Kjördæmaskipan lýðveldisins frá 1944

Ekki urðu breytingar á kjördæmaskipan við stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Kjördæmaskipanin frá 1942 var óbreytt til 1959 en það ár voru gerðar á henni verulegar breytingar. Í stað kjördæmanna 28 sem höfðu verið við lýði frá 1942 komu átta kjördæmi og tekin var upp hlutfallskosning í þeim öllum. Þingmönnum var fjölgað úr 52 í 60. Jöfnunarþingsæti voru 11 eins og verið hafði frá 1934.

Kjördæmafyrirkomulagið frá 1959 var óbreytt til 1987. Þá var þingmönnum fjölgað um þrjá og urðu þeir 63. Nýju þingsætin töldust öll til jöfnunarþingsæta sem nú urðu 13. Árið 1995 var gerð sú breyting á fyrirkomulaginu að eitt þingsæti, sem gat færst milli kjördæma í samræmi við úrslit á landsvísu, var fest í Reykjavíkurkjördæmi og jafnframt var eitt þingsæti flutt úr Norðurlandskjördæmi eystra til Reykjaneskjördæmis.

Með breytingum á stjórnarskrá sem gerðar voru árið 1999 og nýjum kosningalögum tók gildi kjördæmaskipulagið sem enn er við lýði. Það átti fyrst við í alþingiskosningum 10. maí 2003. Þessi breyting var hin veigamesta frá árinu 1959.

Kjördæmi eru nú sex og er Reykjavík skipt í tvö kjördæmi. Landskjörstjórn er heimilt að færa mörk þessara kjördæma til með það að markmiði að fjöldi kjósenda í hvoru um sig verði því sem næst jafn.

Samkvæmt gildandi kosningakerfi má ekki verða meira misvægi atkvæða en tvöfalt (100%). Ef það gerist flyst eitt þingsæti fyrir næstu þingkosningar úr því kjördæmi þar sem atkvæðavægið var mest í það kjördæmi þar sem atkvæðavægið var minnst. Þetta hefur gerst þrisvar; fyrir þingkosningar 2007, 2013 og 2021. Í öll skiptin var kjördæmissæti flutt úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi.

Aftur var tekið að beita svokallaðri d'Hondt-reglu við úthlutun kjördæmasæta sem ekki hafði verið notuð í því skyni síðan í þingkosningum ársins 1983.

Kjördæmasæti voru 9 í öllum kjördæmum þegar kerfið tók gildi og kjördæmakjörnir þingmenn því 54. Tvö jöfnunarþingsæti voru í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi en einn í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Vegna breyttrar búsetu landsmanna urðu kjördæmasæti í Norðvesturkjördæmi sjö við alþingiskosningar haustið 2021 og 11 í Suðvesturkjördæmi.

MYND12.1942-1959Mynd 12 (1942–1959). Tvennar alþingiskosningar fóru fram árið 1942. Í hinum síðari var kosið samkvæmt breyttri stjórnarskrá og nýjum kosningalögum. Þær breytingar urðu á kjördæmaskipan og þingmannafjölda að einu einmenningskjördæmi, Siglufirði, var bætt við og þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað um tvo og urðu þeir átta eftir breytinguna. Þingmönnum á Alþingi fjölgaði um þrjá og urðu þeir alls 52. Framkvæmd kosninga breyttist að því leyti að tekin var upp hlutfallskosning í tvímenningskjördæmunum.

MYND13.1959-1983Mynd 13 (1959–1983). Tvennar alþingiskosningar fóru fram árið 1959. Að afloknum hinum fyrri kom Alþingi saman á aukaþingi og samþykkti breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum sem gerbreytti kjördæmaskipaninni og framkvæmd kosninga. Kjördæmi urðu átta og hlutfallskosning varð allsráðandi. Alþingismönnum fjölgaði úr 52 í 60. Kjördæmakjörnir þingmenn urðu 49 og jöfnunarþingmenn 11 eins og verið hafði frá 1942.

MYND14.1987-1999-minMynd 14 (1987–1999). Samkvæmt stjórnarskárbreytingu sem gerð var vorið 1984 var þingmönnum fjölgað um þrjá og tekin var upp önnur aðferð við úthlutun kjördæmaþingsæta en d'Hondt-reglan sem notuð hafði verið fram til þessa. Henni var áfram beitt við úthlutun jöfnunarsæta. Var þessi háttur einnig hafður á í þingkosningum 1991, 1995 og 1999. Jöfnunarþingmenn voru allir tengdir kjördæmum, utan einn, sem gat hafnað í hverju þeirra sem var eftir úrslitum kosninganna og fékk af því viðurnefnið flakkari. Flökkusætið var fest í Reykjavík fyrir þingkosningar 1995.

MYND15.2003-minMynd 15 (2003–). Í alþingiskosningunum 10. maí 2003 var kosið í fyrsta skipti samkvæmt nýjum kosningalögum sem byggðust á stjórnarskrárbreytingu sem gerð var árið 1999. Kjördæmi urðu sex í stað átta áður og Reykjavík var nú í fyrsta sinn í tveimur kjördæmum. Breytingarnar á landfræðilegri afmörkun kjördæmanna voru hinar fyrstu frá 1959. Nýmæli var að landskjörstjórn varð heimilt að færa til kjördæmamörk í Reykjavík í því skyni að jafna fjölda kjósenda á kjörskrá. Þá voru í fyrsta sinn byggð inn í kosningakerfið viðbrögð við því ef misvægi atkvæða yrði meira en tvöfalt.