörgengisskilyrðum í viðkomandi nefnd.
1)L. 107/2021, 44. gr.
51. gr. Þóknun.
Sveitarstjórn er skylt að ákveða kjörnum fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags hæfilega þóknun fyrir þau störf samkvæmt mati sveitarstjórnar í samræmi við reglur sem hún setur. Sveitarstjórn er með sama hætti heimilt að ákveða að greiða áheyrnarfulltrúum þóknun fyrir störf þeirra í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags.
52. gr. Önnur réttindi og skyldur.
Nefndarmönnum er skylt að sækja fundi nefndar.
Ákvæði III. og IV. kafla gilda að öðru leyti um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélaga eftir því sem við á. Réttindi takmarkast þó eftir eðli máls við það sem viðkomandi fulltrúum er þörf á vegna starfa í viðkomandi nefnd.
53. gr. Aðrar nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélag á aðild að.
Sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarfélagið á aðild að samkvæmt viðkomandi lögum eða samþykktum. Ákvæði þessa kafla eiga við um slíka fulltrúa eftir því sem við getur átt.
Að því leyti sem nefnd, ráð eða stjórn lögaðila, sem sveitarstjórn kýs fulltrúa til skv. 1. mgr., fer með framkvæmd eða ábyrgð á verkefni sem sveitarfélagi væri ekki sjálfu heimilt að sinna, þá er fulltrúi sveitarfélags í viðkomandi nefnd, ráði eða stjórn ekki bundinn af fyrirmælum sveitarstjórnarinnar um þau störf. Hið sama á við að því leyti sem það leiðir af lögum sem gilda um rekstur og starfsemi viðkomandi lögaðila.
VI. kafli. Framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn sveitarfélaga.
54. gr. Ráðning framkvæmdastjóra.
Sveitarstjórn ræður framkvæmdastjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélags. Heimilt er tveimur sveitarfélögum eða fleiri að ráða sameiginlegan framkvæmdastjóra.
Sveitarstjórn skal gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra þar sem starfskjör hans eru ákveðin. Ráðningartími framkvæmdastjóra skal að jafnaði vera sá sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Heimilt er að semja um gagnkvæman uppsagnarfrest innan ráðningartíma.
55. gr. Hlutverk framkvæmdastjóra.
Framkvæmdastjóri er æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna.
Framkvæmdastjóri skal sitja fundi sveitarstjórnar. Þar hefur hann málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni. Hann hefur jafnframt rétt til setu á fundum nefnda sveitarstjórnar.
Framkvæmdastjóri skal sjá um að fundir sveitarstjórnar, byggðarráðs og annarra nefnda sveitarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst. Hann sér einnig um að ákvarðanir þær sem teknar eru af hálfu sveitarstjórnar og annarra nefnda komist til framkvæmda, hafi sveitarstjórn ekki falið það öðrum.
Framkvæmdastjóri er prókúruhafi sveitarfélags. Honum er heimilt að veita öðrum starfsmanni sveitarfélagsins prókúru að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Prókúruhafar skulu vera fjár síns ráðandi.
Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.
Í samþykkt um stjórn sveitarfélags skal setja nánari ákvæði um verksvið framkvæmdastjóra og mörk milli þess og ákvörðunarvalds sveitarstjórnar og byggðarráðs.
56. gr. Ráðning annarra starfsmanna.
Sveitarstjórn ræður starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og veitir þeim lausn frá starfi. Um ráðningu annarra starfsmanna annast framkvæmdastjóri, enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum.
57. gr. Starfskjör, réttindi og skyldur.
Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fer eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga.
[Starfsmenn sveitarfélaga og aðrir sem sveitarfélög ráða til vinnu við ákveðin verkefni eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga.] 1)
1)L. 71/2019, 5. gr.
VII. kafli. Fjármál sveitarfélaga.
58. gr. Fjárstjórnarvald sveitarstjórnar.
Einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvarðanir um málefni sem varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast m.a. ákvarðanir um eftirtalin atriði séu ekki gerðar beinar undantekningar þar á með lögum:
1. staðfestingu ársreiknings,
2. fjárhagsáætlun næstkomandi árs,
3. fjárhagsáætlun til fjögurra ára,
4. viðauka við fjárhagsáætlanir skv. 2. og 3. tölul.,
5. lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags,
6. sölu eigna sveitarfélagsins og annarra réttinda þess,
7. álagningu skatta og gjalda,
8. ráðningu eða uppsögn endurskoðanda.
Í samþykkt um stjórn sveitarfélags er heimilt að fela byggðarráði að taka fullnaðarákvarðanir í þeim málefnum sem tilgreind eru í 5. og 6. tölul. 1. mgr., enda sé ekki um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða og ákvörðun rúmist innan fjárhagsáætlunar til eins árs og áætlunar til fjögurra ára, eigi hún við.
59. gr. Reikningsárið og bókhaldsskylda.
Reikningsár sveitarfélaga er almanaksárið. Sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki eru bókhaldsskyld og gilda ákvæði laga um bókhald og laga um ársreikninga, svo og aðrar góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur, um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga. Bókhaldi sveitarfélags skal hagað á skýran og aðgengilegan hátt og skulu reikningsskil gefa glögga mynd af rekstri, efnahag og sjóðstreymi.
60. gr. Flokkun í bókhaldi og reikningsskilum.
Í reikningsskilum sveitarfélaga skal skipta starfsemi þeirra þannig:
1. A-hluti, sem í lögum þessum merkir aðalsjóð sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.
2. B-hluti, sem í falla stofnanir sveitarfélaga, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.
Sveitarfélögum er heimilt eftir því sem leiðir af viðkomandi lagareglum að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem er bundið í rekstri stofnana þeirra og fyrirtækja.
61. gr. Ársreikningur.
Gera skal ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald, sbr. 60. gr. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum um ársreikninga, reglum settum samkvæmt þeim lögum og lögum þessum, sem og góðri reikningsskilavenju.
Í ársreikningi skal koma fram samanburður við
a. ársreikning undanfarins árs,
b. upphaflega fjárhagsáætlun ársins,
c. fjárhagsáætlun ársins ásamt viðaukum.
Ársreikningur sveitarfélags skal fullgerður og samþykktur af byggðarráði eða framkvæmdastjóra sveitarfélags þar sem ekki er byggðarráð og tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í sveitarstjórn fyrir 15. apríl ár hvert.
Sveitarstjórn skal hafa lokið staðfestingu ársreiknings sveitarfélags, stofnana sveitarfélags og fyrirtækja þess eigi síðar en 15. maí ár hvert.
62. gr. Fjárhagsáætlanir.
Sveitarstjórn skal á hverju ári afgreiða fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og næstu þrjú ár þar á eftir. Saman mynda þessar áætlanir fjögurra ára áætlun fyrir sveitarfélagið sem felur í sér heildaráætlun um fjármál sveitarfélagsins á tímabilinu, bæði A- og B-hluta skv. 60. gr. Skal fjárhagsáætlun næsta árs fela í sér bindandi ákvörðun um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélagsins á því ári sem hún tekur til, sbr. nánari fyrirmæli í 63. gr.
Fjárhagsáætlanir skulu gefa glögga mynd af rekstri sveitarfélagsins, efnahag og breytingum á handbæru fé. Einnig skal þar koma fram greinargott yfirlit um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjárheimildir sveitarfélagsins. Við gerð fjárhagsáætlana skal hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu sveitarsjóðs og stofnana sveitarfélagsins við upphaf áætlunartímabilsins.
Byggðarráð eða framkvæmdastjóri, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn sveitarfélags, leggur tillögu um fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Sveitarstjórn skal fjalla um þær á tveimur fundum sem fram skulu fara með minnst tveggja vikna millibili. Að lokinni umræðu sveitarstjórnar skal afgreiða þær, þó ekki síðar en 15. desember. Ráðherra getur að ósk sveitarstjórnar veitt henni lengri tíma til afgreiðslu fjárhagsáætlunar ef brýn nauðsyn krefur.
Tillögum skv. 3. mgr. skulu fylgja upplýsingar um þær forsendur sem byggt er á. Tillögunum skal fylgja lýsing helstu framkvæmda og skuldbindinga sem gert er ráð fyrir.
63. gr. Bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun ársins.
Ákvörðun sem sveitarstjórn tekur skv. 1. mgr. 62. gr. um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins. Aðrir geta þó ekki byggt sjálfstæðan rétt til fjárframlaga eða annarrar fyrirgreiðslu sveitarfélags á fjárhagsáætlunum.
Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli liða í fjárhagsáætlun í þegar samþykktri áætlun. Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt. Á það einnig við þótt heildarútgjöld eða heildartekjur breytist ekki vegna samþykktar hans.
Þrátt fyrir 2. mgr. má í undantekningartilvikum gera þær ráðstafanir sem skylt er samkvæmt lögum eða öðrum bindandi réttarreglum án þess að sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka, enda þoli þær ekki bið. Viðhlítandi heimildar sveitarstjórnar skal þá afla svo fljótt sem auðið er. Skal erindi um slíka heimild lagt fyrir þegar á næsta fundi sveitarstjórnarinnar.
Í reglugerð sem sett er á grundvelli 75. gr. er heimilt að skilgreina þau tilvik þar sem tilfærslur innan málaflokka eru heimilaðar án þess að fyrir liggi samþykktur viðauki, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Þó skulu allar slíkar breytingar færðar í viðauka við fyrsta tækifæri.
64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.
Skyldu skv. 1. mgr. skal sveitarstjórn fullnægja m.a. með því að:
1. samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og
2. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.
Ráðherra skilgreinir í reglugerð 1) nánar þau viðmið sem lögð eru til grundvallar skv. 2. mgr., þar á meðal um útgjöld, tekjur, eignir, skuldir og skuldbindingar og aðlögun sveitarfélaga að þeim. Þar skal jafnframt heimilt að undanþiggja nánar tilgreindar skuldir eða skuldbindingar einstakra sveitarfélaga þannig að þær hafi engin eða aðeins hlutfallsleg áhrif skv. 2. tölul. 2. mgr.
1)Rg. 502/2012, sbr. 793/2017 og 458/2018.
65. gr. Ábyrg meðferð fjármuna.
Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og varðveita fjármuni með ábyrgum hætti, svo sem á innlánsreikningum fjármálastofnana eða með því að kaupa ríkistryggð verðbréf. Sveitarfélögum er óheimilt að fjárfesta í hagnaðarskyni nema um sé að ræða verkefni sem þeim hefur með lögum verið falið eða heimilað að sinna. Þó er sveitarfélögum heimilt að taka þátt í verkefnum í ljósi brýnna samfélagslegra hagsmuna en þó þannig að áhætta vegna þátttöku í þeim gangi ekki gegn ábyrgri meðferð fjármuna.
66. gr. Miklar fjárfestingar og skuldbindingar.
Áður en sveitarstjórn tekur ákvörðun um fjárfestingu, framkvæmd eða aðra skuldbindingu sem nemur hærri fjárhæð en 20% af skatttekjum sveitarfélagsins yfirstandandi reikningsár er skylt að gera sérstakt mat á áhrifum hennar á fjárhag sveitarfélagsins. Hér undir falla m.a. framkvæmdir, fjárfestingar í eignum, samningar um þjónustu, sölu og endurleigu fasteigna, fjármögnunarsamningar, rekstrarleigusamningar og því um líkar ráðstafanir. Hér undir falla einnig ákvarðanir um veitingu ábyrgða skv. 69. gr. og þær ákvarðanir fyrirtækja og stofnana sveitarfélags sem leiða til þess að ábyrgðarskuldbindingar sveitarfélags hækka um sem nemur hærri fjárhæð en 20% af skatttekjum viðkomandi ár.
Í mati skal gera grein fyrir kostnaðaráætlun og forsendum hennar, áhrifum á fjárhag sveitarfélags til lengri tíma og áhrifum af rekstrarkostnaði sé um hann að ræða. Í þeim tilvikum sem fjárfestingu, framkvæmd eða skuldbindingu er skipt á fleiri en eitt tímabil eða einingar skal líta á ákvörðunina í heild sinni. Mat skal framkvæmt af sérfróðum aðila sem ekki er tengdur sveitarfélaginu.
67. gr. Yfirráð yfir fasteignum og öðrum eignum.
Sveitarfélag skal tryggja sér viðeigandi nýtingar- eða afnotarétt af fasteignum og mannvirkjum, svo sem veitum, sem nauðsynleg eru til að lögboðin verkefni sveitarfélags verði rækt.
68. gr. Heimild til veðsetningar.
Sveitarfélag má ekki veðsetja öðrum tekjur sínar. Ekki heldur fasteignir eða aðrar eignir sem það á og eru nauðsynlegar til að lögboðin verkefni sveitarfélags verði rækt, sbr. 67. gr. Aðrar eignir má veðsetja til tryggingar lánum sem sveitarfélag tekur til eigin þarfa og heildareignir sveitarfélags standa til tryggingar skuldbindingum þess.
Þrátt fyrir 1. mgr. getur sveitarfélag veitt Lánasjóði sveitarfélaga ohf. veð í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum og vegna ábyrgða sem það veitir honum skv. 1. og 2. mgr. 69. gr. Ráðherra setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um tryggingar lánasjóðsins samkvæmt þessari málsgrein.
1)Rg. 835/2012.
69. gr. Heimild til að gangast í ábyrgðir.
Sveitarfélag getur veitt einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum stofnana og fyrirtækja sem það á að öllu leyti, enda sinni þær verkefnum sem teljast til lögákveðinna verkefna sveitarfélaga.
Sveitarfélag getur einnig veitt einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum stofnana og fyrirtækja sem það á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila. Innbyrðis skal ábyrgð eigenda skiptast í hlutfalli við eignarhlut. Skilyrði er að viðkomandi lögaðili sé að fullu í eigu opinberra aðila, að trygging sé bundin við lántöku vegna lögákveðins verkefnis sveitarfélaga og að allir eigendur ábyrgist lán í samræmi við eignarhlut sinn. Ábyrgð fellur úr gildi ef lögaðili færist að einhverju leyti í eigu einkaaðila.
Sveitarfélag má ekki ganga í ábyrgðir vegna annarra skuldbindinga en greinir í 1. og 2. mgr. Prókúruhafa sveitarfélags er þó heimilt fyrir þess hönd að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.
70. gr. Skuldajöfnuður.
Kröfur á hendur sveitarfélagi má ekki nota til skuldajafnaðar við kröfu sveitarfélags um lögboðin gjöld til sveitarfélagsins eða stofnana þess.
Fjármálastofnun má ekki nýta fjármuni sem sveitarfélag hefur afhent henni til varðveislu skv. 65. gr. til skuldajafnaðar til fullnustu kröfu sem stofnunin kann að eiga á sveitarfélagið.
71. gr. Gjaldþrotaskipti og aðför.
Sveitarfélög verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta. Ekki verður gerð aðför í þeim eignum sveitarfélaga sem eru nauðsynlegar til framkvæmda á lögboðnum verkefnum.
72. gr. Endurskoðun.
Sveitarstjórn ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast skal endurskoðun ársreikninga hjá sveitarfélaginu. Endurskoðun fer eftir lögum um endurskoðendur, lögum um ársreikninga og alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum, sem og fyrirmælum laga þessara.
Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning sveitarfélags skv. 61. gr. í samræmi við 1. mgr. og í því sambandi kanna bókhaldsgögn sveitarfélagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal gera grein fyrir áliti sínu í áritun sinni á ársreikninginn.
Endurskoðandi sveitarfélags skal jafnframt kanna hvort fullnægjandi heimildir hafi verið fyrir útgjöldum og hvort almenn stjórnsýsla sveitarfélags og einstakar ákvarðanir af hálfu þess eru í samræmi við reglur um fjármál sveitarfélags, ábyrga fjármálastjórn og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.
Endurskoðandi sveitarfélags skal skila skriflegri skýrslu til sveitarstjórnar um mikilvæg atriði sem fram hafa komið við endurskoðun ársreiknings og könnun skv. 3. mgr. Í skýrslunni skal sérstaklega, ef við á, geta um veikleika í innra eftirliti í vinnuferli við gerð reikningsskila.
Sveitarstjórn skal veita endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki aðgang að öllum þeim upplýsingum og gögnum sem þörf er á vegna endurskoðunar. Reglur um þagnarskyldu takmarka ekki rétt endurskoðenda í þessu efni.
Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun sveitarfélags skal taka sér hlé frá endurskoðun þess í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að hann var ráðinn til verksins.
Endurskoðandi sveitarfélags skal vera óháður sveitarfélaginu, bæði í reynd og ásýnd, sbr. lög um endurskoðendur. Endurskoðanda er óheimilt að taka þátt í ákvörðunum sveitarstjórnar eða stjórnenda sveitarfélags sem geta leitt til þess að hlutleysi hans við framkvæmd endurskoðunarstarfa sé stefnt í hættu.
73. gr. Álitsgerðir endurskoðanda og meðferð þeirra.
Verði endurskoðandi var við að reikningsskil og fjármál sveitarfélags séu ekki í samræmi við kröfur laga og reglna skal hann þá þegar, einnig innan ársins ef við á, greina sveitarstjórn og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga frá því með skriflegri álitsgerð. Þagnarskylda samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum stendur þeirri skyldu ekki í vegi.
Berist sveitarstjórn skriflegt álit endurskoðanda um að reikningsskil eða fjármál sveitarfélags séu ekki í samræmi við kröfur skal oddviti tryggja að álitið hafi borist öllum aðalmönnum í sveitarstjórn ekki síðar en sjö dögum eftir að það liggur fyrir.
Endurskoðandi sveitarfélags getur krafist þess sérstaklega að álit hans sé tekið til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar. Enn fremur skal taka slíkt álit til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar ef sveitarstjórnarmaður krefst þess.
74. gr. Reikningsskila- og upplýsinganefnd.
Ráðherra skipar fimm manna reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga til fimm ára í senn. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á reikningsskilum sveitarfélaga. Tvo skal skipa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn samkvæmt tillögu Hagstofu Íslands og tvo án tilnefningar. Skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Fimm varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.
Nefndin skal í störfum sínum stuðla að samræmingu í reikningsskilum sveitarfélaga og öðrum fjárhagslegum ráðstöfunum þeirra. Þá sinnir hún öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði.
75. gr. Reglur um bókhald og reikningsskil.
Að fengnum tillögum reikningsskila- og upplýsinganefndar skal ráðherra setja reglugerð 1) um:
1. bókhald sveitarfélaga, þar á meðal um samræmdan upplýsingalykil,
2. vinnslu, meðferð, form og efni fjárhagsáætlana,
3. vinnslu, meðferð, form og innihald ársreiknings og meðferð á skýrslum endurskoðanda um hann.
Reikningsskila- og upplýsinganefnd getur eftir því sem tilefni er til gefið út nánari leiðbeiningar og álit um bókhald, fjárhagsáætlanir og reikningsskil sveitarfélaga.
1)Rg. 1212/2015, sbr. 792/2017, 230/2021, 14/2022 og 1188/2022.
76. gr. Skil á upplýsingum um fjármál.
Fjárhagsáætlanir skal senda ráðuneytinu innan 15 daga frá afgreiðslu þeirra. Hið sama á við um viðauka sem eru gerðir við slíkar áætlanir.
Ársreikning sveitarfélags, ásamt skýrslu endurskoðanda, skal senda ráðuneytinu og Hagstofu Íslands ekki síðar en 20. maí ár hvert. Álit endurskoðanda skv. 73. gr. skal hann sjálfur senda ráðuneytinu jafnskjótt og það er afhent sveitarfélagi.
Að fengnum tillögum reikningsskila- og upplýsinganefndar skal ráðherra setja reglugerð um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum til afnota fyrir ráðuneytið, aðra opinbera aðila og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í reglugerð skal m.a. mælt fyrir um framsetningu og form slíkra upplýsinga, sem og um rafræn skil þeirra eftir því sem við á. Haft skal samráð við Hagstofu Íslands um setningu reglugerðarinnar.
VIII. kafli. Eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.
77. gr. Skyldur sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn ber ábyrgð á fjárhag sveitarfélags. Henni ber að tryggja að ákvæðum laga þessara um fjármál sveitarfélaga sé fylgt.
Komist sveitarfélag í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér ekki unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Á sama hátt skal sveitarstjórn gera eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga viðvart telji hún að fjármál sveitarfélags eða einstakar fjárhagslegar ráðstafanir séu ekki í samræmi við lög þessi eða fjármál sveitarfélags stefni að öðru leyti í óefni. Ef skilyrði 86. gr. eru fyrir hendi skal tilkynning fela í sér ósk um skipun fjárhaldsstjórnar.
78. gr. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Ráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga til fimm ára í senn. Nefndarmenn skulu hafa sérstaka þekkingu á fjárhagslegum málefnum sveitarfélaga. Einn fulltrúi í nefndinni skal skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.
Kostnaður af störfum eftirlitsnefndarinnar, þ.m.t. þóknun nefndarmanna, greiðist úr ríkissjóði. Skal þóknunin ákveðin af ráðherra.
Nefndin er sérstakt stjórnvald sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Ákvarðanir hennar sæta þó ekki kæru til ráðherra.
79. gr. Hlutverk eftirlitsnefndar.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skal fylgjast með fjármálum, þ.m.t. reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, og bera þau saman við viðmiðanir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Nefndin skal hafa almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur.
Eftirlit nefndarinnar og ákvarðanir hennar skulu byggjast á heildarmati á fjárhagslegri stöðu viðkomandi sveitarfélaga. Nefndinni ber í einstökum málum að velja þau úrræði sem líklegast er að nái því markmiði sem að er stefnt að teknu tilliti til sjálfstjórnar sveitarfélaga.
80. gr. Aðgangur eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að upplýsingum.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skal hafa aðgang að öllum upplýsingum um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga sem berast ráðuneytinu.
Sveitarfélög skulu veita eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og starfsmönnum hennar aðgang að starfsstöðvum sveitarfélagsins, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum sveitarfélags sem henni er þörf á vegna starfs síns auk skýringa um slík atriði innan frests er nefndin tiltekur.
81. gr. Reglur um störf eftirlitsnefndar og viðmið um fjármál sveitarfélaga.
Ráðherra setur reglugerð 1) um störf eftirlitsnefndar. Þar mælir hann m.a. fyrir um málsmeðferð eftirlitsnefndar og nauðsynlegar viðmiðanir varðandi fjárhagsleg málefni sveitarfélaga, sbr. 64. gr.
1)Rg. 502/2012, sbr. 793/2017 og 458/2018.
82. gr. Nánar um úrræði eftirlitsnefndar.
Í því skyni að fullnægja hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum getur eftirlitsnefndin:
1. birt reglubundið almennar grunnupplýsingar um fjárhag sveitarfélaga,
2. sent fyrirspurnir til sveitarstjórna þar sem óskað er skýringa eða gagna innan ákveðins frests,
3. sent skriflegar ábendingar eða tilmæli til sveitarstjórnar vegna fjárhagslegrar stöðu sveitarfélags eða einstakra fjárhagslegra ákvarðana,
4. látið fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélags og lagt síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests,
5. birt opinberlega tilkynningu eða ályktun um stöðu eða einstakar fjárhagslegar ákvarðanir sveitarfélags,
6. vísað máli til ráðherra, sbr. 83.–85. gr.
83. gr. Samkomulag sveitarstjórnar og ráðherra um fjármál.
Þegar tilefni er til vegna fjármála eða fjármálastjórnar sveitarfélags skulu ráðherra og viðkomandi sveitarstjórn, á grundvelli rökstuddrar tillögu eftirlitsnefndar, gera samkomulag um fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins. Í samkomulagi skal fjalla um tilgang þess og viðmið um fjárhagsleg málefni eftir því sem þörf er á, þar á meðal um rekstur, fjárfestingar og álagningu gjalda og skatta.
Ráðherra getur einnig gert samkomulag samkvæmt þessari grein að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar. Skal þá leitað umsagnar eftirlitsnefndar áður en samkomulag er gert.
Þegar samkomulag liggur fyrir skal það staðfest af ráðuneytinu annars vegar og viðkomandi sveitarstjórn hins vegar. Ráðuneytið getur gert þá kröfu að 2/ 3 fulltrúa á fundi sveitarstjórnar greiði atkvæði með samkomulaginu til að það öðlist gildi. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur eftirlit með framkvæmd sveitarfélags á samkomulagi samkvæmt þessari grein.
84. gr. Önnur úrræði ráðherra.
Ef samkomulag skv. 83. gr. hefur ekki skilað árangri, samkomulag hefur ekki náðst eða ekki verður talið að gerð samkomulags muni færa fjármál sveitarfélags til betri vegar getur ráðherra að fenginni rökstuddri tillögu eftirlitsnefndar:
1. veitt sveitarfélagi styrk eða lán úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að koma fjárhag sveitarfélagsins á réttan kjöl, enda sé haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd skv. 15. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, um þá ráðstöfun,
2. heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn að leggja álög á útsvör og eða fasteignaskatta sem nemi allt að 25% umfram það hámark sem ákveðið er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
3. sett sveitarfélagi fyrirmæli um rekstur og stjórnsýslu, sbr. 85. gr.
Ef þörf er á getur ráðherra einnig samhliða samkomulagi skv. 83. gr. beitt úrræðum skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr.
Beiting úrræða samkvæmt kafla þessum útilokar ekki að ráðherra beiti einnig úrræðum skv. XI. kafla.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur eftirlit með framkvæmd ákvarðana ráðherra samkvæmt þessari grein.
Ákvæði 2. mgr. 79. gr. gildir um ákvarðanir ráðherra eftir því sem við á.
85. gr. Nánar um skilyrði sem ráðherra getur sett um stjórn fjármála sveitarfélags.
Skilyrði sem ráðherra getur sett sveitarfélagi um rekstur og stjórnsýslu skv. 3. tölul. 1. mgr. 84. gr. geta m.a. kveðið á um að:
1. sveitarfélag skili mánaðarlega upplýsingum úr bókhaldi, sem a.m.k. gefi yfirlit um tekjur, gjöld, handbært fé, eignir og skuldir,
2. sveitarfélag vinni og afgreiði fjárhagsáætlun til allt að 10 ára, þar á meðal um að slík áætlun skuli gerð árlega og fullnægi, eftir því sem við á, reglum um fjögurra ára áætlun,
3. sveitarfélag leiti aðstoðar hjá sérhæfðum ráðgjafa eða öðrum sérfræðingi,
4. fjárhagsáætlanir, þar á meðal áætlun skv. 2. tölul., og starfsemi sveitarfélags að öðru leyti, séu í samræmi við tiltekin viðmið um:
a. framlegð af rekstri,
b. samdrátt í rekstri eða samdrátt í ákveðnum þætti rekstrar,
c. takmarkanir á fjárfestingum,
d. takmarkanir á lántökum og öðrum skuldbindingum, þar á meðal um gjaldmiðil sem heimilt er að taka lán í, um endurfjármögnun og önnur lánskjör,
e. nýtingu tekjustofna, og
f. annað sem telja má þýðingarmikið fyrir fjármál viðkomandi sveitarfélags,
5. mat skv. 66. gr. skuli framkvæmt af tilteknum aðila eða aðila með tiltekna sérfræðikunnáttu um lægri viðmiðun en tilgreind er í 66. gr. og nánari fyrirmæli um það sem leggja skal mat á.
86. gr. Ákvörðun um fjárhaldsstjórn og svipting fjárforráða.
Hafi sveitarstjórn vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum ítrekað og verulega getur ráðherra að fenginni tillögu eftirlitsnefndar svipt sveitarstjórn fjárforráðum sveitarfélags og skipað því fjárhaldsstjórn.
Hið sama á við ef greiðslubyrði sveitarfélags umfram greiðslugetu er svo mikil að ljóst er að ekki mun úr rætast í bráð.
Birta skal ákvörðun um sviptingu fjárforræðis og skipun fjárhaldsstjórnar í Lögbirtingablaði.
87. gr. Fjárhaldsstjórn.
Fjárhaldsstjórn sveitarfélags skal skipuð þremur mönnum, þar af einum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á málefnum sveitarfélaga. Formaður skal skipaður af ráðherra. Hann skal fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara.
Fjárhaldsstjórn skal skipuð til tiltekins tíma og ekki lengur en til eins árs í senn. Þóknun til fjárhaldsmanna skal ákveðin af ráðherra og greiðist úr ríkissjóði.
88. gr. Réttaráhrif skipunar fjárhaldsstjórnar.
Hafi sveitarfélagi verið skipuð fjárhaldsstjórn skv. 86. gr. má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Ályktanir sveitarstjórnar og annarra sem tilheyra stjórnsýslu sveitarfélags og hafa útgjöld í för með sér eru ógildar nema til komi samþykki fjárhaldsstjórnar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.
Eftir að fjárhaldsstjórn hefur verið skipuð skal almennt heimilt að ráðstafa fjármunum sveitarfélagsins vegna:
1. lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins,
2. launa sem sveitarfélaginu ber að greiða og tengdra greiðslna,
3. aðgerða sem telja má víst að séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir verulegt tjón.
Fjárhaldsstjórn ákveður greiðslur skv. 2. mgr. og vegna annarra útgjalda sem hún telur rétt að mæta á meðan á greiðslustöðvun stendur.
Að öðru leyti en að framan greinir leiðir skipun fjárhaldsstjórnar til sömu réttaráhrifa og greiðslustöðvun eftir ákvæðum IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. í allt að eitt ár frá því að fjárhaldsstjórnin var fyrst skipuð.
89. gr. Hlutverk og úrræði fjárhaldsstjórnar.
Fjárhaldsstjórn skal rannsaka fjárreiður sveitarfélagsins og allan rekstur þess og gera áætlun um tekjur og gjöld sveitarfélagsins, a.m.k. fyrir næstu fjögur fjárhagsár. Áætlunin skal þannig fram sett að hún geti enn fremur gilt sem fjárhagsáætlun næstkomandi reikningsárs og fjárhagsáætlun til fjögurra ára fyrir sveitarfélagið. Áætlunina skal senda ráðuneytinu til staðfestingar ásamt umsögn sveitarstjórnar. Að lokinni staðfestingu ráðuneytis gildir áætlunin sem fjárhagsáætlun fyrir næstkomandi ár og áætlun til fjögurra ára.
Fjárhaldsstjórn getur með samþykki ráðuneytisins selt eigur sveitarfélagsins til lúkningar skuldum, þó ekki þær sem eru nauðsynlegar til framkvæmda á lögskyldum verkefnum. Með sama móti getur fjárhaldsstjórn ákveðið að færa tiltekna starfsemi sem rekin hefur verið á vegum sveitarfélags í hendur einkaaðila eða leitað samvinnu um rækslu hennar við annað sveitarfélag samkvæmt ákvæðum laga þessara.
Ef sveitarfélagi hefur verið skipuð fjárhaldsstjórn og fyrir liggur að það er og verður um ófyrirséða framtíð ófært um að standa í skilum með skuldbindingar sínar getur fjárhaldsstjórn ákveðið einhliða að leita nauðasamnings fyrir það. Einhliða nauðasamninga skal einungis leita hafi samningar við lánardrottna ekki borið árangur. Um slíkan nauðasamning gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem við getur átt en þó þannig að umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum lætur ekki greiða atkvæði um frumvarp að nauðasamningi.
90. gr. Sameining við annað sveitarfélag.
Nú duga framangreindar ráðstafanir ekki til þess að koma fjárhag sveitarfélags og stofnana þess á réttan kjöl og getur þá ráðuneytið einnig ákveðið að leita samninga við nágrannasveitarfélög um sameiningu við það sveitarfélag sem undir fjárhaldsstjórn er eða hluta þess.
91. gr. Brottfall á sviptingu fjárforráða.
Svipting fjárforræðis og skipun fjárhaldsstjórnar fellur niður eftir ákvörðun ráðherra þegar telja má að fjárhagur sveitarfélagsins sé kominn í viðunandi horf. Auglýsing þar að lútandi skal birt á sama hátt og auglýsing um sviptingu fjárforræðis.
Í eitt ár eftir að svipting fjárforráða fellur brott þarf ávallt samþykki ráðuneytisins á viðaukum við fjárhagsáætlanir sem fjárhaldsstjórn vann og ráðuneytið staðfesti. Á sama tímabili getur ráðuneytið einnig einhliða ákveðið viðauka við umræddar fjárhagsáætlanir sé það nauðsynlegt af tilliti til fjárhags sveitarfélagsins til lengri eða skemmri tíma. Haft skal viðeigandi samráð við sveitarstjórn um slíka ákvörðun.
IX. kafli. Samvinna sveitarfélaga og samningar um starfrækslu verkefna.
92. gr. Samvinna sveitarfélaga.
Tveimur eða fleiri sveitarfélögum er heimilt að hafa samvinnu sín á milli um framkvæmd afmarkaðra verkefna, enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót. Ef sveitarstjórn er óheimilt að framselja vald til fullnaðarafgreiðslu innan sveitarfélags er einnig óheimilt að framselja til aðila utan sveitarfélags slíkt vald nema fyrir því sé sérstök lagaheimild.
Samvinna sveitarfélaga skal ávallt grundvallast á samningi viðeigandi sveitarfélaga, sem ekki öðlast gildi fyrr en hann hefur fengið staðfestingu viðkomandi sveitarstjórna. Sé ekki ítarlegri ákvæði að finna í lögum skal í samningi um samvinnu að lágmarki kveðið á um form samvinnu, ákvarðanatöku, slit samvinnu og fjárhagsleg atriði.
Ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli samnings um samvinnu sveitarfélaga, jafnvel þótt þær byggist á framsali á valdi til töku ákvörðunar um rétt eða skyldu manna, sæta ekki kæru til viðkomandi sveitarfélaga.
93. gr. Framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna.
Ef í samningi um samvinnu sveitarfélaga felst framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, getur hún aðeins farið fram á vegum byggðasamlags eða á þann hátt að eitt sveitarfélag tekur að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög nema lög veiti sérstaka heimild fyrir öðru formi samstarfs. Samningar samkvæmt þessari grein öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins.
94. gr. Byggðasamlög.
Sveitarfélögum er heimilt að stofna byggðasamlög sem taka að sér framkvæmd afmarkaðra verkefna þeirra, svo sem rekstur skóla eða brunavarnir.
Byggðasamlögum er einum rétt og skylt að hafa orðið byggðasamlag í heiti sínu eða skammstöfunina bs.
Í samningi um byggðasamlag skulu m.a. vera ákvæði um:
1. heiti byggðasamlags, eignarhluti einstakra sveitarfélaga í byggðasamlaginu, hvaða verkefnum það sinnir og valdheimildir,
2. kjör til stjórnar, fjölda stjórnarmanna, kjörtímabil og varafulltrúa,
3. ályktunarhæfi funda og annað sem máli skiptir í því sambandi,
4. umboð stjórnar til að skuldbinda aðildarsveitarfélög,
5. hvenær þörf er staðfestingar sveitarstjórna á ákvörðunum stjórnar,
6. heimildir til samninga við einkaaðila, sbr. 100. gr.,
7. heimildir til samninga við einstök aðildarsveitarfélög um að þau taki að sér afmarkaða þætti í þeirri starfsemi sem falin hefur verið byggðasamlagi,
8. úrgöngu úr byggðasamlagi, þar á meðal um uppgjör aðildarsveitarfélaga, ábyrgð á skuldbindingum og rétt til innlausnar á eignarhlutum.
Tryggt skal að umboð stjórnar byggðasamlags til að skuldbinda aðildarsveitarfélög sé í samræmi við reglur laga þessara um fjármál sveitarfélaga, þ.m.t. bindandi gildi fjárhagsáætlunar næstkomandi árs.
Kjör til stjórnar byggðasamlags getur annaðhvort farið fram á aðalfundi byggðasamlags eða á grundvelli tilnefninga sveitarstjórna einstakra aðildarsveitarfélaga. Ef kjör til stjórnar fer fram á aðalfundi byggðasamlags skulu í samningi um byggðasamlag einnig vera viðeigandi ákvæði um aðalfund þess, þar á meðal um öll þau atriði sem getur í 2.–5. tölul. 3. mgr.
Byggðasamlög lúta að öðru leyti ákvæðum laga þessara um meðferð mála, skyldur og réttindi stjórnarmanna, starfslið, fjármál, fjárhagsáætlanir og endurskoðun ársreikninga og stjórnsýslueftirlit og þeim almennu reglum sem að öðru leyti gilda um störf sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.
Einstakar sveitarstjórnir og endurskoðendur aðildarsveitarfélaga eiga rétt á aðgangi að öllum gögnum um stjórnsýslu byggðasamlags.
Sveitarfélög bera einfalda ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum byggðasamlags sem þau eru aðilar að en innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við íbúatölu.
95. gr. Úrganga úr byggðasamlagi og slit byggðasamlags.
Í samningi um byggðasamlag skulu vera ákvæði um endurskoðun á samningi, um heimildir til úrsagnar úr byggðasamlagi og um slit þess.
Einstök sveitarfélög geta með tveggja ára fyrirvara sagt upp aðild að byggðasamlagi, hafi ekki verið samið um annan tímafrest. Samhliða getur sveitarfélag krafist innlausnar á nettó eignarhlut sínum í samlaginu núvirðisreiknuðum í samræmi við ákvæði samnings skv. 94. gr.
Ef ósætti rís um úrgöngu sveitarfélags úr byggðasamlagi er hægt að vísa málinu til ráðuneytisins. Ráðuneytið getur ákveðið að viðkomandi sveitarfélagi sé ekki heimilt að ganga úr byggðasamlagi um tilgreindan tíma, þó ekki lengur en í fimm ár að telja frá ákvörðun ráðuneytisins, vegna mikilvægra samfélagslegra hagsmuna eða vegna mikilvægra hagsmuna annarra aðildarsveitarfélaga sem að byggðasamlagi standa. Af sömu ástæðum er ráðuneytinu heimilt að ákveða frestun innlausnar á eignarhlut sveitarfélags.
Tillaga um að starfsemi byggðasamlags sé hætt nær því aðeins fram að ganga að hún sé staðfest af 2/ 3 hlutum sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga eða hún hafi verið samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu á starfssvæði byggðasamlagsins. 2/ 3 hlutar stjórnarmanna í byggðasamlagi eða 2/ 3 hlutar fulltrúa á aðalfundi byggðasamlags, sé slíkur fundur haldinn, geta krafist atkvæðagreiðslu í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga um slit byggðasamlags.
Nú er ákveðið að hætta starfsemi byggðasamlags eða svo er fyrir mælt í lögum og skal þá skipa því sérstaka skiptastjórn er gerir upp eignir þess og skuldir og slítur rekstri þess. Heimilt er skiptastjórn að auglýsa eftir kröfum á hendur byggðasamlaginu með opinberri innköllun. Eftir að kröfur hafa verið greiddar skal afgangi eigna eða eftirstöðvum skulda jafnað á þau sveitarfélög sem að byggðasamlagi standa í hlutfalli við íbúatölu. Skiptastjórn skal kjörin af stjórn byggðasamlags.
96. gr. Samningur um að sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir önnur sveitarfélög.
Sveitarfélög geta samið um að eitt sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög.
Þegar sveitarfélag tekur að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög er heimilt að ákveða að þau sveitarfélög sem teljast kaupendur þjónustu tilnefni áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundi viðkomandi nefndar í því sveitarfélagi sem telst þjónustuveitandi þegar málefni samstarfsverkefnisins eru þar til umræðu.
Fulltrúar í sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem hafa falið öðru sveitarfélagi að annast fyrir sig afmörkuð verkefni samkvæmt þessari grein eiga sama rétt á aðgangi að gögnum og upplýsingum um það verkefni hjá því sveitarfélagi sem veitir þjónustuna og þeir hefðu ella haft skv. 28. gr.
Í samningi um samvinnu samkvæmt þessari grein skulu að lágmarki eftirfarandi atriði tiltekin:
1. hvaða sveitarfélög eru aðilar að samstarfinu,
2. hvert þeirra sér um rækslu verkefnis,
3. nákvæm tilgreining viðkomandi verkefnis eða verkefna,
4. hvaða valdheimildir færist til þess sveitarfélags sem sér um verkefni,
5. gildistími samnings og á hvaða tíma sveitarfélagið taki verkefnið yfir,
6. þörf á staðfestingu á ákvörðunum um framkvæmd verkefnis,
7. hvort sveitarfélagi sé heimilt að gera samning við einkaaðila um framkvæmd verkefnis skv. 100. gr.,
8. upplýsingagjöf til annarra samstarfsaðila,
9. fjárhagslegt uppgjör og samskipti vegna verkefnisins,
10. eignarhald á mannvirkjum, rekstrartækjum og öðrum verðmætum, ef við á, og önnur mikilvæg atriði sem varða framkvæmd verkefnis og fjárútlát vegna þess.
Ef sveitarfélög sem eru aðilar að samningi samkvæmt þessari grein eru um það sammála má slíta samstarfi þegar í stað. Að öðrum kosti getur hvert sveitarfélag sagt upp aðild sinni að samningi með eins árs fyrirvara hafi ekki verið samið um annan uppsagnarfrest.
97. gr. Landshlutasamtök sveitarfélaga.
Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta.
Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.
Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.
98. gr. Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samband íslenskra sveitarfélaga er sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu. Öllum sveitarfélögum er frjálst að eiga aðild að Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sambandið fer með sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna eftir því sem þau ákveða og fyrir er mælt í lögum. Sambandið telst ekki vera stjórnvald.
Sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að sambandinu kjósa fulltrúa á landsþing sambandsins eftir þeim reglum sem ákveðnar eru í samþykktum þess.
Þegar ráðherra setur almenn stjórnvaldsfyrirmæli á grundvelli laga þessara skal hann ávallt hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um efni þeirra.
99. gr. Samstarf um gerð kjarasamninga.
Sveitarfélög geta haft með sér samvinnu um gerð og samþykkt kjarasamninga við starfsmenn sína og önnur atriði tengd framkvæmd og stefnumótun í launamálum.
100. gr. Samningar um þjónustustarfsemi og einstök rekstrarverkefni.
Sveitarstjórnum er heimilt að gera samninga við einkaaðila um framkvæmd á þjónustu og öðrum verkefnum fyrir sveitarfélag, enda sé áætlað fyrir viðkomandi verkefni í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins. Með samningum um framkvæmd á þjónustu er átt við samninga um afmarkaða þjónustustarfsemi sveitarfélaga sem þeim er að lögum skylt eða heimilt að sinna. Með samningum um önnur verkefni fyrir sveitarfélag er átt við samninga um þjónustu við sveitarfélagið sjálft, svo sem um bókhald eða aðra þætti sem eru liðir í því að sveitarfélag geti rækt hlutverk sitt.
Í samningi samkvæmt þessari grein skal m.a. skilgreina umfang og gæði þeirrar þjónustu sem sveitarfélag kaupir, samningstíma, greiðslur úr sveitarsjóði, eftirlit með þjónustu og meðferð ágreiningsmála. Samningstími skal lengstur vera sex ár í senn en þó er heimilt að semja til lengri tíma ef sveitarfélag gerir kröfu um að verksali byggi upp kostnaðarsama aðstöðu eða búnað vegna verkefnisins eða þjónustunnar. Uppsagnarfrestur samnings skal stystur vera sex mánuðir.
Ákvæði þessarar greinar skulu gilda með sama hætti um samninga sem falla undir 1. mgr. og sveitarfélag gerir við einkaaðila með heimild í öðrum lögum nema ríkari kröfur séu gerðar til samninga í sérlögum. Lög um opinber innkaup gilda eftir því sem við á um útboð verkefna.
101. gr. Skyldur einkaaðila sem sinna verkefni fyrir sveitarfélag.
Geri sveitarfélag samning við einkaaðila sem fellur undir 1. mgr. 100. gr. eða felur honum á grundvelli sérstakrar lagaheimildar vald til töku ákvarðana um réttindi eða skyldur manna skulu verktaki og starfsmenn hans bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd verkefnis eða þjónustu samkvæmt grein þessari. Um þagnarskylduna gildir ákvæði 2. mgr. 57. gr. og skal brot á henni varða refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Enn fremur skulu ákvæði stjórnsýslulaga [og upplýsingalaga], 1) sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, gilda um þá stjórnsýslu sem verktaki tekur að sér að annast.
Sama gildir geri byggðasamlag slíka samninga við einkaaðila.
1)L. 72/2019, 21. gr.
X. kafli. Samráð við íbúa.
102. gr. Réttur íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélags.
Sveitarstjórn skal leitast við að tryggja íbúum sveitarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.
Áhrif íbúa má m.a. tryggja með:
1. virkri upplýsingagjöf til íbúa,
2. samráði við íbúa, svo sem á borgarafundum eða íbúaþingum og í íbúakosningum,
3. skipun íbúa- og notendaráða,
4. því að skipuleggja starfsemi sveitarfélagsins eftir staðbundnum forsendum,
5. samstarfi eða annarri aðstoð við íbúa sem vilja vinna að málefnum sveitarfélagsins.
103. gr. Upplýsingar um málefni sveitarfélags.
Sveitarstjórn skal upplýsa íbúa sína um áætlanir sem sveitarfélag hefur til meðferðar og ákvörðunar og varða þá með almennum hætti. Sama gildir um einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn skal leitast við að veita íbúum upplýsingar um áhrif slíkra mála og áætlana á þjónustu sveitarfélags til skemmri og lengri tíma, fjárhag sveitarfélagsins, umhverfi og markmið sem að er stefnt.
Sveitarstjórn skal leitast við að upplýsa með almennum hætti um þær leiðir og aðferðir sem hún notar til samráðs við íbúa, m.a. við undirbúning mála og áætlana skv. 1. mgr.
Sveitarstjórn skal enn fremur leitast við að íbúar sveitarfélagsins fái með reglulegum hætti upplýsingar um samstarf sem sveitarfélagið hefur við önnur sveitarfélög, umfang þess og kostnað.
104. gr. Opinber gagnaveita um fjármál sveitarfélaga.
Ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu í samstarfi við Hagstofu Íslands vinna að því að upplýsingar um fjármál sveitarfélaga og önnur mikilvæg atriði sem þau varða verði gerðar aðgengilegar almenningi í opnum rafrænum gagnagrunni eða með sambærilegum hætti.
Ráðuneytið getur sett nánari fyrirmæli um gagnaveitu skv. 1. mgr. í reglugerð.
105. gr. Borgarafundir.
Sveitarstjórn ákveður hvort haldinn skuli borgarafundur í sveitarfélagi, sbr. þó 108. gr. Til borgarafundar skal boða með opinberri auglýsingu ekki síðar en 10 dögum fyrir fundardag. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um form fundar, þar á meðal hvort þátttakendum gefist tækifæri til að taka þátt í umræðum og leggja fram fyrirspurnir og tillögur.
Eigi atkvæðagreiðsla að fara fram á fundi skal það tiltekið í fundarboði ásamt þeirri tillögu sem greiða á atkvæði um. Telji sveitarstjórn ástæðu til skal hún gera kjörskrá yfir þá sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu samkvæmt lögum um kosningar … 1) og eru þá aðeins þeir sem eru á kjörskránni atkvæðisbærir á borgarafundi. Að öðrum kosti hafa atkvæðisrétt allir þeir sem til fundarins mæta. Um gerð kjörskrár og auglýsingu gilda ákvæði [kosningalaga]. 1)
Ályktanir almennra borgarafunda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
1)L. 112/2021, 144. gr.
106. gr. Íbúaþing.
Sveitarstjórn getur haldið íbúaþing. Íbúaþing geta m.a. verið bundin við ákveðin svæði innan sveitarfélags. Niðurstöður íbúaþinga eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
107. gr. [Íbúakosningar um einstök málefni.
Sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins, eða hluta íbúa sveitarfélagsins, um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr.
Til atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. skal boða með a.m.k. 36 daga fyrirvara með opinberri auglýsingu. Samhliða skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu.
Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og skv. 108. gr., er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils. Í auglýsingu skv. 2. mgr. skal koma fram hvort atkvæðagreiðsla er bindandi. Slíka ákvörðun má binda skilyrði um að tiltekið hlutfall þeirra sem voru á kjörskrá hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu.
Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir ákvæðum 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.] 1)
1)L. 83/2022, 3. gr.
108. gr. Frumkvæði íbúa sveitarfélags.
Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.
Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.
Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður ekki krafist um efni fjárhagsáætlunar skv. 62. gr. og viðauka skv. 63. gr., um tekjustofna sveitarfélaga eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi, um laun og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélags eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins.
Ráðuneytið skal í reglugerð 1) mæla nánar fyrir um það hvernig staðið verður að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa [skv. 1. og 2. mgr.] 2) Þar má m.a. kveða á um að undirskriftir skuli lagðar fram á sérstöku eyðublaði sem ráðuneytið eða viðkomandi sveitarfélag lætur gera eða að staðfesting skuli lögð fram rafrænt á nánar tiltekinn hátt. Sé mælt fyrir um rafræna staðfestingu skal þó ávallt jafnframt gefinn kostur á að undirskriftir verði lagðar fram skriflega á þar til gerðum eyðublöðum.
Við mat á því hvort tilskilinn fjöldi hafi lagt fram ósk skv. 1. mgr. skal miðað við þá einstaklinga [sem hafa kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórna] 3) á þeim degi sem söfnun undirskrifta og/eða staðfestinga lýkur samkvæmt [kjörskrá] 4) sem Þjóðskrá Íslands lætur sveitarfélagi í té.
1)Rg. 154/2013. Rg. 155/2013. 2)L. 159/2011, 1. gr. 3)L. 112/2021, 144. gr. 4)L. 83/2022, 4. gr.
XI. kafli. Stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum.
109. gr. Almennt stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum.
Ráðherra hefur eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögum þessum og öðrum löglegum fyrirmælum. Eftirlit ráðherra tekur einnig til byggðasamlaga sem og til annarra að því leyti sem þeim hefur verið falið að sinna stjórnsýslu á vegum sveitarfélags samkvæmt heimild í lögum þessum eða öðrum lögum.
Eftirlit ráðherra tekur ekki til Sambands íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtaka sveitarfélaga nema þessum aðilum hafi verið falin stjórnsýsluverkefni fyrir hönd einstakra sveitarfélaga skv. 1. mgr. sem ráðherra hefði ella haft eftirlit með. Ráðherra hefur ekki heldur eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum, um gerð kjarasamninga né stjórnsýslu sem fram fer á vegum sveitarfélaganna og öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með.
110. gr. Tegundir eftirlitsmála.
Eftirlit ráðherra með einstökum ákvörðunum eða athöfnum sveitarfélaga fer fyrst og fremst fram á eftirfarandi hátt:
1. við staðfestingu reglna sveitarfélaga hafi ráðherra verið falið það hlutverk,
2. við meðferð mála sem lúta að fjármálum sveitarfélaga, sbr. VIII. kafla,
3. við meðferð kærumála, sbr. 111. gr., og
4. við meðferð frumkvæðismála, sbr. 112. gr.
Þegar ráðherra þarf að beita úrræðum samkvæmt lögum þessum í tengslum við eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga skal hann velja það úrræði sem líklegast er að nái því markmiði sem að er stefnt að teknu tilliti til sjálfstjórnar sveitarfélaga. Heimilt er að nota fleiri en eitt úrræði samkvæmt lögum þessum samhliða eftir því sem tilefni er til.
Áður en ráðherra tekur ákvörðun um beitingu úrræða samkvæmt kafla þessum skal hann gefa sveitarstjórn færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
111. gr. Stjórnsýslukæra.
Aðila máls er heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr.
Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Um kæruleiðbeiningar, kærufrest og meðferð kærumáls fer að öðru leyti að ákvæðum stjórnsýslulaga.
Þrátt fyrir 2. mgr. 109. gr. er þó hægt að bera undir ráðherra samkvæmt þessari grein ákvörðun sveitarfélags um uppsögn starfsmanns, enda eigi hún rætur að rekja til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan þess sem þykja ósamrýmanlegar starfinu eða til annarra sambærilegra ástæðna.
112. gr. Frumkvæðismál.
Ráðuneytið ákveður sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess skv. 109. gr. Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun skv. 111. gr. hefur ekki áhrif á þá heimild.
Þegar ráðuneytið tekur mál til meðferðar að eigin frumkvæði getur það:
1. gefið út leiðbeiningar um túlkun laga og stjórnsýslu sveitarfélagsins að öðru leyti,
2. gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélags eða annars er eftirlit beinist að,
3. gefið út fyrirmæli til sveitarfélags um að það taki ákvörðun í máli, felli ákvörðun úr gildi eða komi málum að öðru leyti í lögmætt horf,
4. beitt öðrum úrræðum samkvæmt kafla þessum, sé tilefni til.
Niðurstöður skv. 2. mgr. skulu rökstuddar eftir því sem tilefni er til. Í þeim skal einnig koma fram með skýrum hætti hvort og þá með hvaða hætti ráðuneytið muni fylgja niðurstöðu sinni eftir.
113. gr. Aðgangur að upplýsingum.
Sveitarfélög og aðrir aðilar sem eftirlit ráðuneytisins beinist að skv. 109. gr. skulu láta ráðuneytinu í té þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem það óskar og því er þörf á vegna eftirlits síns. Þar á meðal getur ráðuneytið óskað afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öðrum gögnum sem mál snerta.
Ráðuneytið getur óskað þess að starfsmenn þeirra aðila sem lúta eftirliti ráðuneytisins skv. 109. gr. veiti því upplýsingar og skýringar sem varða einstök mál, og ráðuneytinu er þörf á vegna eftirlits síns. Lögbundin þagnarskylda stendur ekki í vegi slíkrar upplýsingagjafar.
Við framkvæmd upplýsingaöflunar skal taka tillit til hagsmuna viðkomandi stjórnvalda og einkaaðila ef við á og ekki ganga lengra en þörf er á.
114. gr. Ógilding ákvarðana og frestun réttaráhrifa.
Ráðuneytið getur við meðferð mála skv. VIII. kafla og 111. og 112. gr. fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta. Ráðuneytið getur ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags.
Þegar sérstakar ástæður mæla með því getur ráðuneytið ákveðið að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sem sveitarfélag hefur tekið meðan það hefur mál til meðferðar skv. VIII. kafla eða 111. og 112. gr.
115. gr. Ógilding samninga.
Hafi sveitarfélag eða annar aðili sem eftirlit ráðuneytisins beinist að gert samning um samvinnu skv. 92.–96. gr. og samningurinn fullnægir ekki kröfum laga þessara telst hann ógildanlegur. Getur ráðuneytið þá lagt fyrir aðila að bæta úr ágöllum samningsins innan tilskilins frests. Sé þeim fyrirmælum ekki fylgt eða það reynist ógerlegt getur ráðuneytið fellt samning úr gildi.
Hið sama á við hafi sveitarfélag eða annar aðili sem eftirlit ráðuneytisins beinist að gert samning sem í veigamiklum atriðum fullnægir ekki ákvæðum sem fram koma í VII. kafla um fjármál sveitarfélaga eða VIII. kafla um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, enda hafi eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lagt það til með rökstuddum hætti.
Ákvæði þetta á þó ekki við ef samningur telst marklaus gagnvart sveitarfélagi vegna veigamikilla ágalla á gerð hans.
116. gr. Vanræksla sveitarfélaga.
Vanræki sveitarfélag lögbundnar skyldur, svo sem um skil á upplýsingum, að fylgja ákvörðunum sem ráðherra tekur skv. VIII. kafla, úrskurði skv. 111. gr. eða fyrirmælum skv. 112. gr. getur ráðuneytið, að undangenginni áminningu, stöðvað greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða beitt sveitarfélagið dagsektum þar til úr vanrækslunni hefur verið bætt.
Ráðherra skal í reglugerð 1) ákveða lágmarks- og hámarksfjárhæð dagsekta. Ákvörðun um dagsektir skal taka mið af alvarleika brots og íbúafjölda sveitarfélags.
Ákvæði þessu verður beitt gagnvart byggðasamlögum eftir því sem við á.
Dagsektir renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu sekta. Dagsektir skulu innheimtar ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Fresta skal innheimtu dagsekta ef það málefni sem um ræðir er borið undir dómstóla. Óinnheimtar dagsektir falla niður þegar skyldu er fullnægt.
1)Rg. 706/2018.
117. gr. Dómsmál til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins.
Ef sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðili sem lýtur eftirliti ráðuneytisins skv. 109. gr. og úrskurður, ákvörðun eða fyrirmæli ráðuneytisins samkvæmt þessum kafla eða VIII. kafla beinist að vill ekki una ákvörðuninni þá getur viðkomandi borið málið undir dómstóla eftir almennum reglum. Leiði almennar reglur til þess að málshöfðun eigi ekki að beina að ráðuneytinu skal því stefnt til réttargæslu. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk eða mátti fá vitneskju um ákvörðun ráðuneytisins.
118. gr. Viðurkenningarmál.
Ráðuneytið getur höfðað viðurkenningarmál á hendur sveitarstjórn eða öðrum sem sætir eftirliti ráðuneytisins samkvæmt lögum þessum og tekið hefur ákvörðun sem ráðuneytið telur ólögmæta eða látið undir höfuð leggjast að framfylgja lögbundinni skyldu, ákvörðun ráðherra skv. VIII. kafla, úrskurði skv. 111. gr. eða fyrirmælum skv. 112. gr.
XII. kafli. Sameining sveitarfélaga.
119. gr. Sameining sveitarfélaga.
Þegar tvær eða fleiri sveitarstjórnir hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu viðkomandi sveitarfélaga skulu þær kjósa samstarfsnefnd til þess að annast athugun málsins. Skal hvor eða hver sveitarstjórn kjósa tvo fulltrúa eða fleiri í nefndina eftir samkomulagi. Nefndin kýs formann úr sínum hópi.
Þegar samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu um sameiningu skulu viðkomandi sveitarstjórnir taka málið á dagskrá. Skal hafa [eina umræðu] 1) um málið án atkvæðagreiðslu.
Að lokinni umræðu sveitarstjórna skal fara fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameininguna. Viðkomandi sveitarstjórnir ákveða sameiginlega hvenær atkvæðagreiðsla fer fram og skal kosið sama dag í öllum viðkomandi sveitarfélögum.
Samstarfsnefndin eða viðkomandi sveitarstjórnir skulu kynna íbúum sveitarfélaganna þá tillögu sem greiða skal atkvæði um og helstu forsendur hennar með a.m.k. [36 daga] 1) fyrirvara, svo sem með kynningarfundum og/eða dreifibréfum. Tillagan skal innan sama frests auglýst opinberlega í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum.
Sveitarstjórn lætur gera atkvæðaseðil til afnota við atkvæðagreiðsluna. Form atkvæðaseðils skal staðfest af ráðuneytinu. [Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir ákvæðum 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.] 1) Ekki er heimilt að hefja talningu atkvæða fyrr en öllum kjörstöðum hefur verið lokað í þeim sveitarfélögum sem taka þátt í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu.
1)L. 83/2022, 5. gr.
120. gr. Skilyrði fyrir frjálsri sameiningu.
Sveitarfélag verður ekki sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 119. gr. séu fylgjandi henni en andvígir, sbr. þó 2. mgr.
Sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki meiri hluta kjósenda er heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga þótt tillaga samstarfsnefndar hljóti ekki samþykki meiri hluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum sem að tillögunni stóðu … 1)
1)L. 96/2021, 4. gr.
121. gr. Fjárhagslegar ráðstafanir eftir samþykkt sameiningartillögu.
Hafi tillaga um sameiningu hlotið samþykki skv. 119. og 120. gr. er sveitarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga óheimilt að skuldbinda sveitarfélag eða samþykkja greiðslur úr sveitarsjóði sem ekki leiðir af lögum, fjárhagsáætlun eða þegar samþykktum viðauka við hana nema allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir samþykki slíka ráðstöfun.
122. gr. Undirbúningur að stofnun nýs sveitarfélags.
Hafi sameining hlotið samþykki skv. 119. og 120. gr. skulu sveitarstjórnir sem hlut eiga að máli hver um sig velja tvo til þrjá fulltrúa eftir samkomulagi til setu í sérstaka stjórn til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags.
Stjórn til undirbúnings nýs sveitarfélags skal semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Stjórnin getur ákveðið að samþykkt um stjórn og fundarsköp eins af hinum eldri sveitarfélögum muni gilda fyrir nýja sveitarfélagið þar til því hefur verið sett ný samþykkt. Hún skal einnig taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, taka saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu. Ákvarðanir þessar skulu sendar ráðuneytinu sem staðfestir sameininguna að því gefnu að það telji að sameiningin sé svo vel undirbúin að hún geti gengið hnökralaust. Ráðuneytið getur í þessu sambandi leitað umsagna viðkomandi sveitarstjórna um þær tillögur sem stjórn til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags hefur gert.
123. gr. Sameining yfir mörk kjördæma.
Heimilt er að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma en slík sameining hefur ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar.
124. gr. Birting ákvörðunar um sameiningu.
Þegar ráðuneytið hefur staðfest sameiningu sveitarfélaga samkvæmt framanskráðu skal það gefa út tilkynningu um sameininguna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Þar skal greint frá nafni hins nýja sveitarfélags, hvaða sveitarfélög hafa verið sameinuð, tölu sveitarstjórnarmanna og gildistöku sameiningar og kosningum skv. 125. gr. Samhliða skal birt samþykkt um stjórn og fundarsköp hins nýja sveitarfélags sem öðlast skal gildi um leið og nýtt sveitarfélag tekur til starfa skv. 125. gr.
125. gr. Gildistaka sameiningar.
Að tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags tekur ráðuneytið ákvörðun um það með hvaða hætti sameining öðlast gildi. Verður það annaðhvort með því að kosið er til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða með því að sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils.
Ef kosið skal til nýrrar sveitarstjórnar ákveður ráðuneytið að tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags hvaða dag kosningar til hins sameinaða sveitarfélags fara fram. Um kosningar til nýrrar sveitarstjórnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um kosningar … 1). Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins nýja sveitarfélags 15 dögum eftir kjördag. Á sama tíma tekur sameining gildi.
Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara og laga um kosningar … 1) um skipti á sveitarstjórnum.
Ef sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils tekur sameining gildi á þeim degi sem ráðuneytið ákveður. Sama dag fellur umboð annarra sveitarstjórna hinna sameinuðu sveitarfélaga úr gildi.
1)L. 112/2021, 144. gr.
126. gr. Endurskoðun reglugerða og samþykkta.
Sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags skal svo fljótt sem við verður komið taka til umræðu og setja nýjar samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár fyrir hið nýja sveitarfélag. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að tilteknar reglur eða samþykktir sem gilt hafa í einu af viðkomandi sveitarfélögum skuli gilda fyrir hið nýja sveitarfélag í heild á meðan unnið er að setningu nýrra reglna. Um slíka ákvörðunartöku gilda sömu reglur og um setningu nýrra reglna í viðkomandi málaflokki, þar á meðal kröfur um tvær umræður eða staðfestingu ráðherra ef við á. Á meðan unnið er að því að setja viðeigandi reglur fyrir hið nýja sveitarfélag skulu eldri reglur gilda í hverju hinna eldri sveitarfélaga, þó ekki lengur en í þrjá mánuði frá gildistöku sameiningar.
Að því leyti sem ákvörðunum, svo sem um skatta, verður ekki breytt innan ársins vegna ákvæða annarra laga er heimilt að hafa mismunandi reglur innan hins nýja sveitarfélags þann tíma sem af ákvæðum viðkomandi laga leiðir.
127. gr. Fjárhagsleg aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Ráðuneytið getur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sett almennar reglur 1) um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti fjárhagslega aðstoð til þess að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Slíka aðstoð má veita í allt að [sjö] 2) ár eftir sameiningu.
1) Rgl. 782/2020, sbr. rgl. 334/2021. 2)L. 96/2021, 5. gr.
XIII. kafli. Samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga.
128. gr. Formlegt samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Ríkisstjórnin skal tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélögin um mikilvæg stjórnarmálefni sem tengjast stöðu og verkefnum sveitarfélaga. Formlegt samstarf skal m.a. fara fram um framlagningu lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin og um stjórn fjármála hins opinbera, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur mikilvæg mál sem varða hagsmuni sveitarfélaganna eða fjármál.
Samstarfsráð ríkis og sveitarfélaga skal funda að lágmarki einu sinni á ári. Fast sæti á fundum samstarfsráðsins eiga ráðherra sveitarstjórnarmála og [sá ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins] 1) og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðrir ráðherrar sitja fundi samstarfsráðsins eftir því sem tilefni er til hverju sinni. Um skipan samstarfsráðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum samstarfssáttmála, sbr. 4. mgr.
Yfirumsjón með samstarfi samkvæmt þessari grein hefur samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar ráðuneytis sveitarstjórnarmála og [þess ráðuneytis er fer með fjárreiður ríkisins] 1) og þrír fulltrúar tilnefndir af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ef þörf er á getur samstarfsnefndin ákveðið að kalla til fulltrúa fleiri ráðuneyta. Samstarfsnefndin starfar í umboði samstarfsráðsins og er vettvangur fyrir reglulega umfjöllun um samskiptamál ríkis og sveitarfélaga.
Samstarf samkvæmt þessari grein skal nánar útfært í samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga sem unninn skal af samstarfsnefnd eða í sérlögum eftir því sem við á. Þar skal einnig fjallað um gerð árlegrar þjóðhags- og landshlutaspár sem leggja ber til grundvallar í samstarfi samkvæmt þessari grein og sveitarfélögum er skylt, eftir því sem við á, að byggja á við gerð fjárhagsáætlana.
1)L. 21/2012, 8. gr.
129. gr. Kostnaðarmat.
Ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að lagafrumvarpi, tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda ríkisins muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skal fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Viðkomandi ráðherrar bera ábyrgð á því að slíkt mat fari fram.
Þegar mat á fjárhagslegum áhrifum tillögu að lagafrumvarpi, tillögu að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana, sbr. 1. mgr., liggur fyrir skal það þá þegar lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar.
Mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög samkvæmt þessari grein skal liggja fyrir áður en frumvarp er afgreitt úr ríkisstjórn til framlagningar á Alþingi eða áformuð stjórnvaldsfyrirmæli eða aðrar aðgerðir af hálfu stjórnvalda eru endanlega ákveðnar.
Verði ágreiningur um niðurstöðu kostnaðarmats á lagafrumvarpi skal gerð sérstök grein fyrir því í kostnaðarumsögn sem skal fylgja frumvarpi þegar það er lagt fyrir Alþingi. Verði ágreiningur um niðurstöðu kostnaðarmats tillögu að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu stjórnvalda ríkisins skal niðurstaða um það koma fram í endanlegu kostnaðarmati þeirrar ákvörðunar, sbr. 3. mgr.
Ráðuneyti sveitarstjórnarmála skal árlega taka saman yfirlit um kostnaðarmat samkvæmt þessari grein, þar á meðal um ágreining um slíkt mat. Formlegar viðræður skulu fara fram um yfirlitið og niðurstöður þess í samstarfsráði skv. 128. gr.
XIV. kafli. [Aðrar skyldur sveitarfélaga.]1)
1)L. 96/2021, 7. gr.
130. gr. Málstefna.
Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.
Mál það sem er notað í starfsemi sveitarfélags eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt.
[130. gr. a. Stefna um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags.
Samhliða fjárhagsáætlun, sbr. 62. gr., skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum viðkomandi sveitarfélags.
Við gerð og mótun stefnunnar skal sveitarstjórn hafa samráð við íbúa sveitarfélagsins. Málsmeðferð við afgreiðslu stefnunnar skal að öðru leyti vera skv. 3. mgr. 62. gr.] 1)
1)L. 96/2021, 6. gr.
XV. kafli. Ýmis ákvæði, gildistaka og breytingar á öðrum lögum.
131. gr. [Neyðarástand í sveitarfélagi.]1)
[Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja frá skilyrðum 14.–18. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. og 2. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr., samþykktum um stjórn sveitarfélags og/eða lögákveðnum frestum sem getið er um í lögum þessum, til að tryggja starfhæfi hennar og til að auðvelda ákvarðanatöku vegna neyðarástands.] 1)
Verði sveitarstjórn að mati ráðuneytisins óstarfhæf vegna neyðarástands í sveitarfélagi, svo sem af völdum náttúruhamfara, getur ráðuneytið falið sveitarstjórn og viðeigandi nefndum nágrannasveitarfélags að fara með stjórn sveitarfélagsins. Ráðuneytið getur einnig skipað sveitarfélagi sérstaka framkvæmdastjórn kunnáttumanna um rekstur sveitarfélaga sem þá tekur að fullu við hlutverki hinnar óstarfhæfu sveitarstjórnar, nefnda hennar og starfsmanna eftir því sem þörf er á. Ráðuneytið skal með reglugerð setja almenn fyrirmæli um starfshætti slíkrar framkvæmdastjórnar.
Ráðuneytið skal birta ákvörðun 2) skv. [1. og 2. mgr.] 1) í Stjórnartíðindum og getur hún aðeins gilt í fjóra mánuði í senn.
1)L. 22/2021, 1. gr. 2) Augl. 1273/2021.
132. gr. Sérreglur um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga.
Ef sveitarstjórn óskar er ráðuneytinu heimilt í tilraunaskyni að staðfesta samþykkt um stjórn og fundarsköp fyrir viðkomandi sveitarfélag sem gerir ráð fyrir öðru stjórnskipulagi en kveðið er á um í lögum þessum, þar á meðal um aukinn fjölda sveitarstjórnarmanna og aukið hlutverk einstakra nefnda eða starfsmanna sveitarfélagsins við daglega stjórn sveitarfélagsins því samfara.
Ráðuneytinu er á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr. heimilt við staðfestingu samstarfssamnings skv. 93. gr. að heimila í tilraunaskyni frávik frá ákvæðum IX. kafla um samvinnu sveitarfélaga og samninga um starfrækslu verkefna.
Tilgangur heimildar skv. 1. og 2. mgr. er að veita færi á yfirvegaðri þróun á sveitarstjórnarstiginu, m.a. vegna stækkunar sveitarfélaga. Samþykktir um stjórn og fundarsköp sem staðfestar eru á grundvelli þessarar greinar skulu vera ítarlegar og taka til allra þátta sem nauðsynlegir eru svo að stjórn sveitarfélags geti gengið hnökralaust. … 1)
Sé heimild skv. 1. og 2. mgr. beitt skal það ekki gert til skemmri tíma en átta ára í senn, nema veigamiklar ástæður mæli með að fallið sé frá því. Ef fallið er frá stjórnskipulagi sem ákveðið er samkvæmt þessari grein skal sveitarstjórn þegar setja sveitarfélaginu nýja samþykkt um stjórn og fundarsköp sem er í samræmi við ákvæði laga þessara. Verður þessari heimild þá ekki beitt á ný af hálfu viðkomandi sveitarfélags fyrr en að átta árum liðnum.
1)L. 96/2021, 8. gr.
[133. gr. Framkvæmd íbúakosninga.
Sveitarfélög skulu setja sér reglur um framkvæmd íbúakosninga sem fram fara á vegum þeirra, sbr. 4. mgr. 38. gr., 4. mgr. 107. gr. og 5. mgr. 119. gr. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum eigi síðar en á sama tíma og atkvæðagreiðsla er auglýst fyrir íbúum sveitarfélagsins. Óheimilt er að auglýsa atkvæðagreiðslu sem ekki fer fram á grundvelli laga þessara undir heitinu íbúakosning.
Atkvæðagreiðsla í íbúakosningu skal vera leynileg og atkvæðisréttur jafn.
Rétt til þátttöku í íbúakosningu eiga þeir sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu við kosningar til sveitarstjórnar samkvæmt kosningalögum. Þjóðskrá skal gera kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna og um gerð hennar gilda ákvæði kosningalaga. Sveitarstjórn er heimilt að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár.
Til að tryggja að íbúakosning á vegum sveitarfélags uppfylli grundvallarskilyrði um lýðræðislegar kosningar skal ráðuneytið setja reglugerð að höfðu samráði við landskjörstjórn þar sem mælt er fyrir um þau lágmarksatriði sem fram skulu koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar. Í reglugerðinni skal m.a. koma fram hvaða reglur sveitarfélög geta sett sér um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag kosninga, þ.m.t. um starfshætti kjörstjórnar, framkvæmd talningar, kjörgengi frambjóðenda og öll önnur atriði sem mikilvægt er að fram komi í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar.
Kærur um ólögmæti íbúakosninga skulu sendar úrskurðarnefnd kosningamála til úrlausnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Úrskurðarnefnd kosningamála skal úrskurða innan fjögurra vikna frá því að kæra berst, nema mál sé mjög umfangsmikið og skal þá úrskurða innan sex vikna.] 1)
1)L. 83/2022, 6. gr.
[134. gr. Rafræn íbúakosning.
Sveitarstjórn getur ákveðið að íbúakosning skv. 133. gr. fari fram rafrænt og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð staðfestingu Þjóðskrár Íslands á því að kosningin geti farið fram í samræmi við reglugerð um rafrænar íbúakosningar, sbr. 2. mgr.
Ráðuneytið skal í reglugerð mæla nánar fyrir um hlutverk Þjóðskrár Íslands vegna rafrænna íbúakosninga, undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár, þar á meðal um notkun rafrænnar kjörskrár, viðmiðunardag kjörskrár, auglýsingu um kjörskrá og heimild til breytinga á henni, um skipan og starfshætti kjörstjórna, meðferð kjörgagna, tímafresti, öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar, kröfur til auðkenningar, framkvæmd talningar, kosningakærur og eyðingu gagna úr kosningakerfum að afloknum kosningum. Að öðru leyti gilda ákvæði 133. gr. um framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir vegna undirbúnings og framkvæmdar rafrænna íbúakosninga skv. 1. mgr. og rafrænna undirskriftasafnana skv. 108. gr., svo og fyrir gerð rafrænnar kjörskrár skv. 1. mgr.
Ráðherra er heimilt að skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd til að vera ráðherra til ráðgjafar og til að fylgjast með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár sem og að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði. Einn skal skipa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tvo án tilnefningar. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.] 1)
1)L. 83/2022, 6. gr.
[135. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012. …
1)L. 83/2022, 6. gr.
[136. gr.]1) Breytingar á öðrum lögum. …
1)L. 83/2022, 6. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
1. Ef fasteign liggur innan tveggja eða fleiri sveitarfélaga skulu viðkomandi sveitarfélög ekki síðar en 1. janúar 2013 hafa komist að samkomulagi um breytingu á mörkum viðkomandi sveitarfélaga þannig að fullnægt sé ákvæðum 4. gr.
2. Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. er ekki skylt að breyta fulltrúafjölda í sveitarstjórn fyrr en við aðrar almennar kosningar til sveitarstjórna frá gildistöku laga þessara.
3. Ákvæði 2. tölul. 44. gr. um kynjakvóta og þær reglur laga þessara sem vísa til hans með beinum hætti taka fyrst gildi við nefndaskipan að afloknum næstu almennu sveitarstjórnarkosningum frá gildistöku laga þessara.
4. Ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 64. gr. gildir frá og með reikningsárinu 2011. Fyrri reikningsár teljast ekki með við afmörkun á þriggja ára tímabili samkvæmt ákvæðinu.
5. Samningar sveitarfélaga við endurskoðendur sem eru í gildi við gildistöku laga þessara halda gildi sínu í þann tíma sem viðkomandi samningur kveður á um, þó mest í sex ár frá gildistöku laga þessara.
6. Frá gildistöku laga þessara má ekki gera samninga um samvinnu sveitarfélaga eða við einkaaðila sem ganga gegn ákvæðum laga þessara. Slíkir samningar sem þegar eru í gildi halda hins vegar gildi sínu, að því leyti sem þeir eru í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og ákvæði annarra laga en tryggja skal að þeir fullnægi ákvæðum laga þessara ekki síðar en 15. október 2014.
7. Þær fjallskilasamþykktir sem settar hafa verið á grundvelli laga um afréttamálefni, fjallskil o. fl., nr. 6/1986, og í gildi eru við gildistöku þessara laga halda gildi sínu. Þau verkefni sem lögð eru til héraðsnefnda samkvæmt samþykktunum falla til stjórna fjallskilaumdæma. Ef fleiri sveitarfélög mynda saman fjallskilaumdæmi skulu sveitarstjórnir þeirra hafa ákveðið skipan fjallskilastjórnar fyrir gildistöku laga þessara.
8. Endurskoða skal ákvæði laga þessara um fjármál sveitarfélaga innan fimm ára frá gildistöku með hliðsjón af framkvæmd þeirra.
II. … 1)
1)L. 83/2022, 7. gr.
III. … 1)
1)L. 83/2022, 7. gr.
IV.
Samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga sem eru í gildi við samþykkt laga þessara halda gildi sínu til [30. júní 2013], 1) að því leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði laga þessara.
1)L. 148/2012, 1. gr.
[V. … 1)] 2)
1)L. 83/2022, 7. gr. 2)L. 28/2013, 1. gr.
[VI. … 1)] 2)
1)Ákvæði þetta gilti til 31. desember 2020 skv. 3. mgr. Ákvarðanir skv. 1. mgr. sem teknar voru fyrir 31. desember 2020 héldu þó gildi sínu í allt að fjóra mánuði, sbr. 2. mgr. 2)L. 18/2020, 1. gr.
[VII.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 64. gr. er sveitarstjórn heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. við stjórn sveitarfélagsins árin 2020–[2025]. 1)] 2)
1)L. 22/2021, 2. gr. 2)L. 25/2020, 13. gr.
[VIII. … 1)] 2)
2)L. 83/2022, 7. gr. 2)L. 29/2020, 1. gr.
[IX.
Við gerð næstu stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga skv. 4. mgr. 2. gr. skal ráðherra hafa til hliðsjónar greiningu á mismunandi leiðum sem eru til þess fallnar að ná markmiðum um að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi.] 1)
1)L. 96/2021, 9. gr.
[X.
Þrátt fyrir 2. mgr. 4. gr. a skal skylda til að hefja sameiningarviðræður, sbr. a-lið ákvæðisins, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, sbr. b-lið, aðeins taka til sveitarfélaga sem hafa færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningar 2022.] 1)
1)L. 96/2021, 9. gr.