Kjördæmaskipan fullvalda konungsríkis 1918–1944

Gildistaka stjórnarskrár konungsríkisins Íslands 18. maí 1920 breytti ekki kjördæmaskipan landsins en sama ár og hin nýja stjórnarskrá gekk í gildi var þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis fjölgað um tvo og tekin upp hlutfallskosning í því kjördæmi og byggðist ráðstöfunin á heimild í stjórnarskránni.

Kjördæmabreytingar fram til 1934 fólust í skiptingu kjördæma án þess að heildarfjöldi þingmanna breyttist en við breytingu á kjördæmafyrirkomulagi það ár var þingmönnum fjölgað úr 42 í 49. Landskjör var aflagt en tekið upp kjör 11 jöfnunarþingmanna með það að markmiði að þingstyrkur þeirra framboða sem fengu kjörna fulltrúa á Alþingi yrði í betra samræmi við kjörfylgi þeirra en verið hafði.

Gerðar voru breytingar á kjördæmafyrirkomulaginu árið 1942 og þingmönnum fjölgað úr 49 í 52. Voru kjördæmi eftir það 28 talsins, 21 einmenningskjördæmi, sex tvímenningskjördæmi og eitt hlutfallskosningarkjördæmi.

MYND8.1916-1919-minMynd 8 (1916–1919). Kjördæmaskipanin sem komst á með laga- og stjórnarskrárbreytingum árin 1903 og 1915 gilti í alþingiskosningum 1916 og 1919. Eina breytingin var að landskjörnir þingmenn voru komnir í stað konungkjörinna þingmanna. Samkvæmt upphaflegum reglum um landskjörna þingmenn átti helmingur þeirra að sitja á þingi í 12 ár en hinn helmingurinn að hverfa þaðan að liðnum sex árum. Kjörtímabil allra landskjörinna þingmanna varð átta ár með lagabreytingu sem gerð var árið 1920.

MYND9.1923-1927-minMynd 9 (1923–1927). Með lögum nr. 11/1920 var þingmönnum Reykjavíkur fjölgað um tvo og urðu þeir fjórir eftir breytinguna en alþingismenn alls 42. Einnig var tekin upp hlutfallskosning í Reykjavíkurkjördæmi. Með lögum nr. 17/1922 var Húnavatnssýslu skipt í tvö kjördæmi og voru kjördæmin 26 eftir þá breytingu. Þessi tilhögun átti við í alþingiskosningum 1923 og 1927.

MYND10.1931-1933-minMynd 10 (1931–1933). Gullbringu- og Kjósarsýslu var skipt í tvö kjördæmi með lögum nr. 20/1928. Hafnarfjörður varð eftir það sérstakt einmenningskjördæmi og Gullbringu- og Kjósarsýsla varð einmenningskjördæmi. Þessi kjördæmaskipun gilti í alþingiskosningum 1931 og 1933.

MYND11.1934-1942-minMynd 11 (1934–1942). Í þingkosningum í júní 1934 giltu í fyrsta skipti nýjar reglur um kjördæmaskipan. Fjöldi eða mörk kjördæma breyttist ekki en þingmönnum Reykjavíkur fjölgaði úr fjórum í sex og alls urðu þingmenn 49. Landskjör var nú aflagt en innleitt kjör 11 jöfnunarþingmanna. Beitt var d’Hondt-reglu við úthlutun jöfnunarþingsæta. Aðeins þau framboð komu til greina við úthlutun þeirra sem höfðu fengið a.m.k. einn kjördæmakjörinn þingmann. Markmið breytinganna var að þingstyrkur stjórnmálaflokkanna endurspeglaði kjörfylgi þeirra betur en áður hafði verið.