Samþykkt lög eftir útgáfu lagasafns:

Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

1999 nr. 98 27. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2000. EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 94/19/EB og 97/9/EB. Breytt með: L. 76/2002 (tóku gildi 17. maí 2002). L. 139/2002 (tóku gildi 30. des. 2002; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 97/9/EB). L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006). L. 125/2008 (tóku gildi 7. okt. 2008). L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 15/2011 (tóku gildi 3. mars 2011). L. 55/2011 (tóku gildi 1. júní 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 79/2012 (tóku gildi 5. júlí 2012). L. 61/2015 (tóku gildi 17. júlí 2015). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 59/2019 (tóku gildi 1. júlí 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 2. gr.). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019). L. 70/2020 (tóku gildi 1. sept. 2020). L. 38/2021 (tóku gildi 21. maí 2021; EES-samningurinn: XXII. viðauki tilskipun 2014/59/ESB, IX. viðauki tilskipun 2017/2399). L. 115/2021 (tóku gildi 1. sept. 2021 nema 39. gr. sem tók gildi 1. nóv. 2021 og 5. mgr. 48. gr. sem tekur gildi 28. febr. 2023; um lagaskil sjá 147. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2014/65/ESB, 2016/1034, reglugerð 600/2014, 2016/1033, 2017/565, 2017/567).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og skipulag.
1. gr. Markmið.
Markmið með lögum þessum er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem [veita fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga] 1) lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laga þessara. [Markmið laganna er jafnframt að koma að fjármögnun skilameðferðar samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.] 2)
    1)L. 115/2021, 148. gr. 2)L. 70/2020, 103. gr.
2. gr. Stofnun.
Með tryggingar samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. [Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun.] 1)
    1)L. 79/2012, 1. gr.
3. gr. Aðilar að sjóðnum.
Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem [veita fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga], 1) sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum. [Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum.] 2) Þessi fyrirtæki, hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki, bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram lögbundin framlög til sjóðsins, sbr. ákvæði 6. og 7. gr. Fjármálaeftirlitið skal halda sérstaka skrá um aðildarfyrirtæki.
    1)L. 115/2021, 148. gr. 2)L. 108/2006, 92. gr.
4. gr. Stjórn og framkvæmdastjóri.
Stjórn sjóðsins skal skipuð sex mönnum til tveggja ára í senn. Viðskiptabankar tilnefna tvo menn í stjórn sjóðsins, sparisjóðir einn mann, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf sameiginlega einn mann og [ráðherra] 1) tvo menn. [Ráðherra] 1) tilnefnir jafnframt fulltrúa innstæðueigenda og fjárfesta sem áheyrnaraðila með málfrelsi og tillögurétt í stjórn sjóðsins og skal hann uppfylla sömu kröfur og stjórnarmenn. [Ráðherra] 1) skipar formann stjórnar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Lögaðilinn getur verið Seðlabanki Íslands og vörslufyrirtæki samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa [gott orðspor] 2) og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
Stjórnarmenn og starfsmenn sjóðsins eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
Stjórn sjóðsins skal á tveggja ára fresti, eða oftar ef ástæða þykir til, gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins skv. 6. og 7. gr. Nánar skal kveðið á um verkefni stjórnar sjóðsins í samþykktum hans.
    1)L. 126/2011, 289. gr. 2)L. 141/2018, 30. gr.
5. gr. Aðalfundur.
Aðalfund skal halda fyrir lok mars ár hvert. Á aðalfundi skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Aðalfundur setur sjóðnum samþykktir. Kveða skal nánar á um verkefni aðalfunda í samþykktum sjóðsins sem háðar skulu samþykki ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.
Sérhvert aðildarfyrirtæki á rétt til setu á aðalfundi. Á aðalfundi fara viðskiptabankar samtals með sex atkvæði, sparisjóðir með þrjú atkvæði og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf með þrjú atkvæði. Vægi hvers aðildarfyrirtækis er jafnt innan hvers hóps. Tillaga til breytinga á samþykktum sjóðsins þarf fulltingi 2/ 3 hluta atkvæða á aðalfundi og samþykki ráðherra.
Stjórn sjóðsins getur, þegar hún telur tilefni til, boðað öll aðildarfyrirtæki til fundar. Skylt er henni að boða til fundar ef aðildarfyrirtæki með samtals fjórðung atkvæða æskja þess.

II. kafli. Greiðslur í sjóðinn.
[5. gr. a. Starfsemi sjóðsins.
Sjóðurinn starfar í þremur sjálfstæðum deildum. Innstæðudeildirnar eru tvær, A-deild og B-deild. Jafnframt starfar við sjóðinn verðbréfadeild. Deildirnar hafa aðskilinn fjárhag og reikningshald og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.] 1)
    1)L. 79/2012, 2. gr.
[5. gr. b. A-deild.
Innlánsstofnanir skulu greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins frá því að þær hefja starfsemi.
Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 3. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 4. mgr. og renna í A-deild sjóðsins. Um ráðstöfun fjár úr deildinni skal fara samkvæmt lögum.
Almennt iðgjald skal nema sem svarar [0,02% á ári af öllum [tryggðum] 1) innstæðum upp að 10 milljörðum kr. en 0,16% af [tryggðum] 1) innstæðum umfram það], 2) eins og þær eru skilgreindar í lögum þessum, hjá viðkomandi innlánsstofnun … 1) eða [0,005% af [tryggðum] 1) innstæðum upp að 10 milljörðum kr. en 0,04% af [tryggðum] 1) innstæðum þar umfram á ársfjórðungslegum gjalddaga]. 2)
Auk iðgjalds skv. 3. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 3. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir.
Gjalddagar almenns og áhættuvegins iðgjalds eru sem hér segir:
    a. Gjalddagi vegna 1. ársfjórðungs er 1. júní.
    b. Gjalddagi vegna 2. ársfjórðungs er 1. september.
    c. Gjalddagi vegna 3. ársfjórðungs er 1. desember.
    d. Gjalddagi vegna 4. ársfjórðungs er 1. mars næsta árs.
Iðgjöld eru óendurkræf. Þó getur stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ákveðið að endurgreiða iðgjöld sem hafa verið ofgreidd vegna mistaka við útreikning.
Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 3.–4. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. … 3) Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 7. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 3.–4. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
Iðgjöld skulu greidd í krónum og sama á við um greiðslur úr deildinni.
Greiði innlánsstofnun sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum sem tilgreindir eru í 3.–5. mgr. leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins.
Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. er stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta heimilt í undantekningartilfellum að veita frest til greiðslu iðgjalds ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Verði vanskil á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar er stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
Sé innlánsstofnun svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskast ekki hagsmunir þeirra sem njóta tryggingaverndar.
[Innstæðudeild skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tiltækum fjármunum sem nema að lágmarki 0,8% af tryggðum innstæðum hjá aðildarfyrirtækjum.] 1)] 4)
    1)L. 70/2020, 103. gr. 2)L. 59/2019, 1. gr. 3)L. 91/2019, 87. gr. 4)L. 79/2012, 2. gr.
6. gr. [B-deild.
Eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og skuldbindingar eins og þær voru við gildistöku laga nr. 55/2011 og þær skuldbindingar sem á sjóðnum hvíldu samkvæmt lögum nr. 98/1999 á sama tímamarki tilheyra sérstakri deild, B-deild.] 1)
    1)L. 79/2012, 3. gr.
7. gr. Verðbréfadeild.
Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 100 millj. kr.
Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki skv. 1. mgr. skulu aðildarfyrirtæki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins sem nemur samtals 20 millj. kr., þar til sjóðurinn hefur náð tilskilinni lágmarksstærð. Hvert aðildarfyrirtæki skal greiða lágmarksgjald að fjárhæð 50.000 kr. Árleg greiðsla að frádregnu lágmarksgjaldi skiptist í tvo jafna hluta eftir eftirfarandi gjaldstofnum:
    1. Hlut aðildarfyrirtækis í samanlagðri fjárhæð [viðskipta aðildarfyrirtækja með fjármálagerninga] 1) á næstliðnu ári við þá viðskiptavini sem tryggðir eru skv. 9. gr.
    2. Hlut aðildarfyrirtækis í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf. Leggja skal saman fjölda viðskiptareikninga skv. [d-lið 15. tölul. og a-lið 66. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga]. 1) Viðskiptareikningar skv. c-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. hafa tvöfalt vægi í samtölu. Viðskiptareikningar með hærri inneign en 1,7 millj. kr. miðað við gengi evru (EUR) 5. janúar 1999 hafa einnig tvöfalt vægi í samtölu.
Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hvert aðildarfyrirtæki leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hvert aðildarfyrirtæki ábyrgjast að það muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða verðbréf eða reiðufé skv. III. kafla í einhverju fyrirtæki sem aðild á að sjóðnum.
Ábyrgðaryfirlýsingin skal hljóða upp á sama hlutfall þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli greiðslna aðildarfyrirtækis af samanlögðum greiðslum allra aðildarfyrirtækja við fyrstu greiðslu eftir að ljóst er að heildareign deildarinnar nær ekki tilskildu lágmarki. Kröfur um innborgun í deildina á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta á ári hverju þó ekki verið hærri en sem nemur einum fimmta af lágmarksstærð sjóðsins. Aðildarfyrirtækjum er skylt að greiða til sjóðsins þegar hann krefst þess og framangreindar aðstæður eru fyrir hendi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er stjórn sjóðsins heimilt að kaupa vátryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi á Evrópska efnahagssvæðinu til að tryggja sig gegn tjóni. Kaupi sjóðurinn vátryggingu skal þó í það minnsta fimmtungur af lágmarksstærð deildarinnar skv. 1. mgr. vera í verðbréfum eða reiðufé.
Nýtt aðildarfyrirtæki sem [veitir fjárfestingarþjónustu eða stundar fjárfestingarstarfsemi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga] 1) skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert í fimm ár frá því að það hefur starfsemi hér á landi. Greiðslan skal nema því hlutfalli af 20 millj. kr. sem nemur hlutfalli þess í gjaldstofnum skv. 2. mgr. Greiðslan skal innt af hendi í fyrsta sinn fullu ári eftir upphaf starfseminnar. Auk þess leggur hlutaðeigandi fyrirtæki fram ábyrgðaryfirlýsingu sem jafngildir fjórfaldri greiðslu fyrsta ársins.
Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar. Aðildarfyrirtækjum er skylt að veita sjóðnum upplýsingar samkvæmt þessari grein.
    1)L. 115/2021, 148. gr.
8. gr. Afturköllun leyfis.
Nú uppfyllir aðildarfyrirtæki ekki skyldur sínar gagnvart [verðbréfadeild sjóðsins] 1) samkvæmt lögum þessum og reglugerð og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra og Fjármálaeftirlitinu án tafar. Ráðherra veitir hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki þá allt að þriggja mánaða frest til úrbóta að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Hafi aðildarfyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að þeim fresti liðnum getur stjórn sjóðsins, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, lagt dagsektir á fyrirtækið. Greiðast þær þangað til aðildarfyrirtækið hefur uppfyllt skyldur sínar gagnvart [verðbréfadeild sjóðsins]. 1) Sektirnar geta numið 50–500 þús. kr. á dag.
Hafi aðildarfyrirtæki ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart [verðbréfadeild sjóðsins] 1) innan eins mánaðar frá álagningu dagsekta getur ráðherra tilkynnt því að hann hyggist afturkalla starfsleyfi þess hafi fyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum.
Nú rennur frestur skv. 2. mgr. út án þess að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart [verðbréfadeild sjóðsins] 1) og getur þá ráðherra afturkallað starfsleyfi þess að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. [Skuldbindingar sem stofnað er til áður en leyfi er afturkallað skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.] 2)
[Nú rennur frestur skv. 1. og 2. mgr. út þegar um er að ræða útibú aðildarfyrirtækis með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og getur stjórn sjóðsins þá tilkynnt útibúinu að hún hyggist útiloka það frá sjóðnum hafi það ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum.] 3) Ef frestur skv. 1. málsl. rennur út án þess að útibúið hafi uppfyllt skyldur sínar getur sjóðurinn útilokað það frá aðild að sjóðnum að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. [Skuldbindingar sem stofnað er til áður en útibú er útilokað frá aðild að sjóðnum skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.] 2)
Ákvæði 1.–3. mgr. eiga einnig við um útibú aðildarfyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    1)L. 79/2012, 4. gr. 2)L. 139/2002, 1. gr. 3)L. 108/2006, 93. gr.

III. kafli. Greiðslur úr sjóðnum.
9. gr. Greiðslur úr sjóðnum.
Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði [tryggðrar] 1) innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði [tryggðrar] 1) innstæðu úr [A- eða B-deild] 2) og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um [fjármálafyrirtæki]. 3) [Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis [tryggðrar] 1) innstæðu úr [A- eða B-deild] 2) að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála er gilda um [tryggða] 1) innstæðu eða verðbréf, t.d. hvað varðar binditíma, uppsögn og þess háttar. Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði [tryggðrar] 1) innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis [tryggðrar] 1) innstæðu.] 4)
[Greiðslur til hvers innstæðueiganda skulu nema heildarfjárhæð tryggingarhæfra innstæðna hans hjá hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki, þó aldrei hærri fjárhæð en að jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum.] 1)
Álit Fjármálaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að það fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi ekki greitt viðskiptavini sínum eða staðið skil á verðbréfum eins og því bar að gera.
[Með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.] 2)
[Með tryggingarhæfri innstæðu er átt við innstæðu sem ekki er undanskilin tryggingu skv. 9. mgr.
Með tryggðri innstæðu skv. 1. mgr. er átt við þann hluta tryggingarhæfrar innstæðu sem er innan fjárhæðarmarka skv. 2. mgr.] 1)
Með verðbréfum skv. 1. mgr. er átt við verðbréf sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu aðildarfyrirtækis og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.
Með reiðufé skv. 1. mgr. er átt við innborgað reiðufé fjárfestis til aðildarfyrirtækis í tengslum við viðskipti með verðbréf.
[Eftirfarandi [er undanskilið] 1) tryggingu skv. 1. mgr.:
    1.1)
    2. innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
    3.1)
    4. innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
    5.1)
    6.1)
    7. innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
    8. innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun,
    [9. innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning,
    10. eiginfjárgrunnur lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eins og hann er samsettur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki,
    11. innstæður fjármálastofnana eins og þær eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki,
    12. innstæður verðbréfafyrirtækja í skilningi laga um fjármálafyrirtæki,
    13. innstæður vátryggingafélaga og endurtryggingafélaga eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi,
    14. innstæður sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
    15. skuldabréf útgefin af lánastofnun og skuldbindingar vegna eigin víxla, svo og skuldaviðurkenningar]. 1)] 2)
Nánar skal kveða á um tilhögun greiðslna úr sjóðnum í reglugerð.
    1)L. 70/2020, 103. gr. 2)L. 79/2012, 5. gr. 3)L. 115/2021, 148. gr. 4)L. 125/2008, 8. gr.
10. gr. Fjárhæð til greiðslu.
[Nú hrökkva eignir innstæðudeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að þeir fái bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
Nú hrökkva eignir verðbréfadeildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr þeirri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra er bætt að fullu allt að 1,7 millj. kr. en allt sem umfram er þá fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir deildarinnar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.] 1)
Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.
Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. [Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við [lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja], 2) en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.] 3)
    1)L. 70/2020, 103. gr. 2)L. 38/2021, 17. gr. 3)L. 125/2008, 9. gr.
11. gr. Lán á milli deilda.
Stjórn sjóðsins er heimilt að lána allt að 50 millj. kr. á milli [deilda sjóðsins]. 1) Lánið skal endurgreiðast innan 36 mánaða. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um lán á milli deilda í reglugerð.
    1)L. 79/2012, 6. gr.
12. gr. Víkjandi lán.
Sjóðnum er heimilt að veita aðildarfyrirtæki víkjandi lán í sérstakri deild fyrir slík lán, í því skyni að efla eiginfjárstöðu þess, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir lánveitingu, svo sem að lántaki afli aukins eiginfjár eða geri aðrar ráðstafanir til að styrkja rekstur sinn.
Stjórn sjóðsins er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag aðildarfyrirtækja sem veitt er víkjandi lán. Stjórn sjóðsins getur í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki.

IV. kafli. Erlend útibú.
13. gr.
[Útibúum erlendra viðskiptabanka, sparisjóða, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, sem starfa hér á landi en hafa staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, er heimil aðild að sjóðnum vegna innstæðna, verðbréfa og reiðufjár sem ekki er tryggt á sambærilegan hátt á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.] 1)
Erlend útibú skv. 1. mgr. sem hafa staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og starfa hér á landi skulu vera aðilar að sjóðnum, enda sé slíkt útibú ekki aðili að sambærilegu tryggingakerfi í heimaríki sínu.
Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um aðild erlendra útibúa samkvæmt þessari grein að sjóðnum, svo og um þær viðbótartryggingar sem útibú þurfa til þess að geta starfað hér á landi. Um iðgjöld og greiðslur vegna trygginga samkvæmt þessari grein skal nánar kveðið á í reglugerð.
    1)L. 108/2006, 94. gr.

V. kafli. Ýmis ákvæði.
14. gr. Ársreikningur og endurskoðun.
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi sjóðsins skal kosinn á aðalfundi. Endurskoðaður ársreikningur skal samþykktur og áritaður af stjórn hans og staðfestur af ráðherra.
15. gr. Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög þessi, reglugerð og samþykktir fyrir sjóðinn. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
16. gr. Skriflegar upplýsingar til reiðu.
Aðildarfyrirtæki skulu á afgreiðslustöðum sínum hafa til reiðu skriflegar upplýsingar um aðild sína að sjóðnum, umfang tryggingar, hvaða eignir eru ekki tryggðar og hvert kröfuhafi geti snúið sér neiti aðildarfyrirtæki kröfuhafa um greiðslu. Skulu upplýsingar vera á íslensku og ávallt til reiðu þannig að auðvelt sé að nálgast þær.
Auglýsingar aðildarfyrirtækja um aðild að sjóðnum skulu takmarkaðar við beina tilvísun til hlutaðeigandi deildar hans.
17. gr. Undanþága frá skatti og gjaldþrotalögum.
Sjóðurinn er undanþeginn tekjuskatti … 1) samkvæmt lögum um tekjuskatt … 1)
Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.
    1)L. 129/2004, 134. gr.
18. gr. Reglugerð.
Ráðherra setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, m.a. um tilhögun á greiðslum úr sjóðnum, tryggingu á innstæðu, verðbréfum eða reiðufé þegar um sameiginlegan reikning er að ræða eða þegar viðskiptavinur aðildarfyrirtækis á ekki ótvíræðan rétt til innstæðu, verðbréfa og reiðufjár og um ávöxtun á eignum sjóðsins.
    1)Rg. 120/2000, sbr. 864/2002 og 983/2008.

VI. kafli. Öryggissjóðir.
19. gr.
Viðskiptabönkum annars vegar og sparisjóðum hins vegar, með staðfestu hér á landi, er heimilt að stofna sjálfseignarstofnanir, öryggissjóði, sem allir viðskiptabankar eða allir sparisjóðir skulu vera aðilar að í því skyni að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóða.
Til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og í því skyni fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka eða sparisjóðs getur öryggissjóður veitt lán eða yfirtekið vissar eignir, gengið í ábyrgðir, bætt sérstakt tap og kostnað sem viðskiptabanki eða sparisjóður verður fyrir og veitt viðskiptabönkum eða sparisjóðum stuðning að öðru leyti á hvern þann hátt sem stjórnir sjóðanna ákveða í samræmi við ákvæði laga þessara og samþykkta sjóðsins. Í þessu skyni er öryggissjóði heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs. Í samþykktum skal setja nánari reglur um starfsemina, svo og um tekjur og lánveitingar.
Öryggissjóði er enn fremur heimilt að veita viðskiptabanka eða sparisjóði víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir veitingu víkjandi láns. Henni er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs sem veitt er víkjandi lán. Getur stjórnin í því sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum öryggissjóðs. Sérhver aðili að sjóðnum fer á aðalfundi með atkvæðisrétt í samræmi við hlut sinn í heildareignum viðskiptabanka eða sparisjóða. Stjórn sjóðsins fer með málefni hans á milli aðal- og aukafunda. Hún skal skipuð fimm mönnum og skulu fjórir stjórnarmenn og jafnmargir til vara kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, hlutbundinni kosningu ef óskað er. Ráðherra tilnefnir einn mann og skal hann tilnefndur til þriggja ára í senn. Nánar skal kveðið á um skipan og verkefni stjórnar í samþykktum.
Stjórnarmenn og starfsmenn öryggissjóða eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
Öryggissjóður er undanþeginn tekjuskatti … 1) samkvæmt lögum um tekjuskatt … 1). Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.
Aðalfundur setur öryggissjóði samþykktir 2) sem háðar skulu staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi öryggissjóða. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    1)L. 129/2004, 135. gr. 2) Augl. 16/2002. Augl. 204/2005.

VII. kafli. Gildistaka o.fl.
20. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000. Sjóðurinn yfirtekur þá eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða. Tryggingarsjóður viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða verða hvor tveggja lögð niður frá sama tíma.
Halda skal stofnfund fyrir 31. desember 1999 þar sem settar eru samþykktir fyrir sjóðinn, sbr. 5. gr. Ákvæði þessarar málsgreinar tekur þegar gildi.

21. gr.
Lög þessi eru sett í samræmi við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/1994 og nr. 12/1998 og til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins nr. 19 frá 1994 um innstæðutryggingar og nr. 9 frá 1997 um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

[Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 6. gr., 1. málsl. 4. mgr. 6. gr., 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. og 1. málsl. 6. mgr. 7. gr. um greiðslu gjalds til sjóðsins eigi síðar en 1. mars ár hvert skal á árinu 2011 greiða gjaldið eigi síðar en 1. júní 2011.] 1)
    1)L. 15/2011, 1. gr.
[II.
Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. skulu innlánsstofnanir greiða iðgjald á árinu 2011 til sjálfstæðrar deildar sjóðsins samkvæmt því sem kveðið er á um í ákvæði þessu.
Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 3. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 4. mgr. og renna í hina sjálfstæðu deild sjóðsins. Um ráðstöfun fjár úr deildinni skal fara samkvæmt lögum.
Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum, eins og þær eru skilgreindar í 14. mgr., hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd skv. 15. mgr. eða 0,075% á ársfjórðungslegum gjalddaga. Fyrsti gjalddagi almenns iðgjalds vegna fyrsta og annars ársfjórðungs 2011 skal vera 1. september 2011.
Auk iðgjalds skv. 3. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 3. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir. Fyrsti gjalddagi áhættuvegins iðgjalds er 1. september 2011 fyrir annan ársfjórðung 2011.
Gjalddagi fyrir þriðja ársfjórðung er 1. nóvember 2011 og gjalddagi fyrir fjórða ársfjórðung er 1. mars 2012.
[Að fenginni tillögu] 1) Seðlabanka Íslands ber sjóðnum að innheimta viðbótariðgjald til deildarinnar ef eign hennar dugir ekki til að standa undir greiðslu þegar greiðsluskylda sjóðsins verður virk. Einnig er sjóðnum heimilt að innheimta viðbótariðgjöld til að standa straum af kostnaði, afborgunum og greiðslum vaxta af lánum. Iðgjald samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei vera hærra en nemur 0,6% af tryggðum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun.
Iðgjöld eru óendurkræf.
Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 3.–4. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. … 1) Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 8. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 3.–4. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
Iðgjöld skulu greidd í krónum og sama á við um greiðslur úr deildinni.
Greiði innlánsstofnun sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum sem tilgreindir eru í 3.–5. mgr. leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins.
Verði vanskil á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar er stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
Sé innlánsstofnun svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskast ekki hagsmunir þeirra sem njóta tryggingaverndar.
Með innstæðu er átt við inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.
Eftirfarandi innstæður njóta ekki verndar samkvæmt lögum þessum:
    1. innstæður í eigu fjármálafyrirtækja,
    2. innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
    3. innstæður fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi,
    4. innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
    5. innstæður rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði,
    6. innstæður félaga í sömu samsteypu og þau sem falla undir 1. tölul.,
    7. innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
    8. innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun.
2)] 3)
    1)L. 91/2019, 88. gr. 2)L. 38/2021, 17. gr. 3)L. 55/2011, 1. gr.
[III.
Þær greiðslur sem voru inntar af hendi á árinu 2011 og verða inntar af hendi á árinu 2012 til sjálfstæðrar deildar sjóðsins á grundvelli ákvæða til bráðabirgða I og II, sbr. lög nr. 15/2011 og nr. 55/2011, skulu renna til A-deildar sjóðsins.] 1)
    1)L. 79/2012, 7. gr.
[IV.
Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. b skal gjalddagi vegna 1. og 2. ársfjórðungs 2012 vera 1. september 2012.] 1)
    1)L. 79/2012, 7. gr.
[V.
B-deild sjóðsins skal lögð niður þegar staðið hefur verið við skuldbindingar sem á deildinni hvíla við gildistöku ákvæðis þessa. Þeir fjármunir sem þá eru í B-deildinni skulu renna til A-deildar sjóðsins.] 1)
    1)L. 79/2012, 7. gr.