Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2007. Útgáfa 134. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um almannatryggingar
2007 nr. 100 11. maí
Upphaflega l. 117/1993. Tóku gildi 1. janúar 1994. Breytt með l. 148/1994 (tóku gildi 1. jan. 1995), l. 129/1995 (tóku gildi 19. des. 1995), l. 144/1995 (tóku gildi 1. jan. 1996; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 59. gr.), l. 95/1996 (tóku gildi 25. júní 1996), l. 100/1996 (tóku gildi 25. júní 1996), l. 153/1996 (tóku gildi 1. jan. 1997), l. 51/1997 (tóku gildi 29. maí 1997), l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997), l. 123/1997 (tóku gildi 1. jan. 1998), l. 130/1997 (tóku gildi 1. jan. 1998 nema 12. gr. sem tók gildi 30. des. 1997), l. 147/1997 (tóku gildi 30. des. 1997), l. 148/1997 (tóku gildi 30. des. 1997), l. 41/1998 (tóku gildi 27. maí 1998), l. 59/1998 (tóku gildi 1. júlí 1999 nema b-liður 3. gr. sem tók gildi 18. júní 1998), l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998), l. 149/1998 (tóku gildi 1. jan. 1999), l. 60/1999 (tóku gildi 1. júlí 1999), l. 62/1999 (tóku gildi 1. sept. 1999), l. 61/2000 (tóku gildi 26. maí 2000), l. 95/2000 (tóku gildi 1. janúar 2001; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 36. gr.), l. 108/2000 (tóku gildi 6. júní 2000; áskilnaður skv. 22. gr. kom þó til framkvæmda skv. 33. gr.; EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 65/65/EBE, 75/319/EBE og 89/105/EBE, I og II. viðauki tilskipun 92/25/EBE, II. viðauki tilskipun 92/28/EBE og I. viðauki tilskipun 93/41/EBE), l. 111/2000 (tóku gildi 1. jan. 2001), l. 3/2001 (tóku gildi 1. febr. 2001), l. 9/2001 (tóku gildi 1. apríl 2001), l. 93/2001 (tóku gildi 1. júlí 2001), l. 154/2001 (tóku gildi 31. des. 2001), l. 74/2002 (tóku gildi 17. maí 2002; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 36. gr.), l. 76/2002 (tóku gildi 17. maí 2002), l. 149/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003), l. 76/2003 (tóku gildi 1. nóv. 2003), l. 89/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003), l. 130/2003 (tóku gildi 1. jan. 2004), l. 78/2004 (tóku gildi 18. júní 2004), l. 83/2004 (tóku gildi 18. júní 2004), l. 91/2004 (tóku gildi 2. júlí 2004), l. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005), l. 53/2005 (tóku gildi 30. maí 2005), l. 65/2006 (tóku gildi 27. júní 2006), l. 82/2006 (tóku gildi 30. júní 2006), l. 166/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007) og l. 40/2007 (tóku gildi 1. sept. 2007).
Endurútgefin, sbr. l. 166/2006, 19. gr., sem l. 100/2007. Tóku gildi 30. maí 2007. Breytt með l. 105/2007 (tóku gildi 1. júlí 2007).
I. kafli. Skipulag og stjórn.
1. gr. Almannatryggingar teljast samkvæmt lögum þessum:
1. Lífeyristryggingar.
2. Slysatryggingar.
3. Sjúkratryggingar.
2. gr. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn almannatrygginga, sbr. 1. gr., og Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingastofnun annast framkvæmd almannatrygginga samkvæmt lögum þessum að undanskilinni 39. gr.
3. gr. Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins eftir hverjar alþingiskosningar og skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skulu jafnmargir menn til vara. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim og situr forstjóri fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti. Ráðherra setur stjórninni starfsreglur 1) og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.
1) Rgl. 880/2004.
4. gr. Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 3. gr., skal staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka stofnuninni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og að rekstur stofnunarinnar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Þá skal stjórnin tilnefna fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins í samninganefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. 44. gr., og fulltrúa í nefnd skv. 40. gr. 1)
Formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við fjárlög.
1)Í 3. tölul. 39. gr. laga nr. 40/2007 er gerð breyting á 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993. Lög nr. 40/2007 voru gefin út 30. mars 2007 en tóku gildi 1. september 2007 skv. 38. gr. Í millitíðinni voru lög um almannatryggingar endurútgefin sem lög nr. 100 11. maí 2007. Breytingin skv. 3. tölul. 39. gr. laga nr. 40/2007 er því ekki færð inn í endurútgefnu lögin.
5. gr. Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar.
6. gr. Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.
Ráðherra setur forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins erindisbréf þar sem tilgreind skulu helstu markmið í rekstri stofnunarinnar og verkefni hennar, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Í erindisbréfi skal enn fremur kveðið á um samskipti forstjóra og stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins.
Forstjóri ber ábyrgð á að Tryggingastofnun ríkisins starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf skv. 2. mgr. Forstjóri ber og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
7. gr. Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögum þessum leggur sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.
Ráðherra skipar þrjá menn í nefndina og jafnmarga til vara til sex ára í senn. Hæstiréttur tilnefnir tvo menn. Skal annar þeirra uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og vera formaður nefndarinnar en hinn skal vera læknir og varaformaður hennar. Einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
Heimilt er að endurskipa nefndarmenn.
8. gr. Kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Á skrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins og umboðsmanna hennar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
Tryggingastofnun ríkisins skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
Nefndinni skal heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausnum mála og til almennra skrifstofustarfa eftir nánari ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni.
Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn ef hún telur þörf á. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.
Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál.
Formaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
Um málsmeðferð nefndarinnar fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
9. gr. Úrskurðarnefnd almannatrygginga er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.
Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.
Tryggingastofnun ríkisins getur höfðað dómsmál til að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.
Nefndin skal birta helstu úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti. Úrskurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna.
Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
10. gr. Aðalskrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins eru í Reykjavík.
Utan Reykjavíkur skal Tryggingastofnunin hafa umboðsskrifstofur og fer um staðarval, fyrirkomulag og rekstur eftir ákvörðun stofnunarinnar.
11. gr. Reikningar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir sl. ár skulu jafnan fullgerðir eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar annarra ríkisstofnana.
Tryggingastofnunin skal með reglubundnum hætti birta glöggar upplýsingar um alla starfsemi stofnunarinnar.
Tryggingastofnunin skal kynna almenningi rétt sinn til bóta með upplýsingastarfsemi.
II. kafli. Tryggðir samkvæmt lögunum.
12. gr. Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 29. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.
Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7.–9. gr.
13. gr. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 12. gr., enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, sé greitt hér á landi af launum hans. Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.
Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.
14. gr. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 12. gr., enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður, sbr. þó 29. gr., í allt að eitt ár frá brottför af landinu þótt hann uppfylli ekki skilyrði 12. eða 13. gr., enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi eigi skemur en fimm ár fyrir brottför og að það sé ekki tilgangur farar að leita læknismeðferðar.
Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.
15. gr. Ráðherra setur reglugerð 1) um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.
1)Rg. 463/1999.
III. kafli. Lífeyristryggingar.
A. Almenn ákvæði.
16. gr. Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris.
Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:
a. Tekjur skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.
b. Tekjur elli- og örorkulífeyrisþega af atvinnu skulu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr., [sbr. þó 4. mgr.] 1) Lífeyrisþegi getur valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Ef um hjón er að ræða skulu atvinnutekjur lífeyrisþegans, sbr. 1. málsl., hafa 75% vægi og atvinnutekjur maka hafa 25% vægi.
c. Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr. skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka lífeyrisþega úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
d. Við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr. skulu aðrar tekjur lífeyrisþegans en tilgreindar eru í a–c-liðum þessarar málsgreinar hafa 75% vægi við ákvörðun tekjugrundvallar og aðrar tekjur maka hafa 25% vægi.
Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 17. og 18. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. [Þá teljast ekki til tekna atvinnutekjur 70 ára og eldri þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr. eða vasapeninga skv. 48. gr.] 1)
Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. [Þá teljast ekki til tekna atvinnutekjur 70 ára og eldri, hvorki að því er varðar tekjutryggingu þeirra sjálfra né maka þeirra.] 1)
Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 52. gr. Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 52. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.
Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 52. gr.
Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.
Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr.
Tryggingastofnun ríkisins skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Um upplýsingaskyldu varðandi tekjur og þagnarskyldu starfsmanna Tryggingastofnunar fer skv. 52. gr.
Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 18. og 22. gr., er ráðherra heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum og séreignarsparnaði sem leystur hefur verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki er heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.
Heimilt er að setja reglugerð 2) um nánari framkvæmd þessarar greinar.
1)L. 105/2007, 1. gr. Vegna atvinnutekna á árinu 2007 skal Tryggingastofnun ríkisins dreifa tekjunum í samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þó getur ellilífeyrisþegi og vistmaður 70 ára eða eldri óskað eftir því við Tryggingastofnun að tekjum hans og/eða maka verði skipt niður í tímabil fyrir og eftir 1. júlí 2007 eða 70 ára aldur, eftir því hvort er síðar á árinu, sbr. brbákv. við l. 105/2007. 2)Rg. 643/1996, rg. 463/1999, rg. 939/2003, sbr. 860/2004, 916/2005, 1063/2005, 917/2006 og 696/2007.
B. Bætur.
17. gr. Ellilífeyrir.
Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.
Ellilífeyri skal skerða ef tekjur skv. 2. og 3. mgr. 16. gr. einstaklinga eða hjóna hvors um sig eru hærri en 2.056.404 kr. á ári og um framkvæmd fer skv. 16. gr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða ellilífeyri um 30% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður. Skerðing samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992.
Hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.
Nú hefur sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.
18. gr. Örorkulífeyrir.
Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:
a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
Tryggingastofnun ríkisins metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Ráðherra setur reglugerð 1) um örorkustaðalinn að fengnum tillögum Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Tryggingastofnun er heimilt að semja um kostnað sjúkratrygginga vegna mats á möguleikum til endurhæfingar.
Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
Örorkulífeyri skal skerða ef tekjur skv. 2. og 3. mgr. 16. gr. örorkulífeyrisþega eða hjóna, hvors um sig, sem bæði eru örorkulífeyrisþegar, eru hærri en 2.095.501 kr. á ári og um framkvæmd fer skv. 16. gr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða örorkulífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður.
1)Rg. 379/1999.
19. gr. Örorkustyrkur.
Tryggingastofnun ríkisins skal veita einstaklingi á aldrinum 18–62 ára örorkustyrk að upphæð 18.184 kr. á mánuði ef örorka hans er metin a.m.k. 50% og hann uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 18. gr. Slíkan styrk skal enn fremur veita þeim sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessarar málsgreinar og stundar fullt starf ef örorkan hefur í för með sér verulegan aukakostnað. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 16. gr.
Greiða skal einstaklingi sem náð hefur 62 ára aldri, uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 18. gr. og er metinn a.m.k. 50% öryrki örorkustyrk sem skal svara til fulls örorkulífeyris skv. 18. gr., þ.e. grunnlífeyris án bóta tengdra honum. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 16. gr.
Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin má ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.
Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa.
20. gr. Barnalífeyrir.
Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 17. gr. né 5. mgr. 18. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.
Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og kjörbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi.
Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
Tryggingastofnun ríkisins skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.
Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.
Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 219.408 kr. Ekki skal greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris.
21. gr. Aldurstengd örorkuuppbót.
Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 18. gr. eða fullan örorkulífeyri skv. 34. gr. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 18. gr. um búsetutíma og örorkumat og 5. mgr. 18. gr. Fjárhæð uppbótar, sbr. 2. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 18. gr. og 34. gr. eða uppfyllir skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Fjárhæð mánaðarlegrar aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 1. mgr., skal vera hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 18. gr. og miðast við fæðingardag, sbr. eftirfarandi:
18 og 19 ára | 100% |
20 og 21 árs | 95% |
22 og 23 ára | 90% |
24 og 25 ára | 85% |
26 og 27 ára | 80% |
28 og 29 ára | 70% |
30 og 31 árs | 60% |
32 og 33 ára | 50% |
34 og 35 ára | 40% |
36 og 37 ára | 30% |
38 og 39 ára | 20% |
40 til og með 43 ára | 10% |
44 til og með 48 ára | 5% |
49 til og með 59 ára | 2,5% |
60 til og með 66 ára | 1,5% |
22. gr. Tekjutrygging.
Tryggingastofnun ríkisins skal greiða þeim tekjutryggingu sem fá greiddan elli-, örorku- eða slysalífeyri samkvæmt lögum þessum. Tekjutrygging greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Rétt til tekjutryggingar eiga þeir sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, sbr. og 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 18. gr. Um útreikning á tekjutryggingu gildir 16. gr., 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr.
Greiða skal ellilífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 942.504 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
Greiða skal örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans að fjárhæð 956.088 kr. á ári. Hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skal skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.
Samanlögð skerðing elli-, örorku-, slysa- eða endurhæfingarlífeyris og tekjutryggingar skal aldrei fara umfram 38,35% af tekjum. Komi samtímis til skerðingar þessara bóta skal lífeyrir fyrst skertur og samsvarandi dregið úr skerðingu tekjutryggingar. Ákvæði þessarar málsgreinar um skerðingu gilda ekki um heimilisuppbót skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.
Ef annað hjóna nýtur lífeyris og 2/ 3 tekna þess nema lægri fjárhæð en 446.736 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
Nú sinnir maður ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er þá heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar.
Heimilt er að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd þessarar greinar.
1)Rg. 808/1998, sbr. 691/2000 og 441/2001.
23. gr. Frestun á töku lífeyris.
Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 17. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 17., 20. og 22. gr.
Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.
Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.
C. Tekjur.
24. gr. Kostnaður vegna lífeyristrygginga almannatrygginga greiðist úr ríkissjóði, m.a. af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi.
25. gr. Tryggingastofnun ríkisins skal ár hvert haga áætlanagerð sinni vegna útgjalda lífeyristrygginga fyrir næsta almanaksár í samræmi við reglur fjárlagagerðar og senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til frekari meðferðar.
Árleg heildarútgjöld lífeyristrygginga skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.
26. gr. Framlag ríkissjóðs til lífeyristrygginganna skv. 24. og 25. gr. skal greitt Tryggingastofnuninni með jöfnum greiðslum í byrjun hvers mánaðar.
IV. kafli. Slysatryggingar.
A. Almenn ákvæði.
27. gr. Slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.
Maður telst vera við vinnu:
a. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.
b. Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa sem verða á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis vegna friðargæslustarfa.
Til slysa teljast sjúkdómar er stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar.
Ákveða skal með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir samkvæmt þessum kafla.
28. gr. Þegar að höndum ber slys, sem ætla má bótaskylt samkvæmt þessum kafla, skal atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi, sem Tryggingastofnunin skipar fyrir um, til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans (í Reykjavík til Tryggingastofnunarinnar). Lögreglustjóri sendir tilkynninguna til Tryggingastofnunarinnar ásamt nauðsynlegum upplýsingum. Hinum slasaða eða þeim öðrum, sem gera vilja kröfu til bóta vegna slyssins, ber að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt og geta þessir aðilar leitað aðstoðar lögreglustjóra ef atvinnurekandi vanrækir tilkynninguna. Ef atvik að slysinu eru óljós eða mál ekki nægilega upplýst eða ástæða til að ætla að slysið hafi orðið af hirðuleysi eða lélegum útbúnaði, svo og ef Tryggingastofnunin eða annar hvor aðila, atvinnurekandi eða hinn slasaði eða fyrirsvarsmaður hans óskar þess, skal lögreglustjóri rannsaka málið.
Ef sá sem átti að tilkynna slys hefur vanrækt það skal það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það er gert áður en ár er liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt er þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta. Ráðherra setur reglugerð 1) um nánari framkvæmd ákvæðisins.
1)Rg. 356/2005.
29. gr. Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru:
a. Launþegar sem starfa hér á landi að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslensku loftfari, eða skipi eða loftfari sem gert er út eða rekið af íslenskum aðilum, jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið, enda séu laun greidd hér á landi.
b. Nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar þegar þeir sinna verklegu námi.
c. Útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar.
d. Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.
e. Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði 1) má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.
f. Atvinnurekendur í landbúnaði sem vinna landbúnaðarstörf, makar þeirra og börn á aldrinum 13 til og með 17 ára.
g. Atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en um getur í f-lið.
Heimilt er að veita undanþágu frá slysatryggingu skv. a-lið 1. mgr. ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf.
Launþegi telst hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um er að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.
Maki atvinnurekanda og börn hans á aldrinum 13 til og með 17 ára, sbr. g-lið 1. mgr., teljast ekki launþegar samkvæmt þessari grein nema þau starfi við atvinnureksturinn og þiggi laun fyrir.
1)Rg. 245/2002.
30. gr. Þeir sem heimilisstörf stunda geta tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.
B. Bætur.
31. gr. Bætur slysatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.
32. gr. Nú veldur bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni í minnst 10 daga og skal þá greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum svo sem hér segir:
1. Að fullu skal greiða:
a. Læknishjálp sem samið hefur verið um skv. 44. gr.
b. Sjúkrahúsvist, svo lengi sem afleiðingar slyssins gera hana nauðsynlega. Greiðsla sjúkrahúsvistar færist þó yfir á sjúkratryggingarnar þegar hinn slasaði er orðinn 70 ára, enda séu þá full tvö ár frá slysdegi.
c. Lyf og umbúðir.
d. Viðgerð vegna brots eða löskunar á heilbrigðum tönnum eða vel viðgerðum. Greiðslu fyrir sams konar viðgerðir á lélegri tönnum má takmarka við kostnað sem ætla má að orðið hefði ef þær hefðu verið heilbrigðar.
e. Gervilimi eða svipað hjálpartæki, svo og viðgerð á þeim eða endurnýjun ef viðgerð telst ekki fullnægjandi. Sama gildir um gervitennur.
f. Sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl fyrst eftir slys eða þegar ella verður nauðsynlegt að senda sjúkling með slíkum farartækjum til meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi, þó ekki fyrir einstakar ferðir þegar um stundun er að ræða. Sama gildir um flutning með skipi þegar öðrum farartækjum verður ekki við komið.
g. Sjúkraþjálfun og orkulækningar.
2. Að hluta skal greiða:
a. Að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni. Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venslamanna hins slasaða.
b. Að 3/ 4 kostnað við sams konar ferðir með áætlunarbíl eða -skipi, enda sé um meira en 15 km vegalengd að ræða. Geti sjúklingur ekki ferðast með áætlunarbíl skal greiða ferð með áætlunarflugvél að 3/ 4 .
3. Heimilt er að greiða:
a. Hjúkrun í heimahúsum, veitta af vandalausum.
b. Styrk upp í kostnað vegna löskunar á tönnum þegar framkvæmdar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir á þeim sem ónýst hafa við slysið.
c. Ferðakostnað að 3/ 4 hlutum með áætlunarbíl eða strætisvagni eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagningar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.
Að svo miklu leyti sem samningar skv. 44. gr. ná ekki til sjúkrahjálpar samkvæmt framansögðu getur ráðherra ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti með reglugerð. 1)
Nú veldur slys ekki óvinnufærni í 10 daga, en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í grein þessari og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.
1)Rg. 541/2002, sbr. 46/2004.
33. gr. Dagpeningar greiðast frá og með 8. degi eftir að slysið varð, enda hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst 10 daga. Dagpeningar greiðast þangað til hinn slasaði verður vinnufær, úrskurður er felldur um varanlega örorku hans eða hann deyr, þó ekki lengur en 52 vikur.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur, einkum ef ekki er lokið lækningatilraunum og óvíst er hvort um varanlega örorku verður að ræða og líkur eru til að afstýra megi eða draga úr örorku með lengri bótagreiðslu.
Dagpeningar eru 1.184 kr. á dag fyrir hvern einstakling og 253 kr. fyrir hvert barn á framfæri, þar með talin börn utan heimilis sem hinn slasaði sannanlega greiðir með samkvæmt úrskurði stjórnvalds, staðfestu samkomulagi eða skilnaðarleyfisbréfi.
Greiðslur samkvæmt grein þessari mega ekki fara fram úr 3/ 4 af tekjum bótaþega, sbr. 16. gr., við þá atvinnu sem hann stundaði er slysið varð.
Nú greiðir vinnuveitandi hinum slasaða laun í slysaforföllum og renna þá dagpeningagreiðslur samkvæmt þessari grein til vinnuveitandans þann tíma, þó aldrei hærri greiðsla en sem nemur 3/ 4 hlutum launanna.
34. gr. Ef slys veldur varanlegri örorku skal greiða þeim er fyrir því varð örorkulífeyri eftir reglum 4. mgr. 18. gr. eða örorkubætur í einu lagi.
Ef örorkan er 50% eða meiri greiðist hálfur örorkulífeyrir fyrir 50% örorku, hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig sem við bætist uns örorkan nemur 75%, þá greiðist fullur lífeyrir. Skerðingarákvæði 5. mgr. 18. gr. skulu ekki taka til örorkulífeyris samkvæmt þessari grein.
Nú er örorkan metin meiri en 50% og skal þá auk örorkulífeyris greiða lífeyri vegna maka og barna yngri en 18 ára, sem voru á framfæri bótaþega þegar slys bar að höndum, eftir reglum b- og c-liða 1. mgr. 35. gr.
Ef örorkan er 75% eða meiri skal greiða fullar bætur og gildir það bæði vegna barna sem voru á framfæri bótaþega þegar slys átti sér stað, svo og þeirra sem hann framfærir síðar. Sé orkutapið minna en 75% lækka bæturnar um 4% fyrir hvert 1% sem vantar á 75% örorku.
Ef orkutap er minna en 50% er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilda lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglugerð 1) er ráðherra setur. Ella greiðist lífeyrir í hlutfalli við örorkuna.
Örorkubætur greiðast ekki ef orkutapið er metið minna en 10%.
1)Rg. 187/2005.
35. gr. Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því er það bar að höndum skal greiða dánarbætur sem hér segir:
a. Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hlýtur bætur, 27.429 kr. á mánuði í 8 ár frá dánardægri hins látna. Bætur samkvæmt þessum staflið falla ekki niður þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar á ný. Nú andast ekkja eða ekkill sem bóta hefur notið samkvæmt ákvæðum þessarar greinar áður en bætur hafa verið greiddar að fullu og skulu eftirstöðvar bótanna greiddar að jöfnu börnum hinna látnu eftir sömu reglum til loka tímabilsins ef á lífi eru, ella til dánarbús hans.
b. Barnalífeyri, 219.408 kr. á ári fyrir hvert barn, sbr. að öðru leyti 20. gr.
c. Barn eldra en 16 ára, sem var á framfæri hins látna vegna örorku þegar slysið bar að höndum, fær bætur, eigi minni en 342.775 kr. og allt að 1.028.326 kr., eftir því að hve miklu leyti það naut stuðnings hins látna við fráfall hans. Þó greiðast ekki bætur ef örorka er minni en 33%.
Bætur skv. a- og c-liðum 1. mgr. skulu eigi vera lægri en 479.890 kr. fyrir hvert slys. Nú lætur hinn látni ekki eftir sig aðstandendur sem rétt eiga til bóta samkvæmt þessum stafliðum og skal þá bæta slysið með 479.890 kr. sem skiptist að jöfnu milli barna hins látna ef á lífi eru, en ella til dánarbús hans.
Um fósturbörn og fósturforeldra gildir sama og um börn og foreldra.
Frá dánarbótum, sem greiddar eru vandamönnum, ber að draga þær örorkubætur er greiddar hafa verið í einu lagi skv. 5. mgr. 34. gr. vegna sama slyss.
C. Tekjur.
36. gr. Útgjöld slysatrygginga skulu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi og iðgjöldum skv. 3. mgr. Þá skal árlega ákveða í fjárlögum framlag sem standa skal undir kostnaði af bótum vegna þeirra sem um getur í e-lið 1. mgr. 29. gr.
Tryggingastofnun ríkisins skal ár hvert gera áætlun um bótagreiðslur og rekstrarkostnað slysatrygginga næsta almanaksár.
Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skulu vera 0,65% af samanlögðum launum og aflahlut sjómanna sem hjá þeim starfa hverju sinni. Iðgjöld þessi skulu ásamt dagpeningum skv. 6. mgr. 67. gr. standa undir greiðslu launa og/eða aflahlutar skv. 2. mgr. 67. gr. og rekstrarkostnaði slysatrygginga vegna framkvæmdar Tryggingastofnunar við tryggingu þessa. Iðgjöld þeirra sem heimilisstörf stunda skv. 30. gr. skulu ákveðin þannig að þau standi undir kostnaði við trygginguna og rekstrarkostnaði Tryggingastofnunar ríkisins vegna framkvæmdarinnar.
V. kafli. Sjúkratryggingar.
A. Almenn ákvæði.
37. gr. Sjúkratryggður er sá sem hefur verið búsettur á Íslandi, sbr. II. kafla, a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta skv. 1. mgr. 48. gr. er óskað úr sjúkratryggingum, sbr. 3. mgr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum fyrir þá sem flutt hafa búsetu sína til Íslands þótt sex mánaða búsetuskilyrðinu sé ekki fullnægt.
Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.
Sjúkratrygging samkvæmt lögum þessum tekur til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins.
Heimilt er að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd greinarinnar.
1)Rg. 463/1999.
B. Bætur.
38. gr. Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 37. gr., tekur til eftirfarandi styrkja:
a. Styrks til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
b. Styrks til nauðsynlegrar æfingameðferðar eða þjálfunar.
c. Styrks til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 42. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
d. Ferðastyrks til sjúklinga sem af nauðsyn leita læknishjálpar erlendis, svo og til fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á.
e. Styrks til kaupa á næringarefnum og sérfæði sem lífsnauðsynlegt er vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi.
f. Styrks vegna kostnaðar við meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, samkvæmt fyrirmælum læknis.
Sjúkratrygging tekur til kostnaðar vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.
Ráðherra setur reglugerð 1) um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir fram. Tryggingastofnun getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis, þjálfunar, næringarefnis eða sérfæðis.
1)Rg. 660/1998, sbr. 137/2002; rg. 752/2002, sbr. 109/2003, 462/2004 og 233/2007; rg. 827/2002, sbr. 904/2006; rg. 828/2002, rg. 460/2003, sbr. 972/2003, 944/2004, 62/2006 og 1091/2006; rg. 625/2003, sbr. 63/2006 og 378/2007; rg. 354/2005, sbr. 351/2007; rg. 576/2005, sbr. 350/2007 og 694/2007; rg. 146/2007.
39. gr. Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 37. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum, sbr. þó 40. og 44. gr. eða ákvæði sérlaga. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.
Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 37. gr., tekur til heilsugæsluþjónustu sem veitt er á vegum heilsugæslustöðva í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.
Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.
40. gr. Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á viðurkenndri læknismeðferð erlendis á sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp hér á landi og greiðir þá Tryggingastofnun ríkisins kostnað við meðferðina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis í tengslum við meðferðina.
Innan Tryggingastofnunar ríkisins skal skipa nefnd sem ákveður hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi og hvar sjúkratryggður skuli njóta meðferðar erlendis. Í nefndina skal skipa fjóra sérgreinalækna og aðra fjóra til vara sem hafa góða yfirsýn yfir þá heilbrigðisþjónustu sem í boði er á Íslandi. Auk þess á fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins sæti í nefnd þessari og skal hann vera formaður hennar. Nú velur sjúkratryggður meðferð á öðrum og dýrari stað erlendis en nefndin hefur ákveðið og greiðir Tryggingastofnun ríkisins þá aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað.
Í stað úrræðis sem getið er um í 1. mgr. og með sömu skilyrðum og þar greinir er nefndinni heimilt að ákveða að sérgreinalæknar sem starfa erlendis veiti sjúklingi meðferð á sjúkrahúsi hér á landi og greiðir stofnunin þá launa- og ferðakostnað sérfræðingsins.
Heimilt er að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd ákvæðisins.
1)Rg. 166/1985, sbr. 380/1989; rg. 703/2006.
41. gr. Til viðbótar því sem þegar er upptalið í 38.–40. gr. tekur sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 37. gr., til eftirfarandi, svo sem hér segir:
a. Almennrar læknishjálpar utan sjúkrahúsa sem samið hefur verið um skv. 44. gr. Um gjald sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun læknis fer samkvæmt gjaldskrá ráðherra, sbr. 2. mgr. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta.
b. Nauðsynlegra rannsókna og meðferðar hjá sérgreinalæknum eða stofnunum sem starfa samkvæmt samningum skv. 44. gr. Ráðherra hefur heimild til þess að ákveða að skilyrði fyrir greiðslu sjúkratrygginga skuli háð tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Fyrir hverja komu til sérgreinalæknis samkvæmt tilvísun greiði sjúklingur gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur, sbr. 2. mgr. Með reglugerð 1) skal sömuleiðis setja nánari reglur um notkun tilvísana, þar á meðal í hvaða tilvikum og með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins geti tekið þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérgreinalæknum þótt sjúklingur hafi ekki tilvísun.
c. Lyfja sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með gjaldskrá, sbr. 2. mgr. 2) Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það. Nefnd skv. 43. gr. lyfjalaga ákveður hvort sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu lyfja sem eru á markaði hér á landi.
d. Sjúkradagpeninga skv. 43. gr.
e. Aðstoðar ljósmóður við fæðingu í heimahúsum samkvæmt samningum skv. 44. gr. og að auki dagpeninga, jafnháa sjúkradagpeningum, í 10 daga frá því að fæðing hefst.
f. Tannlækninga skv. 42. gr.
g. Óhjákvæmilegs ferðakostnaðar læknis til þeirra sjúkratryggðu sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 100 kr. fyrir hverja ferð.
h. Óhjákvæmilegs flutningskostnaðar sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkratryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður hámarksgjald samkvæmt gjaldskrá er ráðherra setur. Sjúkraflutningur innan bæjar greiðist þó ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km. Sömu reglur skulu gilda um flutning sjúks manns frá sjúkrahúsi til heimilis eða dvalarstaðar, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Sé fylgd nauðsynleg greiðist 7/ 8 af fargjaldi fylgdarmanns, jafnvel þó að um áætlunarferð sé að ræða. Sé nauðsyn á fylgd heilbrigðisstarfsmanns skal greiða fargjald hans og þóknun, ef við á, samkvæmt reglugerð er ráðherra setur. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.
i. Óhjákvæmilegs ferðakostnaðar með takmörkunum og eftir ákvæðum reglugerðar 3) sem ráðherra setur fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar.
Heimilt er með takmörkunum og eftir ákvæðum reglugerðar 4) sem ráðherra setur að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris við sjúkrahúsinnlögn barns yngra en 18 ára fjarri heimili. Ef um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns undir 18 ára aldri.
j. Hjúkrunar í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum skv. 44. gr.
Heimilt er að breyta greiðslum sjúkratryggðra einstaklinga samkvæmt þessari grein með reglugerð 5) og ákveða hámark eininga í lyfjaávísunum. Sjúkratryggðir einstaklingar skulu greiða gjald fyrir þjónustu skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur. Um greiðslur fyrir tannlæknaþjónustu fer samkvæmt ákvæðum 42. gr. Heimilt er að ákveða að gjald skv. a-, b-, c-, d-, g-, h- og i-liðum 1. mgr. og 3. mgr. skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess sem sjúkratryggðum einstaklingi ber að greiða.
Með reglugerð 6) er einnig heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein og 42. gr. Jafnframt er ráðherra heimilt í reglugerð að ákveða að veita skuli hjálp við nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir skv. b-lið 1. mgr. hjá öðrum sérfræðingum á heilbrigðissviði en sérgreinalæknum.
1)Rg. 471/2001, rg. 241/2006, sbr. 1119/2006 og 586/2007. 2)Rg. 458/2005, sbr. 409/2006. 3)Rg. 871/2004, sbr. 327/2007. 4) Rgl. 457/2000. 5)Rg. 1090/2006, sbr. 290/2007. 6)Rg. 576/2005, sbr. 350/2007 og 694/2007.
42. gr. Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 37. gr., greiðir fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, samkvæmt samningum, sbr. 44. gr. Takist ekki samningar skv. 44. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra.
Sjúkratryggingar taka eingöngu þátt í greiðslum skv. 1. mgr. vegna tannlæknaþjónustu aldraðra, öryrkja, barna og unglinga yngri en 18 ára og skal ráðherra setja reglugerð 1) um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.
Reikningi fyrir tannlæknaþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.
1)Rg. 576/2005, sbr. 350/2007 og 694/2007.
43. gr. Sjúkratryggingar greiða sjúkradagpeninga ef sjúkratryggður, sem orðinn er 16 ára og nýtur ekki elli- og örorkulífeyris, verður algerlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.
Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Þó er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur ef ljóst er að sjúklingurinn verður innan skamms annaðhvort vinnufær eða að unnt verður að ákveða örorku hans, tímabundið eða til bráðabirgða. Dagpeningar, sem nema minna en fullum sjúkradagpeningum, sbr. 4. og 5. mgr., skulu að jafnaði ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
Sjúkratryggðir njóta sjúkradagpeninga frá og með 15. veikindadegi séu þeir óvinnufærir a.m.k. í 21 dag. Upphaf biðtímans miðast við þann dag er óvinnufærni er staðfest af lækni.
Fullir dagpeningar skulu nema 966 kr. fyrir einstakling og 264 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 18 ára, þar með talin börn utan heimilis sem umsækjandi sannanlega greiðir með samkvæmt úrskurði stjórnvalds, staðfestu samkomulagi eða skilnaðarleyfisbréfi.
Fullra dagpeninga njóta þeir sem fella niður heils dags launaða vinnu. Hálfra dagpeninga njóta þeir sem fella niður launaða vinnu sem nemur minna en heils dags vinnu en a.m.k. hálfs dags starfi. Sé felld niður launuð vinna sem nemur minna en hálfs dags starfi greiðast dagpeningar er nema 3/ 4 misstra launatekna, allt að hálfum dagpeningum. Launuð vinna merkir í grein þessari alla vinnu að beinni tekjuöflun, jafnt atvinnurekenda sem launþega.
Dagpeningar vegna starfa við eigið heimili, sem falla að fullu niður vegna veikinda, skulu nema helmingi fullra dagpeninga, að viðbættum 1/ 2 hluta sannaðrar greiðslu fyrir heimilishjálp til fólks utan heimilis umfram heimilishjálp 1/ 2 dag í viku, allt að fullum dagpeningum. Slík útgjöld skulu sönnuð með skýrum kvittuðum reikningum er tilgreini vinnutíma, greidd laun og kennitölu viðtakanda. Útgjöld umfram dagvinnukaup samkvæmt taxta hlutaðeigandi stéttarfélags teljast ekki með. Umsækjandi, sem nýtur dagpeninga vegna niðurfelldrar launavinnu, fær ekki helming dagpeninga vegna niðurfalls heimilisstarfa en aftur á móti viðbót vegna útgjalda samkvæmt framanskráðu.
Það skal ekki tálma greiðslu hálfra eða fullra dagpeninga vegna niðurfalls launaðrar vinnu skv. 5. mgr. þótt umsækjandi geti sinnt léttu heimilisstarfi.
Nú tekur sjúklingur, sem unnið hefur heils dags launavinnu, upp allt að hálfs dags launað starf í afturbata og er þá heimilt að greiða honum hálfa dagpeninga meðan svo stendur, þó ekki lengur en í þrjá mánuði.
Við ákvörðun dagpeninga skal að jafnaði við það miða hvernig störfum umsækjanda hefur verið háttað síðustu tvo mánuðina áður en hann varð óvinnufær. Námsfólk á ekki rétt til dagpeninga vegna forfalla frá námi, nema að því leyti sem forföllin valda töfum á að námsáfangi náist.
Dagpeningar eru ekki greiddir þeim sem í verkfalli á, nema hann hafi átt rétt til dagpeninga áður en verkfall hófst.
44. gr. Ráðherra skipar samninganefnd, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem gerir samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt. Um greiðslur Tryggingastofnunar til heilbrigðisstarfsmanna, stofnana eða fyrirtækja fer samkvæmt þeim samningum. Tryggingastofnun ríkisins skal þó semja um þjónustu sem tilgreind er í 46. gr.
Ráðherra skal ákveða daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum með reglugerð. 1) Ráðherra skal áður en daggjöld eru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Daggjöld hjúkrunarheimila og daggjöld vegna hjúkrunarrýma skulu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd. Samanlagðar tekjur stofnunar skulu standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerðum með stoð í þeim lögum. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd mats á hjúkrunarþyngd.
1)Rg. 1092/2006.
45. gr. Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því eins og um læknishjálp innan lands væri að ræða. Þetta nær þó ekki til þeirra sem samkvæmt milliríkjasamningum öðlast rétt til sjúkrahjálpar í öðru landi vegna dvalar þar að því er varðar þá sjúkrahjálp sem samningarnir fjalla um.
Ráðherra setur reglugerð 1) um að hvaða marki Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að endurgreiða manni kostnað, vegna veikinda eða slyss erlendis, sem hann fengi ella ekki endurgreiddan frá stofnuninni.
Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis í aðildarríki EES-samningsins og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því samkvæmt reglum EES-samningsins á sviði almannatrygginga.
Sjúkratryggingar skulu einnig greiða þann kostnað sem hlýst af því að sjúkratryggðum sé nauðsyn á að leita sér lækninga þegar hann er staddur í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
1) Rgl. 281/2003.
46. gr. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þjónustu sem henni ber að veita og fellur ekki undir verksvið samninganefndar skv. 1. mgr. 44. gr. laganna. Tryggingastofnun ber að leita bestu mögulegra kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu sem hún greiðir eða tekur þátt í að greiða samkvæmt lögum þessum. Samninga má gera í framhaldi af útboði og ákveður stofnunin hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur stofnunin ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.
Um samninga stofnunarinnar um afmörkuð rekstrarverkefni fer samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins.
C. Tekjur.
47. gr. Kostnaður við sjúkratryggingu, sbr. 3. mgr. 37. gr., greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögum þessum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.
Framlag ríkissjóðs til þess hluta sjúkratryggingar sem Tryggingastofnun ríkisins annast greiðist Tryggingastofnun ríkisins með reglulegum greiðslum í hverjum mánuði.
VI. kafli. Sameiginleg ákvæði.
A. Bætur.
48. gr. Bætur samkvæmt lögum þessum teljast bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt.
Enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum. Saman mega þó fara:
a. Bætur til ekkju eða ekkils skv. a-lið 1. mgr. 35. gr. og allar aðrar bætur.
b. Barnalífeyrir og dagpeningar.
c. Slysadagpeningar og ellilífeyrir.
d. Aðrar bætur ef svo er fyrir mælt í lögunum.
Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni sem ekki geta farið saman má hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Nú nýtur umsækjandi um dagpeninga annarra lægri bóta sem veittar eru til langs tíma og skulu þá dagpeningar nema mismuninum.
Sjúkrakostnað slysatrygginga vegna manns, sem einnig er sjúkratryggður, greiða sjúkratryggingar gegn endurgreiðslu frá slysatryggingum.
Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 16. gr.
Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða dvalarheimili fyrir aldraða, sem ekki er á föstum fjárlögum, vistunarframlag allt að því sem á vantar dvalarkostnað í samræmi við lög um málefni aldraðra. Vistunarframlag skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur dvalarkostnaði vistmanns á dvalarheimili aldraðra eins og hann er ákveðinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hverju sinni, sbr. 44. gr.
Sjúkrahús og stofnanir skv. 5. og 6. mgr. skulu senda Tryggingastofnun mánaðarlega upplýsingar um vistun.
Þegar lífeyrir og bætur honum tengdar falla niður skv. 5. mgr. er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega sem dvelst á sjúkrahúsi hér á landi vasapeninga allt að 28.591 kr. á mánuði. Tekjur umfram 9.443 kr. á mánuði skerða vasapeninga um 65% þeirra tekna sem umfram eru. Vasapeningar falla þó alveg niður við tekjur sem nema 641.146 kr. á ári. Með tekjum er átt við tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. og um tekjuútreikning fer samkvæmt sömu grein. Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana svo framarlega sem þær fara ekki yfir 680.350 kr. á ári og sama gildir um tekjur í formi hlunninda og annarra greiðslna en peninga. Tekjur vegna vinnu á stofnun, sbr. 5. málsl. þessarar málsgreinar, umfram 680.350 kr. á ári skerða vasapeninga í samræmi við skerðingarhlutfall 2. málsl.
Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en 1.931 kr. á dag þann tíma.
Heimilt er að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd ákvæðis þessa.
1)Rg. 213/1991, sbr. 321/1991, 204/1999 og 110/2000; rgl. 174/2000, rg. 357/2005.
49. gr. Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt einstaklinga af sama kyni í sambúð. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.
Slíkt sambúðarfólk öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðaraðila slysabætur.
Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.
50. gr. Tryggingastofnunin getur greitt öðrum en bótaþega eða framfærslumanni bætur ef ástæða er til að ætla að bæturnar séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna. Slíkar ráðstafanir skulu þó að jafnaði bornar undir hlutaðeigandi sveitarstjórn eða barnaverndarnefnd ef um er að ræða barnalífeyri.
51. gr. Bætur, sem ætlaðar eru bótaþegum sjálfum, greiðast ekki ef hlutaðeigandi vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.
52. gr. Sækja skal um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, svo og greiðslur skv. 63. gr. Þó getur Tryggingastofnun ríkisins ákveðið að ekki þurfi að sækja um tilteknar bætur skv. 38., 39., 41. og 42. gr. Örorkulífeyrisþegar þurfa þó ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 17. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri. Umsóknir um bætur skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar ríkisins eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Þegar um hjón er að ræða er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu skriflegu samþykki beggja, að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er á þennan hátt skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Telji umsækjandi, bótaþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Ef gefnar eru rangar upplýsingar skal beita ákvæðum 55. gr.
Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, bótaþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur og skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar.
Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboða hennar er skylt að gæta þagmælsku um atriði er það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum tannlæknum, Tryggingastofnunar ríkisins þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar, eða tannlæknum þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um réttindi sjúklinga eftir því sem við á.
53. gr. Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna. Bætur skv. III. kafla, aðrar en lífeyrir skv. IV. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
Bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Sjúkradagpeningar skulu að jafnaði eigi ákvarðaðir lengra aftur í tímann en tvo mánuði, en heimilt er Tryggingastofnun ríkisins að lengja þetta tímabil í allt að sex mánuði í tilvikum þar sem bótaréttur er að öðru leyti ótvíræður.
Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa.
54. gr. Bætur skal greiða fyrsta dag hvers mánaðar. Þó má greiða sjúkrabætur og dagpeninga fyrir styttri tíma.
Ákvarðaðar bætur falla niður ef þær eru ekki sóttar innan 12 mánaða, en ákvarða má bætur á ný ef rökstudd umsókn berst.
Tryggingastofnun ríkisins gefur út örorkuskírteini til þeirra sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 18. gr. og eru jafnframt sjúkratryggðir hér á landi.
55. gr. Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.
Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna, sbr. 52. gr.
Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.
Hafi Tryggingastofnun ríkisins vangreitt bótaþega bætur skal stofnunin greiða honum það sem upp á vantar. Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna eru uppfyllt, sbr. þó 53. gr. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 7. gr., leiðir til þess að einstaklingur á rétt á bótum en hafði fengið synjun eða lægri bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 53. gr. Ef bætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum, sbr. 3. mgr. 52. gr., falla vextir niður.
Þegar greiðsla skv. 1. mgr. stafar af sviksamlegu atferli bótaþega skal hann greiða dráttarvexti á þá bótafjárhæð og reiknast þeir frá þeim tíma sem endurkröfuréttur stofnast.
Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, t.d. um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna.
56. gr. Ef bótaþegi er dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á einhverri stofnun skulu falla niður allar bætur til hans eftir fjögurra mánaða samfellda fangelsisvist eða dvöl. Þegar bætur hafa verið felldar niður er heimilt að greiða fanga vasapeninga í samræmi við 8. mgr. 48. gr. Fangar skulu njóta sjúkratrygginga, annarra en sjúkradagpeninga, samkvæmt almennum reglum sem um þær gilda.
Tryggingastofnunin getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta af þeim, maka hans og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni.
57. gr. Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám né halda bótafé til greiðslu opinberra gjalda, annarra en iðgjalda samkvæmt lögum þessum.
58. gr. Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi. 1)
Tryggingastofnun ríkisins greiðir kostnað samkvæmt milliríkjasamningum af sjúkrahjálp við erlenda ríkisborgara sem dveljast hér á landi um stundarsakir. 1)
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð 2) ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.
1)Rg. 1076/2006. 2)Rg. 463/1999.
B. Um iðgjöld, innheimtu o.fl.
59. gr. Iðgjöld skv. 36. gr. skal skattstjóri leggja á með tekjuskatti og færa þau á skattskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og skulu ákvæði 99. gr. þeirra laga og ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, gilda um iðgjöld eftir því sem við á.
Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, skulu eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu iðgjalds útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna. Að tekjuári liðnu skal fara fram endanleg ákvörðun iðgjaldsins í samræmi við launaframtal og skal iðgjaldið sérgreint í álagningarskrá og skattskrá. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila og skal eftir atvikum leita staðfestingar á iðgjaldi útgerðaraðila þegar greiðsluskylda Tryggingastofnunar ríkisins er ákvörðuð.
Gjalddagar iðgjalda skulu ákveðnir í reglugerð.
60. gr. Iðgjöld til slysatrygginga skulu innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarsjóða eða sérstökum innheimtustofnunum. Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar á meðal um dráttarvexti og fjárnámsrétt, gilda um innheimtu iðgjalda.
61. gr. Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skv. 36. gr. skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.
C. Önnur ákvæði.
62. gr. Ráðherra er heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki um að þau taki í vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur almannatrygginga. Skerðing bóta á starfstímabilinu fer eftir almennum skerðingarreglum á hverjum tíma. Í reglugerð 1) skal kveða nánar á um öryrkjavinnu þessa.
1)Rg. 159/1995.
63. gr. Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.
Á sama hátt skal barnsmóðir fá samkvæmt stjórnvaldsúrskurði eða staðfestu samkomulagi greitt hjá Tryggingastofnun ríkisins:
a. Framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga.
b. Hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 25. gr. barnalaga.
c. Kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 26. gr. barnalaga.
Þegar eftir að sýslumaður hefur veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður getur hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. þessara laga setur.
Tryggingastofnuninni er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.
Þeir sem annast framfærslu barns að foreldri látnu eða af öðrum lögmætum ástæðum, þar með talin sveitarstjórn í framfærslusveit barnsins hafi hún greitt fé til framfærslu þess, eiga sama rétt og foreldri eftir því sem við getur átt.
Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.
64. gr. Tryggingastofnunin skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga innan eins mánaðar tilkynningu um fyrstu greiðslu skv. 63. gr. Tilkynningunni skal fylgja afrit af yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi.
Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir Tryggingastofnuninni greiðslur skv. 1.–3. mgr. 63. gr. mánaðarlega eftir því sem innheimtist. Um skil vegna óinnheimtra skulda fer eftir ákvæðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins meðlög vegna barnsfeðra sem framfærslurétt eiga erlendis, svo og meðlög greidd skv. 4. mgr. 63. gr. þar til meðlagsúrskurður liggur fyrir.
Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.
65. gr. Tryggingastofnunin getur tekið að sér að annast reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir einstaka lífeyrissjóði.
66. gr. Heimilt er Tryggingastofnuninni að taka að sér frjálsar slysatryggingar. Skal þá jafnan gefa út vátryggingarskírteini. Enn fremur getur stofnunin með samþykki ráðherra tekið að sér ábyrgðartryggingar.
Ráðherra ákveður með reglugerð nánari tilhögun á tryggingum samkvæmt þessari grein, þar á meðal að hve miklu leyti skuli endurtryggja þá áhættu sem Tryggingastofnunin tekur á sig.
67. gr. Útgerðarmenn fiskiskipa skulu tryggja áhættu vegna bótaskyldra slysa, sbr. IV. kafla laga þessara og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingastofnun greiðir útgerðarmönnum fjárhæð sem svarar til fullra launa og/eða aflahlutar sjómanna í allt að tvo mánuði.
Útgerðarmenn skulu greiða iðgjald skv. 36. gr.
Útgerðarmenn sem þess óska geta sagt upp tryggingu, sbr. 1. mgr., fyrir 1. nóvember ár hvert vegna næsta árs á eftir. Tilkynning um uppsögn skal berast Tryggingastofnun. Eftir að uppsögn hefur öðlast gildi eiga útgerðarmenn ekki rétt á greiðslum vegna launa eða aflahlutar í forföllum vegna slysa en njóta slysatrygginga almennra launþega.
Halda skal tryggingum samkvæmt þessari grein reikningslega aðskildum frá annarri starfsemi Tryggingastofnunar.
Dagpeningar skv. 33. og 43. gr. skulu renna til Tryggingastofnunar þann tíma sem greiðslur launa og aflahlutar eiga sér stað.
68. gr. Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 17. og 58. gr.
Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 63. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.
69. gr. Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
70. gr. Ráðherra er heimilt í reglugerð 1) að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir 2) almannatryggingareglur Evrópusambandsins með aðlögun vegna EES-samningsins og almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
1)Rg. 213/1991, sbr. 321/1991, 204/1999 og 110/2000; rgl. 374/1996, rg. 660/1998, sbr. 137/2002; rg. 808/1998, sbr. 691/2000 og 441/2001; rg. 379/1999, rg. 463/1999, rg. 471/2001, rg. 245/2002, rg. 939/2003, sbr. 860/2004, 916/2005, 1063/2005, 917/2006 og 696/2007; rg. 280/2005, rg. 576/2005, sbr. 350/2007 og 694/2007; rg. 1076/2006. 2) Augl. 550/1993, 367/1994 og 291/1997, sbr. rg. 587/2000, 588/2000 og 811/2000; rg. 847/2001; rg. 507/2002, rg. 356/2003, rg. 777/2004, sbr. 819/2004; rg. 11/2006, rg. 463/2007, rg. 790/2007.
Ákvæði til bráðabirgða.
1. Þeir sem ákveðið hafa frestun ellilífeyris fyrir 1. janúar 1992, sbr. 11. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, skulu halda rétti sínum. Tryggingastofnun ríkisins skal breyta fjárhæðum vegna frestunarinnar til samræmis við breytingar sem verða á fjárhæðum almannatrygginga hverju sinni. Nú andast maður, sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur, fyrir 1. janúar 1992 og lætur eftir sig maka á lífi og skal þá hinn eftirlifandi maki til viðbótar eigin lífeyri eiga rétt á þeirri hækkun sem hinn látni átti rétt á vegna frestunar.
2. Ákvæði 1. gr. laga nr. 62/1999 gilda um þá einstaklinga sem metnir eru til örorku í fyrsta sinn eftir gildistöku þeirra en ekki um þá sem metnir höfðu verið til örorku samkvæmt ákvæðum eldri laga, nema þeir sæki sérstaklega um það.
3. Sjúklingar sem áttu rétt til bóta skv. f-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 fyrir 1. janúar 2001 skulu halda rétti sínum skv. III. kafla þeirra laga.
4. Í ákvæðum 3. málsl. b-liðar og d-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skulu hlutföllin 75% og 25% vera 65% og 35% á árinu 2007.
5. Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skulu lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans hafa 20% vægi við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar á árinu 2007.
6. Þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 22. gr. laganna skal skerðingarhlutfallið vera 39,95% á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2007.
7. Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu elli- og örorkulífeyrir og tekjutrygging skv. 17., 18. og 22. gr. laganna hækka um 2,9% á árinu 2007 í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara frá 19. júlí 2006.
8. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 er hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal stofnunin greiða hærri bæturnar á því tímabili.