Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2000.  Útgáfa 125a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lax- og silungsveiði

1970 nr. 76 25. júníI. kafli. Orðaskýringar.
1. gr. [Merking orða í þessum lögum er sem hér segir:
    Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
    Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem liggur fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.
    Á: Straumvatn frá ósasvæði til upptaka.
    Áll: Sá staður langs eftir vatni, stöðuvatni eða straumvatni þar sem dýpi er mest milli grynninga eða sandeyra sem eigi teljast bakkar. Nú eru fleiri álar en einn og heitir sá höfuðáll sem vatnsmestur er.
    Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns eða legi stöðuvatns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur eigi yfir í meðalvexti eða sjór um stórstraumsflæði.
    Dráttur: Staður í veiðivatni þar sem ádráttarveiði verður við komið.
    Eldisfiskur: Sjá alifiskur.
    Eldisstofn: Hópur vatnafiska alinn í eldisstöð undan fiski sem alið hefur allan sinn aldur í fiskeldisstöð.
    Félagsveiði: Félagsskapur eigenda eða notenda veiðiréttar um sameiginlega hagnýtingu veiðihlunninda.
    Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
    Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
    Fiskihverfi: Veiðivatn eða -vötn sem sami fiskstofn byggir og fer um fram og aftur eða ætla má að sami fiskstofn byggi og fari um fram og aftur þá er ræktaður hefur verið.
    Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fiskmagn veiðivatns, sbr. 2. mgr. 44. gr.
    Fiskræktarslepping: Slepping samstofna smáseiða eða gönguseiða til aukningar á fiskigengd í veiðivatni.
    Fiskur: Lax (Salmo salar), silungur (Salmo trutta og Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykis), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
    Fiskvegur: Hvers konar mannvirki er gerir veiðivötn fiskgeng eða greiðir fiskför um þau.
    Föst veiðivél: Veiðitæki sem fest er í vatni og fiskur getur ánetjast í eða króast af, svo sem lagnet, króknet, kista og girðing.
    Geldstofn: Vatnafiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
    Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
    Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði kynþroska fiska til slátrunar er þeir ganga úr sjó í ferskt vatn.
    Hafbeit til stangaveiði: Slepping gönguseiða í veiðivatn með takmarkaða framleiðslu til aukningar á fiskigengd til stangaveiði.
    Hafbeitarstofn: Hópur vatnafiska sem klakinn hefur verið út undan fiski úr hafbeit.
    Hafbeitarstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu hafbeitar.
    Jörð: Lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
    Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.
    Kvísl: Hluti af straumvatni sem fellur sér milli bakka.
    Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
    Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og á tilteknum tíma og hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða á öðrum tíma.
    Lögn: Staður í vatni þar sem fastri veiðivél verður við komið.
    Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að straumvatni eða stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
    Ós í á: Sá staður þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár.
    Ós í sjó: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í sjó um stórstraumsfjöru.
    Ós í stöðuvatn: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í stöðuvatn.
    Ós úr stöðuvatni: Sá staður þar sem straumlína ár hefst í stöðuvatni.
    Ósasvæði: Svæði í straumvatni er nær frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfur um stórstraumsflæði.
    Sjór: Salt vatn utan árósa.
    Strandeldi: Eldi vatnafiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi.
    Straumlína (strengur): Lína sem liggur eftir endilöngu straumvatni um þá staði þess þar sem straumur er mestur.
    Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
    Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
    Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
    Vatnafiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
    Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
    Veiðihlutur: Hundraðshluti jarðar í veiði vatns samkvæmt arðskrá.
    Veiðimagn: Samanlögð þyngd veiddra fiska.
    Veiðimál: Hvers konar mál er lúta að lax-, silungs- og álaveiði, fiskrækt eða fiskeldi.
    Veiðitala: Tala veiddra fiska.
    Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
    Veiðivél: Sjá föst veiðivél.
    Villtur laxastofn: Hópur laxfiska sem klekst út og elst upp í veiðivatni.] 1)
    1)L. 63/1994, 1. gr.

II. kafli. Um veiðirétt.
2. gr. 1. Landeiganda er einum heimil veiði í vatni á landi sínu, enda sé eigi öðruvísi mælt í lögum þessum.
2. Nú hefur maður fengið veiðiskírteini, slíkt er getur í 22. gr., og er honum þá veiði heimil hvar sem er til fiskræktar eða vísindalegra rannsókna. Eigi má drepa fisk, sem veiddur er vegna fiskræktar. Veiðieiganda er rétt að hagnýta sér fisk, sem veiddur er til vísindalegra rannsókna. Að öðru leyti ber veiðieiganda ekki endurgjald fyrir veiði þessa.
3. Nú er jörð byggð á leigu, og fylgir þá veiði ábúð, nema öðruvísi semjist og [veiðimálastjóri] 1) samþykki að fengnu áliti [veiðimálanefndar]. 1)
4. Eigi má skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma, sbr. þó 5. mgr. 14. gr., annan en stangarveiðirétt, en hann má skilja við landareign um tiltekið tímabil, er þó má eigi vera lengra en 10 ár, nema leyfi [veiðimálastjóra] 1) komi til … 1) og veiðimálanefnd mæli með því, að leyfið sé veitt.
5. Nú er réttur til stangarveiði skilinn við landareign skv. 4. mgr. og er þá löglegt, að landeigandi afsali sér jafnframt afnotarétti til annarrar veiði í því vatni það tímabil, er stangarveiði er við landareignina skilin.
    1)L. 50/1998, 1. gr.
3. gr. 1. Veiðiréttindi, er skilin hafa verið við landareign, áður en lög þessi tóku gildi, er eigendum landareigna þeirra, er þau ella mundu hafa fylgt samkvæmt 1. mgr. 2. gr., rétt að leysa til sín, hverjum fyrir sinni landareign, er ráðherra leyfir, að fengnu samþykki veiðimálanefndar, enda krefjist 3/ 4 hlutar þeirra innlausnar. Nú á maður fleiri jarðir en eina, og hefur hann þá eitt atkvæði fyrir lögbýli hvert, sem metið er til verðs í gildandi fasteignamati. Erfðafestuhafi skal fara með atkvæði jarða í erfðafestu í stað eiganda. Nú er landareign í óskiptri sameign, og kemur þá fulltrúi frá eigendum, er fer með eitt atkvæði fyrir þá jörð.
2. Nú er innlausnar krafist samkvæmt 1. mgr., en eigi af hálfu allra þeirra landeigenda, er innlausnarrétt eiga, og getur þá eigandi veiðiréttar krafist þess, að þeir landeigendur, sem innlausnar krefjast, leysi til sín veiðirétt hinna, er eigi vilja innleysa.
3. Um mat á andvirði veiðiréttar og greiðslu þess fer eftir því sem segir í [95.] 1) og [97. gr.] 1)
    1)L. 63/1994, 7. gr.
4. gr. 1. Nú er landareign eða veiðiréttur í óskiptri sameign, og er þá sameigendum öllum veiði jafnheimil. Rétt er þeim, er telst vanhaldinn, að krefjast skipta á veiði, annaðhvort svo, að hvor eða hver hafi sinn hluta vatns eða veiði sinn tíma, dag eða viku, að tiltölu við eignarhluta sinn, en eigi skulu skipti lengur standa en fimm ár um sinn. Mat skal ráða, ef menn skilur á um veiðiskipti.
2. Nú er landareign í sameign, en skipt eftir merkjum, afnotaskiptum eða eignar, og skal réttur hvers aðila til veiði vera í hlutfalli við landverð hvers jarðarhluta, þegar landskipti fara fram, án tillits til legu jarðarhlutans að veiðivatni, enda verði eigi samkomulag um aðra skipan. Að öðru leyti fara landskiptin fram í samræmi við landskiptalög, nr. 46 27. júní 1941.
5. gr. Búendum, sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt, er einum heimil veiði í vötnum á þeim afrétti til búsþarfa á sama hátt sem verið hefur, enda sé veiðiréttur í þeim vötnum eigi einkaeign. Eigi má leigja veiði í slíkum vötnum eða leyfa hana með öðrum hætti. Veiðifélagi við slík vötn er heimilt að ráðstafa veiði í samræmi við lög þessi.
6. gr. Nú skilur vatn landareignir, enda fylgi veiðiréttur báðum landareignum, og er hvorum landeiganda heimil veiði í því veiðivatni innan þeirra marka, er lög þessi segja til um. Eigi er landeiganda rétt að standa að veiði hinum megin ár, en bjarga má hann veiði og veiðitæki að hinu landinu.
7. gr. Nú leggst á eða lækur í nýjan farveg eða stöðuvatn tekur sér nýtt leg, og hverfur þá veiðiréttur til þess, sem land á undir, sbr. þó 7. og 8. gr. laga nr. 15 1923.
8. gr. 1. Landeigendum, er land eiga að stöðuvatni, er einum heimil veiði í almenningi vatns, og er hún þeim öllum jafnheimil. Nú er forn venja til þess, að veiðiréttur í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum landareignum, og skal sú venja gilda framvegis.
2. Nú hefur dorgarveiði um ís verið tíðkuð að undanförnu í almenningi vatns frá jörðum, er ekki eiga land að vatninu, og skal þá slík veiði heimil framvegis.
3. Rétt er að skipta veiði þeirri, er getur í þessari grein, eftir 4. gr.
9. gr. Eigi má maður leyfa öðrum veiði fyrir sameignarlandi eða í félagsvatni (4. gr., 1. mgr.) eða almenningi (8. gr., 1. og 2. mgr.), en veiðifélagi skal þó heimilt að leyfa veiði á slíkum stöðum.

III. kafli. Um skrásetningu veiðivatna, merkingu veiðarfæra og veiðiskýrslur.
10. gr. 1. Skrásetja skal veiðivötn.
2. Í skránni skal greina:
    a. Nafn veiðivatns og legu.
    b. Hvaða jörðum fylgi veiðiréttur í vatni og frá hvaða jörðum veiði hafi stunduð verið.
    c. Veiðiaðferðir, er tíðkaðar hafa verið í vatni.
    d. Fastar veiðivélar, er notaðar voru í vatni síðasta veiðitíma, áður en lög þessi tóku gildi, og svo þær, er síðar eru teknar til notkunar.
    e. Lagnir, drætti og hrygningarstaði í vatni.
    f. Fossa og aðrar fyrirstöður fyrir fiskför í vatni.
    g. Önnur atriði, sem máli skipta um veiði í vatni og þörf þykir að skrásetja.
3. Veiðimálastjóri hefur með höndum skrásetningu veiðivatna. Öllum veiðieigendum er skylt að gefa honum þær skýrslur, sem hann óskar, um þau atriði, er skrásetja þarf.
4. Ráðherra er rétt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skrásetningu veiðivatna. Í reglugerðinni má ákveða, hver veiðivötn skuli skrásetja.
11. gr. 1. Ákveða má í samþykkt veiðifélags eða reglugerð, er ráðherra setur, 1) að merkja skuli tilteknu merki öll ádráttarnet og lagnet, sem nota á til veiði í tilteknu vatni, og svo lagnet, er nota á til silungsveiða í sjó.
2. Eftirlitsmaður með veiði hefur með höndum merkingu veiðarfæra eða hreppstjóri, þar sem eigi er eftirlitsmaður við veiðivatn.
    1)Rg. 261/1996.
12. gr. 1. Hver sá, sem veiði stundar, skal gefa skýrslu um veiði sína. Eigandi veiðiréttinda eða veiðifélag skal heimta veiðiskýrslur af veiðimanni og senda þær veiðimálastjóra.
2. Skýrslur þessar skulu gerðar eftir fyrirmynd, er veiðimálastjóri setur, og skal hann sjá um, að þeir menn, sem skýrslur eiga að gefa, geti fengið skýrslueyðublöð ókeypis. Kostnaður af prentun eyðublaða greiðist úr ríkissjóði.
3. Eftirlitsmaður með veiði eða hreppstjóri, þar sem eigi er eftirlitsmaður við veiðivatn, skulu safna veiðiskýrslum hver í sínu umdæmi og senda þær veiðimálastjóra.
13. gr. 1. [Veiðimálastjóra] 1) er heimilt að fyrirskipa, að hver sá, sem kaupir lax eða silung, veiddan innanlands, til sölu innanlands eða utan, og svo gistihús, matsöluhús, sjúkrahús og þess háttar stofnanir, er kaupa þessa vöru, skuli á mánuði hverjum gefa skýrslu um þessi kaup. [Veiðimálastjóri] 1) setur nánari reglur um slíka skýrslugerð.
2. [Veiðimálastjóra] 1) er rétt að setja reglur um merkingu lax og silungs, sem boðinn er til sölu.
    1)L. 50/1998, 2. gr.

IV. kafli. [Veiðistjórn lax- og göngusilungs og fiskrækt.]1)
    1)L. 63/1994, 2. gr.
14. gr. 1. [Eigi má veiða lax í sjó og ekki silung utan netlaga.
2. Óheimilt er að koma með lax að landi sem veiðst hefur í sjó í veiðitæki sem ætluð eru til veiði annarra fiska. Ber þeim er veiðir lax á þann hátt að sleppa honum í sjó aftur.
3. Nú hefur laxveiði í sjó verið metin sérstaklega til dýrleika í fasteignamati því er öðlaðist gildi árið 1932 eða tillit hefur verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignaverðs í því mati og er þá sú veiði leyfileg.
4. Veiði lax og göngusilungs í sjó skal hlíta sömu reglum sem veiði í ósöltu vatni eftir því sem unnt er. Ráðherra setur reglur um þessa veiði. 1)
5. Nú liggur veiðivatn eða hafbeitarstöð svo nærri sjávarveiði, slíkri sem getur í 3. mgr., að veiðimálastjóri telji að sjávarveiðin rýri veiði í vatninu eða hjá stöðinni en veiðieigendur í vatninu, einn eða fleiri, eða eigendur hafbeitarstöðvar vilja leysa sjávarveiðina til sín og er ráðherra þá rétt að leyfa það að fengnu samþykki veiðimálanefndar. Um mat á andvirði veiðiréttar og greiðslu þess fer eftir því sem segir í 94. og 96. gr. 2)
6. Heimild landareigna, sem liggja að sjó, til silungsveiða skal miðast við þann netafjölda sem viðkomandi landareign hafði síðustu fimm ár fyrir gildistöku laga um lax- og silungsveiði frá 1957. Um ágreining skal fjalla skv. 94. gr. 3) Rétt er ráðherra að setja reglur um silungsveiði í sjó.
7. Rétt er [veiðimálastjóra] 4) að takmarka eða banna veiði göngusilungs í sjó á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma enda komi ósk um slíka friðun frá einstökum veiðieigendum eða veiðifélagi sem ætla verði að njóti góðs af friðun þessari. Um mat á bótum vegna slíkrar takmörkunar fer skv. 94. og 96. gr., 2) en bætur skulu greiddar af þeim sem takmörkunar óskar.
8. Með sama skilorði og í 7. mgr. segir er [veiðimálastjóra] 4) rétt að banna veiði fiska framan við árósa þar sem hætta er á að lax og silungur geti veiðst í veiðiútbúnað sem ætlaður er til slíkrar veiði.] 5)
    1)Rg. 261/1996. 2)Nú 95. og 97. gr. 3)95. gr. 4)L. 50/1998, 3. gr. 5)L. 63/1994, 2. gr.
15. gr. 1. [Veiða má silung í sjó á færi og á stöng, í ádráttarnet og í lagnet, þó eigi á lóð, í króknet, fleygnætur, herpinætur né önnur veiðitæki þau er lax má í veiða.
2. Á tímabilinu 1. apríl til 1. október má eigi leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 1.500 metra ef meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m 3 á sekúndu en 2.000 metra ef vatnsmagnið er meira og eigi nær en 1.500 metra frá hafbeitarstöð, enda gangi fiskur í það vatn eða þá hafbeitarstöð. Fullt samráð skal hafa við viðkomandi veiðifélag eða hafbeitarstöð varðandi ráðstöfun stangaveiði á þessu svæði. [Rétt er veiðimálastjóra að takmarka stangaveiði á friðuðu svæði við ós og setja reglur 1) um veiðitæki og möskvastærð neta við slíka ósa. Þó getur veiðimálastjóri að fenginni umsögn Fiskistofu leyft ádrátt fyrir síld og loðnu á friðuðu svæði tiltekinn tíma ársins.] 2)
3. [Til verndunar villtra stofna laxfiska er veiðimálastjóra rétt að friða tiltekin svæði í sjó í nágrenni mikilvægra veiðivatna þar sem ekki verði heimiluð starfsemi á sviði fiskeldis og hafbeitar með laxfiska.] 2) Ráðherra skal setja reglur um þessi friðunarsvæði.] 3)
    1)Rg. 261/1996. 2)L. 50/1998, 4. gr. 3)L. 63/1994, 2. gr.
16. gr. 1. [Eigi má hafa ádrátt í ósi straumvatns eða ósasvæði.
2. Eigi má veiða fisk í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk í ósum úr stöðuvötnum þeim er lax eða göngusilungur fer um né 50 metra upp eða niður frá slíkum ósum.
3. [Veiðimálastjóri] 1) getur … 1) veitt undanþágu að nokkru leyti eða öllu frá banni því er ræðir um í 1. og 2. mgr. þar sem svo hagar til að veiði í ós eða við er eigi talin skaðvænleg.
4. [Veiðimálastjóra] 1) er rétt með samþykki veiðimálanefndar [og hlutaðeigandi veiðifélags] 1) að banna alla veiði eða tilteknar veiðiaðferðir upp eða niður frá ósi enda þyki það nauðsynlegt til viðhalds veiði í vatni. Bann þetta skal standa tiltekinn tíma og má binda það því skilorði að veiðieigendur eða ábúendur greiði bætur þeim aðila sem öðrum fremur missir af veiði vegna slíks banns. Ákveða má bætur með mati skv. 94. gr. 2) ef eigi semst.] 3)
    1)L. 50/1998, 5. gr. 2)95. gr. 3)L. 63/1994, 2. gr.
17. gr. [Í straumvatni eða hluta straumvatns þar sem veiði er stunduð með föstum veiðivélum skal fiskur eiga frjálsa för eftir miðju vatni og nefnist þar gönguhelgi. Hún tekur yfir þriðjung af breidd straumvatns um miðbik en helming af breidd óss eða ósasvæðis. Þó skal fiskur eiga frjálsa för eftir aðalstraumlínu þótt skemmra liggi frá bakka en nemi þriðjungi af breidd vatns. Nú greinir menn á um gönguhelgi eða aðalstraumlínu og má þá skjóta þeim ágreiningi til mats skv. 94. gr. 1)] 2)
    1)95. gr. 2)L. 63/1994, 2. gr.
18. gr. 1. [Eigi má veiða lax nema á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert. [Nú telst sannað að fiskur hrygni í veiðivatni í september og er veiðimálastjóra þá rétt að fenginni umsögn veiðimálanefndar að ákveða að veiðitíma ljúki fyrr í því vatni.] 1) Ádráttarveiði er eigi heimil eftir 31. ágúst.
2. Á tímabili því, er getur í 1. mgr., má hvergi stunda laxveiði lengur en 3 og 1/ 2 mánuð. [Rétt er veiðimálastjóra að setja nánari reglur um veiðitíma í vatni hverju að fengnum tillögum hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar.] 1)
3. Göngusilung má veiða frá 1. apríl til 10. október ár hvert. Þó skulu lok veiðitíma göngusilungs í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, miðast við 30. september skv. 1. mgr. [Þá er sérstaklega stendur á getur veiðimálastjóri að fenginni umsögn veiðimálanefndar leyft að göngusilungur sé veiddur utan þess tíma í lagnet, á stöng, á dorg og færi.] 1)
4. Frá 1. apríl og þar til laxveiði hefst má eigi nota önnur veiðitæki til veiði göngusilungs en stöng og færi, lagnet og ádráttarnet.
5. Nú veiðist lax á tímabilinu frá 1. apríl og þar til laxveiðitími hefst og er þeim er veiðir skylt að sleppa honum í vatn aftur.
6. Á friðunartíma þeim sem getur í þessari grein skulu allar fastar veiðivélar teknar upp úr veiðivatni, sbr. þó 3. mgr.] 2)
    1)L. 50/1998, 6. gr. 2)L. 63/1994, 2. gr.
19. gr. 1. [Á veiðitíma þeim er getur í 18. gr., skal lax og göngusilungur vera friðaður gegn allri veiði, annarri en stangaveiði, 84 stundir á viku hverri, frá föstudagskvöldi kl. 10 til þriðjudagsmorguns kl. 10. Friðunartíma þennan má stytta í 60 stundir á viku sé að dómi veiðimálastjóra, veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags engin hætta á að um þverrandi fiskstofn sé að tefla á viðkomandi veiðisvæði. Með sama skilorði má lengja friðunartímann um allt að 24 stundir verði talin hætta á þverrandi fiskstofni í fiskihverfinu eða til jöfnunar fiskigengd í því vatni. Ádrátt má aldrei hafa frá kl. 9 síðdegis til kl. 9 árdegis og aldrei nema tvo daga í viku hverri, þriðjudag og miðvikudag. Stangaveiði og veiði með færi má stunda frá sólarupprás til sólseturs, þó aldrei á tímabilinu frá kl. 3 eftir miðnætti til kl. 7 árdegis og aldrei lengur en 12 klst. á sólarhring hverjum. Rétt er að setja nánari reglur um daglegan stangaveiðitíma með sama hætti og ákveðið er í 2. mgr. 18. gr. Nú fer lax og göngusilungur um stöðuvatn og skal hann friðaður þar svo sem nú var sagt.
2. [Veiðimálastjóra er rétt að ákveða að friðun sú sem getur í 1. mgr. skuli gilda aðra daga ofar í straumvatni en neðar enda telji hann það nauðsynlegt til jöfnunar fiskigengd í því vatni.] 1)] 2)
    1)L. 50/1998, 7. gr. 2)L. 63/1994, 2. gr.
20. gr. [[Veiðimálastjóra] 1) er rétt … 1) með samþykki veiðimálanefndar að friða tiltekin svæði í vatni þar sem fiskur safnast saman til hrygningar eða vegna fyrirstöðu á göngu, svo sem undir fossum enda telji [hann] 1) að veiði á þeim stöðum sé hættuleg fiskstofni vatnsins. Friðun þessa má binda tiltekinn tíma. Slík friðun er því skilyrði háð að veiðieigendur eða ábúendur í fiskihverfi greiði bætur þeim aðila sem missir verulega og öðrum fremur af veiði vegna friðunar. Ákveða má bætur með mati skv. 94. gr. 2) ef eigi semur.] 3)
    1)L. 50/1998, 8. gr. 2)95. gr. 3)L. 63/1994, 2. gr.
21. gr. [Veiðimálastjóra er rétt að friða heilt vatn gegn allri veiði eða einstökum veiðiaðferðum, enda sé sú friðun nauðsynleg til verndar fiskstofni þess vatns, en leita skal hann samþykkis hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar.] 1)
    1)L. 50/1998, 9. gr.
22. gr. 1. [Þrátt fyrir ákvæði 16.–21. gr., svo og ákvæði 38. gr., er leyfilegt að veiða lax og silung til vísindalegra rannsókna og eru slíkar veiðar undanþegnar friðunarákvæðum laga þessara.
2. Til veiði þeirrar er getur í 1. mgr. þarf veiðiskírteini. [Veiðimálastjóri gefur út veiðiskírteini.] 1) Veiðiskírteinið skal gefið út handa einstaklingi og gildir það um tiltekinn tíma.] 2)
    1)L. 50/1998, 10. gr. 2)L. 63/1994, 2. gr.
23. gr. 1. [Skylt er að gera fiskræktaráætlun, er nái til fimm ára í senn, í hverju veiðivatni þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangaveiði eða öðrum atriðum fiskræktar sem um getur í 2. mgr. 44. gr.
2. Fiskræktaráætlun skv. 1. mgr. er háð samþykki veiðimálastjóra, enda hafi veiðifélag eða meiri hluti veiðieigenda við veiðivatn ákveðið að ráðast í slíka framkvæmd. Í leyfið skal setja skilyrði sem veiðimálastjóri telur nauðsynleg til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun og nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.
3. Nú vill veiðifélag eða meiri hluti veiðieigenda við veiðivatn láta veiða lax og silung til hrognatöku í því vatni og er það háð leyfi veiðimálastjóra … 1) Leyfið gildir um tiltekinn tíma og í það skal setja skilyrði sem eru nauðsynleg til verndar fiskstofni skv. 2. mgr. og felur í sér heimild skv. 1. mgr. 22. gr.
4. [Veiðimálastjóri] 1) getur skv. 1. og 2. mgr. heimilað notkun hafbeitarstofns úr sama landshluta til hafbeitar á laxi í veiðivatni enda sé fullnægt skilyrðum um samþykki veiðieigenda við veiðivatnið sem um getur í 2. mgr.] 2)
[5. Við fiskrækt í ám og vötnum skal einungis nota stofn úr viðkomandi veiðivatni.
6. Hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangaveiði er óheimill.
7. Veiðimálastjóri getur veitt undanþágu frá ákvæðum 5. og 6. mgr. að fengnu sérstöku mati á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins og aðliggjandi veiðivatna skv. 8. og 12. mgr.
8. Til þess að fá undanþágu frá banni skv. 5. og 6. mgr. þarf veiðifélag eða eigandi veiðivatnsins sem áformar fiskrækt með framandi stofni eða flutning framandi stofns í veiðivatn að sækja um það til veiðimálastjóra. Undanþágu má að hámarki veita til tveggja ára í senn. Með umsókn skal fylgja greinargerð um framkvæmdina, umsögn dýralæknis fisksjúkdóma um fisksjúkdóma og Veiðimálastofnunar um önnur hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið, þar með talda erfðamengun. Framkvæmdaraðili ber kostnað af gerð umsagna. Veiðimálastjóri setur almennar reglur 3) um slíkar umsagnir.
9. Innan tveggja vikna frá móttöku birtir veiðimálastjóri með opinberri auglýsingu umsókn framkvæmdaraðila og kallar eftir umsögnum veiðifélaga á viðkomandi vatnasviði um framkvæmdina. Frá og með þeim tíma skal hverjum sem er vera heimill aðgangur hjá veiðimálastjóra að umsögnum skv. 8. mgr. Athugasemdum skal skilað til veiðimálastjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar. Innan átta vikna frá því að veiðimálastjóri hefur birt umsókn framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð um það hvort fallist sé á umsókn eða henni hafnað. Veiðimálastjóra er heimilt að binda undanþágu skilyrðum.
10. Þegar ákvörðun veiðimálastjóra liggur fyrir skal hún kynnt framkvæmdaraðila og þeim sem hlut eiga að máli, þar á meðal öðrum veiðifélögum á viðkomandi vatnasviði. Jafnframt skal birta hana opinberlega.
11. Ráðherra er heimilt að ákveða með sérstakri reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis veiðimálastjóra af málsmeðferð samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
12. Úrskurð veiðimálastjóra skv. 9. mgr. má kæra til landbúnaðarráðherra innan fjögurra vikna frá birtingu. Ráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því er beiðni barst honum.] 1)
    1)L. 50/1998, 11. gr. 2)L. 63/1994, 2. gr. 3)Rg. 594/1998.

V. kafli. [Veiðistjórn vatnasilungs.] 1)
    1)L. 63/1994, 3. gr.
24. gr. 1. [Vatnasilung er heimilt að friða fyrir allri veiði ef ástæða þykir til. Veiðimálastjóri skal ákveða lengd friðunartíma í vatni hverju í samráði við hlutaðeigandi veiðifélag.
2. [Veiðimálastjóra er rétt að ákveða allt að tveggja sólarhringa friðun á viku hverri.] 1)
3. [Ef beitt er ákvæðum 1. mgr. um friðun í vatni er veiðimálastjóra rétt að leyfa lagnetaveiði til heimilisnota á friðunartímanum.] 1) Leyfi þetta skal binda nauðsynlegum skilyrðum til að tryggja að hrygnandi fiskur verði eigi veiddur á þennan hátt, svo sem skilyrði um fjarlægð lagna frá hrygningarstöðvum.
4. [Veiðimálastjóri getur sett reglur um friðun vatnasilungs þar sem hann hrygnir að sumarlagi.] 1)] 2)
    1)L. 50/1998, 12. gr. 2)L. 63/1994, 3. gr.
25. gr. [Nú telst rétt að uppræta fisk úr veiðivatni, svo sem vegna sjúkdóma eða til þess að rækta aðrar fisktegundir en þær er fyrir voru í vatninu, og skal veiðimálastjóra þá heimilt að fenginni umsögn viðkomandi veiðifélags, Veiðimálastofnunar og Náttúruverndar ríkisins og með samþykki Hollustuverndar ríkisins að leyfa notkun sérstakra efna við eyðingu fiskstofns vatns með þeim skilyrðum sem þurfa þykir.] 1)
    1)L. 50/1998, 13. gr.
26. gr. [Ákvæði 22. gr. taka einnig yfir veiði vatnasilungs.] 1)
    1)L. 63/1994, 3. gr.

VI. kafli. Um veiðitæki og veiðiaðferðir.
27. gr. 1. Í straumvatni má nota þau ein veiðarfæri, sem hér segir: Færi, stöng, lagnet og króknet.
2. Leyfi veiðimálanefndar og veiðimálastjóra þarf til að taka í notkun til veiða á laxi og silungi veiðarfæri úr nýjum efnum eða úr efnum framleiddum með nýjum aðferðum.
3. [Veiðimálastjóra] 1) er rétt … 1) að leyfa veiði með girðingum, kistum og ádráttarnetjum, þar sem sérstaklega hagar til, enda setji hann með sama skilorði ákvæði um gerð og notkun þessara veiðitækja umfram það, sem segir í lögum þessum.
4. [Veiðimálastjóri] 1) getur leyft, að reynd séu eða upp tekin önnur veiðarfæri, m.a. til vísindalegra þarfa, enda mæli veiðimálanefnd … 1) með því. Slík leyfi skal binda þeim skilyrðum um gerð veiðitækja og notkun, sem nauðsynleg þykja.
5. Eigi má fjölga lögnum frá því, sem verið hefur síðustu 5 ár fyrir gildistöku laga þessara. Nú er breytt um veiðiaðferðir og veiði með föstum veiðivélum tekin upp, og skal þá heimilt að nota gamlar lagnir, sem löglegar teljast samkvæmt ákvæðum þessara laga. Einnig er það heimilt, ef veiði hefur ekki verið stunduð um ákveðið árabil, en er tekin upp aftur, eða ef veiði er tekin upp í vatni, þar sem ræktun hefur farið fram, þótt eigi hafi þar áður verið veitt.
6. Nú þykja ákvæði þessara laga um friðun og veiðitæki eigi veita fiskstofni vatns nægilega vernd gegn ofveiði, og er [veiðimálastjóra] 1) rétt … 1) með samþykki veiðimálanefndar að fækka föstum veiðivélum í því vatni.
    1)L. 50/1998, 14. gr.
28. gr. 1. Eigi má veiða fisk með krók eða sting eða í háf. Þó má nota þessi tæki til þess að bjarga á land fiski, sem fastur er á öngli, í neti eða gildru, og skal gerð þeirra miðuð við þau not ein.
2. Eigi má veiða fisk með því að veita af honum vatni.
29. gr. 1. Lagnet og króknet skulu liggja frá bakka eða garði, er gengur þvert á straum út frá bakka, beint út í straumvatn eða forstreymis. Leiðara má hafa niður frá krók, og telst hann hluti veiðivélar.
2. Í vatni, sem lax eða göngusilungur fer um, má eigi leggja lagnet svo, að af verði gildra.
3. Lagnet og króknet, sem notuð eru í straumvatni, er lax og göngusilungur fer um, mega eigi vera smáriðnari en svo, að 4,5 cm verði milli hnúta, þá er net eru vot. Sama máli gegnir um leiðara frá krókneti eða annarri veiðivél.
4. Eigi má nota tvöföld net. Í straumvatni, sem mikið ber með sér af slýi eða slafaki, má þó hafa net til varnar fyrir reki þessu. Slík varnarnet mega þó hvergi vera nær neti eða garði en 3 m, og skulu þau vera þannig gerð, að fiskur geti ekki ánetjast í þeim eða króast. Veiðimálastjóri setur reglur um gerð varnarnetja.
30. gr. 1. Við veiði með færi og stöng skal nota agn, lifandi eða dautt, sem fiskur eltir og tekur. Aldrei má við slíka veiði nota krækjur né neitt annað, sem festir í fiski, að honum óvörum og án þess að hann elti það.
2. Eigi má stunda stangarveiði í þeim hluta straumvatns, þar sem veitt er með föstum veiðivélum eða ádrætti né á vikufriðunartíma þessara veiðitækja. Veiðimálastjóra er rétt að setja nánari reglur um, hversu haga skuli veiði og friðun í vatni hverju, en hafa skal hann samráð um það við veiðifélag. Nú verða öll net tekin upp ákveðið tímabil veiðitímans, samkvæmt ákvörðun stjórnar veiðifélags, og getur hún þá um það tímabil leyft stangarveiði í þeim hluta straumvatns, þar sem veitt var með föstum veiðivélum eða ádrætti.
3. Eigi má stunda stangarveiði nær föstum veiðivélum né stöðum, þar sem veitt er með ádrætti, en 100 metra. Þó má bilið ekki vera skemmra en sem svarar fimmfaldri lengd veiðivélarinnar, sem næst liggur.
4. Veiðimálastjóri ákveður með samþykki veiðimálanefndar, hversu margar stengur megi hafa um sinn í veiðivatni. Leita skal hann um það álits veiðifélags.
5. Nú rís ágreiningur um skiptingu veiðitíma, veiðistaði eða leigu eftir veiði milli notenda veiðiréttar í vatni, slíku er ræðir um í 4. mgr., og er þá þeim, er telur sig vanhaldinn, rétt að krefjast mats samkvæmt 94. gr. 1) laga þessara.
    1)95. gr.
31. gr. 1. Girðing í straumvatni, sem lax eða göngusilungur fer um, skal þannig gerð, að hlið sé á henni, eigi minna en 5 m breitt við inngang í gildru eða veiðikró. Veiðimálastjóri getur mælt svo fyrir, að hlið skuli höfð á girðingu, þar sem hún liggur yfir ál, sem ætla má, að mikil fiskför sé um. Hlið þessi skulu standa opin þann tíma viku, sem vatn er friðað samkvæmt 19. gr. Eigi má hafa nema einn leiðara við girðingu, og telst hann hluti veiðivélarinnar.
2. Inngangur í veiðikrær skal vita undan straumi, og má leiðari frá girðingu aldrei liggja á móti straumi né girðingu að öðru leyti vera þannig hagað, að hætta sé á, að hún taki fisk, sem forstreymis gengur.
32. gr. 1. Laxakista eða silunga skal þannig gerð, að í þeirri hlið kistu, er mest veit móti straumi, séu eigi færri en tíu spelar sívalir, er standi lóðrétt og nái frá botni kistunnar til yfirborðs vatns. Slár má því einungis hafa milli spela, að þær gangi þvert á þá, og sé aldrei minna bil en 50 cm á milli slánna.
2. Garður sá, sem gengur milli lands og kistu, skal einnig vera gerður úr spelum, og skal spelum og slám á milli þeirra vera svo fyrir komið sem segir í 1. mgr. Á garði þessum skal vera hlið, þar sem straumur er mestur eða ætla má að fiskur eigi greiðasta för í þeim hluta ár, er garðurinn nær yfir. Má hliðið eigi þrengra vera en 50 cm og ná frá botni til yfirborðs vatns.
3. Garður sá, sem gengur forstreymis frá kistu, skal vera gerður úr spelum, og skal spelum og þverslám í garðinum svo hagað sem segir í 1. mgr. Veiðimálastjóri getur skipað fyrir um, að sett skuli hlið á garð þennan, þar sem ætla má, að fiskför verði mest í þeim hluta straumvatns, er garðurinn nær yfir. Hlið þessi skulu svo gerð sem fyrir er mælt í 2. mgr.
4. Kistum skal þannig fyrir komið, að auðvelt sé að ganga að þeim til eftirlits.
33. gr. 1. Eigi má draga ádráttarnet yfir meira en 2/ 3 hluta af breidd straumvatns í senn, og skal fiskför því jafnan vera frjáls og óhindruð um þriðjung af breidd vatnsins, sbr. 17. gr.
2. Fyrirstöðunet eða annað, er tálmar undankomu fisks, má eigi nota við ádrátt. Eigi má ádráttarnet vera tvöfalt.
3. Eigi má hafa ádrátt nær fastri veiðivél en 200 metra.
34. gr. 1. Aldrei má föst veiðivél, né nokkur hluti hennar, ná lengra út frá bakka en svo, að utan hennar verði 2/ 3 hlutar af breidd ár, 3/ 4 af breidd óss eða ósasvæðis, sbr. 17. gr., og skal mælt þvert á meginstraumstefnu. Aldrei má veiðivél ná lengra út en í aðalstraumlínu eða í miðjan höfuðál óss eða ósasvæðis.
2. Í vatni, sem lax eða göngusilungur fer um, skulu lagnet, króknet og net í öðrum veiðivélum eigi vera smáriðnari en svo, að 4,5 cm verði milli hnúta, þá er net eru vot. Í kistum og görðum að kistum má eigi vera skemmra á milli spela en 4,5 cm.
3. Garður að lagneti og krókneti skal þannig gerður, að fiskur geti eigi ánetjast eða orðið fastur í honum. Veiðimálastjóri setur nánari ákvæði um gerð garðs.
4. Eigi má hafa fleiri en eitt lagnet, einn krók, kistu eða veiðikró í veiðivél hverri.
5. Þann tíma viku, sem fiskur er friðaður gegn veiði samkvæmt 19. gr., skulu kistur og veiðikrær vera tryggilega lokaðar, en lagnet og króknet verða tekin öll upp úr vatni og á land flutt. Veiðimálastjóri getur mælt svo fyrir, að á garði að lagneti, krókneti, kistu eða veiðikró skuli höfð fleiri hlið en áður getur, og skulu þau standa opin þann tíma viku, er vötn eru friðuð samkvæmt 19. gr. Hlið á girðingum að kistu eða veiðikró skulu standa opin á sama tíma. Veiðimálastjóra er rétt að setja nánari reglur um þetta efni.
6. Þá er veiðitíma er lokið ár hvert, skal taka veiðivélar upp úr vatni, svo fljótt sem unnt er. Veiðimálastjóra eða eftirlitsmanni er rétt að taka upp veiðivél á kostnað eiganda, er eigi tekur hana upp á réttum tíma.
35. gr. 1. Milli fastra veiðivéla, hvort sem þær eru sömu megin í straumvatni eða sitt frá hvoru landi, skal jafnan vera 100 metra bil eftir endilöngu vatni, þar sem skemmst er á milli þeirra. Þó má bil aldrei vera skemmra en fimmföld lengd veiðivéla frá bakka og út á vatn. Leiðari, er liggur frá fastri veiðivél, telst hluti hennar. [Veiðimálastjóra er rétt að veita undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar þegar sérstaklega stendur á.] 1)
2. Lengd fastrar veiðivélar skal miða við það, að meðalrennsli sé í straumvatni.
3. Til lengdar fastrar veiðivélar samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar telst fjarlægð hennar frá bakka straumvatns, hvort sem girt er yfir allt það svæði eða eigi. Leiðari telst til fastrar veiðivélar.
4. Nú hagar svo til að styttra verður milli lagna tveggja veiðieigenda en leyfilegt er samkvæmt þessari grein, en hvorugur vill víkja, og skal mat skera úr ágreiningi. Þar sem föst veiðivél er sett, skal lögn vera löggilt af lögreglustjóra í samráði við veiðimálastjóra. Nánari ákvæði um löggildingu lagna getur ráðherra sett.
    1)L. 50/1998, 15. gr.
36. gr. 1. Í þann hluta straumvatns, sem fiskur á frjálsa för um fram hjá fastri veiðivél, má eigi láta grjót eða aðra hluti, er tálma för fisksins fram hjá veiðivélinni. Eigi má heldur dýpka farveg straumvatns niður frá fastri veiðivél eða upp frá henni, svo að þar verði dýpi meira en utan veiðivélarinnar.
2. Nú hefur veiðieigandi brotið gegn ákvæðum 1. mgr., og skal honum þá skylt, þá er krafist er, að nema farartálmann á brott eða fylla farveg svo, að í samt lag komist. Verk þetta má eftirlitsmaður með veiði eða hreppstjóri láta vinna á kostnað veiðieiganda, ef hann lætur eigi vinna það sjálfur. Veiðivél skal þá og upp tekin, og má eigi setja hana niður fyrr en straumvatn er komið í samt lag og áður.
3. Bannað er að styggja eða teygja fisk í fasta veiðivél, ádráttarnet eða á veiðistað, svo sem með hávaða, grjótkasti eða ljósum.
37. gr. Nú rennur straumvatn í kvíslum, og skal þá svo haga veiði í kvísl hverri sem væri hún sérstakt vatn. [Þó getur veiðimálastjóri leyft að leggja veiðivél út í miðja kvísl, ef eigi er lagt nema í eina.] 1)
    1)L. 50/1998, 16. gr.
38. gr. 1. Í stöðuvatni má nota þau veiðitæki ein, er hér segir: Færi, dorg, stöng, lóð, lagnet og ádráttarnet. Þó getur [veiðimálastjóri] 1) leyft, að notuð séu önnur veiðitæki samkvæmt því, sem segir í 4. mgr. 27. gr.
2. Eigi má hafa ádrátt í almenningi stöðuvatns. [Veiðimálastjóra er þó rétt að veita viðkomandi veiðifélagi undanþágu frá ákvæði þessu, enda mæli veiðimálanefnd með því.] 1)
3. [Veiðimálastjóra] 1) er rétt … 1) að setja reglur um fjölda, gerð og notkun þeirra veiðitækja, sem leyfð eru samkvæmt 1. mgr., og um lágmarksstærð silungs, er veiða má.
4. Veiði í stöðuvatni, sem lax og göngusilungur fer um, skal hlíta sömu ákvæðum sem í straumvatni væri um fjarlægð veiðivéla og gönguhelgi.
5. Nú veiðist vatnasilungur minni en leyfilegt er að veiða samkvæmt reglum þeim, er getur í 3. mgr., og skal þeim, er veiðir, skylt að sleppa honum aftur í vatn.
    1)L. 50/1998, 17. gr.

VII. kafli. [Fiskvegir og önnur mannvirkjagerð í og við veiðivötn.]1)
    1)L. 63/1994, 4. gr.
39. gr. 1. [[Veiðimálastjóra] 1) er rétt að leyfa að gerður sé fiskvegur í vatni eða meðfram vatni enda samþykki [hann] 1) gerð fiskvegar og hafi umsjón með framkvæmd verksins.
2. Hverjum manni er skylt að láta af hendi land, landsafnot, vatn eða afnot vatns er með þarf til fiskvegar, og þola verður hann þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem fiskvegurinn kann að hafa í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir eftir mati nema samkomulag verði.
3. Um breytingu á fiskvegi eða vatnsmagni í honum fer eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.] 2)
    1)L. 50/1998, 18. gr. 2)L. 63/1994, 4. gr.
40. gr. [Eigi má veiða eða styggja fisk í fiskvegi né nær neðra mynni hans en 30 metra og eigi nær efra mynni hans en 20 metra. Eigi má spilla fiskvegum né tálma með nokkrum hætti fiskför að þeim né um þá.] 1)
    1)L. 63/1994, 4. gr.
41. gr. 1. [Nú er stífla gerð í veiðivatni eða önnur mannvirki sem tálma fiskför í vatninu og eru eigi lögleg veiðitæki og skal þá þeim er gera lætur skylt að gera fiskveg í vatninu eða meðfram því til þess að fiskur geti átt jafngreiða för um það og áður. Honum er skylt að halda fiskveginum við. Gerð fiskvegar er háð samþykki veiðimálastjóra og skal verkið unnið undir umsjón hans.
2. Ákvæði 1. mgr. gilda eigi:
    a. ef vatn er eigi fiskgengt af öðrum ástæðum,
    b. ef mannvirki lýtur að því að bæta veiðiskilyrði eða lífsskilyrði í veiðivatni og það hefur verið samþykkt á aðalfundi veiðifélags enda sé það háð samþykki veiðimálastjóra á sama hátt sem fiskvegur,
    c. ef talið er í matsgerð að gerð fiskvegar og viðhald hafi meiri kostnað í för með sér en hagnaði af veiði nemur enda séu þá veiðispjöll þau, er af mannvirkinu leiðir, bætt fullum bótum.
3. Heimilt er eignarnám, svo sem segir í 2. mgr. 39. gr., til fiskvegar sem gerður er samkvæmt þessari grein.] 1)
    1)L. 63/1994, 4. gr.
42. gr. 1. [Nú er vatni veitt úr veiðivatni til áveitu, vatnsveitu eða annarra áþekkra nota eða vatni er veitt í veiðivatn úr áveituskurði, vatnsveituskurði, öðrum skurði eða leiðslu og getur þá veiðimálastjóri krafist þess að búið sé svo um skurð eða leiðslu að fiskur eða fiskseiði gangi eigi í. Kostnað af umbúnaði þessum greiðir eigandi veitu.
2. Nú verða tíðar breytingar á vatnsmagni veiðivatns vegna vatnsmiðlunar og skal þá haga miðlun þannig að sem minnst tjón hljótist á fiskstofni veiðivatns. Svo skal og til haga þá er uppistöður eru tæmdar, svo sem vegna hreinsunar. Hafa skal samráð við veiðimálastjóra um þetta.] 1)
    1)L. 63/1994, 4. gr.
43. gr. [Nú er fyrirhugað að taka jarðefni eða gera mannvirki í eða við veiðivatn sem hætta er á að hafi áhrif á lífríki vatnsins, og skal þá veiðimálastjóri láta fara fram líffræðilega úttekt á viðkomandi veiðivatni áður en ráðist er í framkvæmdina. Kostnað af úttektinni greiðir sá er að framkvæmdum stendur. Þegar niðurstaða liggur fyrir skal heimilt að ráðast í viðkomandi framkvæmdir enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun þeirra.] 1)
    1)L. 63/1994, 4. gr.

VIII. kafli. Um veiðifélög.
44. gr. 1. Skylt er mönnum að gera með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi, svo fljótt sem kostur er. Rétt er félagi:
    a. Að ákveða, að veiða skuli með tilteknum veiðitækjum, eftir því sem segir í lögum þessum.
    b. Að láta stunda veiði.
    c. Að selja á leigu rétt til stangarveiði í öllu fiskihverfinu eða hluta þess.
    d. Að skipta veiði milli félagsmanna og úthluta hverjum veiðihlut sínum.
2. Veiðifélagi er skylt að stunda fiskrækt, eftir því sem við á. Fiskrækt telst friðun fisks, umbætur á lífsskilyrðum fisks, flutningur fisks í veiðivatn, auðveldun á gönguleiðum fisks, eftirlit með veiði og annað, er lýtur að aukningu fiskstofns eða viðhaldi hans.
3. Um slíkan félagsskap, sem getur í grein þessari, skal fara svo sem mælt er í kafla þessum.
45. gr. 1. Félagssvæði veiðifélags getur tekið yfir:
    a. Heilt fiskihverfi.
    b. Einstakt veiðivatn í fiskihverfi.
    c. Hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagar til um veiði eða vatnskosti.
    d. Veiðivötn á afrétti, sem eru hluti af einu eða fleiri fiskihverfum og eru á sama landssvæði.
2. Veiðifélag skal taka til allrar veiði á félagssvæðinu.
3. Nú er félagssvæði hluti straumvatns, og er rétt, að félagssvæði nái svo langt upp með vatninu sem veiði er stunduð, nema sérstaklega standi á.
46. gr. 1. Veiðimálastjóri og veiðimálanefnd ákveða félagssvæði veiðifélags innan marka laganna.
2. Frumkvæði að stofnun veiðifélags hafa:
    a. Einn eða fleiri ábúendur eða eigendur jarða á hinu fyrirhugaða félagssvæði í samráði við veiðimálastjóra og veiðimálanefnd.
    b. Veiðimálastjóri í samráði við veiðimálanefnd.
3. Veiðimálastjóri hlutast til um boðun stofnfundar.
47. gr. 1. Nú ber að stofna félag við vatn, sem veiði er í, og skal kveðja til fundar ábúendur allra jarða á hinu fyrirhugaða félagssvæði svo og eigendur eyðijarða. Ef félag á eða hefur til afnota land, sem veiðiréttur fylgir, skal boða formann félags. Nú hefur veiðiréttur verið skilinn frá landareign að fullu, og skal boða handhafa veiðiréttar. Þá menn, er veiði kunna að eiga í almenningi stöðuvatns samkvæmt 2. mgr. 8. gr., er eigi skylt að boða, en gefa skal þeim kost á þátttöku í félaginu, þá er stofnað hefur verið, ef þeir sanna rétt sinn. Eigi skulu þeir hafa atkvæðisrétt um málefni, er varða aðrar veiðiaðferðir en dorgarveiði.
2. Nú ber að stofna veiðifélag við vatn, sem verið hefur veiðilaust, og skal boða til fundar ábúendur allra þeirra jarða, sem lönd eiga að vatni á hinu fyrirhugaða félagssvæði.
3. Fund skal boða skriflega eða í símskeyti eigi síðar en 14 dögum fyrir fundardag og auk þess með auglýsingu í Ríkisútvarpinu tvo daga í röð eigi síðar en viku fyrir fundardag. Fundur er lögmætur, ef hann er löglega boðaður.
48. gr. 1. Á fundi þeim, sem boðaður hefur verið samkvæmt 47. gr., skal leggja fram bréf með ákvörðun veiðimálastjóra og veiðimálanefndar um félagsstofnun ásamt öðrum skjölum, sem fram hafa komið um málið. Á fundinum skal ræða um stofnun félags og verkefni, kjósa stjórn og bóka fundargerð.
2. Á þeim fundi og öðrum fer um atkvæðisrétt eins og hér segir: Ábúandi hvers lögbýlis, sem metið er til verðs í gildandi fasteignamati við gildistöku laga þessara, skal hafa eitt atkvæði. Nú býr maður á fleiri en einni jörð, og hefur hann þá eitt atkvæði. Nú er jörð í eyði, og hefur eigandi hennar eitt atkvæði. Nú eru ábúendur lögbýlis eða eigendur eyðijarðar fleiri en einn, og skulu þeir gera með sér skriflegan samning um, hver fari með atkvæðisrétt jarðarinnar. Fela má öðrum að fara með atkvæði, enda sé umboðið skriflegt og eigi eldra en þriggja mánaða og þess getið í fundarbók.
3. Nú er stofnað veiðifélag, sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum, og skal koma eitt atkvæði fyrir hvert lögbýli við gildistöku laga þessara, sem á veiðirétt á þeim afréttum eða rétt á til upprekstrar á þá.
49. gr. 1. Nú er stofnun félags löglega ákveðin, og skal setja félaginu samþykkt á stofnfundi eða á öðrum fundi, sem boðaður er á sama hátt sem stofnfundur. Atkvæði 2/ 3 félagsmanna þarf til þess, að samþykkt sé gerð. Greiða má atkvæði skriflega, enda sé þess getið í fundarbók. Nú verður samþykkt eigi gerð vegna ónógrar fundarsóknar eða af öðrum ástæðum, og skal boða til annars fundar á sama hátt og að framan greinir. Ræður þar afl atkvæða. Um félagsmál, sem eigi er sérstaklega ákveðið í lögum, gildir afl atkvæða.
2. Nú er eigi gerð lögmæt samþykkt samkvæmt 1. mgr., og er þá veiðimálastjóra og veiðimálanefnd rétt að setja félaginu samþykkt, sem gildir, uns félagið setur sér lögmæta samþykkt með þeim hætti, er í 1. mgr. segir. Nú greinir veiðimálastjóra og veiðimálanefnd á, og sker ráðherra úr.
3. Í samþykkt félags skulu vera ákvæði um:
    a. Nafn félags, heimilisfang og varnarþing.
    b. Félagssvæði. Skulu þar taldar, svo að eigi verði um villst, allar þær jarðir, sem eru á félagssvæðinu.
    c. Verkefni félags.
    d. Skipun og starfssvið félagsstjórnar.
    e. Reikninga félags og endurskoðun.
    f. Meðferð á afla félags eða arði og greiðslu kostnaðar af starfsemi félags.
4. Í samþykkt má ákveða, að veiðifélag starfi í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns samkvæmt c-lið 1. mgr. 45. gr. Hver deild ráðstafar veiði í sínu umdæmi með þeim takmörkunum, sem aðalfundur setur.
50. gr. 1. Á fundi, boðuðum á sama hátt og stofnfundur, skal gera skrá, er sýni hluta þann af veiði eða arði af veiði, sem koma á í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, er veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæði. Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks.
2. Arðskrá skal leggja undir úrskurð fundarmanna, og skal greiða atkvæði um hana, eins og segir í 1. mgr. 49. gr. Í arðskrá skal greina tímamark fyrir gildistöku hennar. Nú verður arðskrá eigi löglega samþykkt, og skal stjórn veiðifélags óska eftir mati samkvæmt [95. gr.] 1) Einnig er félagsmanni, sem telur gengið á hlut sinn með arðskrá, rétt að krefjast mats samkvæmt [95. gr.] 1) Tekur mat gildi tveimur mánuðum eftir birtingu í ábyrgðarbréfi frá stjórn veiðifélags eða á annan sannanlegan hátt, enda sé yfirmats eigi krafist. Nú fer yfirmat fram, og tekur það gildi frá þeim tíma, er yfirmatsmenn ákveða.
3. Rétt er félagsmanni að krefjast endurskoðunar á arðskrá fimm árum eftir setningu hennar í fyrsta skipti, en síðar á átta ára fresti.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
51. gr. Kostnað af starfsemi veiðifélags skulu félagsmenn greiða í sama hlutfalli sem þeir taka arð.
52. gr. Félagsstjórn skal senda ráðherra samþykkt og arðskrá til staðfestingar. Nú þykja samþykkt og arðskrá eigi þannig úr garði gerðar, að staðfesta megi, og sendir ráðherra þær aftur til félagsstjórnar með athugasemdum um það, er ábótavant þykir. Annars kostar staðfestir hann þær, eða þá er lagfært hefur verið það, er ábótavant þykir, enda mæli veiðimálastjóri og veiðimálanefnd með staðfestingu. Líða skulu minnst sex mánuðir frá stofnfundi félags og þar til samþykkt er staðfest. Aldrei má samþykkt brjóta í bág við réttarákvæði, almennar grundvallarreglur laga né réttindi einstakra manna.
53. gr. Nú hefur veiðifélag verið stofnað samkvæmt 47. og 48. gr., og getur þá sá, sem telur félagið ólöglega stofnað, vefengt stofnunina fyrir ráðherra, áður en sex mánuðir eru liðnir frá stofnfundi félags. Vefenging, sem síðar berst um stofnun félags, skal eigi tekin til greina. Nú hefur vefenging fyrir ráðherra verið borin fram á lögmætum tíma, en hann tekur hana eigi til greina, og er þá rétt að skjóta málinu til dómstóla, áður en sex mánuðir eru liðnir frá staðfestingu samþykktar.
54. gr. Nú hefst veiði fyrir landi jarðar, er liggur að fiskihverfi veiðifélags, en utan félagssvæðis, og skal leggja þá jörð við það félagssvæði, og er ábúanda hennar þá skylt að gerast félagi. Boða skal ábúanda slíkrar jarðar á fund, og á hann þar atkvæði um málið.
55. gr. Skylt er stjórn veiðifélags að gefa veiðimálastjóra árlega skýrslu um starfsemi félagsins og þær skýrslur aðrar, er veiðimálastjóri kann að æskja.
56. gr. 1. Aðalfund skal halda árlega og aukafund, þá er félagsstjórn telur ástæðu til eða 1/ 4 félagsmanna æskir og tilgreinir fundarefni. Nú lætur félagsstjórn undir höfuð leggjast að boða fund í tvo mánuði, og er þeim, er fund vilja halda, rétt að boða hann.
2. Fund skal boða með auglýsingu í Ríkisútvarpinu tvo daga í röð eigi síðar en viku fyrir fundardag. Þó má boða fund í félagi, sem hefur færri en 30 félagsmenn, með símtölum eða á annan þann hátt, sem tíðkast um boðun funda í því héraði.
3. Á fundi skal liggja frammi skrá um atkvæðisbæra félagsmenn.
4. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Þó verður breyting á samþykkt eða arðskrá að hljóta samþykki 2/ 3 félagsmanna. Nú verður breyting á samþykkt eða arðskrá eigi afgreidd vegna ónógrar fundarsóknar, og má þá boða til annars fundar. Á þeim fundi ræður afl atkvæða. Nú er ráðgert að breyta samþykkt eða arðskrá, og skal þess getið í fundarboði. Greiða má atkvæði skriflega, enda sé þess getið í fundarbók.
5. Um endurskoðun arðskrár skal að öðru leyti fara eins og segir í 50. gr.
57. gr. 1. Þá er veiðifélag hefur verið stofnað með löglegum hætti, skal hverjum manni óheimilt að veiða í vatni á félagssvæðinu, nema hann hafi samþykki félagsstjórnar.
2. Í samþykkt félags má setja ákvæði, er banna félagsmanni og öðrum þeim, sem á félagssvæði búa, að hafa undir hendi ádráttarnet, nema sannað geti, að net eigi að nota til veiði í vatni utan félagssvæðis.
3. Ákvæði 1. mgr. tekur eigi til þess manns, sem fengið hefur veiðiskírteini samkvæmt 22. gr.
58. gr. [Veiðimálastjóra er rétt með samþykki veiðimálanefndar að veita veiðifélagi undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 31. gr. um hlið á girðingum, 1. mgr. 34. gr. um lengd fastra veiðivéla út í vatn og 4. mgr. 34. gr. um fjölda veiðitækja við garð og binda undanþágu þeim skilyrðum sem þurfa þykir.] 1)
    1)L. 50/1998, 19. gr.
59. gr. 1. Nú verða ábúendaskipti á jörð á félagssvæði, og er þá hinum nýja ábúanda skylt að gerast félagi og taka á sig skuldbindingar félagsmanns.
2. Eignir veiðifélags skulu teljast til jarða á félagssvæðinu í arðskrárhlutfalli. Ef ágreiningur verður vegna eignarhluta í veiðifélagi, sker mat úr, sbr. 94. gr. 1)
    1)95. gr.
60. gr. 1. Nú starfar veiðifélag við fiskihverfi, þar sem áður var engin veiði eða svo lítil, að hún var eigi talin í skýrslum um undanfarin 10 ár, og er þá félaginu rétt að gera samþykkt á lögmætum félagsfundi um fullnaðarfriðun fisks í því fiskihverfi eða friðun gegn allri veiði eða tilteknum veiðiaðferðum.
2. Samþykkt um friðun samkvæmt 1. mgr. gildir um 5 ár í senn, nema meiri hluti félagsmanna samþykki að breyta henni fyrr eða ráðherra mæli svo fyrir. Leita skal staðfestingar ráðherra á samþykkt samkvæmt 52. gr.
61. gr. 1. Nú vill veiðifélag með ráði og samþykki veiðimálastjóra auka friðun eða láta vikufriðun gilda aðra daga ofar í straumvatni en neðar, auka fjarlægð milli fastra veiðivéla frá því, sem í lögum er mælt, stytta hámarkslengd þeirra, draga úr veiðni veiðitækja, fækka þeim eða kveða á um meiri lágmarksstærð fisks, sem veiða má, og er það rétt, ef allir félagsmenn hverfa að einu ráði eða lögmætur félagsfundur samþykkir með 2/ 3 atkvæða félagsmanna, enda fari um fundarboðun og atkvæðagreiðslu eins og mælt er í 49. gr. laga þessara, og fundarefnis sé getið í fundarboði.
2. … 1)
    1)L. 50/1998, 20. gr.

IX. kafli. [Fiskeldi og hafbeit.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
62. gr. 1. [Til fiskeldis og hafbeitar þarf leyfi [veiðimálastjóra] 1) að fenginni umsögn [veiðimálanefndar]. 1) [Veiðimálastjóri skal leita umsagnar Veiðimálastofnunar um fyrirhugaða hafbeit ef náttúrulegar aðstæður á svæðinu gefa tilefni til hættu á erfðablöndun.] 1)
2. Nú æskir maður þess að taka upp fiskeldi, þar á meðal kvíaeldi eða hafbeit á laxfiskum, og skal hann senda umsókn um rekstrarleyfi til veiðimálastjóra um það. Umsókn skulu fylgja skilríki um afnot lands, vatns og sjávar, svo og áætlun um rekstur og kostnaðaráætlun, auk heimildar til mannvirkjagerðar og starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga er varða slíkan atvinnurekstur.
3. Er skilríkjum hefur verið skilað og mannvirkjagerð lokið skal veiðimálastjóri gera úttekt á stöðinni. Teljist frágangur fullnægjandi skal veiðimálastjóri mæla með staðfestingu rekstrarleyfis. [Veiðimálastjóri] 1) gefur síðan út rekstrarleyfi og öðlast starfsemin þar með réttindi skv. 66. gr. Í rekstrarleyfi skal tilgreina leyfilega árlega framleiðslu í kvía- og strandeldi og hámark sleppinga á seiðum í hafbeit. [Veiðimálastjóri] 1) getur heimilað aukningu í fjölda slepptra seiða í hafbeit að fenginni umsögn veiðimálanefndar … 1)
4. Ráðherra er rétt að setja skilyrði fyrir rekstrarleyfi í reglugerð. Hafbeitar- og eldisstöðvar í rekstri við gildistöku þessara laga skulu endurnýja rekstrarleyfi innan árs frá gildistöku þeirra.] 2)
[5. Flutningur seiða í hafbeitarstöð er óheimill fyrr en fullgilt rekstrarleyfi er fengið. Veiðimálastjóri getur þó veitt undanþágu til flutnings á seiðum í hafbeitarstöð hafi stöðin fengið heimild til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga er varða slíkan atvinnurekstur.] 1)
    1)L. 50/1998, 21. gr. 2)L. 63/1994, 5. gr.
63. gr. [Skylt er að láta af hendi við veiðifélag land eða landsafnot, vatn eða afnot vatns, er þarf til byggingar og starfsemi klakstöðvar eða klak- og eldisstöðvar, svo og þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti er bygging slíkra stöðva eða starfsemi kann að hafa í för með sér, enda komi fullar bætur fyrir eftir mati nema samkomulag verði.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
64. gr. 1. [Nú er vatn tekið úr veiðivatni til afnota í eldisstöð og skal þá búa svo um vatnsleiðslur að eldistjörn og frá að fiskur gangi eigi úr veiðivatni í leiðslur. Umbúnaður slíkra vatnsleiðslna skal háður samþykki veiðimálastjóra.
2. Nú er straumvatn stíflað vegna eldisstöðvar og fer þá um gerð stíflu skv. 41. gr.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
65. gr. [Nú truflar vatnstaka til eldisstöðvar göngu fisks í veiðivatni og skal þá haga vatnstöku svo að hún valdi sem minnstri truflun. Tilhögun vatnsveitu skal háð samþykki veiðimálastjóra.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
66. gr. [Friðunarákvæði þessara laga, svo sem um gönguhelgi, veiðitíma, stærð fisks, veiðitæki og veiðiaðferðir, taka ekki til veiða á eigin fiski í eldisstöðvum, hafbeitarstöðvum né í eldiskvíum.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
67. gr. [Þrátt fyrir ákvæði 66. gr. skal veiðimálastjóri, með samþykki veiðimálanefndar, setja reglur um töku á laxi er kemur úr sjó í hafbeitarstöð og um merkingar og sýnatöku úr fiskinum.] 1)
    1)L. 50/1998, 22. gr.
68. gr. [Eldi annarra lagardýra í kvía- og strandeldi skal hlíta sömu reglum og eldi vatnafiska eftir því sem unnt er.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
69. gr. [Forráðamenn eldisstöðva, hafbeitarstöðva og kvíaeldis skulu gefa veiðimálastjóra árlega skýrslu um starfsemi stöðvanna, svo sem framleiðslumagn, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski, uppruna hans og önnur atriði sem nauðsynleg þykja.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
70. gr. [Nú veldur eldisstöð rýrnun á veiði í vatni og skal þá bæta tjónið eftir mati ef eigi semur.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
71. gr. [Veiðimálastjóra er rétt að fenginni umsögn veiðimálanefndar að ákveða friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldis- og hafbeitarstöðva á sama hátt og kveðið er á um í 7. og 8. mgr. 14. gr.] 1)
    1)L. 50/1998, 23. gr.
72. gr. [Missi fiskeldisstöð með rekstrarleyfi út eldisfisk er henni heimil, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu, veiði innan 200 metra frá stöðinni, enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að fiskur slapp út ef þetta gerist á göngutíma laxfiska og skal framkvæmd í samráði við fulltrúa veiðimálastjóra.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.
73. gr. [Fiskeldis-, hafbeitar- og kvíaeldisstöðvar hafi með sér samtök, Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva, sem gæti sameiginlegra hagsmuna fiskeldismanna.] 1)
    1)L. 63/1994, 5. gr.

X. kafli. Um innflutning á lifandi fiski og hrognum.
[74. gr.]1) 1. Ráðherra fer með yfirstjórn fisksjúkdómamála. Honum til aðstoðar er fisksjúkdómanefnd, en í henni eiga sæti yfirdýralæknir, og sé hann formaður, veiðimálastjóri og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Hún skal hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í kafla þessum, og annað, er að fisksjúkdómum lýtur.
2. [Deildarstjóri Rannsóknadeildar fisksjúkdóma og dýralæknir fisksjúkdóma skulu vera fisksjúkdómanefnd til aðstoðar og ráðuneytis.] 2)
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 50/1986, 17. gr.
[75. gr.]1) Bannað er að flytja til landsins lifandi laxfisk eða annan fisk, er lifir í ósöltu vatni. Ráðherra er rétt að leyfa innflutning lifandi hrogna slíkra fiska, enda mæli fisksjúkdómanefnd með því og telji eigi hættu á, að sjúkdómar flytjist til landsins með slíkum hrognum, og þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá viðkomandi yfirvöldum.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[76. gr.]1) Eigi má flytja til landsins lifandi skrautfiska né hrogn þeirra. Rétt er ráðherra að leyfa tilteknum aðilum slíkan innflutning, enda samþykki fisksjúkdómanefnd það hverju sinni og sé fyrir hendi heilbrigðisvottorð, sem hún metur gilt.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[77. gr.]1) 1. Sótthreinsa skal hrogn, ílát og umbúðir um hrogn eða skrautfiska, sem flutt eru til landsins samkvæmt [75. og 76. gr.], 1) baða skrautfiska úr lyfjablöndu, ef ástæða þykir til, svo og hafa hrogn og fisk í sóttkví, ef nauðsynlegt þykir. Fisksjúkdómanefnd gefur fyrirmæli um sótthreinsun og sóttkví og hefur eftirlit með henni.
2. Nú er fiskur fluttur milli landa með viðkomu á Íslandi, og skal sá flutningur háður fyrirmælum yfirdýralæknis.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[78. gr.]1) Fisksjúkdómanefnd er rétt, ef ástæða þykir til, að fyrirskipa sótthreinsun veiðitækja og veiðibúnaðar, sem notaður hefur verið erlendis, áður en leyfilegt sé að flytja hann inn í landið, enda sé vottorð eigi lagt fram um, að veiðitæki og veiðibúnaður hafi verið sótthreinsaður erlendis. Enn fremur er nefndinni rétt að banna, ef ástæða þykir til, innflutning á dauðum vatnafiski, ferskum eða frystum.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[79. gr.]1) Nú kemur upp næmur sjúkdómur í veiðivatni eða í klak- og eldisstöð eða grunsamlegt þykir, að næmur sjúkdómur leynist í fiski á slíkum stöðum, og er ráðherra rétt að fengnum tillögum fisksjúkdómanefndar að gera hvers konar ráðstafanir, sem taldar eru nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[80. gr.]1) Ráðherra er rétt eftir tillögum fisksjúkdómanefndar að setja reglur 2) um heilbrigðiseftirlit í klak- og eldisstöðvum, um töku sýnishorna, um sóttvarnaraðgerðir og um kostnað af nauðsynlegum ráðstöfunum, svo og kveða nánar á um önnur ákvæði þessa kafla, eftir því sem þurfa þykir.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)Rg. 403/1986, sbr. 597/1989 (um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum). Rg. 401/1988 (um flutning og sleppingar laxfiska o.fl.).

XI. kafli. Um álaveiðar.
[81. gr.]1) Ráðherra er rétt að setja reglur um álaveiðar að fengnum tillögum veiðimálastjóra og veiðimálanefndar. Í reglum þessum má mæla fyrir um gerð veiðitækja og veiðitíma, og skal þess gætt, að lax og silungur veiðist eigi í blóra við ál.
    1)L. 63/1994, 7. gr.

XII. kafli. Um ófriðun sels.
[82. gr.]1) Rétt er að skjóta eða styggja sel í veiðivatni og í ósi þess eða ósasvæði, enda sé eigi öðruvísi mælt í lögum.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[83. gr.]1) 1. Nú eru friðlýst eða arðgæf selalátur eða selalagnir í veiðivatni eða nær ósi vatns, er lax eða göngusilungur fer um, en 7 km, og getur þá ráðherra ófriðað þau eftir tillögum veiðimálanefndar og veiðimálastjóra, enda sýni mat, að arður af laxveiði eða göngusilungi í ánni sé meiri en arður af selveiði.
2. Nú eru friðlýst eða arðgæf selalátur eða selalagnir í veiðivatni eða svo nærri ósi vatns sem segir í 1. mgr., en lax- og silungsveiði í vatninu er metin minna virði en selveiðin, og er ráðherra rétt eftir tillögum veiðimálastjóra að ófriða þau, enda hafi fiskrækt verið stunduð við vatnið svo lengi og með þeim árangri, að mat þyki sýna, að laxveiði eða göngusilungs í vatninu verði arðsamari en selveiðin.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[84. gr.]1) 1. Fyrir missi selveiðinytja þeirra, er getur í [83. gr.], 1) skulu koma fullar bætur.
2. Bætur greiða eigendur laxveiði eða göngusilungs í því fiskihverfi, er í hlut á. Skulu þær vera árgjald, sbr. þó 3. mgr. Bætur skulu ákveðnar með mati, ef eigi semur, og greiða veiðieigendur þær í arðskrárhlutfalli. Sýslumaður jafnar niður gjaldi og innheimtir … 2) Fylgir því lögtaksréttur. Nú er veiðiréttur leigður samkvæmt 2. gr., og greiðir þá leigutaki bætur í stað leigusala.
3. Nú eykst eftir ófriðun sels lax- eða göngusilungsveiði jarðar, er bætur hlýtur samkvæmt 2. mgr., og skal sá hagsauki þá dreginn frá bótum, enda krefjist mats einhver, sem bætur skal greiða. Nú sýnir mat, að arður af lax- eða silungsveiði jarðar hefur aukist sem nemur arði af selveiði, og skulu bætur fyrir hana niður falla.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 92/1991, 56. gr.

XIII. kafli. [Stjórn veiðimála, Veiðimálastofnun og eftirlit.] 1)
    1)L. 63/1994, 6. gr.
[85. gr. 1. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn allra veiðimála.
2. Til aðstoðar ráðherra um stjórn veiðimála eru veiðimálanefnd og veiðimálastjóri.] 1)
    1)L. 63/1994, 6. gr.
[86. gr. 1. [Ráðherra skipar veiðimálastjóra til fimm ára í senn.] 1) Veiðimálastjóri skal hafa lokið háskólaprófi í raunvísindum og vera sérmenntaður í vatnalíffræði eða fiskifræði vatnafiska:
    a. [hann fer með stjórn veiðimála og er ráðherra til aðstoðar um þau mál eins og kveðið er á um í lögum þessum], 2)
    b. hann annast þau verkefni sem honum eru sérstaklega falin í lögum þessum,
    c. hann gerir tillögur um setningu reglugerða og önnur ákvæði sem sett eru samkvæmt lögum um friðun, fiskrækt, fiskeldi eða veiði,
    d. [hann gefur leyfi til merkinga vatnafiska með skilyrðum sem hann setur], 2)
    e. [hann ber ábyrgð á söfnun skýrslna um veiði, fiskrækt og fiskeldi; hann má fela öðrum aðila söfnun og úrvinnslu gagna], 2)
    f. [hann skipar veiðieftirlitsmenn]. 2)
2. [Ríkið rekur rannsókna- og ráðgjafarstofnun í veiðimálum er nefnist Veiðimálastofnun. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar Veiðimálastofnunar. Framkvæmdastjóri skal hafa viðhlítandi háskólamenntun og þekkingu á starfseminni. Hann hefur á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á framkvæmd mótaðrar stefnu og fjárhagsafkomu. Hann ræður annað starfsfólk.] 3) Ráðherra er rétt að setja reglugerð um verkefni og stjórn stofnunarinnar.
   Hlutverk Veiðimálastofnunar er:
    a. að annast verkefni sem miða að því að auka fiskigengd í ám og vötnum og bæta nýtingu þeirra,
    b. að annast rannsóknir á ám og vötnum og á vatnafiskum, í fiskrækt, fiskeldi og hafbeit,
    c. að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum,
    d. að annast rannsókn á einstökum veiðivötnum fyrir eigendur þeirra og veiðifélög enda greiði þessir aðilar kostnað af verkinu, sbr. 3. mgr. þessarar greinar.
3. Veiðimálastofnun er heimilt að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi.] 4)
    1)L. 83/1997, 81. gr. 2)L. 50/1998, 24. gr. 3)L. 24/1997, 1. gr. 4)L. 63/1994, 6. gr.
[87. gr. 1. Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja deildir á landsbyggðinni samkvæmt ákvörðun ráðherra að fengnum tillögum stjórnar Veiðimálastofnunar … 1)
2. Heimilt er að starfrækja rannsóknastöð í fiskeldi og hafbeit í tengslum við Veiðimálastofnun. Stöðin er rannsóknavettvangur fyrir klak og eldi laxfiska, kynbætur og hafbeit. Ráðherra er heimilt að setja reglur um verkefni og skipa fag- og stjórnarnefnd fyrir stöðina en [framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar] 1) skal hafa umsjón með hlutdeild ríkisins í henni.] 2)
    1)L. 50/1998, 25. gr. 2)L. 63/1994, 6. gr.
[88. gr. 1. Stjórn Veiðimálastofnunar skal skipuð fimm mönnum sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu [Bændasamtaka Íslands]. 1) Ráðherra skipar formann. Varamenn skal skipa með sama hætti.
2. Stjórn Veiðimálastofnunar hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og deilda hennar og markar meginatriði um stefnu og starf hennar. Stjórnin gerir tillögur til ráðherra um starfs- og fjárhagsáætlun og staðfestir reikninga stofnunarinnar að loknu ársuppgjöri.] 2)
    1)L. 73/1996, 12. gr. 2)L. 63/1994, 6. gr.
[89. gr. 1. Í veiðimálanefnd eiga sæti fimm menn. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og tvo samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Nú tilnefnir einhver framangreindra aðila eigi mann í veiðimálanefnd og skipar þá ráðherra í nefndina í hans stað. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn.
2. Veiðimálanefnd er ráðherra til aðstoðar um veiðimál og fer með þau mál sem henni eru falin í lögum þessum. Umsagnar veiðimálanefndar skal leita um setningu reglugerða um veiðimál.] 1)
    1)L. 63/1994, 6. gr.
[90. gr. Öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga þessara hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra.] 1)
    1)L. 63/1994, 6. gr.
[91. gr. 1. [Veiðimálastjóri] 1) skipar eftirlitsmenn með veiði þar sem þurfa þykir enda æski þess veiðifélag, eigendur eða notendur veiði og greiði kostnað af eftirlitinu. … 1) Á sama hátt skipar [veiðimálastjóri] 1) eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og greiðir viðkomandi klakleyfishafi kostnað sem af þessu leiðir.
2. Rétt er [veiðimálastjóra] 1) að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. [Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.] 1)
3. Eftirlitsmenn skulu hafa nákvæmar gætur á því að veiði í umdæmi þeirra sé stunduð með löglegum hætti. Þeir safna skýrslum, m.a. skulu þeir gera skrár um veiðivélar, lagnir og drætti í umdæmum sínum og sjá um merkingu veiðarfæra. Nánari fyrirmæli um starfsemi eftirlitsmanna setur veiðimálastjóri í erindisbréfi.
4. Veiðimálastjóri gefur út skírteini handa eftirlitsmönnum.
5. Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn, meðfram því og um netlög í sjó eftir því sem þörf krefur. Þeir hafa vald til að taka upp ólögleg veiðitæki eða veiðitæki sem notuð eru á óleyfilegum tíma eða óleyfilegum stað.] 2)
    1)L. 50/1998, 26. gr. 2)L. 63/1994, 6. gr.

XIV. kafli. Um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar.
[92. gr.]1) 1. Stofna skal sjóð, er nefnist Fiskræktarsjóður, til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu. Tekjur sjóðsins eru:
    a. Fjárveiting úr ríkissjóði.
    b. Gjald af skírum veiðitekjum, 2%, er innheimtist af veiðifélögum.
    c. Tekjuafgangur fiskeldisstöðva ríkisins, eftir ákvörðun ráðherra.
    d. 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings.
    e. Aðrar tekjur.
    [f. 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda.] 2)
2. [Með stjórn Fiskræktarsjóðs fer veiðimálanefnd. Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum skulu háðar samþykki ráðherra.] 2)
[3. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, útreikning, gjalddaga, lögvernd, álagningu gjalda samkvæmt áætlun og annað sem lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna.] 3)
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 50/1998, 27. gr. 3)L. 38/1992, 1. gr.
[93. gr.]1) 1. [Heimilt er að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði til mannvirkjagerðar er lýtur að fiskrækt eða fiskeldi enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun framkvæmda, þær séu gerðar undir eftirliti hans og hann mæli með styrkveitingu. Enn fremur er heimilt að veita úr Fiskræktarsjóði lán eða styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um ráðstöfun fjár úr Fiskræktarsjóði.] 2)
2. Þessar framkvæmdir njóta styrks, er nemi allt að 1/ 3 af áætluðum kostnaði:
    1. Fiskvegir og önnur meiri háttar mannvirki, er stefna að því að auka fiskför um vatn.
    2. Klakhús og eldisstöðvar.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)Sjá nú l. 68/1997.
[94. gr.]1) Veita skal lán úr Stofnlánadeild landbúnaðarins samkvæmt lögum nr. 75 27. apríl 1962, 2) um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, til framkvæmda þeirra, sem getur í [93. gr.] 1) Lán skulu og veitt til að reisa íbúðarhús við eldisstöðvar samkvæmt lögum nr. 75 27. apríl 1962, 2) þegar fiskur hefur verið alinn þar í 3 ár og skilyrði til eldis hafa reynst hagkvæm. Lán til íbúðarhúsa við eldisstöðvar skulu hlíta sömu reglum sem lán til íbúðarhúsa á nýbýlum.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)l. 68/1997.

XV. kafli. Um matsgerðir og skaðabætur.
[95. gr.]1) 1. Nú greinir menn á, hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á, ós, ósasvæði, kvísl, ál, takmörk fiskihverfis, vatns eða hluta af vatni, svo sem ós, ósasvæði, kvísl, ál, foss, lögn eða veiðistað, legu aðalstraumlínu eða önnur slík efni, sem getur í lögum þessum, og skal þá skera úr ágreiningi með mati.
2. Mat samkvæmt 1. mgr. og annað mat, sem getur í lögum þessum, skulu framkvæma tveir menn dómkvaddir af héraðsdómara, þar sem er vatn það, er meta skal. Héraðsdómari skal að jafnaði dómkveðja menn búsetta í öðru lögsagnarumdæmi, en ráðfæra skal hann sig við veiðimálastjóra, áður en hann framkvæmir dómkvaðningu. Nú varðar mat merkivatn milli lögsagnarumdæma, og ákveður þá ráðherra, hvaða héraðsdómari dómkveður matsmenn.
3. Mati má skjóta til yfirmats, áður en liðnir eru tveir mánuðir frá birtingu mats. [Í yfirmati eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar, þar af einn samkvæmt tilnefningu veiðimálanefndar.] 2)
4. Rétt er að skjóta ágreiningi, er getur í 1. mgr., beint til yfirmatsmanna, enda séu aðilar ásáttir um það.
5. Matsmenn ákveða kostnað af mati og skiptingu hans á aðila.
6. Rétt er matsmönnum að kveðja kunnáttumenn sér til aðstoðar, ef þörf þykir, telst kostnaður af því til matskostnaðar.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 73/1996, 12. gr.
[96. gr.]1) 1. Nú hefur veiðieigandi, er veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana að mestu eða öllu fyrir þá sök, að lögin fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma, og á hann þá kröfu til skaðabóta eftir mati, sbr. [95. gr.] 1)
2. [Matsmenn skv. 1. mgr. skulu leita umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefndar. Skaðabætur greiðast að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr hlutaðeigandi sveitarsjóði eða -sjóðum.] 2)
3. Nú hefur maður í öðrum tilvikum en í 1. mgr. segir orðið að mun öðrum fremur fyrir tjóni vegna ákvæða og framkvæmdar laga þessara, og á hann kröfu til skaðabóta eftir mati. Skaðabætur skulu greiða eigendur veiðiréttar í fiskihverfi því, sem í hlut á, eftir ákvörðun matsnefndar, og má taka þær lögtaki. Ákveða má þeim, er tjón hefur beðið, bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæði sínu.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 108/1988, 33. gr.
[97. gr.]1) Um fjárhæð og greiðslu bóta eða endurgjald, er greinir í lögum þessum, fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms. 2)
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 11/1973.

XVI. kafli. Refsiákvæði og réttarfars.
[98. gr.]1) 1. Það varðar mann sektum [eða fangelsi allt að 2 árum], 2) ef miklar sakir eru, ef:
    a. Hann veiðir ólofað í vatni annars manns.
    b. Hann hittist með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, nema sannað sé, að hann hafi átt þar lögmæt erindi.
    c. Hann veiðir á tíma, þegar veiði er bönnuð, eða á stöðum, þar sem veiði er bönnuð.
    d. Hann notar veiðitæki eða veiðiaðferðir, sem bannað er að nota, eða fylgir eigi settum reglum um tilhögun veiðitækja eða um veiðiaðferð.
    e. Hann veiðir fisk, sem er minni en leyft sé að veiða, eða sleppir eigi í vatn veiddum fiski, er sleppa skal.
    f. Hann brýtur ákvæði 23., 30., [38. eða 62. gr.] 3)
    g. Hann spillir fiskvegi eða tálmar á ólögmætan hátt fiskför um vatn.
    h. Hann notar sprengiefni, skotvopn, rafmagn, eitruð efni eða deyfandi eða veitir vatni af fiski við veiði.
    i. Hann hlítir eigi settum reglum um veiðifélög eða samþykktum þeirra.
    j. Hann hlítir annars eigi lögum þessum eða reglum, settum samkvæmt þeim.
2. Brot gegn ákvæðum 14. gr. innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi varðar fésektum … 4) og auk þess [fangelsi allt að 2 árum], 2) ef miklar sakir eru.
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 82/1998, 161. gr. 3)L. 50/1998, 28. gr. 4)L. 116/1990, 34. gr.
[99. gr.]1) Brot þau, er getur í c-, d- og h-liðum [98. gr.], 1) teljast fullframin, jafnskjótt og veiðarfæri er komið að veiðistað, nema sannað sé, að það hafi verið flutt þangað í lögmætum tilgangi.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[100. gr.]1) Nú veiðir maður ólofað í vatni annars manns, og skal sá, er misgert var við, fá allt veiðifang eða andvirði þess auk bóta fyrir annað tjón, sem hann kann að hafa orðið fyrir.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[101. gr.]1) Ólögleg veiðitæki og veiðitæki, sem eru notuð með ólöglegum hætti, skulu upptæk ger. Eins fer um ólöglegt veiðifang, sbr. þó [100. gr.] 1)
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[102. gr.]1) Sektir samkvæmt lögum þessum og andvirði upptækra veiðitækja renna í ríkissjóð.
    1)L. 63/1994, 7. gr.
[103. gr.]1) 1. Rétt er dómsmálaráðherra að fela Landhelgisgæslunni löggæslu samkvæmt lögum þessum, eftir því sem við verður komið.
2. … 2)
    1)L. 63/1994, 7. gr. 2)L. 19/1991, 194. gr.

XVII. kafli. Niðurlagsákvæði.
[104. gr.]1) Veiðifélag, sem löglega hefur verið stofnað samkvæmt eldri lögum, skal haldast, en breyta skal samþykktum þess samkvæmt 1.–2. mgr. 49. gr.
    1)L. 63/1994, 7. gr.