Kjörskrá
Vinnuhópnum er ætlað að kanna kosti og galla núverandi kjörskrárgerðar og athuga hvort taka eigi upp heimild í kosningalög fyrir notkun rafrænnar kjörskrár. Enn fremur er ætlunin að endurskoða hvernig standa skuli að leiðréttingum á kjörskrá fram á kjördag. Á kjörskrá við almennar kosningar eru þeir teknir sem hverju sinni uppfylla skilyrði laga um kosningarrétt til Alþingis, sveitarstjórna, við kjör forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur. Kjörskrá hefur hingað til verið prentuð út á pappír en gæti eins verið á rafrænu formi.
Gerð kjörskrár.
Þjóðskrá Íslands og forverar hennar hafa áratugum saman gert stofn að kjörskrám sem sveitarstjórnir hafa síðan samþykkt og lagt fram sem kjörskrár almenningi til sýnis eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag. Fram að kjördegi er heimilt að leiðrétta kjörskrá, t.d. vegna andláts, ríkisfangsbreytingar eða villu við skráningu. Ekki er heimilt að leiðrétta kjörskrá hafi tilkynning um flutning lögheimilis borist eftir viðmiðunardag kjörskrár. Eftir að kosningalögum við kjörskrárgerð var breytt fyrir rúmum 20 árum hefur Þjóðskrá Íslands í reynd nær ein búið yfir upplýsingum og gögnum sem hægt er að byggja á við leiðréttingar á kjörskrá samkvæmt lagaákvæðum. Rök mæla með því að skrefið verði stigið til fulls og Þjóðskrá Íslands fái lagaheimild til að fullgera kjörskrár í samráði við sveitarfélög og að engar leiðréttingar verði gerðar á skránum án heimildar Þjóðskrár Íslands.
Rafræn kjörskrá.
Með rafrænni kjörskrá gefast ýmsir möguleikar til þess að skipuleggja betur framkvæmd kosninga og uppgjör þeirra. Ef notuð yrði rafræn kjörskrá í tilteknu kjördæmi í kosningum til Alþingis gætu kjósendur til að mynda greitt atkvæði í hvaða kjördeild sem er innan kjördæmisins. Enn fremur gæfist kostur á að útbúa einstakar kjördeildir þannig að þær uppfylltu betur kröfur um aðbúnað fatlaðs fólks. Sömu sjónarmið ættu einnig við í öðrum almennum kosningum. Uppgjör atkvæðagreiðslu utan kjörfundar yrði jafnframt markvissara, en þá má til að mynda greina betur hvort og þá hvenær kjósandi greiddi síðast atkvæði.
Á móti verður að tryggja að uppfylltar séu kröfur um öryggi og alla meðferð kjörskrár.