Reglur um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis

1. gr. 
Fundir forsætisnefndar 

Fundi forsætisnefndar sitja forseti Alþingis og varaforsetar auk áheyrnarfulltrúa þingflokka sem ekki hafa þingstyrk til að fá kjörinn varaforseta úr sínum röðum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þá situr skrifstofustjóri Alþingis fundi nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Hvorki forsetar né áheyrnarfulltrúar hafa staðgengla á fundum forsætisnefndar.

Verði ágreiningur í forsætisnefnd sker forseti úr, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Fundir forsætisnefndar eru lokaðir öðrum en nefndarmönnum og þeim starfsmönnum skrifstofunnar sem skrifstofustjóri kallar til. Nefndin getur boðið öðrum að sitja einstaka fundi eftir sérstakri ákvörðun hverju sinni.

Skrifstofustjóri felur starfsmanni skrifstofunnar að gegna störfum ritara forsætisnefndar. Ritari forsætisnefndar annast undirbúning funda nefndarinnar í samvinnu við forseta Alþingis og skrifstofustjóra og skráir fundargerðir.

2. gr. 
Störf forsætisnefndar 

Forsætisnefnd hefur með höndum eftirfarandi störf skv. lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis:

 1. Skipuleggur þinghaldið með því að gera starfsáætlun fyrir þingið, svo og vikulegar áætlanir um þingstörfin, sbr. 2. mgr. 10. gr. þingskapa.
 2. Fjallar um fjárhagsáætlanir Alþingis auk embætta umboðsmanns og ríkisendurskoðanda, sbr. 5. mgr. 10. gr. þingskapa.
 3. Hefur umsjón með alþjóðasamstarfi sem Alþingi á aðild að, þ.e. starfi alþjóðanefnda þingsins og öðru samstarfi við erlend þing og stofnanir, sbr. 5. mgr. 10. gr. þingskapa.
 4. Setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórn¬sýslu, svo sem um hagsmunaskráningu, þingfararkostnað, starfsaðstöðu þingmanna og húsnæði þingsins, sbr. 5. mgr. 10. gr. þingskapa. 
 5. Setur reglur um störf og starfshætti fastanefnda og alþjóðanefnda, sbr. 5. mgr. 8. gr. þingskapa. 
 6. Fjallar um siðareglur alþingismanna eftir því sem nánar er mælt fyrir í þingsköpum Alþingis.
 7. Fjallar um ýmis mál og erindi sem berast forsætisnefnd svo sem rekstrar- og húsnæðismál, framkvæmd þingskapa og málefni stofnana þingsins.
 8. Fjallar um önnur málefni er forseti, varaforsetar eða áheyrnarfulltrúar óska að ræða, sbr. 5. mgr. 10. gr. þingskapa.
Um önnur störf forsætisnefndar fer samkvæmt fyrirmælum einstakra laga og samþykktum Alþingis hverju sinni.

3. gr.
Boðun funda 

Reglulegir fundir í forsætisnefnd skulu að jafnaði haldnir einu sinni í viku á meðan Alþingi situr, á mánudögum. Reglulegir fundir hefjast kl. 11.45 nema annað sé ákveðið. Forseti boðar fundi á öðrum tímum eftir þörfum.

Fundir forsætisnefndar skulu að jafnaði haldnir í Alþingishúsinu við Austurvöll, en forseti getur boðað til funda á öðrum stöðum.

Fundir forsætisnefndar eru boðaðir eins tímanlega og aðstæður leyfa með tölvupósti sem fer í rafræna dagbók nefndarmanna, jafnt reglulegir fundir sem aukafundir. Fundir eru jafnframt tilkynntir á vef Alþingis.

4. gr.
Dagskrá og gögn forsætisnefndar

Forseti gengur frá dagskrá funda og sendir forsætisnefnd, ásamt fundargerð og gögnum fundarins, eigi síðar en einum virkum degi fyrir fund. Sé um viðamikinn fund að ræða skal senda forsætisnefnd dagskrá ásamt fundargerð og gögnum eigi síðar en þremur virkum dögum fyrir fund. 

Varaforsetar og áheyrnarfulltrúar sem óska eftir því að mál sé sett á dagskrá reglulegs fundar skulu gera svo með tölvupósti sem senda skal ritara nefndarinnar einum virkum degi fyrir útsendingu dagskrár. Varaforsetar og áheyrnarfulltrúar geta einnig tekið upp mál undir liðnum önnur mál á dagskrá.

5. gr.
Um trúnað og þagnarskyldu 

Forsætisnefnd getur ákveðið að trúnaður ríki um tiltekin mál ef þau varða málefni sem eru undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum eða um er að ræða þagnarskyldar upplýsingar. Skal forsætisnefndarmaður þá ekki ræða málið utan funda forsætisnefndar. Að öðru leyti gilda almennt um fundi forsætisnefndar sömu trúnaðar og samskiptareglur og eiga við um lokaða fundi fastanefnda.

6. gr.
Fundargerðir forsætisnefndar 

Forsætisnefnd skal halda fundargerðir. Fundargerðir skal skrá rafrænt og þær vistaðar í málaskrárkerfi Alþingis. Útprentaðar fundargerðir hvers þings skulu bundnar í bók sem telst gerðabók forsætisnefndar. Gerðabækur skulu varðveittar í skjalasafni Alþingis. 

Í fundargerð skulu koma fram eftirfarandi atriði:

 1. Fundardagur og fundarstaður. 
 2. Fundartími, þ.e. upphaf fundar og lok hans. 
 3. Nöfn viðstaddra, þ.m.t. gesta. 
 4. Forföll nefndarmanna. 
 5. Mál sem tekin eru fyrir á fundi, hvort sem mál eru samkvæmt dagskrá fundar eða sem nefndarmaður tekur upp að eigin frumkvæði. 
 6. Ákvarðanir um meðferð máls og afgreiðslu máls. 
 7. Bókanir sem einstakir nefndarmenn óska að gera um meðferð máls og afgreiðslu þess. Bókanir skulu vera stuttar, afmarkaðar og hnitmiðaðar. Sá nefndarmaður sem óskar eftir því að afstaða hans sé bókuð skal gera það á fundinum. 

Í fundargerð forsætisnefndar skulu ekki koma fram atriði sem hafa að geyma þagnarskyldar upplýsingar eða upplýsingar sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna.

Fundargerð skal að jafnaði senda nefndarmönnum fyrir upphaf næsta fundar, en á þeim fundi skal hún lögð fram til staðfestingar fundarins. Komi fram athugasemd við fundargerð skal henni breytt í samræmi við athugasemdina hreyfi ekki aðrir andmælum, ella skal hún skráð sem bókun viðkomandi í fundargerð næsta fundar.

Birta skal ákvarðanir úr staðfestum fundargerðum forsætisnefndar, sem upplýsingalög taka til, á vef Alþingis. Heimilt er að birta aðrar ákvarðanir forsætisnefndar, svo sem um störf Alþingis og stofnanir þess, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar hvert sinn.

7. gr.  
Eftirfylgni með samþykktum forsætisnefndar

Skrifstofustjóri Alþingis skal tryggja eftirfylgni með samþykktum og ákvörðunum forsætisnefndar.

8. gr. 
Gildistaka

Reglur þessar eru settar með stoð í 5. mgr. 10. gr. þingskapa og taka gildi þegar í stað. Um leið falla úr gildi reglur um fundargerðir forsætisnefndar frá 27. janúar 2012, með áorðnum breytingum frá 15. ágúst 2019.

 Samþykkt á fundi forsætisnefndar 17. mars 2020.