Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu

1993 nr. 36 4. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 7. maí 1993. Breytt með: L. 122/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994). L. 138/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994). L. 124/1997 (tóku gildi 30. des. 1997). L. 61/1998 (tóku gildi 1. jan. 1999). L. 65/1998 (tóku gildi 18. júní 1998). L. 148/2001 (tóku gildi 1. jan. 2002). L. 32/2002 (tóku gildi 1. maí 2002, birt í Stjtíð. 2. maí 2002). L. 51/2002 (tóku gildi 1. júlí 2002). L. 93/2002 (tóku gildi 31. maí 2002). L. 95/2002 (tóku gildi 31. maí 2002). L. 138/2004 (tóku gildi 1. jan. 2005). L. 50/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006). L. 143/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007). L. 24/2007 (tóku gildi 29. mars 2007). L. 77/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 145/2013 (tóku gildi 1. febr. 2014 nema 2.–4. mgr. 24. gr. sem tóku gildi 1. júní 2014). L. 95/2020 (tóku gildi 23. júlí 2020). L. 153/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Um greftrun líka og líkbrennslu.
1. gr.
Skylt er að greftra lík í lögmætum kirkjugarði, sbr. 5. gr., eða brenna þau í viðurkenndri líkbrennslustofnun (bálstofu), sbr. 7. gr.
2. gr.
Skylt er að virða ákvarðanir sjálfráða manns um hvort greftra skuli lík hans eða brenna.
Nú var maður ósjálfráða er hann féll frá og tekur þá lögráðamaður (lögráðamenn) hans ákvörðun um þetta efni.
Nú er ekki vitað um vilja látins manns sem sjálfráða var og ákveða þá eftirlifandi maki (sambúðaraðili) og niðjar (kjörniðjar) hins látna hvort lík skuli greftrað eða brennt.
Nú er þeim vandamönnum eigi til að dreifa er greinir í 3. mgr. og taka foreldrar og systkin hins látna ákvarðanir í þessu efni og fer um það skv. 3. mgr. Ella er ákvörðunarvaldið í höndum þeirra er nákomnastir eru hinum látna. Skal í því sambandi til þess litið hjá hverjum hinn látni hefur dvalist og hver sjái um útförina.
Ef eigi er vitað um afstöðu hins látna, sbr. 1. mgr., né þeirra er greinir í 3. og 4. mgr. má líkbrennsla fara fram, enda verði útförin gerð á stað þar sem aðstaða er til líkbrennslu, sbr. 7. gr.
3. gr.
[Óheimilt er að greftra lík eða brenna nema staðfesting sýslumanns um að andlát hafi verið tilkynnt liggi fyrir.] 1)
Áður en líkbrennsla fer fram þarf enn fremur að vera fyrir hendi vottorð [sýslumanns, að höfðu samráði við lögreglustjóra], 2) þess efnis að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að líkbrennsla fari fram. Þeim er sér um framkvæmd líkbrennslu ber að afla vottorðs þessa.
[Óheimilt er að setja lík andvana fædds barns eða látins ungbarns í kistu með öðru líki nema hlutaðeigandi presti eða safnaðarstjóra hafi áður verið tilkynnt það. Útfararstjóri ber ábyrgð á því að þessu ákvæði sé fylgt.] 1)
    1)L. 61/1998, 17. gr. 2)L. 24/2007, 10. gr.
4. gr.
Hver maður á rétt til legstaðar þar í sókn sem hann andaðist eða var síðast heimilisfastur eða þar sem vandamenn hans, sbr. 2. gr., óska legs fyrir hann.

II. kafli. Um kirkjugarða og grafreiti og friðhelgi þeirra, svo og líkbrennslustofnanir.
5. gr.
Með kirkjugörðum í lögum þessum er átt við afmörkuð grafarsvæði kirkjusóknar eða kirkjusókna sem vígð hafa verið, sbr. 6. gr.
6. gr.
Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir, sbr. og almenn hegningarlög.
Kirkjugarða þjóðkirkjunnar skal prestur vígja. [Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan minningarreit í kirkjugarði vegna horfins manns sem úrskurðaður hefur verið látinn og nýtur sá reitur sömu friðhelgi og grafreitur.] 1) Heimilt er að afmarka óvígðan reit innan kirkjugarðssvæðis ef hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn samþykkir.
Eigi má reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki, sem frá stafar hávaði eða ys, í nánd við kirkjugarða. Skal þessa gætt við skipulagningu skipulagsskyldra staða.
    1)L. 65/1998, 1. gr.
7. gr.
Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í stofnunum sem [sýslumaður] 1) löggildir.
Búa ber um öskuna í þar til gerðum duftkerum sem skylt er að varðveita í kirkjugarði eða löggiltum grafreit, [sbr. þó 4. mgr.] 2) Skal grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði ef vandamenn, er greinir í 1. mgr. 47. gr., óska þess. Dýpt duftkersgrafar skal vera um 1 metri.
Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og sé stærð hvers leiðis jafnan hin sama, um 1/ 2 fermetri. Nöfn þeirra sem duft er varðveitt af í kirkjugarði skal rita á legstaðaskrá og kerin og grafirnar tölusettar, sbr. 27. gr. [Kirkjugarðsstjórn getur einnig afmarkað almennan reit í kirkjugarði, þar sem ösku látinna verði komið fyrir, án þess að grafarnúmers sé getið, en nöfn hinna látnu skulu færð í legstaðaskrá, sbr. 1. mgr. 27. gr.] 2)
[[Sýslumaður getur heimilað] 1) að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi. Óheimilt er að dreifa ösku á fleiri en einn stað sem og að merkja dreifingarstað. Sömuleiðis er óheimilt að geyma duftker fram að ráðstöfun þess annars staðar en í líkhúsi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu. [Um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns fer samkvæmt reglugerð 3) settri með heimild í 1. mgr. 50. gr.] 1)] 2)
[Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfi til dreifingar ösku látins manns skv. 4. mgr. verði á hendi eins sýslumanns.
Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt þessari lagagrein eru kæranlegar til ráðuneytis.] 1)
    1)L. 145/2013, 21. gr. 2)L. 32/2002, 1. gr. 3)Rg. 203/2003, sbr. 104/2014 og 1152/2014.

III. kafli. Stjórn, starfslið og yfirumsjón kirkjugarða.
8. gr.
Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups.
Sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hefur á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Er hún hér eftir nefnd kirkjugarðsstjórn.
9. gr.
Nú hafa tvær eða fleiri sóknir sameiginlegan kirkjugarð eða kirkjugarða og skulu þá sóknarnefndir hver um sig kjósa einn mann úr hópi aðalmanna og varamanna í nefndinni í kirkjugarðsstjórn til fjögurra ára í senn, svo og varamann með sama hætti. [Skráðum trúfélögum] 1) með a.m.k. 1.500 gjaldskylda meðlimi er heimilt að kjósa einn mann úr sínum hópi og annan til vara í kirkjugarðsstjórn til fjögurra ára í senn. Bálfararfélag Íslands kýs, ef því er að skipta, einn mann og annan til vara til jafnlangs tíma í kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma. Prófastur situr fundi kirkjugarðsstjórnar og hefur atkvæðisrétt þegar tala fundarmanna er jöfn eða tilnefnir ella varamann í sinn stað. Prófastar Reykjavíkurprófastsdæma sitja fundi til skiptis sitt árið hvor og eru varamenn hvor fyrir annan.
Kirkjugarðsstjórnir þessar hafa sömu skyldur og ábyrgð sem sóknarnefndir að því er til kirkjugarða tekur.
[Nú telur kirkjugarðsstjórn hagræði að því að sameinast annarri eða fleiri kirkjugarðsstjórnum og skal slík sameining þá heimil að fengnu samþykki viðkomandi kirkjugarðsstjórna og prófasts eða prófasta.] 2)
    1)L. 32/2002, 2. gr. 2)L. 138/2004, 1. gr.
10. gr.
Kirkjugarðsstjórn er heimilt að ráða sérstakan kirkjugarðsvörð, svo og framkvæmdastjóra, er hafi á hendi umsjón og eftirlit samkvæmt erindisbréfi sem kirkjugarðsstjórn setur.
[Kirkjugarðsstjórn sér um að láta taka allar grafir í garðinum og sér um árlegt viðhald legstaða.] 1)
    1)L. 95/2020, 8. gr.
11. gr.
[Kirkjugarðaráð hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Í því eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, [forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins] 1) eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Biskup Íslands eða fulltrúi hans skal vera formaður kirkjugarðaráðs. Ef atkvæði falla jöfn í ráðinu ræður atkvæði biskups.
Kirkjugarðaráð ræður framkvæmdastjóra kirkjugarða og setur honum erindisbréf. Hann skal vera sérfróður um gerð og skipulag kirkjugarða. Laun hans og annar starfskostnaður, svo og kostnaður við störf kirkjugarðaráðs, greiðist úr Kirkjugarðasjóði.
Kirkjugarðaráð er jafnframt stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 40. gr.] 2)
    1)L. 138/2004, 2. gr. 2)L. 32/2002, 3. gr.

IV. kafli. Um skyldur og rétt sveitarfélaga vegna kirkjugarða, svo og um eignarnám vegna kirkjugarða.
12. gr.
Skylt er sveitarfélagi því, er liggur innan sóknar, að láta ókeypis í té hæfilegt kirkjugarðsstæði svo og efni í girðingu, þó þannig að óbreyttar haldist kvaðir þær er þegar eru á jörðum og lóðum þar sem kirkjugarðar standa.
Þar sem ekki er völ á nægilega þurrum eða djúpum jarðvegi til kirkjugarðsstæðis skal sveitarfélag kosta framræslu og uppfyllingu landsins. [Kirkjugarðaráð setur viðmiðunarreglur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur hvað felst í skyldu sveitarfélaga til að leggja til hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu.] 1)
    1)L. 32/2002, 4. gr.
13. gr.
Þar sem kirkja er ekki í kirkjugarði leggur sveitarfélag veg frá henni til kirkjugarðs og heldur honum akfærum, þar á meðal með snjómokstri, ef því er að skipta. Enn fremur leggur sveitarfélagið til ókeypis hæfilegan ofaníburð í götur og gangstíga kirkjugarðs ef þess er óskað og greiðir akstur hans.
Í kaupstöðum eða kauptúnum sér sveitarfélag fyrir nægilegu vatni til vökvunar blóma og trjágróðurs í kirkjugarðinum.
14. gr.
Nú hafa fleiri en eitt sveitarfélag eða bæjarfélag og hreppur eða hreppshluti sameiginlegan kirkjugarð og skal þá skipta kostnaðinum, sbr. 12. og 13. gr., niður á hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög eða hluta þeirra eftir mannfjölda í hverju þeirra fyrir sig.
Rétt er kirkjugarðsstjórn, ef óhæfilegur dráttur verður á framkvæmd þeirra verka er getur í 2. mgr. 12. gr., svo og 13. gr., að taka sjálf að sér framkvæmd að nokkru eða öllu leyti. Gerir hún þá reikning yfir kostnaðinn að verkinu loknu og sætir reikningurinn úrskurði [ráðuneytisins] 1) ef ágreiningur verður. Greiða skal reikninginn samkvæmt úrskurði ráðuneytisins innan mánaðar frá því er hann er felldur.
    1)L. 162/2010, 128. gr.
15. gr.
Heimilt er með samþykki [ráðuneytisins] 1) að taka eignarnámi hentugt land undir kirkjugarð.
    1)L. 162/2010, 128. gr.

V. kafli. Ákvarðanir um nýjan kirkjugarð og stækkun eldri kirkjugarðs.
16. gr.
Lögmætur safnaðarfundur, eða safnaðarfundir ef fleiri söfnuðir en einn eiga í hlut, ákveður hvenær taka skuli upp nýjan kirkjugarð eða stækka gamlan en í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn.
Nú er þetta vanrækt og getur þá [kirkjugarðaráð] 1) skipað fyrir um stækkun eða flutning kirkjugarðs, enda liggi fyrir álit prófasts (prófasta) um nauðsyn þess.
Þegar gera á nýjan kirkjugarð eða stækka gamlan skal leita umsagnar heilbrigðisnefndar … 2) og skipulagsnefndar sveitarfélagsins um hvort heilbrigðissjónarmið eða skipulagsástæður standi framkvæmdinni í vegi. Gögn þessi ber síðan að senda ásamt uppdrætti af fyrirhuguðum kirkjugarði eða stækkun hans til [kirkjugarðaráðs] 1) til úrlausnar, en ákvörðun [þess] 1) má skjóta til [ráðuneytisins] 3) er úrskurðar málið til fullnaðar.
    1)L. 32/2002, 5. gr. 2)L. 93/2002, 28. gr. 3)L. 162/2010, 128. gr.

VI. kafli. Uppdrættir af kirkjugörðum og framkvæmdir við þá.
17. gr.
Kirkjugarðsstjórnir skulu láta gera á sérstök eyðublöð uppdrætti af kirkjugörðum landsins, bæði þeim sem í notkun eru og hinum sem hætt er að nota en enn hefur eigi verið sléttað yfir. Á uppdrætti þessa skal markað fyrir legsteinum öllum og þeim leiðum sem menn vita deili á. Lýsing fylgi á minnismerkjum og skrá yfir þau leiði sem menn vita hverjir hvíla undir, ásamt nöfnum þeirra og dánarári.
Að því búnu lætur framkvæmdastjóri kirkjugarða í samráði við [kirkjugarðaráð] 1) gera uppdrátt að skipulagi garðanna, stækkun ef með þarf, girðingum og sáluhliði.
    1)L. 32/2002, 5. gr.
18. gr.
Kirkjugarðar skulu girtir traustri girðingu með vönduðu sáluhliði. Þegar girða þarf kirkjugarð skal leita um það tillagna skipulagsnefndar sveitarfélagsins og [kirkjugarðaráðs]. 1) Að fengnum þessum tillögum gerir safnaðarfundur, eða safnaðarfundir ef fleiri söfnuðir en einn eiga í hlut, ályktun um gerð girðingarinnar, en kirkjugarðsstjórn í Reykjavíkurprófastsdæmum. Náist eigi samkomulag um girðingu við framkvæmdastjóra kirkjugarða ræður úrskurður [kirkjugarðaráðs]. 1)
Nú er kirkjugarður fjarri kirkju og skal þá vera klukka í sáluhliði, stöpli eða líkhúsi.
    1)L. 32/2002, 5. gr.
19. gr.
Kirkjugarðsstjórnum er skylt að láta leggja brautir og gangstíga í kirkjugörðum samkvæmt staðfestum uppdrætti, gróðursetja tré og runna, slétta garðinn, ef til þess er ætlast, halda öllu þessu vel við, láta slá garðana reglulega með varúð og hafa þá að öllu leyti vel og snyrtilega hirta.
Kirkjugarðsstjórnir skulu stuðla að því að legstaðir séu smekklega prýddir blómjurtum og vel um þá hirt.
1)
    1)L. 32/2002, 6. gr.
20. gr.
Kirkjugarðsstjórn er heimilt að láta reisa kapellu og líkhús í eða við kirkjugarð á kostnað hans og koma þar upp húsnæðisaðstöðu fyrir starfsmenn kirkjugarðsins. Uppdrættir og staðsetning skulu samþykkt af [kirkjugarðaráði] 1) og skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins. Gerð kapellu og líkhúss skal háð samþykki byggingarnefndar og heilbrigðisnefndar.
[Kirkjugarðsstjórn er heimilt að taka þátt í kostnaðarsömum framkvæmdum við útfararkirkjur, en því aðeins að tryggt sé að það gangi ekki svo nærri fjárhag kirkjugarðsins að hann sé ófær um að gegna lögbundnu hlutverki sínu. Ráðherra setur reglur um fjárstuðning kirkjugarðsstjórna í þessum efnum.] 2)
Skylt er kirkjugarðsstjórn að annast greftrunarkirkjur og kosta rekstur þeirra, sbr. lög um kirkjusóknir o.fl.
    1)L. 32/2002, 5. gr. 2)L. 32/2002, 7. gr.

VII. kafli. Um grafir, umhirðu leiða, legstaðaskrá o.fl.
21. gr.
[Útfararþjónustu mega þeir einir reka sem hafa til þess leyfi sýslumanns. [Ráðherra] 1) er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns. Synjun sýslumanns um veitingu leyfis er kæranleg til [ráðuneytisins]. 1) Ráðherra setur nánari reglur um leyfisveitinguna í reglugerð. 2)] 3)
Þar sem kirkjugarðsstjórnir reka útfararþjónustu skal sú starfsemi og fjárhagur henni tengdur vera algerlega aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar.
    1)L. 162/2010, 128. gr. 2)Rg. 426/2006. 3)L. 143/2006, 4. gr.
22. gr.
[Grafstæði í kirkjugörðum skal vera 2,50 x 1,20 metrar og grafstæði duftkera 0,75 x 0,75 metrar.] 1) Kirkjugarðsstjórn ber að sjá um að greftri sé hagað skipulega og samkvæmt uppdrætti, enda óheimilt að taka gröf annars staðar en þar sem hún leyfir eða umboðsmaður hennar. Gröf má eigi taka innan kirkju eða nær grunni hennar en 1 1/ 2 metra.
    1)L. 32/2002, 8. gr.
23. gr.
Grafir skulu vera svo djúpar að fullur metri sé frá kistuloki á grafarbarm. Kirkjugarðsstjórn getur heimilað að tvígrafið sé í sömu gröf ef þess er óskað af hálfu vandamanna þess er grafa á og fyrir liggur samþykki vandamanna þess er þar var áður grafinn. Skal þá grafardýpt hið fyrra sinni vera 2 1/ 2 metri. Sá sem gröf lætur taka er skyldur til þess að láta ganga vel frá legstaðnum svo fljótt sem við verður komið og slétta yfir gröfina. Sé þetta vanrækt lætur kirkjugarðsstjórn framkvæma verkið á kostnað hlutaðeiganda.
Kirkjugarðsstjórn er enn fremur heimilt að ákveða að í tilteknum hluta kirkjugarðs, þar sem jarðvegsdýpt leyfir, skuli grafa í tveimur dýptum.
24. gr.
Beinum, sem upp kunna að koma þegar gröf er tekin, skal koma fyrir í gröfinni á ný. Sé bálstofa fyrir hendi er heimilt að brenna allar slíkar leifar og leggja öskuna í gröf, sbr. 7. gr.
25. gr.
Kirkjugarðsstjórn er heimilt að úthluta allt að þremur grafarstæðum til sömu fjölskyldu, enda sé eftir því leitað við greftrun þess er fyrst fellur frá. Réttur til grafarstæðanna helst í 50 ár.
26. gr.
Kirkjugarðsstjórn er heimilt að fjarlægja af leiðum ónýtar eða óviðeigandi girðingar og minnismerki, en gera skal þá vandamönnum viðvart áður ef kostur er og jafnan haft samráð í þessum efnum við sóknarprest, í Reykjavíkurprófastsdæmum við prófasta. Minnismerkjum, sem fjarlægð eru, skal að jafnaði komið fyrir á vissum stað í garðinum þar sem best þykir á fara að dómi prófasts. Þetta gildir og um minnismerki á þeim gröfum sem eru eldri en 75 ára og enginn hefur óskað friðunar á. Séu slík minnismerki flutt skal upprunalegur staður þeirra merktur greinilega samkvæmt öðrum ákvæðum þessara laga.
Kirkjugarðsstjórnum er heimilt að láta hefja gömul minnismerki úr moldu ef þörf krefur. Enn fremur er þeim skylt að láta smíða hlífðarstokka um þá legsteina er [forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins] 1) tiltekur. Kostnað, sem af þessu leiðir, ber hlutaðeigandi kirkjugarði að greiða.
    1)L. 138/2004, 3. gr.
27. gr.
Kirkjugarðsstjórn heldur legstaðaskrá í því formi sem [kirkjugarðaráð] 1) ákveður. Þar skal rita nöfn, kennitölu og stöðu, heimili, aldur, greftrunardag og grafarnúmer þeirra sem jarðsettir eru, jafnóðum og greftrað er, sbr. þó 3. mgr., og enn fremur nöfn þeirra sem fyrir eru greftraðir í garðinum ef leiði þeirra þekkjast. Uppdráttur að kirkjugarðinum fylgi hverri legstaðaskrá og séu mörkuð á hann leiði allra þeirra sem standa í skránni.
[Skrá skv. 1. mgr. skal gerð í þremur eintökum. Eitt eintakið geymist hjá kirkjugarðsstjórn, en hin eintökin skal senda ársfjórðungslega annars vegar til sóknarprests og hins vegar til legstaðaskrár kirkjugarðaráðs á netinu.] 2) Í Reykjavíkurprófastsdæmum og öðrum prófastsdæmum, ef þurfa þykir, skal afhenda afrit skrárinnar … 3) manntalsskrifstofu, [Þjóðskrá Íslands], 4) Tryggingastofnun ríkisins, Sambandi íslenskra lífeyrissjóða og Blóðbankanum í Reykjavík mánaðarlega.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er kirkjugarðsstjórn að höfðu samráði við prófast (prófasta) og [kirkjugarðaráð] 1) heimilt að afmarka sérstakt svæði í kirkjugarði og greftra þar án þess að grafarnúmers innan svæðisins sé getið. Að öðru leyti fer um slíkar greftranir svo sem í 1. mgr. getur.
    1)L. 32/2002, 5. gr. 2)L. 138/2004, 4. gr. 3)L. 93/2002, 29. gr. 4)L. 77/2010, 5. gr.
28. gr.
Öll leiði í kirkjugarði, sem þekkt eru, skulu auðkennd með tölumerki er samsvarar tölu þeirra á legstaðaskrá, sbr. 3. mgr. 27. gr. Sá sem setja vill minnismerki á leiði skal fá til þess leyfi kirkjugarðsstjórnar sem ber að sjá um að minnismerkið sé traust og fari vel. Eigi má setja girðingar úr steini, málmi, timbri, plasti eða sambærilegu efni um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Eigi má gera grafhýsi í kirkjugarði.
Ágreiningi um þessi atriði má skjóta til [kirkjugarðaráðs]. 1)
    1)L. 32/2002, 5. gr.
29. gr.
Allar grafir skulu friðaðar í 75 ár. Að þeim tíma liðnum er kirkjugarðsstjórn heimilt að grafa þar að nýju eða framlengja friðun ef þess er óskað. Heimilt er og kirkjugarðsstjórn að friða leiði ef þar eru smekkleg minnismerki að mati hennar og þeim vel við haldið eða af öðrum ástæðum.
30. gr.
Legstaðasjóðir, sbr. 20. gr. laga nr. 21/1963, verða eigi stofnaðir eftir gildistöku laga þessara.
Kirkjugarðsstjórn hefur á hendi stjórn og reikningshald legstaðasjóða þeirra, sem myndaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna, undir yfirstjórn prófasts. Hún ávaxtar sjóðina í Kirkjugarðasjóði eða með öðrum þeim hætti sem henni þykir best henta.
Nú er friðunartími legstaðar liðinn og ekki nægilegt fé fyrir hendi í sjóðnum til sómasamlegs viðhalds legstaðarins að dómi prófasts (prófasta) og hverfur þá sjóðurinn til kirkjugarðsins sem eign hans.

VIII. kafli. Ákvarðanir um að hætt skuli að grafa í kirkjugarði og um niðurlagningu kirkjugarðs.
31. gr.
Ákvörðun um að hætta skuli að grafa í kirkjugarði skal gerð á lögmætum safnaðarfundi eða safnaðarfundum, í Reykjavíkurprófastsdæmum í kirkjugarðsstjórn, enda komi til samþykki [kirkjugarðaráðs]. 1) [Kirkjugarðaráð getur, þar sem svo hagar til að sókn er orðin fámenn og sjaldan eða aldrei hefur verið grafið í kirkjugarði á undanförnum árum, ákveðið að fengnu samþykki biskups Íslands að hætt skuli að grafa í honum og leggja hann niður.] 2)
Niðurlagningu kirkjugarðs skal tilkynna biskupi og [ráðuneytinu]. 3) Niðurlagðir kirkjugarðar eru friðhelgir og skulu taldir til fornleifa, sbr. þjóðminjalög. Heimilt er að þinglýsa ákvörðun um niðurlagningu kirkjugarðs.
Skylt er að halda við girðingu um niðurlagðan kirkjugarð á kostnað sóknarkirkjugarðsins svo og að hirða hann sómasamlega.
[Kirkjugarðaráð] 1) gerir tillögur í samráði við skipulagsnefnd sveitarfélags og sóknarnefnd (kirkjugarðsstjórn) um hvernig með kirkjugarð skuli fara sem hætt er að greftra í.
    1)L. 32/2002, 5. gr. 2)L. 138/2004, 5. gr. 3)L. 162/2010, 128. gr.
32. gr.
Nú eru liðin tuttugu ár frá niðurlagningu kirkjugarðs eða tíu ár a.m.k. frá greftrun í kirkjugarði og getur þá löglegur safnaðarfundur eða safnaðarfundir, í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn, fengið garðinn í hendur hlutaðeigandi sveitarfélagi sem almenningsgarð með ákveðnum skilyrðum ef [kirkjugarðaráð] 1) samþykkir og [ráðuneytið] 2) staðfestir. Heimilt er og með samþykki sömu aðila að slétta yfir niðurlagðan kirkjugarð eða gamla grafreiti sem löngu er hætt að jarða í, en þá skal kirkjugarðsstjórn jafnframt láta reisa þar varanlegt minnismerki með áletrun um það að þar hafi kirkjugarður verið.
    1)L. 32/2002, 5. gr. 2)L. 162/2010, 128. gr.
33. gr.
Niðurlagðan kirkjugarð má ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta). Ekki má þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki. Þó getur [ráðuneytið] 1) veitt undanþágu frá þessu, að fengnu samþykki [kirkjugarðaráðs]. 2)
Vandamenn eiga rétt á að halda við minnismerkjum í niðurlögðum kirkjugörðum eða flytja þau burtu þaðan.
    1)L. 162/2010, 128. gr. 2)L. 32/2002, 5. gr.
34. gr.
[Þegar samþykkt hefur verið að leggja niður kirkjugarð eða slétta yfir hann skal það vandlega kynnt almenningi með auglýsingu tvisvar sinnum í dagblöðum eða í staðbundnum blöðum er koma reglubundið út.] 1) Gefi þá enginn sig fram innan átta vikna er vilji varðveita minnismerki í garðinum eða taka þau í sína vörslu getur kirkjugarðsstjórn valið þeim annan stað, sbr. 26. gr.
    1)L. 32/2002, 9. gr.
35. gr.
Áður en sléttað er yfir gamlan kirkjugarð skal hlutaðeigandi sóknarprestur, í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn, semja nákvæma skrá yfir öll minnismerki í garðinum og senda biskupi.
36. gr.
Nú spillir uppblástur eða vatn niðurlögðum kirkjugarði og skal þá kirkjugarðsstjórn tafarlaust tilkynna það [kirkjugarðaráði]. 1) Nefndin gerir síðan þær ráðstafanir er þurfa þykir.
    1)L. 32/2002, 5. gr.

IX. kafli. Kirkjugarðsgjöld.
37. gr.
Kirkjugarðsstjórnir skulu árlega semja áætlun um tekjur og gjöld þeirra kirkjugarða sem þær hafa í umsjá sinni. Á sama hátt skulu þær semja reikning fyrir næstliðið ár yfir tekjur og gjöld kirkjugarðanna, svo og skýrslu um eignir þeirra að meðtöldum legstaðasjóðum, sbr. 30. gr.
[Kirkjugarðsstjórnir skulu senda Ríkisendurskoðun ársreikninga kirkjugarða fyrir næstliðið ár fyrir 1. júní ár hvert. Um heimildir Ríkisendurskoðunar til að kalla eftir upplýsingum og til að kanna gögn fer eftir lögum um Ríkisendurskoðun.] 1)
    1)L. 124/1997, 2. gr.
38. gr.1)
    1)L. 122/1993, 54. gr.
39. gr.
[Rekstur kirkjugarða skal greiddur úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum. Framlagið tekur mið af fjölda látinna næstliðins árs og stærð grafarsvæða. Útreikningur framlagsins skal byggjast á samkomulagi ríkisins og kirkjugarðaráðs.
Framlag til einstakra garða skal vera í samræmi við úthlutunarreglur er samþykktar eru af kirkjugarðaráði fyrir upphaf hvers fjárhagsárs.] 1)
    1)L. 138/2004, 6. gr.

X. kafli. Kirkjugarðasjóður.
40. gr.
[Til Kirkjugarðasjóðs, sem stofnaður var með 27. gr. laga nr. 21/1963, skulu renna að lágmarki 8% af fjárveitingu til kirkjugarða skv. 39. gr. en að hámarki 12%. Framlag til sjóðsins skal vera í samræmi við úthlutunarreglur sem samþykktar eru af kirkjugarðaráði fyrir upphaf hvers fjárhagsárs. Heimilt er að veita smæstu kirkjugörðum framlag úr Kirkjugarðasjóði í stað hlutdeildar í heildarframlagi til kirkjugarða skv. 39. gr.] 1)
[Fjársýsla ríkisins] 2) og innheimtuaðilar aðstöðugjalda skulu standa stjórn sjóðsins skil á gjaldi þessu ársfjórðungslega eða eftir nánara samkomulagi.
Kirkjugarðsstjórnir geta ávaxtað í sjóðnum það fé kirkjugarða sem er umfram árlegar þarfir með almennum innlánskjörum lánastofnana.
[Kirkjugarðaráð myndar stjórn Kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 11. gr.] 3)
Reikningshald sjóðsins annast skrifstofa biskups og gilda um það sömu reglur sem um reikningshald kirkna. Reikningar Kirkjugarðasjóðs skulu árlega birtir í Stjórnartíðindum.
    1)L. 138/2004, 7. gr. 2)L. 95/2002, 11. gr. 3)L. 32/2002, 10. gr.
41. gr.
Meginmarkmið Kirkjugarðasjóðs er að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.
Úr sjóðnum má veita lán og/eða styrki kirkjugarðsstjórnum til kirkjugarða og kirkna, svo og til þess að setja upp minnismerki þar sem verið hafa kirkjugarðar, kirkjur eða bænahús.
Sjóðnum er heimilt að kosta viðhald og umhirðu kirkjugarða í sóknum sem eyðst hafa af fólki.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum [kirkjugarðaráðs]. 1)
    1)L. 32/2002, 11. gr.

XI. kafli. Heimagrafreitir.
42. gr.
Eigi má veita leyfi til upptöku heimagrafreita.
Leyfishafar heimagrafreits greiði sem aðrir til sóknarkirkjugarðs síns, enda er þeim heimilt leg í honum.
Réttur til heimagrafreits á ættaróðali fellur niður ef óðalið gengur úr ættinni.
43. gr.
Nú hefur eigi verið greftrað í heimagrafreit í full 25 ár og eigandi jarðarinnar óskar þess að leggja grafreitinn niður og er honum þá heimilt að taka niður girðingu um reitinn og breyta honum í grasflöt eða trjálund ef [kirkjugarðaráð] 1) samþykkir. Séu minnismerki í garðinum skal jarðeigandi gera vandamönnum skv. 1. mgr. 47. gr. viðvart um að hann ætli að leggja reitinn niður. Er þeim heimilt að halda við minnismerkjum þar á sinn kostnað eða ráðstafa þeim á annan hátt.
Um niðurlagða heimagrafreiti gilda að öðru leyti ákvæði 2. mgr. 31. gr.
    1)L. 32/2002, 5. gr.

XII. kafli. Skráning kirkjugarða og heimagrafreita.
44. gr.
Próföstum er skylt að halda nákvæma skrá um kirkjugarða og heimagrafreiti í prófastsdæminu og skoða þá á yfirreiðum sínum og senda biskupi afrit af skoðunargerðum.

XIII. kafli. [Grafreitir skráðra trúfélaga.]1)
    1)L. 32/2002, 13. gr.
45. gr.
Heimilt er skráðum [trúfélögum], 1) sem hafa forstöðumann, að taka upp sérstakan grafreit. Gilda um upptöku hans, viðhald, afnot, stjórn, fjárhag og niðurlagningu sömu reglur sem um kirkjugarða þjóðkirkjunnar eftir því sem við getur átt.
Safnaðarmenn [skráðs trúfélags], 1) er hafa sérstakan grafreit, eru ekki skyldir til að greiða gjald til sóknarkirkjugarðsins meðan þeir halda sínum grafreit sómasamlega við og fylgja settum reglum.
    1)L. 32/2002, 12. gr.

XIV. kafli. Tilfærsla líka og flutningur þeirra.
46. gr.
Heimilt er [sýslumanni] 1) að fengnu samþykki kirkjugarðsstjórnar sem hlut á að máli og biskups að leyfa tilfærslu líka í kirkjugarði eða flutning þeirra í annan kirkjugarð eða í grafreit. Umsókn um slíka færslu skal senda biskupi, stílaða til [sýslumanns]. 1) Í umsókn skal fram tekið nafn hins látna og aldur, greftrunardagur og dánarmein ef vitað er, svo og ástæður fyrir umsókninni. Fylgja skal og vottorð [yfirlæknis heilsugæslu í umdæminu] 2) um að hann telji eigi sýkingarhættu stafa af líkflutningnum.
[Ráðherra er heimilt að ákveða að ákvarðanir skv. 1. mgr. verði á hendi eins sýslumanns. 3)
Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt þessari lagagrein eru kæranlegar til ráðuneytis.] 1)
    1)L. 145/2013, 22. gr. 2)L. 93/2002, 30. gr. 3)Rg. 105/2014, sbr. 1152/2014.
47. gr.
Réttir aðilar til að standa að umsókn skv. 46. gr. eru eftirlifandi maki, [sambúðarmaki], 1) börn hins látna eða aðrir niðjar, foreldrar eða systkin. Einnig er kirkjugarðsstjórn rétt að senda slíka umsókn ef nánir ættingjar hins látna eru ekki lífs eða ef samþykki þeirra liggur ekki fyrir.
Leyfi veitist með eftirfarandi skilyrðum:
    1. [Yfirlæknir heilsugæslu í umdæminu] 2) eða fulltrúi hans sé viðstaddur upptöku líksins.
    2. Ef um flutning úr kirkjugarði er að ræða sé líkið í sterkri kistu er [yfirlæknir heilsugæslu í umdæminu] 2) telur fullnægjandi og hlýtt fyrirmælum hans um framkvæmd alla. Við tilfærslu líka innan kirkjugarðs sker [yfirlæknir heilsugæslu í umdæminu] 2) úr um það hvort þörf sé á sérstakri kistu.
    1)L. 153/2020, 13. gr. 2)L. 93/2002, 31. gr.
48. gr.
Upptaka líks samkvæmt dómsúrlausn fer fram eftir því sem þar greinir.
49. gr.
Sóknarprestur skal að jafnaði vera viðstaddur upptöku líks. Sér hann og um að flutningsins sé getið í legstaðaskrá kirkjugarðsins. Enn fremur skal prestur vera við þegar lík er þannig jarðsett.

XV. kafli. Stjórnvaldsreglur, viðurlög, gildistaka og brottfallin lög.
50. gr.
[Ráðuneytið] 1) setur reglugerðir 2) um málefni þau sem lög þessi taka til, þar á meðal um kirkjugarða, þar sem kveðið skal nánar á um rekstur þeirra og stjórn og tilhögun á greftri líka. Þá skal einnig kveðið nánar á um líkbrennslu í reglugerð.
Reglugerðir um kirkjugarða skulu settar í samráði við [kirkjugarðaráð]. 3) Um reglugerðir varðandi líkbrennslu skal einnig leita tillagna Bálfararfélags Íslands ef því er að skipta.
[Ráðherra setur reglugerð um umgengni í kirkjugörðum sem skal vera fyrirmynd að umgengnisreglum kirkjugarðanna. Kemur þessi reglugerð í stað reglugerða fyrir kirkjugarða þar sem reglugerðir eru ekki sérstaklega settar, sbr. 51. gr.] 4)
    1)L. 162/2010, 128. gr. 2)Rg. 155/2005, sbr. 928/2020. Rg. 1127/2006, sbr. 1152/2014. Rg. 668/2007, sbr. 621/2020. Rg. 203/2003, sbr. 104/2014 og 1152/2014. Rg. 105/2014, sbr. 1152/2014. 3)L. 32/2002, 5. gr. 4)L. 32/2002, 14. gr.
51. gr.
Kirkjugarðsstjórnum er rétt að gera tillögur um reglur varðandi einstaka kirkjugarða og leita staðfestingar [ráðuneytisins] 1) á þeim. 2) Ráðuneytið leitar umsagnar [kirkjugarðaráðs] 3) um tillögurnar.
    1)L. 162/2010, 128. gr. 2) Rgl. 241/1995 (Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma). Rgl. 810/2000 (um umgengni í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma). Rgl. 787/2004 (um stærð og frágang minnismerkja í umdæmi kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma). 3)L. 32/2002, 5. gr.
52. gr.
Brot gegn lögum þessum [og reglum settum samkvæmt þeim] 1) varða sektum, enda liggi eigi þyngri refsing við samkvæmt öðrum lögum.
    1)L. 32/2002, 15. gr.
53. gr.
Lög þessi taka gildi þegar í stað.

54. gr.

Stjórnvaldsreglur, sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 21/1963 og nr. 41/1915, sem ekki fara í bága við lög þessi, halda gildi sínu uns nýjar reglur eru settar. 1)
    1)Rg. 83/1934 og 203/1971.

[Ákvæði til bráðabirgða.
I. ] 1)
    1)L. 122/1993, 55. gr.
[II.
Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma eru undanþegnir greiðslu framlags til Kirkjugarðasjóðs árin 1998 og 1999.] 1)
    1)L. 124/1997, 4. gr.
[III.
Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 124/1997, skal gjald sem rennur til kirkjugarða landsins vera 232 kr. á mánuði árið 2002 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.] 1)
    1)L. 148/2001, 8. gr.