Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2011.  Útgáfa 139a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um úrvinnslugjald

2002 nr. 162 20. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2003. EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 94/62/EB, XX. viðauki tilskipun 1999/31/EB og 2000/53/EB. Breytt með l. 8/2003 (tóku gildi 12. mars 2003), l. 144/2003 (tóku gildi 1. jan. 2004), l. 128/2004 (tóku gildi 1. jan. 2005), l. 37/2005 (tóku gildi 25. maí 2005, ákvæði 1. gr. kom þó til framkvæmda 1. jan. 2005), l. 114/2005 (tóku gildi 1. jan. 2006), l. 106/2006 (tóku gildi 30. júní 2006 nema 3. og 4. mgr. f-liðar 3. gr. sem tóku gildi 1. ágúst 2006), l. 15/2007 (tóku gildi 1. mars 2007), l. 46/2007 (tóku gildi 31. mars 2007), l. 153/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 73/2008 (tóku gildi 14. júní 2008; EES-samningurinn: XX. viðauki tilskipun 2002/96/EB), l. 135/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010), l. 136/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010), l. 69/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010), 157/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 158/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).


I. kafli. Markmið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.
2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
    1. Endurnotkun: endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd.
    2. Endurnýting: hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla og orkuvinnsla.
    3. Endurnýtingarstöð: staður og aðstaða þar sem endurnýting úrgangs fer fram.
    4. Förgun úrgangs: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, svo sem urðun og sorpbrennsla.
    5. Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir.
    6. Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.
    [7. Umbúðir: allar vörur, af hvaða tegund sem er og úr hvaða efni sem er, sem eru notaðar við pökkun, verndun, meðhöndlun og afhendingu framleiðsluvöru, hvort sem þar er um að ræða hráefni eða fullunna vöru, til notanda eða neytanda. Nánar tiltekið eru umbúðir:
    a. söluumbúðir eða grunnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær sölueiningu fyrir notanda eða neytanda,
    b. safnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær safn tiltekins fjölda sölueininga, hvort sem þær eru seldar sem slíkar til notanda eða neytanda eða aðeins notaðar til að fylla í hillur á sölustað; hægt er að taka þær utan af vörunni án þess að það hafi áhrif á eiginleika hennar,
    c. flutningsumbúðir, þ.e. umbúðir þannig gerðar að þær auðvelda meðhöndlun og flutning nokkurra sölueininga eða safnumbúða til að koma í veg fyrir tjón við meðhöndlun og flutning; gámar til vöruflutninga á landleiðum, með skipum og flugvélum eru ekki taldir til flutningsumbúða.] 1)
    [8. ] 1) Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og falla undir lög þessi.
    [9. ] 1) Úrvinnsla úrgangs: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs.
    1)L. 128/2004, 1. gr.

II. kafli. Úrvinnslugjald og ráðstöfun þess.
3. gr. Almennt um gjaldtöku.
Til að stuðla að úrvinnslu úrgangs skal leggja úrvinnslugjald á vörur, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Leggja skal úrvinnslugjald á vörur hvort sem þær eru fluttar inn til landsins eða framleiddar hér á landi.
Úrvinnslugjald skal standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af vörunum. Þá skal gjaldið standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Jafnframt skal gjaldið standa undir kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af, enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar. Úrvinnslugjald skal standa undir kostnaði vegna greiðslu skilagjalda og vegna starfsemi Úrvinnslusjóðs.
[Úrvinnslugjald sem lagt er á pappa-, pappírs- og plastumbúðir skal standa undir greiðslum við að ná tölulegum markmiðum, sbr. 3. mgr. 15. gr., um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna framangreindra umbúða.] 1)
    1)L. 106/2006, 1. gr.
4. gr. Fjárhæð úrvinnslugjalds.
Fjárhæð úrvinnslugjalds skal taka mið af áætlun um kostnað við úrvinnslu úrgangs, sbr. 2. mgr. 3. gr. Vöruflokkum skal skipt í uppgjörsflokka með reglugerð sem ráðherra setur að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs og skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks. Hver uppgjörsflokkur er fjárhagslega sjálfstæður.
[Fjárhæð úrvinnslugjalds vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða skal taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, sbr. 3. mgr. 3. gr., svo og greiðslur vegna flutninga umbúðaúrgangs innan lands.] 1)
Umhverfisráðherra leggur að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs fram tillögu til fjármálaráðherra um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds, álagningu skilagjalds og nýjar gjaldskyldar vörur eftir því sem við á. Fjármálaráðherra flytur frumvarp á Alþingi um fjárhæðir úrvinnslugjalds og skilagjalds.
    1)L. 106/2006, 2. gr.
5. gr. Úrvinnslugjald á ökutæki.
Skráður eigandi gjaldskylds ökutækis skal á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald að fjárhæð [350 kr.] 1) fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjalddagar úrvinnslugjalds á ökutæki eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí – 31. desember. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald.
Bifreiðar sem eru undanþegnar bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laga um bifreiðagjald eru gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum. [Gjaldtímabil vegna bifreiða samkvæmt málsgrein þessari er 1. janúar – 31. desember og skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á gjaldtímabilinu greiða úrvinnslugjald að fjárhæð [700 kr.] 1) fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt. Gjalddagi úrvinnslugjalds á bifreiðar samkvæmt málsgrein þessari er 1. júlí ár hvert. Um innheimtu gjaldsins að öðru leyti gildir 1. mgr.] 2)
[Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið úrvinnslugjald af ökutækinu í full 15 ár og fyrir bifreiðar sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs.] 1)
    1)L. 128/2004, 2. gr. 2)L. 144/2003, 1. gr.
6. gr. Skilagjald á ökutæki.
Greiða skal skilagjald, [15.000 kr.], 1) hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð ákvæði um fyrirkomulag greiðslu til móttökustöðvar.
    1)L. 128/2004, 3. gr.
7. gr. Skilagjald á drykkjarvöruumbúðir.
Endurgreiða skal neytendum skilagjaldshluta úrvinnslugjalds, 9 kr. með virðisaukaskatti á hverja umbúðaeiningu, sbr. viðauka III, við móttöku á notuðum úrvinnslugjaldsskyldum drykkjarvöruumbúðum.
[7. gr. a. Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs- og plastumbúðir.
[Úrvinnslugjald skal leggja á umbúðir gerðar úr pappa og pappír, [15 kr./kg], 1) og umbúðir gerðar úr plasti, [12 kr./kg]. 1)] 2) Úrvinnslugjald skal leggja á hvort sem umbúðir eru einar sér eða utan um vörur sem fluttar eru til landsins. Úrvinnslugjald skal lagt á samkvæmt upplýsingum gjaldskylds aðila um þyngd, tegund og samsetningu umbúða, sbr. þó [4. mgr.] 3) Þetta á einnig við um samsettar umbúðir.
[Úrvinnslusjóður ákveður, í samræmi við áætlun sína um að ná tölulegum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu, fyrir hvaða tegundir umbúðaúrgangs sem úrvinnslugjald er lagt á, sbr. 3. mgr. 3. gr., hann greiðir.
Margnota flutnings- og safnumbúðir sem fluttar eru úr landi til endurnotkunar hjá birgjum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Undanþágan er bundin því skilyrði að innflytjandi lýsi því yfir í aðflutningsskýrslu, með þeim hætti sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður, að umbúðirnar verði sannanlega fluttar úr landi til endurnotkunar hjá birgjum og komi ekki til úrvinnslu hér á landi.] 3)
Gjaldskyldur aðili skal við tollafgreiðslu gefa upp þyngd umbúða í vörusendingu til tollafgreiðslu samkvæmt staðfestum upplýsingum þar um. [Ef staðfestar upplýsingar um þyngd umbúða vöru fást ekki er gjaldskyldum aðila heimilt að greiða úrvinnslugjald í samræmi við reiknireglur í viðauka XVIII.] 4)3)
Um álagningu úrvinnslugjalds á heyrúlluplast og um skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðum með skilagjaldi úr áli, stáli, gleri og plastefnum fer skv. 8. gr.
[[Pappa-, pappírs- og plastumbúðir í eftirtöldum tollskrárnúmerum eru undanþegnar úrvinnslugjaldi að því skilyrði uppfylltu að innflytjandi gefi yfirlýsingu í aðflutningsskýrslu, sbr. 3. mgr., um að viðkomandi vara verði sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi:] 3)
[3919.1000 3923.3000 4819.2011 4819.5001
3920.1009]3) 3923.4000 4819.2019 4819.5002
3923.1001 3923.5000 4819.2091 4819.5009
3923.1009 3923.9001 4819.2099 4819.6000
3923.2101 3923.9002 4819.3001 4822.1000
3923.2109 3923.9009 4819.3009 4822.9000
3923.2901 4819.1001 4819.4001 4823.9004
3923.2909 4819.1009 4819.4009 4823.9006
[Innlendir framleiðendur greiða ekki úrvinnslugjald vegna gjaldskyldra umbúða sem notaðar eru utan um vörur sem sannanlega eru fluttar úr landi, sbr. 6. mgr.
Framleiðendur og innflytjendur skulu við útgáfu sölureiknings tilgreina með skýrum hætti ef umbúðir eru undanþegnar úrvinnslugjaldi. Kaupandi skal staðfesta með móttökukvittun á viðkomandi reikningi að keyptar umbúðir fari til útflutnings. Endanleg yfirlýsing kaupanda er staðfest við greiðslu reiknings. Kaupandi er ábyrgur, gagnvart innheimtumönnum ríkissjóðs, fyrir því að umbúðir keyptar án úrvinnslugjalds fari til útflutnings.
[Ríkisskattstjóra] 5) er heimilt að gefa út úrvinnslugjaldsskírteini til framleiðanda, innflytjanda og seljanda umbúða úr pappír, pappa eða plasti, sbr. 6. mgr. Forsenda heimildar er að umbúðirnar séu utan um vörur til útflutnings eða til nota utan um vörur er fara á innanlandsmarkað og að umsækjandi hafi atvinnu af innflutningi, framleiðslu eða sölu úrvinnslugjaldsskyldra umbúða. Skírteinið veitir handhafa þess heimild til að flytja inn eða kaupa innan lands umbúðir án úrvinnslugjalds. Sækja þarf um úrvinnslugjaldsskírteini á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
Ef handhafi úrvinnslugjaldsskírteinis tekur til eigin nota vörur sem úrvinnslugjald hefur verið fellt niður af á grundvelli skírteinisins skal hann á næsta gjalddaga almenns uppgjörstímabils standa skil á úrvinnslugjaldi vegna þeirra nota.] 3
Umhverfisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd niðurfellingar úrvinnslugjalds.] 4)] 6)
    1)L. 158/2010, 1. gr. 2)L. 15/2007, 1. gr. 3)L. 106/2006, 3. gr. 4)L. 114/2005, 1. gr. 5)L. 136/2009, 95. gr. 6)L. 128/2004, 4. gr.
8. gr. [Úrvinnslugjald á aðrar vörur.
Úrvinnslugjald skal leggja á eftirtalda vöruflokka, eins og nánar er kveðið á um í viðaukum með lögum þessum:
    1. Aðrar umbúðir: heyrúlluplast, sbr. viðauka I, einnota drykkjarvöruumbúðir með skilagjaldi úr áli, stáli, gleri og plastefnum, sbr. viðauka III.
    2. Olíuvörur: sbr. viðauka IV.
    3. Lífræn leysiefni og klórbundin efnasambönd: lífræn leysiefni, sbr. viðauka V, halógeneruð efnasambönd, sbr. viðauka VI, ísócýanöt og pólyúretön, sbr. viðauka VII.
    4. Málning og litarefni: málning, sbr. viðauka VIII, prentlitir, sbr. viðauka IX.
    5. Rafhlöður og rafgeymar: rafhlöður og rafgeymar aðrir en blýsýrurafgeymar, sbr. viðauka X, blýsýrurafgeymar, sbr. viðauka XI.
    6. Vörur í ljósmyndaiðnaði: sbr. viðauka XII.
    7. Kvikasilfursvörur: sbr. viðauka XIII.
    8. Varnarefni: sbr. viðauka XIV.
    9. Kælimiðlar: sbr. viðauka XV.
    10. Hjólbarðar: sbr. viðauka XVI.
    11. Veiðarfæri úr gerviefnum: sbr. viðauka XVII.
Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum skal fylgt flokkunarreglum tollalaga.
Fyrirtækjum og atvinnugreinum er heimilt að semja [við Úrvinnslusjóð] 1) um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu úrgangs vegna svartolíu og veiðarfæra úr gerviefnum, enda þjóni það markmiðum laganna. Svartolía og veiðarfæri úr gerviefnum eru þá undanþegin gjaldtöku samkvæmt lögum þessum, enda hafi stjórn Úrvinnslusjóðs staðfest samninginn, sbr. 3. mgr. 17. gr., og tilkynnt það tollstjóra. [Jafnframt skal umhverfisráðherra staðfesta samninginn.] 1) Hvorum samningsaðila er heimilt að segja upp samningi samkvæmt þessari grein. Úrvinnslusjóði er þó einungis heimilt að segja upp samningi vegna brota á honum og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Úrvinnslusjóður skal tilkynna tollstjóra sé samningi sagt upp.
Í samningi skv. 3. mgr. skal koma fram verklýsing þar sem m.a. eru upplýsingar um söfnun, flutninga, meðhöndlun úrgangs, ráðstöfun hans, umsjón og stjórnun, upplýsingasöfnun og skýrslugjöf. Þá skulu, áður en gengið er frá samningi, liggja fyrir upplýsingar um magn úrgangs, hvernig kerfið mun vera fjármagnað, aðgang handhafa úrgangs að kerfinu og greiðslu umsýslugjalds til Úrvinnslusjóðs.] 2)
    1)L. 106/2006, 4. gr. 2)L. 128/2004, 5. gr.

III. kafli. Gjaldskyldir aðilar, álagning gjalds, uppgjörstímabil, gjalddagar, skýrslur, álag, dráttarvextir, kæruheimild og kærufrestur.
9. gr. Gjaldskyldir aðilar.
Skylda til að greiða úrvinnslugjald samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 5. gr., hvílir á eftirtöldum aðilum:
    1. Öllum sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur samkvæmt lögum þessum til endursölu.
    2. Öllum sem flytja til landsins gjaldskyldar vörur samkvæmt lögum þessum til eigin nota.
    3. Öllum sem framleiða gjaldskyldar vörur samkvæmt lögum þessum innan lands.
Gjaldskyldan tekur til allra framleiðenda og innflytjenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra aðila sem flytja inn eða framleiða umræddar vörur.
[Aðilar sem eru gjaldskyldir skv. 3. tölul. 1. mgr. skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en úrvinnslugjaldsskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá [ríkisskattstjóra]. 1)] 2) Skráning hjá [ríkisskattstjóra] 1) er forsenda fyrir greiðslufresti, sbr. 1. og 3. mgr. 11. gr. Breytingar sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram skal tilkynna [ríkisskattstjóra] 1) eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting varð.
Að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, eiga við um álagningu, innheimtu, [gjaldskyldu, tilhögun bókhalds], 2) tilkynningarskyldu, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku samkvæmt lögum þessum.
    1)L. 136/2009, 96. gr. 2)L. 106/2006, 5. gr.
10. gr. Álagning gjalds.
Tollstjórar skulu annast álagningu og innheimtu gjalds af gjaldskyldum innfluttum vörum og skal það innheimt með aðflutningsgjöldum. [Ríkisskattstjóri] 1) annast álagningu gjalds vegna innlendrar framleiðslu sem tollstjórar innheimta. … 1) Ríkisskattstjóri annast álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum.
    1)L. 136/2009, 97. gr.
[10. gr. a. Endurgreiðsla úrvinnslugjalds vegna útflutnings.
Sé gjaldskyld vara sannanlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal endurgreiða gjaldskyldum aðila, eða þeim sem keypt hefur vöruna af gjaldskyldum aðila, úrvinnslugjald sem greitt hefur verið af viðkomandi vöru. Aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. málsl. skal tilgreina í sérstakri skýrslu til [ríkisskattstjóra] 1) um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt. Fjárhæð sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal vera að lágmarki 10.000 kr. Umhverfisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslu.] 2)
    1)L. 136/2009, 98. gr. 2)L. 114/2005, 2. gr.
11. gr. Uppgjörstímabil, gjalddagar og greiðslufrestur.
Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu á gjaldskyldum vörum, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr., er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.
Innlendir framleiðendur skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu. Innlendum framleiðendum sem keypt hafa aðföng til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af þeim úrvinnslugjald er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.
Hvert uppgjörstímabil vegna innfluttrar vöru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr., er tveir mánuðir eins og tilgreint er í 1. mgr. Gjalddagi hvers tímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.
Innflytjendur sem flytja vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs úrvinnslugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu.
Innflytjendur sem flytja gjaldskylda vöru til landsins til eigin nota, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr., skulu greiða úrvinnslugjald við tollafgreiðslu.
Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.
Um greiðslufrest úrvinnslugjalds vegna innfluttrar vöru fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, með síðari breytingum.
12. gr. Skýrslur, álag og dráttarvextir.
Gjaldskyldir aðilar skv. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður vegna vara sem greiða ber gjald af á uppgjörstímabilinu. [Ríkisskattstjóri] 1) skal áætla gjald af viðskiptum þeirra aðila sem skila ekki skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. [Ríkisskattstjóri] 1) skal tilkynna innheimtumanni og gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Sé gjald ekki greitt á tilskildum tíma skal gjaldskyldur aðili, sbr. 1. mgr. 9. gr., sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef skýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og gjald því áætlað nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga gjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Álag skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
Sé gjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal gjaldandi greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    1)L. 136/2009, 98. gr.
13. gr. Kæruheimild og kærufrestur.
[Heimilt er að kæra álagningu gjalds innan 60 daga frá gjalddaga gjaldsins vegna innlendrar framleiðslu en tollafgreiðsludegi ef um innflutning er að ræða.] 1) [Kæru skal beint til tollstjóra eða til ríkisskattstjóra.] 2) Kæru skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi skýrsla [vegna innlendrar framleiðslu] 1) skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 12. gr. Tollstjóri … 2) eða ríkisskattstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hana í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum [gagnaöflunar]. 1)
Gjaldskyldur aðili og tollstjórinn í Reykjavík geta skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum [ 118. gr. tollalaga, nr. 88/2005]. 1)
Gjaldskyldur aðili [getur skotið úrskurði ríkisskattstjóra] 2) skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufresti og málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    1)L. 106/2006, 6. gr. 2)L. 136/2009, 99. gr.

IV. kafli. Úrvinnslusjóður.
14. gr. Framkvæmd.
Úrvinnslusjóður er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir umhverfisráðherra. Úrvinnslusjóður fer með framkvæmd laga þessara og er ráðherra til ráðgjafar um mál þau sem undir lögin falla.
15. gr. Hlutverk Úrvinnslusjóðs.
Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess.
Úrvinnslusjóður skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi. Úrvinnslusjóður skal leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs. Úrvinnslusjóður semur við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga eftir því sem við á.
[Úrvinnslusjóði ber að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu.] 1)
[Úrvinnslusjóði er heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. 2)] 3)
[Úrvinnslusjóði er heimilt að gera samninga um að taka að sér verkefni sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Slíkir samningar skulu samþykktir af ráðherra.] 4)
Úrvinnslusjóður skal ár hvert gera skýrslu um innheimtu og ráðstöfun úrvinnslugjalds eftir uppgjörsflokkum, svo og um magn og skilahlutfall gjaldskyldrar vöru og úrvinnslu hennar. Auk þess geri Úrvinnslusjóður ár hvert fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar á eftir með hliðsjón af áætlun um magn gjaldskyldrar vöru á markaði, flokkaðs úrgangs sem safnast og kostnaði við úrvinnslu hans á grundvelli útreikninga, útboða og verksamninga.
Úrvinnslusjóður skal hafa samráð við hlutaðeigandi aðila um atriði er þá varða.
    1)L. 106/2006, 7. gr. 2)Rg. 1124/2005. 3)L. 114/2005, 3. gr. 4)L. 73/2008, 7. gr.
16. gr. Stjórn Úrvinnslusjóðs.
Umhverfisráðherra skipar fimm manna stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Umhverfisráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar, en fjórir meðstjórnendur skulu skipaðir að fenginni tilnefningu frá eftirtöldum aðilum: einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins, einn frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varaformaður sem skipaður er af ráðherra, eftir tilnefningu stjórnar, skal koma úr hópi stjórnarmanna.
Þóknun til stjórnarmanna greiðist úr Úrvinnslusjóði og skal ákveðin af umhverfisráðherra.
17. gr. Hlutverk stjórnar Úrvinnslusjóðs.
Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim og er umhverfisráðherra til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara.
Stjórnin hefur það hlutverk að móta stefnu um starfsemi sjóðsins, svo sem um helstu áherslur, verkefni og starfshætti hans, og leggur fyrir ráðherra til staðfestingar.
Stjórnin staðfestir skýrslur og áætlanir skv. 15. gr. og hefur eftirlit með því að þær séu gerðar og leggur þær fyrir ráðherra fyrir 1. júní ár hvert. Þá staðfestir stjórnin einnig samninga skv. 3. mgr. 8. gr., að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.
Stjórnin skal eftir því sem við á leggja fram tillögu til umhverfisráðherra um breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds, nýjar gjaldskyldar vörur og fjárhæð úrvinnslugjalds á þær. Telji stjórnin þörf á að leggja skilagjald á vöru til að ná fram auknum skilum hennar skal hún jafnframt leggja fram tillögu um það til ráðherra og fjárhæð þess. Við gerð tillögu að nýjum gjaldskyldum vörum og undanþágu frá gjaldskyldu skal stjórnin taka mið af skuldbindingum og stefnumörkun stjórnvalda í úrgangsmálum.
18. gr. Umsjón með daglegum rekstri Úrvinnslusjóðs.
Stjórn Úrvinnslusjóðs ræður framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og ber ábyrgð á fjárreiðum hans og reikningshaldi gagnvart stjórn. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Úrvinnslusjóðs.
19. gr. Rekstur Úrvinnslusjóðs.
Tekjur af úrvinnslugjaldi samkvæmt lögum þessum, [þ.m.t. vaxtatekjur], 1) skulu renna óskiptar til Úrvinnslusjóðs að undanþegnu umsýslugjaldi til ríkissjóðs sem nemur 0,5% af þeim tekjum.
Skorti Úrvinnslusjóð reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins þegar tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til ráðstöfunar til að standa við skuldbindingar sínar.
    1)L. 37/2005, 1. gr.

V. kafli. Ýmis ákvæði.
20. gr. Viðurlög.
Um viðurlög skulu gilda, eftir því sem við getur átt, ákvæði [ tollalaga, nr. 88/2005], 1) um innfluttar vörur og laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, um innlendar framleiðsluvörur.
    1)L. 106/2006, 8. gr.
21. gr. Reglugerðarheimildir.
Umhverfisráðherra setur reglugerð 1) um framkvæmd laga þessara.
Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs setja reglugerð um nauðsynlegan frágang úrgangs í hverjum uppgjörsflokki við móttöku í móttökustöð.
[Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglugerð um nánari útfærslu á greiðslu kostnaðar við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, sbr. 2. mgr. 3. gr.
Ráðherra skal að fengnum tillögum Úrvinnslusjóðs setja reglugerð um hvernig standa skuli að greiðslum til að ná þeim tölulegu markmiðum sem sett eru um endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem fellur til vegna pappa-, pappírs- og plastumbúða, sbr. 3. mgr. 3. gr.] 2)
    1)Rg. 368/2000, sbr. 448/2002, 437/2003, 49/2006, 524/2006 og 908/2008. Rg. 1124/2005, sbr. 316/2007. 2)L. 106/2006, 9. gr.
22. gr. Gildistaka.
Lög þessi skulu öðlast gildi 1. janúar 2003. …
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal móttaka á flokkuðum úrgangi, sem til er kominn vegna vara sem bera úrvinnslugjald, hefjast 1. apríl 2003 vegna vöru sem fellur undir viðauka II, X og XVI, 1. júlí 2003 vegna ökutækja, sbr. 5. gr., og eigi síðar en 1. júlí 2004 vegna vöru sem fellur undir viðauka I. Greiðsla skilagjalds á ökutæki, sbr. 6. gr., skal hefjast 1. júlí 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
I. [Ákvæði 7. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 8. gr., sbr. viðauka III vegna einnota drykkjarvöruumbúða með skilagjaldi úr áli, stáli, gleri og plastefnum, skulu koma til framkvæmda [1. janúar 2012]. 1) Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
Úrvinnslusjóði er þó heimilt að undirbúa samning við Endurvinnsluna hf. um að ákvæði 1. mgr. komi til framkvæmda fyrir 1. janúar 2008.
Ákvæði 11. tölul. 1. mgr. 8. gr., sbr. viðauka XVII um veiðarfæri úr gerviefnum, skal koma til framkvæmda 1. september 2005.] 2)
    1)L. 157/2010, 1. gr. 2)L. 128/2004, 6. gr.
II. [Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. a skal greiðsla vegna móttöku á plastfilmu sem kemur frá fyrirtækjum og bylgjupappa koma til framkvæmda 1. apríl 2005 og vegna annarra umbúða frá og með 1. mars 2006. Álagning úrvinnslugjalds á þessa vöruflokka skal hefjast [1. janúar 2006]. 1)
Frá gildistöku laga þessara til 1. júní 2005 skal starfa nefnd umhverfisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóðs og Umhverfisstofnunar. Umhverfisráðherra skal skipa nefndina með tilnefningu frá framangreindum aðilum. Nefndin skal undirbúa framkvæmd móttöku á pappa- og plastumbúðum sem berast með söfnunarkerfi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Tilnefningaraðilar skulu bera kostnað vegna fulltrúa sinna í nefndinni.] 2)
    1)L. 37/2005, 2. gr. 2)L. 128/2004, 6. gr.
[III. Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. a skal til [1. janúar 2006] 1) leggja úrvinnslugjald á samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvöru sem flokkast undir eftirfarandi tollskrárnúmer sem hér segir:
   … 2)] 3)
    1)L. 37/2005, 2. gr. 2)Um gjaldskrána vísast til Stjtíð. A 2004, bls. 770–772. 3)L. 128/2004, 6. gr.
[IV.1)] 2)
    1)L. 128/2004, 6. gr. 2)L. 8/2003, 1. gr.

Viðaukar I–XVIII.1)
    1)Um texta viðauka þessara vísast til Stjtíð. A 2002, bls. 514–535 (l. 162/2002), sbr. Stjtíð. A 2003, bls. 15 (l. 8/2003) og bls. 584–587 (l. 144/2003), Stjtíð. A 2004, bls. 772–788 (l. 128/2004), Stjtíð. A 2005, bls. 1030–1043 (l. 114/2005), Stjtíð. A 2007 (l. 15/2007, l. 46/2007 og l. 153/2007) og Stjtíð. A 2010 (l. 69/2010 og l. 158/2010).