Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 20. janúar 2017. Útgáfa 146a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna1)
1986 nr. 94 31. desember
1)19. gr. laganna var breytt með l. 117/2016, 6. gr. Breytingarnar taka gildi 1. jan. 2018 skv. 90. gr. s.l. — 1. og 19. gr. laganna var breytt með l. 130/2016, 8. gr. Breytingarnar taka gildi 1. júlí 2017 skv. 7. gr. s.l.
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 31. desember 1986. Breytt með l. 128/1989 (tóku gildi 1. jan. 1990), l. 119/1990 (tóku gildi 31. des. 1990), l. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992), l. 119/1992 (tóku gildi 11. jan. 1993), l. 99/1994 (tóku gildi 1. júlí 1994), l. 70/1996 (tóku gildi 1. júlí 1996), l. 150/1996 (tóku gildi 30. des. 1996), l. 67/2000 (tóku gildi 26. maí 2000), l. 47/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006), l. 154/2010 (tóku gildi 30. des. 2010), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011), l. 85/2012 (tóku gildi 11. sept. 2012 nema 2. málsl. b-liðar 12. gr. sem tók gildi 1. sept. 2013), l. 115/2015 (tóku gildi 16. des. 2015), l. 117/2016 (taka gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016) og l. 130/2016 (taka gildi 1. júlí 2017).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið og samningsaðild.
1. gr. Lög þessi gilda um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem skv. 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.
[Ákvæði laganna taka ekki til:
1. [Þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir [kjararáð]. 1)] 2)
2. Starfsmanna ríkisbanka eða lánastofnana ríkisins.
3. Starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fara eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979.
4. Þeirra sem skipa samninganefndir ríkis og sveitarfélaga.
5. Þeirra starfsmanna sveitarfélaga sem getið er í [6.–8. tölul.] 2) 19. gr. þessara laga og eru utan samningsumboðs stéttarfélags samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar sem ákveður þeim starfskjör án samnings.] 3)
Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.
1)L. 47/2006, 13. gr. 2)L. 150/1996, 3. gr. 3)L. 70/1996, 56. gr.
2. gr. Lög þessi taka einnig til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum, eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði af daggjöldum eða úr sveitarfélagssjóði, enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.
3. gr. [Ráðherra] 1) fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögum þessum. Hann skipar nefnd manna til að annast samninga af sinni hendi og tilkynnir viðsemjendum sínum skipan hennar.
[Heimilt er [ráðherra] 1) að fela einstökum ríkisstofnunum að annast framkvæmd kjarasamninga fyrir sína hönd. Slíka heimild getur [ráðherra] 1) afturkallað með sex mánaða fyrirvara. Skylt er ofangreindum aðilum að veita [ráðuneytinu] 1) allar upplýsingar um launavinnslu, laun og samsetningu þeirra, launatengd gjöld og önnur þau atriði er máli skipta um framkvæmd laga, kjarasamninga og reglugerða er ráðuneytið setur.] 2)
[Forseti Alþingis gerir] 3) kjarasamninga við starfsmenn Alþingis.
Sveitarstjórnir fara með fyrirsvar sveitarfélags síns að því er varðar kjarasamninga við starfsmenn sína. Þær geta skipað nefnd til að annast samninga af sinni hendi og skulu þá tilkynna viðsemjendum sínum skipan hennar.
Sveitarstjórnir geta haft með sér samvinnu um samningsgerð og falið sameiginlegri samninganefnd samningsumboð sitt. Sama á við um samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga, svo og þeirra og forráðaaðila stofnana skv. 2. gr.
1)L. 126/2011, 117. gr. 2)L. 119/1990, 1. gr. 3)L. 85/2012, 29. gr.
4. gr. Stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fara með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögum þessum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá.
Þau stéttarfélög, sem við gildistöku laga þessara hafa sérkjarasamninga við [ráðherra] 1) samkvæmt lögum nr. 29/1976 eða lögum nr. 62/1985 eða hafa kjarasamninga við sveitarfélög samkvæmt reglugerð nr. 236/1976, eiga rétt á að gera samninga við sama aðila samkvæmt lögum þessum óski þau eftir því innan árs frá gildistöku laganna.
1)L. 126/2011, 117. gr.
5. gr. Önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögum þessum sé a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.:
1. Að félag taki til meiri hluta opinberra starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélagi annarra en þeirra sem eru í stéttarfélögum sem eiga rétt til samninga skv. 2. og 3. tölul. þessarar greinar.
2. Að félag taki til a.m.k. 2/ 3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og að þeir félagar séu 100 eða fleiri.
3. Að félag taki til a.m.k. 2/ 3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri.
6. gr. Eigi skal nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt, sbr. 3. tölul. 5. gr. Þetta ákvæði takmarkar þó ekki þann rétt til samninga sem félög hafa skv. 2. mgr. 4. gr. að óbreyttri félagsskipan.
Félög, sem skv. 4. gr. hafa samningsrétt við hluta vinnuveitenda og uppfylla jafnframt skilyrði 3. tölul. 5. gr. um lögformleg starfsréttindi eða ígildi þeirra, öðlast rétt til samninga við aðra vinnuveitendur með sama hætti og önnur félög sem falla undir 5. gr., sbr. síðustu málsgrein þessarar greinar.
Félög, sem rétt hafa til samningsgerðar skv. 4. og 5. gr., geta tvö eða fleiri gert sameiginlegan kjarasamning er taki til allra samningsbundinna kjaraatriða eða hluta þeirra.
Stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð skv. 5. gr., skal tilkynna a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags.
[Þeir starfsmenn, sem eru félagar í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélögum og gerast ríkisstarfsmenn þann 1. nóvember 1990 eða 1. janúar 1991 á grundvelli laga nr. 75/1990, um breyting á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við ríkið.
Starfsmenn, sem falla undir lög þessi og komu til starfa 1. janúar 1990 eða síðar í þau störf sem lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, taka til, skulu jafnframt eiga val um hvort þeir verða félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða í öðru því félagi ríkisstarfsmanna sem hefur samkvæmt lögum þessum samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Það sama gildir um starfsmenn sem falla undir þessi lög og koma til starfa eftir 1. nóvember 1990 eða 1. janúar 1991 í þau störf sem lög nr. 75/1990 taka til.
Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélag skal hafa tilkynnt [ráðuneytinu] 1) fyrir 15. janúar 1991 fyrir hvaða starfsmenn það fer með samningsumboð gagnvart ríkinu á grundvelli þessara laga.
Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélög hafa því aðeins samningsumboð gagnvart ríkinu fyrir starfsmenn skv. 5. og 6. mgr. þessarar greinar að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 7. mgr. þessarar greinar.] 2)
[Þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast starfsmenn sveitarfélaga 1. janúar 2011 á grundvelli breytinga á lögum nr. 59/1992, um málefni [fatlaðs fólks], 3) skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við viðkomandi sveitarfélög.
Starfsmenn sem falla undir lög þessi og koma til starfa eftir 1. janúar 2011 skulu verða félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða í öðru því félagi sem hefur samkvæmt lögum þessum ótakmarkað samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn.
SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal hafa tilkynnt viðkomandi sveitarfélagi fyrir 15. janúar 2011 fyrir hvaða starfsmenn það fer með samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli þessara laga.
SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal því aðeins hafa samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi fyrir starfsmenn skv. 9. mgr. að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 11. mgr.] 4)
1)L. 126/2011, 117. gr. 2)L. 119/1990, 2. gr. 3)L. 115/2015, 19. gr. 4)L. 154/2010, 1. gr.
7. gr. Starfsmaður, sem lög þessi taka til, á rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögum þessum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segja. Aðeins eitt félag fer með umboð til samninga fyrir hann.
Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun [ráðherra] 1) eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi stéttarfélagi.
1)L. 126/2011, 117. gr.
8. gr. Stéttarfélög eða samtök stéttarfélaga, sem rétt hafa til að gera samninga samkvæmt lögum þessum, skulu tilkynna viðsemjanda sínum eigi síðar en við upphaf samningaviðræðna hverjir skipa samninganefndir þeirra.
Stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga geta haft samvinnu um samningsgerð og kosið sameiginlega nefnd til að fara með samningsumboð sitt. Sama á við um samvinnu stéttarfélaga, starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum svo og stofnana skv. 2. gr.
II. kafli. Efni kjarasamninga, gildistími og ábyrgð.
9. gr. Í kjarasamningi skal kveðið á um föst laun, vinnutíma, þar með talið vinnuvökur, laun fyrir yfirvinnu, orlof, ferðakostnað, fæðisaðstöðu, fæðiskostnað, tryggingar, 1) starfsmenntun og önnur atriði sem aðilar verða sammála um.
Um aukatekjur og önnur hlunnindi ríkisstarfsmanna, sem líkt er farið, skal kveða á í reglugerð sem [ráðherra] 2) setur.
1)Sjá rgl. 30/1990 og rgl. 31/1990. 2)L. 126/2011, 117. gr.
10. gr. Kjarasamningar skulu vera skriflegir. Kveðið skal á um lengd samningstímabils og uppsagnarfrest í kjarasamningi.
Uppsögn skal vera skrifleg og kynnt viðtakanda á sannanlegan hátt.
11. gr. Kjarasamningur framlengist um sex mánuði í senn, með óbreyttum uppsagnarfresti, hafi honum eigi verið sagt upp réttilega.
12. gr. Tilkynning um uppsögn kjarasamnings skal send ríkissáttasemjara samtímis og uppsögn er send gagnaðila.
Nú rennur kjarasamningur út vegna uppsagnar og skal þó eftir honum farið uns nýr kjarasamningur hefur verið gerður.
13. gr. Aðilar kjarasamnings bera fébótaábyrgð á samningsrofum sem þeir sjálfir eða fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá. Á samningsrofum einstakra félagsmanna bera félög því aðeins ábyrgð að þeim verði gefin sök á samningsrofinu.
Ekki er heimilt að gera aðför í fundarhúsum, sjúkrastyrktarsjóðum, orlofssjóðum, orlofsheimilum eða menningarsjóðum heildarsamtaka eða einstakra félaga vegna þessarar ábyrgðar enda séu eignir þessar skýrt aðgreindar frá öðrum eignum og óheimilt að verja þeim til almennra þarfa, svo sem styrkveitinga í verkföllum eða greiðslu samnings- eða verkfallskostnaðar.
III. kafli. Um verkföll.
14. gr. Stéttarfélagi, sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum. Ákvæði laga nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna, ná ekki til þeirra sem heimilt er að gera verkfall samkvæmt lögum þessum.
[Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.] 1)
1)L. 67/2000, 1. gr.
15. gr. Boðun verkfalls er því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem er samningsaðili. Til að samþykkja verkfallsboðun þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana.
16. gr. Ákvörðun um vinnustöðvun ber að tilkynna ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en hún skal hefjast.
Verkfallsboðun skal vera skrifleg og kynnt viðtakanda á sannanlegan hátt.
17. gr. Óheimilt er að hefja vinnustöðvun:
1. Ef ágreiningur er einungis um atriði sem Félagsdómur á úrskurðarvald um, nema til fullnægingar dómum hans.
2. Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnvöld til að framkvæma athafnir sem þeim lögum samkvæmt ber ekki að framkvæma eða framkvæma ekki athafnir sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir þar sem stjórnvöld eru aðili sem vinnuveitandi.
3. Til styrktar ólögmætri vinnustöðvun.
18. gr. Boðað verkfall tekur til allra starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi hjá þeim vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn, annarra en þeirra sem óheimilt er að leggja niður störf samkvæmt lögum þessum.
Þegar verkfall er löglega hafið er þeim sem það beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra því með aðstoð einstakra félagsmanna þess félags sem að verkfallinu stendur.
19. gr. [Heimild til verkfalls skv. 14. gr. nær eigi til eftirtalinna starfsmanna:
1. [Þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir [kjararáð]. 1)] 2)
2. Starfsmanna Alþingis og stofnana þess, svo og starfsmanna á skrifstofu forseta Íslands og í Stjórnarráði, þar með talinna starfsmanna utanríkisþjónustunnar.
3. Starfsmanna Hæstaréttar og héraðsdómstóla.
4. Starfsmanna við embætti ríkissaksóknara, ríkislögmanns, ríkissáttasemjara og umboðsmanns barna.
5. Þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu.
6. Framkvæmdastjóra sveitarfélaga, borgar- og bæjarlögmanna, borgar- og bæjarritara, borgar- og bæjarverkfræðinga, skrifstofustjóra borgarstjórnar og starfsmanna launadeilda.
7. Forstöðumanna stærri atvinnu- og þjónustustofnana sveitarfélaga og staðgengla þeirra.
8. Annarra þeirra er gegna störfum sem öldungis verður jafnað til þeirra starfa sem getið er í 6. og 7. tölul.] 3)
Fyrir 1. febrúar ár hvert skulu [ráðherra] 4) og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár 5) um störf þau sem falla undir ákvæði [5.–8. tölul.] 3) fyrri málsgreinar þessarar greinar. Ný skrá tekur gildi 15. febrúar næst eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt framangreindu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Andmæli gegn breytingum á skrám skulu borin fram fyrir 1. mars sama ár og skal ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu.
1)L. 47/2006, 13. gr. 2)L. 150/1996, 4. gr. 3)L. 70/1996, 56. gr. 4)L. 126/2011, 117. gr. 5) Augl. 27/1992, 39/1995, 42/1995, 43/1995, 45/1995, 46/1995, 47/1995, 49/1995, 50/1995, 51/1995, 52/1995, 53/1995, 55/1995, 60/1995, 62/1995, 64/1995, 68/1995, 70/1995, 76/1995, 61/1996, 36/2000, 40/2000, 46/2000, 48/2000, 49/2000, 63/2000, 62/2003, 63/2003.
20. gr. Sé verkfall hafið er heimilt að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi.
21. gr. Nefnd tveggja manna ákveður hverjir skulu kvaddir til starfa skv. 20. gr. Annar nefndarmanna skal tilnefndur af því stéttarfélagi sem á í verkfalli en hinn af viðsemjanda þess. Ákvarðanir um kvaðningu til vinnu skulu teknar með atkvæðum beggja nefndarmanna og eru þær endanlegar.
22. gr. Um laun og önnur kjör þeirra manna, sem um ræðir í 19. gr., skal samið af samninganefnd þess stéttarfélags er þeir tilheyra.
Náist ekki samningar um kjör þeirra starfsmanna sem tilgreindir eru í [2.–4. og 6.–8. tölul. 19. gr.] 1) og falla undir lög þessi á stéttarfélagið rétt á að þriggja manna gerðardómur taki deiluna til úrlausnar. Takist ekki samkomulag um oddamann tilnefnir viðkomandi bæjarfógeti eða sýslumaður, í Reykjavík yfirborgardómarinn, hann en málsaðilar einn dómara hvor.
1)L. 70/1996, 56. gr.
23. gr. Ákvarðanir um samninga eða annað, er varðar kjör starfsmanna og fer eftir lögum þessum, verða aðeins teknar af þeim sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningurinn nær til.
Enginn starfsmaður má taka þátt í atkvæðagreiðslu eða ákvörðun um kjaramál nema í einu stéttarfélagi sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum.
24. gr. Ákvæði í ráðningarsamningi er ógilt ef það brýtur í bága við kjarasamning stéttarfélags starfsmanns samkvæmt lögum þessum starfsmanni í óhag.
25. gr. Nú er sett á fót ný stofnun og skal þá ákveða kjör starfsmanna hennar með samkomulagi milli [ráðherra] 1) eða hlutaðeigandi sveitarstjórnar og þeirra stéttarfélaga sem í hlut eiga.
Sama gildir ef stofnaðar eru nýjar stöður við stofnanir ríkis eða sveitarfélaga.
1)L. 126/2011, 117. gr.
IV. kafli. Um Félagsdóm.
26. gr. Félagsdómur dæmir í málum sem rísa á milli samningsaðila um:
1. Samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær.
2. Lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana.
3. Ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.
[4. ] 1) Hverjir falli undir ákvæði [5.–8. tölul.] 1) 19. gr. þessara laga.
[5. ] 1) Önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn enda séu að minnsta kosti þrír af dómendunum því meðmæltir.
Félagsdómur dæmir og um ágreining um félagsaðild þeirra sem undir lög þessi falla hvort sem ágreiningurinn er milli samningsaðila, stéttarfélaga eða einstakra starfsmanna og stéttarfélaga.
Félagsdómi er heimilt að dæma í máli um atriði sem tilgreind eru í 1. mgr. sem ágreiningur er um milli [ráðherra] 2) eða sveitarfélags annars vegar og hins vegar einstakra starfsmanna eða starfsmannahópa sem ekki falla undir 5. gr. þessara laga né lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, enda sé um það samkomulag milli aðila og að minnsta kosti þrír af dómendunum séu því meðmæltir.
1)L. 150/1996, 5. gr. 2)L. 126/2011, 117. gr.
27. gr. Þegar Félagsdómur dæmir í málum sem greinir í 26. gr. nefna annars vegar viðkomandi heildarsamtök stéttarfélaga og hins vegar [ráðherra] 1) eða Samband íslenskra sveitarfélaga dómara til setu í dómnum í stað þeirra sem nefndir hafa verið af Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Dómarar þessir skulu tilnefndir til þriggja ára í senn.
Sé stéttarfélag utan heildarsamtaka aðili máls fyrir Félagsdómi nefnir það sjálft dómara í það mál.
Tilnefni aðili ekki dómara til setu í Félagsdómi skal forseti dómsins tilnefna dómara í hans stað.
Stéttarfélög reka mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi.
Ef stéttarfélag neitar að höfða mál fyrir félagsmenn sína er aðila heimilt að höfða málið sjálfur fyrir Félagsdómi. En leggja skal hann fram sönnun um synjun viðkomandi félags fyrir forseta dómsins áður en stefna er gefin út. Í slíku máli tilnefnir forseti dómsins dómara í stað þess sem annars er tilnefndur af stéttarfélagi, sé það utan heildarsamtaka. Sama gildir í málum skv. 3. mgr. 26. gr. Í málum skv. 2. mgr. 26. gr. skal forseti dómsins tilnefna dómara í stað beggja þeirra sem annars eru tilnefndir af aðilum.
Hinir tilnefndu dómarar skulu ekki eiga sæti í aðal- eða varastjórnum eða samninganefndum viðkomandi stéttarfélags né í samninganefndum ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga.
1)L. 126/2011, 117. gr.
V. kafli. Um trúnaðarmenn á vinnustöðum.
28. gr. Á hverri vinnustöð þar sem a.m.k. fimm menn vinna er starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann. Á vinnustöð þar sem fimmtíu menn eða fleiri vinna má kjósa tvo trúnaðarmenn. Trúnaðarmenn skal kjósa til tveggja ára í senn. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað.
Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda.
Heimilt er einstökum félögum að semja um aðra skipan á vali trúnaðarmanna en að framan greinir.
29. gr. Trúnaðarmaður skal gæta þess að vinnuveitandi og fulltrúar hans haldi kjarasamning og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti.
Starfsmönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar. Ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað er umkvartanir berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna eða stéttarfélags á vinnustöð hans af hálfu vinnuveitanda. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda eða umboðsmann hans um lagfæringu.
Trúnaðarmaður skal gefa starfsmönnum á vinnustöðinni svo og stéttarfélagi, er í hlut á, skýrslu um kvartanir starfsmanna jafnskjótt og við verður komið. Enn fremur gefur hann sömu aðilum skýrslu um hvað vinnuveitandi hafi brotið af sér við starfsmenn og stéttarfélag þeirra svo og hvaða lagfæringar hafi fengist fram.
Trúnaðarmaður á rétt til að rækja skyldur sínar í vinnutíma enda geri hann yfirmanni sínum grein fyrir erindi sínu hverju sinni.
Á vinnustaðnum skal honum veitt aðstaða til þess m.a. að eiga einkaviðræður við samstarfsmenn sína, halda með þeim fundi í kaffitímum eða við lok vinnudags, þar sem því verður við komið, veita honum aðgang að síma o.s.frv.
30. gr. Gefa skal trúnaðarmanni upplýsingar um ef staða losnar á vinnustað hans eða í ráði er að bæta við starfsmanni. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfann.
Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hefur valist til þessa trúnaðarstarfs.
Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
VI. kafli. …1)
1)L. 99/1994, 1. gr.
VII. kafli. Ýmis ákvæði.
34. gr. Á vegum þeirra aðila, sem lög þessi taka til, starfi nefnd er annist kjararannsóknir og aðra upplýsingaöflun vegna kjarasamninga.
Nefndin skal skipuð jafnmörgum fulltrúum stéttarfélaga og vinnuveitenda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð 1) sem sett skal að fengnum tillögum heildarsamtaka opinberra starfsmanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nefndin setur sér starfsreglur, m.a. um starfssvið og starfshætti.
Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
1)Rg. 335/1987.
35. gr. Brot á lögum þessum varða sektum.
36. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða. [Tilhögun skv. 6. gr. skal endurskoða samhliða endurmati á fjárhagslegum forsendum samkvæmt samkomulagi milli [ráðherra er fer með málefni sveitarfélaga] 1) og [ráðherra], 1) f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga.] 2)
1)L. 126/2011, 117. gr. 2)L. 154/2010, 2. gr.